Hæstiréttur íslands
Mál nr. 280/2015
Lykilorð
- Líkamsárás
- Áfrýjun
- Kröfugerð
- Skaðabætur
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 26. nóvember 2015. |
|
Nr. 280/2015.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn Jóhanni Frey Egilssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Líkamsárás. Áfrýjun. Kröfugerð. Skaðbætur. Skilorð.
J var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa annars vegar slegið A hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut sár og hnúð á hökubeinið og hins vegar sparkað ofarlega í líkama hans sem olli því að hann snerist á ökkla í falli með þeim afleiðingum meðal annars að ökkli hans fór úr lið og tvíbrotnaði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þær kröfur sem ákæruvaldið hefði gert í greinargerð fyrir Hæstarétti hefðu gengið lengra og verið óhagfelldari J en sú krafa sem ákæruvaldið hefði tilgreint í áfrýjunarstefnu. Fengjust hinar auknu kröfur því ekki komist að í málinu, sbr. c. lið 1. mgr. 201. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Við ákvörðun refsingar J var litið til þess að árásin hefði verið fólskuleg og tilefnislaus og haft varanlegar afleiðingar í för með sér fyrir A. Ætti J sér engar málsbætur. Var refsing J ákveðin fangelsi í tíu mánuði en fullnustu sjö mánaða refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var J gert að greiða A 585.000 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. apríl 2015 af hálfu ákæruvaldsins. Í áfrýjunarstefnu var krafist af þess hálfu að refsing ákærða yrði þyngd og honum gert að greiða allan sakarkostnað. Í greinargerð fyrir Hæstarétti krefst ákæruvaldið þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en til vara að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, refsing hans þyngd og honum gert að greiða allan sakarkostnað.
Ákærði krefst þess aðallega að kröfum ákæruvaldsins um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og sakfellingu hans samkvæmt ákæru verði vísað frá Hæstarétti. Að öðru leyti krefst hann mildunar refsingar, en að því frágengnu að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hann aðallega sýknu af einkaréttarkröfu, en til vara að hún verði lækkuð.
Brotaþolinn A krafðist þess í greinargerð til Hæstaréttar að ákærða yrði gert að greiða sér 1.089.849 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti féll þingsókn niður af hans hálfu og verður því litið svo á að hann krefjist þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.
I
Í máli þessu er ákærða gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa aðfaranótt 17. nóvember 2013, fyrir utan Sambíóin við Strandgötu á Akureyri, slegið brotaþola í andlitið og strax í kjölfarið sparkað í andlit hans þannig að hann féll á gangstéttina með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund um stund, hægri ökkli hans fór úr lið og tvíbrotnaði bæði hliðlægt og miðlægt, auk þess sem hann hlaut áverka á liðbandi milli dálks og sperrileggs og sár og hnúð á hökubeini. Er brotið talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir að hafa umrætt sinn slegið brotaþola hnefahöggi í andlitið og við það hafi hann fengið sár og hnúð á hökubeinið. Þá var ákærði sakfelldur fyrir að hafa sparkað með hægri fæti ofarlega í líkama brotaþola, sem valdið hafi því að hann snerist á ökkla í falli og hlaut þá áverka sem lýst er í ákæru. Að öðru leyti var ákærði sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og brot hans heimfært undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
II
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 201. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal í áfrýjunarstefnu greina nákvæmlega í hverju skyni áfrýjað sé. Kröfur þær sem fram koma í greinargerð ákæruvaldsins til Hæstaréttar ganga lengra og eru óhagfelldari ákærða en sú krafa sem tilgreind var í áfrýjunarstefnu. Fá þessar auknu kröfur því ekki komist að í málinu og tekur áfrýjunin þar af leiðandi einungis til þess að refsing ákærða verði þyngd. Að gættu framangreindu verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða látin standa óröskuð.
Árás ákærða var í senn fólskuleg og tilefnislaus og hafði varanlegar afleiðingar í för með sér fyrir brotaþola. Ákærði á sér engar málsbætur. Samkvæmt þessu er refsing hans ákveðin fangelsi í tíu mánuði, en rétt er að fresta fullnustu hluta hennar á þann hátt sem nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu og málskostnað til brotaþola verða staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan sakarkostnað málsins, eins og hann var ákveðinn í héraði, svo og allan áfrýjunarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Jóhann Freyr Egilsson, sæti fangelsi í tíu mánuði, en fresta skal fullnustu sjö mánaða refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu og málskostnað til brotaþola skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins eins og hann var ákveðinn í héraði, svo og allan áfrýjunarkostnað þess, 577.453 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 19. mars 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 25. september 2014, á hendur Jóhanni Frey Egilssyni, kt. [...], Tjarnarlundi 8 E, Akureyri;
„fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 17. nóvember 2013, fyrir utan Sambíóið við Strandgötu á Akureyri, slegið A í andlitið og strax í kjölfarið sparkað í andlit A þannig að hann féll á gangstéttina með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund um stund, hægri ökkli hans fór úr lið og tvíbrotnaði bæði hliðlægt og miðlægt, auk þess sem A hlaut áverka á liðbandi milli dálks og sperrileggs og sár og hnúð á hökubeini.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 1.089.849 ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 17. nóvember 2013 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er kynnt ákærða, en dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna lögmannskostnaðar samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti.“
Skipaður verjandi, Sigmundur Guðmundsson héraðsdómslögmaður, hefur fyrir hönd ákærða krafist þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að háttsemi hans verði heimfærð undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga í stað 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá krefst verjandinn sýknu af bótakröfu, en til vara að hún verði stórlega lækkuð. Loks krefst verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.
I.
1. Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu, frásögn ákærða og framburði vitna, var haldin almenn skemmtun á veitingastaðnum Kaffi Amor við Ráðhústorg á Akureyri aðfaranótt sunnudagsins 17. nóvember 2013. Á meðal gesta voru m.a. ákærði og vinkona hans, B, en einnig vinur ákærða, vitnið C. Þá var á meðal gesta brotaþolinn A, en við dyravörslu umrædda nótt voru dyraverðirnir D og E.
Samkvæmt frumskýrslu F lögregluvarðstjóra var hann í lögreglubifreið þessa nótt ásamt starfsfélögum í miðbæ Akureyrar, nánar tiltekið á Túngötu, gegnt Landsbankanum og nærri Ráðhústorgi, þegar tilkynning barst um líkamsárás við Sambíóið við Strandgötu nærri veitingastaðnum Kaffi Amor við Ráðhústorg. Segir í skýrslunni að lögreglumennirnir hafi strax brugðist við, enda verið nærri vettvangi, um 60 metra, og hafi þeir komið að brotaþola, A, fæddum [...], þar sem hann hafi legið á gangstéttinni skammt austan við inngang veitingastaðarins, en nærri aðalinngangi Sambíós/Nýja-bíós. Greint er frá því að brotaþoli hafi verið ölvaður og frekar illa áttaður, en haft á orði að ráðist hafi verið á hann. Þarna á vettvangi hafi verið vitnið G, fæddur [...], er hafi greint frá því að ákærði í máli þessu, Jóhann Freyr, hefði ráðist á brotaþola og sparkað í hann mjög fast með þeim afleiðingum að hann hafi fallið á gangstéttina. Tekið er fram í skýrslunni að fleira fólk hafi verið á vettvangi, en að það hafi ekki getað borið um atvik máls, að öðru leyti en því að fyrrnefnd stúlka, B, hefði haft orð á því að brotaþoli hefði verið að áreita hana og fleira fólk, og að hann hefði jafnframt þóst vera óeinkennisklæddur lögreglumaður að störfum. Haft er eftir stúlkunni að hún hefði í raun ekki séð árásina á brotaþola, en skyndilega veitt því eftirtekt að hann lá á gangstéttinni og að maður forðaði sér um svipað leyti á hlaupum af vettvangi. Í skýrslunni er greint frá því að ökkli brotaþola hafi greinilega verið aflagaður og hafi því sjúkraflutningamenn verið kallaðir til og hann í framhaldi af því verið fluttur með sjúkrabifreið á Sjúkrahúsið á Akureyri.
Í gögnum lögreglu, þ. á m. skýrslu lögregluvarðstjórans, kemur fram að strax hafi verið grunur um að ákærði hafi átt hlut að máli og því hafi lögreglumenn hafið leit að honum í miðbænum og m.a. farið inn í verslunina Nætursöluna við Strandgötu, en í framhaldi af því hefðu þeir skoðað upptökur úr öryggismyndavél sem staðsett er á húseigninni Hafnarstræti 107, sem sýnir vettvang austan við Ráðhústorg og m.a. við veitingastaðinn Kaffi Amor og Sambíó við Strandgötu. Í skýrslu nefnds varðstjóra segir um efni upptökunnar: „... á myndskeiði úr upptökuvélinni mátti sjá að nokkrir aðilar eru saman fyrir utan anddyri Sambíós við Strandgötu. Allt í einu sést maður sparka þungu sparki í þennan mann, samkvæmt klukku upptökuvélarinnar eru hún þá 04:24:43. Við sparkið fellur árásaþolinn, A, í götuna. Mátti sjá að árásaraðilinn er klæddur í hvítan bol, gráar buxur og dökkum jakka. Árásaraðilinn sést síðan ganga austur Strandgötu að Nætursölunni og hverfa þar fyrir hornið til suðurs. Nokkrir aðilar stumra yfir A og við, áhöfnin á [...], komum síðan á vettvang kl. 04:27:50 ...“. Í skýrslunni er greint frá því að lögreglumaðurinn H hafi þekkt ákærða á myndskeiðinu sem einn þeirra viðskiptavina, sem verið hafði í versluninni Nætursölunni þá um nóttina. Greint er frá því að þá um nóttina hefði lögreglan fengið frekari upplýsingar um ferðir ákærða, en jafnframt segir frá því að nefndum lögregluvarðstjóra hafi borist fregnir um að dyravörðurinn E hefði vitneskju um að ákærði hefði verið sá aðili sem hefði ráðist á brotaþola við Sambíóið. Samkvæmt frumskýrslunni hafði lögregluvarðstjórinn af þessu tilefni símasamband við E þriðjudagskvöldið 20. nóvember nefnt ár. Er haft eftir E í skýrslunni að hann hefði margnefnda nótt farið ásamt starfsfélaga sínum, D, á Olísstöðina við Glerárgötu eftir að dyravarðarstarfi þeirra lauk á Kaffi Amor og átt þar orðastað við ákærða, en þá skilist að hann hefði gengið í skrokk á brotaþola. Hið sama kom fram eftir að varðstjórinn hafði rætt við D.
Nefnt myndskeið úr öryggismyndavél er á meðal gagna ákæruvalds, sem lagt var fyrir dóminn, en það var m.a. sýnt við aðalmeðferð málsins.
Samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands var hitastig á Akureyri kl. 03:00 umrædda nótt 1°.
2. Samkvæmt gögnum aflaði lögregla við rannsókn málsins áverkavottorða frá Sjúkrahúsinu á Akureyri um meiðsli brotaþola. Liggja fyrir í málinu tvö vottorð, annars vegar vottorð I aðstoðarlæknis, sem dagsett er 24. janúar 2014, og hins vegar vottorð J bæklunarlæknis, sem dagsett er 12. maí sama ár. Í báðum vottorðum segir frá því að brotaþoli hafi eftir aðgerð á slysadeild verið lagður inn á bæklunardeild sjúkrahússins og að þar hafi hann legið frá 17. til 20. nóvember 2013. Í vottorði bæklunarlæknisins, sem ritað var upp úr sjúkraskrá, segir frá því að brotaþoli hafi við komu á slysadeildina 17. nóvember nefnt ár ekki gefið mjög skýra sögu um atvik máls, en nefnt að hann hafi verið að skemmta sér og verið fyrir utan Kaffi Amor að reykjaþegar einhver aðili hefði ráðist á hann. Hann hafi fengið högg á andlit og höfuð og þá dottið við á hægri fótinn með þeim afleiðingum að fóturinn virtist fara úr ökklalið. Greint er frá því að við skoðun hafi brotaþoli verið eymslalaus við höfuð og háls og ekki kvartað undan verkjum við hálshrygg. Tekið er fram að brotaþoli hafi verið með mar, smákúlu og sár hliðlægt á hökunni, og hafi þessir áverkar minnt á blæðingu undir beinhimnu. Þá er greint frá því að hægri ökkli brotaþola hafi augljóslega verið úr lið, en þegar ökklinn hafi verið myndaður hafi þar einnig sést brot, bæði miðlægt og hliðlægt. Vegna ökklaáverkans hafi brotaþoli farið í aðgerð og hafi brotið verið fest með plötu og skrúfu hliðlægt og tveimur skrúfum miðlægt. Vegna liðbandaáverkans, á milli dálks og sperrileggs, hafi verið sett skrúfa á milli þessara beina. Tekið er fram að aðgerðin hafi gengið vel, en að brotaþola hafi ekki verið leyft að stíga í fótinn í a.m.k. tvær vikur, en að hann hafi eftir það fengið loftspelkur. Skýrt er frá því að vegna andlegrar vanheilsu hafi brotaþoli verið lagður inn á geðdeild þann 20. nóvember 2013. Fram kemur í vottorðinu að brotaþoli hafi vegna áverka sinna komið á slysadeildina 3. og 21. desember nefnt ár vegna verkja. Þá segir að við skoðun þann 30. desember hafi brotaþoli verið með skerta hreyfingu í ökkla og hafi honum af þeim sökum verið ráðlögð hreyfiþjálfun. Í samantekt segir um lýsta áverka brotaþola:
„Það ökklabrot sem A fékk er alvarlegt. Ökklinn var að fullu úr lið og tvíbrotinn og þurfti stórar aðgerðir við þar sem festa þurfti brotið rétt. Einnig þurfti töluverða eftirmeðferð í sex vikur á eftir og langvarandi sjúkraþjálfun. Oft er eftir áverka sem þessa töluverður stirðleiki í ökklanum og má frekar búast við að A nái ekki fullri hreyfigetu eftir áverkann og geti verið með verki við visst álag í framtíðinni. Það er fullsnemmt nú að meta lokabata. Það er ráðlegt að bíða í eitt eitt og hált ár þar til það verður gert. Ljóst er að eftir áverkann og aðgerðina er þörf á langvarandi sjúkraþjálfun, hreyfiþjálfun og ekki ólíklegt að þurfi að grípa til verkjalyfja stöku sinnum. Reikna má með að mjúkvefjaáverki á höku lagist að fullu.“
Í málinu liggur einnig fyrir vottorð K, læknis á Heilsugæslustöðinni á Akureyri. Vottorðið, sem er dagsett 11. febrúar 2014, var ritað vegna beiðni um sjúkraþjálfun brotaþola. Í vottorðinu er greint frá fótbroti brotaþola og að hann hafi farið í aðgerð, en síðan segir: „Gengið hægt þó ágætlega. Er nýlega hættur að ganga með hækjur og getur gengið um tvo km á dag en þreyttur næsta dag. Ef þreyttur þá haltrar hann. Við skoðun er ökklinn bólginn, sá hægri miðað við þann vinstri. Mjúkur í kringum ökklann. Skurðsár vel gróin, skurðsár beggja vegna á ökklanum, allar hreyfingar skertar um ökklann verst eversion og imversion.“
3. Samkvæmt skýrslum rannsóknarlögreglu var brotaþoli yfirheyrður um ætlaða líkamsárás á lögreglustöðinni á Akureyri 4. desember 2013. Ákærði var á hinn bóginn fyrst yfirheyrður um kæruefnið 13. desember sama ár. Samkvæmt gögnum lögreglu var ákærða birt bótakrafa brotaþola 24. febrúar 2014.
Samkvæmt gögnum hafði rannsóknarlögreglan símasamband við fyrrnefnda stúlku, B, 18. desember 2013. Er haft eftir B að hún hafi ekki verið sjónarvottur að því sem gerðist aðfaranótt 17. nóvember við Sambíóið. Lögreglan yfirheyrði vitnin C og G 22. desember 2013. Allar þessar skýrslur voru teknar upp með hljóði og mynd og eru mynddiskar þar um á meðal þeirra gagna sem ákæruvaldið lagði fyrir dóminn.
II.
Mál þetta var þingfest 14. október sl. Við fyrirtöku fyrir dómi 27. sama mánaðar játaði ákærði, Jóhann Freyr, líkt og við aðalmeðferð málsins, að hafa slegið brotaþola létt utan undir, en jafnframt að hafa sparkað í brotaþola. Ákærði bar að þetta hefði hann gert fyrir utan Sambíóið við Strandgötu, en staðhæfði að brotaþoli hefði þá verið uppistandandi. Ákærði neitaði því að hann væri valdur að þeim meiðslum og áverkum sem lýst er í ákæru, fyrir utan hökuáverkann. Þá hafnaði hann bótakröfu brotaþola.
Við aðalmeðferð málsins skýrði ákærði frá því að hann hefði verið á veitingastaðnum Kaffi Amor umrædda nótt, ásamt vitninu C og fyrrnefndri vinkonu, en á meðal gesta hefðu einnig verið vitnið G og brotaþoli. Ákærði sagði að brotaþoli hefði verið „svolítið ölvaður“ og bar að hann hefði verið að angra vinkonu hans, stúlkuna B, með því að ýta í hana. Vegna þessa kvaðst hann hafa brugðist við og beðið brotaþola að hætta afskiptum af stúlkunni. Ákærði bar að brotaþoli hefði þá farið að rífast við hann, en jafnframt ýtt við honum að tilefnislausu. Ákærði kvaðst hafa haft hendur fyrir aftan bak er þetta gerðist, en bar að brotaþoli hefði slegið hann á vinstri vangann og hann af þeim sökum kennt til í nokkra daga. Eftir að þessum viðskiptum lauk kvaðst ákærði hafa farið út af veitingastaðnum ásamt C og þeir í framhaldi af því gengið stuttan spöl til austurs, að inngangi Sambíós við Strandgötu. Ákærði bar að þar á vettvangi hefði verið nokkur hópur fólks og þar á meðal brotaþoli. Ákærði staðhæfði að brotaþoli hefði haldið áfram að rífa kjaft við hann, en vísaði að öðru leyti um málsatvik til þess myndskeiðs sem lögreglan hafði aflað við rannsókn málsins. Nánar aðspurður kvaðst ákærði hafa staðið á gangstéttinni nærri akbrautinni, en bar að brotaþoli hefði í fyrstu staðið gegnt honum við húsvegginn við veitingastaðinn. Ákærði sagði að brotaþoli hefði við þessar aðstæður gengið í áttina til hans, en hann þá stigið á móti honum eitt skref og síðan slegið hann og svo sparkað í hann. Nánar skýrði ákærði svo frá að hann hefði slegið brotaþola eitt hnefahögg í andlitið og ætlaði að hann hefði af þeim sökum fengið sár og hnúð á hökubeinið og vísaði til þess að hann hefði haft hring á fingri. Ákærði kvaðst í framhaldi af hnefahögginu hafa sparkað í bringu brotaþola. Taldi hann ólíklegt að fótur hans hefði náð að andliti brotaþola, en bar að hann hefði fallið á gangstéttina. Ákærði greindi frá því að hann hefði æft sjálfsvarnaríþrótt, en hann kvaðst ekki hafa hoppað upp þegar hann sparkaði í brotaþola. Þá kvaðst hann ekki hafa sparkað af fullu afli, en ætlaði að brotaþoli hefði e.t.v. misst andann við höggið og sagði: „Hann eiginlega bara sest niður og leggst útaf.“ Ákærði taldi ólíklegt að brotaþoli hefði hlotið ökklaáverka sína vegna lýsts athæfis hans, og sagði að allt eins hefði einhver nærstaddur getað komið að brotaþola og stigið ofan á hægri ökkla hans eftir að hann féll á gangstéttinni. Ákærði sagði að viðskipti hans við brotaþola utan dyra hefðu varað í um tvær til þrjár mínútur, og bar hann að raki hefði verið á gangstéttinni en ekki hálka. Fyrir viðskiptin kvaðst hann ekkert hafa séð athugavert við göngulag brotaþola. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis er atvik gerðust. Hann kvaðst ekkert hafa gætt að brotaþola eftir að hann féll, enda hefði hann strax farið af vettvangi.
Brotaþoli, A, kvaðst umrædda nótt hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum Kaffi Amor. Hann kvaðst hafa neytt áfengis og verið vel við skál. Hann kvaðst hafa átt samskipti við aðra gesti staðarins, en staðhæfði að hann hefði ekki verið með neins konar áreiti eða leiðindi. Hann kvaðst þó minnast þess að einn gestanna hefði haft orð á því að hann hefði verið að reyna við konu hans en sagði að það hefði allt endað vel og að þeir hefðu tekist í hendur. Brotaþoli kvaðst ekkert hafa þekkt til ákærða er atvik gerðust og taldi ólíklegt að hann hefði átt hlut að þessu kvennamáli. Brotaþoli bar að hann hafi ætlað að fara snemma heim þessa nótt en afráðið að fara á salernið áður, en þá veitt því eftirtekt að fíkniefnaneysla var þar í gangi. Í því viðfangi vísað brotaþoli til þess að það hefði oft komið fyrir á skemmtistöðum að aðrir gestir teldu hann starfa við löggæslu, þrátt fyrir að hann hefði aldrei kynt undir slíku að öðru leyti en því að hann hefði lýst skoðun sinni og andúð á fíkniefnum.
Brotaþoli skýrði frá því að eftir að hann fór út af skemmtistaðnum hefði hann haldið til austan við staðinn og reykt vindling, en að öðru leyti kvaðst hann ekki minnast málsatvika. Hann kannaðist þannig ekki við að hafa átt í deilum við nærstadda aðila. Hann kvaðst muna það næst að hann hefði rankað við sér með stjörnur í augunum, en þá hefðu sjúkraflutningamenn verið að hlúa að honum þar sem hann lá grafkyrr á gangstéttinni milli Sambíós og Kaffi Amors. Næst kvaðst brotaþoli hafa rankað við sér á sjúkrahúsinu. Brotaþoli kvaðst engar skýringar hafa á því sem gerðist. Brotaþoli greindi frá því að eftir að hann kom til sjálfs sín á sjúkrahúsinu hefði hann verið aumur í kjálka og bringunni og átt erfitt með andardrátt.
Brotaþoli ætlaði að fyrir utan Kaffi Amor hefði ekki verið hálka er atvik gerðust og áréttaði að hann hefði ekki skýringar á áverkum sínum, fyrir utan það sem hann hefði síðar heyrt af athæfi ákærða. Brotaþoli kvaðst í fyrstu hafa haft mikla verki í ökklanum og staðhæfði að hann fyndi þar enn fyrir þreytuverkjum. Hann kvaðst hafa náð bata á um sex mánuðum, en bar að hreyfigetan væri aðeins um 70-80%.
Vitnið C, fæddur [...], kvaðst umrædda nótt hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum Kaffi Amor ásamt vini sínum, ákærða í máli þessu, og bar að þeir hefðu báðir verið undir áhrifum áfengis. Fyrir dómi vísaði hann til þess að þar sem langt væri um liðið ætti hann í nokkrum erfiðleikum með að skýra frá atvikum máls, en að auki kvaðst hann ekki vera mjög minnugur. Hann ætlaði að atvik hefðu verið með þeim hætti að hann hefði verið ásamt ákærða á efri hæð veitingastaðarins ásamt stúlkunni B er brotaþoli hefði komið að þeim og verið með leiðindi og ekki látið sér segjast þrátt fyrir að ákærði hefði farið fram á það. Hann kvað brotaþola m.a. hafa ýtt og kýlt eitthvað í ákærða; „ekkert í andlitið held ég, ef ég man rétt, held ég í bringuna eða eitthvað svona.“ Hann ætlaði að þessi leiðindi brotaþola hefðu varað í fimm eða tíu mínútur og bar að brotaþoli hefði haft orð á því að hann starfaði í lögreglunni. C bar að hann hefði starfað við dyravörslu á skemmtistöðum á Akureyri, en kvaðst ekkert hafa kannast við brotaþola er atvik gerðust. Eftir að greindum samskiptum við brotaþola lauk kvaðst hann hafa farið út af veitingastaðnum ásamt ákærða og bar að þeir hefðu eftir það haldið til nærri Nýja-bíói (Sambíóinu). Hann sagði að brotaþoli hefði verið þar fyrir og bar að hann hefði haldið áfram dólgslátum og verið með „svona almennar hótanir ... eitthvað illur í skapinu ... hann var bara svo fullur ... hann ætlaði að ráðast á okkur.“ Vegna þess kvaðst hann hafa sagt við brotaþola að hann ætti að halda sér rólegum, en hann kvaðst er atvik gerðust hafa verið æstur líkt og ákærði. C bar að brotaþoli hefði ekkert sinnt þessum tilmælum heldur gengið nær honum og ákærða og bar að það sem síðar gerðist hefði verið sjálfsvörn af hálfu ákærða. C sagði að brotaþoli hefði nær alveg verið kominn að ákærða er hann hefði brugðist við og lýsti hann atvikum nánar þannig: „Jói (ákærði) svona kýlir eitthvað í hann (brotaþola), hann kýldi eða ýtti svona einhvers staðar í öxlina á honum ... og síðan hérna þá sparkar hann einhvers staðar í bringuna.“ Hann sagði að aðalþunginn af höggi ákærða hefði komið á bringuna á brotaþola, en ætlaði að e.t.v. hefði skótá ákærða hafnað á höku brotaþola, en taldi það þó frekar ólíklegt. Hann kvaðst hafa staðið fyrir aftan ákærða er þetta gerðist, en um viðbrögð brotaþola sagði hann: „Hann svona skakkaði ... skriðaðist til eða svona dettur niður.“ Fyrir nefndan atgang ákærða kvaðst C ekki hafa séð neitt athugavert við göngulag brotaþola, og bar jafnframt að hitalögn væri í gangstéttinni fyrir utan nefndan skemmtistað og bíó. Hann kvaðst ekki frekar en ákærði hafa hugað að brotaþola eftir að hann féll á gangstéttina, enda hefðu þeir farið af vettvangi. Hann ætlaði að lýst viðskipti fyrir utan skemmtistaðinn hefðu varað í átta til þrettán mínútur. Hann kvaðst aldrei hafa orðið var við lögreglu á vettvangi.
Vitnið G, fæddur [...], kvaðst umrædda nótt hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum Kaffi Amor, en þar kvaðst hann m.a. hafa séð til viðskipta ákærða og brotaþola. Hann kvaðst hafa þekkt til ákærða, en ekki brotaþola. Hann kvaðst hafa veitt því eftirtekt að ákærði og brotaþoli voru eitthvað að öskra hvor á annan, en ekki heyrt hvað þeim fór á milli og sagði: „En ég sá að hann, A, var eitthvað að ýta í Jóa.“ G kvaðst ekki hafa séð upptök þessa atgangs eða hafa skýringar á þeim að öðru leyti. Hann kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis er atvik gerðust og ætlaði að líkt hefði verið á komið með ákærða, en bar að brotaþoli hefði greinilega verið ölvaður. Um fimmtán mínútum eftir þetta kvaðst hann hafa farið út af staðnum og eftir það átt orðastað við vinkonu sína, fyrrnefnda stúlku, B, en þá einnig séð að ákærði og brotaþoli voru þar á vettvangi. Hann kvað ákærða hafa haft á orði að brotaþoli hefði kýlt hann inni á veitingastaðnum. Hann kvaðst ekki hafa séð áverka á ákærða eða heyrt hann kvarta um eymsli.
G bar að brotaþoli hefði komið að þar sem hann var að ræða við nefnda stúlku og sagði að hann „hafi eitthvað verið að böggast í B“ en þó ekki þannig að það athæfi hefði vakið sérstaka athygli hans. Hann sagði að ákærði hefði verið í um fimm metra fjarlægð er þetta gerðist og bar að hann hefði komið að þeim, en lýsti atvikum nánar þannig: „Hann (ákærði) tekur eitthvað svona hringspark í hann (brotaþola) ég sá það ekki alveg sko ... ég stóð við hliðina og heyrði allt hljóðið, svo lá hann (brotaþoli) auðvitað bara eftir ... og (ákærði) fór svo í burtu og þá hringdi ég í sjúkrabíl og lögguna.“ G kvaðst ekki hafa séð ákærða slá til brotaþola fyrir sparkið og dró hann að því leyti frásögn sína hjá lögreglu til baka. Vísaði hann til þess að fólk sem var á vettvangi hefði haft orð á slíku, en áréttaði að það hefði hann ekki séð með eigin augum. Og nánar aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð hvar spark ákærða hafnaði á líkama brotaþola, en bar að nærstaddir aðilar hefðu haft orð á því að að sparkið hefði farið í andlitið á brotaþola. G áréttaði að hann hefði strax farið að huga að brotaþola, en þá séð að fótur hans var snúinn. Þá kvaðst hann í fyrstu hafa ætlað að brotaþoli hefði misst meðvitund, en bar að eftir að hann rankaði við sér hefði hann lagt að honum að standa ekki upp. G kvaðst ekki hafa séð áverka í andliti brotaþola, en ætlaði að hann hefði við fallið skollið með höfuðið á stéttina, sem hefði verið auð.
G sagði að fyrir atgang ákærða hefði brotaþoli verið valtur á fótum en að öðru leyti hefði ekkert verið athugavert við göngulag hans. Þannig hefði ekkert bent til þess að brotaþoli hefði verið ökklabrotinn og sagði G um tilkomu áverka brotaþola: „Það hefur örugglega bara verið höggið þegar hann datt ... það hafði alla vega ekki gerst áður en þetta gerðist.“
D kvaðst hafa verið við dyravörslu á veitingastaðnum Kaffi Amor. Vitnið kvaðst hafa þekkt til ákærða í máli þessu er atvik gerðust, en ekkert þekkt til brotaþola. D kvaðst minnast þess að umrædda nótt hefði verið uppi ágreiningur með ákærða og brotaþola og smáreiði, en hann kvaðst þó ekki hafa heyrt eða séð þau samskipti með eigin augum. Hann kvað ákærða og brotaþola þannig sinn í hvoru lagi hafa haft tal af honum og lýst gagnkvæmri óánægju með hvor annan. Hann kvaðst ekki hafa séð áverka á þeim. Eftir lokun staðarins kvaðst hann hafa séð að sjúkrabifreið kom að veitingastaðnum, en aldrei séð tilefni þess. Eftir að störfum á skemmtistaðnum var lokið kvaðst hann hafa farið á Olísstöðina ásamt starfsfélögum sínum og þá séð að þar voru fyrir ákærði og vinir hans. Fyrir dómi kvaðst hann ekki minnast þess að hafa átt samskipti við ákærða á Olísstöðinni, en staðfesti að hafa átt orðastað við lögreglumann um atvik máls nokkrum dögum síðar. Hann kvaðst ekki vefengja að hann hefði þá haft orð á því að hann hefði heyrt ákærða segja frá því að hann myndi rota brotaþola er hann kæmi út af skemmtistaðnum umrædda nótt og jafnframt að ákærði hefði haft orð á því á Olísstöðinni, að brotaþoli hefði „abbast upp á vitlausan mann“.
E, fæddur [...], kvaðst hafa verið að störfum sem dyravörður á veitingastaðnum Kaffi Amor umrædda nótt og bar að meðal gesta hefðu verið ákærði og brotaþoli. Hann kvaðst hafa þekkt þá báða fyrir og heyrt orð ákærða um að brotaþoli hefði haft uppi einhver orð gagnvart honum og að enginn ætti að komast upp með slíkt. Eftir lokun staðarins kvaðst hann hafa fylgst með því að brotaþoli var fluttur af vettvangi í sjúkrabifreið. Nokkru síðar kvaðst hann hafa lagt leið sína á Olísstöðina ásamt starfsfélögum sínum og þá séð að ákærði og vitnið C voru þar fyrir. Hann kvaðst hafa heyrt samræður þeirra og þ. á m. að ákærði hefði sagt að hann hefði sparkað fótunum undan brotaþola með þeim afleiðingum að hann hefði fallið á jörðina. Hann kvaðst hafa innt ákærða eftir þessu frekar og bar að hann hefði þá játað verknaðinn, en ekki rætt málefnið frekar.
F lögreglumaður lýsti atvikum og gjörðum sínum fyrir dómi með líkum hætti og hér að framan var rakið í frumskýrslu lögreglu. Hann staðfesti m.a. að strax hefðu grunsemdir beinst að ákærða í máli þessu og að síðari aðgerðir lögreglu hefðu tekið mið af því. Hann kvað það hafa verið augljóst á vettvangi að fótur brotaþola var aflagaður, en að auki hefði hann verið með áverka í andliti. Hann kvað brotaþola hafa verið með meðvitund en vankaðan og undir áhrifum áfengis. Hann bar að þegar atvik gerðust hefði verið snjólaust á vettvangi vegna snjóbræðslu. Síðar um nóttina kvaðst hann hafa séð athæfi ákærða á myndskeiði úr öryggismyndavél.
L og H lögreglumenn lýstu atvikum máls með líkum hætti og fyrrnefndur lögregluvarðstjóri. Þykir því ekki ástæða til að rekja framburð þeirra frekar.
J bæklunarlæknir staðfesti fyrir dómi áðurrakið læknisvottorð, en hann kom ekki að aðhlynningu brotaþola umrædda nótt. Aðspurður um ökklaáverka sagði hann að samkvæmt sjúkraskrá hefði brotaþoli farið úr ökklaliðnum en við það hefði ökklinn brotnað miðlægt og hliðlægt, þ.e. báðum megin. Hann sagði að ástæða slíks áverka væri sjaldnast afleiðing höggs heldur kæmi þar frekar til snúningsáverki. Hann kvað slíkt geta gerst þegar viðkomandi rynni til í hálku og félli við, þ.e. ef nægilegur kraftur myndaðist við slíkt. Hann sagði að í tilviki brotaþola hefðu atvik hins vegar að líkindum verið með þeim hætti að hann hefði snúið illa upp á ökklann, en þannig hefði hann brotnað á tveimur stöðum. Að auki hefðu liðböndin á milli sperrileggs og dálks farið í sundur ásamt liðpokanum. Þannig hefði orkan verið nægilega mikil til þess að slíta þetta allt í sundur ásamt beinhimnunni. Hann bar að ekki væri óalgengt við slíka áverka, að þrátt fyrir að bein gréru vel kæmi fram stirðleiki til framtíðar. Hann kvað hökuáverka brotaþola hafa að líkindum verið vegna höggs og að blætt hefði undir beinhimnuna.
III.
Í máli þessu er ákærði m.a. ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Varðar sakarefnið það að ákærði hafi aðfaranótt sunnudagsins 17. nóvember 2013, um klukkan 04:30, slegið brotaþola í andlitið og strax í kjölfarið sparkað í andlit hans þannig að hann féll á gangstétt við Strandgötu, með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru.
Af hálfu ákæruvalds er byggt á því að sekt ákærða sé sönnuð með eigin frásögn hans að nokkru, en einnig framburði vitna, myndskeiði úr eftirlitsmyndavél og áverkavottorðum.
Ákærði neitar sök. Hann hefur þó viðurkennt að hafa slegið brotaþola hnefahöggi í andlitið og að hafa sparkað ofarlega í líkama hans, nánar tiltekið í bringu. Fyrir dómi hefur ákærði játað að hnefahögg hans hafi valdið sári og hnúð á höku brotaþola, en andmælt því að brotaþoli hefði misst meðvitund. Þá hefur ákærði andmælt því að hann sé valdur að ökklabroti brotaþola. Um heimfærslu hefur ákærði krafist sýknu á refsiákvæði 2. mgr. 218 gr. hegningarlaganna, en þess í stað vísað til 217. gr., en einnig eftir atvikum til 1. mgr. 218. gr. hegningarlaganna.
Dómurinn hefur, auk þess að fara á vettvang, farið yfir myndskeið úr eftirlitsmyndavél, sem staðsett er á húseigninni nr. 107 við Hafnarstræti. Á myndskeiðinu má sjá austur yfir Ráðhústorg og að veitingastaðnum Kaffi Amor og Nýja-bíói (Sambíói) þar sem óumdeilt er að atvik máls þessa gerðust.
Á nefndu myndskeiði, sem hefst kl. 04:23 umrædda nótt, sést hvar ákærði stendur nokkrum metrum austan við inngang veitingastaðarins Kaffi Amor, nærri gangstéttarbrún. Má sjá að fimm eða sex aðrir vegfarendur eru fyrir framan skýli sem er rúmlega einn og hálfur metri að hæð og er á milli inngangs veitingastaðarins og inngangs Nýja-bíós. Að mati dómsins má greina hvar brotaþoli stendur við súlu sem tilheyrir umræddu skyggni, sem nær að inngangi Nýja-bíós.
Á myndskeiðinu má sjá að ákærði virðist eiga í orðaskiptum við aðila á vettvangi og að brotaþoli er þar nærri. Á þeirri stundu sést að ákærði er með báðar hendur í buxnavösum. Þegar um ein mínúta er liðin af myndskeiðinu (kl. 4:24:43) sést hvar ónefndur aðili gengur til móts við ákærða frá fyrrnefndu skýli og þar á eftir gengur annar aðili og staðnæmist rétt hjá ákærða. Í þann mund má sjá hvar brotaþoli stígur í átt að ákærða, en í kjölfarið (kl. 4:24:47) virðist sem ákærði sé að gera sig líklegan til þess að ráðast að brotaþola, sem eins og áður sagði er þá að ganga til móts við hann. Í beinu framhaldi af þessu (kl. 4:24:50) sést að ákærði tekur tilhlaup og sparkar með hægri fæti í brotaþola með þeim afleiðingum að hann fellur við. Spark ákærða er allhátt, en viðkoma þess á brotaþola er ógreinileg á myndskeiðinu. Í kjölfar þessa sést að ákærði heldur rakleiðis af vettvangi og gengur til austurs ásamt öðrum manni, að líkindum vitninu C. Fara þeir að versluninni Nætursölunni, og hverfa þeir þar fyrir húshornið. Á þeirri leið má sjá að ákærði lítur í tvígang í átt að brotavettvangi þar sem brotaþoli liggur á gangstéttinni. Þá sést á myndskeiðinu hvar lögreglubifreið kemur á vettvang og staðnæmist á akbrautinni fyrir framan veitingastaðinn Kaffi Amor. Um fjórum mínútum síðar sést hvar sjúkrabifreið kemur á vettvang.
Brotaþoli hefur við alla meðferð málsins lítt getað greint frá atvikum máls, en fyrir liggur að hann og ákærði þekktust í raun ekkert er atvik gerðust. Af frásögn vitna verður ráðið að einhver illindi hafi verið með ákærða og brotaþola á veitingastaðnum Kaffi Amor umrædda nótt. Að virtum framburði dyravarða verður ráðið, að brotaþoli hafi ekki látið sitt eftir liggja, enda þótt sýnilegar líkamlegar afleiðingar hlytust ekki af. Þó hefur ákærði borið að hann hafi fengið minni háttar eymsli á kjálka vegna atgangs brotaþola, en það þykir hafa nokkra stoð í vitnisburði vinar hans, C.
Lagt verður til grundvallar að tiltölulega fljótlega eftir að lýstum viðskiptum lauk á veitingastaðnum hafi ákærði og brotaþoli ásamt áðurnefndum vitnum og fleiri gestum hafst við austan við aðalinnganginn, en nærri inngangi Nýja-bíós við Strandgötu. Af gögnum verður enn fremur ráðið að takmörkuð og stutt samskipti hafi verið með aðilum þar sem þeir höfðust við á gangstéttinni, en upplýst er að ákærði og brotaþoli voru báðir undir áhrifum áfengis.
Sönnunarbyrði um atvik sem eru sakborningi í óhag hvílir hjá ákæruvaldinu samkvæmt 108. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.
Að mati dómsins er sannað með játningu ákærða, sem stoð hefur í framburði vitna og læknisvottorði, að ákærði sló brotaþola hnefahöggi í andlitið við lýstar aðstæður. Er eigi varhugavert að telja sannað að vegna þessa hafi brotaþoli fengið sár og hnúð á hökubeinið. Að mati dómsins þykir einnig fyllilega sannað með játningu ákærða, ásamt með framburði vitnanna C og G, en ekki síst áðurlýstu myndskeiði, að ákærði hafi í beinu framhaldi af hnefahögginu sparkað með hægri fæti ofarlega í líkama brotaþola. Að virtum framburði ákærða og nefndum gögnum þykir ákæruvaldið hins vegar ekki hafa sannað að ákærði hafi með þessum hætti samhliða sparkað í andlit brotaþola. Ber því að sýkna hann af þeim verknaði. Þá er ósannað að brotaþoli hafi misst meðvitund eins og lýst er í ákæru.
Að mati dómsins er nægilega upplýst að hálka var ekki á vettvangi er atburður þessi gerðist. Þá hefur ekkert komið fram um að brotaþoli hafi átt við vanheilsu eða fótamein að stríða fyrir árás ákærða. Sannað er að við spark ákærða féll brotaþoli þegar niður á gangstéttina. Að virtum áðurnefndum gögnum, vitnisburðum svo og staðfestu læknisvottorði, þykir ekki varhugavert að telja sannað að spark ákærða, sem að mati dómsins var þungt, hafi valdið þeim snúningsáverka sem lýst er í áðurröktu læknisvottorði bæklunarlæknis og að brotaþoli hafi af þeim sökum hlotið þá áverka á hægri ökkla sem lýst er í ákæru. Þykir heldur ekkert marktækt hafa komið fram í málinu um að brotaþoli hafi hlotið nefndan áverka af öðrum ástæðum en af sparki ákærða og falli hans í beinu framhaldi af því á gangstéttina við akbraut Strandgötu. Í ljósi verknaðaraðferðar og þeirra alvarlegu afleiðinga sem hlutust af framangreindu athæfi ákærða telst brot hans varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1991.
IV.
Ákærði, sem er fæddur 1987, hefur samkvæmt sakavottorði áður sætt refsingum. Hann var þannig dæmdur 29. júní 2011 til sektargreiðslu til ríkissjóðs fyrir fíkniefnaakstur. Var hann þá jafnframt sviptur ökurétti tímabundið. Þá var ákærði dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi 28. nóvember 2011, en einnig til sektargreiðslu til ríkissjóðs, fyrir fíkniefnaakstur og brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni, en um hegningarauka var að ræða. Dómurinn var birtur ákærða samdægurs.
Brot ákærða, sem hér er til umfjöllunar, framdi hann 17. nóvember 2011, en upplýst er að lögreglan hóf þá þegar rannsókn sína. Ákærði var hins vegar fyrst yfirheyrður um sakarefnið þann 12. desember sama ár, en þá var tveggja ára skilorðstími dómsins frá 28. nóvember 2011 liðinn. Ákærði hefur því með háttsemi sinn eigi rofið skilorð nefnds dóms, sbr. ákvæði 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að líkamsárás ákærða var fólskuleg og hafði alvarlegar afleiðingar, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Ekki verður fallist á með ákærða að viðskipti hans við brotaþola á nefndum veitingastað skömmu áður réttlæti árás hans þannig að áhrif hafi á ákvörðun refsingar, enda þótt háttsemi brotaþola hafi þar ekki alveg verið vítalaus. Á hinn bóginn verður horft til þess að ákærði játaði að hluta háttsemi sína við alla meðferð málsins og að hann hefur ekki áður hlotið refsingu fyrir ofbeldisbrot. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fimm mánaða fangelsi, en rétt þykir að fresta fullnustu hennar eins og greinir í dómsorði.
A hefur krafist skaðabóta, en henni er lýst í ákæru. Krafan er dagsett 19. febrúar 2014 og var hún birt ákærða 24. febrúar sama ár.
Krafan er sundurliðuð og rökstudd. Í fyrsta lagi er krafist endurgreiðslu á sjúkra-, lyfja- og ferðakostnaði, en einnig á öðrum kostnaði samkvæmt framlögðum reikningum, samtals að fjárhæð 89.849 krónur. Í öðru lagi er krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna. Loks er krafist málskostnaðar vegna lögmannsþjónustu að mati dómsins.
Bótakröfunni er mótmælt af hálfu ákærða sem vanreifaðri og of hárri.
Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás gagnvart brotaþola og ber hann bótaábyrgð samkvæmt almennri sakarreglu skaðabótaréttar á tjóni hans.
Að ofangreindu virtu verður fallist á að ákærði verði dæmdur til að greiða reikninga brotaþola vegna útlagðs sjúkra-, lyfja- og ferðakostnaðar auk annars kostnaðar, samtals að fjárhæð 89.849 krónur, en um vexti fer eins og í dómsorði greinir.
Fallist er á að ákærði hafi bakað sér skyldu til að greiða miskabætur samkvæmt 26. gr. laga nr. 50, 1993 um skaðabætur. Að virtum framlögðum gögnum, einkum áðurröktum læknisvottorðum og vætti bæklunarlæknis, ákveðast miskabætur til handa brotaþola 500.000 krónur, en um vexti fer eins og í dómsorði greinir.
Þá verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað vegna lögmannsþjónustu, sbr. ákvæði 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88, 2008, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorðið greinir.
Með hliðsjón af málsúrslitum og 218. gr. laga nr. 88, 2008 ber að dæma ákærða til greiðslu ¾ hluta sakarkostnaðar, sem samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti ákæruvalds nemur 85.000 krónum. Þá ber að dæma ákærða til að greiða sama hlutfall af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, sem ákveðast í heild 376.340 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Úr ríkissjóði greiðist ¼ hluti sakarkostnaðar.
Málið fluttu Óli Ingi Ólason aðstoðarsaksóknari, Sigmundur Guðmundsson hdl., skipaður verjandi ákærða, og Sunna Axelsdóttir hdl., lögmaður brotaþola.
Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88, 2008.
Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Jóhann Freyr Egilsson, sæti fangelsi í fimm mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar hans og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dómsins að telja haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.
Ákærði greiði A 585.000 krónur í miska- og skaðabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 17. nóvember 2013 til 24. febrúar 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði ákærði A 248.000 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði ¾ hluta sakarkostnaðar, sem í heild er 461.340 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Sigmundar Guðmundssonar hdl., 376.340 krónur, en ¼ greiðist úr ríkissjóði.