Hæstiréttur íslands
Mál nr. 429/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Föstudaginn 30. nóvember 2001. |
|
Nr. 429/2001. |
Gunnar Dungal |
|
|
(Ásgeir Þór Árnason hrl.) |
|
|
gegn |
|
|
dánarbúi Sæunnar Halldórsdóttur |
|
|
(Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanna.
D fékk dómkvadda matsmenn til að skoða og meta tiltekna landspildu. Að ósk G skiluðu matsmenn viðbótarmati sem byggt var á öðrum forsendum. Í kjölfar þessa fór svo fram yfirmat að beiðni G. Að yfirmatsgerð fenginni fór D fram á yfirmat á frummatsgerð á þeim grundvelli að yfirmatsgerð G hafi verið takmörkuð frá upphafi og ekki byggt á sömu forsendum og matsbeiðni D hafi lotið að. Ekki var talið að í lögum nr. 91/1991 væri girt fyrir að til viðbótar eldri matsgerð væri aflað nýrrar matsgerðar, sem tæki til annarra atriða en sú fyrri, enda væri ekki svo ástatt, sem um ræðir í 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Þá yrði ekki fullyrt að bersýnilegt væri að slík ný yfirmatsgerð skipti ekki máli eða væri tilgangslaus til sönnunar, en af sönnunargildi hennar yrði D að bera áhættu samhliða kostnaði af öflun hennar. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að dómkveðja matsmenn í samræmi við beiðni D.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október sl., þar sem fallist var á að umbeðin dómkvaðning yfirmatsmanna skuli fram fara. Sóknaraðili krefst þess að synjað verði um þessa beiðni og að varnaraðili greiði kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Hann krefst og kærumálskostnaðar.
Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur var rekið mál milli aðila, sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar sem hæstaréttarmál nr. 251/2001.
Í yfirmatsbeiðni varnaraðila, sem lögð var fram í héraðsdómi 20. september 2001, kemur fram, að beiðnin lúti að 30 hektara landspildu úr landi Miðdals I í Mosfellsbæ. Varnaraðili hafi með beiðni 30. apríl 1999 farið þess á leit að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir menn til þess að skoða og meta umrædda landspildu og hafi matsgerð verið skilað 22. júlí 1999. Athugasemd hafi verið gerð af hálfu sóknaraðila og óskað eftir séráliti á öðrum forsendum en matsbeiðnin hafi hljóðað um. Við þessu hafi hinir dómkvöddu matsmenn orðið. Hinn 16. ágúst 1999 hafi sóknaraðili lagt fram yfirmatsbeiðni, með svofelldum rökum: „Mati þeirra (hinna dómkvöddu matsmanna) vill yfirmatsbeiðandi ekki una að því er varðar viðbótarmatsgerð og fer því fram á að framkvæmt verði yfirmat um þann hluta.“ Yfirmatsbeiðni sóknaraðila hafi því verið takmörkuð frá upphafi og ekki sett fram á sömu forsendum og matsbeiðni varnaraðila hafi lotið að. Sé þess því farið á leit að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir menn til þess að meta yfirmati umrædda landspildu á sömu forsendum og gefi að líta í matsbeiðni 30. apríl 1999.
Sóknaraðili kveður skiptingu matsgerðarinnar verða skýrða með því að hann hafi lagt fram sérstaka greinargerð til matsmanna og skorað á varnaraðila að óska þess við matsmenn að þeir legðu sjálfstætt verðmat á hina umþrættu 30 ha landspildu eins og þeir teldu að eðlilegt söluverð hennar hefði verið 28. febrúar 1996, þegar kaup tókust með aðilum svo og á verðmæti þeirra jarðabóta sem hann hefði lagt í á þrætulandinu. Ennfremur hafi sóknaraðili haft uppi mótmæli við forsendum sem óskað hefði verið að lagðar yrðu til grundvallar í matinu. Varnaraðili hafi ekki orðið við þessum áskorunum, en samkomulag hafi orðið um að matsmenn kæmu með viðbótarmatsgerð. Þeir hafi því skilað frummatsgerð og viðbótarmatsgerð í málinu. Frummatsgerðin lúti að verðmæti landsins á matsdegi en viðbótarmatsgerðin að verðmæti á kaupdegi.
Sóknaraðili styður kröfu sína meðal annars þeim rökum, að undirmat hafi ekki farið fram á nákvæmlega þeim atriðum sem varnaraðili óskar nú yfirmats á. Jafnframt þessu vísar sóknaraðili til þess að undir- og yfirmat hafi þegar farið fram á verðmæti umræddrar landspildu miðað við þann tíma sem sala á henni átti sér stað. Eru báðar þessar málsástæður studdar tilvísun til 64. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hálfu sóknaraðila er því einnig haldið fram að synja beri um dómkvaðninguna þar sem forsendur í matsbeiðni bindi hendur matsmanna um of. Þá standi það ennfremur í vegi fyrir dómkvaðningunni að gagnaöflun hafi verið lýst lokið fyrir Hæstarétti og því geti ný matsgerð ekki komist að fyrir Hæstarétti.
Ekki er girt fyrir að til viðbótar eldri matsgerð sé aflað nýrrar matsgerðar, sem taki til annarra atriða en sú fyrri, enda sé ekki svo ástatt, sem um ræðir í 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Eins og málið liggur fyrir verður að líta svo á að varnaraðili leiti nú eftir yfirmatsgerð, sem taki til annarra atriða en yfirmatsgerðin frá 29. febrúar 2000, og varði þau atriði er metin voru í frummatsgerð. Ekki verður fullyrt að bersýnilegt sé að slík ný yfirmatsgerð skipti ekki máli eða sé tilgangslaus til sönnunar, en af sönnunargildi hennar yrði varnaraðili að bera áhættu samhliða kostnaði af öflun hennar. Við efnismeðferð í máli nr. 251/2001 kemur matsgerðin til skoðunar og hvort hún kemst að í málinu. Samkvæmt framanskráðu eru ekki efni til að standa gegn því að hin umbeðna dómkvaðning fari fram og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðili greiði kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Gunnar Dungal, greiði varnaraðila, dánarbúi Sæunnar Halldórsdóttur, 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2001.
Dómari málsins hefur kynnt sér framkomin mótmæli lögmanns matsþola en telur engu að síður rétt, að umbeðin dómkvaðning skuli fara fram, enda sé það á forræði matsbeiðanda að óska eftir mati á hverju sem hann kýs. Það sé aftur á móti álitamál, hvort matsbeiðnin komi honum að gagni í máli því, sem hér er um að ræða. Matsbeiðandi beri hættuna á því.
Umbeðin dómkvaðning skal því fara fram.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Umbeðin dómkvaðning skal fara fram.