Hæstiréttur íslands

Mál nr. 521/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 3

 

Mánudaginn 3. janúar 2005.

Nr. 521/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. desember 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. janúar 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. desember 2004.

                Ríkissaksóknari krefst þess að ákærða, X, nú gæsluvarðhaldsfanga í fangelsinu að Litla Hrauni, verði með dóms­úrskurði gert að sæta gæsluvarð­haldi áfram frá kl. 16:00 fimmtudaginn 30. þ.m. þar til dómur verður uppkveðinn í máli hans, en þó aldrei lengur en til fimmtudagsins 20. janúar 2005, kl. 16:00. Kröfunni til stuðnings er vísað til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opin­berra mála.

                Ákærði mótmælir gæsluvarðhaldskröfunni.

                Ákærða var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi með úrskurði þessa dóms þann 26. nóvember sl. til dagsins í dag kl. 16:00 með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

I.

Aðalmeðferð í máli gegn ákærða, þar sem hann er m.a. ákærður  fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa þriðjudagskvöldið 31. ágúst 2004, á veitingastaðnum [...] slegið X nokkrum sinnum í höfuðið með öxi, með þeim afleiðingum að hann hlaut tvö skurðsár á enni, tvö brot inn í ennisholu og særðist á innanverðu vinstra læri og marðist á handarbaki, hefur farið fyrir héraðsdómi og var málið dómtekið 8. þ.m. Dómur hefur enn ekki verið kveðinn upp í málinu.

Með vísan til fyrri úrskurða og framangreinds og þess að ætluð brot ákærða geta varðað allt að 16 ára eða jafnvel ævilöngu fangelsi samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, teljist sök sönnuð, þykir nauðsyn bera til, með tilliti til almannahagsmuna, að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til máli hans er lokið. Samkvæmt því og með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, er fallist á kröfu ríkissaksóknara og skal ákærði því sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur verður kveðinn upp í máli hans, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 20. janúar 2005 kl. 16:00.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp dóminn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 20. janúar 2005 kl. 16:00.