Hæstiréttur íslands

Mál nr. 216/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Miðvikudaginn 27. mars 2013.

Nr. 216/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. apríl 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði leikur sterkur grunur á að varnaraðili hafi átt veigamikinn hlut að innflutningi á mjög miklu magni amfetamíns hingað til lands. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að fallast á kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila í þágu almannahagsmuna. Af þeim sökum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. apríl 2013, kl. 16:00. gert að sæta gæslu án takmarkana.

Kærði gerir þá kröfu að gæsluvarðhaldskröfunni verði hafnað og til vara að henni verði markaður skemmri tími

Í greinargerð lögreglustjóra segir að Ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi nú haft til rannsóknar stórfellt fíkniefnalagabrot er varðar innflutning á miklu magni af sterkum fíkniefnum hingað til lands. Um sé að ræða rúmlega 20 kg af amfetamíni og um 2 lítra af amfetamínvökva, sem var flutt hingað til lands með pósti, en lögreglan lagði hald á sendingarnar 21. og 24. janúar sl.

Í þágu rannsóknar málsins hefur lögreglan handtekið og yfirheyrt átta sakborninga, þ.m.t. kærða Símon, og sæta nú alls sex einstaklingar gæsluvarðhaldi, þar af þrír í þágu rannsóknar málsins.

Lögregla hefur undir höndum myndbandsupptökur þar sem sjá má kærðu, X, A og B, póstleggja þann 18. janúar sl. þær sendingar er innihéldu umrædd 20 kíló af amfetamíni.

Þá hefur lögregla undir höndum upplýsingar um að X og kærði C hafi ferðast saman til Kaupmannahafnar þann 14. janúar og dvalið þar saman á hóteli.  Þá hefur lögregla undir höndum ljósmynd úr öryggismyndavélkerfi verslunar þar sem sjá má meðkærðu C og X saman að versla potta sem fíkniefnunum var komið fyrir í. 

Mánudaginn 28. janúar sl. sótti meðkærði, D, eina sendingu í póstafgreiðslu við [...] í Reykjavík.  Fylgdist lögregla með því hvar hann afhendi sendinguna ofangreindum B, við [...] við [...]. Fylgdist lögregla með hvar B gekk með póstsendinguna áleiðis að [...], þar sem hann losaði sig við hana og var hann handtekinn strax í kjölfarið.  Þá fylgdist lögregla einnig með því hvar meðkærði E hélt sig í námunda við pósthúsið og virtist fylgjast með afhendingu pakkans.

Í þágu rannsóknar málsins handtók lögreglan og yfirheyrði ofangreinda aðila.

Kærði X kom til landsins 23. janúar en hann var handtekinn 24. janúar sl. grunaður um aðild að fíkniefnainnflutningnum. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan á grundvelli rannsóknarhagsmuna, nú síðast með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 176/2013.

Kærði hefur að nokkru leyti viðurkennt aðild sína að málinu.  Hann kveðst hafa verið fenginn til verksins af meðkærða C. Hann kvaðst ekki hafa tekið þátt í að koma efnunum fyrir í póstsendingarnar, heldur hafi hann þá verið beðinn um að yfirgefa hótelherbergið þegar kom að pökkun efnanna. Hann kvaðst ekki hafa lagt nokkurn pening í þennan innflutning heldur hafi aðrir séð um fjármögnunina. Er þessi framburður kærða mótsögn við framburði annarra sakborninga. Í yfirheyrslum hjá lögreglu hefur meðkærði C viðurkennt að hafa farið út til Kaupmannahafnar í umrætt sinn. Hann kvaðst hafa gert það að beiðni kærða X. Hans hlutverk hafi einungis verið að aðstoða X.  Hann kvað X hafa sagt sér að þetta ætti að vera tvö til þrjú kíló af amfetamíni og að X væri með skothelda leið í gegnum tollinn. Við síðustu skýrslutöku hjá lögreglu kvað C þriðja aðila hafa afhent A peninga, kvað hann þá A, X og þennan þriðja aðila hafa hist og rætt um þessa peninga. Hann kvað þá A og X hafa boðið þessum þriðja aðila aðstoð við þennan hlut, þ.e. að koma þessum fíkniefnum til landsins.

Rannsókn lögreglu er nú á lokastigi en hér er um að ræða umfangsmikið og vel skipulagt fíkniefnamál þar sem mikið magn af sterkum fíkniefnum voru flutt hingað til lands. Unnið hefur verið að rannsókn málsins að hluta til  í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld.

Kærði þykir vera undir sterkum grun um aðild að broti sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Að mati lögreglu þykir meint aðild kærða mikil en hún er talin tengjast skipulagningu og flutningi fíkniefnanna hingað til lands. Hið ætlaða brot kærða þykir mjög alvarlegt. Lögregla telur nær öruggt að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Þá er einnig lagt til grundvallar kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald að um mjög mikið magn hættulegra fíkniefna sé að ræða. Með tilliti til hagsmuna almennings þykir þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar en telja verður að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli lýkur með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr. 269/2010, 164/2010, 56/2010, 551/2009, 136/2008, 306/2008, 635/2007, 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999 en í þessum málum hefur sakborningum verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að uppkvaðningu dóms þegar legið hefur fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Ekki er talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, og er talið að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í því máli sem hér um ræðir.

Til rannsóknar er ætlað brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Að mati dómara þykir lögreglustjóri hafa sýnt fram á að lagaskilyrði 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 séu uppfyllt enda sterkur grunur fyrir hendi um umtalsverða aðild ákærða að afbroti sem varðað getur meira en tíu ára fangelsi og af þeim sökum megi ætla varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Verður því að öllu virtu með vísan til rökstuðnings lögreglustjóra fallist á kröfu hans eins og hún er fram sett og kærða gert að sæta gæsluvarhaldi eins og segir í dómsorði.

                Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Kærði, X, skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. apríl 2013, kl. 16:00.