Hæstiréttur íslands

Mál nr. 701/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Erfðaskrá
  • Eignarréttur


                                     

Föstudaginn 3. maí 2013.

Nr. 701/2012.

Kristrún Ólöf Jónsdóttir

Þorsteinn Hjaltested

Vilborg Björk Hjaltested

Marteinn Þ. Hjaltested og

Sigurður Kristján Magnússon Hjaltested

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

gegn

Sigurði Kristjáni Sigurðssyni Hjaltested

Karli Lárusi Hjaltested

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Sigríði Hjaltested

Markúsi Ívari Hjaltested

(Valgeir Kristinsson hrl.)

Hansínu Sesselju Gísladóttur

Finnborgu Bettý Gísladóttur

Guðmundi Gíslasyni

Margréti Margrétardóttur

Gísla Finnssyni

Elísu Finnsdóttur og

Kristjáni Þór Finnssyni

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Erfðaskrá. Eignarréttur. 

K o.fl. kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu S o.fl. um að jörðin V skyldi vera meðal eigna við skipti á dánarbúi SH, sem lést árið 1966. Upphaf málsins mátti rekja til erfðaskrár ME frá árinu 1938 en með henni arfleiddi ME, SH, jörðina V með nánari skilyrðum. Samkvæmt ákvæðum hennar skyldi jörðin að SH látnum ganga að erfðum til elsta sonar hans og svo til niðja SH í beinan karllegg. Við andlát SH gerði ekkja hans tilkall til jarðarinnar en með úrskurði skiptaréttar, 24. júní 1967 og ákvörðun 7. maí 1968, sem Hæstiréttur staðfesti með dómum í málum nr. 110/1967 og 99/1968, var elsta syni SH, MH, áskilinn réttur eftir föður sinn til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina V og honum afhent jörðin til umráða og afnota samkvæmt þeim réttindum sem honum voru áskilin sem erfingja samkvæmt erfðaskránni. MH lést árið 1999 og tók elsti sonur hans, ÞH, við jörðinni í samræmi við ákvæði erfðaskrárinnar með skiptayfirlýsingu 21. nóvember 2000. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 375/2011 var fallist á það með lögerfingjum SH að opinberum skiptum á dánarbúi SH hefði aldrei verið lokið og lagt fyrir héraðsdóm að skipa skiptastjóra til að ljúka skiptum. Í málinu héldu S o.fl., lögerfingjar SH, því fram að SH hefði í raun eignast jörðina með áðurnefndri erfðaskrá ME árið 1938 en elsti sonur SH, MH, hefði aðeins tekið við umráðum og afnotum jarðarinnar með ákvörðuninni 7. maí 1968. Þau umráð og afnot hafi hins vegar ekki falið í sér beinan eignarrétt eða bein eignarráð yfir jörðinni heldur óbein eignarréttindi. Bein eignarráð yfir jörðinni hefðu því aldrei flust frá dánarbúinu og væru því enn á hendi þess. Í dómi Hæstaréttar kom fram að dánarbúið væri enn til opinberra skipta þótt liðið væri á fimmta áratug frá upphafi þeirra, en um frekari framkvæmd þeirra giltu nú ákvæði laga nr. 20/1991, sbr. 3. mgr. 148. gr. og 150. gr. þeirra. Þá yrði málatilbúnaður aðilanna skilinn svo að ekki væri deilt um að beinn eignarréttur að jörðinni hefði færst fyrir arf í hendur SH, þótt sá réttur hafi eftir nánari ákvæðum erfðaskrárinnar verið háður margvíslegum kvöðum. Í málinu væri ekki til úrlausnar hvort skilyrði hafi verið eða væru til að þessi beini eignarréttur yrði færður eftir lát SH til MH, heldur hvort það hafi í raun þegar verið gert við opinberu skiptin á dánarbúi SH þannig að sá réttur væri ekki lengur á hendi búsins. Talið var að fyrirliggjandi gögn í málinu stæðu ekki til þess að álykta að MH hefði öðlast beinan eignarrétt að jörðinni V með ákvörðun skiptaráðanda 7. maí 1968, sem Hæstiréttur hafði staðfest með dómi í máli nr. 99/1968. Þá hafði því ekki verið borið við í málinu að MH hefði á annan hátt tekið við slíkum rétti að jörðinni af dánarbúinu og yrði því til samræmis að telja það enn hafa á sinni hendi þann rétt, sem ráðstafa yrði til að ljúka skiptum lögum samkvæmt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. nóvember 2012, þar sem kveðið var á um að jörðin Vatnsendi í Kópavogi skyldi teljast meðal eigna dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem lést 13. nóvember 1966. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að jörðin verði ekki talin til eigna dánarbúsins. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 29. apríl 2013.

I

Magnús Einarsson Hjaltested, sem eignaðist jörðina Vatnsenda á árinu 1914, gerði 4. janúar 1938 svohljóðandi erfðaskrá:

„Ég undirritaður Magnús Einarsson Hjaltested fyr úrsmiður í Reykjavík, en nú bóndi á Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, sem ekki á neitt afkvæmi, lýsi hérmeð yfir því, sem síðasta vilja mínum, að með eignir mínar lausar og fastar – allar undantekningarlaust – skal fara á þann hátt, er hér eftir segir, að mér látnum.

1.    gr. Allar eignir mínar – fastar og lausar – skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, með þeim nánari takmörkunum og skilyrðum er nú skal greina.

  a/-   Hann má ekki selja fasteign þá er ég nú á – Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi – er hann fær að erfðum með þessari arfleiðsluskrá, né heldur veðsetja hana fyrir meiru en sem nemur 50% af fasteignamati jarðarinnar og þó aðeins til greiðslu erfðafjárskatts ef með þarf, eða nauðsynlegra, varanlegra endurbóta á húsum jarðarinnar eða henni sjálfri.

  b/-   Hann skal búa á eigninni sjálfur sbr. þó það er síðar segir um föður hans undir tölulið 2.

  c/-   Arftaki má selja á leigu lóðir undir hús, leikvelli eða annað, úr óræktuðu landi jarðarinnar, gegn árlegu afgjaldi er hæfilegt þykir á hverjum tíma, og skulu þær leigur goldnar á tilteknum gjalddaga til ábúenda hver sem hann verður, og má ekki veðsetja þær neinum fremur en jörðina, fyr en þær eru greiddar ábúenda.

2. gr. Meðan Lárus Hjaltested faðir Sigurðar lifir, má hann búa endurgjaldslaust á fyrnefndri jarðeign, að öðru en því, að hann svarar til vaxta og afborgana af skuldum þeim, er á eigninni hvíla.

          Allar bætur fyrir landspjöll, sem þegar eru orðin eða kunna að verða á jörðinni, af annara völdum, og jörðinni ber, hefir Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi rétt, til að krefja um og semja um, með lögsókn ef með þarf, sem tilheirandi jörðinni að mér látnum, ef ekki hefir verið fullkomlega um það samið áður.

          Sömuleiðis hefir Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi allan rétt þann, er um ræðir í gr. 1 tölulið c/-.

3. gr. Að Sigurði látnum gengur jarðeignin að erfðum til elsta sonar hans, og svo til hans niðja í beinan karllegg, og sé sá leggur útdauður, þá til næstelsta sonar Sigurðar og hans niðja í beinan karllegg o.s.fr. Koll af kolli, þannig að ávalt fær aðeins einn maður allan arfinn, sá elsti í þeim legg, er að réttu ber arfinn samkvæmt því er nú hefir sagt verið.

          Sé enginn erfingi réttborinn til arfs frá Sigurði á lífi samkvæmt framanskráðu, þá gengur arfurinn til Georgs Péturs Hjaltested næst elsta sonar Lárusar, og hans niðja í beinan karllegg, eftir sömu reglum.

          Sé enginn til í legg Péturs, sem uppfylli skilyrðin, þá skal arfurinn ganga til Jóns Einars Hjaltested sonar Lárusar og niðja hans í beinan karllegg, eftir sömu reglum og svona koll af kolli, meðan til er eitthvert afkvæmi í karllegg frá Lárusi Hjaltested, sem uppfylli erfðaskilyrði þau er margnefnd eru.

4. gr. Skildi einhver erfingjanna hætta búskap á Vatnsenda, missir hann rétt sinn samkvæmt erfðaskrá þessari, og sá sem næstur er í röðinni tekur við.

5. gr. Ef viðkomandi erfingi er ómyndugur skal fjárhaldsmaður hans ráðstafa ábúðinni þar til hann er myndugur.

6. gr. Sérhver erfingi, sem fær erfðarétt samkvæmt þessum arfleiðslugjörningi, er skyldugur til þess, að halda öll þau skilyrði, sem Sigurði eru sett með honum og gæta þeirra takmarkana, er samningurinn hefir inni að halda.

          Vanrækji einhver það, varðar það tafarlaust réttinda missi fyrir hlutaðeigandi.

7. gr. Ef afkvæmi Lárusar Hjaltested í karllegg deyr út, skal taka eignir þær er að framan getur og selja þær, og af andvirði stofna sjóð er beri nafnið: Styrktarsjóður Magnúsar Einarssonar Hjaltested á Vatnsenda. Sjóður þessi ávaxtist í ríkisskuldabréfum, bankavaxta bréfum – er beri það með sér, að þau tilheyri sjóðnum – eða sparisjóði Landsbankans. ¾ hlutar vaxta útborgist árlega, sem styrktarfé, en ¼ hluti leggist við sjóðinn honum til aukningar. Tilgangur sjóðsins skal vera sá, að styrkja ungmenni af ættlegg Lárusar Hjaltested til framhaldsmentunar hvenær sem er.

          Skipulagsskrá viðvíkjandi sjóði þessum, ef til kemur, fel ég Stjórnarráði Íslands að semja, með þessum skilyrðum er nú voru nefnd.

Arfleiðslugjörningi þessum skal þinglýsa á varnarþingi jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, og hann hvíla sem ævarandi kvöð á þeirri eign.

Til staðfestu framanritaðri arfleiðsluskrá í öllum greinum, hefi ég undirritað hana í viðurvist tveggja sérstaklega tilkvaddra vitundarvotta.“

Neðan við undirskrift Magnúsar Einarssonar Hjaltested var arfleiðsluvottorð, sem tveir menn undirrituðu sama dag. Þar á eftir var síðan færð á erfðaskrána svohljóðandi yfirlýsing Magnúsar 29. október 1940: „Framan-ritaður arfleiðslugjörningur stendur óhaggaður að öllu leiti.“ Vottur að þessari yfirlýsingu tók fram við nafnritun sína að Magnús væri staddur á tilteknu sjúkrahúsi í Reykjavík og „með fullu ráði og rænu og óskerta vitsmuni.“

Magnús Einarsson Hjaltested mun hafa látist 31. október 1940 og Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested, sem var fæddur 11. júní 1916, tekið arf í samræmi við framangreinda erfðaskrá. Henni virðist hafa verið þinglýst 9. janúar 1941 sem eignarheimild Sigurðar að jörðinni Vatnsenda. Sigurður lést 13. nóvember 1966 og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta 25. febrúar 1967. Til arfs eftir hann stóðu eftirlifandi maki, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, tveir sameiginlegir synir þeirra, varnaraðilarnir Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested, og þrjú börn hans úr fyrri hjúskap, Magnús Sigurðsson Hjaltested og varnaraðilarnir Sigríður Hjaltested og Markús Ívar Hjaltested. Magnús Sigurðsson Hjaltested, sem var fæddur 28. mars 1941, var elstur barna þess látna.

Við opinberu skiptin á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested reis ágreiningur um ráðstöfun Vatnsenda og var rekið mál fyrir dómi til að leysa úr honum. Þar krafðist Magnús Sigurðsson Hjaltested þess að fyrrnefnd erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested yrði „talin gild í öllum greinum“ og veita honum „óskoraðan rétt til að taka við jörðinni Vatnsenda í Kópavogi með öllum gögnum og gæðum, þar á meðal rétt til leiguafgjalda af sumarbústaðarlöndum jarðarinnar.“ Þessu andmæltu Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested og varnaraðilarnir Sigurður Kristján og Karl Lárus, sem kröfðust þess að jörðinni yrði ráðstafað eins og öðrum eignum þess látna „eftir almennum skiptareglum erfðalaga“. Í greinargerð í málinu, sem lögð var fram í héraði af hálfu Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, sagði meðal annars eftirfarandi: „Erfðaskrá þessi er all sérstæð og gjörhugsuð. Með henni er í rauninni gjörð einskonar sjálfseignarstofnun úr öllum eignum arfláta. Og það er aðeins umráðarétturinn og rétturinn til að njóta arðs af eignunum, sem erfist, en ekki óskoraður eignaréttur. Er ljóst að með þessu vildi arfláti tryggja það að eignirnar tvístruðust ekki og yrðu að engu og jafnframt að elzti sonurinn í ætt Lárusar frænda hans hefði örugga fjárhagslega afkomu og væri einskonar ættarhöfðingi.“ Úrskurður í málinu var kveðinn upp í héraði 24. júlí 1967. Í honum var fallist á með Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, sem var varnaraðili í málinu, að ákvæði í erfðaskránni væru ekki „niður fallin vegna aðgerða fyrri landseta“. Í framhaldi af því sagði eftirfarandi: „Ekki eru efni til að vefengja, að varnaraðili ætli sér að setjast að á Vatnsenda og hefja þar búskap, ef hann fær umráð jarðarinnar. Landsnot jarðarinnar hafa að vísu verið skert verulega frá því sem var, þegar erfðaskráin var gerð, bæði með eignarnámum og útleigu á löndum. Þó er jörðin að fasteignamati talin lögbýli, og þar er enn rekinn búskapur í venjulegri merkingu þess orðs. Hafa ekki verið færð rök fyrir því gegn mótmælum varnaraðilja og gegn opinberu vottorði um skráningu jarðarinnar sem lögbýlis, að jörðin hafi verið rýrð svo, að þar verði ekki rekinn búskapur. Ekki verður fallizt á, að það útiloki búskap á jörðinni, þótt hún hafi fyrir aðgerðir hins opinbera verið dregin undir skipulagssvæði Kópavogskaupstaðar, enda er ekki sýnt, að neinar fyrirætlanir séu á prjónunum, sem útiloki eða rýri núverandi búskaparmöguleika á jörðinni. Það, sem gerast kann í óvissri framtíð, skiptir ekki máli í sambandi við úrlausn málsins. Því verður ekki talið, að núverandi ástand jarðarinnar útiloki varnaraðilja frá að uppfylla þau skilyrði erfðaskrárinnar, að hann búi á jörðinni. Ákvæðum erfðaskrárinnar varðandi jörðina Vatnsenda svipar í ýmsu til reglnanna um ættaróðul, en heimildarlaust er að draga þá ályktun, að hér hafi verið um stofnun óðalsbýlis að ræða, enda vantar mikið á, að reglunum um þau sé fylgt í erfðaskránni. Því verður ekki ályktað gegn skýrum orðum erfðaskrárinnar, að eftirlifandi maka landseta samkvæmt erfðaskránni sé áskilin búseta á jörðinni eftir lát hans. Niðurstaða málsins verður því sú, að varnaraðilja sé einum af erfingjum arflátans áskilinn réttur til umráða og búsetu á jörðinni Vatnsenda.“ Úrskurðarorð þessarar úrlausnar voru svohljóðandi: „Varnaraðilja, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, er áskilinn réttur eftir látinn föður sinn til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda í Kópavogskaupstað með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir eru í arfleiðsluskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds, dagsettri 4. janúar 1938. Málskostnaður fellur niður.“ Úrskurði þessum var skotið til Hæstaréttar. Í greinargerð, sem lögð var fram af því tilefni af hálfu Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, voru áðurgreindar röksemdir í greinargerð hans í héraði ítrekaðar með svofelldum orðum: „Það er ekki eignarrétturinn að jörðinni Vatnsenda, sem erfist, heldur ábúðar og afnotarétturinn. ... Umbj. m. sækir ekki rétt sinn til jarðarinnar til föður síns, Sigurðar, heldur beint til arfleifanda, Magnúsar Einarssonar Hjaltested.“ Dómur Hæstaréttar í málinu, sem var nr. 110/1967, var kveðinn upp 5. apríl 1968 og er hann birtur í dómasafni þess árs á bls. 422. Með honum var framangreindur úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Á skiptafundi, sem haldinn var í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 7. maí 1968 var eftirfarandi ákvörðun færð til bókar: „Þá lýsti skiptaráðandi yfir því, að hann afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, Sólbakka, Vatnsenda, umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda í Kópavogskaupstað, með því sem henni fylgir og fylgja ber, samkvæmt þeim réttindum, sem honum sem erfingja eru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested dagsettri 4. jan. 1938 og 29. okt. 1940, að geymdum rétti þeirra, sem löglega kunna að eiga tilkall til afnota eða annara réttinda á jörðinni eða hluta hennar, enda tekur Ólafur Þorgrímsson, hæstaréttarlögmaður, ásamt erfingjunum ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar, erfðafjárskatts og annara opinberra gjalda, sem á erfingjana kann að falla í sambandi við skiptin.“ Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested og varnaraðilarnir Sigurður Kristján og Karl Lárus skutu þessari ákvörðun til Hæstaréttar 27. maí 1968 og var hún staðfest með dómi réttarins 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968, sem birtur er í dómasafni 1969 á bls. 780. Sama dag var kveðinn upp dómur Hæstaréttar í máli nr. 117/1968, þar sem staðfestur var úrskurður um að Margrét yrði samkvæmt kröfu Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested borin út af jörðinni Vatnsenda, sbr. dómasafn 1969 bls. 782. Útburðargerð virðist eftir gögnum málsins hafa farið fram 22. júlí 1969 og Magnús tekið við umráðum jarðarinnar.

Í bréfi, sem skiptaráðandi ritaði skattstjóra 15. ágúst 1969 í tilefni af kröfu um skil á skattframtali fyrir dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, var vikið að réttindum, sem það hafði átt yfir Vatnsenda, á eftirfarandi hátt: „Búinu tilheyrði ákveðinn afnotaréttur jarðarinnar Vatnsenda, en hann féll til eins erfingja búsins samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dags. 4. janúar 1938. Skiptaráðandi afhenti áðurgreindum erfingja, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested jörðina með ákvörðun skiptaréttar hinn 7. maí 1968. Þar með fylgdu að sjálfsögðu tekjur jarðarinnar svo sem leigugjöld og endurgjöld veiðileyfa. ... Landseti tók við greiðslu fyrir veiðileyfi seld á sumrinu 1968. ... Deilt er um, hvort sú fjárhæð á að renna til dánarbúsins eða til rétthafa jarðarinnar samkvæmt áðurnefndri erfðaskrá.“

Fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 99/1968 var þinglýst 25. febrúar 1971 á jörðina Vatnsenda. Í málinu hefur verið lagt fram veðbókarvottorð frá 22. september 1976, þar sem fram kom að „þinglesinn eigandi“ Vatnsenda væri Magnús Sigurðsson Hjaltested samkvæmt „heimildarbréfi 30.5.´69“, svo og að um væri að ræða „eignarland“.

Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, voru opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested tekin fyrir í 35 þinghöldum í skiptarétti Kópavogs á tímabilinu frá 25. febrúar 1967 til 26. maí 1970, en þar á eftir í einu þinghaldi, 15. maí 1972. Af þessum gögnum verður ráðið að eignir dánarbúsins hafi að frátöldum réttindum yfir Vatnsenda verið bifreið með skráningarnúmerinu Y 8, metin á 90.000 krónur, bústofn að matsverði samtals 64.450 krónur, en til hans töldust 46 ær, 22 gemlingar og 380 hænsn, innanstokksmunir, sem virðast hafa verið virtir á samtals 75.925 krónur, greiðsla frá sparisjóði að fjárhæð 2.000 krónur og réttindi samkvæmt leigusamningum um sumarhúsalóðir í landi jarðarinnar. Þá var ágreiningur milli erfingja um hvort dánarbúinu hafi einnig tilheyrt bifreið með skráningarnúmerinu Y 2053, en hún virðist hafa verið metin á 80.000 krónur. Jafnframt verður ráðið af þessum gögnum að skiptaráðandi hafi á fyrstu stigum talið dánarbúið kunna að eiga kröfu á hendur Margréti Guðmundsdóttur Hjaltested vegna tekna af sölu veiðileyfa og leigu sumarhúsalóða, sem hún hafi innheimt á tímabilinu frá láti eiginmanns síns, en þeirri kröfu virðist ekki hafa verið fylgt frekar eftir. Á skiptafundi 27. apríl 1970 var fært til bókar að Margrét hafi á fyrra stigi „boðizt til að kaupa búfénað og lausafjármuni búsins fyrir matsverð“, sem hafi verið samþykkt, en „andvirði þessara verðmæta hefur ekki verið innheimt nema að litlu leyti.“ Þá liggur fyrir að lögmaður Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested fékk 9. desember 1968 afhenta 50 leigusamninga um sumarhúsalóðir, svo og að skiptaráðandi í dánarbúinu hafi eftir það talið tekjur af leigunni búinu óviðkomandi. Loks er þess að geta varðandi framangreindar eignir að lögð hefur verið fram í Hæstarétti beiðni skiptaráðanda 10. maí 1972 til yfirborgarfógetans í Reykjavík um uppboð á bifreiðinni Y 8, svo og bókun úr þinghaldi 15. sama mánaðar, þar sem skipti á dánarbúinu voru tekin fyrir. Þar mætti sonur Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested, varnaraðilinn Guðmundur Gíslason, og bar fram ósk hennar um að fá að leysa bifreiðina til sín gegn greiðslu á matsverði. Matsmenn voru tilnefndir til að verðleggja bifreiðina, en ekkert frekar liggur fyrir um afdrif hennar. Af gögnum varðandi opinberu skiptin verður ekki ráðið hvort erfingjar hafi nokkru sinni lýst afstöðu til þess hvort þeir tækjust á hendur ábyrgð á skuldum þess látna, en innköllun til skuldheimtumanna var gefin út 8. mars 1968 og var þess ekki getið þar hvort slíkri ábyrgð hafi verið lýst yfir. Samkvæmt ódagsettri skrá um lýstar kröfur í dánarbúið virðast þær hafa verið þrjár, ein að fjárhæð 33.031 króna vegna opinberra gjalda, önnur að fjárhæð 3.576,10 krónur vegna skuldar við Mjólkurfélag Reykjavíkur og sú þriðja frá Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested vegna leigutekna og sölu veiðileyfa, en fjárhæð hennar væri „ótilgreind“. Þá krafðist Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested á skiptafundi 15. maí 1970 endurgreiðslu á 167.100,45 krónum vegna ýmissa skulda, sem hún hafi staðið skil á fyrir dánarbúið, og útfararkostnaðar. Jafnframt gerði innheimtumaður ríkissjóðs kröfu með bréfi 19. október 1971 um greiðslu þinggjalda fyrir árin 1969, 1970 og 1971, auk hækkunar gjalda vegna áranna 1967 og 1968, samtals 421.907 krónur. Ekkert liggur fyrir um greiðslu á þeim kröfum, sem að framan er getið. Í málinu hefur ekki komið fram að opinber skipti á dánarbúinu hafi verið tekin fyrir eftir áðurgreint þinghald 15. maí 1972, en eina skjalið varðandi þau, sem lagt hefur verið fram í máli þessu og stafar frá síðara tímamarki, er fyrirspurn innheimtumanns ríkissjóðs til skiptaráðanda 12. apríl 1973 um hvenær vænta mætti að skiptum lyki.

Samkvæmt gögnum málsins lést Magnús Sigurðsson Hjaltested 21. desember 1999. Eftirlifandi maki hans er sóknaraðilinn Kristrún Ólöf Jónsdóttir, en börn þeirra sóknaraðilarnir Þorsteinn Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður Kristján Magnússon Hjaltested. Sóknaraðilinn Kristrún Ólöf mun hafa fengið leyfi til setu í óskiptu búi 19. janúar 2000 og verður ráðið af framlögðu þinglýsingarvottorði að leyfisbréfi frá sýslumanni hafi verið þinglýst í framhaldi af því á jörðina Vatnsenda sem eignarheimild hennar. Sóknaraðilarnir gerðu í framhaldi af þessu skiptayfirlýsingu 21. nóvember 2000, sem þau undirrituðu öll og var svohljóðandi: „Með yfirlýsingu þessari er jörðin Vatnsendi Kópavogi færð af nafni Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested ... yfir á nafn Þorsteins Magnússonar Hjaltested ... á grundvelli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dags. 4. janúar 1938. Undanskilin er 90,5 ha. spilda sem Kópavogsbær hefur tekið eignarnámi skv. samningi dags. 24. nóv. 1999, en er óþinglýst á jörðina. Þessi spilda fellur undir réttindi og skyldur skv. eignarnámssátt við Kópavogsbæ sem talin er meðal eigna í búsetuleyfi ekkju Magnúsar Hjaltested, Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur. Samkvæmt erfðaskránni gengu allar eigur Magnúsar Einarssonar Hjaltested að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Að Sigurði látnum á jarðeignin að ganga að erfðum til elsta sonar hans og svo til hans niðja í beinan karllegg. Sigurður Lárusson Hjaltested lést 13. nóvember 1966 og gekk þá eignin til elsta sonar hans, Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Magnús lést 21. desember 1999 og á eignin þá skv. erfðaskránni að ganga til elsta sonar hans Þorsteins Magnússonar Hjaltested. Erfingjar lýsa því yfir að enginn ágreiningur er meðal þeirra um að jörðin, skv. ofanskráðu falli óskipt til Þorsteins Hjaltested, og hafi engin áhrif á arfstilkall hans úr hinu óskipta búi. Jafnframt er þess óskað að þinglýstu leyfi Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, dags. 19. janúar 2000, til setu í óskiptu búi á jörðina Vatnsenda, verði aflýst í fullu samræmi við skiptayfirlýsingu þessa. Búsetuleyfi ekkju Magnúsar Hjaltested, Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur skal leiðrétt til samræmis við þessa kvöð skv. erfðaskránni.“ Þessari yfirlýsingu var þinglýst 12. desember 2000 og telst sóknaraðilinn Þorsteinn „þinglýstur eigandi“ jarðarinnar Vatnsenda samkvæmt framlögðu þinglýsingarvottorði frá 11. janúar 2012. Samkvæmt málflutningi sóknaraðila fyrir Hæstarétti lagði sýslumaður ekki á erfðafjárskatt vegna þessarar ráðstöfunar, enda hafi hann fallist á með þeim að slíkar kvaðir á Vatnsenda hafi leitt af ákvæðum erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 að ekki væru efni til slíkrar skattlagningar.

Fram er komið í málinu að Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested hafi látist á árinu 2004. Til lögerfða eftir hana munu standa synir hennar og Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, varnaraðilarnir Sigurður Kristján og Karl Lárus, svo og önnur börn hennar, sem eru varnaraðilarnir Hansína Sesselja Gísladóttir, Finnborg Bettý Gísladóttir, Guðmundur Gíslason og Margrét Margrétardóttir, ásamt börnum látins sonar hennar, Finns Gíslasonar, varnaraðilunum Gísla Finnssyni, Elísu Finnsdóttur og Kristjáni Þór Finnssyni.

Varnaraðilarnir Sigurður Kristján og Karl Lárus höfðuðu mál á hendur sóknaraðilanum Þorsteini 10. mars 2007 og kröfðust þess að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 yrði „felld úr gildi þannig að eignum sem erfðaskráin kveður á um verði skipt eftir almennum skiptareglum erfðalaga“. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 5. október 2007, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 6. nóvember sama ár í máli nr. 560/2007.

Varnaraðilarnir Sigurður Kristján og Karl Lárus ásamt varnaraðilanum Sigríði kröfðust þess 23. desember 2008 að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested yrði tekið til opinberra skipta. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 29. september 2009 var þessari kröfu hafnað á þeirri forsendu að skiptum á dánarbúinu hafi þegar verið lokið. Þeim úrskurði var skotið til Hæstaréttar, sem vísaði til þess í dómi 13. nóvember sama ár í máli nr. 599/2009 að samkvæmt málatilbúnaði varnaraðilanna Sigurðar Kristjáns, Karls Lárusar og Sigríðar væri þessi krafa þeirra reist á því að opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem hófust 25. febrúar 1967, hafi aldrei verið lokið. Væri sú ályktun rétt stæðu opinberu skiptin enn yfir og væri við svo búið útilokað að taka dánarbúið öðru sinni til opinberra skipta. Niðurstaðan í úrskurði héraðsdóms var því staðfest.

 Með beiðni til Héraðsdóms Reykjaness 3. febrúar 2011 leituðu varnaraðilarnir Sigurður Kristján, Karl Lárus, Sigríður og Markús Ívar eftir því að skipaður yrði skiptastjóri til að ljúka opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Þessari beiðni var hafnað með úrskurði 26. maí 2011 á þeim grundvelli að ekki hafi verið sýnt fram á að skiptum á búinu hafi ekki verið lokið. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar, sem vísaði til þess í dómi 24. ágúst sama ár í máli nr. 375/2011 að ekki hafi verið sýnt fram á að skiptum á dánarbúinu hafi verið lokið og bæri því að taka til greina kröfu um skipun skiptastjóra til að leysa það verk af hendi. Þessu til samræmis skipaði Héraðsdómur Reykjaness skiptastjóra í dánarbúinu 18. nóvember 2011. Skiptastjórinn hélt skiptafund 16. janúar 2012, þar sem ágreiningur reis milli annars vegar sóknaraðila og hins vegar varnaraðila, þar á meðal þeirra, sem komin voru í stað Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested og áður var getið, um hvort jörðin Vatnsendi væri enn í eigu dánarbúsins. Á skiptafundi 9. febrúar sama ár lýsti skiptastjóri þeirri afstöðu til þessa ágreiningsefnis að á grundvelli ummæla í áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 375/2011 teldi hann að jörðin væri ekki lengur í eigu dánarbúsins, þar sem henni hafi verið ráðstafað til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested á skiptafundi í búinu 7. maí 1968, svo sem staðfest hafi verið með dómi réttarins í máli nr. 99/1968. Varnaraðilar felldu sig ekki við þessa ákvörðun og vísaði skiptastjóri ágreiningi um þetta til héraðsdóms 13. febrúar 2012. Mál þetta var þingfest af því tilefni 21. mars sama ár.

II

Í gögnum varðandi opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested frá árunum 1967 til 1973, sem að nokkru er gerð grein fyrir hér að framan, er ekkert að finna, sem bendir til að skiptunum hafi verið lokið eða nokkuð að öðru leyti aðhafst við þau eftir 15. maí 1972. Að því verður einnig að gæta að ekki voru skilyrði til að ljúka skiptum á dánarbúinu án úthlutunargerðar með stoð í ákvæðum 10. gr. þágildandi laga nr. 3/1878 um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl., sbr. nú 25. gr. og 26. gr. laga nr. 20/1991, enda liggur samkvæmt áðursögðu fyrir að andvirði eigna þess án tillits til skulda var mun meira en nam kostnaði af útför þess látna. Þá er þess jafnframt að geta að samkvæmt bréfi Þjóðskjalasafns Íslands 1. júní 2010 var farið þar yfir erfðafjárskýrslur frá árunum 1968 til 1980 og fannst ekkert um að staðið hafi verið skil á erfðafjárskatti í tengslum við skipti á dánarbúinu. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að með réttu sé dánarbúið enn til opinberra skipta, þótt liðið sé á fimmta áratug frá upphafi þeirra, sbr. og áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 375/2011, en um frekari framkvæmd skiptanna gilda nú ákvæði laga nr. 20/1991, sbr. 3. mgr. 148. gr. og 150. gr. þeirra.

Í 1. gr. erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested 4. janúar 1938 var mælt svo fyrir að allar eignir hans, fastar og lausar, skyldu að honum látnum ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um skipti á dánarbúi Magnúsar Einarssonar Hjaltested, en sem fyrr segir virðist erfðaskránni hafa verið þinglýst 9. janúar 1941 sem eignarheimild Sigurðar að jörðinni Vatnsenda. Skilja verður málatilbúnað aðilanna svo að ekki sé deilt um að beinn eignarréttur að jörðinni hafi færst fyrir arf í hendur Sigurðar, þótt sá réttur hafi eftir áðurgreindum ákvæðum erfðaskrárinnar verið háður margvíslegum kvöðum. Í máli þessu er ekki til úrlausnar hvort skilyrði hafi verið eða séu til að þessi beini eignarréttur verði færður eftir lát Sigurðar 13. nóvember 1966 til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, heldur aðeins hvort það hafi í raun þegar verið gert við opinberu skiptin á dánarbúi Sigurðar þannig að sá réttur sé ekki lengur á hendi þess.

Eins og áður var rakið reis ágreiningur á árinu 1967 varðandi jörðina Vatnsenda við opinberu skiptin á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Í dómsmálinu, sem rekið var til að leysa úr þeim ágreiningi, krafðist Magnús Sigurðsson Hjaltested þess að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested yrði metin gild og teldist veita sér „óskoraðan rétt til að taka við jörðinni Vatnsenda“, svo sem komist var að orði í greinargerð hans í héraði. Í greinargerðinni var því sem áður segir einnig haldið fram að með erfðaskránni hafi í raun verið mynduð „einskonar sjálfseignarstofnun úr öllum eignum arfláta“ og væri það aðeins umráðaréttur yfir eignunum og réttur til arðs af þeim, sem gengi að arfi samkvæmt henni, „en ekki óskoraður eignaréttur.“ Þetta var áréttað í greinargerð þess sama fyrir Hæstarétti, þar sem sagði að það væri „ekki eignarrétturinn að jörðinni Vatnsenda, sem erfist, heldur ábúðar og afnotarétturinn.“ Í forsendum úrskurðar í málinu, sem gekk í héraði 24. júlí 1967, var tekið svo til orða að niðurstaða þess væri sú að Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested væri einum erfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested „áskilinn réttur til umráða og búsetu á jörðinni Vatnsenda.“ Í úrskurðarorði sagði að þeim sama væri eftir látinn föður sinn áskilinn réttur „til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda“ með takmörkunum og skilmálum, sem fram kæmu í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Þessi úrskurður var sem fyrr segir staðfestur með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968. Þeim dómi var síðan fylgt eftir á skiptafundi í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 7. maí 1968 með því að skiptaráðandi afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested „umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda ... samkvæmt þeim réttindum, sem honum sem erfingja eru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested“ og var ákvörðun um þetta staðfest með dómi Hæstaréttar 30. maí 1969.

Þegar framangreint er virt verður öðru fremur að líta til þess að Magnús Sigurðsson Hjaltested krafðist þess ekki í fyrrnefndu dómsmáli að kveðið yrði á um rétt sinn til að taka að arfi eftir föður sinn jörðina Vatnsenda, heldur rétt sinn til að taka við henni. Krafa hans í málinu var tekin til greina á þann hátt að hann nyti réttar til að taka við jörðinni til ábúðar og hagnýtingar, sem var í samræmi við fyrrgreind ummæli í málatilbúnaði hans um að umráðaréttur yfir henni gengi að erfðum eftir erfðaskránni frá 4. janúar 1938 ásamt rétti til arðs. Á hinn bóginn var ekki kveðið á um afdrif beins eignarréttar að jörðinni í dómsúrlausnum í málinu. Dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested afhenti síðan Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested umráð og afnot jarðarinnar. Í tengslum við þetta var hvergi minnst á afsal til Magnúsar á beinum eignarrétti yfir jörðinni og verður ekki séð að þeim rétti hafi síðar verið ráðstafað til hans með skiptayfirlýsingu eða afsali. Þetta fær samrýmst því, sem fram kom í fyrrnefndu bréfi skiptaráðanda til skattstjóra 15. ágúst 1969, en þar sagði að dánarbúinu hafi tilheyrt „ákveðinn afnotaréttur jarðarinnar Vatnsenda“, sem hafi fallið til „eins erfingja búsins samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested“, og hafi þannig jörðin þegar verið afhent Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, sem nefndur var landseti og rétthafi jarðarinnar í bréfinu. Að þessu öllu gættu er ekki unnt að líta svo á að fyrirliggjandi gögn standi til þess að álykta að Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi öðlast beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda með ákvörðun skiptaráðanda 7. maí 1968, sem Hæstiréttur staðfesti í dómi 30. maí 1969. Því hefur ekki verið borið við í málinu að Magnús hafi á annan hátt tekið við slíkum rétti að jörðinni af dánarbúinu og verður því til samræmis að telja það enn hafa á sinni hendi þann rétt, sem ráðstafa verður til að ljúka skiptum lögum samkvæmt. Niðurstaða hins kærða úrskurðar verður því staðfest á þann hátt, sem nánar greinir í dómsorði, um annað en málskostnað.

Sóknaraðilum verður gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi handa hverjum varnaraðila fyrir sig eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested telst beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi enn vera á hendi dánarbúsins.

Sóknaraðilar, Kristrún Ólöf Jónsdóttir, Þorsteinn Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður Kristján Magnússon Hjaltested, greiði óskipt varnaraðilunum Sigurði Kristjáni Sigurðssyni Hjaltested, Karli Lárusi Hjaltested, Sigríði Hjaltested og Markúsi Ívari Hjaltested hverju fyrir sig samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Þá greiði sóknaraðilar óskipt varnaraðilunum Hansínu Sesselju Gísladóttur, Finnborgu Bettý Gísladóttur, Guðmundi Gíslasyni, Margréti Margrétardóttur, Gísla Finnssyni, Elísu Finnsdóttur og Kristjáni Þór Finnssyni hverju fyrir sig samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. nóvember 2012.

Mál þetta barst dóminum með bréfi skiptastjóra, Jóni Auðuni Jónssyni hrl., dagsettu 13. febrúar 2012. Styðst málskotið við 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Sóknaraðilar máls þessa eru Sigurður Kristján Hjaltested, kt. 050262-4139, Marargötu 4, Vogum, Karl Lárus Hjaltested, kt. 300663-4869, Ósabakka 19, Reykjavík, Sigríður Hjaltested, kt. 040451-4639, Godthabsveg 6, 8766 Nörre Snede, Danmörku, Markús Ívar Hjaltested, kt. 020744-3169, Vindási 2, Reykjavík, Hansína Sesselja Gísladóttir, kt. 110343-2139, Tryggvagötu 6, Reykjavík, Finnborg Bettý Gísladóttir, kt. 040345-3539, Austurbrún 6, Reykjavík, Guðmundur Gíslason, kt. 261047-3659, Heiðargerði 5, Vogum, Margrét Margrétardóttir, kt. 011155-2439, Rauðagerði 16, Reykjavík, Gísli Finnsson, kt. 221187-25359, Kleppsvegi 40, Reykjavík,  Elísa Finnsdóttir, kt. 170980-2019, Naustabryggju 11, Reykjavík, og  Kristján Þór Finnsson, kt. 290571-4219, Brekkutúni 1, Kópavogi.

Varnaraðilar eru Kristrún Ólöf Jónsdóttir, kt. 270643-4779, Vatnsenda, Kópavogi,  Þorsteinn Hjaltested, kt. 220760-5619, Vatnsenda, Kópavogi, Vilborg Björk Hjaltested, kt. 280862-3399, Logasölum 7, Kópavogi, Marteinn Þ. Hjaltested, kt. 050664-5709, Hestheimum 851, Hellu, og Sigurður Kristján Hjaltested, kt. 140472-5149, Logasölum 9, Kópavogi.

Í bréfi skiptastjóra til dómsins kemur fram að skiptastjóri hafi verið skipaður með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 18. nóvember 2011 til að gegna störfum við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested, fæddum 11. júní 1916, sem síðast hafi verið til heimilis að Vatnsenda við Elliðavatn og andast 13. nóvember 1966. Haldnir hafi verið þrír formlegir skiptafundir í búinu auk þess sem skiptastjóri hafi fundað með einum erfingjanna sérstaklega. Við skiptin sé uppi ágreiningur með aðilum um eignir búsins. Erfingjar Magnúsar Hjaltested, elsta sonar hins látna, haldi því fram að skiptum á eignum búsins sé lokið og að engar eignir séu lengur til staðar í búinu. Aðrir erfingjar hins látna, svo og erfingjar seinni eiginkonu hans, Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested, geri kröfu til þess að jörðin Vatnsendi verði tekin til skipta á milli allra erfingja hins látna og að auki viðbótarkrafa Þorsteins Hjaltested á hendur Kópavogsbæ en ágreiningsmál sé nú rekið um þá kröfu fyrir dómnum undir númerinu E-971/2011. Vísa þessir erfingjar um kröfugerð sína til töluliða 1-2 á bls. 4 í greinargerð Guðjóns Ólafs Jónssonar hrl., sem fylgi erindi þessu. Þá segir að á skiptafundi sem haldinn hafi verið 16. janúar sl. hafi skiptastjóri óskað eftir því að fulltrúar erfingja lýstu afstöðu sinni til þessa ágreinings, legðu fram kröfur sínar og rökstuðning fyrir næsta skiptafund. Alls hafi borist fimm greinargerðir frá aðilum þar sem sjónarmið þeirra hafi verið reifuð. Á skiptafundi sem haldinn hafi verið 9. febrúar sl. hafi skiptastjóri lýst þeirri afstöðu sinni að framangreindar eignir væru ekki lengur á meðal eigna búsins. Hafi sú afstaða fyrst og fremst byggst á niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 375/2011 þar sem segi að jörðin Vatnsendi sé ekki lengur á meðal eigna búsins. Hafi fulltrúar erfingja, annarra en barna Magnúsar Hjaltested, mótmælt afstöðu skiptastjóra og ítrekað kröfur sínar.

Var þeim ágreiningi vísað til dómsins.

Endanlegar dómkröfur allra sóknaraðila eru að þeir krefjast þess að jörðin Vatnsendi við Elliðavatn, ásamt öllu því sem henni fylgir og fylgja ber, teljist til eigna við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar krefjast þess að öllum dómkröfur sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðilum verið gert, in solidum, að greiða hverjum varnaraðila fyrir sig málskostnað að skaðlausu. Fór munnlegur málflutningur fram þann 22. október sl. og var málið tekið til úrskurðar að honum loknum.

I

Þann 4. janúar 1938 gerði Magnús Einarsson Hjaltested arfleiðsluskrá þannig:

Ég undirritaður Magnús Einarsson Hjaltested fyr úrsmiður í Reykjavík, en nú bóndi á Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, sem ekki á neitt afkvæmi, lýsi hér með yfir því, sem síðasta vilja mínum, að með eignir mínar lausar og fastar- allar undantekningarlaust- skal fara á þann hátt, er hér eftir segir, að mér lánum.

1.gr.       Allar eignir mínar- fastar og lausar- skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns

 Lárussonar Hjaltested, með þeim nánar takmörkunum og skilyrðum er nú skal greina.

Hann má ekki selja fasteign þá er ég nú á- Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi- er hann fær að erfðum með þessari arfleiðsluskrá, né heldur veðsetja hana fyrir meiru en sem nemur 50% af fasteignamati jarðarinnar og þó aðeins til greiðslu erfðafjárskatts ef með þarf, eða nauðsynlegra, varanlegra endurbóta á húsum jarðarinnar eða henni sjálfri.

Hann skal búa á eigninni sjálfur sbr. þó það er síðar segir um föður hans undir tölulið 2.

[2. gr.   Meðan Lárus Hjaltested faðir Sigurðar lifir, má hann búa endurgjaldslaust á

                fyrrnefndri

 jarðeign, að öðru en því, að hann svarar til vaxta og afborgana af skuldum þeim, er á

eigninni hvíla allar bætur fyrir landspjöll, sem þegar orðin eða kunna að verða á

 jörðinni af annara völdum, og jörðinni ber, hefur Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi

rétt, til að krefja inn og semja um, með lögsókn ef með þarf sem tilheirandi jörðinni að

mér látnum, ef ekki hefur verið fullkomlega um það samið áður.]

Arftaki má selja í leigu lóðir undir hús, leikvelli eða annað, úr óræktuðu landi jarðarinnar, gegn árlegu afgjaldi er hæfilegt þykir á hverjum tíma, og skulu þær leigur goldnar á tilteknum gjalddaga til ábúenda hver sem hann verður, og má ekki veðsetja þær neinum fremur en jörðina, fyrr en þær eru greiddar ábúenda.

2. gr.      Meðan Lárus Hjaltested faðir Sigurðar lifir, má hann búa endurgjaldslaust á

fyrrnefndri jarðeign, að öðru en því, að hann svarar til vaxta og afborgana af skuldum þeim, er á eigninni hvíla.

Allar bætur fyrir landspjöll sem þegar eru orðin eða kunna að verða á jörðinni, af annarra völdum, og jörðinni ber, hefur Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi rétt, til að krefja um og semja um, með lögsókn ef með þarf, sem tilheyrandi jörðinni að mér látnum, ef ekki hefur verið fullkomlega um það samið áður. Sömuleiðis hefur Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi allan rétt þann, er um ræðir í gr. 1. tölulið c/-.

3. gr.    Að Sigurði látnum gengur jarðeignin að erfðum til elsta sonar hans, og svo til hans

niðja í beinan karllegg, og sé sá leggur útdauður, þá til næstelsta sonar Sigurðar og hans niðja í beinan karllegg o.s.frv. koll af kolli, þannig að ávallt fær aðeins einn maður allan arfinn, sá elsti í þeim legg, er að réttu ber arfinn samkvæmt því er nú hefur sagt verið.

Sé enginn erfingi réttberinn til arfs frá Sigurði á lífi samkvæmt framanskráðu, þá gengur arfurinn til Georgs Péturs Hjaltested næst elsta sonar Lárusar, og hans niðja í beinan karllegg, eftir sömu reglum.

Sé enginn til í legg Péturs, sem uppfyllir skilyrðin, þá skal arfurinn ganga til Jóns Einars Hjaltested sonar Lárusar og niðja hans í beinan karllegg, eftir sömu reglum og svona koll af kolli, meðan til er eitthvert afkvæmi í karllegg frá Lárusi Hjaltested, sem uppfylli erfðaskilyrði þau er margnefnd eru.

4. gr.      Skildi einhver erfingjanna hætta búskap á Vatnsenda missir hann rétt sinn samkvæmt erfðaskrá þessari, og sá sem næstur er í röðinni tekur við.

5. gr.      Ef viðkomandi erfingi er ómyndugur skal fjárhaldsmaður hans ráðstafa ábúðinni þar til hann er myndugur.

6. gr.      Sérhver erfingi, sem fær erfðarétt samkvæmt þessum arfleiðslugjörningi, er skyldugur til þess, að halda öll þau skilyrði, sem Sigurði eru sett með honum og gæta þeirra takmarkana, er samningurinn hefur inni að halda.

                Vanræki einhver það, varðar það tafarlaust réttindamissis fyrir hlutaðeigandi.

7. gr.      Ef afkvæmi Lárusar Hjaltested í karllegg deyr út, skal taka eignir þær er að framan getur og selja þær, og af andvirði stofna sjóð er beri nafnið: Styrktarsjóður Magnúsar Einarssonar Hjaltested á Vatnsenda.

Sjóður þessi ávaxtist í ríkisskuldabréfum, bankavaxta bréfum, er beri það með sér, að þau tilheyri sjóðnum – eða sparisjóði Landsbankans. ¾ hlutar vaxta útborgist árlega, sem styrktarfé, en ¼ hluti leggist við sjóðinn honum til aukningar.

Tilgangur sjóðsins skal vera sá að styrkja ungmenni af ættlegg Lárusar Hjaltested til framhaldsmenntunar hvenær sem er.

Skipulagsskrá viðvíkjandi sjóði þessu, ef til kemur, fel ég Stjórnarráði Íslands að semja, með þessum skilyrðum er nú voru nefnd.

Arfleiðslugjörningi þessum skal þinglýsa á varnarþingi jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarnesi og hann hvíla sem ævarandi kvöð á þeirri eign.

Til staðfestu framanritaðri arfleiðsluskrá í öllum greinum, hefi ég undirritað hana í viður vist tveggja sérstaklega tilkvadda vitundarvotta.

                                               Vatnsenda 4. jan. 1938

Magnús Einarsson Hjaltested

Í handrituðu eintaki sem liggur frammi í málinu er fyrri grein nr. 2 sett í hornklofa en  síðari grein nr. 2 í handritaða eintakinu er að mestu efnislega eins.

Magnús Einarsson lést 31. október 1940 og byggði Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested, fæddur 11. júní 1916, bróðursonur Magnúsar Einarssonar, jörðina samkvæmt erfðaskránni þar til hann lést 13. nóvember 1966. Var bú Sigurðar Kristjáns Hjaltested tekið til opinberra skipta. Fyrir skiptaráðanda gerði ekkja Sigurðar, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, strax tilkall til jarðarinnar Vatnsenda. 

Þann 24. júlí 1967 var kveðinn upp úrskurður í skiptadómi Kópavogs af Unnsteini Beck setuskiptaráðanda í málinu; Skiptaréttarmálið Margrét Hjaltested og ófjárráða börn hennar gegn Magnúsi S. Hjaltested. Segir í úrskurðinum að endanlegar dómkröfur sóknaraðila hafi verið að öllum eignum dánar- og félagsbús Sigurðar Hjaltested og eftirlifandi maka, Margrétar Hjaltested, verði skipt eftir almennum skiptareglum erfðalaga, enda verði taldar brostnar forsendur fyrir gildi og framkvæmd erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested umfram það sem segir í upphafi erfðaskrárinnar, svohljóðandi: „... allar eignir mínar, fastar og lausar skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested“. Varnaraðilar gerðu þær dómkröfur að hin umdeilda erfðaskrá yrði tekin gild í öllum greinum og metin svo að hún veitti honum óskoraðan rétt til að taka við jörðinni Vatnsenda í Kópavogi með öllum gögnum og gæðum, þar á meðal rétt til leiguafgjalda af sumarbústaðalöndum jarðarinnar. Enginn annar ágreiningur var milli aðila um aðrar eignir búsins en tilkall til Vatnsenda. Er rakinn í úrskurðinum ágreiningur aðila en sóknaraðilar byggja á því að forsendur séu brostnar fyrir því að erfðagerningnum, eða nánar til tekið ákveðnum ákvæðum hans, verði beitt í samræmi við ákvæði erfðaskrárinnar og tilgang arfleifandans. Byggðu sóknaraðilar á því að jörðin Vatnsendi væri ekki lengur bújörð. Hún hafi verið skert svo með eignarnámi fyrir hinar ýmsu stofnanir og útleigu á landi undir sumarbústaði að þar yrði ekki rekinn búskapur framar. Eru sjónarmið sóknaraðila rakin í úrskurðinum. Varnaraðili mótmælti þessum sjónarmiðum og sýndi fram á að áfram mætti vera með búrekstur á jörðinni. Segir í úrskurðinum að ekki séu efni til að vefengja að varnaraðili ætli sér að setjast að á Vatnsenda og hefja þar búskap ef hann fái umráð jarðarinnar. Landsnot hafi að vísu verið skert verulega frá því sem var þegar erfðaskráin var gerð, bæði með eignarnámi og útleigu á löndum. Jörðin væri lögbýli og þar væri enn rekinn búskapur í venjulegri merkingu orðs. Því verði ekki talið að núverandi ástand jarðarinnar útiloki varnaraðila frá að uppfylla þau skilyrði erfðaskrárinnar að hann búi á jörðinni. Þá segir að ákvæðum erfðaskrárinnar varðandi jörðina svipi í ýmsu til reglnanna um ættaróðul, en heimildarlaust væri að draga þá ályktun að hér hafi verið um stofnun óðalsbýlis að ræða, enda vanti mikið á að reglunum um þau væri fylgt í erfðaskránni. Því verði ekki ályktað gegn skýrum orðum erfðaskrárinnar að eftirlifandi maka landseta samkvæmt erfðaskránni sé áskilinn búseta á jörðinni eftir lát hans. Niðurstaða málsins verði því sú að varnaraðila sé einum af erfingjum arflátans áskilinn réttu til umráða og búsetu á jörðinni Vatnsenda.  Í úrskurðarorði segir: Varnaraðila, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, er áskilinn réttur eftir látinn föður sinn til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda í Kópavogskaupstað, með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir eru í arfleiðsluskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1939.  Málskostnaður fellur niður. Staðfesti Hæstiréttur Íslands þessa niðurstöðu í dómi þann 5. apríl 1968 í málinu nr. 110/1967.

Í greinargerð lögmanns Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested til Hæstaréttar Íslands í þessu máli segir að hann telji að erfðaskrá sú, sem mál þetta byggist á, fullnægi að öllu leyti kröfum íslenskra laga, bæði um form og efni. Þá segir: „Það er ekki eignarrétturinn að jörðinni Vatnsenda, sem erfist, heldur ábúðar og afnotarétturinn. Af þeirri ástæðu er útilokað að ekkja Sigurðar Hjaltested eigi rétt til áframhaldandi ábúðar. Umbj. m. sækir ekki rétt sinn til jarðarinnar til föður síns, Sigurðar heldur beint til arfleifanda, Magnúsar Einarssonar Hjaltested.

Í greinargerð Ólafs Þorgrímssonar hrl., dagsettri 5. júní 1967 til skiptaréttar í ofangreindu máli, kemur fram að hann flytji málið af hálfu varnaraðila, Magnúsar S. Hjaltested.  Gerir hann þá kröfu að hin umdeilda erfðaskrá verði talin gild í öllum greinum og veiti umbjóðanda hans óskoraðan rétt til að taka við jörðinni Vatnsenda í Kópavogi, með öllum gögnum og gæðum, þar á meðal rétt til leiguafgjalda af sumarbústaðalöndum jarðarinnar. Þá segir að í erfðaskránni sé hvergi minnst á bújörð eða lögbýli hvað þá heldur óðalsjörð, enda telur hann að Magnús, sem engan arfgengan niðja átti, hafi ekki getað gert jörð sína að óðalsjörð þótt hann hefði óskað þess. Þá segir einnig í greinargerðinni: „Erfðaskrá þessi er all sérstæð og gjörhugsuð. Með henni er í rauninni gjörð einskonar sjálfseignastofnun úr öllum eignum arfláta. Og það er aðeins umráðarétturinn og rétturinn til að njóta arðs af eignum, sem erfist, en ekki óskoraður eignaréttur. Er ljóst að með þessu vildi arfláti tryggja það að eignirnar tvístruðust ekki og yrðu að engu og jafnframt að elsti sonurinn í ætt Lárusar frænda hans hefði örugga fjárhagslega afkomu og væri einskonar ættarhöfðingi.

Á skiptafundi þann 7. maí 1968 lýsti skiptaráðandi því yfir að hann afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested Sólbakka, Vatnsenda, umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda með því sem henni fylgir og fylgja ber, samkvæmt þeim réttindum, sem honum sem erfingja eru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1938 og 29. október 1940, að geymdum rétti þeirra sem löglega kunna að eiga tilkall til afnota eða annarra réttinda á jörðinni eða hluta hennar, enda taki Ólafur Þorgrímsson hdl., ásamt erfingjanum, ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar, erfðafjárskatts og öðrum opinberum gjöldum, sem á erfingjana kunna að falla í sambandi við skiptin. Var þessari ákvörðun skiptaráðanda skotið til Hæstaréttar með stefnu 7. maí 1968 og þess krafist að afhending umráða og afnota fasteignarinnar Vatnsenda yerði ómerkt og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar að nýju. Staðfesti Hæstiréttur ákvörðun skiptadóms með dómi þann 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968.

Þann 9. maí 1968 sendi Ólafur Þorgrímsson hrl. bæjarfógetanum í Kópavogi bréf þar sem hann segir að fylgi útskrift af skiptafundi sem haldinn hafi verið 7. þess mánaðar í dánar- og félagsbúi Sigurðar L. Hjaltested og Margrétar Hjaltested. Segir hann að Magnúsi S. Hjaltested, Sólbakka, Vatnsenda, hafi verið afhent umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda í Kópavogskaupstað. Þá segir að þar sem ekkja Sigurðar L. Hjaltested, Margrét Hjaltested, hafi látið lýsa því yfir að hún muni ekki rýma jörðina og hús hennar af frjálsum vilja, en þar hafi hún dvalið og rekið búrekstur frá láti manns síns, þá hafi Ólafur farið þess á leit fyrir hönd umbjóðanda síns, Magnúsar Sigurðar Hjaltested, að Margrét Hjaltested yrði borin út af jörðinni, ásamt öllu því, sem henni tilheyrði, og hvern þann, sem leiði þar dvöl sína frá rétti hennar, eins fljótt og kostur sé.

Úrskurður fógetadóms Kópavogs var kveðinn upp þann 25. júní 1968 þar sem tekist var á um gildi útburðarheimildar Magnúsar Sigurðar Hjaltested um að Margrét Hjaltested skyldi borin út af jörðinni Vatnsenda. Var því hafnað að úrskurður skiptaréttar væri ekki aðfararhæfur og segir að hvað sem líði orðalagi hans, sé augljóst að gerðarbeiðandi eigi rétt til að taka jörðina til ábúðar og hagnýtingar. Seta gerðarþola á jörðinni standi í vegi fyrir þessum rétti hans, og ekkert sé fram komið í málinu um að takmarkanir eða skilmálar í erfðaskrá Magnúsar hindri að hann taki rétt sinn. Var því staðfest að útburður skyldi fara fram. Staðfesti Hæstiréttur Íslands þessa niðurstöðu í dómi frá 30. maí 1969 í máli nr. 117/1968.

 Undir rekstri ofangreinds máls eða þann 20. júní 1968 ritaði Margrét Hjaltested bréf til fógetaréttar Kópavogskaupstaðar þar sem hún tók fram að hún hafi ekki haft hugmynd um skiptafund 4. maí né um það sem þar fór fram fyrr en 29. sama mánaðar þegar endurrit af fundargerð þess fundar var lagt fram í fógetarétti. Mótmælti hún öllu því sem þar kom fram og tók sérstaklega fram að Páll. S. Pálsson hrl. hafi hvorki haft beint né óbeint umboð frá henni né ófjárráða börnum hennar til að afsala eða samþykkja afhendingu eignar hennar og barnanna á Vatnsenda til andstæðings hennar Magnúsar Hjaltested né heldur ekki til að afhenda eða falla frá ábúðar- og afnotarétti hennar á jörðinni.

                Þann 7. desember 2000 var ekkju Magnúsar Hjaltested, Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur,  veitt leyfi til setu í óskiptu búi af sýslumanninum í Kópavogi en Magnús lést 21. desember 1999. Kemur fram í leyfisbréfinu að samkvæmt greinargerð leyfishafa um eignir búsins og skuldir séu meðal eigna þess: Einbýlishús á byggingarstigi í Vatnsenda, Kópavogi, aðflutt hús á byggingarstigi í Vatnsenda, Kópavogi, sumarbústaður við Flúðir í Hrunamannahreppi, sex bifreiðar, hengivagn og hestakerra. Reikningur í Íslandsbanka, hlutabréf, réttindi og skyldur skv. samningi um eignarnámsbætur við Kópavogsbæ frá 24. nóvember 1999, vélakostur og bústofn staðsettur að Vatnsenda.  

                Þorsteinn Hjaltested undirritaði skiptayfirlýsingu 21. nóvember 2000 þar sem fram kemur að jörðin Vatnsendi í Kópavogi væri færð af nafni Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested yfir á nafn Þorsteins Magnússonar Hjaltested á grundvelli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938. Undanskilin var 90,5 ha spilda sem Kópavogsbær hafði tekið eignarnámi samkvæmt samningi 24. nóvember 1999 en var óþinglýst á jörðina. Segir að sú spilda falli undir réttindi og skyldur samkvæmt eignarnámssátt við Kópavogsbæ, sem talin sé meðal eigna í búsetuleyfi ekkju Magnúsar Hjaltested, Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur. Þá segir að samkvæmt erfðaskránni gangi allar eigur Magnúsar Einarssonar Hjaltested að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Að Sigurði látnum á jarðeignin að ganga að erfðum til elsta sonar hans og svo til hans niðja í beinan karllegg. Sigurður Lárusson hafi látist 13. nóvember 1966 og hafi eignin þá gengið til elsta sonar hans, Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Magnús hafi látist 21. desember 1999 og eigi því eignin samkvæmt erfðaskránni að ganga til elsta sonar hans, Þorsteins Magnússonar Hjaltested. Lýstu erfingjar því yfir að enginn ágreiningur væri meðal þeirra um að jörðin, skv. ofanskráðu, falli óskipt til Þorsteins Hjaltested og hafi engin áhrif á arfstilkall hans úr hinu óskipta búi. Þá var þess jafnframt óskað að þinglýstu leyfi Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, dagsettu 19. janúar 2000, til setu í óskiptu búi á jörðina Vatnsenda, yrði aflýst í fullu samræmi við skiptayfirlýsingu þessa. Búsetuleyfi ekkju Magnúsar Hjaltested, Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, skuli leiðrétt til samræmis við þessa kvöð samkvæmt erfðaskránni. Samþykk ofanrituðu og þá sérstaklega leiðréttingu á búsetuleyfi undirritar Kristrún Ólöf Jónsdóttir. Þá undirrita Vilborg Hjaltested, Marteinn Hjaltested og Sigurður Kristján Hjaltested ofangreinda skiptayfirlýsingu. Var hún móttekin til þinglýsingar 12. desember 2000 og innfærð í þinglýsingabók 14. desember 2000.

                Dánar- og félagsbú Sigurðar Kristjáns Hjaltested var tekið til opinberra skipta með úrskurði 25. febrúar 1967 sem kveðinn var upp á skiptafundi að Vatnsenda. Vék skiptaráðandinn, Sigurgeir Jónsson bæjarfógeti, sæti án kröfu, þar sem hann hafði komið að því að sætta sjónarmið og taka afstöðu til ágreinings utan réttar. Var Unnsteinn Beck borgarfógeti í kjölfar skipaður setuskiptaráðandi.

                Fyrir liggur í gögnum málsins bréf sýslumannsins í Reykjavík til Karls Lárusar Hjaltested frá 30. nóvember 2007, þar sem tekið er fram að samkvæmt  sýslumannsins í Reykjavík hafi dánarbú Sigurðar K. Hjaltested, sem lést 13. nóvember 1966, verið skráð eignalaust. Annað bréf liggur fyrir í málinu frá sýslumanninum í Reykjavík, dagsett 9. maí 2008, til Karls Lárusar Hjaltested þar sem segir að samkvæmt  sýslumannsins í Reykjavík hafi dánarbú Sigurðar K. Hjaltested, sem lést 13. nóvember 966, verið skráð eignalaust, þar sem prestur hafi tilkynnt andlátið og ekkert verið aðhafst af hálfu erfingja vegna skipta. Engin dagsetning sé skráð um hvenær skiptum á dánarbúinu hafi verið lokið sem eignalausu samkvæmt 26. gr. skiptalaga.

                Með bréfi, dagsettu 12. febrúar 2008, vottar Þjóðskjalasafn Íslands að á Þjóðskjalasafni Íslands hafi ekki fundist gögn um dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested á Vatnsenda, d. 1966. Leitað hafi verið í erfðafjárskýrslum úr Reykjavík frá 1967, 1968 og 1969 og skiptabókum í Reykjavík fyrri hluta árs 1967 en þar sé ekkert minnst á þetta dánarbú, enda hefði átt að skipta því í umdæmi sýslumannsins í Gullbringusýslu.

                Í mars og maí 2008 óskaði lögmaður Sigurðar K. Hjaltested og Karls Lárusar Hjaltested  eftir staðfestingu á skiptalokum hjá sýslumanninum í Kópavogi. Með bréfi 29. maí 2008 upplýsti sýslumaður að ekkert fyndist um skiptalok hjá embættinu. Þá segir í bréfi dómsmála- og mannréttindaráðuneytis frá 13. maí 2010 að engin gögn hafi fundist um skiptalok í ofangreindu dánarbúi. Þá segir í bréfi Þjóðskjalasafns Íslands frá 1. júní 2010 að við ítrekaða leit yfir tiltekinn árafjölda hafi engin gögn komið í ljós sem sýna að skiptum vegna dánarbús Sigurðar Hjaltested væri lokið.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 29. september 2009 var kröfu Sigurðar Kristjáns Hjaltested, Karls Lárusar Hjaltested og Sigríðar Hjaltested, um að bú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested yrði tekið til opinberra skipta, hafnað á þeim forsendum að skiptum væri ekki formlega lokið. Var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar í máli nr. 599/2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 26. maí 2011 hafnaði dómurinn beiðni sömu sóknaraðila, um að skipaður yrði nýr skiptastjóri í umræddu dánarbúi. Var þeirri niðurstöðu snúið við með dómi Hæstaréttar í málinu 375/2011 þann 24. ágúst 2011. Segir í dómi Hæstaréttar að fallast verði á með sóknaraðilum að ekki hafi veri sýnt fram á að skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested, sem hófust í skiptarétti Kópavogs 25. nóvember 1967, hafi verið lokið með formlegum hætti svo sem skylt var að lögum. Leiði þetta til þess að taka beri kröfu þeirra um skipun skiptastjóra til að ljúka skiptunum til greina. Þá segir að ekki skipti í því efni máli, þótt fyrir liggi að jörðin Vatnsendi sé ekki lengur meðal eigna búsins, þar sem Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, elsta syni Sigurðar Kristjáns Hjaltested, hafi verið afhent jörðin á skiptafundi í dánarbúi Sigurðar 7. maí 1968, svo sem fram komi og staðfest sé í dómi Hæstaréttar 30. maí 1969, sem birtur sé á blaðsíðu 780 í dómasafni réttarins það ár. Var skiptastjóri skipaður í kjölfar 18. nóvember 2011. Er ágreiningur sem þar hefur komið upp og vísað var til dómsins með bréfi 13. febrúar sl. til úrlausnar í máli þessu.

II

Af hálfu sóknaraðila Hansínu Sesselju, Finnborgar og Guðmundar Gíslabarna, Margrétar Margrétardóttur, Gísla, Elísu og Kristjáns Þórs Finnsbarna er byggt á því að  Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested hafi aðeins fengið jörðina til umráða og afnota samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Hjaltested. Sigurður hafi litið á sig sem „ábúanda og umbjóðanda jarðarinnar“. Hafi Sigurður Kristján því farið með óbeinan eignarrétt yfir jörðinni. Var og bannað að selja jörðina, auk þess sem takmarkanir voru á veðsetningu hennar. Sömu sjónarmið og skilmálar giltu þá og gilda enn gagnvart þeim sem leiða rétt sinn frá Sigurði Kristjáni og greindri erfðaskrá. Geta þeir hvorki hafa öðlast meiri rétt en Sigurður Kristján heitinn hafi átt né haft rýmri heimildir til ráðstöfunar jarðarinnar í heild eða hluta en hann hafi haft.

                Þá byggja þau einnig á því að Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi fengið jörðina aðeins til umráða og afnota. Sé það staðfest í dómi Hæstaréttar frá 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 en þar komi fram að elsta syni Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, kt. 280341-2079, væri áskilinn réttur til að taka við Vatnsendajörðinni til „ábúðar og hagnýtingar ... með þeim takmörkunum og skilmálum,“ sem greindi í áðurnefndri erfðaskrá. Hafi honum í kjölfarið verið afhent „umráð og afnot“ jarðarinnar, sbr. dóm Hæstaréttar frá 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968.  Þau umráð og afnot hafi hins vegar ekki falið í sér beinan eignarrétt eða bein eignarráð yfir jörðinni heldur óbein eignarréttindi, þ.e. umráð og afnot jarðarinnar sem ábúandi hennar. Bein eignarráð yfir jörðinni hafi eftir sem áður verið í höndum dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Hefur ekki verið leitt í ljós að Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi síðar öðlast önnur og meiri eignarráð yfir Vatnsenda en umráð og afnot jarðarinnar. Hefur hvorki honum né erfingjum hans verið útlögð jörðin til eignar né hafa þeir keypt eignina af dánarbúinu. Hafa Magnús Sigurðsson Hjaltested og erfingjar hans, varnaraðilar í þessu máli, því aldrei öðlast bein eignarráð yfir jörðinni Vatnsenda. Þá geti engu breytt um framangreinda niðurstöðu þótt litið yrði svo á að Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested hefði eftir andlát Magnúsar Einarssonar Hjaltested fengið bein eignarráð yfir jörðinni, hvort heldur sem var á grundvelli erfðaskrár þess síðarnefnda eða vegna þess að aðrir mögulegir erfingjar Magnúsar Einarssonar Hjaltested hafi ekki haft uppi kröfur í dánarbú hans. Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi í öllu falli aldrei fengið jörðina Vatnsenda sér útlagða til eignar eftir andlát Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og sé hún því enn eign óskipts dánarbús hans.

                Þá er byggt á því að jörðin Vatnsendi hafi ekki verið talin til eigna dánarbús Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Vekja sóknaraðilar sérstaka athygli á því að í leyfi til setu í óskiptu búi til handa ekkju Magnúsar, varnaraðila Kristrúnar Ólafar, dagsettu 19. janúar 2000, sé jörðin Vatnsendi ekki talin til eigna dánarbúsins heldur einungis tvö hús í byggingu á jörðinni. Bendi þetta til þess að varnaraðilum hafi verið fullljóst að jörðin Vatnsendi hefði ekki lotið beinum eignarrétti Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested heitins og kæmi því ekki til skipta. Síðari ráðstöfun réttinda yfir jörðinni til varnaraðila Þorsteins, elsta sonar Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, geti því ekki tekið til annarra réttinda en Magnús hafi sjálfur haft, þ.e. til óbeinna eignarréttinda eða umráða og afnota yfir henni, og þá með þeim skilyrðum sem tilgreind séu í erfðaskránni, dagsettri 4. janúar 1938. Geti varnaraðili Þorsteinn því hvorki unnið betri rétt gagnvart öðrum erfingjum Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested með svonefndri skiptayfirlýsingu varnaraðila, erfingja Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, dagsettri 21. nóvember 2000, né geti sú yfirlýsing haft nokkra efnislega þýðingu við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Hafi varnaraðili Þorsteinn verið, eins og aðrir varnaraðilar, grandsamur um betri rétt dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested.

                Auk þessa kveða sóknaraðilar bein eignarráð jarðarinnar Vatnsenda vera dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Kveða þau að af framangreindu leiði að bein eignarráð jarðarinnar Vatnsenda séu enn í höndum dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Hafi þeim beinu eignarráðum aldrei verið ráðstafað úr dánarbúinu. Elsti sonur Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, Magnús Sigurðsson Hjaltested heitinn, hafi aldrei fengið eignina lagða sér út til eignar eftir andlát föður síns, óháð því hvort hann hafi átt til þess rétt og uppfyllt skilyrði þar um. Af því leiði þá þegar að bein eignarráð jarðarinnar séu enn í höndum dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Síðari gerningar erfingja Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, sem þeim hafi mátt a.m.k. vera ljóst að væru ólögmætir og í andstöðu við betri rétt dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, breyti ekki þeirri staðreynd. Verði því að fallast á kröfu sóknaraðila og viðurkenna að jörðin sé eign síðastgreinds dánarbús.

Við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested kunni að reyna á meintan rétt Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, elsta sonar Sigurðar Kristjáns, og að honum gengnum varnaraðila Þorsteins, elsta sonar Magnúsar, til að fá jörðina sér útlagða til eignar á grundvelli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettrar 4. janúar 1938. Telja sóknaraðilar að ekki séu skilyrði til þess. Á það ágreiningsefni reynir hins vegar ekki í máli þessu.

Auk ofangreinds telja sóknaraðilar að  greiðslur fyrir einstaka hluta jarðarinnar hafi  átt að renna til dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Fyrir liggi að hvorki Magnús Sigurðsson Hjaltested, kt. 280341-2079, né erfingjar hans, einn eða fleiri, hafi haft heimild til sölu jarðarinnar í heild eða hluta og séu ekki handhafar beins eignarréttar að jörðinni. Eftir sem áður hafi þeir tekið við greiðslum frá Kópavogsbæ vegna svonefnds eignarnáms a.m.k. sem hér greinir: 1. Eignarnám 8. maí 1992 á 20,5 hekturum lands, kr. 31.000.000. 2. Eignarnám 13. maí 1998 á 54,5 hekturum lands, kr. 180.000.000 o.fl. 3. Eignarnám 1. ágúst 2000 á 90,5 hekturum lands, kr. 237.470.008 o.fl. 4. Eignarnám 30. janúar 2007 á 864 hekturum, kr. 2.250.000.000 o.fl. (að núvirði um kr. 3.550.000.000).

Samkvæmt framansögðu hafi Kópavogsbær tekið við a.m.k. 1.029,5 hekturum lands úr jörðinni Vatnsenda á undanförnum 20 árum. Fari bærinn nú með eignarráð þess lands, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá 1. desember 2011 í máli nr. 247/2011, þ.e. beinan eignarrétt yfir landinu. Hafi Kópavogsbær greitt sem svari milljörðum króna að núvirði fyrir land úr jörðinni Vatnsenda, sem bærinn hafi fengið bein eignarráð yfir, án þess að ein einasta króna hafi skilað sér til réttmæts eiganda jarðarinnar, dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Þess í stað hafi umráðamenn jarðarinnar, Magnús Sigurðsson Hjaltested, kt. 280341-2079, og eftir andlát hans, dánarbú hans, og enn síðar varnaraðili Þorsteinn, persónulega tekið við greiðslum sem með réttu hefðu átt að renna til allra erfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Séu þá ótaldar aðrar greiðslur til þeirra, þ. á m. í formi byggingarréttar, niðurfellingar gatnagerðargjalda o.fl. Um ágreining vegna þessa verði hins vegar frekar fjallað við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Reyni því ekki á þann ágreining í máli þessu.

Sóknaraðilar vísa, til stuðnings máli sínu, til ákvæða erfðalaga nr. 8, 1962, einkum 1. og 2. gr. Jafnframt er vísað til ákvæða laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20, 1991, einkum IV., X., XVI. og XVII. kafla. Málskostnaðarkrafa varnaraðila styðst við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20, 1991. Um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50, 1988, en varnaraðilar eru ekki virðisaukaskattsskyldir.

Sóknaraðilar, Sigurður Kristján Hjaltested, kt. 050262-4139, Marargötu 4, 190 Vogum, og Karl Lárus Hjaltested, kt. 300663-4869, Ósabakka 19, 109 Reykjavík, gera sömu dómkröfur og ofangreindir sóknaraðilar.

Sóknaraðilar hafna þeirri túlkun skiptastjóra dánarbúsins að jörðin Vatnsendi sé ekki meðal eigna dánarbúsins en hann byggi þá ákvörðun meðal annars á orðalagi í niðurstöðum Hæstaréttar í málinu nr. 375/2011 en þar segi að jörðin Vatnsendi sé ekki lengur á meðal eigna búsins. Sóknaraðilar eru ósammála þessari túlkun/skýringu skiptastjóra á greindum dómi Hæstaréttar Íslands. Í honum segir m.a.: „Fallist verður á með sóknaraðilum að ekki hafi verið sýnt fram á að skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested, sem hófust í skiptarétti Kópavogs 25. nóvember 1967, hafi verið lokið með formlegum hætti svo sem skylt var að lögum.  Leiðir þetta til þess að taka ber kröfu þeirra um skipun skiptastjóra til að ljúka skiptunum til greina.  Skiptir í því efni ekki máli þótt fyrir liggi að jörðin Vatnsendi er ekki lengur meðal eigna búsins, þar sem Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, elsta syni Sigurðar Kristjáns Hjaltested, var afhent jörðin á skiptafundi í dánarbúi Sigurðar 7. maí 1968 svo sem fram kemur og staðfest er í dómi Hæstaréttar 30. maí 1969, sem birtur er á blaðsíðu 780 í dómasafni réttarins það ár.“  Sóknaraðilar byggja á því að ágreiningur hafi ætíð staðið um efni erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 og sé eignarrétturinn á jörðinni sjálfri á hendi dánarbús Sigurðar Lárussonar Hjaltested sem lést 13. nóvember 1966.

Í dómi Hæstaréttar frá 30. maí 1969 nr. 99/1968 segi m.a.: „Sigurður Lárusson Hjaltested lézt 13. nóvember 1966.  Við upphaf skipta í febrúarmánuði 1967 á dánar- og félagsbúi Sigurðar og eftirlifandi maka, Margrétar G. Hjaltesteds, aðaláfrýjanda máls þessa, kom upp ágreiningur um gildi erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds, en Magnús, sonur Sigurðar af fyrra hjónabandi, gagnáfrýjandi í máli þessu, reisti rétt sinn til viðtöku á jörðinni Vatnsenda í Kópavogi á þessari erfðaskrá.  Í úrskurði skiptadóms Kópavogs hinn 24. júlí 1967 var ekki talið, „að eftirlifandi maka landseta samkvæmt erfðaskránni sé áskilinn búseta á jörðinni eftir lát hans“. Varð niðurstaða skiptadóms, að Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested var „áskilinn réttur eftir látinn föður sinn til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda“.  Hafi þessi úrskurður skiptadóms verið staðfestur í Hæstarétti hinn 5. apríl 1968.  Á skiptafundi hinn 7. maí 1968 í greindu búi segi m.a. „lýsti skiptaráðandi yfir því, að hann afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, Sólbakka, Vatnsenda, umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda í Kópavogskaupstað með því, sem henni fylgir og fylgja ber, samkvæmt þeim réttindum, sem honum sem erfingja eru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. jan. 1938 og 29. okt. 1940, að geymdum rétti þeirra, sem löglega kunna að eiga tilkall til afnota eða annarra réttinda á jörðinni eða hluta hennar.“

Byggja sóknaraðilar á því sem að ofan segir að Magnús Hjaltested, faðir núverandi tilsjónarmanns Vatnsenda, Þorsteins Hjaltested, hafi fengið jörðina Vatnsenda afhenta til umráða og afnota (og eftir atvikum ábúðar) en ekki til eignar. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 375/2011 sé það áréttað að ljúka beri skiptum í dánarbúi Sigurðar Hjaltested þrátt fyrir að jörðin Vatnsendi hafi verið afhent úr búinu til umráða og afnota, svo sem að ofan hefur verið lýst, og sé þar af leiðandi ekki meðal eigna búsins. Í máli þessu sé í raun tekist á um eignarréttinn að Vatnsendajörðinni.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að faðir þeirra, Sigurður Kristján Hjaltested, d. 13. nóvember 1966, sem síðast bjó á Vatnsenda í Kópavogi, hafi eignast jörðina með erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dags. 4. jan. 1938. Reifa sóknaraðilar ofangreinda erfðaskrá og vísast til hennar í 1. kafla hér að ofan. Þar segi í 1. grein. „Allar eignir mínar – fastar og lausar – skulu ganga að erfðum til  Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, með þeim nánari takmörkunum og skilyrðum er nú skal greina. a. Hann má ekki selja fasteign þá er ég nú á – Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi – er hann fær að erfðum með þessari arfleiðsluskrá, né heldur veðsetja hana fyrir meiru en sem nemur 50% af fasteignamati jarðarinnar og þó aðeins til greiðslu erfðafjárskatts ef með þarf, eða nauðsynlegra, varanlegra endurbóta á húsum jarðarinnar eða henni sjálfri. b. Hann skal búa á eigninni sjálfur sbr. þó það er síðar segir um föður hans undir tölulið 2.“ Í þessu sambandi árétta sóknaraðilar að Hæstiréttur Íslands hafi í dómi sínum nr. 599/2009, þar sem sóknaraðilar þessa máls, ásamt Sigríði Hjaltested, deildu við varnaraðila m.a. um það hvort taka ætti dánarbú Sigurðar Kristjáns Hjaltested til opinberra skipta, tekið afstöðu til eignaréttar að Vatnsendajörðinni. Í greindum dómi segir m.a.: „Samkvæmt gögnum málsins var Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested fæddur 11. júní 1916 og búsettur að Vatnsenda í Kópavogi þegar hann lést árið 1966, en þá jörð hafði hann eignast samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 eftir að sá síðarnefndi lést 31. október 1940.  Til arfs eftir Sigurð stóðu eftirlifandi maki hans, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, tveir synir þeirra, sóknaraðilarnir Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested, fæddir 1962 og 1963, og þrjú börn Sigurðar af fyrri hjúskap, Magnús Hjaltested, fæddur 1941, Markús Ívar Hjaltested, fæddur 1944, og sóknaraðilinn Sigríður Hjaltested, fædd 1951.  Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested mun hafa látist á árinu 2004, en Magnús Hjaltested 1999.  Eftirlifandi maki Magnúsar er varnaraðilinn Kristrún Ólöf Jónsdóttir og eru aðrir varnaraðilar börn þeirra.“ Í þessum dómi Hæstaréttar segir jafnframt: „Á grundvelli dóma Hæstaréttar í tveimur af þeim málum, annars vegar frá 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 og hins vegar frá 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968, skyldi jörðin koma í hlut Magnúsar Hjaltested við skiptin, en samkvæmt framlögðu veðbókarvottorði frá árinu 1976 var hann á þeim tíma þinglýstur eigandi hennar á grundvelli heimildarbréfs frá 30. maí 1969.  Í málinu hafa á hinn bóginn ekki verið lögð að öðru leyti fram gögn til staðfestingar því að opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar hafi verið lokið og þá eftir atvikum hvernig það var gert.“  Með öðrum orðum hafi Hæstiréttur Íslands staðfest með dómi þessum annars vegar að Sigurður Kristján Hjaltested, d. 13. nóv. 1966, hafi erft eignarréttinn að Vatnsendajörðinni með framangreindri erfðaskrá og hins vegar hafi sonur hans, Magnús Hjaltested, d. 1999, erft umráð og afnot eignarinnar. Núverandi tilsjónarmaður Vatnsenda, Þorsteinn Hjaltested, geti aldrei öðlast meiri rétt en faðir hans hafi haft og takmarkist réttur hans til Vatnsendajarðarinnar við umráð og afnot hennar. 

                Sóknaraðilar kveða málatilbúnað varnaraðila byggjast, að því er virðist, á því að Magnús Hjaltested, d. 1999, og síðar sonur hans, Þorsteinn, hafi erft eignaréttinn að Vatnsendajörðinni. Því sé mótmælt. Skora sóknaraðilar á varnaraðila að leggja fram gögn er staðreyni það, svo sem erfðafjárskýrslur og staðfestingar á greiðslu erfðafjárskatts. Ekki sé deilt um það í máli þessu að Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested (d. 13. nóv. 1966) hafi eignast Vatnsendajörðina með erfðaskrá, dags. 4. janúar 1938, skv. framansögðu.

                Sóknaraðilar Sigríður Hjaltested, kt. 040451-4639, og Markús Ívar Hjaltested, kt. 020744-3169, gera sömu kröfur og fyrrnefndir sóknaraðilar í máli þessu. Varðandi málavexti, rök og málsástæður vísa þau til greinargerða þeirra fyrir skiptastjóra og byggja þau á sömu málsástæðum og fyrrnefndir sóknaraðilar.

III.

Varnaraðilar máls þessa mótmæla öllum kröfum sóknaraðila auk þess sem þau krefjast málskostnaðar. Um málavexti vísa varnaraðilar til dóms Hæstaréttar í málinu 599/2009 og úrskurðar héraðsdóms Reykjaness frá 29. september 2009 sem hafi verið staðfestur í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar auk þess sem þau vísa til dóm Hæstaréttar í máli nr. 375/2011.

                Málsástæður varnaraðila eru þær helstar að samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 375/2011 skyldi skipa skiptastjóra til að ljúka skiptum í dánarbúi Sigurðar Kr. Hjaltested. Í dómi réttarins í því máli sé vísað til dóms Hæstaréttar frá 30. maí 1969. Í því máli hafi verið staðfest ákvörðun skiptaráðanda á skiptafundi 7. maí 1968 en á þeim fundi „lýsti skiptaráðandi því yfir, að hann afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested Sólbakka, Vatnsenda, umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda í Kópavogskaupstað með því sem henni fylgir og fylgja ber samkvæmt þeim réttindum sem honum sem erfingja eru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested dagsettri 1. janúar 1938 og 29. okt. 1940 að geymdum rétti þeirra sem löglega kunna að eiga tilkall til afnota eða annarra réttinda á jörðinni eða hluta hennar, enda tekur Ólafur Þorgrímsson hæstaréttarlögmaður, ásamt erfingjanum ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar, erfðafjárskatts og annarra opinberra gjalda sem á erfingjana kann að falla í sambandi við skiptin“. Kveða varnaraðilar að þarna sé verið að lýsa úthlutun eignaumráða jarðarinnar en ákvörðun skiptaráðanda á skiptafundi 7. maí 1968 hafi verið dómsathöfn og bindandi úrlausn gagnvart erfingjum dánarbúsins um úthlutun jarðarinnar úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested. Hafi þessi ákvörðun um úthlutun og afhendingu jarðarinnar verið staðfest með dómi Hæstaréttar frá 30. maí 1969. Dómur Hæstaréttar í málinu nr. 375/2011 byggist á þessari ráðstöfun og kveði úr um það að jörðin Vatnsendi sé ekki lengur meðal eigna dánarbús Sigurðar Kr. Hjaltested.

                Þá vísa varnaraðilar til þess að með dómum Hæstaréttar í málum nr. 599/2009, 110/1967 og 99/1968 hafi því verið slegið föstu að jörðin Vatnsendi kom í hlut Magnúsar Hjaltested við skiptin. Skiptastjóra, sem skipaður hefur verið til að ljúka skiptum með formlegum hætti í dánarbúi Sigurðar Kr. Hjaltested, beri að gæta fyrirmæla XX. kafla 1aga nr. 20/1991 og vísa varnaraðilar sérstaklega til 3. mgr. 148. gr. laga nr. 20/1991 in fine. Þar segi að ákvæði laga nr. 20/1991 skuli gilda um framhald opinberra skipta eftir 1. júlí 1992 og lok þeirra, en fyrri ráðstafanir skuli ekki haggast af þeim sökum.

                Varnaraðilar vísa einnig til 153. gr. laga nr. 20/1991 þar sem áréttuð sé sú regla að fyrri ákvarðanir og úrskurðir skiptaráðanda fyrir gildistöku laga nr. 20/1991 skuli standa óhaggaðir. Þá vísa þau til 2. mgr. 154. gr. laganna þar sem með gagnályktun megi ráða að eftir að mál hafi verið þingfest í skiptarétti verði ágreiningsmál ekki leitt til lykta eftir reglum 122. gr. laganna. Í því tilviki sem hér um ræði sé raunar genginn dómur Hæstaréttar um ágreiningsefnið, sbr. dóm nr. 99/1968. Áður hafi gengið dómur Hæstaréttar um gildi erfðaskrárinnar í máli nr. 110/1967 og þar verið kveðið upp úr með að Magnúsi Hjaltested væri „einum af erfingjum arflátans áskilinn réttur til umráða og búsetu á jörðinni Vatnsenda“ eins og segi í forsendum dómsins.

                Telja varnaraðilar kröfur sóknaraðila ganga gegn afdráttarlausum niðurstöðum Hæstaréttar um að Vatnsendajörð tilheyri dánarbúinu ekki og fái þar af leiðandi ekki staðist. Í þeim felist að héraðsdómur felli úr gildi og snúi við afdráttarlausum og áréttuðum dómsúrlausnum Hæstaréttar og lýsi þær ómerkar. Vísa varnaraðilar hvað þetta varðar til ákvæða 116. gr. einkamálalaga um res judicata áhrif dóma. Í málatilbúnaði sóknaraðila sé innbyggð alvarleg þversögn þess efnis að inntak eignarhalds Sigurðar Kr. Hjaltested hafi verið með öðrum hætti en eignarhald Magnúsar Hjaltested á Vatnsendajörð og sé því alfarið mótmælt.

                Varnaraðilar kveða sóknaraðila Hansínu, Finnborgu, Guðmund, Margréti, Gísla, Elísu og Kristján ekki erfingja í dánarbúi Sigurðar Kr. Hjaltested og beri að hafna kröfum þeirra á grundvelli aðildarskorts.

                Varnaraðilar vísa til laga nr. 20/1991, aðallega 148. gr., 153. gr. og 2. mgr. 154. gr., til 116. gr. laga nr. 91/1991 og til dómsúrlausna Hæstaréttar sem áður hafa gengið um málefni dánarbús Sigurðar Kr. Hjaltested.

IV

Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort jörðin Vatnsendi sé meðal eigna í dánar- og félagsbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eða ekki. Sóknaraðilar halda því fram að eignarhald á jörðinni hafi aldrei flust frá dánarbúinu og skuli því koma til skipta á dánarbúinu en varnaraðilar halda því fram að jörðin hafi verið afhent afkomendum Sigurðar eftir andlát hans, þ.e. Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested sem aftur lét hana til Þorsteins Hjaltested sem kveðst vera löglegur eigandi jarðarinnar í dag.

Varnaraðilar í máli þessu byggja meðal annars á því að sóknaraðilar Hansína Sesselja Gísladóttir, Finnborg Bettý Gísladóttir, Guðmundur Gíslason, Margrét Margrétardóttir, Gísli Finnsson, Elísa Finnsdóttir og Kristján Þór Finnsson eigi ekki aðild að máli þessu og því beri að hafna kröfum þeirra. Óháð úrlausn ágreinings máls þessa liggur fyrir að skiptum á félags- og dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hefur ekki verið lokið formlega. Þar til að svo hefur verið gert eiga þeir, sem telja sig eiga til arfs eftir hann, aðild að máli því sem hér er til úrlausnar. Sigurður Kristján Lárusson var giftur Margréti Guðmundsdóttur Hjaltested þegar hann lést á árinu 1966. Til arfs eftir hann voru eftirlifandi eiginkona og börn hans samkvæmt 1. mgr. erfðalaga nr. 8/1962. Margrét, eftirlifandi eiginkona Sigurðar, lést á árinu 2004 og var þá skiptum á félags- og dánarbúi þeirra beggja ólokið. Til arfs eftir Margréti voru börn hennar sem eru Hansína, Finnborg, Guðmundur, Margrét og Finnur en hann er látinn. Eftirlifandi börn hans eru lögerfingjar hans, sem eru Gísli, Elísa og Kristján Þór. Eiga þau því tilkall til arfs eftir hann. Samkvæmt þessu verður ekki tekið undir það með varnaraðila að ofangreindir aðilar eigi ekki aðild að máli þessu og er þeirri málsástæður varnaraðila hafnað.

Þá byggja varnaraðilar kröfu sína á res judicata áhrifum dóms Hæstaréttar í málinu nr. 375/2011, sem vísar í dóm réttarins frá 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968, þar sem Hæstiréttur hafi staðfest ákvörðun skiptaráðanda á skiptafundi 7. maí 1968, en á þeim fundi hafi skiptaráðandi lýst því yfir að hann afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, Sólbakka, Vatnsenda, umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda í Kópavogskaupstað með því sem henni fylgir og fylgja ber, samkvæmt þeim réttindum sem honum sem erfingja eru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar frá 4. janúar 1938, að geymdum rétti þeirra sem löglega kunna að eiga tilkall til afnota eða annarra réttinda á jörðinni eða hluta hennar, enda taki Ólafur Þorgrímsson hrl., ásamt erfingjanum, ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar, erfðafjárskatts og annarra opinberra gjalda sem á erfingjana kann að falla í sambandi við skiptin. Telja varnaraðilar að hér sé verið að lýsa úthlutun eignaumráða jarðarinnar og þessi ákvörðun hafi verið dómsathöfn og bindandi úrlausn gagnvart erfingjum dánarbúsins um úthlutun jarðarinnar úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested. Því verði ekki dæmt um þennan ágreining aftur samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

Þessu mótmæla sóknaraðilar og telja eingöngu afnota- og umráðarétti yfir jörðinni hafa verið ráðstafað með arfleiðslugjörningnum.

Þegar Magnús Einarsson Hjaltested ritaði arfleiðsluskrá sína 4. janúar 1938 og staðfesti aftur 1940 var jörðin Vatnsendi hvorki óðalsjörð né giltu um jörðina erfðareglur um erfðaábúð. Á þeim tíma gilti erfðatilskipun frá 25. september 1850 og þar til erfðalög nr. 42 frá 1949 voru sett. Voru ákvæði um bréferfðir nánast þau sömu frá 1850 til 1949 utan breytinga um erfðatilkall sem gerðar voru 1921 og 1923. Um það þarf ekki að fjalla hér þar sem Magnús Einarsson Hjaltested dó ógiftur og barnlaus. Var honum því heimilt að ráðstafa eignum sínum með arfleiðsluskrá þar sem hann átti enga lögerfingja við andlát.

Arfleiðsluskrá sú sem liggur fyrir í máli þessu ber allan keim af erfðarétti óðals sem var þó óheimilt samkvæmt þágildandi lögum um jörðina Vatnsenda. Verður því að túlka arfleiðslugjörninginn samkvæmt orðanna hljóðan en ekki voru lagaskilyrði á þeim tíma né síðar að binda arfinn þeim kvöðum sem skýrlega kemur fram í gjörningnum. þannig að með jörðina yrði farið sem óðalsjörð. Í erfðaskránni sjálfri segir í 1. gr.: „Allar eignir mínar- fastar og lausar- skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, með þeim nánar takmörkunum og skilyrðum er nú skal greina. Eru síðan talin upp nánar tiltekin skilyrði fyrir ráðstöfun, afnotum, sölu og veðsetningu á jörðinni. Samkvæmt þessu orðalagi verður ekki annað ráðið en að jörðin sjálf, það er, eignaumráð hennar, hafi með erfðagjörningi þessum farið til arfþega, Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Heimildir hans til afnota, umráða, sölu og annarra nytja samkvæmt erfðaskránni falla utan eignaréttar Sigurðar. Samkvæmt þessu átti jörðin Vatnsendi að falla til eigna dánarbús Sigurðar eftir andlát hans. Af gögnum málsins liggur fyrir að farið var með jörðina Vatnsenda samkvæmt skilyrðum erfðaskrárinnar, allt fram til dagsins í dag. Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested lét eftir sig lögerfingja þegar hann lést 1966. Voru þá í gildi erfðalög nr. 8 frá 1962.

Í úrskurði skiptadóms Kópavogs 24. júlí 1967 var tekist á um það hvort enn væru forsendur fyrir beitingu erfðaskrárinnar þar sem ekki væri búskapur lengur á jörðinni Vatnsenda. Gátu sóknaraðilar í því máli ekki sýnt fram á að svo væri ekki og voru forsendur fyrir beitingu erfðaskrárinnar ekki taldar brostnar þannig að réttur Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested til ábúðar á jörðinni væri fallinn niður. Segir í úrskurðinum að: Varnaraðila, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, er áskilinn réttur eftir látinn föður sinn til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda í Kópavogskaupstað, með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir eru í arfleiðsluskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1939.  Málskostnaður fellur niður. Staðfesti Hæstiréttur Íslands þessa niðurstöðu í dómi þann 5. apríl 1968 í málinu nr. 110/1967. Í þessu máli byggðu áfrýjendur á því að forsendur fyrir búrekstri á jörðinni væru brostnar og því væri ekki lengur hægt að fullnægja skilyrðum erfðaskrárinnar. Hafnaði Hæstiréttur því og staðfesti úrskurð skiptadóms Kópavogs.

Verður tekið undir það með sóknaraðilum máls þessa að eignarrétturinn að jörðinni Vatnsenda hafi ekki verið færður yfir, með úrskurði þessum, til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, heldur eingöngu rétturinn til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda. Þá niðurstöðu styðja ummæli lögmanns Magnúsar sjálfs í greinargerð hans til Hæstaréttar en þar segir orðrétt: „Það er ekki eignarrétturinn að jörðinni Vatnsenda, sem erfist, heldur ábúðar og afnotarétturinn. Af þeirri ástæðu er útilokað að ekkja Sigurðar Hjaltested eigi rétt til áframhaldandi ábúðar. Umbj. m. sækir ekki rétt sinn til jarðarinnar til föður síns, Sigurðar heldur beint til arfleifanda, Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Auk þessa segir í greinargerð Ólafs Þorgrímssonar hrl. þann 5. júní 1967, lögmanns Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested: „Erfðaskrá þessi er all sérstæð og gjörhugsuð. Með henni er í rauninni gjörð einskonar sjálfseignastofnun úr öllum eignum arfláta. Og það er aðeins umráðarétturinn og rétturinn til að njóta arðs af eignum, sem erfist, en ekki óskoraður eignaréttur. Er ljóst að með þessu vildi arfláti tryggja það að eignirnar tvístruðust ekki og yrðu að engu og jafnframt að elsti sonurinn í ætt Lárusar frænda hans hefði örugga fjárhagslega afkomu og væri einskonar ættarhöfðingi.

Þá byggja varnaraðilar á því að sú ráðstöfun á skiptafundi þann 7. maí 1968, þar sem skiptaráðandi hafi lýst því yfir að hann afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested Sólbakka, umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda með því sem henni fylgdi og fylgja ber, samkvæmt þeim réttindum, sem honum sem erfingja eru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1938 og staðfest 29. október 1940, að geymdum rétti þeirra sem löglega kunna að eiga tilkall til afnota eða annarra réttinda á jörðinni eða hluta hennar, hafi verið ígildi dómsathafnar og sé bindandi að lögum í dag. Þetta hafi verið staðfest með dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 nr. 99/1968. Ekki verður ráðið af ummælum í úrskurði skiptaráðanda að eignarhald á jörðinni hafi verið ráðstafað með þessu orðalagi, heldur einungis umráða- og afnotarétti á jörðinni. Ekki var verið að fjalla um eignarréttinn á jörðinni og hefur ekki verið dæmt um hann sem slíkan áður. Verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað.

Þann 25. júní 1968 var kveðinn upp úrskurður í fógetadómi Kópavogs þar sem réttur Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested til búsetu og ábúðar var staðfestur og samþykkt að bera ekkju Sigurðar Lárussonar Hjaltested út af jörðinni. Var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 í máli nr. 117/1968. Þann sama dag gekk dómur í Hæstarétti í máli nr. 99/1968 þar sem kröfu um ómerkingu skiptaréttar á afhendingu jarðarinnar til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested var hafnað og var ákvörðun skiptadóms Kópavogs um afhendingu umráða og afnota fasteignarinnar til hans staðfest.

Gegn mótmælum sóknaraðila, verður ekki litið svo á að með ofangreindu álitaefni hafi eignarhald á jörðinni Vatnsenda verið fært yfir til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, en eingöngu var verið að leysa úr ágreiningi um heimild til útburðar af jörðinni. Verður þeirri málsástæðu varnaraðila að dæmt hafi verið um þetta álitaefni áður því hafnað.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, þann 29. september 2009 var gerð krafa um að bú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested yrði tekið til opinberra skipta. Kröfðust varnaraðilar að þeirri kröfu yrði hafnað. Segir í forsendur úrskurðarins: „Í þessu máli er það eitt til úrlausnar hvort taka eigi búið til opinberra skipta á ný þar sem skiptum hafi ekki verið lokið með lögformlegum hætti. Krafa sóknaraðila byggist ekki á því að einhverjum eignum hafi verið haldið utan skipta og þess vegna beri að taka skipti upp að nýju. Óumdeilt er að Magnús Hjaltested fékk jörðina út úr skiptunum og Margrét Hjaltested allt lausafé og búfénað. Hér að framan er það rakið að skipti hófust og var þeim framhaldið. Mörg ágreiningsmál komu upp sem úrskurðað var í, þ. á m. um gildi erfðaskrárinnar. Með dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 var jörðinni endanlega úthlutað úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Jörðin komst í eigu Magnúsar Hjaltested með lögmætum hætti og getur þar af leiðandi ekki komið aftur til skipta. Litið verður svo á að þar sem ekki var bókað í skiptarétti um ábyrgð erfingja á skuldum búsins, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 31/1878, hafi verið farið með búið eftir 3. kapítula laganna, enda fór innköllun fram. Fallist er á með varnaraðilum að líklegt sé að skiptum hafi lokið eftir 42. gr. eða 43. gr. laga nr. 3/1878 en ekki var lagaskylda að auglýsa skiptalok sérstaklega.“ Var kröfu sóknaraðila í þessu máli um að bú Sigurðar K. Lárussonar Hjaltested yrði tekið aftur til opinberra skipta hafnað. Var þessi niðurstaða staðfest í Hæstaréttar í málinu nr. 599/2009.

Í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 599/2009, sem staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms segir orðrétt: „Fyrir liggur í málinu að aðgerðir við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hófust fyrir skiptarétti Kópavogs 25. febrúar 1967 eftir fyrirmælum þágildandi laga nr. 3/1878 um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl. Í hinum kærða úrskurði er í meginatriðum greint frá því, sem ráðið verður af gögnum málsins um framvindu þeirra opinberu skipta allt til miðs árs 1969, en í tengslum við þau voru meðal annars rekin nokkur ágreiningsmál fyrir dómstólum, einkum að því er varðaði jörðina Vatnsenda. Á grundvelli dóma Hæstaréttar í tveimur af þeim málum, annars vegar frá 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 og hins vegar frá 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968, skyldi jörðin koma í hlut Magnúsar Hjaltested við skiptin, en samkvæmt framlögðu veðbókarvottorði frá árinu 1976 var hann á þeim tíma þinglýstur eigandi hennar á grundvelli heimildarbréfs frá 30. maí 1969. Í málinu hafa á hinn bóginn ekki verið lögð að öðru leyti fram gögn til staðfestingar því að opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar hafi verið lokið og þá eftir atvikum hvernig það var gert.“ Var ekki verið að fjalla um efnislegan eignarrétt erfingja Sigurðar Kristjáns heitins í ofangreindu máli né hvort eignarréttur á jörðinni hafi færst með arfleiðslugjörningi yfir til Sigurðar eða afnota- og nytjaréttur eins og segir í arfleiðslugjörningnum sjálfum, heldur það hvort búið skyldi tekið aftur til opinberra skipta. Verður því ekki litið svo á, þrátt fyrir þetta orðalag úrskurðar Héraðsdóms og dóms Hæstaréttar, að eignarrétturinn á jörðinni Vatnsenda hafi með orðalagi dómsins flust yfir til erfingja Sigurðar Lárussonar heitins.

Verður því tekið undir kröfur sóknaraðila að með þessu orðalagi hafi Hæstiréttur ekki verið að staðfesta eignarétt varnaraðila á jörðinni Vatnsenda, heldur eingöngu afnota- og nytjarétt.

Þá byggja varnaraðilar kröfu sína á dómi Hæstaréttar í málinu nr. 375/2011, sem vísar í dóm réttarins frá 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968, þar sem Hæstiréttur hafi staðfest ákvörðun skiptaráðanda á skiptafundi 7. maí 1968, en á þeim fundi hafi skiptaráðandi lýst því yfir að hann afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, Sólbakka, Vatnsenda, umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda í Kópavogskaupstað með því sem henni fylgir og fylgja ber, samkvæmt þeim réttindum sem honum sem erfingja eru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar frá 4. janúar 1938, að geymdum rétti þeirra sem löglega kunna að eiga tilkall til afnota eða annarra réttinda á jörðinni eða hluta hennar, enda taki Ólafur Þorgrímsson hrl., ásamt erfingjanum, ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar, erfðafjárskatts og annarra opinberra gjalda sem á erfingjana kann að falla í sambandi við skiptin. Telja varnaraðilar að hér sé verið að lýsa úthlutun eignaumráða jarðarinnar og þessi ákvörðun hafi verið dómsathöfn og bindandi úrlausn gagnvart erfingjum dánarbúsins um úthlutun jarðarinnar úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested. Því verði ekki dæmt um þennan ágreining aftur samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

Þessu mótmæla sóknaraðilar og telja eingöngu afnota- og umráðarétti yfir jörðinni hafa verið ráðstafað með arfleiðslugjörningnum.

Verður tekið undir það með sóknaraðilum máls þessa að eignarrétturinn að jörðinni Vatnsenda hafi ekki verið færður yfir, með úrskurði þessum, til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Þessa niðurstöðu styðja ummæli lögmanns Magnúsar sjálfs í greinargerð hans til Hæstaréttar eins og rakið er hér að ofan. Ekki er tekið undir það með varnaraðilum að ráðið verði af ummælum í úrskurði skiptaráðanda að eignarhald á jörðinni hafi verið ráðstafað með þessu orðalagi, heldur einungis umráða- og afnotarétti á jörðinni. Ekki var verið að fjalla um eignarréttinn á jörðinni. Verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 375/2011 segir að jörðin Vatnsendi sé  ekki lengur meðal eigna búsins. Kveða varnaraðilar að þarna sé verið að lýsa úthlutun eignaumráða jarðarinnar með ákvörðun skiptaráðanda á skiptafundi 7. maí 1968. Hafi þessi ákvörðun um úthlutun og afhendingu jarðarinnar verið staðfest með dómi Hæstaréttar frá 30. maí 1969. Dómur Hæstaréttar í málinu nr. 375/2011 byggist á þessari ráðstöfun og kveði úr um það að jörðin Vatnsendi sé ekki lengur meðal eigna dánarbús Sigurðar Kr. Hjaltested en þar segi: „Fallist verður á með sóknaraðilum að ekki hafi verið sýnt fram á að skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested, sem hófust í skiptarétti Kópavogs 25. nóvember 1967, hafi verið lokið með formlegum hætti svo sem skylt var að lögum. Leiðir þetta til þess að taka ber kröfu þeirra um skipun skiptastjóra til að ljúka skiptunum til greina. Skiptir í því efni ekki máli þótt fyrir liggi að jörðin Vatnsendi er ekki lengur meðal eigna búsins, þar sem Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, elsta syni Sigurðar Kristjáns Hjaltested var afhent jörðin á skiptafundi í dánarbúi Sigurðar 7. maí 1968 svo sem fram kemur og staðfest er í dómi Hæstaréttar 30. maí 1969, sem birtur er á blaðsíðu 780 í dómasafni réttarins það ár.“  

Í máli þessu var gerð krafa um að skipaður yrði nýr skiptastjóri í félags- og dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested. Hafnaði héraðsdómur þeirri kröfu en þeirri niðurstöðu var hnekkt af Hæstarétti í máli þessu og lagt fyrir héraðsdóm að skipa skiptastjóra til að ljúka skiptum á dánarbúinu. Engar efnislegar röksemdir eru færðar fram í dómi Hæstaréttar nr. 375/2011, sem styðja þá fullyrðingu sem fram kemur í forsendum dómsins um að jörðin Vatnsendi sé ekki lengur meðal eigna búsins. Var heldur ekki tekist á um það í málinu fyrir héraði eða Hæstarétti. Verður því ekki talið, þrátt fyrir þetta orðalag í dómum Hæstaréttar, að eignayfirfærsla á jörðinni hafi færst frá dánar- og félagsbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested yfir til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Þá eru ummæli í forsendum úrskurðar héraðsdóms Reykjaness frá 29. september 2009, sem staðfestur var í Hæstarétti í málinu 599/2009, byggð á því að jörðinni Vatnsenda hafi endanlega verið úthlutað úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Segir þar að jörðin hafi komist í eigu Magnúsar Hjaltested með lögmætum hætti og geti þar af leiðandi ekki komið aftur til skipta. Í þessu máli var ágreiningur um það hvort taka ætti dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested aftur til opinberra skipa en ekki um eignarhald á jörðinni. Þrátt fyrir þetta orðalag um eignarhald á jörðinni telur dómurinn nú að eignarhaldið hafi aldrei flust frá félags- og dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested yfir til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, heldur eingöngu afnota- og umráðaréttur á jörðinni eins og ítarlega hefur verið rakið.

Hefur upptalning eigna á leyfi til setu í óskiptu búi til Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, ekkju Magnúsar Hjaltested, þann 14. desember 2000 og  yfirlýsing Þorsteins Hjaltested, innfærð í þinglýsingabækur sýslumannsins í Kópavogi sama dag, enga þýðingu varðandi eignarhaldið á jörðinni Vatnsenda.

Ber samkvæmt þessu að taka kröfur sóknaraðila til greina eins og segir í úrskurðarorði.

Að þessum málalokum virtum ber að dæma varnaraðila in solidum til að greiða sóknaraðilum málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 300.000 krónur til handa hverjum þeirra. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Jörðin Vatnsendi, Kópavogi, ásamt öllu því er eigninni fylgir og fylgja ber, skal vera meðal eigna dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sem lést þann 13. nóvember 1966. 

Varnaraðilar greiði in solidum sóknaraðilum, hverjum um sig, 300.000 krónur í málskostnað.