Hæstiréttur íslands
Mál nr. 672/2016
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. september 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 208.631.798 krónur en til vara 137.891.886 krónur, í báðum tilvikum með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. janúar 2011 til 30. júlí 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Mál þetta lýtur að lánssamningi 6. maí 2004 milli Landsbanka Íslands hf. og Húsmúla ehf. Það félag var síðan yfirtekið af Sætúni ehf. 1. janúar 2007. Með þeim samruna tók síðastnefnda félagið við réttindum og skyldum Húsmúla ehf. Af því leiðir að viðauki við lánssamninginn 15. maí 2009 færði ekki skuldbindingu samkvæmt honum á herðar Sætúni ehf. eins og staðhæft er í hinum áfrýjaða dómi, enda hafði það gerst við yfirtökuna. Með þessari leiðréttingu en að öðru leyti með vísan til forsendna dómsins verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Dalsnes ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 9. júní sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Dalsnesi ehf., Fossaleyni 21, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 29. júní 2015.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 208.631.798 krónur, auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur, frá 14. janúar 2001 til 30. júlí 2015, en auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 137.891.886 krónur, auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 14. janúar 2011 og til 30. júlí 2015, en auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað, að skaðlausu, auk virðisaukaskatts.
II
Málavextir eru þeir að hinn 6. maí 2004 undirrituðu forveri stefnanda, Landsbanki Íslands hf., og Húsmúli ehf. lánssamning, sem fékk númerið 1316 hjá bankanum.
Óumdeilt er að kröfuréttindi samkvæmt samningnum fluttust síðar til stefnda, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Einnig er óumdeilt að upphaflegur lántaki, Húsmúli ehf., sameinaðist síðar Sætúni ehf., og að stefnandi gerði upp allar skuldbindingar Sætúns ehf. á grundvelli umþrætts samnings þann 14. janúar 2011 miðað við 17. maí 2010.
Samningurinn hljóðaði upp á fjölmyntalán til fimm ára að jafnvirði 500.000.000 króna, 45% í svissneskum frönkum, 25% í japönskum jenum og 30,0% í Bandaríkjadölum, með framlengingarheimild í 10 ár til viðbótar, fimm ár í senn. Í inngangsorðum samningsins segir að skuldin verði tilgreind með fjárhæð ofangreindra erlendra mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum og að greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skuli hann greiða samkvæmt samningsgengi á gjalddaga. Samkvæmt gr. 1.1 og 1.2 í samningnum var lánið laust til útborgunar tveimur virkum dögum eftir undirritun samningsins og skyldi lántaki senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn yrði sá reikningur sem leggja skyldi lánið inn á, en form að slíkri beiðni fylgdi samningnum sem viðauki 1.
Samkvæmt gr. 1.2 í samningnum bar að endurgreiða lánið að fullu á fimm árum með fimm afborgunum á 12 mánaða fresti, þannig að á fyrstu fjórum gjalddögunum hverjum um sig skyldi greiða 1/30 hluta lánsupphæðarinnar og á lokagjalddaga, 15. maí 2009, skyldi greiða 26/30 hluta. Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta var 15. maí 2009. Lántaki gat óskað eftir framlengingu lánsins tvisvar sinnum á lánstímanum, fimm ár í senn, gegn 0,25% „framlengingarþóknun“.
Samkvæmt grein 2.3 í samningnum óskaði lántaki eftir því að reikningur hans, nr. 0111-26-518 hjá lánveitanda, yrði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum, og lánveitanda samhliða veitt heimild til þess.
Samkvæmt grein 3 í samningnum skyldi lánið bera svokallaða LIBOR-vexti, auk 0,80% vaxtaálags, en vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi og greiðast eftir á á gjalddögum á 12 mánaða fresti út lánstímann, fyrst þann 15. maí 2005.
Samkvæmt 6. gr. í samningnum hafði lánveitandi um það val, stæði lántaki ekki í skilum, hvort krafist yrði dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.
Í grein 4 í samningnum er myntbreytingarheimild, en samkvæmt greininni gat lántaki óskað eftir myntbreytingu samningsins, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðuðust að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið. Þá sagði í greininni að gæti lánveitandi ekki útvegað lántaka einhverja tiltekna mynt eða útvegun hennar hefði í för með sér verulegan kostnað fyrir lánveitanda væri lánveitanda heimilt að nota Bandaríkjadali í stað þeirrar myntar. Við myntbreytingu skyldi nota samningsgengi milli lántaka og lánveitanda, en við myntbreytingu kynni lánssamningur að fá ný lánsnúmer að öllu leyti eða hluta.
Í útborgunarbeiðni með samningnum kemur fram að í samræmi við grein 1.2 í samningnum óski lántaki eftir því að útborgunarfjárhæð verði greidd út þann 7. maí 2004 inn á gjaldeyrisreikninga lántaka, sem þar eru tilgreindir í Bandaríkjadölum, svissneskum frönkum og japönskum jenum, þ.e. reikningar með höfuðbók 38. Þá er lánveitanda, í samræmi við samning aðila, veitt heimild til að skuldfæra tilgreindan krónureikning, með höfuðbók 26.
Samkvæmt framlagðri kaupnótu, dagsettri 7. maí 2004, voru lánsfjárhæðirnar í samræmi við hlutfall hinna erlendu gjaldmiðla, lagðar inn á fyrrgreinda gjaldeyrisreikninga í eigu lántaka.
Stefnandi vísar til samskipta lánveitanda og lántaka í aðdraganda undirritunar lánssamningsins, en í tölvuskeytum, dagsettum 11. mars 2004 og 19. apríl 2004, biður starfsmaður lánveitanda forsvarsmann lántaka meðal annars um „gengissamsetninguna á lánið“ og að fá „myntsamsetninguna senda frá þér með e-mail“. Með tölvuskeyti, dagsettu 7. apríl 2004, sendi starfsmaður lánveitanda lántaka skjal undir heitinu „Neytendalán“. Með tölvuskeyti, dagsettu 6. maí 2004, gaf forsvarsmaður lántaka starfsmanni lánveitanda síðan fyrirmæli varðandi greiðslur á kaupverði og aðrar millifærslur út af reikningi lántaka í íslenskum krónum. Nánar tiltekið voru fyrirmælin þannig að starfsmaður lánveitanda myndi framkvæma eftirfarandi millifærslur: „út af reikn Húsmúla 0111-26-518 inn á reikning Sætúns 0111-26-63 kr. 120.000.000 og einnig kr. 205.000.000 samtals kr. 325.000.000“ og síðan „út af reikningi Sætúns 011-26-63 kr. 324.814.590 inn á 1175-15-553917, kt. 0409374049“ og „kaupa peningabréf fyrir Húsmúla kr. 160.000.000 og skuldfæra reikning 518“. Stefndi kveður að til að þess að framkvæma fyrrgreindar færslur fyrir lántaka hafi þurft að gera framvirka gjaldmiðlasamninga, sbr. framlagðar staðfestingar þess efnis frá lánveitanda. Eftirstöðvar af andvirði lánsins voru síðan greiddar inn á tékkareikning lántaka.
Þann 15. maí 2009 var gerður viðauki við umþrættan samning. Þar kom fram að lántaki, Húsmúli ehf., hefði sameinast Sætúni ehf., en stefnandi leiðir rétt sinn frá því félagi, og að stefndi hefði tekið yfir réttindi og skyldur lánveitanda samkvæmt samningnum, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Síðan voru eftirstöðvar samkvæmt samningnum tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum. Þá var gerð sú breyting á samningnum að lánið bæri að endurgreiða að fullu þann 15. maí 2010.
Lántaki, og síðar Sætún ehf., greiddu fjórum sinnum afborganir og vexti á lánstímanum. Þann 15. maí 2009 var greiðslu afborgana og vaxta síðan frestað, sbr. skilmálabreytingu. Þann 17. maí 2010 greiddi lántaki síðan vexti, en frestaði lokagreiðslu. Stefnandi gerði síðan upp skuld lántaka, Sætúns ehf., samkvæmt umþrættum samningi, með því að gangast undir samning þann 14. janúar 2011. Sá samningur var um lán að fjárhæð 672.019.056 krónur, sem bar að greiða á næstu 25 árum með 300 jöfnum afborgunum á mánaðar fresti. Samkvæmt útborgunarbeiðni stefnanda bar að ráðstafa útborgunarfjárhæðinni inn á umþrætt lán, og skyldi greiðandi lánsins skoðast sem Húsmúli ehf.. Innborgunin skyldi miðast við 17. maí 2010.
Samkvæmt uppgjöri á skuldbindingum Húsmúla ehf. fólst að stefndi veitti 25% afslátt af eftirstöðvum höfuðstóls, umreiknuðum í íslenskar krónur, eins og hann var 30. apríl 2010.
Stefnandi og Sætún ehf., gerðu með sér samkomulag, dagsett 13. mars 2012, sem sagt er vera vegna mögulegrar endurgreiðslu, sem kunni að koma til síðar, til Sætúns ehf., frá bönkum eða fjármálafyrirtækjum vegna ofgreiðslu Sætúns ehf. eða inneignar sem tilheyri félaginu, á ólögmætum gengistryggðum lánum. Samkomulagið tók m.a. til umþrætts láns og skyldu þær greiðslur renna til stefnanda. Stefnandi seldi allt hlutafé sitt í Sætúni ehf. í maí 2012.
III
Stefnandi byggir á því að umdeilt lán hafi verið íslenskt lán með ólögmætri tryggingu við gengi erlendra mynta, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, og enn fremur að stefnandi eigi rétt til þess að vextir, sem greiddir hafi verið fram að endurútreikningi lánsins, hafi verið fullnaðaruppgjör vaxta fyrir það tímabil og að stefnda sé óheimilt að reikna óverðtryggða vexti Seðlabankans fyrir það tímabil.
Líkt og skýrlega komi fram í fjölmörgum dómum Hæstaréttar, sbr. t.d. dóma réttarins í málum nr. 92/2010, 153/2010 og 155/2011, sé óheimilt að tengja höfuðstól láns í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Byggir stefnandi á því að hinn umþrætti samningur hafi verið um lán í íslenskum krónum sem hafi verið endurgreitt í íslenskum krónum, en höfuðstóll þess hafi verið tengdur við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Því hafi staða lánsins ekki verið rétt þegar stefnandi hafi gert kröfuna upp þann 14. janúar 2011. Stefnandi hafi þar af leiðandi ofgreitt stefnda.
Húsmúli ehf. hafi verið upphaflegur lántaki, félag sem átt hafi eina fasteign, sem hafi verið í útleigu. Lánið hafi verið tekið í tengslum við kaup á þeirri eign, þ.e. Vegmúla 3. Félagið hafi ekki haft með höndum aðra starfsemi.
Forsvarsmaður stefnanda hafi átt í umtalsverðum samskiptum við starfsmenn Landsbankans í aðdraganda þess að lánasamningurinn hafi verið gerður. Í þeim samskiptum hafa meðal annars komið fram, í tölvuskeyti starfsmanns stefnda 11. mars 2004, undir heitinu „gengiskrafa“ að bankann vantaði „gengissamsetninguna á lánið“. Auk þess hafi starfsmaður stefnda sent fyrirsvarsmanni stefnanda skjal, 7. apríl 2004, um greiðsluflæði lánsins, þar sem fram hafi komið að endurgreiða ætti 500 milljónir króna. Í skjalinu komi glögglega fram að um íslenskt lán sé að ræða og endurgreiðsluferlið miðað við íslenskar krónur. Í tölvuskeyti fyrirsvarsmanns stefnanda til stefnda, 6. maí 2004, þar sem fram komi með hvaða hætti ráðstafa ætti lánsfjárhæðinni hafi ávallt verið rætt um íslenskar krónur og virðist bankinn ekki hafa gert neinar athugasemdir við það. Hvergi komi fram í þessum samskiptum að erlendar myntir myndu skipta um hendur eða að Húsmúli ehf. fengi erlendar myntir að láni. Ávallt hafa verið gengið út frá því að um íslenskar krónur væri að ræða. Það sé í samræmi við tilgang félagsins og starfsemi þess, sem hafi eingöngu verið hér innanlands og eingöngu í tengslum við kaup og rekstur fasteignar í Reykjavík.
Samningurinn kveði á um að tekið sé fjölmyntalán, að jafnvirði 500.000.000 króna, sem skiptist í tiltekin hlutföll, þ.e. 45% svissneska franka, 25% japönsk jen og 30% Bandaríkjadali. Umrætt orðalag bendi eindregið til þess að um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða, en að höfuðstóll þess væri tengdur við gengi erlendra gjaldmiðla. Margt annað í orðalagi samningsins bendi til þess að um íslenskt lán hafi verið að ræða. Þannig sé hvergi í samningnum sjálfum vísað til þess að um sé að ræða erlendar myntir. Slíkt sé t.d. ekki tilgreint á forsíðu eða í inngangsorðum samningsins, eins og stundum komi fram í slíkum samningum. Hins vegar sé talað um að skuldfæra skuli íslenskan tékkareikning Húsmúla ehf. hjá bankanum og í samningnum sé heimild til að breyta myntsamsetningu lánsins. Í grein 10.2 sé tekið fram að verði samningurinn gjaldfelldur sé bankanum heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur á gjalddaga.
Orðalag samningsins sé þannig sambærilegt öðrum samningum sem Hæstiréttur hafi metið á þann hátt að væru samningar um lán í íslenskum krónum sem væru tengdar gengi erlendra mynta. Þannig hafi orðalag lánssamningsins í hæstaréttarmáli nr. 155/2011, verið orðrétt það sama og í umdeildum lánssamningi.
Stefnandi kveðst hafa verið með önnur lán, sambærileg þessu, hjá Landsbankanum. Lánasamningar að baki þeim lánum hafi verið með nákvæmlega sama orðalagi og í umþrættum samningi. Stefndi hafi viðurkennt að þeir samningar hefðu að geyma ólögmæta gengistryggingu. Sömu sögu megi segja um fleiri lánasamninga hjá félögum sem tengist stefnanda, en stefnandi eigi 100% hlutafjár í Innnesi ehf., sem hafi verið með sambærilega samninga við stefnda á sínum tíma.
Stefndi hafi alfarið séð um útgreiðslu lánsins. Upphaflega hafi viðauki við lánið verið settur upp þannig að greiða ætti lánið út á íslenskan tékkareikning Húsmúla ehf. Í endanlegri útgáfu hafi hins vegar verið handritað inn á viðaukann númer á þremur tilgreindum gjaldeyrisreikningum. Stefnandi hafi aldrei haft gjaldeyrisreikninga hjá bankanum og reikningarnir greinilega verið stofnaðir sérstaklega af hálfu stefnda í tengslum við útgreiðsluna. Færslur séu inn á reikninginn og svo beint út af honum aftur og séu greiðslur svo framkvæmdar samkvæmt þeim fyrirmælum, sem forsvarsmaður lántaka hafi fyrirskipað í tölvupósti. Afgangurinn, þ.e. eftir að greiðslum hafi verið ráðstafað á þann hátt sem óskað hefði verið eftir, hafi svo verið lagður inn á íslenskan tékkareikning stefnanda. Í þessu felist að lántaki hafi aldrei móttekið erlendar myntir. Líkt og fram komi í þeim skjölum sem bankinn hafi látið vinna, hafi verið búið að ákveða fyrir fram hvernig meðferð og útgreiðsla lánsins skyldi fara fram. Þannig komi fram, á svonefndum framvirkum gjaldeyrissamningi, að bankinn skuldbindi sig til að kaupa tiltekið magn af gjaldmiðli og selja tiltekið magn af íslenskum krónum. Þau skjöl séu dagsett 30. apríl 2004. Þann 6. maí 2004, eða degi áður en lánið hafi verið greitt út, sé skrifað undir lánssamninginn og þar sé handritað inn á nýja útgáfu af viðauka við samninginn að greiða skuli lánið út á þrjá tilgreinda gjaldeyrisreikninga. Umræddir reikningar hafi verið stofnaðir þann sama dag, eða degi síðar. Færslur inn á reikninginn hafi því farið inn og svo beint út aftur, allt í samræmi við það ferli sem bankinn hafi verið búinn að móta varðandi útgreiðslu lánsins. Lántaki hafi ekki átt neina aðkomu að þessu ferli. Lántaki hafi t.d. ekki séð sjálfur um að millifæra af gjaldeyrisreikningnum eða veita bankanum sérstaka heimild til þess. Lántaki hefði aldrei getað hagnýtt sér hinar erlendu myntir. Lántaki hafi aldrei fengið erlendar myntir afhentar eða til ráðstöfunar. Bankinn hafi svo séð um að greiða í íslenskum krónum þær greiðslur sem forsvarsmaður Húsmúla ehf. hefði farið fram á að yrðu greiddar. Það eina sem lántaki hafi gert hafi verið að rita undir lánasamninginn þann 6. maí 2004 og síðan hafi hann fengið þær fréttir, 7. maí 2004, að greiðslur hefðu verið framkvæmdar í samræmi við tilmæli hans.
Stefnandi kveður að í fjölmörgum dómum Hæstaréttar hafi verið litið svo á að um íslenskt lán hafi verið að ræða þrátt fyrir að bankar eða fjármálafyrirtæki hafi lagt fram svonefndar kaupnótur, sem þeir hafi unnið í tengslum við hverja lánveitingu. Slíkar kaupnótur lýsi því hvernig krónur hafi verið keyptar fyrir gjaldeyri og krónurnar svo greiddar út til lántakenda. Að mati dómstóla breyti slíkar kaupnótur eða sambærileg skjöl því ekki að lán teljist vera í íslenskum krónum. Hið sama eigi við í þessu máli, öll samskipti lántaka við bankann og fyrirmæli um notkun lánsins hafi falið í sér að sýslað hafi verið með íslenskar krónur en ekki erlendar myntir. Öll skjalagerð í tengslum við svonefnda framvirka gjaldeyrissamninga, hafi bankinn einhliða gert. Undirritun lántaka komi þar hvergi fram, ekki frekar en á kaupnótum í öðrum sambærilegum lánum.
Í grein 2.3 í samningnum sé tilgreint að íslenskur tékkareikningur lántaka skuli skuldfærður fyrir greiðslum af láninu. Ætlun aðila hafi því augljóslega verið að greiðslur og afborganir færu fram í íslenskum krónum, sem og hafi orðið raunin.
Í dómum Hæstaréttar hafi verið horft til þess, við mat á því hvort lán hafi verið í íslenskum krónum eða erlendum myntum, með hvaða hætti endurgreiðsla lánsins hafi verið háttað. Bæði skipti þar máli hvað samningurinn kveði á um að þessu leyti sem og hver raunveruleg framkvæmd hafi orðið. Ljóst sé að hvor mælikvarðinn fyrir sig bendi til þess í þessu tilfelli að lánið sé í íslenskum krónum, þar sem bæði ákvæði samningsins og raunveruleg framkvæmd hafi falið í sér að endurgreiðslur hafi verið í íslenskum krónum.
Stefnandi byggir enn fremur á því að stefndi hafi ekki í reynd millifært erlendar myntir inn á gjaldeyrisreikninga Húsamúla ehf. Stefndi hafi verið íslenskur banki og lánið hafi verið veitt á Íslandi, þar sem íslensk króna sé lögeyrir. Stefndi hafi því ekki haft aðgang að erlendum myntum á sama hátt og íslenskum krónum.
Ljóst sé að millifærslur inn á gjaldeyrisreikninga Húsamúla ehf. hafi farið fram með rafrænum hætti þar sem stefndi hafi miðlað fjármunum rafrænt inn á reikninga en seðlar hafi aldrei skipt um hendur. Lántaki hefði til að mynda ekki getað fengið andvirði lánsins afhent í reiðufé í erlendum myntum, hefði hann óskað eftir því, öðru vísi en að stefndi hefði orðið að útvega sér andvirði lánsins erlendis frá og þannig að einhverja daga hefði tekið að fá það greitt út. Hvorki stefndi né aðrir innlendir aðilar á fjármálamarkaði hafi haft heimild til að gefa út eða prenta erlendar myntir. Seðlabanki Íslands hafi eingöngu haft heimildir til að prenta íslenskar krónur. Ljóst sé því að millifærslur, eins og þær sem fram hafi farið inn á reikninga Húsamúla ehf., hafi ekki falið í sér að erlendar myntir skiptu í raun um hendur, heldur hafi verið um rafræna millifærslu að ræða sem ekki hafi verið studd raunverulegum gjaldeyri á sama hátt og ef um íslenskar krónur hefði verið að ræða.
Í þeim dómafordæmum Hæstaréttar, þar sem tekist hafi verið á um hvort lán væru í erlendum myntum eða íslenskum krónum með gengistryggingu, hafi ávallt komið fram að beitt hafi verið ákveðnu heildarmati á aðstæðum. Þannig sé ekki eitthvert eitt atriði sem geti ráðið því hvers eðlis lánið verði talið vera.
Þau atriði sem einkum sé horft til sé orðalag samningsins, útgreiðsla lánsins og eftir atvikum ráðstöfun lánsins og loks endurgreiðsla þess og með hvaða hætti hafi verið staðið að henni. Ljóst sé af dómum Hæstaréttar að einnig skipti máli í hvers konar starfsemi viðkomandi aðili sé, þ.e. hvort starfsemi viðkomandi aðila hafi verið alþjóðleg að einhverju eða öllu leyti. Þannig geti t.d. mál útgerðarfyrirtækis sem sé með tekjur í erlendri mynt og noti gjaldeyrisreikninga reglulega horft öðruvísi við en málefni íslensks fyrirtækis sem sé eingöngu með starfsemi sína hér heima og engar eða mjög óreglulegar tekjur í erlendri mynt.
Stefnandi byggir á því að þetta heildarmat leiði til þeirrar niðurstöðu að umþrætt lán hafi í reynd verið í íslenskum krónum. Í fyrsta lagi vegna þess að bankinn hafi alfarið séð um alla skjalavinnslu og allar millifærslur í tengslum við lánið og útgreiðslu þess. Í öðru lagi að lántaki hefði sent mjög skýr fyrirmæli til bankans þess efnis að greiða bæri lánið út með tilteknum hætti í íslenskum krónum. Í þriðja lagi að afborganir lánsins hafi verið í íslenskum krónum, bæði samkvæmt orðalagi samningsins sjálfs og raunverulegri framkvæmd. Í fjórða lagi að Húsmúli ehf. hafi verið íslenskt fasteignafélag, sem hafi haft þá einu starfsemi að eiga og reka fasteign sem hafi verið í útleigu hér á landi og eingöngu haft tekjur í íslenskum krónum. Þegar öll þessi atriði séu vegin og metin saman sé niðurstaðan sú að um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða.
Verði fallist á að umþrætt lán hafi haft að geyma ólögmæta gengistryggingu byggir stefnandi á því að leggja verði til grundvallar að lántaki hafi gert upp við lánveitanda vexti að fullu á hverri afborgun frá lántökudegi og fram að því að lánið hafi verið gert upp þann 14. janúar 2011. Af þeim sökum hafi fjárhæð lánsins, sem greidd hafi verið með nýja láninu, verið röng og of há og falið í sér ofgreiðslu.
Stefnandi kveður að ýmsir dómar Hæstaréttar hafi gengið um það hvernig fara eigi með uppgjör vaxta á lánssamningum þar sem staðfest hafi verið að um hafi verið að ræða ólögmæta gengistryggingu. Vextir í slíkum samningum hafi miðað við þá röngu forsendu að um væri að ræða erlent lán og hafi því yfirleitt byggt á LIBOR-grunni. Staðfest hafi verið í dómum Hæstaréttar að lánveitanda sé þá heimilt að líta svo á að vaxtafótur lánsins hafi verið rangur og að ákvæði vaxtalaga leiði til þeirrar niðurstöðu að almennt skuli lánið bera óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands, samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr. laganna, dómi réttarins í máli nr. 470/2010. Þótt meginreglan sé þessi geti lántaki, í vissum tilvikum, byggt á því að hann hafi gert vextina að fullu upp við lánveitanda, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011, 464/2012 og 50/2013. Í öllum þessum dómum hafi Hæstiréttur talið að lántaki mætti leggja til grundvallar að vextir hefðu verið gerðir upp frá lántökudegi og fram að þeim tímapunkti að lánið hafi verið endurreiknað. Af þessum dómum megi ráða að niðurstaðan ráðist af heildarmati á ákveðnum atriðum. Í fyrsta lagi hvort skuldari hafi verið í góðri trú, það er hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans hefði verið ófullnægjandi þegar hann innti hana af hendi. Í öðru lagi hvort sá aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum að það réttlætti að viðbótarkröfu væri hafnað. Í þriðja lagi hvorum aðilanum stæði nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiddu til þess að vangreitt var. Í því sambandi skipti einkum máli hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími hafi liðið frá því að mistök komu fram þar til krafa hafi verið höfð uppi, hvort öðrum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssambandið sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu.
Stefnandi byggir á því að öll framangreind skilyrði séu uppfyllt varðandi umþrætt lán og því hafi stefndi ekki getað krafið um greiðslu vaxta umfram þá erlendu vaxtaviðmiðun sem lántaki hafi greitt á tímabili lánsins. Rangur lagaskilningur aðila, sem lán til grundvallar lögskiptum þeirra um vaxtakjör, verði ekki leiðréttur aftur í tímann heldur einungis vegna vaxta til framtíðar.
Fyrir liggi að lánveitandi hafi gefið út og sent lántaka greiðsluseðla, þar sem m.a. hafi komið fram fjárhæð afborgunar og gjaldfallinna vaxta og að lántaki hafi að jafnaði greitt í samræmi við það. Hér verði að líta til þess að á einstökum gjalddögum á þessu tímabili hafi aðilar lánssamningsins gengið út frá því að útreikningur kröfuhafans á fjárhæð afborgana og vaxta tæki mið af því að ákvæði um gengistryggingu höfuðstóls væri gild. Lántaki hafi því verið í góðri trú um lögmæti skuldbindingarinnar og þar með að umræddar greiðslur fælu í sér réttar efndir af hans hálfu.
Við mat á því hvort undantekning frá áðurnefndri meginreglu komi til álita skipti máli hvort aðstöðumunur hafi verið á aðilum lánssamningsins. Hér verði að hafa í huga að lánveitandi hafi verið fjármálafyrirtæki á lánamarkaði, sem boðið hafi viðskiptavinum sínum ýmis lánakjör, þar með talin lán með gengistryggingu, sem reynst hafi ólögmæt. Skilmálar umþrætts lánssamnings hafi verið samkvæmt einhliða ákvörðun stefnda og stöðluðum skilmálum lánveitanda hvað slík lán varði, þar með talin ákvæði um gengistryggingu, sem reynst hafi ólögmæt.
Lántaki, upphaflega Húsmúli ehf., og síðar Sætún ehf., hafi ekki búið yfir sérþekkingu um fjármálastarfsemi. Húsmúli ehf. hafi ekki verið í nokkurri aðstöðu til að hafa áhrif á orðalag samningsins. Bæði félögin hafi haft það eina hlutverk að eiga og leigja út fasteignir. Húsmúli hafi átt eina eign, þ.e. Vegmúla 3, og Sætún hafi síðar átt þrjár fasteignir. Tekjur félagsins hafi ekki verið miklar, en tekjur Sætúns árið 2010 hafi verið 192 milljónir króna. Eins og ársreikningur Sætúns fyrir árið 2010 beri með sér hafi eigið fé félagsins verið neikvætt um 719,6 milljónir króna. Ljóst sé því að viðbótarkrafa lánveitanda hafi haft veruleg áhrif á fjárhag félagsins. Hafi þannig verið augljós aðstöðumunur á lánveitanda og lántaka í viðskiptum þeirra í umrætt sinn.
Stefnandi kveður, að við mat á því hvorum aðila standi nær að bera áhættu af þeim vaxtamun sem myndast hafi við endurútreikning á skuldbindingunni, hafi einnig verið horft til þess hvort greiðslur hafi verið inntar af hendi með reglulegu millibili. Þetta atriði hafi verið orðað sem svo að ákveðin festa þurfi að hafa komist á varðandi framkvæmd samningsins.
Greiðslur lántaka af láninu hafi verið reglulegar. Lánasamningurinn hafi kveðið á um að afborganir væru einu sinni á ári og hafi lántaki greitt þær á tilsettum tíma á tímabilinu frá 2004 fram til maí 2008. Þegar komið hafi að greiðslu í maí 2009 hafi hins vegar verið samið um að fresta þeirri afborgun og leggja vexti við höfuðstól. Þá hafi tekið við viðræður milli lántaka og stefnda, sem lyktað hafi með því að samkomulag hafi náðst um að stefnandi greiddi upp lánið samkvæmt stöðu þess þann 30. apríl 2010. Við það uppgjör hafi lántaki greitt vexti fyrir tímabilið frá maí 2009 til og með 30. apríl 2010. Stefnandi byggi því á því að festa hafi verið á greiðslum af láninu allt frá því að lánið var tekið og þar til það hafi verið gert upp. Lánið hafi verið virkt í sex ár þar sem gert hafi verið ráð fyrir árlegum afborgunum. Allar vaxtagreiðslur hafi verið greiddar á þessu tímabili nema í maí 2009 þegar samið hafi verið um það við stefnda, raunar að hans frumkvæði, að vextir sem átt hafi að greiða í maí 2009 legðust við höfuðstól lánsins.
Stefnandi kveður að tekið sé fram í lánssamningnum sem gerður var til að gera upp umþrætt lán, að það væri gert upp miðað við 17. maí 2010 og því sé ljóst að bankinn sjálfur hafi miðað við að vextir í maí 2010 væru gerðir upp í leiðinni. Ljóst sé því að festa hafi verið á framkvæmd lánsins og greiðslu þess.
Stefnandi byggir á því til vara að festa hafi verið á greiðslum fram til maí 2008, enda hafi allar afborganir verið greiddar af láninu á réttum tíma. Lántaki hafi þannig gert að fullu upp við lánveitanda fram að þeim tímapunkti og lánveitanda sé ekki heimilt að leggja viðbótarvexti á lánið fyrir það tímabil.
Stefnandi byggir á því að horfa verði til þess hvert umfang viðbótarkröfu sé, einkum með hliðsjón af höfuðstól kröfunnar. Höfuðstóll lánsins hafi upphaflega verið að fjárhæð 500.000.000 króna. Á tímabilinu frá 2004 til janúar 2011 hafi lántaki greitt alls 47.939.631 krónu í vexti, en ef fallist yrði á að vextir Seðlabanka Íslands ættu að leggjast ofan á myndi sú fjárhæð nema 406.041.667 krónum. Munurinn sé því 358.102.036 krónur, sem nemi 71,6% af höfuðstól, sem teljist verulegt. Krafa um viðbótarvexti hefði því verið verulega íþyngjandi fyrir lántaka og efnahag hans enda hafi eigið fé Sætúns ehf. verið neikvætt samkvæmt ársreikningi félagsins árið 2010 um 719,6 milljónir króna.
Þótt ekkert þeirra atriða sem að framan greini geti ráðið úrslitum eitt og sér, verði að líta svo á, þegar þau séu öll virt í heild, að það standi stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun, sem deilt sé um í málinu og hlotist hafi af hinni ólögmætu gengistryggingu.
Stefnandi byggir á því að mat á þessum atriðum skuli ráðast af stöðu Húsmúla ehf. og síðar Sætúns ehf., en ekki stöðu Dalsness ehf., stefnanda málsins, enda hafi stefnandi eingöngu komið að málinu þegar lánið hafi verið gert upp. Stefnandi hafi átt rétt á að uppgreiðsla lánsins væri rétt og í samræmi við rétta stöðu lánsins á þeim tímapunkti, enda væri stefndi annars að auðgast á kostnað stefnanda.
Stefnandi kveður aðalkröfu sína byggja á því að höfuðstóll láns nr. 1316 teljist hafa verið gengistryggður með ólögmætum hætti og að lántaki hafi gert að fullu upp vexti við lánveitanda frá lántökudegi 7. maí 2004, fram að uppgjörsdegi þess, 30. apríl 2010, en lánið hafi endanlega verið gert upp með útgáfu nýs láns 14. janúar 2011. Lántaki hafi reglulega greitt af láninu frá lántökudegi og fram til 15. maí 2008. Samið hafi verið um að gjalddagi í maí 2009 bættist við höfuðstól, en hann hafi numið 29.928.539 krónum, og bætist þannig við höfuðstól lánsins í endurútreikningi. Í maí 2010 hafi lántaki greitt vexti fyrir tímabilið maí 2009 til og með 30. apríl 2010, alls 22.415.765 krónur, sem miðað sé við að teljist uppgerðir.
Hver afborgun lántaka á tímabilinu frá 2004-2008 skiptist í hluta sem fari inn á höfuðstól annars vegar og vexti hins vegar, líkt og yfirlit greiðslna tilgreini. Aðalkrafa byggi á því að höfuðstólshluti hverrar afborgunar komi til frádráttar höfuðstól, en vextir hafi verið að fullu gerðir upp fram til 30. apríl 2010, sem hafi verið umsaminn uppgjörsdagur lánsins. Rétt staða lánsins samkvæmt þessu hafi því verið 463.387.258 krónur, á þeim tímapunkti, þ.e. 30. apríl 2010, en stefnandi hafi greitt 672.019.056 krónur. Mismunurinn sé 208.631.798 krónur, sem sé stefnufjárhæð málsins.
Stefnandi kveður varakröfu sína byggja á því að höfuðstóll láns nr. 1316 teljist hafa verið gengistryggður með ólögmætum hætti og að lántaki hafi að fullu gert upp vexti við lánveitanda frá lántökudegi, 7. maí 2004 til og með 15. maí 2008, en að lánið beri óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands frá þeim degi og fram til 30. apríl 2010, sem hafi verið umsaminn uppgjörsdagur lánsins. Vaxtagreiðsla lántaka, 17. maí 2010, að fjárhæða 22.415.765 krónur, komi til frádráttar þeim vöxtum sem lagðir séu á lánið. Samkvæmt þessu hafi rétt staða lánsins verið 534.127.170 krónur, á þeim tímapunkti, en greiðsla samkvæmt nýja láninu hafi numið 672.019.056 krónum. Mismuninn sé 137.891.886 krónur, sem sé fjárhæð varakröfu.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, laga nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands, og laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. laganna.
Kröfu um virðisaukaskatt byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að samningur nr. 1316 hafi verið um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum. Samningurinn hafi verið um fjölmyntalán til fimm ára að jafnvirði 500.000.000 króna, í nánar tilgreindum erlendum gjaldmiðlum og hafi þess sérstaklega verið getið hvert hlutfall hvers gjaldmiðils ætti að vera af heildarlánsfjárhæðinni, eins og hún hafi verið tilgreind í inngangsorðum samningsins, þ.e. 45% svissneskir frankar, 25% japönsk jen og 30% Bandaríkjadollarar. Við úrlausn þess hvort um gild lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða eða ekki hafi Hæstiréttur í dómum sínum fyrst og fremst byggt á skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hafi gengist undir. Önnur atriði við lánveitinguna komi ekki til álita í þessu sambandi ef textaskýring taki af skarið um efni skuldbindingar að þessu leyti.
Stefnandi haldi því fram að hann leiði rétt sinn frá Sætúni ehf., en upphaflegur lántaki, Húsmúli ehf., sameinaðist því félagi. Umþrættur samningur, dagsettur 6. maí 2004, ber heitið LÁNSSAMNINGUR, sbr. forsíðu samningsins. Þann 15. maí 2009 undirritaði Sætún ehf. skilmálabreytingu við umþrættan samning, en þar var upphæð eftirstöðva lánsins, þ.e.a.s. lánsskuldbindingin sem Sætún ehf. hafði gengist undir, tilgreind í erlendum gjaldmiðlum, þ.e. 885.227,04 Bandaríkjadalir, 162.673.838 japönsk jen og 4.746.316,85 svissneskir frankar. Að mati stefnda verði því að líta svo á, þegar af þessari ástæðu, að skuldbindingin hafi verið í erlendum gjaldmiðlum, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 369/2014, sbr. einnig dóma réttarins í málum nr. 835/2014, 57/2014, 187/2014, 14/2014, 757/2012 og 715/2012. Í þessu samhengi verði m.a. að líta til þess að um svokallað fjölmyntalán hafi verið að ræða, sbr. inngangsorð samningsins. Hinar erlendu myntir hafi því verið tilgreindar í ákveðnum hlutföllum af heildar „jafnvirðis“ lánsfjárhæð og að skuldbindingarnar hafi borið LIBOR-vexti, sbr. 3. gr. í samningnum, sbr. og 4. gr. um myntbreytingarheimild.
Þá vísar stefndi til þess að efndir og framkvæmd samningsins af hálfu aðila hans fóru fram í samræmi við framangreint, og beri skýrlega með sér að aðilar hafi álitið að um skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum væri að ræða. Í inngangsorðum samningsins hafi þannig verið gert ráð fyrir því að skuldbindingar stefnanda yrðu í tilgreindum erlendum gjaldmiðlum og afmörkuðum hlutföllum, og ráðgert að lántaki skyldi senda lánveitanda beiðni um útborgun þar sem tiltekinn yrði sá reikningur sem leggja skyldi lánshlutana inn á, sbr. grein 1.2 í samningnum, sem lántaki hafi og gert, sbr. endanlega útborgunarbeiðni lántaka, þar sem hann hafi óskað þess að útborgunarfjárhæðin yrði greidd inn á tilgreinda erlenda gjaldeyrisreikninga í hans nafni.
Lánveitandi hafi efnt skyldu sína í samræmi við útborgunarbeiðni lántaka, með því að hinum erlendu gjaldmiðlum hafi verið ráðstafað inn á gjaldeyrisreikninga lántaka í sömu gjaldmiðlum, sbr. kaupnótu og reikningsyfirlit. Efndir lánveitanda á aðalskyldu sinni hafi því að sönnu farið fram með því að erlendir gjaldmiðlar hafi skipt um hendur, þ.e. með því að lánsfjárhæðir í hinum erlendu gjaldmiðlum hafi verið lagðar inn á gjaldeyrisreikninga lántaka. Þetta geti ekki bent til annars en að skuldbindingarnar hafi verið í hinum erlendu gjaldmiðlum, svo sem hafi verið gengið út frá í samningnum, sbr. tilgreining hans á hinum erlendu gjaldmiðlum og hlutfall þeirra af heildarfjárhæð lánsloforðs lánveitanda. Engu geti breytt í þessu sambani þótt hinum erlendu gjaldmiðlum hafi síðar verið umbreytt í íslenskar krónur og þeim krónum ráðstafað inn á reikning lántaka í íslenskum krónum, þar sem þeim hafi verið ráðstafað í samræmi við fyrirmæli lántaka. Skuldbinding lántaka hafi eftirleiðis verið tilgreind með fjárhæð hinna erlendu gjaldmiðla eins og ráðgert hafi verið í inngangsorðum samningsins, sbr. t.d. kaupnótu og skilmálabreytingu.
Stefndi telur að engu breyti í þessu sambandi þótt lántaki hafi getað efnt aðalskyldu sína með því að reikningur hans í íslenskum krónum yrði skuldfærður fyrir greiðslum afborgana og vaxta. Hafi skýrlega verið gert ráð fyrir því í samningnum sjálfum, að lántaki gæti greitt afborganir , vexti og dráttarvexti, eða aðrar greiðslur, í íslenskum krónum, en þá skyldi hann greiða „samkvæmt samningsgengi á gjalddaga“. Auk þess hafi lántaki óskað sérstaklega eftir því í grein 2.3 í samningnum að reikningur hans í íslenskum krónum yrði skuldfærður, og veitt lánveitanda þannig heimild til þess, en sömu heimild hafi síðari lántaki, Sætún ehf., veitt.
Stefndi kveðst vísa til réttarframkvæmdar varðandi framangreint, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 3/2012, 66/2012, 337/2015, 577/2014, 558/2014, 466/2014, 409/2014, 602/2013 og 90/2014. Hafi andvirði lánsins verið lagt inn á gjaldeyrisreikninga lántaka hafi verið talið, þegar af þeirri ástæðu, að lánveiting teljist hafa verið í viðkomandi erlendum gjaldmiðlum og verið gild skuldbinding í því tilliti. Engu skipti hvort viðkomandi gjaldeyrisreikningar séu stofnaðir sérstaklega vegna útborgunar láns eða hafi verið til staðar fyrir. Þá skipti huglæg afstaða lántaka til slíkra reikninga heldur engu í þessu tilliti.
Að mati stefnda sé ljóst, samkvæmt framangreindu, að umþrættur samningur hafi verið um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum, hvort sem litið sé til texta eða framkvæmdar samningsins. Önnur atriði, t.d. samskipti aðila í aðdraganda samningsgerðar, geti engu breytt.
Stefndi vísar til þess að samkvæmt ítrekuðum dómafordæmum Hæstaréttar teljist fé í erlendum gjaldmiðlum afdráttarlaust hafa skipt um hendur þegar lánveitendur hafi efnt aðalskyldu sína með því að leggja tilteknar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum inn á innlenda gjaldeyrisreikninga, með höfuðbók 38. Stefndi vísar m.a. til dóms Hæstaréttar í máli nr. 66/2012, þar sem sérstaklega hafi verið tekið fram í forsendum Hæstaréttar að lánveitandi í því tilviki hefði lagt tilteknar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum inn á fjóra gjaldeyrisreikninga lántaka í þeim gjaldmiðlum og að fé í erlendum gjaldmiðlum hafi því í reynd skipt um hendur þegar lánveitandi hafi efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningi. Einnig vísar stefndi, í þessu sambandi, til dóms Hæstaréttar í máli nr. 577/2014. Þar hafi verið talið að með því að lán hafi verið lagt inn á gjaldeyrisreikninga lántaka hafi það verið greitt út í erlendum gjaldmiðlum, en þar hafi umræddar fjárhæðir verið millifærðar af gjaldeyrisreikningum lánveitanda yfir á gjaldeyrisreikninga lántaka hjá sama banka. Hafi þannig í dómaframkvæmd verið lagt til grundvallar að innlendir gjaldeyrisreikningar, með höfuðbók 38, teljist fela í sér innstæðu í viðkomandi gjaldmiðli, með sama hætti og innstæður á reikningum í íslenskum krónum teljist í þeirri mynt, þ.e. íslenskum krónum, og að greiðslur inn á slíka reikninga teljist fela í sér að erlendur gjaldeyrir skipti um hendur.
Þá vísar stefndi til þess að hvað sem öðru líður, verði að leggja til grundvallar að inneign á innlendum gjaldeyrisreikningum, IG-reikningum, feli í sér inneign innstæðueigenda í viðkomandi gjaldmiðli, þannig að réttar efndir við úttekt af slíkum reikningi gagnvart innstæðueiganda séu í viðkomandi gjaldmiðli. Við úttekt eigi innstæðueigandi því að jafnaði rétt á að fá afhenta t.d. seðla í viðkomandi gjaldmiðli, að innstæðan sé færð á annan reikning í viðkomandi gjaldmiðli, sem hafi þá sömu réttarstöðu, eða að úttekt fari fram með samningi um sölu viðkomandi gjaldmiðils samhliða úttekt eða millifærslu yfir á reikning í öðrum gjaldmiðli, t.d. íslenskum krónum. Stefndi andmælir því sérstaklega að lántaki hefði ekki getað fengið andvirði lánsins afhent í reiðufé í erlendri mynt, ef hann hefði á annað borð viljað það. Stefnandi hafi þannig á engan hátt sýnt fram á eða gert líklegt, að þær fjárhæðir sem lagðar hafi verið inn á gjaldeyrisreikninga lántaka, sbr. útborgunarbeiðni, kaupnótu og reikningsyfirlit, hafi ekki getað verið lántaka til ráðstöfunar almennt ef ekki hefði komið til sérstakrar ráðstöfunar fjárins í samræmi við fyrirmæli forsvarsmanns lántaka, umrætt sinn.
Engu geti skipt í þessu sambandi þótt lánveitandi hafi verið íslenskur banki, lánið veitt á Íslandi eða hver lögeyrir sé á Íslandi, eða þótt innlendir aðilar á fjármálamarkaði hafi ekki heimild til að gefa út eða prenta erlendar myntir, eða hvort Seðlabanki Íslands hafi eingöngu heimild til að „prenta“ seðla í íslenskri mynt. Engar takmarkanir séu á lánveitingum innlendra lánveitenda í erlendum gjaldmiðlum, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Það liggi í augum uppi að innlendir lánveitendur, þ. á m. lánveitandi samkvæmt umþrættum samningi, hafi átt erlendan gjaldeyri, bæði hér á landi og í viðskiptabönkum sínum erlendis, sem þeim hafi verið frjálst að ráðstafa, t.d. í formi lánveitinga, til viðskiptamanna sinna. Þannig verði því ekki haldið fram að millifærslur, eins og þær sem fram fóru inn á reikninga Húsmúla hafi ekki falið í sér að erlendar myntir hafi í raun skipt um hendur, heldur séu þær rafræn millifærsla sem hafi ekki verið studd raunverulegum gjaldeyri á sama hátt og ef um íslenskar krónur hafi verið að ræða.
Stefndi vísar jafnframt til þess að samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, taki starfsheimildir viðskiptabanka meðal annars til viðskipta fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með erlendan gjaldeyri, sbr. b-lið 7. tl. 1. mgr. 20. gr. laganna, sbr. og til hliðsjónar ákvæði 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992, en þar sé kveðið á um heimild til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 87/1992 komi afdráttarlaust fram að lögunum hafi verið ætlað að afnema meira og minna fyrri takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum.
Stefndi mótmælir sérstaklega, sem þýðingarlausum, tilvísun stefnanda til laga nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands, og laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.
Stefndi telur ljóst að form og texti umþrætts samnings, og athafnir aðila á grundvelli hans, bendi eindregið til þess, andstætt málatilbúnaði stefnanda, að skuldbinding lántaka hafi verið í erlendum gjaldmiðlum. Einnig beri að hafa í huga að umþrættur samningur hafi verið gagnkvæmur í eðli sínu og jafnframt sé bent á meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast samningum við aðra. Þá verði, hvað sem öðru líður, að telja lántaka, hvort sem er Húsmúla ehf. eða Sætún ehf., hafa með athöfnum sínum og athafnaleysi viðurkennt að umþrætt skuldbinding hafi að sönnu verið í erlendum gjaldmiðlum, og í öllu falli fyrirgert rétti til að bera öðru við. Hið sama eigi við um stefnanda sjálfan, sem leiði rétt sinn frá lántökum.
Stefndi hafnar útreikningum og fjárkröfum stefnanda í aðal- og varakröfu hans, verði ekki fallist á að umþrættur lánssamningur hafi verið um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum. Í útreikningum stefnanda felist að ekki sé tekið tillit til réttra vaxtaviðmiðana. Af hálfu stefnda sé á því byggt að við þessar aðstæður, þ.e. ef lánið teljist fela í sér ólögmæta gengisbindingu, beri að líta með öllu fram hjá hinum umsömdu erlendu vöxtum og endurreikna skuldbindingarnar með vöxtum samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, og dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010. Miðað við þær forsendur væru eftirstöðvar skuldbindingarinnar 193.694.032 krónur, að teknu tilliti til innborgunar miðað við uppgreiðsludag, og því hafi stefnandi ekki ofgreitt lánið. Teldist skuldbindingin því í reynd vera vangreidd en ekki ofgreidd. Því sé ljóst að dómkröfur og málatilbúnaður stefnanda standist ekki, enda ekki tekið tillit til þessa. Við þær aðstæður ætti stefndi viðbótarkröfu í samræmi við meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi, sem fengið hafi minna greitt en hann eigi rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé.
Stefndi byggir á því að ekki sé tilefni til að víkja frá þeirri meginreglu kröfuréttar og eigi hann því kröfu um vangreidda vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, þ.e. umfram eða í stað hinna erlendu vaxta, sem greiddir hafi verið, sem komi þá til lækkunar meintri kröfu stefnanda. Kvittanir, sem lánveitandi og/eða stefnda hafi gert lántaka, leiði ekki til þess að stefndi hafi glatað þessari viðbótarkröfu sinni, eins og hér standi á. Þar sem stefndi hafi ekki talið skuldbindingarnar haldnar ólögmætri gengistryggingu hafi hann ekki beint sérstakri kröfu hér að lútandi að lántaka, eða stefnanda. Fari hins vegar svo að skuldbindingarnar verði taldar haldnar ólögmætri gengistryggingu leiði af málatilbúnaði stefnda að við útreikning á höfuðstól eftirstöðva skuldbindinganna, og dómkröfu stefnanda, beri að líta til slíkrar kröfu samkvæmt almennum reglum kröfuréttar, sem komi til lækkunar á fjárkröfu stefnanda.
Stefndi kveður, að frá framangreindri meginreglu kunni að vera undantekningar, meðal annars að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu, en tilkalli hans um viðbótargreiðslu verði þó einungis hafnað af þeim sökum við sérstakar aðstæður. Þau atriði sem litið hafi verið til við mat á því hvort efni séu til að víkja frá meginreglunni séu hvort skuldari hafi verið í góðri trú, það er hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans hafi verið ófullnægjandi þegar hann hafi innt hana af hendi. Þá hafi verið litið til þess hvort sá aðstöðumunur hafi verið á aðilum að það réttlæti að hafna viðbótarkröfu og í framhaldi af því hvorum þeirra standi nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leitt hafi til þess að vangreitt hafi verið. Í þeim efnum hafi einkum verið litið til þess hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími hafi liðið frá því að mistök hafi komið fram þar til að krafa hafi verið höfð uppi, hvorum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssamband sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu. Því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari séu rökin til að víkja frá meginreglunni.
Stefnandi beri fyrir sig undantekningu frá meginreglu og hvíli því sú byrði á honum að sanna, gegn andmælum stefnda, að krafa sem leiði af 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, teljist fela í sér umtalsvert óhagræði fyrir stefnanda, sem eigi rétt til allra endurgreiðslna í þessu sambandi, eða lántaka, þ. á m. með tilliti til stöðu þessara aðila, starfsemi og fjárhags. Í málinu liggi ekkert fyrir um að viðbótarkrafa stefnda myndi valda slíkri röskun á fjárhagslegri stöðu stefnanda eða lántaka að hafna beri réttmætri kröfu stefnda á grundvelli réttra vaxtaviðmiðana.
Stefndi byggir á því að á engan hátt megi jafna viðbótarkröfu stefnda til óhagræðis sem einstaklingur eða lítið fyrirtæki yrði fyrir vegna óvæntrar kröfu um verulega viðbótargreiðslu, sbr. dóm Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 50/2013. Að mati stefnda verði aðstöðumun stefnanda og lántaka heldur á engan hátt jafnað við dreifbýlissveitarfélag, sem annist fyrst og fremst lögbundin verkefni á sviði skóla- og velferðarmála íbúa, þar sem tekjur byggist einkum á skattlagningu og gjöld séu fyrst og fremst tengd lögbundnum skyldum, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 464/2012 og 94/2014. Nánar tiltekið sé ekki hægt að leggja að jöfnu aðstæður stefnanda og lántaka, hvort sem sé varðandi aðstöðu almennt, þekkingu á viðskiptum, eða að því er varði óhagræði af því að takast á við lögmætar fjárskuldbindingar, við lítil fyrirtæki þar sem umsvifin séu einungis lítið brot af umsvifum, stærð og styrkleika stefnanda og lántaka, eða við opinbera aðila, sem starfi lítt eða ekki á sviði viðskipta almennt. Staða þessara aðila að þessu leyti til að bregðast við réttmætri kröfu sé því allt önnur og mun betri en almennt megi ráðgera varðandi einstaklinga, minni fyrirtæki eða eftir atvikum dreifbýlissveitarfélög.
Stefnandi teljist vera stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Samkvæmt ársreikningum stefnanda vegna ársins 2010 og 2011 hafi hagnaður hans numið rúmlega 1,1 og 1,9 milljarði króna, en heildareignir hafi verið rúmlega 3l3 og 6,1 milljarður króna. Stefndi byggir á því að eðlilegt sé að líta til fjárhagsstöðu samstæðu stefnanda í þessu sambandi, þ. á m. móðurfélagsins Inness ehf. Verði talið að líta beri til lántaka í þessu sambandi, þ.e. Húsmúla ehf. og síðar Sætúns ehf., nú FAST-2 ehf., sérstaklega, verði að líta til ársreikninga þessara félaga á því tímabili sem hér skipti máli. Einnig beri að líta til samstæðu stefnanda sem lántakar hafi tilheyrt. Stefndi telur að undantekning frá meginreglunni um viðbótarkröfurétt eigi alls ekki við í þessu máli sem og að sanngirnissjónarmið geti ekki leitt til slíkrar niðurstöðu.
Að mati stefnda hafi lántaki, Húsmúli ehf., og síðar Sætún ehf., sem hafi verið hluti af samstæðu stefnanda, verið í samningsstöðu til að hafa áhrif á einstök atriði í skilmálum umþrætts samnings og jafnframt haft brýnt tilefni til að leita sér allrar nauðsynlegrar sérfræðiaðstoðar við samningsgerðina. Telja verði ósannað annað en að þessi félög hafi átt kost á því að gera athugasemdir við gagnkvæma skilmála. Því hafi ekki verið um að ræða yfirburðastöðu annars aðilans í samningssambandinu, að því er það varði.
Einnig beri að líta til þess að upphaflegur lánstími hafi verið umsaminn fimm ár, en skuldbindingarnar hafi borið að greiða að fullu á þeim tíma með fimm afborgunum á 12 mánaða fresti, þannig að á fyrstu fjórum gjalddögunum hafi borið að greiða 1/30 hluta lánsupphæðarinnar og á lokagjalddaga 26/20 hluta hennar. Síðar hafi lántaki, Sætún ehf., fengið lánstímanum framlengt, þannig að eftirstöðvar hafi borið að endurgreiða að fullu með einni greiðslu þann 15. maí 2010, en þann dag hafi lántaki hins vegar einungis greitt vexti en ekki eftirstöðvar að fullu. Því fari fjarri að slík festa hafi verið komin á skuldasambandið að réttlæti að vikið sé frá meginreglunni, en þetta viðurkenni stefnandi raunar í stefnu, a.m.k. hafi ekki verið festa í skuldasambandinu frá og með 15. maí 2008.
Einnig sé til þess að líta að fjárhæð viðbótarkröfu, samkvæmt útreikningum stefnda, geti ekki talist umtalsverð með tilliti til atvika allra og aðstæðna. Upphafleg höfuðstólsfjárhæð, 500.000.000 króna, sé frá maí 2004, og sé því önnur og um leið hærri á því tímamarki sem hér skipti máli, að teknu tilliti til verðlagsþróunar. Ef tekið sé tillit til verðlagsþróunar, vísitölu neysluverðs, telist framreiknuð höfuðstólsfjárhæð miðað við janúar 2011, þegar stefnandi hafi greitt skuldbindinguna, hafa verið 776.700.457 krónur. Eins sé ljóst að fjárhæð viðbótarkröfu geti ekki talist veruleg ef hún er miðuð við fjárhagslega stöðu stefnanda. Þá beri að líta til þess að fjárhæð vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, miðað við hvern vaxtagjalddaga, sem lántaka hefði þá borið að greiða hefði lánið frá öndverðu talist óverðtryggt í íslenskum krónum, geti aldrei talist veruleg í þessu sambandi eða í hvers konar samanburði við upphaflega höfuðstólsfjárhæð, greidda vexti eða fjárhagsstöðu lántaka eða stefnanda.
Stefndi telur að lántaki, hvort sem er Húsmúli ehf. eða Sætún ehf., hafi getað talist vera í góðri trú, er hann hafi greitt vexti, að þeir teldust endanlega greiddir, þó svo að sá þáttur skuldarinnar, sem ótvírætt hafi verið forsenda vaxtanna, þ.e. lánsmyntin, ætti eftir að sæta endurskoðun. Lántaka hafi þannig ekki getað dulist samhengið milli mynttilgreiningar samnings og vaxtaviðmiðunar, en slíkt hljóti að skipta miklu máli við heildarmatið. Allt eins megi ætla að það hefði komið lántaka, og í raun stefnanda, á óvart ef ekki væri samhengi milli lánsmyntar og vaxta að þessu leyti. Stefndi telur, með vísan til framanritaðs, að því fari fjarri að skilyrði séu uppfyllt til að víkja frá meginreglu kröfuréttar um viðbótarrétt kröfuhafa. Í öllu falli verði stefnandi, sem beri fyrir sig undantekningu frá meginreglunni, að bera þá byrði að sanna slíkt og jafnframt bera halla af hvers konar vafa í því tilliti.
Stefndi telur að aðalkrafa stefnanda virðist fela í sér að frá upphaflegum höfuðstól séu dregnar afborganir lántaka á tímabilinu 2005 til 2010 og að staða lánsins hafi þann 30. apríl 2010 verið 463.387.258 krónur. Frá þeirri fjárhæð sé dregin lánsfjárhæð samkvæmt samningi stefnanda og stefnda, 672.019.056 krónur, sem nýtt hafi verið til uppgreiðslu samkvæmt umþrættum samningi. Mismunurinn sé síðan aðalkrafa stefnanda, 208.631.798 krónur. Varakrafa stefnanda virðist miðast við sömu forsendur, að því undanskildu að þar miði stefnandi einungis við að lántaki hafi gert að fullu upp vexti við lánveitanda frá lántökudegi til 15. maí 2008, en lánið beri vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, frá þeim degi til 30. apríl 2010. Miðað við þessar forsendur hafi staða lánsins þann 30. apríl 2010 verið 534.127.170 krónur, en frá þeirri fjárhæð dragi stefnandi lánsfjárhæð samkvæmt samningi stefnanda og stefnda, 672.019.056 krónur, og fái út varakröfu sína, 137.897.886 krónur. Af útreikningi stefnda, bæði vegna aðal- og varakröfu stefnanda, megi ráða að stefnandi styðjist við ranga fjárhæð við fyrstu afborgun lánsins, samtals 23.489.052 krónur, en ekki 23.303.140 krónur, auk þess sem stefndi telji rétt að miða útreikning við 17. maí 2010, uppgreiðsludag, en ekki 30. apríl 2010, eins og stefnandi geri. Þá reikni stefnandi of lága vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, í varakröfu sinni. Að mati stefnda eigi aðalkrafa stefnanda að vera 208.815.960 krónur, en ekki 208.631.798 krónur. Þá geti varakrafa stefnanda aldrei orðið hærri en 128.084.383 krónur, en ekki 137.891.886 krónur.
Stefndi mótmælir sérstaklega vaxta- og dráttarvaxtakröfum stefnanda. Í vaxtakröfum, aðal- og varakröfu, sé gerð krafa um „vexti samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001“. Í nefndri 10. gr. laganna, sem sé í kafla í lögunum sem beri heitið „Ýmis ákvæði um vexti“, segi að Seðlabankinn skuli birta í Lögbirtingablaðinu vexti samkvæmt 4. gr. og samkvæmt 8. gr. laganna, auk þess sem birta skuli vexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna. Í kröfugerð stefnanda komi ekki fram hvaða vexti, af framangreindum, hann vísi til, og sé kröfugerðin að þessu leyti markleysa, sem stefnandi beri halla af, enda ráðstafi hann sakarefninu að þessu leyti með bindandi hætti. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af framangreindum kröfum verði kröfunni ekki vísað frá dómi af sjálfsdáðum (ex officio). Engin stoð sé heldur fyrir vaxtakröfum stefnanda samkvæmt lögum nr. 38/2001, venju eða samningi, eða öðrum lögum. Mótmælir stefndi því að krafa stefnanda geti byggst á 4. gr., 1. mgr. 6. gr. eða 8. gr. laganna, enda ekki um skaðabótakröfu að ræða. Þá sé upphafstími dráttarvaxta algjörlega vanreifaður, og verði þeir því aldrei reiknaðir fyrr en frá dómsuppsögu, verði á annað borð á þá fallist.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2001, meginreglna fjármunaréttarins, meginreglna kröfuréttar, og laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 87/1992.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Í máli þessu greinir aðila á um hvort framangreindur lánssamningur, dagsettur 6. maí 2004, sem upphaflega var gerður milli Landsbanka Íslands hf. og Húsmúla ehf., sé skuld í erlendum myntum eða hvort um sé að ræða skuld í íslenskum krónum sem bundin sé með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla, í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og ef svo er, hvort stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda um það sem hann telur sig hafa ofgreitt af láninu. Óumdeilt er að stefnandi endurgreiddi umþrætt lán með nýju láni hjá stefnda, dagsettu 14. janúar 2011. Byggir stefnandi á því að hann hafi ofgreitt umþrætt lán.
Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001. Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim.
Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, eins og við á um þann lánssamning sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti. Þá er þess og að gæta að þótt upphafleg skuldbinding í lánssamningi sé óskýr að þessu leyti hefur verið gengið út frá því að ótvíræð tilgreining skuldar samkvæmt lánssamningi í erlendum gjaldmiðli, í viðauka við hann um skilmálabreytingar eða skuldskeytingu, nægi ein út af fyrir sig til að ráða niðurstöðu. Skiptir þá ekki máli hvernig staðið hafi verið að efndum samningsins, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar í máli nr. 369/2014.
Umdeildum lánssamningi hefur verið lýst hér að framan og eins og þar greinir er hann í samningnum sjálfum sagður vera um fjölmyntalán að jafnvirði tilgreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum, og er prósenta þeirra gjaldmiðla sem lánið gat samanstaðið af einnig tilgreind. Þá var kveðið á um það að lántaki skyldi senda bankanum beiðni um útborgun þess, þar sem tiltekinn yrði sá reikningur sem leggja skyldi lánshlutann inn á. Í beiðni lántaka um útborgun lánsins, óskaði hann eftir að útborgunarfjárhæðinni yrði ráðstafað inn á tilgreinda gjaldeyrisreikninga í þeim myntum, sem lánið var sagt samanstanda af. Útborgunarfjárhæðinni var ráðstafað í samræmi við þetta af forvera stefnda inn á umbeðna gjaldeyrisreikninga í eigu lántaka. Þá voru þeir gjaldmiðlar og fjárhæð þeirra sundurliðuð á kaupnótum bankans vegna lánveitinganna og fjárhæðin lögð inn á þá gjaldeyrisreikninga sem lántakandi tilgreindi í beiðni um útborgun lánsins. Verður því að leggja til grundvallar, í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar, að útborgun lánsins hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.
Ákvæði samningsins um vexti og dráttarvexti samræmast því að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum. Í sömu átt hníga ákvæði lánssamninganna um heimild lántaka til myntbreytinga að um lán í erlendum gjaldmiðlum hafi verið að ræða, sem og skjöl málsins um gjaldeyrisviðskipti, í svonefndum framvirkum samningi. Verður ekki fallist á að önnur ákvæði lánssamningsins séu í ósamræmi við það að lánið hafi verið veitt í erlendum gjaldmiðlum, en sú niðurstaða verður ekki ráðin af því að lántaki greiddi af lánunum í íslenskum krónum, í samræmi við ákvæði samningsins. Þegar framangreint er virt verður lagt til grundvallar að forvera stefnanda hafi verið veitt gilt lán í hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum og skiptir þá ekki máli í hvaða tilgangi lánið var tekið. Þá geta vangaveltur stefnanda um eðli gjaldeyrisreikninga sem og að lögeyrir Íslands sé íslensk króna, engu breytt um eðli skuldbindingarinnar.
Í viðauka við samninginn, sem gerður var 15. maí 2009 og færði meðal annars skuldbindingar samkvæmt honum á herðar Sætúns ehf., og sem stefnandi leiðir rétt sinn af, var skuldin á hinn bóginn skýrlega tilgreind með fjárhæðum í erlendum gjaldmiðlum.
Ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 krónur, og hefur þá verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnda.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Dalsness ehf.
Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.