Hæstiréttur íslands
Mál nr. 447/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal sakamanns
|
|
Mánudaginn 19. júlí 2010. |
|
Nr. 447/2010: |
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Framsal sakamanna.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms sem staðfesti ákvörðun dómsmálaráðherra um að X skyldi framseldur til Póllands.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júlí 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2010, þar sem staðfest var ákvörðun dómsmálaráðherra 13. apríl 2010 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum dæmdur kærumálskostnaður.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Ágreiningslaust er að af þeim tíu refsidómum, sem varnaraðili hlaut í Póllandi árin 2000 til 2005 og liggja að baki beiðni yfirvalda þar í landi um framsal hans, eru fjórir ófyrndir. Samanlögð refsing samkvæmt þeim er fangelsi fjögur og hálft ár. Í öllum þessum tilvikum var um að ræða brot sem samkvæmt íslenskum lögum geta varðað fangelsi meira en eitt ár, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður niðurstaða hans staðfest.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2010
Mál þetta var tekið til úrskurðar 8. júní sl. að loknum munnlegum málflutningi, sbr. 14. gr. laga. nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.
Af hálfu sóknaraðila er krafist staðfestingar ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins frá 13. apríl 2010 um að framselja X til Póllands.
Af hálfu varnaraðilar er þess krafist að rétturinn hafni framkominni ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 13. apríl 2010 um framsal varnaraðila til Póllands. Þá er þess krafist að rétturinn ákvarði þóknun til skipaðs réttargæslumanns úr hendi ríkissjóðs, að mati réttarins, ásamt lögbundnum virðisaukaskatti.
Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 19. nóvember 2009, barst ríkissaksóknara beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, pólsks ríkisborgara, til fullnustu fangelsisrefsingar samkvæmt tíu refsidómum. Framsalsbeiðnin er í fimm hlutum og er heildarrefsing varnaraðila samkvæmt dómnum sex ár, sex mánuðir og tólf dagar.
I.
Í fyrsta hluta framsalsbeiðninnar kemur fram að varnaraðili hlaut sex refsidóma með dómum héraðsdómstóls í Elblag (Rejonowego w Elblagu), frá árinu 2000 til ársins 2004, sem hér greinir:
1. Með dómi uppkveðnum 24. janúar 2000, mál nr. VIII K 684/99, var varnaraðili fundinn sekur um líkamsmeiðingu af gáleysi, þ.e. brot gegn 1. mgr. 177. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa, þann 11. september 1999, ekið of hratt í vinstri beygju með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á henni og ók á tré. Farþegi í bifreiðinni lærbeinsbrotnaði við áreksturinn. Varnaraðili var dæmdur í 4 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára og svipting ökuréttinda í 1 ár. Með ákvörðun dómsins þann 29. september 2004 var kveðið á um að varnaraðila yrði gert að afplána fangelsisrefsingu samkvæmt dómi þessum.
2. Með dómi uppkveðnum þann 29. ágúst 2000, mál nr. II K 690/98, var varnaraðili fundinn sekur um þjófnað og tilraun til þjófnaðar, þ.e. brot gegn 1. mgr. 279. gr. og 1. mgr. 279. gr., sbr. 1. mgr. 13. gr. pólskra hegningarlaga, sbr. 91. gr. sömu laga, með því að hafa á tímabilinu 21. nóvember 1997 til 5. janúar 1998, í Paslek, ásamt tveimur öðrum mönnum, brotist inn í og gert tilraun til innbrota í íbúðarhús, og stolið þaðan ýmsum verðmætum, alls að fjárhæð 7.300 PLN. Varnaraðili var dæmdur í 18 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til 4 ára og greiðsla skaðabóta. Með ákvörðun dómsins þann 2. desember 2003 var kveðið á um að dómfellda yrði gert að afplána fangelsisrefsingu samkvæmt dómi þessum.
3. Með dómi uppkveðnum þann 6. mars 2003, mál nr. II. K 306/02, var varnaraðili fundinn sekur um tilraun til þjófnaðar, þ.e. brot gegn 1. mgr. 278. gr. pólskra hegningarlaga með því að hafa, þann 9. nóvember 2001 í Elblag, stolið tölvu að verðmæti 3.500 PLN. Var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi. Refsiákvörðunin var staðfest með ákvörðun millidómstóls í Elblag (Okregowego w Elblagu) þann 29. maí 2003.
4. Með dómi uppkveðnum þann 17. mars 2003, mál nr. II K 1311/02, var varnaraðili fundinn sekur fyrir tilraun til ráns, þ.e. brot gegn 282. gr., sbr. 1. mgr. 13. gr., og 1. mgr. 157. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. pólskra hegningarlaga með því að hafa, þann 23. júlí 2002 í Elblag, ásamt öðrum manni, gert tilraun til að hafa 200 PLN af brotaþola með því að slá hann ítrekað í höfuð og sparka ítrekað í líkama hans. Afleiðingar árásarinnar voru þær að brotaþoli hlaut margvíslega áverka á líkama. Var varnaraðili dæmdur í 14 mánaða fangelsi. Refsiákvörðunin var staðfest með dómi millidómstóls í Elblag frá 5. júní 2003.
5. Með dómi þann 30. janúar 2004, mál nr. X K 724/03, var varnaraðili fundinn sekur fyrir fjársvik, þ.e. brot gegn 1. mgr. 286. gr. pólskra hegningarlaga með því að hafa, þann 11. mars 2003 í Elblag, svikið 1.507,11 PLN út úr ,,Nordea“ bankanum en dómfelldi notaði debetkort sitt þrátt fyrir að vita að ekki væri til næg innistæða fyrir úttektunum á bankareikningi hans. Var hann dæmdur í 8 mánaða fangelsi. Refsiákvörðunin var staðfest með dómi millidómstóls í Elblag frá 6. maí 2004.
6. Með dómi þann 20. maí 2004, mál nr. II K 269/04, var varnaraðili fundinn sekur fyrir eftirtalin hegningar- og fíkniefnalagabrot:
a. Fyrir brot gegn 3. tl. 43. gr. pólskra fíkniefnalaga, sbr. 1. mgr. 13. gr. pólskra hegningarlaga með því að hafa, þann 31. október 2003 í Elblag, ásamt öðrum manni, gert tilraun til að selja 30,5 g af maríhúana og 128,52 g af amfetamíni.
b. Fyrir skjalamisnotkun, þ.e. brot gegn 1. mgr. 275. gr. pólskra hegningarlaga með því að hafa annars vegar, á tímabilinu mái 2000 til 31. október 2003 í Elblag, misnotað persónuskilríki annars manns, og hins vegar, á ótilgreindum stað og tíma eigi síðar en 30. október 2003 í Elblag, misnotað vegabréf annars manns.
Var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi og til greiðslu bóta. Til frádráttar kom gæsluvarðhald sem varnaraðili sætti frá 1. október til 14. nóvember 2003.
Með ákvörðun dómsins þann 27. janúar 2005 var kveðið á um að 25 daga fangelsi kæmi í stað bótagreiðslunnar.
Með ákvörðun héraðsdómstól í Elblag, dags. 10. febrúar 2006, var kveðið á um álagningu refsingar varnaraðila og var sameiginleg refsing fyrir framangreinda sex dóma ákveðin 4 ár og 8 mánuðir.
II.
Í öðrum hluta beiðninnar kemur fram að varnaraðili var með dómi héraðsdómstólsins í Elblag, þann 8. nóvember 2005, í máli nr. X K 1201/05 sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 178. gr. a pólskra hegningarlaga með því að hafa, þann 26. júlí 2005 í Elblag, ekið bifreið undir áhrifum áfengis, en áfengismagn í útöndunarlofti mældist 0,49 mg/l. Var hann dæmdur í 4 mánaða fangelsi og sviptur ökuréttindum í 2 ár.
III.
Í þriðja hluta beiðninnar kemur fram að varnaraðili var með dómi héraðsdómstólsins í Elblag, þann 23. maí 2005, í máli nr. II K 531/04, fundinn sekur um hótanir og minni háttar líkamsárás, þ.e. brot gegn 2. mgr. 191. gr. og 2. mgr. 157. gr. pólskra hegningarlaga með því að hafa í Elblag, ásamt öðrum manni, annars vegar í janúar 2004 hótað brotaþola líkamsmeiðingum og hins vegar, þann 16. febrúar 2004, hótað brotaþola líkamsmeiðingum og sparkað ítrekað í líkama hans með þeim afleiðingum að hann hlaut fjölda áverka á bringu og fótleggjum. Var hann dæmdur í 10 mánaða fangelsi.
IV.
Í fjórða hluta beiðninnar kemur fram að varnaraðili var með dómi héraðsdómstólsins í Elblag, þann 24. október 2000, í máli nr. II K 859/00, sakfelldur fyrir brot gegn 244. gr. pólskra hegningarlaga með því að hafa, þann 10. maí 2000 í Elblag, ekið bifreið sviptur ökuréttindum og þannig brotið gegn refsingu samkvæmt dómi dómstólsins frá 24. janúar 2000. Var hann dæmdur í fangelsi í 4 mánuði, skilorðsbundið til 3 ára og til bótagreiðslu. Með ákvörðun sama dómstóls, frá 4. febrúar 2004, var varnaraðila gert að afplána fangelsisrefsingu samkvæmt dómi þessum vegna ítrekaðra skilorðsrofa.
V.
Í fimmta hluta beiðninnar kemur fram að varnaraðili var með dómi héraðsdómstólsins í Elblag, þann 5. desember 2000, í máli nr. II K 43/99, fundinn sekur um þjófnað, þ.e. brot gegn 3. mgr. 278. gr., sbr. 1. mgr. 275. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. pólskra hegningarlaga með því að hafa, þann 19. desember 1998 í ,,Jantar“ verslunarmiðstöðinni, ásamt þremur öðrum mönnum, stolið tveimur handtöskum ásamt innihaldi þeirra, m.a. snyrtivörum, persónuskilríkjum, ökuskírteinum, lyklum o.fl., að verðmæti alls 678 PLN. Var hann dæmdur til að sæta fangelsistakmörkunum í 10 mánuði og samfélagsþjónusta í 30 tíma á mánuði, ásamt bótagreiðslu. Með ákvörðun sama dómstóls, frá 24. febrúar 2005, var varnaraðila gert að afplána fangelsi í 4 mánuði og 12 daga þar sem hann hafði brotið gegn frelsistakmörkunum samkvæmt dómi þessum og hafði ekki tekið út vararefsingu, sem var greiðsla sektar.
Þann 25. október var gefin út handtökuskipun á hendur varnaraðila til fullnustu refsingarinnar. Þá var evrópsk handtökuskipun gefin út á hendur varnaraðila 3. júní 2009.
Lögregla kynnti framsalsbeiðnina fyrir varnaraðila þann 20. október sl. Hann kannaðist við að beiðnin ætti við hann. Kvaðst hann hafna framsali. Ríkissaksóknari sendi dómsmálaráðuneytinu álitsgerð um málið þann 6. apríl sl., skv. 17. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, þar sem kom fram að efnisskilyrði framsals teldust uppfyllt, sbr. einkum 1. og 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984, sem og formskilyrði, sbr. 12. gr. laganna. Þann 13. apríl sl. féllst dómsmálaráðuneytið á framsalsbeiðni pólskra yfirvalda. Í ákvörðun ráðuneytisins var tekið fram að fyrirliggjandi upplýsingar um persónulega hagi varnaraðila gætu ekki, að mati ráðuneytisins, talist nægilegar til að synja um framsal, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1984. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kynnti varnaraðila ákvörðun dómsmálaráðuneytisins þann 23. apríl sl. og með bréfi sem barst ríkissaksóknarar sama dag krafðist varnaraðili úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur, skv. 14. gr. laga nr. 13/1984.
Um skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 er vísað til áðurnefndrar álitsgerðar ríkissaksóknara og ákvörðunar dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins. Jafnframt þykir fullnægt skilyrðum II. kafla laganna um form framsalsbeiðninnar.
Varnaraðili hefur sætt farbanni í þágu málsins frá 20. október 2009.
Í greinargerð varnaraðila er greint frá því að varnaraðili hafi flutt til Íslands [...] 2007 og hafi dvalist hér samfellt síðan. Hann hafi komið hingað til þess að stunda launaða vinnu, en atvinnuástand var þá mjög slæmt í heimalandi hans, og hefur varnaraðili frá upphafi komu sinnar unnið hjá sama fyrirtækinu, [...]. Með varnaraðila komu einnig eiginkona og sonur hans, sem nú er 10 ára. Eiginkona varnaraðila vinnur hjá [...] [...], en gott orð fari af báðum hjónunum frá vinnuveitendum þeirra. Þann 28. nóvember sl. fæddist þeim hjónum sonur hér á landi. Þau hjónin hafa fullan hug á að setjast að á Íslandi til frambúðar.
Einnig tekið fram að varnaraðili hafi ekki komist í kast við lögin frá því að hann settist hér að.
Varnaraðili var ekki byrjaður afplánun ofangreindra dóma áður en hann kom til Íslands og var á engan hátt að koma sér undan afplánun með flutningi sínum til Íslands. Flutningur hans hafi verið í þeim tilgangi að afla tekna til þess að sjá sér og fjölskyldunni farboða. Þá sé móðir varnaraðila, sem sé búsett í Póllandi, mikill sjúklingur og sendi varnaraðili henni mánaðarlega peninga til lyfjakaupa.
Málsástæður varnaraðila byggist m.a. á ákvæðum 7. gr. laga nr. 13/1984. Dómsmálaráðuneytið hafi hafnað því að ákvæði 7. gr. eigi við í tilviki varnaraðila, en varnaraðili gerir þá kröfu fyrir réttinum að hann horfi til þessa ákvæðis. Varnaraðili telur að aðstæður hans falli undir ákvæði 7. greinarinnar. Verði varnaraðili framseldur til Póllands sé ljóst að fjölskylda hans hér á landi sé sett á vonarvöl. Eins og aðstæður séu í dag þá geti eiginkona varnaraðila ekki framfleytt fjölskyldunni á hennar launum eingöngu. Fjölskyldan búi í leiguhúsnæði og þurfi að standa skil á ýmsum öðrum fjárhagsskuldbindingum, þ.á.m. afborgun af bifreiðaláni. Í þessu sambandi vísar varnaraðili til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 116/2009. Þar vísar Hæstiréttur til þess þegar metið sé hvort ákvæði 7. greinarinnar eigi við takist á tvö sjónarmið. Annars vegar eðlilegir hagsmunir pólska ríkisins á að fá varnaraðila framseldan og hins vegar mannúðarástæður er varða varnaraðila. Þá komi fram hjá Hæstarétti að þegar litið sé til hagsmuna pólska ríkisins þá beri m.a. að horfa á grófleika brots viðkomandi og hversu langt síðan brotið var framið. Elsta brot varnaraðila samkvæmt framangreindum dómum var framið þann 21. nóvember 1997, en það yngsta var framið þann 26. júlí 2005. Varnaraðili hefur með öðrum orðum ekki gerst brotlegur við lög í rétt tæp fimm ár.
Varðandi hagsmuni pólska ríkisins andstætt mannúðarástæðum er snúi að varnaraðila og fjölskyldu hans, þá sé einnig að vísað til fyrningarreglna íslensku hegningarlaganna varðandi fullnustu dóma. Samkvæmt 83. gr. laganna þá gildi mismunandi fyrningarfrestur allt eftir hversu löng fangelsisvistun sé dæmd og samkvæmt 4. mgr. greinarinnar telst fyrning þegar fullnusta dóms er hafin. Miðað við íslenskar fyrningarreglur ætti því fullnusta eftirgreindra dóma að vera fallin niður:
Dómur uppkveðinn þann 24.01.2000
Dómur uppkveðinn þann 24.10.2000
Dómur uppkveðinn þann 05.12.2000
Dómur uppkveðinn þann 06.03.2003
Dómur uppkveðinn þann 30.01.2004
Dómur uppkveðinn þann 23.05.2005
Dómur uppkveðinn þann 08.11.2005
Hér sé að sjálfsögðu miðað við þann dag er dómur var uppkveðinn, en ekki eins og fram komi í áliti ríkissaksóknara þann dag er sami dómur, héraðsdómar eða millidómstólar í Póllandi, með svokallaðri ákvörðun, hafi gert varnaraðila skyld að afplána refsinguna. Eðli máls samkvæmt hljóti að eiga að miða upphaf fyrningar við uppkvaðningardag dómsins. Það sé a.m.k. það sem lesa megi út úr íslenskum reglum, en um það sé kveðið á í 2. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga. „Fyrning samkvæmt framansögðu hefst þegar unnt er að fullnægja dómi samkvæmt almennum ákvæðum laga.“ Þetta þýði strax, nema viðkomandi eða ákæruvald hafi tekið ákvörðun um áfrýjun málsins. Samkvæmt framangreindu þá sé aðeins fullnusta þriggja af tíu dómum á hendur varnaraðila ófyrnd og fullnusta eins af þessum þremur dómum fyrnist í ágúst á þessu ári. Í þessu sambandi hljóti rétturinn að horfa til þess hvort hagsmunir pólska ríkisins séu fyrir borð bornir fallist hann ekki á framkomna framsalskröfu og hvort mannúðarsjónarmið er snúi að aðstæðum varnaraðila séu ekki þeim hagsmunum stærri.
Í gögnum málsins liggi fyrir ensk þýðing á pólskum fyrningarreglum varðandi fullnustu dóma. Þar komi fram að fyrning rofni komi viðkomandi sér undan fullnustu. Því sé ekki til að heilsa í máli því sem hér sé til meðferðar. Þegar varnaraðili hafi flust til Íslands hafi hann ekki verið kallaður til fullnustu dóma sinna. Hann hafi því verið grandlaus hvað það varðaði á þeim tíma og hafi það ekki verið fyrr en hann mætti hjá lögreglu þann 20. október 2009 að hann hafi fengið vitneskju um að pólsk yfirvöld hafi viljað að hann byrjaði afplánun. Eins og hann skilji pólsku fyrningarregluna þá gildi 10 ára fyrning hafi varnaraðili komið sér viljandi frá afplánun, en að mati varnaraðila eigi sá fyrningartími ekki við í hans tilviki þar sem hann hvorki viljandi eða meðvitaður hafi komið sér hjá afplánun. Ekki sé getið um annan fyrningartíma í greindum lögum og því hljóti að verða að miða við framangreindar íslensku fyrningarreglurnar. Eins og ríkissaksóknari geti réttilega um í áðurgreindu bréfi, þá beri skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984 að fara eftir lögum þess ríkis sem framsals krefjist, varðandi rof á fyrningarfresti taki það ríki þátt í Schengen-samstarfinu, sem Pólland vissulega geri. En þegar þær reglur séu svo óskýrar og víðtækar eins og þær virðist vera þá hljóti rétturinn að horfa til íslensku reglnanna við úrlausn í máli þessu.
Hafna beri því kröfu íslenska ríkisins um framsal varnaraðila til Póllands og úrskurða íslenska ríkinu til að greiða réttargæslumanni varnaraðila málskostnað að mati réttarins.
Til stuðnings kröfum sínum vísi stefndi til laga nr. 13/1984, sérstaklega 7. gr. og 9. gr.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Þær upplýsingar og gögn sem kveðið er á um í 12. gr. laganna að fylgja skuli framsalsbeiðni eru öll til staðar í máli þessu þar á meðal endurrit þeirra dóma sem fullnusta á, sbr. 4. mgr. 12. gr. laganna.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal á manni því aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Brot þau sem varnaraðili hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt I. hluta framsalsbeiðninnar eru talin varða við eftirfarandi ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940; Dómur nr. 1, 219. gr., líkamsmeiðing af gáleysi, sem varðar fangelsi allt að 4 árum, dómar nr. 2 og 3, 244. gr., sbr. 20. gr., þjófnaður og tilraun til þjófnaðar, sem varðar fangelsi allt að 6 árum, dómur nr. 4, . 252. gr., sbr. 20. gr., tilraun til ráns, sem varðar fangelsi allt að 10 árum, dómur nr. 5, 248. gr., fjársvik sem varða fangelsi allt að 6 árum, dómur nr. 6, 157. gr., skjalamisnotkun, sem varðar fangelsi allt að 6 mánuðum og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, en brot gegn lögunum varðar fangelsi allt að 6 árum. Brot það sem varnaraðili hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt II. hluta framsalsbeiðninnar telst varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en brot gegn lögunum varða fangelsi allt að 2 árum. Brot þau sem varnaraðili hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt III. hluta framsalsbeiðninnar eru talin varða við 233. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn fyrra ákvæðinu varðar fangelsi allt að 2 árum og hinu síðara allt að 6 mánuðum. Brot þau sem varnaraðili hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt IV. hluta framsalsbeiðninnar eru talin varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, en brot gegn lögunum varða fangelsi allt að 2 árum. Brot það sem varnaraðili hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt V. hluta framsalsbeiðninnar telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, sem varðar fangelsi allt að 6 árum. Skilyrði 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal varnaraðila eru því uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984 er óheimilt að framselja mann ef dæmd refsing er fyrnd samkvæmt íslenskum lögum. Ágreiningslaust er að fangelsisrefsing varnaraðila samkvæmt dómum nr. 2, 4 og 6 í I. hluta framsalsbeiðninnar beiðninnar er ófyrnd, sbr. 2. tl. 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hvað varðar dóma númer 1, 3 og 5 í I hluta kemur til skoðunar við hvaða tímamörk skuli miða upphaf fyrningarfrests. Fyrsti dómurinn var kveðinn upp 24. janúar 2000 og var 4 mánaða fangelsisrefsing samkvæmt þeim dómi upphaflega skilorðsbundinn, en þann 29. september 2004 var tekin ákvörðun af héraðsdómstólnum í Elblag að varnaraðili skyldi afplána dóminn vegna skilorðsrofa. Þriðji dómurinn var kveðinn upp 6. mars 2003 og var 6 mánaða fangelsisrefsing samkvæmt þeim dómi staðfest með ákvörðun millidómstóls í Elblag 29. maí 2003. Fimmti dómurinn var kveðinn upp 30. janúar 2004 og var 8 mánaða fangelsi samkvæmt þeim dómi staðfest með dómi millidómstóls í Elblag 5. júní 2003. Með ákvörðun héraðsdómstóls í Elblag 10. febrúar 2006 var kveðið á um álagningu refsingar varnaraðila vegna allra sex dómanna í I. hluta framsalsbeiðninnar og var sameiginleg refsing fyrir þá dóma ákveðin 4 ár og 8 mánuðir.
Fallist er á með sóknaraðila að miða skuli upphaf fyrningarfrests dóma í þessum hluta beiðninnar við ákvörðun héraðsdómstóls í Elblag 10. febrúar 2006 þegar fullnustuhæf refsing hafði verið staðfest með dómi, sbr. 2. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt því er fangelsisrefsing varnaraðila samkvæmt dómum nr. 1, 3 og 5 ófyrnd, sbr. 1. tl. 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í öðrum hluta beiðninnar kemur fram að varnaraðili var með dómi héraðsdómstólsins í Elblag 8. nóvember 2005 dæmdur í 4 mánaða fangelsi og sviptingu ökuréttinda í 2 ár fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis. Sú refsing er ófyrnd, sbr. 1. tl. 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í þriðja hluta beiðninnar kemur fram að varnaraðili var með dómi héraðsdómstólsins í Elblag 23. maí 2005 dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir hótanir og minni háttar líkamsárás. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ætti sú refsing að vera fyrnd 23. maí 2010.
Í fjórða hluta beiðninnar kemur fram að varnaraðili var með dómi héraðsdómstólsins í Elblag 24. október 2000 dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökuréttindum. Með ákvörðun sama dómstóls, frá 4. febrúar 2004 var varnaraðila gert að afplána fangelsisrefsingu samkvæmt dómi þessum vegna ítrekaðra skilorðsrofa. Sú refsing var fyrnd 4. febrúar 2009 samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga.
Í fimmta hluta beiðninnar kemur fram að varnaraðili var með dómi héraðsdómstólsins í Elblag 5. desember 2000 dæmdur í 10 mánaða fangelsi, auk samfélagsþjónustu, fyrir þjófnað. Með ákvörðun sama dómstóls 24. febrúar 2005 var varnaraðila gert að afplána fangelsi í 4 mánuði og 12 daga þar sem hann hafði brotið gegn frelsistakmörkunum samkvæmt dómi þessum og hafði ekki tekið út vararefsingu, sem var greiðsla sektar. Sú refsing var fyrnd 24. febrúar 2010 samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga.
Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984 segir að berist beiðni um framsal manns frá ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu gildi lög þess ríkis um rof fyrningarfrests. Fyrir liggur að Pólverjar eru þátttakendur í Schengen-samstarfinu. Koma því til skoðunar reglur pólskra laga um rof á fyrningarfresti varðandi fullnustu ofangreindra brota. Með bréfi héraðsdómstólsins í Elblag, dags. 3. febrúar 2010, fylgdi þýðing á 15. gr. pólskra hegningarlaga um fyrningu. Í niðurlagi bréfsins segir að fyrningarfrestur í öllum málum varnaraðila hafi verið rofinn þegar hann var handtekinn vegna framsalsmálsins 20. október 2009. Þann dag var liðinn fyrningarfrestur í dómum nr. 1, 3 og 5 í I hluta beiðninnar, eins og fyrr greinir. Dæmd fangelsisrefsing samkvæmt þeim dómum var því fyrnd. Í 4. mgr. 15. gr. pólskra hegningarlaga kemur fram að fullnusta frelsissviptingar, fangelsisdóms eða þvingunaraðgerða í sama eða öðru máli rjúfi fyrningarfrest. Með vísan til þess og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984 verður að telja að fyrningarfrestur í framsalsmálum varnaraðila hafi verið rofinn 20. október 2009 er varnaraðili var handtekinn og gert að sæta farbanni með úrskurði sama dag. Verður því talið að fangelsisrefsing varnaraðila samkvæmt dómum í III., IV. og V. hluta beiðninnar sé ófyrnd.
Samkvæmt framansögðu er fangelsisrefsing varnaraðila samkvæmt þeim tíu dómum sem framsalsbeiðnin tekur til ófyrnd.
Af hálfu varnaraðila var framsali sérstaklega mótmælt með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1984 um mannúðarsjónarmið, en þar segir að í sérstökum tilvikum megi synja um framsal ef mannúðarástæður mæli gegn því, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Rakið er að varnaraðili hafi flutt til Íslands [...] 2007 og hafi dvalist hér samfellt síðan. Hingað hafi varnaraðili komið til þess að stunda launaða vinnu, en atvinnuástand var þá mjög slæmt í heimalandi hans, og hefur varnaraðili frá upphafi komu sinnar unnið hjá sama fyrirtækinu, [...]. Með varnaraðila komu einnig eiginkona og sonur hans, sem nú er 10 ára. Eiginkona varnaraðila vinnur hjá [...] [...], en gott orð fari af báðum hjónunum frá vinnuveitendum þeirra. Þann 28. nóvember sl. fæddist þeim hjónum sonur hér á landi. Þau hjónin hafa fullan hug á að setjast að á Íslandi til frambúðar.
Einnig tekið fram að varnaraðili hafi ekki komist í kast við lögin frá því að hann settist hér að, yngsta brot varnaraðila hafi verið framið þann 26. júlí 2005 og hafi varnaraðili því m.ö.o. ekki gerst brotlegur við lög í rétt tæp fimm ár.
Í ákvörðun dómsmálaráðherra frá 13. apríl 2010 er fjallað um það hvort skilyrði séu til þess að hafna kröfu um framsal á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984. Þar vegast á gagnstæð sjónarmið. Annars vegar eðlilegir hagsmunir hins erlenda ríkis af því að fá einstakling framseldan og mikilvægi þess að ekki sé grafið undan framsalskerfinu sem er hluti af alþjóðlegu samstarfi á sviði afbrotamála. Hins vegar eru mannúðarástæður sem eru aldur, heilsufar og persónulegar ástæður. Ekki verður annað séð en þessi atriði hafi verið metin með réttum og málefnalegum hætti af hálfu dómsmálaráðherra og verður ekki talið að skilyrði séu til þess að hafna kröfu um framsal samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984.
Samkvæmt framansögðu eru uppfyllt lagaskilyrði um framsal varnaraðila og verður því staðfest ákvörðun dómsmálaráðherra frá 13. apríl 2010 um að framselja varnaraðila til Póllands, eins og greinir í úrskurðarorði.
Þóknun réttargæslumanna varnaraðila, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns og Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur til hvors þeirra án virðisaukaskatts, og útlagður kostnaður að fjárhæð 47.440 krónur með virðisaukaskatti alls 347.440 krónur, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákvörðun dómsmálaráðherra frá 13. apríl 2010 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands, er staðfest.
Þóknun réttargæslumanna varnaraðila, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns og Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur til hvors þeirra án virðisaukaskatts, og útlagður kostnaður 47.440 krónur með virðisaukaskatti alls 347.440 krónur, greiðist úr ríkissjóði.