Hæstiréttur íslands
Mál nr. 61/2016
Lykilorð
- Barnavernd
- Forsjársvipting
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2016. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.
Fram er komið í málinu að dóttir áfrýjanda nýtur reglulegrar umgengni við móður sína. Með þessari athugsemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2016.
I
Mál þetta, sem var dómtekið 14. desember 2015 er höfðað af B, vegna félagsmálanefndar hennar, [...], [...], með stefnu birtri 29. apríl 2015 á hendur A, kt. [...], [...], [...].
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar, C, kt. [...], til frambúðar.
Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda. Þá gerir hún kröfu um greiðslu málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Mál þetta hefur sætt flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. fyrirmæli 53. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002.
II
Málavextir
Mál þetta snýst um barnið C, fimm ára, sem lýtur forsjá móður sinnar, stefndu í máli þessu. Barnið er nú vistað á vegum barnaverndar B hjá föður stefndu og konu hans. Stefnda, sem er 23 ára, er búsett í [...] ásamt sambýlismanni sínum, D, og eins árs gömlum syni þeirra.
Afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum stefndu hófust þá þegar er hún gekk með barnið sem fætt er í [...] 2010, en þá var stefnda einungis 17 ára gömul. Í [...] 2010 ákváðu barnaverndaryfirvöld að stefnda færi ásamt barninu á vistheimili á vegum barnaverndar. Taldi barnaverndarnefnd dvölina staðfesta að stefnda þyrfti leiðsögn og stuðning varðandi umönnun barnsins. Stefnda samþykkti þá að flytja með það á heimili í [...] og var barnið vistað þar samfellt fram í júní 2011. Stefnda dvaldist sjálf á heimilinu hluta þess tíma. Í mars 2011 reyndi stefnda sjálfsvíg með barnið í sinni umsjá á heimilinu og var lögð inn á á geðdeild í kjölfarið. Meðan á þeirri innlögn stóð tók hún upp samband við D og bjó síðar með honum um nokkurt skeið. Þau slitu sambúð sinni en eru í sambúð í dag og eiga saman einn son eins og áður er getið. Eftir að stefnda tók telpuna aftur í sína umsjá í júní 2011 höfðu barnaverndaryfirvöld tilsjón með heimili stefndu á hverjum degi. Töldu þau umönnun barnsins enn ábótavant og samþykkti stefnda í október 2011 vistun þess utan heimilis á meðan forsjárhæfnismat færi fram. E sálfræðingur framkvæmdi matið og taldi hún stefndu þurfa að bæta sig svo að hún yrði hæf til þess að fara með forsjá dóttur sinnar og bera ábyrgð á henni í daglegu lífi. Leitað var eftir því að móðir samþykkti varanlega vistun barnsins utan heimilis en stefnda hafnaði því. Barnið fór því aftur í umsjá stefndu. Í febrúar 2012 flutti stefnda með barnið inn á heimili föður þess. Hún skildi síðan barnið eftir í umsjá hans í mars s.á. Barnið var í umsjá föður frá þeim tíma til febrúar 2014 og höfðu barnaverndaryfirvöld þá töluverð afskipti af högum þess. Faðir skildi barnið eftir í umsjá núverandi fósturforeldra í byrjun febrúar 2014 en hann hefur afsalað sér forsjá barnsins. Hefur barnið verið hjá fósturforeldrum síðan, fyrst með samþykki móður en síðar skv. ákvörðun stefnanda. Þegar fyrir lá að móðir myndi ekki samþykkja áframhaldandi vistun barnsins utan heimilis ákvað stefnandi að óska eftir nýju forsjárhæfnismati. Í niðurstöðum F sálfræðings, frá 17. mars 2015, kemur fram að þrátt fyrir bætta líðan og félagslega stöðu stefndu sé hún ekki ekki fær um að veita barninu þann stöðugleika og þau þroskavænlegu skilyrði sem það hafi þörf fyrir. Yrði að líta til þess að barnið þyrfti sérstaklega á miklu öryggi, stöðugleika og stuðningi að halda vegna þroskafrávika og þeirrar vanrækslu sem það hefði orðið fyrir. Þegar matið lá fyrir kvað stefnandi upp úrskurð 26. mars 2015 um að barnið skyldi kyrrsett í fóstri í allt að tvo mánuði með vísan til a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þá ákvað stefnandi að gera kröfu fyrir héraðsdómi um að stefnda yrði varanlega svipt forsjá barnsins.
Undir rekstri málsins var aflað frekari matsgerða um forsjárhæfni stefndu. Annars vegar er um að ræða matsgerð G sálfræðings, frá 29. júní 2015, og hins vegar yfirmatsgerð sálfræðinganna H og I frá 21. september 2015.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir kröfu sína um forsjársviptingu á a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Stefnandi telur að daglegri umönnun, uppeldi og samskiptum stefndu og dóttur hennar hafi verið verulega ábótavant á meðan hún hafi haft barnið í daglegri umsjá sinni. Stefnda eigi við andleg veikindi að stríða sem hafa hamlað henni í fortíðinni við umönnun barnsins ásamt öðrum vandamálum, t.a.m. í mannlegum samskiptum, sem hafi komið í veg fyrir að hún hafi náð samfellu í að nýta sér þann stuðning sem í boð hefur verið. Þrátt fyrir að aðstæður og ástand stefndu hafi batnað umtalsvert undanfarið sé það mat stefnanda að hún hafi ekki næga innsýn í þarfir barnsins til þess að veita því það uppeldi og aðhald sem það þurfi á að halda en barnið búi við þroskafrávik og hegðunarvandamál. Þrátt fyrir að barnið hafi tekið stórstígum framförum á þeim tíma sem það hafi verið vistað í fóstri sé mikið verk óunnið og ljóst að barnið þurfi á miklum stöðugleika að halda til þess að halda áfram á sömu braut.
Stefnandi vísar til þess að allt frá því að barnið var mjög ungt hafi barnaverndaryfirvöld reynt þau úrræði sem tiltæk séu til úrbóta og stuðnings skv. VI. kafla barnaverndarlaga, en án varanlegs árangurs. Barnið hafi því farið á mis við það uppeldi og þær aðstæður sem því hefði átt að búa og hafi sú vanræksla sett mark sitt á það en fagfólk sem komið hafi að málinu telji að rekja megi þroskafrávik þess til vanrækslu í umönnun á meðan barnið var í umsjá foreldra sinna. Á grundvelli alls framangreinds og með hagsmuni barnsins að leiðarljósi sé nauðsynlegt að svipta stefndu forsjá þess svo að unnt verði að veita því áfram viðunandi aðstæður til uppeldis og þroska.
Málsástæður stefndu
Af hálfu stefndu er á því byggt að skilyrði forsjársviptingar séu ekki fyrir hendi. Vísar stefnda til þess að skv. 2. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga skuli börn njóta réttinda í samræmi við aldur og þroska og að barnaverndaryfirvöldum beri að taka tillit til sjónarmiða barna og óska eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfir. Vissulega sé hér um ungt barn að ræða, með þroskafrávik, en barnaverndaryfirvöld hafi ekki haft fyrir því að ræða við barnið.
Stefnda telur að stefnandi hafi ekki virt lögbundin réttindi stefndu, né hafi verið reynt að leitast við að finna úrræði sem hentuðu samráði við hana. Þá sé það með ólíkindum að stefnandi hafi ekki gefið stefndu kost á að andmæla fyrirhugaðri kröfu stefnanda um forsjársviptingu áður en að dómsmálið hafi verið þingfest. Nauðsynlegt sé að hafa í huga að forsjársvipting sé verulega íþyngjandi ráðstöfun fyrir foreldri, sem feli í sér skerðingu á grundvallarrétti sem varinn sé af 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands lög nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Stefnda mótmælir því að hana skorti innsýn í þarfir og þroska barnsins og að hún geri sér ekki grein fyrir eðli eða umfangi þroskafrávika og annars vanda þess. Hvergi hafi komið neitt fram í gögnum sem styðji að líkamlegri heilsu barnsins geti verið hætta búin sökum þess að stefnda sé augljóslega vanhæf. Þá styðji gögn málsins ekki að andlegri heilsu barnsins og þroska þess sé hætta búinn haldi stefnda forsjánni. Stefnda bendir á að hún hafi aldrei átt í vandræðum með áfengi eða aðra vímugjafa. Þá sé ekkert sem bendi til þess að geðrænar truflanir valdi því að stefnda geti ekki sinnt forsjánni. Vissulega hafi stefnda átt við þunglyndi að stríða, en hún mælist ekki með persónuleikaröskun. Geðlæknir hennar telji að miklar breytingar hafi orðið á líðan og aðstæðum stefndu á þessum tíma en haft sé eftir honum í gögnum málsins að stefnda hafi náð mun betra líkamlegu jafnvægi en áður. Þá vísi læknirinn til þess að sambýlismaður stefndu sé kjölfestan í lífi hennar en hann hafi ekki áhyggjur af sambandi þeirra þar eð í því ríki bæði traust og samvinna.
Stefnda bendir á að engin hætta sé á að hegðun hennar sé líkleg til að valda barninu skaða. Í dag séu aðstæður stefndu allt öðruvísi en áður. Þá eigi hún yngra barn sem hún hugsi mjög vel um. Barnaverndaryfirvöld hafi ekki séð neina ástæðu til að hafa áhyggjur af uppeldi þess. Ekkert bendi til þess að stefnda geti ekki hugsað um bæði börn sín.
Stefnda vísar til þess að samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skuli barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu fullreynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þá skuli þau jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Heimildarákvæðið um forsjársviptingu samkvæmt 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga verði að vera stutt nægjanlegum og jafnframt ótvíræðum rökum, bæði að því er taki til a- og d-liða lagagreinarinnar og í þessu máli sé þeim skilyrðum ekki fullnægt. Samkvæmt 2. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar skuli því aðeins krafist sviptingar forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar C, sem nú er [...] sex ára gömul, en telpan er fædd í [...] 2010.
Málefni stefndu komu til kasta barnaverndaryfirvalda þegar er hún gekk með dóttur sína vegna endurtekinna tilkynninga, m.a. í tvígang frá heimilislækni. Í kjölfarið hófu barnaverndaryfirvöld könnun málsins. Eftir fæðingu barnsins barst m.a. tilkynning 9. júní 2010 frá slysadeild Landspítalans þar sem fram kom að móðir hefði leitað þangað, veik, óhrein og illa hirt og með barnið með sér. Móðir hafnaði boði barnaverndarnefndar um að fara með barnið á vistheimili. Þann 17. júní s.á. kom tilkynning frá lækni á sjúkrahúsi [...] þangað sem stefnda hafið leitað, veik og illa hirt. Barnið fékk næringu í æð. Stefnda var 10 daga á sjúkrahúsinu ásamt barninu. Í framhaldinu fór stefnda á vistheimili með barn sitt. Kemur fram að sú dvöl hafi leitt af sér vitneskju um að umönnun barnsins hafi verið verulega ábótavant. Stefnda hafi m.a. ekki vaknað til dóttur sinnar eða sinnt hreinlæti hennar. Í kjölfar þess samþykkti stefnda að flytja á vistheimili. Dvaldist barnið þar til júní 2011 og var móðir með barninu hluta af tímanum. Á öðrum tíma var móðir á flækingi og reyndi sjálfsvíg vegna depurðar, en mun þó hafi hitt dóttur sína nokkuð reglulega. Eftir að lyfjameðferð hófst fór móður að ganga betur, hún bjó á vistheimilinu og sótti m.a. skóla. Í mars 2011 fór að halla undan fæti hjá stefndu. Hún sinnti ekki lyfjameðferð sinni, vaknaði ekki til barnsins og brást seint við leiðbeiningum. Þann 22. mars 2011 gerði hún aftur tilraun til sjálfsvígs og var lögð inn á geðdeild Landspítalans. Stefnda samþykkti áframhaldandi veru barnsins á vistheimilinu. Í júní 2011 fór barnið af vistheimilinu til stefndu sem þá hafi hafið sambúð. Tilsjón var með heimilinu og voru miklar áhyggjur af óþrifnaði þar og drasli. Sótt var um forgang að leikskóla og átti barnið að hefja leikskóladvöl 1. september 2011. Stefnda hætti fljótlega að mæta með barnið á leikskólann, hún mætti stopult hjá geðlækni sínum og var hætt í skóla. Barnið, sem var í hennar umsjá á þessum tíma, var sent á bráðamóttöku Landspítalans vegna gruns um ofþornun. Í október 2011 samþykkti stefnda vistun barnsins utan heimilis á meðan forsjárhæfnismat fór fram. Eftir að forsjárhæfnismat lá fyrir í nóvember 2011 samþykkti hún ekki varanlega vistun barns í fóstri og tók hún barnið aftur til sín. Í febrúar 2012 fór hún með barnið til barnsföður síns í Þorlákshöfn. Hún flutti sjálf fljótlega til Reykjavíkur og skildi barnið eftir hjá föður í um tvö ár en hann flutti með það til Selfoss í lok sama árs. Í febrúar 2014 fór faðirinn með barnið til núverandi fósturforeldra og skildi það eftir þar. Fósturforeldar eru faðir og stjúpa stefndu en þau búa í Reykholti í Árnessýslu. Stefnda samþykkti tímabundna vistun barnsins hjá fósturforeldrum frá 1. mars 2014 til 28. febrúar 2015. Á fundi félagsmálanefndar stefnanda 9. mars 2015 samþykkti stefnda að barnið yrði áfram vistað utan heimilis til 27. mars s.á. Á fundi nefndarinnar þann 26. mars s.á. var úrskurðað um áframhaldandi veru barnsins hjá fósturforeldrum í allt að tvo mánuði. Jafnframt var ákveðið að gera kröfu fyrir héraðsdómi um að stefnda yrði varanlega svipti forsjá dóttur sinnar.
Í málinu liggja fyrir fjórar matsgerðir um forsjárhæfni stefndu.
Í forsjárhæfnismati E sálfræðings, frá 28. nóvember 2011, kemur fram að niðurstöður sálfræðilegra prófa sýni margháttaðan og djúpan vanda móður sem er í samræmi við sögu hennar og takmarkanir í uppeldi og birtist í vangetu til að mæta þörfum dótturinnar. Hún hafi neikvætt sjálfsmat, búi við mikla streitu, kvíða og áhyggjur, hana skorti verulega almenna virkni og hún eigi erfitt með að stýra tilfinningum sínum. Þá sé sinnuleysi, ábyrgðarleysi og innsæisskortur móður áberandi. Þetta telur matsmaðurinn að dragi úr forsjárhæfni hennar.
Í forsjárhæfnismati F sálfræðings, frá 17. mars 2015, kemur fram að geðræn vandamál móður, tilfinningalegur óstöðugleiki og samskiptavandi, séu djúpstæð og eigi rætur í æsku hennar. Enn fremur segir: „Svo virðist sem að núverandi aðstæður A séu henni mjög hagfelldar og hún sé að taka út þroska sem hafi góð áhrif á tilfinningalíf og samskiptafærni hennar. Engu að síður er ljóst að langvarandi vandamál A hafi ekki horfið þó að henni líði um þessar mundir betur en áður og sennilegt er að brestir hennar komi fram undir álagi. Líklegt er að A þurfi á bæði meðferð og stuðningi að halda til lengri tíma þar til hægt verði að segja með vissu að hún hafi öðlast varnalegan stöðugleika bæði hvað varðar tilfinningar og tengsl.“ Einnig bendir matsmaður á að stefnda eigi langa sögu um stutt og stormasöm sambönd og „þó svo að samband þeirra D virðist traust hafi þau eingöngu verið saman í um tvö ár og að staða A myndi að öllum líkindum snarversna ef svo færi að hún missti stuðning D og fjölskyldu hans“. Þá segir að ljóst sé að stefnda hafi vanrækt barn sitt mjög alvarlega fyrstu tvö æviár þess og það hafi haft afar alvarleg áhrif á tilfinningalíf þess, tengsl og þroska og að stefndu skorti enn mjög innsýn í þarfir og þroska barnsins. Fram kemur jafnframt í matsgerðinni að vanvirkni stefndu, tilfinningalegur óstöðugleiki, vandamál í samskiptum, óhefluð framkoma og tilhneiging hennar til að varpa ábyrgð á aðra veiki hana mjög bæði í foreldrahlutverkinu og sem fyrirmynd fyrir barnið. Matsmaður telur ríka ástæðu til að hafa áhyggjur af velferð og þroska barnsins verð það í umsjá stefndu. Þrátt fyrir að stefnda hafi tekið framförum á síðasta ári og búi nú við mun betri aðstæður en áður telur matsmaður að flutningur barnsins í umsjá hennar um þessar mundir myndi hafi mikla áhættu í för með sér. Barnið hafi alist upp við afar mikið óöryggi og vanrækslu í umsjá foreldra sinna fyrstu fjögur æviár sín og beri þess glögg merki enn í dag. Það sýni óöryggi og hafi veruleg þroskafrávik. Þá sé til þess að líta að barnið hafi, á þeim tíma sem það hafi verið í fóstri, tekið stórstígum framförum sem ekki sjái fyrir endann á. Telur matsmaður afar ólíklegt að aðbúnaður barnsins yrði áfram jafngóður, yrði það tekið úr núverandi umhverfi. Í lok matsgerðar segir að „þrátt fyrir bætta líðan og félagslega stöðu A sé hún ekki fær um það í dag að veita C þann stöðugleika og þroskavænlegu skilyrði sem hún hefur þörf fyrir. Verði að líta til þess að C þurfi á sérstaklega miklu öryggi, stöðugleika og stuðningi að halda vegna þroskafrávika og þeirra vanrækslu sem hún hefur orðið fyrir.“
Í sálfræðilegri matsgerð G frá 29. júní 2015, sem dómkvödd var að beiðni stefndu, kemur fram að stefnda hafi glímt við þunglyndi og kvíða og hafi átt erfitt með að sinna sjálfri sér og dóttur sinni. Því hafi aðstæður hennar og barnsins verið óviðunandi árum saman. Matsmaður telur að í dag hafi stefnda ágætan skilning á almennum daglegum þörfum barnsins og geti annast það og sinnt þörfum þess. Ljóst sé að staða barnsins sé orðin allt önnur eftir að það hafi dvalið hjá fósturforeldrum í rúmt ár og að í leikskólanum hafi verið unnið ötullega í þeim málum sem brýnt var að laga. Það sé jafnframt samdóma álit að barnið hafi tekið stórstígum framförum á þeim tíma. Þá hafi stefnda verði í sambúð í tvö ár, sambandið virðist stöðugt og góð samvinna sé á heimilinu. Matsmaður hefur eftir C, geðlækni á Landspítalanum, sem hefur haft stefndu í viðtölum eftir fæðingu yngra barnsins, að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að stefnda geti sjálf annast dóttur sína fái hún hana til sín. Hún telji þó mikilvægt að stefnda fái góðan og þéttan stuðning fái hún telpuna. Niðurstaða matsmannsins er að stefnda sé hæf til að fara með forsjá dóttur sinnar en þó með þeim fyrirvara að hún fái umhyggjusaman, góðan og þéttan stuðning eins lengi og talið er að komi að gagni.
Í sálfræðilegi yfirmatsgerð H og I frá 21. október 2015, sem dómkvaddir voru að beiðni stefnanda, kemur fram að nú hafi ákveðinn stöðugleiki náðst í lífi stefndu en svo virðist sem sá stöðugleiki hafi að miklu skapast í tengslum við samband hennar við núverandi barnsföður. Ákveðin ró virðist því vera komin yfir stefndu sem ekki var áður til staðar. Telja yfirmatsmenn að vísbendingar séu um framtaks- og sinnuleysi gagnvart því að sinna sjálfri sér og umhverfi sínu. Þá eigi stefnda það til að hagræða sannleikanum til að fegra ímynd sína og geti því gefið misvísandi upplýsingar. Þeir efast um hæfni hennar til að veita dóttur sinni þá hvatningu og örvun sem hún hefur þörf fyrir, hún hafi takmarkað innsæi í eigin ábyrgð á erfiðleikum telpunnar og varpi því ábyrgð á aðra hvað þetta varðar. Yfirmatsmenn telja að stefnda hafi þörf fyrir að ná stöðugleika til lengri tíma svo að talið verði forsvaranlegt að raska ró stúlkunnar sem hefur sýnt miklar framfarir í því umhverfi þar sem hún er í dag. Yfirmatsmenn telja því að stefnda hafi þörf fyrir áframhaldandi meðferð og stuðning þar sem unnið sé að því að ná stöðugleika. Þessi óstöðugleiki í félags- og tilfinningalífi hafi verið einkennandi fyrir stefndu til margra ára þar sem hún hafi lengi glímt við kvíða og þunglyndi, hafi verið í óstöðugum samböndum og flutt endurtekið á milli sveitarfélaga. Þá hafi afkomuvandi verið mikill, hún hafi brotna skóla- og atvinnusögu. Þá hafi mótþrói og erfiðleikar í samskiptum lengst af einkennt viðmót, hegðun og tengsl hennar. Segja þeir einkenni þessi vera í samræmi við fyrirliggjandi greiningu um persónuleikaröskun sem einkennist af óstöðugum geðbrigðum og félagslegum erfiðleikum. Hafa yfirmatsmenn efasemdir um að stefnda myndi ráða við börn og heimili ef samband hennar og sambýlismanns endaði og hætta sé á að í mótlæti myndi hún ekki ráð við slíka ábyrgð. Matsmenn telja ljóst að miklar og jákvæðar breytingar hafi átt sér stað hvað varðar tengsl, þroska, líðan og félags- og samskiptahæfni telpunnar eftir að hafa fengið þann stöðugleika, aðhald og ramma sem hún hafi búið við í tæp tvö ár enda hafi staða hennar verið verulega slæm þegar hún kom fyrst í umsjá fósturforeldra. Telja þeir ljóst að þessi árangur hefði ekki náðst nema með slíku inngripi. Yfirmatsmenn leggja áherslu á að ekki verði hróflað við núverandi aðstæðum telpunnar enda myndi það valda henni skaða á flestum sviðum þroska, bæði til skemmri og lengri tíma.
Samkvæmt 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2008 eiga börn rétt á vernd og umönnun í samræmi við aldur sinn og þroska. Þá ber foreldrum að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Þeim ber og að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Markmið laganna er að tryggja að börn sem búa við aðstæður sem taldar eru geta stofnað heilsu þeirra eða þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skal við að ná þeim markmiðum með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu. Barnaverndaryfirvöldum ber ávallt að beita vægustu úrræðum til að ná markmiðum barnaverndarlaga og einungis skal beita íþyngjandi ráðstöfunum ef lögmætum markmiðum laganna verður ekki náð með öðru og vægara móti. Forsjársvipting er alvarlegt inngrip og verður slík krafa ekki tekin til greina nema ríkar ástæður liggi þar að baki, enda sé hverju barni eðlilegt að alast upp hjá eigin foreldrum. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga skal í barnaverndarstarfi beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Jafnframt er í 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögtekinn var með 2. gr. laga nr. 19/2013, kveðið á um að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálayfirvöld og dómstólar gera ráðstafanir sem varða börn. Þótt mikilvægt sé að varðveita tengsl barnsins við móður sína, eins og ráðið verður af ákvæðum laganna og samningsins, verða þeir hagsmunir að víkja fyrir brýnum hagsmunum barnsins sjálfs ef þetta tvennt fer ekki saman
Að mati dómsins endurspegla matsgerðir vanhæfni stefndu til að fara með forsjá dóttur sinnar. Í matsgerðum kemur fram að geðrænn vandi stefndu er bæði alvarlegur og djúpstæður og birtist m.a. í tilfinningalegum óstöðugleika, samskiptavanda og skorti á innsýn í þroska og þarfir barnsins og vangetu til að taka leiðsögn og stuðningi barnverndaryfirvalda. Síðastliðin tæp fjögur ár hefur barnið ekki búið með stefndu og á þeim árum hafa stuðningsúrræði barnaverndaryfirvalda við móður ekki verið mikil. Þó er ljóst að henni hefur ekki tekist að veita dóttur sinni þá hvatningu, stöðugleika, ást og örvun sem hún hafði þörf fyrir en stefnda vanrækti barnið alvarlega fyrstu æviárin. Telpan ber glögg merki vanrækslu enn í dag, en hún sýnir óöryggi og hefur veruleg þroskafrávik. Rík ástæða er til að hafa áhyggjur af velferð og þroska barnsins verði það í umsjá stefndu og að flutningur barnsins til stefndu myndi hafa mikla áhættu í för með sér. Á fósturheimili barnsins hefur hagsmuna þess verið gætt í hvívetna og þörf þess fyrir stöðugleika verið mætt. Byggður hefur verið góður rammi um telpuna og vel að hennar málum staðið. Á þeim tíma sem hún hefur verið í fóstri ber öllum aðspurðum saman um að hún hafi tekið stórstígum framförum sem ekki sjái fyrir endann á og hafi náð að nálgast jafnaldra sína í þroska. Telur dómurinn fullvíst að þroska barnsins sé hætta búin vegna augljósrar vanhæfni stefndu til að fara með forsjána flytjist það aftur til hennar. Ólíklegt er að stefnda geti viðhaldið þeim ramma, örvun, stöðugleika og öryggi sem barnið hefur þörf fyrir og býr nú við á fósturheimilinu þar sem það hefur verið í bráðum tvö ár.
Að öllu framangreindu virtu verður að telja að skilyrðum samkvæmt a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga sé fullnægt og að hagsmunum C sé best borgið með því að stefnda verði svipt forsjá hennar. Er því fallist á kröfu stefnanda. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að stefnda á, ef aðstæður hennar hafa breyst til hins betra og breyting er að öðru leyti talin í samræmi við hagsmuni telpunnar, möguleika á að fá sviptingunni hnekkt með dómi, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga.
Stefnandi gerir ekki kröfu um málskostnað. Rétt þykir að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu. Stefndu var veitt gjafsókn í málinu með bréfi innanríkisráðuneytisins 5. maí 2015. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Leifs Runólfssonar hdl., greiðist úr ríkissjóði. Þykir hún hæfilega ákveðin með hliðsjón af umfangi málsins 1.240.000 krónur Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tilliti til virðisaukaskatts.
Dóminn kvað upp Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt Aðalsteini Sigfússyni og Odda Erlingssyni sálfræðingum.
D Ó M S O R Ð
Stefnda, A, er svipt forsjá dóttur sinnar C.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 1.240.000 krónur.