Hæstiréttur íslands
Mál nr. 39/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 19. janúar 2007. |
|
Nr. 39/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Fallist var á kröfu L um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. janúar 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili neitar sakargiftum. Krafa sóknaraðila er byggð á a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili hefur gefið framburðarskýrslu um ferðir sínar umræddan dag og hefur lögregla ekki lokið prófun á sannleiksgildi hennar með yfirheyrslu vitna. Með vísan til þessa þykja vera til staðar rannsóknarhagsmunir samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2007.
Fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. janúar nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að upphaf máls þessa megi rekja til þess að lögreglu bárust í gær, 15. janúar 2007, nokkrar tilkynningar um að maður væri að reyna að lokka stúlkur inn í bifreið sína. Mun fyrsta atvikið hafa átt sér stað um kl. 14:00 en tilkynnt hafi verið um að maður hafi stöðvað bifreið í Sólheimum, nálægt Goðheimum, Reykjavík, og boðið 7 ára stúlkubarni að koma og skoða geisladiska í bifreið sinni en barnið fór á brott. Lýsti barnið manninum sem dökkhærðum, með derhúfu, alskegg og frekar grönnum í framan. Hafi bifreiðin verið á stærð við VW Polo.
Barst önnur tilkynning um kl. 15:38 er var á þá leið að 12 ára gömul stúlka hafi verið á leið heim til sín á [...], er maður hafi stöðvað bifreið hjá henni, sýnt henni mynd og spurt að því hvort hún hafi misst myndina. Hann hafi því næst spurt hana að því hvar næsta sjoppa væri og hvort hana langaði að sjá typpið á sér. Hafi barnið hlaupið í burtu. Lýsti stúlkan bifreið mannsins sem grárri, gamalli og druslulegri, svolítið kassalaga. Manninum lýsti hún að væri með skegghíung. Móðir stúlkunnar sagði barnið hafa verið í miklu uppnámi. Skömmu síðar hringdi móðir barnsins aftur og kvaðst hafa verið á leið með tvær aðrar dætur sínar við Skeiðarvog, Reykjavík. Hefðu stúlkurnar beðið nærri bifreið móður sinnar en hún séð hvar bifreiðinni Y var ekið löturhægt framhjá þeim. Hafi bifreiðin verið kassalaga og hægri framrúða verið niðri. Hafi hún séð manninn er hafi verið með dökkbláa prjónahúfu, með sex daga skegg og grannleitur, um 25-30 ára gamall. Hafi maðurinn verið mjög flóttalegur við þetta og hún verið sannfærð að um sama mann væri að ræða og hafi reynt að fá 12 ára dóttur hennar inn í bifreið til sín. Skömmu síðar var kærði handtekinn en hann svaraði til lýsingar tilkynnenda.
Skömmu síðar eða um 17:46 barst enn ein tilkynning. Var rætt við föður 5 ára stúlku er sagði dóttur sína hafa komið heim, hágrátandi, eftir að maður hefði lokkað hana inn í kofa er stæði við leiksvæði bak við [...]. Mun maðurinn hafa lokkað barnið inn í kofann og í kjölfarið fjarlægt vettlinga af höndum hennar og spurt hvort hún vildi “borða á sér typpið”. Þá sagðist faðirinn hafa tekið eftir því að dóttur hans vantaði einn vettling er hún hafi komið heim, bleikan á lit. Á leiksvæðinu, bakvið [...] ræddu lögreglumenn við tvo drengi er sögðust hafa séð ókunnan mann, meðalháan, klæddan í gráan eða brúnan jakka, í gallabuxum og með skegg standa við leiksvæðið skömmu áður og reykt. Á þeim stað fann lögregla sígarettustubb og fótspor. Þá sögðu drengirnir að þeir hefðu séð manninn leiða litla stúlku með sér í nágrenni við umræddan kofa er stendur fyrir neðan [...]. Er lögreglumenn fóru að kofanum fundu þeir bleikan vettling á jörðinni auk þess er þeir fundu samskonar skófar og þar sem drengirnir báru um að maðurinn hafi staðið og reykt. Við athugun lögreglu á skóm kærða, þeim er hann var í við handtöku, virtist vera um samskonar skómynstur að ræða.
Fjórða tilkynningin barst lögreglu um kl. 18:19 þar sem sagt var að maður, dökkur yfirlitum hafi reynt að lokka fjórar 11 ára stúlkur inn í bifreið sína við Nökkvavog, Reykjavík. Var lýsing einnar stúlkunnar á þá leið að bifreiðin hafi verið þriggja dyra ljós/hvít Opel og bifreiðin hafi verið skítug. Hefðu hinar stúlkurnar sagt henni að barnabílstóll hafi verið í aftursæti bifreiðarinnar og grár jakki í framsætinu, farþegamegin. Manninum lýsti stúlkan sem mjög dökkhærðum, eiginlega svarthærðum með hár niður fyrir/að eyrum, með þunnar varir, svart yfirskegg og smá skegg á hökunni og brodda. Hafi hann verið grannur með svört sólgleraugu og minnir að hann hafi verið í brúnni peysu, um 178 cm á hæð og verið á milli þrítugs og fertugs.
Í gær, þann 15. janúar, kl. 18:03 hafi kærði verið handtekinn er hann kom að heimili sínu. Þá var og haldlögð bifreiðin Y er hann hafi verið á en hún mun vera í eigu systur kærða. Við skýrslutöku af kærða eftir handtöku neitaði kærði sakargiftum en viðurkenndi að hafa verið eitthvað á ferðinni og að hafa spurt eina stúlku er hann hélt að hafi verið á aldrinum 9-13 ára til vegar.
Rannsókn málsins sé á frumstigi. Telur lögreglustjóri brýna nauðsyn á að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, svo lögreglu gefist tími til að rannsaka meinta háttsemi kærða sem lögregla telur mjög alvarlega og kunni að varða við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 202. gr. laganna með áorðnum breytingum. Telur lögregla að gangi kærði laus megi ætla að hann torveldi til muna rannsókn lögreglu með því að koma undan gögnum og/eða öðrum munum sem geta haft þýðingu við framhald rannsóknarinnar, auk þess er hann getur haft áhrif á hugsanleg vitni.
Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna, sem og til rannsóknarhagsmuna og a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að fallist verði á framkomna kröfu.
Með vísan til framlagðra rannsóknargagna er fallist á að fyrir hendi séu skilyrði þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 svo sem krafist er og þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldstímanum skemmri tíma. Ber því að verða við kröfu saksóknara eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. janúar nk. kl. 16:00.