Hæstiréttur íslands

Mál nr. 257/2000


Lykilorð

  • Læknir
  • Almannatryggingar
  • Skaðabótamál
  • Stjórnsýsla
  • Framsal valds
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. mars 2001.

Nr. 257/2000.

Björgvin Magnús Óskarsson

(Gunnar Jónsson hrl.

Hörður F. Harðarson hdl.)

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

(Karl Axelsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hdl.)

og gagnsök

 

Læknar. Almannatryggingar. Skaðabótamál. Stjórnsýsla. Framsal valds. Gjafsókn.

B, sem er sérfræðingur í svæfingalækningum, starfrækti læknastofu sína frá 14. desember 1990. Á árunum 1991 og 1992 voru greiðslur til hans frá T skertar með úrskurðum samráðsnefndar T og Læknafélags Reykjavíkur vegna ófullnægjandi sjúklingabókhalds, óhóflegrar komutíðni sjúklinga og misnotkunar á gjaldskrá. Dregið var úr skerðingunum með ákvörðun 9. desember 1997, en þær hertar með ákvörðun 25. maí 1999. B krafðist ógildingar síðastnefndrar ákvörðunar auk skaðabóta. Taldi hann samráðsnefndina ekki bæra til að ákvarða skerðingu greiðslna frá T og því væri um óheimilt valdframsal að ræða frá T til nefndarinnar. Hæstiréttur féllst ekki á það. Var talið að sú ráðstöfun að leggja framkvæmdina í hendur samráðsnefndar, sem skipuð væri fulltrúum beggja aðila, væri innan heimildar laga nr. 117/1993. Að mati Hæstaréttar voru reglur stjórnsýslulaga ekki brotnar er samráðsnefndin tók ákvörðun síns 25. maí 1999 og því voru ekki talin efni til að ógilda hana. Ákvörðun héraðsdóms um að synja B um skaðabætur vegna skerðinga á árunum 1991 og 1992 var staðfest, enda hafði B sætt sig við skerðingarnar og ekki hreyft athugasemdum fyrr en 1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 3. júlí 2000. Hann krefst þess, að héraðsdómur verði staðfestur að því er varðar kröfu um ógildingu ákvörðunar samráðsnefndar Læknafélags Reykjavíkur og gagnáfrýjanda um svæfingalækningar utan sjúkrahúsa frá 25. maí 1999, um „taxtanotkun“ aðaláfrýjanda, og gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða sér 30.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. september 1999 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 20. september 2000. Hann krefst sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi tilkynnti aðaláfrýjandi 14. desember 1990 gagnáfrýjanda og Læknafélagi Reykjavíkur um opnun læknastofu með vísan til samnings þeirra um sérfræðilæknishjálp. Aðaláfrýjandi, sem er sérfræðingur í svæfingalækningum, hefur frá þeim tíma starfrækt læknastofu í Reykjavík sem einkafyrirtæki sitt og hefur ekki stundað vinnu annars staðar. Samráðsnefnd tveggja fulltrúa gagnáfrýjanda og tveggja fulltrúa Læknafélags Reykjavíkur, sbr. 1. mgr. 9. gr. samnings um sérfræðilæknishjálp frá 12. janúar 1991, skerti greiðslur frá gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda með úrskurðum 29. nóvember 1991 og 2. desember 1992. Tilefni skerðinganna var sagt vera ófullnægjandi sjúklingabókhald, óhófleg komutíðni sjúklinga og misnotkun á gjaldskrá. Með ákvörðun samráðsnefndar 9. desember 1997 var aðeins dregið úr fyrrnefndum skerðingum, en þær voru síðan hertar með ákvörðun nefndarinnar 25. maí 1999.

Í máli þessu krefst aðaláfrýjandi ógildingar á ákvörðun samráðsnefndar frá 25. maí 1999. Telur hann samráðsnefndina ekki vera bæra til að ákveða skerðingu greiðslna frá gagnáfrýjanda. Hér sé um að ræða óheimilt valdframsal frá gagnáfrýjanda til nefndarinnar, þar sem hvorki sé heimild til þess í lögum né samningum um sérfræðilæknishjálp. Þá krefst aðaláfrýjandi einnig skaðabóta vegna þess tjóns, sem framangreindar skerðingar hafi valdið honum.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar, nú 36. gr. laga nr. 117/1993, skulu sjúkratryggingar veita hjálp við nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir hjá sérfræðingum eða stofnunum, sem Tryggingastofnun ríkisins hefur gert samning við. Í 39. gr. laga nr. 117/1993 segir, að Tryggingastofnun ríkisins geri samninga um greiðslur samkvæmt IV. kafla laganna um sjúkratryggingar. Í 1. mgr. 41. gr. segir, að stofnuninni beri að leita bestu mögulegra kjara, að teknu tilliti til gæða, á þeim vörum og þjónustu, sem hún greiðir eða tekur þátt í að greiða samkvæmt lögunum, og í 2. mgr. er kveðið á um heimild sjúkratryggingadeildar til að semja við stofnanir, fyrirtæki eða einstaklinga um þá þjónustu, sem henni ber að veita samkvæmt lögunum. Kostnaður sjúkratrygginga greiðist að fullu úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 42. gr.

 Í framangreindum ákvæðum er ekki fjallað um það, hvernig staðið skuli að samningum við lækna, en um langt skeið hafa gagnáfrýjandi og fulltrúar lækna haft með sér samstarf um framkvæmdina á grundvelli 36. gr. laganna og gert með sér samninga um sérfræðilæknishjálp. Samningar þeir, sem hér skipta máli, eru frá 12. janúar 1991, sem framlengdur var með breytingum 15. ágúst 1995, og frá 7. mars 1996, en þeir eru allir milli gagnáfrýjanda og Læknafélags Reykjavíkur, og loks samningur frá 29. mars 1998, sem er milli Læknafélags Reykjavíkur fyrir hönd svæfingalækna og gagnáfrýjanda.

Í 9. gr. sérfræðisamningsins frá 12. janúar 1991 segir, að samningsaðilar skuli í sameiningu vinna að eðlilegri og samræmdri beitingu gjaldskrár og skuli skipa sérstaka samráðsnefnd, sem í séu tveir menn frá hvorum aðila. Í 3. mgr. 9. gr. er fjallað um hlutverk nefndarinnar, sem er: „1. Að gera minni háttar breytingar á umsaminni gjaldskrá aðila. 2. Að skera úr ágreiningi um flokkun lækna í afsláttarflokka skv. 3. gr. 3. Skera úr ágreiningi um hvort læknisverk heyri undir sérgrein viðkomandi læknis. Getur nefndin krafið viðkomandi sérfræðing um sannanir fyrir því að hann hafi fengið tilskilda þjálfun til að vinna viðkomandi læknisverk, þó að það falli ekki undir sérgrein hans. 4. Önnur atriði er varða samskipti TR og LR eða einstakra lækna milli funda samninganefnda.“ Með breytingu, sem gerð var á samningnum 15. ágúst 1995, var bætt inn svohljóðandi ákvæði í 9 gr.: „Samráðsnefnd skv. 9. gr. aðalsamnings skal hafa heimild til að ákvarða einstökum sérfræðingum hámark eininga fyrir læknisverk, ef starfsaðferðir þeirra víkja frá því sem tíðkast í viðkomandi sérgrein eða falla ekki að umsaminni gjaldskrá miðað við þá tímaviðmiðun, sem samráðsnefnd telur hæfilega. Nefndin fylgist með framkvæmd samningsins og úrskurðar um álitamál sem upp kunna að koma. Úrskurðir nefndarinnar skulu vera bindandi fyrir aðila hans. Að öðru leyti vísast til ákvæða aðalsamnings um hlutverk samráðsnefndar.“

Samkvæmt lögum nr. 117/1993 er það gagnáfrýjandi, sem gera skal samninga um greiðslur við sérfræðilækna. Hann semur við samtök lækna og í þeim samningum er samráðsnefnd falin framkvæmdin. Greiðslur gagnáfrýjanda fyrir sérfræðiþjónustu eru liður í almannatryggingakerfi ríkisins og eru takmarkaðar við þá sérfræðiþjónustu, sem talin er nauðsynleg. Verður að telja, að sú ráðstöfun að leggja framkvæmdina í hendur samráðsnefnd, sem skipuð er fulltrúum beggja aðila, sé innan heimilda laga nr. 117/1993, sbr. 2. mgr. 41. gr. Liggja og málefnaleg sjónarmið þar að baki, sem leiða til þess, að lögmætu markmiði almannatryggingalöggjafarinnar verði náð. Er því ekki fallist á, að um ólögmætt framsal sé að ræða af hálfu gagnáfrýjanda.

III.

Eins og að framan greinir var ekki í sérfræðisamningnum frá 12. janúar 1991 ákvæði um heimild samráðsnefndar til að setja hámark á einingafjölda læknis, ef starfsaðferðir hans viku frá því, sem tíðkaðist í viðkomandi sérgrein eða féllu ekki að umsaminni gjaldskrá miðað við þá tímaviðmiðun, sem samráðsnefnd taldi hæfilega. Það ákvæði kom fyrst inn í sérfræðisamninginn 15. ágúst 1995. Í úrskurðunum frá 1991 og 1992, sem kváðu á um skerðingu aðaláfrýjanda, var tekið fram, að þeir væru gerðir samkvæmt 4. tl. 3. mgr. 9. gr. sérfræðisamningsins frá 12. janúar 1991. Hafa báðir samningsaðilar túlkað samninginn frá 1991 á þennan veg, og verður að líta svo á, að áðurnefnd breyting á samningnum 15. ágúst 1995 hafi falið í sér staðfestingu á henni. Eins og lýst er í héraðsdómi sætti aðaláfrýjandi sig við skerðingarnar og hreyfði ekki athugasemdum fyrr en 1997. Eru engin efni til að greiða áfrýjanda skaðabætur vegna þessara skerðinga.

IV.

Í ákvörðun samráðsnefndar frá 25. maí 1999 var tekið fram, að 19. júní 1998 hefði gagnáfrýjandi óskað eftir áliti embættis landlæknis á því, hvort eðlilega hefði verið staðið að meðferð ákveðinna sjúklinga aðaláfrýjanda. Niðurstaða embættis landlæknis 5. nóvember 1998 var, að svo hefði ekki verið. Talið var ljóst, að aðaláfrýjandi stundaði meðferð, sem stangaðist á við 2. mgr. 3. gr. sérfræðisamnings frá 29. mars 1998, sem segir, að læknir skuli stunda góða, viðurkennda læknisfræði. Taldi nefndin óeðlilegt, að verkjameðferð væri veitt sama sjúklingi oftar en við fimm komur á hverju sex mánaða tímabili, og voru greiðslur gagnáfrýjanda takmarkaðar við það. Var ákvörðun þessi byggð á 10. gr. samningsins, sem er samhljóða 9. gr. samningsins frá 1995. Auk þess var tekið fram, að ákvarðanir þær, sem teknar voru með úrskurðunum 1992 og 1997 skyldu haldast óbreyttar, þ.e. að greiðslur skyldu að hámarki vera 24,0 einingar á komu að meðaltali og aldrei greitt fyrir fleiri en 130 komur á mánuði að meðaltali.

Fyrir liggur, að aðaláfrýjanda var gefinn kostur á að tjá sig um bréf gagnáfrýjanda til landlæknis 19. júní 1998 og um efni umsagnar sérfræðings, sem landlæknisembættið leitaði til og gerði að sínu áliti. Þá var honum einnig gefinn kostur á andmælum, áður en samráðsnefndin tók ákvörðun sína 25. maí 1999. Gagnáfrýjandi tilkynnti aðaláfrýjanda ákvörðunina með bréfi 26. maí 1999. Þar kom fram, að samráðsnefnd hefði ákveðið, að innan sex mánaða yrði hann heimsóttur af fulltrúum nefndarinnar, sem myndu kynna sér hvernig hann stæði að meðferð sjúklinga sinna og hvernig hann færði sjúkraskrár. Í kjölfar þeirrar heimsóknar kynni ákvörðunin að verða endurskoðuð. Verður því ekki lagt til grundvallar, að ákvörðunin hafi átt að vera endanleg og óumbreytanleg. Þegar framangreint er virt verður ekki talið, að reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotnar, er samráðsnefndin tók ákvörðun sína. Eru því ekki efni til að ógilda ákvörðun nefndarinnar frá 25. maí 1999.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna gagnáfrýjanda af öllum kröfum aðaláfrýjanda.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest. Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Tryggingastofnun ríkisins, skal vera sýkn af kröfum aðaláfrýjanda, Björgvins Magnúsar Óskarssonar.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 350.000 krónur.

 

                                   

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2000.

I

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 12. ágúst 1999 og dómtekið 14. f.m.

Stefnandi er Björgvin Magnús Óskarsson, kt. 071037-4799, Neshömrum 10, Reykjavík.

Stefndi er Tryggingastofnun ríkisins, kt. 660269-2669, Laugavegi 114, Reykjavík.

Stefnandi krefst:

I.  Skaðabóta að fjárhæð 30.000.000 króna úr hendi stefnda með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingardegi til greiðsludags.

II.  Ógildingar á ákvörðun samráðsnefndar Læknafélags Reykjavíkur og Tryggingastofnunar ríkisins um svæfingarlækningar utan sjúkrahúsa, dags. 25. maí 1999, um „taxtanotkun“ stefnanda.

Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en honum var veitt gjafsóknarleyfi 21. október 1999.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

II

Stefnandi er sérfræðingur í svæfingar- og deyfingarlækningum.  Frammi liggur tilkynning stefnanda, dags. 14. desember 1990, til stefnda og Læknafélags Reykjavíkur með vísun til samnings þessara aðila frá 27. mars 1984 um sérfræðilæknishjálp, um opnun læknastofu.  Hann hefur síðan starfrækt læknastofu í Reykjavík sem einkafyrirtæki sitt og ekki stundað störf annars staðar.

Í inngangi stefnu segir að stefndi hafi um langt árabil verið sem fulltrúi ríkisvaldsins aðili að samningum um sérfræðilæknishjálp utan sjúkrahúsa.  Stefnandi hafi fallið undir þá samninga og sé það forsenda fyrir rekstri einkarekinnar stofu.

Í b-lið 1. mgr. 43. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar, sbr. 3. gr. laga nr. 122/1989, var kveðið á um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við „nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir hjá sérfræðingum og stofnunum sem Tryggingastofnun ríkisins hefur samning við. . . . Fyrir hverja komu til sérfræðings greiði sjúklingur sérfræðingi gjald sem ákveðið skal með reglugerð.“  Ný almannatryggingalög, nr. 117/1993, tóku gildi 1. janúar 1994.  Í 36. gr. þeirra er ákvæði sama efnis og í 43. gr. eldri laganna um það sem var tilgreint hér að framan.

Framangreind lagaákvæði liggja til grundvallar samningum, sem frammi liggja í málinu, um sérfræðilæknishjálp milli Læknafélags Reykjavíkur og stefnda. 

Hinn elsti þeirra er frá 12. janúar 1991.  Í 3. mgr. 9. gr. hans er kveðið á um samráðsnefnd, skipaða tveimur mönnum frá hvorum aðila, sem hafi að hlutverki:

1)  Að gera minniháttar breytingar á umsaminni gjaldskrá aðila.

2)  Að skera úr ágreiningi um flokkun lækna í afsláttarflokk skv. 3. gr.

3)  Skera úr ágreiningi um hvort læknisverk heyri undir sérgrein viðkomandi læknis.

4)  Önnur atriði er varða samskipti TR og LR eða einstakra lækna milli funda samninganefnda.

Samningur þessi var framlengdur með nokkrum breytingum 15. ágúst 1995.  Að því er tekur til 9. gr. var breytingin þessi:  „Samráðsnefnd skv. 9. gr. aðalsamnings skal hafa heimild til að ákvarða einstökum sérfræðingum hámark eininga fyrir læknisverk ef starfsaðferðir þeirra víkja frá því sem tíðkast í viðkomandi sérgrein eða falla ekki að umsaminni gjaldskrá miðað við þá tímaviðmiðun sem samráðsnefnd telur hæfilega.  Nefndin fylgist með framkvæmd samningsins og úrskurðar um álitamál sem upp kunna að koma. Úrskurðir nefndarinnar skulu vera bindandi fyrir aðila hans.“    Með þessari breytingu var ákvæðið síðan áfram sem 9. gr. samnings Læknafélags Reykjavíkur og stefnda um sérfræðilæknishjálp frá 7. mars 1996 og sem 10. gr. samnings frá 29. mars 1998 milli stefnda og Læknafélags Reykjavíkur fyrir hönd svæfingarlækna um svæfingarlækningar utan sjúkrahúsa fyrir sjúkratryggða samkvæmt lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar.  Sú breyting hefur orðið í nýjasta samningum að í stað tveggja fulltrúa frá Læknafélagi Reykjavíkur er nefndin skipuð einum manni frá því félagi og einum frá Félagi íslenskra gjörgæslu- og svæfingarlækna auk tveggja manna frá stefnda.

Í öllum framangreindum samningum er vísað til þess að greiðslur skuli vera miðaðar við umsamdar gjaldskrár en í þeim er mælt fyrir um mismunandi einingafjölda fyrir hin einstöku læknisverk.  Þá er í samningunum kveðið á um einingaverð gjaldskránna en samkvæmt samningnum frá 29. mars 1998 nam það 160 krónum frá 1. febrúar til 31. desember 1998 og 165 krónum allt árið 1999.

Frammi liggja upplýsingar af skattframtölum um heildartekjur af læknastofu stefnanda en eiginkona hans starfar þar einnig.  Verulegur hluti þeirra hefur komið frá stefnda og sem dæmi nam sá hluti 4.771.172 krónum árið 1992 en tekjur af læknastofu, þ.e. greiðslur frá sjúklingum, 1.099.000 krónum og  árið 1998 námu greiðslur frá stefnda 4.053.057 krónum en tekjur af læknastofu 1,878.402 krónum.

Hinn 29. nóvember 1991 kvað samráðsnefnd LR og TR upp úrskurð til ákvörðunar greiðslu á reikningum stefnanda.  Um tilefni segir að það hafi verið mikill fjöldi reikninga, tíðar komur einstakra sjúklinga og mikil notkun gjaldliðsins 13-2-1, deyfðir verkir í stoðkerfi.  Niðurstaða:  „Þar sem ekki er heimild til þess að semja um greiðslur fyrir nálarstungumeðferð, sjúklingabókhald er ófullnægjandi og komutíðni sjúklinga er óhófleg verða greiðslur fyrir september og október 1991 skertar með eftirfarandi hætti:  Einingar skv. reikningi læknis í september 1991 voru 7.905 en verða 4.005 að frádregnum eðlilegum sjúklingshluta.  Einingar skv. reikningi læknis í október 1991 voru 8.352 en verða 4.012 að frádregnum eðlilegum sjúklingshluta.“  Úrskurðurinn var studdur við 4.tl. 3. mgr. 9. gr. sérfræðisamnings frá 12. janúar 1991.  Stefnandi áritaði úrskurðinn samdægurs um samþykki sitt.

Samráðsnefnd LR og TR úrskurðaði þ. 2. desember 1992 um greiðslu á reikningum frá stefnanda til stefnda fyrir sérfræðistörf í deyfingum.  Í úrskurðinum segir að stefnandi hafi verið kallaður fyrir nefndina þann sama dag vegna tíðra koma einstakra sjúklinga og mikillar notkunar á gjaldliðum fyrir ýmsar meiri háttar deyfingar.  Í viðræðunum hafi komið í ljós að í flestum tilvikum hafi verið um að ræða deyfingar á triggerpunktum.  Niðurstaða úrskurðarins er svohljóðandi:  „Á grundvelli ofangreindra upplýsinga og með vísan til fyrri afskipta og niðurstöðu nefndarinnar frá  29. nóvember 1991 var eftirfarandi ákveðið:  Þar sem sérfræðistörf læknisins byggjast einkum á viðtölum og deyfingum á triggerpunktum skal reikningsgerð vera í samræmi við slíka meðferð.  Greiðslum (TR og sjúklings) skulu frá 1. október  1992 settar þær skorður að þær verði að hámarki 21,0 eining á komu að meðaltali og aldrei verði greitt fyrir fleiri en 130 komur á mánuði að meðaltali.“  Um heimild til úrskurðarins var vísað til 4. tl. 3. mgr. 9. gr. sérfræðisamnings frá 12. janúar 1991.

Í málinu liggur frammi skjal á bréfsefni stefnda, dags. 2. desember 1998, undirritað af Katrínu Guðmundsdóttur þar sem vísað er til símtals við Kristján Guðjónsson.  Þar er greint frá efni framanritaðs úrskurðar og því lýst sem samkomulagi um takmörkun á greiðslu fyrir sérfræðireikninga frá stefnanda máls þessa. Skjalið  hefur ekki verið staðfest eða efni þess útskýrt fyrir dóminum.

Með bréfi 9. desember 1992 (dskj. 55) til Kristjáns Guðlaugssonar (svo), deildarstjóra sjúkratryggingadeildar stefnda, fór stefnandi fram á að mismunur á greiðslu til sín (kr. 400.000) og ákvörðun stefnda um 2730 einingar fyrir októbermánuð 1992 fengi að endurgreiðast með fjórum jöfnum greiðslum á árinu 1993 eftir innsendum reikningum fyrir janúar, febrúar, mars og apríl  1993.

Hinn 25. nóvember 1997 sendi stefnandi stefnda og „samráðsnefnd TRLR“ bréf (dskj. 14).  Þar segist hann reka eingöngu stofu, enga atvinnu hafa á sjúkrahúsi eða öðrum stað og nota aðallega verkja- og deyfingarmeðferð.  Síðan segir:  „Samkvæmt nauðungarsamningi, sem þrýst var á mig 1. okt. ´92, hef ég síðan fengið að hafa 130 komur á mánuði, sem jafngildir 6 – 7 sjúklingum á dag og með þaki þar á, þannig að ég hef fengið 21 ein. á komu.  Þetta hefur alls ekki gengið saman og hef ég orðið að leggja mig í stórskuldir . . . Smám saman hefur starfsemin aukist þannig að ég er kominn yfir nefndan kvóta og fer hér með fram á að hann verði hækkaður upp í 24 einingar á komu og 180 komur á mánuði og megi senda reikning samkvæmt því fyrir nóvember og desember í ár.“

Í bréfi til stefnanda, dags. 9. desember 1997, frá Katrínu Guðmundsdóttur, deildarstjóra sérfræðireikningadeildar sjúkratrygginga f.h. samráðsnefndar LR og TR, er skýrt frá því að á fundi nefndarinnar þ. 27. nóvember 1997 hafi verið lagt fram erindi hans dags. 25. nóvember s.á.  Nefndin hafi samþykkt að hækka kvótann í 24 einingar á komu en 130 komur á mánuði verði óbreytt; þetta gildi frá 1. nóvember 1997.

Með bréfi lögmanns stefnanda til samráðsnefndarinnar, dags. 12. júní 1998, var  óskað útskýringa á framkvæmd samnings TR og LR, vegna félags íslenskra gjörgæslu- og svæfingalækna, gagnvart stefnanda.  Í svarbréfi tryggingayfirlæknis, dags. 19. júní 1998, segir að samráðsnefndin hafi ítrekað ákvarðað persónulegar takmarkanir á framkvæmd samningsins gagnvart stefnanda vegna misbeitingar á umsaminni gjaldskrá. Fyrirhugað sé að nefndin fjalli enn á ný um mál stefnanda en beðið verði eftir úrskurði landlæknisembættisins um hvort hann hafi staðið eðlilega að meðferð sjúklinga sinna.  Vísað er til afrits af bréfi til landlæknis, dags. 19. júní 1998, þar sem tryggingayfirlæknirinn óskar eftir slíkri athugun.  Segir að lokum í bréfinu að þar til niðurstaða landlæknisembættisins liggi fyrir muni samráðsnefndin ekki taka frekari afstöðu til málsins.  Í tilvitnuðu bréfi til landlæknis voru raktar upplýsingar varðandi fjóra sjúklinga sem hafi komið oftast til stefnanda á árunum 1996 og 1997.  Óskað var eftir því að fram færi á vegum embættisins athugun á því hvort eðlilega hefði verið staðið að meðferð þeirra.  Með bréfi tryggingayfirlæknis, dags. 17. júlí 1998, til stefnanda var honum gefið tækifæri til að koma á framfæri skýringum eða athugasemdum varðandi meðferð umræddra sjúklinga.  Svarbréf með skýringum stefnanda er dagsett 10. ágúst 1998.

Með bréfi  lögmanns stefnanda, dags. 28. júlí 1998, til stefnda var skorað á hann að aflétta þegar skerðingu á einingafjölda til stefnanda og var áskorunin ítrekuð með bréfi 3. september s.á.  Í svarbréfi tryggingayfirlæknis frá 15. september 1998 var vísað til þess að beðið væri eftir áliti landlæknisembættisins á því  hvort meðferð tiltekinna sjúklinga stefnanda teldist læknisfræðilega tilhlýðileg.  Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 5. nóvember 1998, til stefnda kemur fram að hann telji einsýnt að stefndi sé ekki líklegur til þess að taka á máli stefnanda á málefnalegan hátt og muni hann vera tilneyddur að leita ásjár dómstóla.

Í bréfi aðstoðarlandlæknis til tryggingayfirlæknis frá 5. nóvember 1998 segir að mál stefnanda hafi verið borið undir þrjá sérfræðinga í svæfingum og deyfingum sem hafi verulega reynslu af verkjameðferð.  Hafi þeir allir verið á sama máli um að erfitt væri að réttlæta þá verkjameðferð sem hann stundi.  Óskað hafi verið eftir skriflegu áliti eins þessara sérfræðinga. Afrit þess fylgi og geri landlæknisembættið það álit að sínu.  Enn sé óvíst til hvaða aðgerða verði gripið af hálfu embættisins.  Málið muni væntanlega dragast eitthvað, meðal annars með tilliti til ákvæða stjórnsýslulaga um andmælarétt.  Hins vegar sé hið skriflega álit sent stefnda í heild til þóknanlegrar afgreiðslu varðandi samninga við stefnanda.

Í bréfi landlæknisembættisins, dags. 12. nóvember 1998, til stefnanda segir að vegna athugasemda stefnda hafi verið gerð ítarleg athugun á meðferð þeirra sjúklinga sem þar hafi verið sérstaklega getið.  Af hjálögðum athugasemdum sé ljóst að þær gefi tilefni til aðgerða af hálfu embættisins.  Stefnanda var veittur andmælaréttur til 30. nóvember 1998 en með bréfi embættisins 11. desember 1998 var fresturinn lengdur til 7. janúar 1999. 

Með bréfi stefnda til stefnanda, dags. 11. desember 1998, var vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. gr. gildandi samnings Læknafélags Reykjavíkur og stefnda um svæfingarlækningar utan sjúkrahúsa skuli læknir stunda góða, viðurkennda læknisfræði og að samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr., 11. gr. samningsins sé stefnda  heimilt að segja honum upp með þriggja mánaða fyrirvara gagnvart lækni sem  uppfylli ekki skyldur sínar samkvæmt samningnum.  Tilkynnti stefndi stefnanda að hann segði upp gagnvart honum gildandi samningi um svæfingalækningar utan sjúkrahúsa frá 29. mars 1998 miðað við 1. janúar 1999 og tæki uppsögnin þar með gildi 1. apríl 1999.

Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 5. janúar 1999, til landlæknisembættisins er skýrt frá því að stefndi hafi á grundvelli sömu athugasemda og embættið kalli eftir athugasemdum við sagt upp samningi við stefnanda.  Í ljósi þess sé vandséð hvaða tilgangi andmæli þjóni enda verði hugsanleg áminning ekki stórvægileg ógn þegar þannig hátti til.

Hinn 3. febrúar 1999 lagði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fyrir stefnda að fella framangreinda uppsögn úr gildi og veita stefnanda færi á að koma að athugasemdum sínum um þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðuninni áður en málið yrði tekið til ákvörðunar að nýju.

Stefndi tilkynnti stefnanda með bréfi 29. mars 1999 að vegna eindreginna tilmæla heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hefði verið ákveðið að draga uppsögnina til baka.

Hinn 9. apríl 1999 veitti landlæknir stefnanda skriflega áminningu samkvæmt 28. gr. læknalaga nr. 53/1988.  Þar er vísað til andmæla stefnanda í bréfi 19. febrúar 1999.  Í bréfinu segir:  „ . . .  Gagnrýnin beinist að óhóflegri, gagnslítilli og einhæfri meðferð þinni á verkjasjúklingum.  Sjaldan er leitað annarra úrræða.  Alþekkt er að heilbrigðisþjónusta lýtur að mörgu leyti öðrum lögmálum en viðskipti og þjónusta gerir á öðrum sviðum.  Læknirinn hefur þekkingu umfram sjúklinginn og getur í krafti þess ráðið að verulegu leyti magni þeirrar þjónustu sem veitt er.  Enginn þeirra úrdrátta sem þú sendir með bréfi þínu styður endalausa endurtekna meðferð með bupivacain í smáskömmtum.  Jafnframt er brýnt fyrir þér að halda nákvæma sjúkraskrá . . .“

Í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 12. apríl 1999, er skírskotað til áminningarbréfs landlæknis.  Til athugunar sé að segja upp gagnvart stefnanda samningi Læknafélags Reykjavíkur og stefnda um svæfingarlækningar utan sjúkrahúsa frá 29. mars 1998 þar sem ljóst sé að hann uppfylli ekki ákvæði samningsins um að stunda góða, viðurkennda læknisfræði.  Ákvörðun í málinu verði tekin 28. apríl og skuli athugasemdir, ef einhverjar séu, berast tryggingayfirlækni fyrir þann tíma.  Í svarbréfi lögmanns stefnanda 28. apríl 1999 er því áliti hans lýst að stefnda sé óheimilt að lögum að segja upp samningi við stefnanda.  Það er m.a. rökstutt með því að stjórnvaldi beri að beita vægustu viðurlögum til að ná fram settu marki.  Þeim hafi þegar verið beitt með  áminningu landlæknis.  Frekari viðurlögum verði því ekki beitt án þess að fyrst verði séð hvort áminningin nái ætluðum tilgangi sínum.

Með bréfi, dags. 6. maí 1999, sendi stefndi stefnanda ákvörðun samráðsnefndar samkvæmt samningi um svæfingarlækningar utan sjúkrahúsa.  Þar segir að fjallað hafi verið um málið á fundi samráðsnefndar þ. 7. maí og ákvörðun tekin 25. s.m.  Jafnframt hafi nefndin ákveðið að innan sex mánaða yrði stefnandi heimsóttur af fulltrúum hennar sem muni kynna sér hvernig hann standi að meðferð sjúklinga sinna og hvernig hann færi sjúkraskrár.  Í kjölfar þeirrar heimsóknar kunni ákvörðunin að verða endurskoðuð.

Framangreind ákvörðun er svohljóðandi:

„Til ákvörðunar er taxtanotkun Björgvins M. Óskarssonar, svæfingalæknis, kt. 071037-4799.

Þann 19. júní 1998 var óskað eftir áliti embættis landlæknis á því hvort eðlilega hafi verið staðið að meðferð ákveðinna sjúklinga Björgvins, í kjölfar fundar í samráðsnefnd LR og TR vegna ofangreinds samnings.  Niðurstaða embættis landlæknis (dagsett 5. nóvember 1998) var að svo hefði ekki verið.  Í kjölfar frekari  umfjöllunar landlæknisembættisins um málið var Björgvin þann 9. apríl 1999 veitt áminning skv. 28.gr. læknalaga.

Á grundvelli ofangreinds og annarra fyrirliggjandi gagna er ljóst að læknirinn stundar meðferð sem stangast á við 2. málsgrein 3. greinar ofangreinds samnings sem segir að læknir skuli stunda góða,  viðurkennda læknisfræði.

Samráðsnefnd vísar í ofangreint álit landlæknis og álit þriggja sérfræðinga sem landlæknir byggir álit sitt á.  Til samræmis við góða, viðurkennda læknisfræði ákveður samráðsnefnd að takmarka einingar læknisins á eftirfarandi hátt:

Niðurstaða:

Þar sem sérfræðistörf læknisins snúast um verkjameðferð skal reikningsgerð hans vera í samræmi við viðurkennda læknisfræði á því sviði.  Samráðsnefndin telur óeðlilegt að slík meðferð sé veitt sama sjúklingi oftar en við fimm komur á hverju sex mánaða tímabili.  Hér eftir skal TR því ekki greiða lækninum fyrir verkjameðferð sama einstaklings oftar en fimm sinnum á hverju sex mánaða tímabili.  Þannig greiði TR ekki fleiri einingar vegna sama sjúklings en hámark 120 á hverju sex mánaða tímabili, sbr. ákvörðun frá 27. nóvember 1997.

Ákvörðun þessi byggist á 10. grein ofangreinds samnings sem er frá 29. mars 1998.

Tekið skal fram að ákvörðun frá 27. nóvember 1997, sbr. ákvörðun frá 2. desember 1992, helst óbreytt, þ.e. greiðslur (TR og sjúklings) verði að hámarki 24,0 einingar á komu að meðaltali og aldrei verður greitt fyrir fleiri en 130 komur á mánuði að meðaltali.“

III

Málsástæður stefnanda.

Stefnandi kveður málshöfðuninni vera beint að Tryggingastofnun ríkisins vegna þess að ákvörðunarvald samráðsnefnda stefnda og Læknafélags Reykjavíkur byggist á valdframsali frá stefnda og hafi þær ekki lögbundið hlutverk.

Ákvarðanir um skerðingu gagnvart stefnanda feli í sér skerðingu á atvinnuréttindum hans samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 13. gr. laga nr. 97/1995.  Þær feli einnig í sér brot á jafnræðisreglu samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, lögfestri í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hafi aðrir læknar, m.a. þeir sem stundi nálarstungumeðferð, ekki þurft að þola samskonar meðferð af hálfu stefnda og hann.  Þá er vísað til samkeppnislaga nr. 8/1993 en afskipti stefnda af starfsemi stefnanda hafi að ósekju falið í sér óyfirstíganlegar samkeppnishömlur.  Ennfremur er vísað til læknalaga nr. 53/1988 um að stefnandi beri sem sérfræðilæknir ábyrgð á meðferð  þeirra sjúklinga sem leiti til hans eða hann hafi til umsjónar og til laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 um rétt sjúklings til að leita sér lækninga þar sem hann telur henta best.  Samkvæmt læknalögum og siðareglum lækna sé um að ræða  mat viðkomandi læknis á þjónustu sem miðist við ástand sjúklings í samráði við hann.

Skaðabótakrafa stefnanda er tvíþætt.  Annars vegar er krafist skaðabóta vegna fjártjóns að upphæð 24.617.431 króna og hins vegar miskabóta að upphæð 5.382.569 krónur.

Stefnandi telur skerðingarúrskurð samráðsnefndar Læknafélags Reykjavíkur og stefnda 2. desember 1992 og ákvörðun sömu nefndar, tilkynnta stefnanda 9. desember 1997, um framhald skerðingarinnar að mestu leyti,  hafa verið án lagastoðar og þar með ólögmætar.  Jafnvel þótt talið yrði að heimild til þeirra væri að finna í sérfræðilæknissamningnum fái framsal á slíku valdi til nefndar, sem eigi sér ekki styrkari lagagrundvöll, ekki staðist.  Andmælaréttur stefnanda hafi ekki verið virtur áður en upphafleg ákvörðun hafi verið tekin og ekki verði séð að fram hafi farið nákvæm rannsókn máls eins og brýnt hefði verið. Ekki verði séð að heimild hafi verið til þess í samningnum um sérfræðilæknishjálp að skerða einingafjölda af þeirri ástæðu, sem tilgreind hafi verið, þ.e. að sérfræðistörf stefnanda byggist „einkum á viðtölum og deyfingum á triggerpunktum“; sérstaklega er bent á að ekki komi til álita að ákveða hámarksfjölda koma á mánuði af þessum ástæðum. Samráðsnefndin hafi brotið gróflega gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins með því að ákveða skerðinguna ótímabundið og hafna því að aflétta henni. 

Upphæð skaðabótakröfunnar grundvallast á útreikningi Símonar Á. Gunnarssonar, löggilts endurskoðanda.  Þar er tjón stefnanda frá 1. október 1992 til ársloka 1998 reiknað sem mismunur þeirra tekna, sem stefnandi hefði fengið miðað við að fá greiddar 8000 einingar á mánuði samkvæmt gildandi gjaldskrám, og þeirra tekna sem stefnandi ávann sér í raun og tillit tekið til aukins rekstrarkostnaðar og skattalegra áhrifa.  Stefnandi hafi þegar í upphafi rekstrar síns verið farinn að gera reikninga sem námu 8000 einingum á mánuði.  Samkvæmt núgildandi samningi um svæfingalæknishjálp reiknist einstaklingsbundinn afsláttur þá fyrst er reikningar fari  umfram 8000 einingar á mánuði hjá þeim læknum sem vinni minna en 25% starf hjá öðrum.  Í kröfunni felist krafa um bætur metnar að álitum verði ekki fallist á að leggja framangreindan útreikning til grundvallar.  Tjón stefnanda sé gífurlegt.  Hann hafi svo árum skipti verið nauðbeygður til að takmarka læknisrekstur sinn við það einingafjöldaþak sem honum hafi verið sett.  Umstefndar ákvarðanir hafi veikt samkeppnisstöðu stefnanda verulega og hann hafi ekki haft aðstöðu til að byggja upp þá viðskiptavild sem annars hefði verið. Fullyrða megi að ákvarðanirnar hafi beinlínis verið til þess fallnar að fæla sjúklinga frá honum

Til stuðnings kröfu um ógildingu ákvörðunar er í fyrsta lagi vísað til meðalhófreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þær séu óhæfilega íþyngjandi og langt umfram upphaflegt tilefni sem stefnandi telur reyndar að hafi aldrei verið fyrir hendi.  Í öðru lagi er vísað til þess að engin efnisrök mæli með áframhaldandi skerðingu.  Landlæknisembættið hafi eingöngu fundið að því að verkjameðferð stefnanda væri einhæf og brýnt fyrir honum að halda nákvæmar sjúkraskrár.  Þá feli hinn nýja skerðingarákvörðun í sér að í raun sé áminningunni sleppt og farið beint í meiri refsingu.  Þversögn felist í því að stefnanda beri samkvæmt áminningu landlæknis að veita fjölbreyttari þjónustu en á hinn bóginn sé einingafjöldi hans skertur.  Skerðingin takmarki beinlínis möguleika stefnanda á að fara að tilmælum landlæknis.

Miskabótakrafa stefnanda byggist á því að í skerðingarákvörðunum samráðsnefndar stefnda og Læknafélags Reykjavíkur og framgöngu forsvarsmanna stefnda að öðru leyti felist ólögmæt meingerð gegn persónu stefnanda og atvinnufrelsi hans. Hann eigi því rétt á að fá ófjárhagslegt tjón sitt vegna þessa bætt samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. áður 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV

Málsástæður stefnda.

Ekki eru gerðar athugasemdir við aðild málsins.  Því er þó mótmælt að ákvörðunarvald samráðsnefndarinnar byggist á valdframsali frá stefnda heldur byggist það á frjálsum samningum Læknafélags Reykjavíkur við stefnda og tilkynningum einstakra lækna til þeirra um að eiga aðild að þessum samningum.  Stefnandi  hafi sent slíka tilkynningu, dags. 14. desember 1990, til félagsins og stefnda og átt þannig sjálfur ásamt öðrum læknum þátt í að veita samráðsnefndinni þau völd sem hér um ræðir.

Því er mótmælt að skerðingar þær sem hér um ræðir feli í sér skerðingu á atvinnuréttindum stefnanda.  Einnig eru í greinargerð stefnda sett fram rökstudd andmæli gegn því að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar og jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins, samkeppnislög nr. 8/1993, læknalög nr. 53/1988, siðareglur lækna og lög nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga hafi þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Því er mótmælt að skilyrði séu til að dæma stefnda til greiðslu skaðabóta.  Hefðu aðilar viljað gera ágreining um ákvörðun samráðsnefndarinnar hefði þeim borið nauðsyn til að hnekkja henni með dómi.  Skaðabótakrafa stefnanda lúti hins vegar að  því að fá tildæmdar bætur vegna atvika sem urðu áður en slík ógilding geti náð fram að ganga og beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda.   Þá er á því byggt að stefnandi  hafi veitt samþykki sitt við ákvörðun samráðsnefndarinnar frá  2. desember 1992.  Þegar af þeirri ástæðu komi ekki til álita að sú ákvörðun geti talist ógild gagnvart stefnda eða að stefndi geti orðið bótaskyldur við það eitt að fara eftir henni.  Með ákvörðun samráðsnefndarinnar frá 9. desember 1997 hafi verið tekin ívilnandi ákvörðun miðað við hina fyrri.  Þegar af þeirri ástæðu að stefnandi hafi samþykkt mun meira íþyngjandi skerðingu komi ekki til skaðabótaskyldu vegna þessarar síðari ákvörðunar sem rýmki rétt stefnanda til greiðslna frá stefnda.

Af hálfu stefnda er á því byggt að allt tjón stefnanda sé ósannað og að fjárhæð skaðabótakröfu hans sé allt að  því fjarstæðukennd.  Í áðurgreindu bréfi stefnanda til stefnda og samráðsnefndar TRLR frá 25. nóvember 1997 felist yfirlýsing hans um að það sé fyrst frá 1. nóvember 1997 sem hann telji sig hafa þann fjölda sjúklinga að hann geti unnið sér inn 4320 einingar á mánuði í stað 2730 áður.  Hækkun hafi síðan orðið á einingafjöldanum miðað við 1. nóvember 1997 og hann ákveðinn 3120.  Að auki sé ósannað að stefnandi hefði í reynd  haft nægilegan fjölda sjúklinga til að vinna sér inn sem svarar 4320 einingum á mánuði eftir 1. nóvember 1997.  Til samanburðar er nefnt að allt árið 1997 hafi einingar vegna læknisverka stefnanda verið að meðaltali 3294 á mánuði og árið 1998 3112.  Þá er því mótmælt að skilyrði séu til að upphæð bóta verði metin að álitum.  Auk alls þessa verði að líta til áralangs athafnaleysis stefnanda við að gæta réttar síns, samþykkis hans við skerðingum og þess að útreikningur á tjóni hans sé óglöggur og forsendur óljósar um margt.

Á því er byggt að engar forsendur séu fyrir ógildingarkröfu stefnanda.  Umræddar skerðingar feli í sér ákvörðun um að minnka  kaup stefnda á læknisþjónustu frá stefnanda.  Ákvörðun um takmarkanir á greiðslum vegna gagnslausrar og óviðurkenndar læknismeðferðar hljóti að leiða af sér þak eininga fyrir hverja heimsókn sjúklings og þak á heildarfjölda eininga.  Í áminningu landlæknis telji hann meðferð stefnanda á sjúklingum sínum óhóflega, gagnslitla og einhæfa og hafi því áliti ekki verið hnekkt auk þess sem það sé í samræmi við álit annarra lækna sem hafi komið að málinu.  Auk framangreinds álits landlæknis hafi legið fyrir að greiðslur til stefnanda hafi verið skertar 2. desember 1992 vegna tíðra koma einstakra sjúklinga og því ekki verið úrkostir annars en að skerða greiðslur til stefnanda enn frekar.

Því er mótmælt að framganga stefnda geti talist fela í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda.  Verði skilyrði hins vegar talin vera til greiðslu miskabóta er kröfufjárhæð stefnanda mótmælt sem fjarstæðukenndri.

V

Í málinu ræðir um stjórnsýslu samráðsnefndar Læknafélags Reykjavíkur og stefnda, eftir lögum um almannatryggingar, sem stefndi hefur falið henni.  Umstefndar ákvarðanir verða því metnar sem stjórnvaldsákvarðanir.

Ótvírætt verður talið af efni bréfa stefnanda frá 9. desember 1992 og 25. nóvember 1997, sem vitnað er til í II. kafla dómsins, og því að hann setti ekki sannanlega fram andmæli fyrr en á árinu 1998 að hann hafi samþykkt úrskurð samráðsnefndar Læknafélags Reykjavíkur og stefnda frá 2. desember 1992.  Þegar af þeirri ástæðu er ekki fallist á að stefndi hafi bakað sér bótaskyldu með því að fara eftir þeirri ákvörðun.  Með ákvörðun samráðsnefndar 27. nóvember 1997, sem var tilkynnt stefnanda bréflega 9. desember s.á., var að beiðni stefnanda tekin ívilnandi ákvörðun miðað við hina fyrri og réttur hans til greiðslna frá stefnda rýmkaður.  Af því leiðir þegar að eigi verður fallist á að skaðabótaskylda stefnda verði reist á þessari ákvörðun þótt með henni væri ekki að öllu leyti fallist á óskir stefnanda.

Samkvæmt þessu ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um skaðabætur vegna fjártjóns.

Ákvörðun samráðsnefndar 25. maí 1999 var reist á áminningu landlæknis 9. apríl s.á. og áliti landlæknis og þriggja sérfræðinga sem landlæknir byggði álit sitt á.  Með henni voru annars vegar staðfestar fyrri ákvarðanir frá 2. desember 1992 og 27. nóvember 1997 og hins vegar var ákveðin frekari skerðing á greiðslum stefnda til stefnanda.  Ekki er fram komið að sjálfstæð rannsókn nefndarinnar liggi til grundvallar ákvörðun þessari eða að það hafi verið gert, sem boðað var í bréfi stefnda til stefnanda 26. maí 1999, að nefndin mundi innan sex mánaða kanna starfshætti hans til  hugsanlegrar endurskoðunar á ákvörðuninni sem er ekki bundin tímamörkum.  Að því er tekur til hinnar auknu skerðingar, sem stefnanda var gert að sæta, var ákvörðun þessi ótímabær þar sem hún var tekin áður en á það gæti reynt hvort áminning hefði tilætluð áhrif.  Um ákvörðunina í heild var þess ekki gætt að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn bæri til, sbr. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt framangreindu ber að fallast á kröfu stefnanda um ógildingu ákvörðunar samráðsnefndar Læknafélags Reykjavíkur og stefnda um svæfingar­lækningar utan sjúkrahúsa frá 25. maí 1999 um „taxtanotkun“ stefnanda.

Ekkert bendir til að forsvarsmenn stefnda hafi látið stjórnast af vilja til að vinna stefnanda mein með því að fara að ákvörðunum samráðsnefndar og framgöngu þeirra að öðru leyti.

Samkvæmt þessu er eigi fallist á skaðabótakröfu stefnanda vegna miska.

Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda  greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Gunnars Jónssonar hrl., 400.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, er sýknaður af skaðabótakröfu stefnanda, Björgvins Magnúsar Óskarssonar.

Viðurkennt er að ákvörðun samráðsnefndar Læknafélags Reykjavíkur og stefnda um svæfingarlækningar utan sjúkrahúsa, dags. 25. maí 1999, um „taxtanotkun“ stefnanda sé ógild.

Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Gunnars Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.