Hæstiréttur íslands
Mál nr. 151/2005
Lykilorð
- Þjófnaður
- Skjalafals
- Gripdeild
- Nytjastuldur
- Umferðarlagabrot
- Fíkniefnalagabrot
- Ítrekun
- Hegningarauki
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Svipting ökuréttar
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 13. október 2005. |
|
Nr. 151/2005. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Aðalsteini Árdal Björnssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Skjalafals. Gripdeild. Nytjastuldur. Umferðarlagabrot. Fíkniefnalagabrot. Ítrekun. Hegningarauki. Reynslulausn. Skilorðsrof. Svipting ökuréttis. Upptaka.
A var dæmdur til tveggja ára fangelsisrefsingar fyrir 35 brot, þar af fyrir að aka tíu sinnum sviptur ökurétti og jafnframt tvisvar undir áhrifum, sex þjófnaði, níu skjalafalsbrot, eina gripdeild, fjóra nytjastuldi, tvö fíkniefnalagabrot og eitt brot gegn 1. mgr. 5. gr. umferðarlaga. A var virt það til refsiþyngingar að hann var vanaafbrotamaður, og hafði ítrekað gerst sekur um sumar tegundir brotanna. Á hinn bóginn var tekið tillit til þess að hann hafði játað brot sín hreinskilnislega. Vísað var til 77. gr. almennra hegningarlaga auk 78. gr. um hegningarauka. Þá voru dæmdar með 165 daga eftirstöðvar reynslulausnar ákærða.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut fjórum héraðsdómsmálum til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnum 16. mars, 26. apríl og 20. júní 2005 í samræmi við yfirlýsingar ákærða, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða hinna áfrýjuðu dóma að öðru leyti en því að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Fyrir Hæstarétti hafa málin verið sameinuð.
Með fyrsta dóminum, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 20. desember 2004, var ákærði dæmdur í fangelsi í fjóra mánuði fyrir minni háttar þjófnaðarbrot 18. september 2004 og þrjú umferðarlagabrot með því að hafa ekið sviptur ökurétti 24. ágúst, 17. og 18. október sama ár. Við ákvörðun refsingar hans var réttilega litið til þess að hann hafði hlotið refsingu fyrir sams konar brot árin 1997 og 2000, en jafnframt að um var að ræða hegningarauka við 45 daga fangelsisrefsingu, sem hann hlaut með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2004. Með þeim dómi var hann meðal annars dæmdur fyrir að hafa tvívegis ekið bifreið sviptur ökurétti, annars vegar 4. febrúar 2004, en hins vegar 13. september sama ár.
Annar dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands 31. janúar 2005. Ákærði var með honum sakfelldur fyrir þjófnað 21. október 2003 á fatnaði úr verslun að verðmæti 15.680 krónur, tvo þjófnaði aðfaranótt 26. desember 2003, annars vegar á veitingastað á níu flöskum af sterku áfengi, þar af fjórum blönduðum ávaxtasafa, en hins vegar á flugeldum úr húsnæði tiltekinnar hjálparsveitar, þrjá nytjastuldi, sem hann framdi sömu nótt í félagi við annan mann, akstur sviptur ökurétti 20. mars 2004 og 23. apríl sama ár, í fyrra skiptið jafnframt undir áhrifum lyfja, þjófnað 16. júlí 2004 úr íbúðarhúsi á verðmætum samtals að fjárhæð 54.000 krónur, níu skjalafalsbrot 17. júlí sama ár, með þeim að notaða jafnmarga falsaða tékka samtals að fjárhæð 57.500 krónur, og loks gripdeild daginn áður á 15.000 krónum úr peningaskúffu í tiltekinni verslun. Hann var dæmdur í sjö mánaða fangelsi fyrir öll brotin og voru þá dæmdar með 165 daga eftirstöðvar reynslulausnar, sem ákærða var veitt skilorðsbundið í eitt ár 4. júlí 2003. Refsing ákærða var hegningarauki við fimm og hálfs mánaðar fangelsisrefsingu, sem honum var dæmd með áðurnefndum dómum 19. október 2004 og 20. desember sama ár. Rauf ákærði með brotunum skilorð reynslulausnarinnar, að undanskildum þeim sem hann framdi 16. og 17. júlí 2004. Var ákærða því réttilega dæmdur hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og reynslulausn hans dæmd upp.
Með þriðja dóminum, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjaness 31. mars 2005, var ákærði dæmdur í fangelsi í tvo mánuði fyrir nytjastuld á bifreið og akstur hennar sviptur ökurétti 4. september 2004, tvö fíkniefnalagabrot, með því að hafa í vörslum sínum, annars vegar 3. október 2004 0,32 grömm af amfetamíni og 1,43 grömm af hassi, en hins vegar 16. sama mánaðar 2,19 grömm af amfetamíni og loks fyrir minni háttar þjófnað úr verslun 20. nóvember 2004. Brotin voru þannig öll framin fyrir uppsögu dómanna frá 20. desember 2004 og 31. janúar 2005, en að auki voru þau framin, að því síðasta undanskildu, áður en ákærði var dæmdur 19. október 2004. Var því ákærða réttilega dæmdur hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, og jafnframt vísað til 77. gr. laganna við ákvörðun refsingar.
Ákærði var loks sakfelldur með fjórða dóminum í Héraðsdómi Reykjavíkur 20. maí 2005 fyrir akstur sviptur ökurétti og undir áhrifum fíkniefna 20. nóvember 2004 og akstur sviptur ökurétti í þrjú skipti á árinu 2005, 4. janúar, 15. mars og 23. mars. Voru því öll brotin framin áður en dómurinn 31. mars 2005 var kveðinn upp, en sum þeirra fyrir en önnur eftir dómana tvo sem gengu þar á undan, eins og nánar er rakið í héraðsdóminum. Hann var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og réttilega vísað til 78. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði á að baki tíu ára sakaferil. Eftir að hann varð 18 ára gamall hefur hann gengist undir sex sáttir, þar af þrisvar fyrir fíkniefnalagabrot, tvisvar fyrir ölvun við akstur og í annað sinnið einnig fyrir önnur umferðarlagabrot og árið 1997 fyrir akstur sviptur ökurétti. Þá hefur hann frá árinu 1998 og fram til þeirra dóma sem hér eru til endurskoðunar hlotið átta refsidóma fyrir ýmis hegningarlaga-, fíkniefnalaga- og umferðarlagabrot. Hann hefur tvívegis áður verið dæmdur fyrir þjófnað, annars vegar í nóvember 1998 í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, en hins vegar í september 2002 í níu mánaða fangelsi, en þá var hann einnig dæmdur fyrir skjalafals, líkamsárás og ýmis umferðarlagabrot. Hinn 24. febrúar 2000 var hann dæmdur til greiðslu 100.000 króna sektar fyrir að aka sviptur ökurétti. Var það í annað sinn sem hann hlaut refsingu fyrir slíkt brot eftir að hann varð 18 ára. Ákærði var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi 25. júní 2003 fyrir líkamsárás, brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 233. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hann sem fyrr segir dæmdur í 45 daga fangelsi 19. október 2004 fyrir að aka í febrúar og september það ár sviptur ökurétti.
Þá er þess að geta að ákærði var dæmdur 19. ágúst 2005 í sex mánaða fangelsi fyrir nytjastuld og réttindaleysi við akstur.
Með hinum áfrýjuðu dómum var ákærði sakfelldur fyrir 35 brot, þar af fyrir að aka tíu sinnum sviptur ökurétti og jafnframt tvisvar undir áhrifum, annars vegar fíkniefna en hins vegar lyfja, sex þjófnaði, níu skjalafalsbrot, eina gripdeild, fjóra nytjastuldi, tvö fíkniefnalagabrot og eitt brot gegn 1. mgr. 5. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Öll brotin voru framin eftir að hann var dæmdur í níu mánaða fangelsi í september 2002. Ákærða er virt það til refsiþyngingar að hann er vanaafbrotamaður, sbr. 72. gr. almennra hegningarlaga, og hefur með þjófnaðarbrotunum sem hér er fjallað um ítrekað gerst sekur um slík brot, sbr. 71. gr. laganna. Þá hefur hann áður, eins og fram er komið, verið dæmdur fyrir skjalafals og margsinnis fyrir að hafa ekið sviptur ökurétti. Á hinn bóginn verður við ákvörðun refsingar ákærða tekið tillit til þess að hann hefur játað brot sín hreinskilnislega. Þá verður vísað til 77. gr. almennra hegningarlaga auk 78. gr. laganna um hegningarauka, þar sem brot ákærða voru framin fyrir uppsögu fyrri dóma hans, eins og nánar hefur verið rakið hér að framan. Engin efni eru til að láta áðurnefnda 165 daga eftirstöðvar reynslulausnar ákærða standa og verða þær því dæmdar upp með vísan til 42. gr, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum, eins og gert var í dómi Héraðsdóms Suðurlands 31. janúar 2005. Að öllu framangreindu virtu verður refsing hans ákveðin fangelsi í 2 ár.
Ákvæði Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2005 um upptöku fíkniefna verður staðfest. Þá er áréttað að ákærði skuli vera sviptur ökurétti ævilangt.
Hluti málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða í héraði greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir. Ákærði verður dæmdur til að greiða 766.033 krónur vegna sakarkostnaðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Byggist fjárhæðin á yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem verða að meðtöldum virðisaukaskatti, ákveðin eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákvæði Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2005 um upptöku fíkniefna skal vera óraskað.
Ákærði skal vera sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, 766.033 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, samtals 236.550 krónur og fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur. Hluti málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða í héraði, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 62.250 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 31. janúar 2005.
Mál þetta er höfðað með þremur ákærum Lögreglustjórans á Selfossi.
Með ákæru dagsettri 19. apríl 2004 var mál höfðað á hendur ákærða Aðalsteini Árdal Björnssyni, kt. 280578-4289, Borgarhrauni 11, Hveragerði, „fyrir þjófnað, með því að hafa að morgni þriðjudagsins 21. október 2003 stolið úr versluninni Nóatúni að Austurvegi 3, Selfossi, íþróttabuxum af gerðinni Nike og íþróttatreyju af gerðinni Adidas, samtals að verðmæti kr. 15.680,-.“ Ákæruvaldið telur háttsemi þessa varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar. Var mál þetta þingfest 26. maí sl. sem sakamál nr. 372/2004.
Með ákæru dagsettri 17. maí 2004 er mál höfðað á hendur Aðalsteini Árdal Björnssyni, „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa síðdegis föstudaginn 23. apríl 2004 ekið bifreiðinni IÖ 704 sviptur ökurétti um Suðurlandsveg að Selásbraut við Brekknaás í Reykjavík, þar sem lögregla hafði afskipti af akstri ákærða.“ Ákæruvaldið telur háttsemi þessa varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga, og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar. Var mál þetta þingfest 26. maí sl. sem sakamál nr. 394/2004 og sameinað máli nr. 372/2004.
Með ákæru dagsettri 23. september sl. er höfðað mál á hendur Aðalsteini Árdal Björnssyni, óstaðsettum í hús í Reykjavík, H , kt. [...], [...], Hveragerði, og E, kt. [...], [...], Reykjavík. Málið var þingfest 29. október sl. sem mál nr. S-801/2004 og var sama dag sameinað máli nr. S-372/2004. Er málið höfðað:
„I.
Á hendur ákærða Aðalsteini Árdal
fyrir innbrot
með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 26. desember 2003 brotist inn í veitingastaðinn Snúllabar við Breiðamörk í Hveragerði, með því að brjóta rúðu í útihurð, og stolið þaðan fimm flöskum af sterku áfengi og fjórum flöskum af vodka blönduðum í ávaxtasafa. (033-2003-5509)
II.
Á hendur ákærðu Aðalsteini Árdal og H fyrir eftirtalin brot framin aðfaranótt föstudagsins 26. desember 2003:
1.
fyrir nytjastuld
með því að hafa í félagi heimildarlaust tekið bifreiðina R [...] þar sem hún stóð fyrir framan íbúðarhúsið að N, Sveitarfélaginu Ölfusi, og ákærði H ekið henni um götur Hveragerðis og inni í Hveradal, uns bifreiðin hafnaði utan vegar og valt vestan við Breiðamörk, skammt sunnan við Friðarstaði. (033-2003-5511)
2.
fyrir nytjastuld
með því að hafa í félagi heimildarlaust tekið bifreiðina SB [...] þar sem hún stóð á bifreiðastæði við [...] í Hveragerði og ákærði H ekið henni að Austurmörk, Hveragerði, þar sem bifreiðin sat föst að hálfu leyti ofan í skurði. (033-2003-5511)
3.
fyrir innbrot og nytjastuld
með því að hafa í félagi brotist inn í húsnæði Hjálparsveitar Skáta að Austurmörk 9, Hveragerði, með því að brjóta rúðu í glugga á suðurhlið, og stolið þaðan kassa með flugeldum í, svo og með því að hafa heimildarlaust tekið vélsleðann PT [...] þar sem hann stóð inni í húsinu að Austurmörk 9 og ákærði H ekið honum um götur Hveragerðis að Borgarhrauni [...], Hveragerði. (033-2003-5512)
III.
Á hendur ákærða Aðalsteini Árdal
1.
fyrir umferðarlagabrot
með því að hafa að kvöldi laugardagsins 20. mars 2004 ekið bifreiðinni OB [...] austur Suðurlandsveg, Sveitarfélaginu Ölfusi, sviptur ökurétti og undir slíkum áhrifum örvandi og deyfandi efna að hann var ófær um að stjórna bifreiðinni örugglega, en lögregla hafði afskipti af akstri ákærða skammt ofan við Kamba. (033-2004-979)
2.
fyrir skjalafals
með því að hafa laugardaginn 17. júlí 2004 notað í viðskiptum í Hveragerði níu falsaða tékka, alls að fjárhæð kr. 57.500,-, sem ákærði hafði sjálfur falsað á illa fengin eyðublöð úr tékkhefti Búnaðarbanka Íslands, Hveragerði, með nafni S sem útgefanda og reikningsnúmerinu [...].
Nánar tiltekið var um að ræða eftirfarandi tékka:
Tékki nr. 5885965 að fjárhæð kr. 6.000,- dagsettur 17. júlí, viðtakandi Eden, Hveragerði.
Tékki nr. 5885966 að fjárhæð kr. 7.000,- dagsettur 17. júlí, viðtakandi Pizza 67, Hveragerði.
Tékkar nr. 5885969 og 5885970, hvor að fjárhæð kr. 7.000,-, báðir dagsettir 17. júlí 2004, viðtakandi Shell í Hveragerði.
Tékki nr. 5885971 að fjárhæð kr. 4.000,-, dagsettur 17. júlí 2004, viðtakandi söluturninn Tían, Hveragerði.
Tékki nr. 5885972 að fjárhæð kr. 7.000,-, dagsettur 17. júlí 2004, viðtakandi Hverabakarí Mæran, Hveragerði.
Tékkar nr. 5885973 að fjárhæð kr. 5.000,- og 5885975 að fjárhæð kr. 7.500,-, báðir dagsettir 17. júlí 2004, viðtakandi verslunin Blómaborg, Hveragerði.
Tékki nr. 5885974 að fjárhæð kr. 7.000,-, dagsettur 17. júlí 2004, viðtakandi Hverakaup, Hveragerði. (033-2004-3108)
IV.
Á hendur ákærðu Aðalsteini Árdal og E
fyrir innbrot
með því að hafa í félagi eftir hádegi föstudaginn 16. júlí 2004 brotist inn í íbúð á fyrstu hæð íbúðarhússins að [...], Reykjavík, með því að opna útidyr hússins með lyklum sem ákærða E hafði þá skömmu áður stolið frá íbúa hússins, B, kt. [...], úr jakka í starfsmannaaðstöðu Íslandsbanka að Suðurlandsbraut 30, Reykjavík, og með því að hafa greint sinn stolið úr íbúðinni veski, skóm, 6.500 krónum og 500 dollurum, alls að verðmæti kr. 54.000,-. (010-2004-16912)
V.
Á hendur ákærða Aðalsteini Árdal
fyrir gripdeild
með því að hafa síðdegis föstudaginn 16. júlí 2004 teygt sig yfir afgreiðsluborð verslunarinnar Filippseyja að Hverfisgötu 98, Reykjavík, opnað peningakassa verslunarinnar, hrifsað 15.000 krónur úr peningaskúffunni, hlaupið með peningana af vettvangi og slegið eign sinni á þá. (010-2004-16918)“
Ákæruvaldið telur háttsemi ákærða Aðalsteins Árdal samkvæmt I. kafla síðastgreindrar ákæru varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Brot Aðalsteins Árdal og H samkvæmt II. kafla ákærunnar, 1. og 2. lið, eru talin varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 20/1956 og 137. gr. laga nr. 82/1998. Brot ákærðu Aðalsteins Árdal og H samkvæmt II. kafla, lið 3, er talið varða við 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 20/1956 og 137. gr. laga nr. 82/1998.
Ákæruvaldið telur brot ákærða Aðalsteins Árdal samkvæmt III. kafla ákæru, 1. lið, varða við 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga. Ennfremur er brot ákærða Aðalsteins Árdal samkvæmt III. kafla ákæru, lið 2, talið varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Brot það sem Aðalsteini Árdal og E er gefið að sök í IV. kafla ákærunnar er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Loks er háttsemi Aðalsteins Árdal samkvæmt V. kafla ákæru talið varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og ákærði Aðalsteinn Árdal til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993 og lög nr. 57/1997.
Eftirtaldar bótakröfur eru gerðar í málinu:
G, kt. [...], gerir kröfu um að ákærðu Aðalsteini Árdal og H verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 29.800. Er krafan gerð vegna nytjastulds sem Aðalsteini og H er gefið að sök að hafa framið í 2. lið II. kafla ákæru frá 23. september 2004.
Ó, kt. [...], gerir, f.h. Hjálparsveitar skáta í Hveragerði, kröfu um að ákærðu Aðalsteini Árdal og H verði gert að greiða Hjálparsveit skáta skaðabætur að fjárhæð kr. 282.112. Krafan er gerð vegna brots þess sem ákærðu Aðalsteini og H er gefið að sök að hafa framið í 3. lið II. kafla ákærunnar.
Þáttur ákærðu E var klofinn frá máli S-372/2004 og dæmdur 6. desember sl.
Ákærði Aðalsteinn Árdal Björnsson kom fyrir dóminn við þinghald 25. ágúst 2004 og játaði skýlaust háttsemi þá sem honum er gefin að sök í ákæru frá 19. apríl og 17. maí 2004. Í þinghaldi 29. október sl. játaði ákærði ákæru frá 23. september sl. rétta. Ákærði tók fram varðandi ákærulið III.1 að hann hefði ekki ekið nema hann hefði talið sig færan til þess, en gerði þó ekki athugasemdir við framkomna álitsgerð. Ákærði Aðalsteinn Árdal krafðist ennfremur frávísunar á bótakröfum, á þeim grundvelli að þær séu vanreifaðar og órökstuddar.
Ákærði H kom fyrir dóm 10. nóvember sl. og játaði brot þau sem honum er gefið að sök að hafa framið í ákæru frá 23. september 2004 að öðru leyti en því að hann kvaðst ekki hafa brotið rúðu í glugga á húsi Hjálparsveitar skáta eins og lýst er í ákærulið II.3. Þá kvaðst hann ekki hafa stolið kassa með flugeldum. Féll ákæruvaldið frá ákærunni að því er þessi atriði varðaði. Ákærði H hafnaði ennfremur framkominni bótakröfu.
Með málið var farið samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjendum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Um málavexti vísast til ákæru. Sannað er með játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða Aðalsteins Árdal á hann nokkuð langan sakaferil að baki, og hefur meðal annars sætt refsingum fyrir þjófnað, líkamsárás, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. 4. júlí 2003 var ákærða veitt reynslulausn í eitt ár á eftirstöðvum fangelsisrefsingar. Hefur hann því rofið skilorð reynslulausnarinnar með hluta brota sinna. 19. október 2004 var ákærði dæmdur í fangelsi í 45 daga fyrir brot gegn 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en ekki þótti ástæða til að láta það raska reynslulausninni að annað brotið sem ákærði var fundinn sekur um var framið áður en henni lauk. Mánudaginn 20. desember sama ár var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Um var að ræða hegningarauka við dóminn frá 19. október 2004. Í þeim dómi var ekki hróflað við áðurgreindri reynslulausn. Ber með vísan til 1. mgr. 42. gr., sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp ofangreinda 165 daga reynslulausn og dæma með þessu máli. Við ákvörðun refsingar ákærða í máli því sem hér er til meðferðar verður einkum litið til sakaferils ákærða og þess að hann framdi hluta brotanna í félagi við aðra. Þá verður höfð hliðsjón af ákvæðum 78. gr. sömu laga.
Refsing ákærða, sem er hegningarauki við dómana tvo frá 2004, þykir að öllu framansögðu virtu, hæfilega ákveðin fangelsi í 7 mánuði.
Ákærði var sviptur ökurétti ævilangt með dómi Hæstaréttar 26. september 2002 og er sú svipting ítrekuð með vísan til 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Ákærði H hefur gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en fallið var frá ákæru um þjófnað að því er hann varðaði.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða H var honum gerð 55.000 króna sekt 4. ágúst 2004 fyrir ölvunarakstur og var hann þá einnig sviptur ökurétti í fjóra mánuði. Refsingin sem honum er ákveðin í máli þessu er hegningarauki við viðurlagaákvörðunina. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði framdi brotin í félagi við ákærða Aðalstein Árdal, hins vegar varð ekki yfirgripsmikið tjón af háttsemi ákærða.
Þykir refsing H hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. mgr. laga nr. 22/1955.
Ákærði Aðalsteinn Árdal skal, með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, greiða allan sakarkostnað, en kostnað vegna brota samkvæmt II. kafla ákæru frá 23. september sl. skal hann greiða in solidum með ákærða H. Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen hrl., 60.000 krónur.
Ákærði H greiði þann sakarkostnað sem af II. kafla ákæru frá 23. september leiðir in solidum með ákærða Aðalsteini Árdal, auk þóknunar skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 50.000 krónur.
Bótakröfur í máli þessu eru ekki studdar neinum gögnum og verður þeim því vísað frá dómi.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna embættisanna dómara.
Dómsorð:
Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, sæti fangelsi í 7 mánuði.
Ákærði Aðalsteinn Árdal skal greiða allan sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda, Arnar Clausen hrl., 60.000 krónur. Greiði hann þann sakarkostnað sem leiðir af II. kafla ákæru frá 23. september sl. in solidum með ákærða H.
Ævilöng svipting ökuréttar ákærða Aðalsteins Árdal er ítrekuð.
Ákærði H sæti fangelsi í einn mánuð en fullnustu refsingarinnar skal frestað og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði H greiði þann sakarkostnað sem leiðir af II. kafla ákæru frá 23. september sl. in solidum með ákærða Aðalsteini Árdal, auk málsvarnarþóknunar skipaðs verjanda, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 50.000 krónur.
Bótakröfum er vísað frá dómi.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2005.
Þetta mál, sem var dómtekið 29. mars sl., er höfðað með ákæru sýslumannsins í Kópavogi á hendur Aðalsteini Árdal Björnssyni, kt. 280578-4289, óstaðsettum í hús, Hveragerði, fyrir „eftirgreind brot gegn almennum hegningarlögum, fíkniefnalöggjöfinni og umferðarlögum:
a) Þjófnað, með því að hafa laugardaginn 20. nóvember 2004, í versluninni Lyf og heilsa að Eiðistorgi 17 á Seltjarnarnesi, stolið Eðal Ginseng-glasi og nælu, samtals að verðmæti kr. 4.969.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
b) Fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 16. október 2004 í bifreiðinni RM [...] á Fífuhvammsvegi í Kópavogi, haft í vörslum sínum 2,19 g af amfetamíni, sem lögregla fann við leit.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985, og lög nr. 68, 2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 484, 2002.
c) Fíkniefnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 3. október 2004 í bifreiðinni KU [...] á bifreiðastæði við Írabakka [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,32 g af amfetamíni og 1,43 grömm af hassi, sem lögregla fann við leit.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985, og lög nr. 68, 2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 484, 2002.
d) Nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa að morgni laugardagsins 4. september 2004, tekið í heimildarleysi til eigin nota bifreiðina PM [...], þar sem hún stóð við Álfhólsveg [...] í Kópavogi og ekið henni, sviptur ökurétti, að Smiðjuvegi [...].
Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 1. mgr 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sæti upptöku á þeim fíkniefnum sem haldlögð voru af lögreglu við rannsókn málsins samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.
Í ákærunni er þess getið að G, kt. [...], krefjist þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð 50.000 krónur.
Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög frekast leyfa, svo og að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi vegna vanreifunar. Jafnframt krefst verjandi hans hæfilegra málsvarnarlauna.
Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust viðurkennt að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærunni. Með þeirri játningu og framkomnum sakargögnum telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og eru brot hans þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er 26 ára og á að baki alllangan sakaferil. Frá árinu 1995 hefur hann meðal annars sætt refsingum fyrir brot gegn umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni en einnig fyrir eignaspjöll, nytjastuld, þjófnað, gripdeild, skjalafals og líkamsárás.
Í júlí 2003 var ákærða veitt reynslulausn í eitt ár á eftirstöðvum fangelsisrefsingar sem nam fimm og hálfum mánuði. Í október 2004 var ákærði dæmdur í fangelsi í 45 daga en ekki þótti ástæða til að láta það raska reynslulausninni að annað brotið sem hann var sakfelldur fyrir var framið áður en reynslulausninni lauk. Í desember sama ár var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi. Sá dómur var hegningarauki við dóminn frá í október. Í síðari dóminum var ekki heldur hróflað við reynslulausninni. Í janúar 2005 var ákærði sakfelldur fyrir fjölmörg hegningarlagabrot. Hluti þeirra var framinn á meðan reynslulausn ákærða varði og voru eftirstöðvar reynslulausnarinnar því teknar upp og dæmdar með en refsing ákærða, alls sjö mánaða fangelsi, var jafnframt hegningarauki við dómana tvo frá árinu 2004.
Þau brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir eru öll framin áður en dómurinn frá júní 2004 var kveðinn upp og refsing ákærða verður því hegningarauki við alla þrjá síðasttöldu dómana. Með hliðsjón af því, svo og því að öll brot ákærða eru ítrekuð, en nú er hann, meðal annars, sakfelldur í fjórða sinn fyrir að aka bifreið eftir að hann var sviptur ökuleyfi ævilangt árið 2001, þykir með vísan til 77. og 78. gr. refsing ákærða nú hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Ekki þykir fært að skilorðsbinda refsinguna.
Skaðabótakrafa G, sem getið er í ákæru, byggir að hluta til á tjónamati frá Sjóvá Almennum hf., dags. 18. október 2004, samtals að fjárhæð 70-80.000 krónur. Hinsvegar áætlar bótakrefjandi að kostnaður vegna viðgerðar á startara og alternator nemi 50.000 krónum, muni hann sjálfur sinna viðgerðinni og krefur ákærða um þá fjárhæð.
Bótakrefjandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem sanna hvert tjón hans af verknaði ákærða hafi í raun orðið. Hann byggir kröfu sína á áætlun og mati án þess að fyrir liggi mat dómkvadds matsmann á tjóni hans. Bótakrafan þykir það vanreifuð að ekki sé unnt að taka hana til umfjöllunar í þessu refsimáli og því verður henni vísað í heild frá dómi.
Með vísan til 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, er fallist á kröfu ákæruvalds um upptöku á þeim fíkniefnum sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað sem fallið hefur til við rannsókn á máli hans svo og þóknun skipaðs verjanda síns Arnar Clausen, hrl. 45.000 krónur.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, dæmir þetta mál.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, sæti fangelsi í 60 daga.
Gerð eru upptæk þau fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Skaðabótakröfu G er vísað frá dómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen, hrl., 45.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 14. mars sl. á hendur Aðalsteini Árdal Björnssyni, kt. 280578-4289, Flyðrugranda 20, Reykjavík, fyrir umferðalagabrot, með því að hafa ekið bifreiðum sviptur ökurétti, svo sem hér er rakið.
I.
Bifreiðinni KK [...], að kvöldi laugardagsins 20. nóvember 2004, um Veghús í Reykjavík, að auki ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja.
II.
Bifreiðinni SN [...] að kvöldi þriðjudagsins 4. janúar 2005, frá bifreiðastæði við Naustin í Reykjavík og út á götuna.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr. og brotið í I. lið að auki við 2. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.
Í dag voru tvö sakamál á hendur ákærða sameinuð þessu máli.
Í fyrsta lagi sakamálið nr. 445/2005 en þar er ákærða gefið að sök, með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 11. apríl 2005, umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni OK [...], aðfaranótt þriðjudagsins 15. mars 2005, sviptur ökurétti og gegn einstefnu um Naustin í Reykjavík.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 48. gr. , sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í öðru lagi sakamálið nr. 608/2005 en þar er ákærða gefið að sök, með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 19. apríl 2005, umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni OK [...], miðvikudaginn 23. mars 2005, sviptur ökurétti frá Grafarholtshverfi í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn á Stekkjarbakka.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Verjandi ákærða krafðist þess að ákærða yrði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Einnig krafðist hann hæfilegrar þóknunar að mati dómsins.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sín.
Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í maí 1978. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði frá árinu 1995 alls 8 sinnum gengist undir sáttir eða viðurlagaákvörðun vegna brota á ákvæðum umferðarlaga vegna aksturs undir áhrifum áfengis og aksturs án ökuréttinda, lögum um ávana- og fíkniefni og almennum hegningarlögum. Þá hefur hann alls 11 sinnum verið dæmdur vegna brota á sömu lögum og er þar á meðal einn dómur Hæstaréttar Íslands. Hér er rétt að tilgreina sérstaklega að 19. október 2004 var ákærði dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir akstur sviptur ökurétti. Þá var hann 20. desember sama ár dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir akstur sviptur ökurétti, brot gegn 259. gr. laga nr. 19/1940 og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Í málinu var m.a. dæmt um fjögur brot ákærða gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga sem átt höfðu sér stað fyrir 19. október 2004 og refsing því hegningarauki við dóminn frá þeim degi. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 31. janúar 2005 var ákærði dæmdur í 7 mánaða fangelsi fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga. Loks var ákærði í Héraðsdómi Reykjaness 31. mars 2005 dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Brot ákærða samkvæmt I. kafla ákæru frá 14. mars 2005 eru hegningarauki við refsidóminn frá 20. desember 2004 og síðari dóma og brot samkvæmt II. kafla við refsidóma frá 31. janúar og 31. mars 2005. Brot samkvæmt ákærum 11. og 19. apríl 2005 eru hegningarauki við refsidóminn frá 31. mars 2005. Að því er hegningarauka varðar ber að ákvarða refsingu með hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. laganna. Með hliðsjón af sakaferli ákærða og brotum þeim er um ræðir í þessu máli, sbr. 77. gr. laga nr. 19/1940 og þeirra dóma er áður hefur verið getið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði.
Með vísan til lagaákvæða í ákæru skal ákærði sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, sæti fangelsi í 3 mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.