Hæstiréttur íslands
Mál nr. 108/2003
Lykilorð
- Bifreið
- Manndráp af gáleysi
- Líkamsmeiðing af gáleysi
- Svipting ökuréttar
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 19. júní 2003. |
|
Nr. 108/2003. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Guðmundi Jóhannssyni (Friðjón Örn Friðjónsson hrl.) |
Bifreiðir. Manndráp og líkamsmeiðingar af gáleysi. Svipting ökuréttar. Skilorð.
G var ákærður fyrir manndráp og líkamstjón af gáleysi og umferðarlagabrot með því að hafa ekið fólksbifreið austur Suðurlandsveg á röngum vegarhelmingi, á þeim vegarkafla þar sem vegurinn liggur í all krappri beygju ofarlega í Kömbum, án nægilegrar aðgæslu miðað við akstursskilyrði með þeim afleiðingum að bifreiðin skall framan á jeppabifreið sem ekið var í vestur. Við árekstur bifreiðanna hlaut farþegi í framsæti bifreiðar G svo mikla áverka að hann lést nær samstundis auk þess sem farþegar í báðum bifreiðunum urður fyrir líkamstjóni. Talið var sannað með framburði vitna að G hefði ekið bifreiðinni án nægilegrar aðgæslu við slæm akstursskilyrði í krappri beygju og á röngum vegarhelmingi þegar áreksturinn varð. Var G því sakfelldur fyrir brot gegn 215. og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 14. gr. og c. og h. liðum 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Var honum gert að sæta fangelsi í einn mánuð skilorðsbundið og sviptur ökurétti í eitt ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms, þyngingar á refsingu ákærða og frekari sviptingar ökuréttar hans en gert var í héraðsdómi.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara þess, að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Að öðrum kosti krefst hann vægustu refsingar, sem lög leyfa.
Ákærði hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir ómerkingarkröfu sinni. Eru engin efni til að ómerkja héraðsdóm.
Ákærði teflir meðal annars fram því sjónarmiði, að rannsókn slyssins hafi verið ábótavant og ekki sé útilokað, að orsaka þess sé að leita í því, að vinstri framhjólbarði á bíl hans hafi sprungið. Af framlögðum myndum sýnist ljóst, að hjólbarðinn hefur farið af felgunni í árekstrinum, eins og segir í rannsóknargögnum lögreglu. Í slysaskoðunarskýrslu Frumherja hf. 15. janúar 2002 kemur fram, að allir hjólbarðar á bifreið ákærða voru ónegldir með lítið slitnu eða óslitnu vetrarmynstri og vinstri framhjólbarði loftlaus. Allur hjólabúnaður hafi verið genginn til en ekkert slit hafi komið í ljós við sjónskoðun. Hefur ákærði engum stoðum rennt undir þá tilgátu, að vinstri framhjólbarði hafi sprungið fyrir áreksturinn.
Að þessu athuguðu og annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en sakarkostnað, sbr. og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, eins og ákvæðinu var breytt með 19. gr. laga nr. 37/1994.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.
Ákærði, Guðmundur Jóhannsson, greiði allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Friðjóns Arnar Friðjónssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 27. febrúar 2003.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 10. febrúar sl., er höfðað með ákæruskjali Lögreglustjórans á Selfossi, dags. 8. nóvember 2002, á hendur Guðmundi Jóhannssyni, kt. 120739-2209, Álfheimum 36, Reykjavík „fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa að kvöldi föstudagsins 11. janúar 2002, ekið fólksbifreiðinni OA 524, austur Suðurlandsveg, Sveitarfélaginu Ölfusi, á mið-akrein sem ætluð er fyrir umferð til vesturs, á vegarkafla þar sem vegurinn liggur í all krappri beygju ofarlega í Kömbum, án nægilegrar aðgæslu miðað við akstursskilyrði, en ísing, mikil hálka og dálítið snjókrap var á veginum, með þeim afleiðingum að bifreiðin skall framan á jeppabifreiðinni UM 941, sem ekið var vestur Suðurlandsveg á mið-akrein fyrir umferð vestur veginn. Jeppabifreiðin snerist á veginum við höggið og rakst vinstra afturhorn hennar á vinstra framhorn hópbifreiðarinnar KO 583, sem ekið var vestur Suðurlandsveg á hægri akrein fyrir umferð vestur veginn, og snerist jeppabifreiðin við það á veginum þannig að framendi hennar vísaði til austurs. Við árekstur bifreiðanna hlaut farþegi í framsæti fólksbifreiðarinnar OA 524, Halldór Jóhannson, kt. 140339-4749, svo mikla áverka á brjóstholi og kvið að hann lést nær samstundis, og farþegi í miðju aftursæti þeirrar bifreiðar, Maron Guðmundsson, kt. 131040-3269, hlaut kurlað brot neðarlega á vinstri lærlegg, niður í hné, en farþegi í hægra aftursæti bifreiðarinnar, Þorsteinn Halldórsson, kt. 051146-2129, hlaut mörg brot á rifjum vinstra megin, þverbrot ofarlega á bringubeini, sex sentimetra rifu á innsta lagi meginslagæðar og blæðingu í lifur. Farþegi í hægra aftursæti jeppabifreiðarinnar UM 941, Edda Björk Gunnarsdóttir, kt. 130183-4769, hlaut háorkuáverka, tognun á hryggsúlu, frá hálsi niður í lendhrygg, mar og yfirborðsáverka á brjóstkassa og kvið, og farþegi í framsæti jeppabifreiðarinnar, Hafdís Bridde, kt. 101077-5779, hlaut brot á bringubeini og tognun í háls- og brjósthrygg.”
Ákæruvaldið telur brot ákærða varða við 215. gr. og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 14. gr., og c- og h-liði 2. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 57/1997.
Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993 og lög nr. 57/1997.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Verjandi ákærða mótmælir sérstaklega kröfu um sviptingu ökuréttar. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik.
Í frumskýrslu lögreglunnar á Selfossi kemur fram að tilkynnt hafi verið um alvarlegt umferðarslys að kvöldi 11. janúar 2002 ofarlega í Kömbum. Sendar hafi verið á vettvang sjúkrabifreiðar, lögreglubifreiðar og klippibíll frá slökkviliði, auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar var send á staðinn. Þegar lögregla kom á vettvang var ljóst að mjög harður árekstur þriggja bifreiða hafði orðið, jeppabifreiðarinnar UM-941, fólksbifreiðarinnar OA-524 og hópbifreiðarinnar K0-583. Hópbifreiðinni og jeppanum hafði verið ekið vestur Suðurlandsveg upp Kamba, en fólksbifreiðinni austur, niður Kamba. Fólksbifreiðin og jeppabifreiðin lentu með framendana saman og snerist jeppabifreiðin við það á veginum og rakst þá hópbifreiðin með vinstra framhorn á vinstra afturhorn jeppans. Hópbifreiðin hafði staðnæmst við hlið hinna bifreiðanna á hægri akrein með akstursstefnu til vesturs.
Þrjár akreinar eru á Suðurlandsvegi, þar sem slys varð, tvær til vesturs, og ein til austurs, niður Kamba. Samkvæmt afstöðuteikningu lögreglu og ljósmynd af slysstað var tvöföld óbrotin miðlína vel sýnileg og fullbrotin akreinalína einnig. Brotin kantlína var fremur ógreinileg. Áreksturinn varð í allkrappri beygju ofarlega í Kömbum, nokkru neðan við ústýnispall í Kömbum, þar sem beygjan er kröppust.
Aðstæðum á slysstað er lýst svo að yfirborð vegar hafi verið malbikað og slétt. Er lögregla og sjúkrabifreið komu á vettvang var ísing á veginum og mikil hálka. Dálítill krapi var einnig á veginum og gekk á með skúrum eða slydduéljum. Myrkur var, vindur lítill og hitastig nálægt frostmarki.
Að frumkvæði lögreglunnar á Selfossi framkvæmdi Frumherji hf. slysaskoðun á bifreiðunum OA- 524 og UM-941.
Í árekstrinum lést farþegi í framsæti bifreiðarinnar OA-524, ökumaður hennar slasaðist mjög alvarlega og farþegar í aftursæti slösuðust alvarlega. Þá slösuðust farþegar í jeppabifreiðinni UM-941 einnig alvarlega. Enginn í hópbifreiðinni slasaðist.
Í málinu liggur fyrir vettvangsuppdráttur, myndir af vettvangi og myndband sem lögregla tók og sýnir akstursleið austan og vestan slysstaðar. Þá liggur einnig fyrir í málinu skífa úr ökurita hópferðabifreiðarinnar KO-583.
Í krufningsskýrslu Þóru Steffensen réttarmeinafræðings á líki Halldórs Jóhannssonar, farþega í framsæti bifreiðarinnar OA-524 kemur fram að dánarorsök hans hafi verið áverkar á brjóskassa og kvið, en rifa kom á ósæð og vinstri nýrnaslagæð hans. Báðir áverkarnir hafi orsakast af geysilegum hnykk og við hnykkinn hafi ósæðin farið í sundur þar sem hún festist við hrygginn. Sams konar hnykkur hafi komið á vinstra nýrað þannig að vinstri nýrnaslagæð hafi farið í sundur.
Í læknisvottorði Svavars Haraldssonar bæklunarskurðlæknis, dags. 31. janúar 2002 kemur fram að Maron Guðmundsson, farþegi í aftursæti bifreiðarinnar OA-524, hafi brotnað neðarlega á vinstri lærlegg og alveg niður í hnéð og hafi brotið verið mjög kurlað.
Í vottorði Kristins Jóhannssonar, sérfræðings á brjóstholsskurðdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, dags. 20. mars 2002, um áverka Þorsteins Halldórssonar, farþega í OA-524 segir m.a. að hann hafi verið með þverbrot á bringubeini, mörg rifbrot vinstra megin, vökva í brjóstholi báðum megin, 6 cm langa rifu á innsta lagi meginslagæðar, blæðingu í hægri lifrarlappa og blæðingu í görnum.
Í læknisvottorði Gunnars H. Gunnlaugssonar, yfirlæknis á skurðlækningadeild Landspítala Fossvogi, dags. 16. apríl 2002, kemur fram að Hafdís Bridde, sem var farþegi í jeppabifreiðinni hafi verið með brot á bringubeini og tognun á háls- og brjósthrygglið.
Í læknisvottorði Hrafnkels Óskarssonar, dags. 12. febrúar 2002 varðandi Eddu Björk Gunnarsdóttur, sem einnig var farþegi í jeppabifreiðinni segir m.a. eftirfarandi: ,,þrátt fyrir að hún slyppi hér óbrotin, þá hefur hún fengið háorkuáverka á sig við áreksturinn og hefur tognað, að heita má, á allri hryggsúlunni, frá hálsi og niður í lendhrygg og fengið mikið mar og yfirborðsáverka á brjóstkassann og sömuleiðis nokkurn yfirborðsáverka á kviðinn.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði kvaðst ekkert muna eftir atvikum, en kvaðst mjög oft hafa ekið umrædda leið og alltaf sýnt mikla varúð þegar hann hafi ekið niður Kamba í umræddri beygju. Ákærði neitaði því alfarið að bifreið hans hafi verið á röngum vegarhelmingi. Hann kvaðst þó reikna með að bifreið hans hafi runnið til þegar hann var að koma út úr beygjunni. Aðspurður kvaðst ákærði hafa fótbrotnað á báðum fótum, frá mjöðm og niðurúr, olnboga- og rifbrotnað. Þá hafi hryggjarliðir brákast og hann fengið heilahristing. Aðgerð sem hann fór í eftir slysið hafi tekið fjórtán klukkustundir og honum hafi verið haldið sofandi í þrjár vikur. Ákærði kvaðst ganga við hækjur í kjölfar slyssins. Því sé honum nauðsynlegt að hafa bíl til að komast ferða sinna, m.a í endurhæfingu.
Björn Jóhann Gunnarsson, ökumaður jeppabifreiðarinnar, kvaðst umrætt kvöld hafa ekið vestur Suðurlandsveg upp Kamba á 80-90 km hraða. Skömmu áður hefði hann ekið sömu leið niður Kamba, en hann hafi verið á leið frá Hveragerði þegar slysið varð. Vitnið kvaðst hafa ekið á vinstri akrein hálfa bíllengd fyrir framan hópbifreið, en á þessum stað í Kömbunum séu tvær akreinar í vestur. Þá hafi bifreið ákærða komið yfir á rangan vegarhelming og lent framan á bifreið hans. Við það hafi bifreið hans snúist við á veginum og hópbifreiðin lent í hlið bifreiðar sinnar. Hann kvað launhált hafa verið á umræddum stað en hann hafi verið með bifreið sína, sem var búin negldum hjólbörðum, í fjórhjóladrifi. Vegurinn hafi litið út fyrir að vera blautur, en hann hafi í rauninni verið háll. Þá hafi verið þungskýjað.
Vitnið kvaðst hafa fylgst með umferð á móti en ekki átt von á bifreið á röngum vegarhelmingi. Hann kvaðst hafa horft á bifreið ákærða renna yfir á rangan vegarhelming, en fyrst hafi bifreið ákærða verið á réttri akrein. Þegar bifreiðarnar skullu saman hafi hann staðið á bremsunni. Hann hefði hins vegar ekki þorað að beygja til hægri vegna hópbifreiðarinnar við hlið sér. Bifreið ákærða hefði síðan skollið beint framan á bifreið sína. Ítrekað aðspurt kvaðst vitnið minna að hafa séð bifreið ákærða renna yfir á rangan vegarhelming en tók fram að hann hefði þjáðst af tímabundnu minnisleysi eftir slysið. Því væri hugsanlegt að bifreið ákærða hefði verið á röngum vegarhelmingi í beygjunni. Vitnið kvaðst vera fullvisst um að ákærði ók ekki á sinni akrein, sem er lengst til hægri, rétt fyrir slysið. Hann kvað yfirborðsmerkingar á veginum hafa verið sýnilegar enda aðeins verið frost á veginum. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um á hvaða hraða bifreið ákærða var, en vitnið ítrekaði að hann hefði staðið á bremsunni og bifreið hans hefði því hægt verulega á ferðinni rétt fyrir áreksturinn. Á bifreið hans hefði mesta tjónið orðið beint framan á bifreiðinni og einnig eftir rútuna að aftan. Hann tók fram að ekkert tjón hefði orðið á frambrettum bifreiðarinnar nema eftir höggið að framan, hugsanlega eitthvað meira vinstra megin. Hann kvað árekstrarstaðinn hafi verið á sínum vegarhelmingi, þ.e. á miðakrein í beygjunni. Vitnið kvaðst bera mein eftir slysið, vera í sjúkraþjálfun tvisvar í viku og hafa átt mjög erfitt andlega eftir slysið.
Ítrekað aðspurður af verjanda ákærða kvaðst hann telja að bifreið ákærða hafi runnið yfir á rangan vegarhelming, en þegar hún hafi ekið á móti jeppabifreið hans hefði hún verið í beinni akstursstefnu á móti bifreið hans.
Edda Björk Gunnarsdóttir kvaðst hafa verið farþegi í bifreiðinni sem Björn Jóhann Gunnarsson ók í umrætt sinn og setið fyrir aftan farþegasætið. Hún kvaðst hafa haft góða yfirsýn yfir veginn og hafa séð bifreið ákærða koma yfir á rangan vegarhelming. Þá kvaðst hún hafa hrópað upp yfir sig og beygt sig fram. Þá hefði fyrri skellurinn komið og síðan sá síðari, þ.e. þegar hópbifreiðin lenti á bifreiðinni. Vitnið sagðist ekki geta sagt til um á hvaða hraða Björn Jóhann ók, en hana minnti að bifreið ákærða hefði verið ekið hratt. Bifreið ákærða hefði verið á miðlínunni, þ.e. á línunni á milli þeirrar akreinar sem Björn Jóhann ók eftir og akrein sem ætluð var fyrir umferð niður Kamba, þegar hún hafi fyrst séð hana. Þá hafi bifreiðin stefnt yfir á rangan vegarhelming. Ítrekað aðspurð kvaðst hún hafa séð bifreið ákærða á miðlínunni og að hún hefði farið yfir á rangan vegarhelming. Hún kvaðst hafa lokað augunum og því ekki séð sjálfan áreksturinn. Vitnið kvaðst ekki hafa náð sér að fullu eftir slysið.
Hafdís Bridde, þáverandi sambýliskona Björns Jóhanns, var farþegi í framsæti bifreiðar Björns Jóhanns. Hún kvað Björn hafa ekið á innri akrein og að hópbifreið hafi verið rétt fyrir aftan þau, einnig á leið upp Kamba. Efst í beygjunni kvaðst hún allt í einu hafa séð bifreið sem hafi verið komin yfir á rangan vegarhelming. Björn hafi bremsað en bifreiðin hafi lent framan á bifreið þeirra og mikið högg orðið. Við það hefði bifreið þeirra snúist við á veginum og hópbifreið síðan rekist í hlið bifreiðarinnar. Vitnið kvaðst halda að Björn hafi ekið á 70-80 km hraða. Aðspurð um akstursskilyrði minnti vitnið að það hafi verið slydda eða krap. Vitnið sagði að bifreið ákærða hefði næstum því verið á þeirra akrein þegar hún sá hana fyrst, en síðan farið lengra yfir á þeirra vegahelming og sér virst að bifreiðin hefði rásað lítillega. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð bifreið ákærða á réttum vegarhelmingi. Bifreiðin hefði lent tiltölulega beint fram á bifreið þeirra, en vitnið kvaðst ekki geta sagt til um það hvar áreksturinn varð á veginum. Vitnið kvaðst hafa bringubeinsbrotnað og ekki hafa náð sér að fullu, og þyrfti m.a. ætíð að ganga með bakbelti.
Jónas Snæbjörnsson, umdæmisstjóri Vegargerðar, upplýsti að hámarkshraði á Suðurlandsvegi niður Kamba væri 90 km. Hann kvað merkingar um fjölda og skiptingu akreina aðeins vera á veginum sjálfum en ekki á umferðaskiltum. Þá sagði hann algengt að hálka komi snögglega á umræddum stað í Kömbunum.
Arngrímur Svavarsson, ökumaður hópbifreiðarinnar, kvað bifreið Björns Jóhanns hafa ekið framúr rútunni efst í neðstu brekkunni og ekið á undan vitninu á miðakreininni upp Kamba. Þegar að umræddri beygju kom kvaðst vitnið hafa séð bifreið ákærða koma niður Kamba og sér hefði sýnst hún hafa runnið í veg fyrir bifreið Björns Jóhanns. Launhált hefði verið, ísing á vegi og í hjólförum, en snjókrapi á milli þeirra. Vitnið kvaðst hafa ekið niður Kamba u.þ.b. klukkutíma áður. Þá hafi akstursskilyrði verið mjög svipuð og þegar áreksturinn varð. Vitnið sagði að yfirborðsmerkingar hafi sést mjög illa sums staðar, en skyggni hafi verið þokkalegt. Eftir að hafa skoðað myndir af vettvangi sagði vitnið það augljóst að yfirborðsmerkingar hafi verið greinilegar á slysstað. Vitnið tók fram að hann hafi ekki veitt bifreið ákærða athygli fyrr en rétt áður en áreksturinn varð. Þá hafi hún verið á réttri akrein, en ákærði hefði virst vera í vandræðum með að ná beygjunni, hann hefði bremsað en ekki náð beygjunni. Þá kvaðst vitnið hafa reynt að stöðva og farið eins langt út í kant og hann gat. Samkvæmt ökurita hafi hann ekið á 70-75 km hraða upp brekkuna og Björn Jóhann hafi verið á svipuðum hraða því bilið milli þeirra hafi ekki aukist á leiðinni upp Kamba. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um á hvaða hraða bifreið ákærða varð. Vitnið kvað vinstri horn bifreiðanna hafa skollið saman. Bifreið ákærða hafi ekki verið komin langt yfir á ranga akrein, en hann hafi þó verið kominn út úr hjólförum þeirrar akreinar sem ætluð var til aksturs niður Kamba.
Garðar Jóhannsson, ökumaður sendiferðabifreiðar sem ók á eftir bifreið ákærða, kvaðst hafa verið á leið austur Suðurlandsveg og muna eftir að bifreið ákærða hafi verið ekið fram úr bifreið hans ofarlega í Kömbum. Vitnið sagði að sér hafi þótt ákærði aka frekar glannalega miðað við akstursskilyrði á staðnum, en í Kömbunum hafi verið mikil bleyta og slydda. Á milli akreina hafi verið krapahryggir og því hafi honum ekki fundist vera skilyrði til að fara framúr eins og ákærði hafi gert. Hann kvaðst síðan hafa veitt bifreiðinni athygli þegar hann var kominn niður í hallann á Kömbunum og haft útsýni niður eftir. Þá kvað hann að sér hafi virst sem ákærði væri enn á sömu akrein og hann notaði til framúraksturs skömmu áður, en kvaðst ekki vera alveg viss um það, en þegar hann hafi séð rútu koma upp brekkuna hafi honum fundist bifreið ákærða vera mjög nálægt rútunni. Hann hefði síðan séð áreksturinn sem hefði verið í þann mund sem bifreið ákærða og rútan voru að mætast. Bifreið ákærða hefði kastast aftur og snúist við áreksturinn. Þá kvaðst hann fyrst hafa tekið eftir jeppanum sem bifreið ákærða lenti á, enda hefði hann allan tímann verið að fylgjast með bifreið ákærða og rútunni þar sem honum hafi fundist sem þær væru að lenda saman. Vitnið upplýsti að sér hefði fundist áreksturinn hafa orðið á akrein sem ætluð er fyrir umferð upp Kamba, þ.e. á miðjuakrein. Vitnið kvaðst hafa séð hemlaljós á bifreið ákærða skömmu áður en áreksturinn varð en ekki séð að reynt hefði verið að beygja þeirri bifreið. Þegar vitnið var spurt hvort hann hefði séð bifreið ákærða skrika til á veginum sagði vitnið að sér hefði fundist bifreið ákærða hafa verið í svipaðri stefnu ofar í beygjunni. Sér hafi ekki virst sem ákærði væri að forðast árekstur, heldur eins og að hann hefði allt í einu séð bifreið koma á móti sér. Hann kvað hugsanlegt að ákærði hafi skipt um akrein eftir að hann fór fram úr bifreið vitnisins, enda kvaðst vitnið ekki hafa fylgst stöðugt með bifreið ákærða þrátt fyrir að skyggni hafi verið gott. Veglínur hafi verið sýnilegar á köflum, en þær hafi sést nokkuð vel á árekstursstaðnum. Vitnið kvaðst hafa ekið bifreið sem hefði verið nokkuð hærri en fólksbifreið, þannig að hann hafi séð vel yfir.
Daníel Halldórsson, kunningi ákærða, kvaðst hafa ekið niður Kamba, um 15-20 mínútum á undan ákærða, en þeir hafi verið í samfloti. Vegur hefði verið mjög blautur, krapi á veginum og akstursskilyrði ekki upp á það besta. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa orðið var við hálku. Hann kvaðst hafa verið í lest 6-8 bifreiða og að þeir hefðu ekið á 60 km hraða og síðan með 40 km hraða niður Kamba. Fram kom hjá vitninu að þegar hann var á miðri Hellisheiði hefði gert mikla kraparigningu.
Maron Guðmundsson, farþegi í aftursæti í bifreið ákærða, gaf skýrslu símleiðis, en hann var sofandi er slys varð. Vitnið kvaðst hafa orðið fyrir meiðslum sem ekki sé víst að hann nái sér nokkurn tíma af.
Birgir Þorsteinn Ágústsson, farþegi í afturæti bifreiðar ákærða, gaf skýrslu í gegnum síma. Hann kvaðst ekki muna eftir atvikum. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið fyrir miklum meiðslum og hafa náð sér að fullu.
Þorsteinn Halldórsson, vinur ákærða til margra ára, var farþegi í aftursæti hægramegin í bifreið ákærða í umrætt sinn. Hann kvað ökuferðina úr Reykjavík hafa verið með eðlilegum hætti þar til áreksturinn varð. Vitnið gat ekki lýst því þegar ákærði fór fram úr sendibifreið, rétt ofan við Kambana. Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega eftir hvort ákærði færði bifreiðina yfir á réttan vegarhelming eftir að framúrakstri lauk, en kvaðst þó halda það. Vitnið kvaðst hafa séð jeppabifreiðina 2-3 bíllengdum áður en þær skullu saman. Jeppabifreið hefði stefnt á bifreið ákærða svolítið til vinstri, þ.e. á vinstra framhorn bifreiðar ákærða, en ekki beint framan á bifreið ákærða. Ákærði hefði reynt að beygja til hægri og kvaðst vitnið hafa haldið að bifreið ákærða hefði verið á réttri akrein þegar árekstur varð. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að bifreiðin hafi rásað á veginum.
Vitnið var spurt um misræmi í framburði hans fyrir dómi og fyrir lögreglu um staðsetningu bifreiðar ákærða á veginum, en fyrir lögreglu sagði vitnið að sér hafi fundist ákærði vera með bifreiðina aðeins inní á miðakrein þegar slys varð. Ítrekað aðspurður sagðist hann hafa litið út um hliðarglugga skömmu fyrir áreksturinn og þá hafi honum fundist hann aðeins sjá vegöxlina til hliðar hægra megin, enda sé hún alveg bílbreidd. Hann kvaðst þó ekki hafa verið að fylgjast vel með, en hann hljóti að hafa munað þetta öðruvísi þegar lögregluskýrslan var tekin. Vitnið tók fram að hann hefði ekki munað eftir hversu margar akreinar eru á veginum á þessum kafla þegar lögregluskýrsla var tekin, þ.e hvort það hafi verið ein eða tvær.
Vitnið var spurt um misræmi í framburði hans fyrir dómi og fyrir lögreglu um að hann hefði séð bifreið koma nánast alveg beint á móti bifreið ákærða rétt áður en bifreiðarnar skullu saman og hefði ákærði þá reynt að beygja til hægri til að koma í veg fyrir árekstur. Vitnið ítrekaði að sér hafi fundist bifreiðarinnar skella meira saman vinstra megin, líklega hefði 1/3 úr bifreiðunum lent saman.
Hjalti Pálmason kvaðst hafa ekið austur Suðurlandslandsveg umrætt kvöld. Þegar upp á heiðina kom hafi hann lent fyrir aftan bifreið ákærða. Fyrir framan bifreið ákærða hefði verið önnur bifreið, en fremst í lestinni sendibifreið sem ók á 40-50 km hraða. Þegar bifreið ákærða var ekið framúr sendibifreiðinni kvaðst vitnið hafa notað tækifærið og farið fram úr sendibifreiðinni. Þegar vitnið hafði lokið framúrakstri, kvaðst hann hafa farið inn á rétta akrein, en ákærði haldið áfram akstri á vinstri akrein, þ.e. á miðakrein vegarins. Þannig hefði ákærði ekið niður Kamba allt þar til hann skall á jeppabifreiðinni. Í vinstri beygju niður Kamba, þar sem útsýnispallurinn er til hægri, hafi bifreiðarnar ekið á um 80 km hraða. Vitnið sagði að kona sín hefði verið orðin óróleg og því kvaðst vitnið hafa fært hægri hjólbarða bifreiðarinnar út af veginum til að ná betra veggripi. Vitnið kvaðst hafa horft á bifreið ákærða til vinstri við sig og séð krapið skvettast undan bifreið ákærða og því fundist hann vera á nokkuð mikilli ferð niður. Þá kvaðst vitnið hafa hugsað með sér hvort ökumaður hennar ætlaði ekki að fara yfir á réttan vegarhelming aftur. Hann kvaðst hafa séð ljós útundan sér til hægri, þ.e. bifreiðar á leið upp Kamba, og því ekki trúað öðru en að bifreið ákærða færi inn á rétta akrein. Síðan hafi hann séð bifreið ákærða skella á bifreið á leið upp Kamba og heyrt skellinn. Þá hafi hlutur úr brakinu skotist til hægri og fannst vitninu sem þessi hlutur hlyti að lenda á bifreið hans. Við höggið hafi bifreið ákærða kastast í áttina að bifreið vitnisins og kvaðst vitnið þá ósjálfrátt hafa beygt til hægri og lent á stiku en náð bifreið sinni aftur upp á veginn. Hann kvað sér hafa virst sem ákærði hafi á síðustu stundu reynt að beygja til hægri. Vitnið kvaðst hafa dregið þá ályktun af aksturslagi ákærða að hann hefði talið sig vera á rétti akrein. Vitnið ítrekaði að ákærði hefði ekið á miðakrein fyrir ofan útsýnispallinn og alveg að slysstað og kvaðst halda að hraði bifreiðar ákærða hafi verið um 80 km/klst. Hann kvað sér hafa fundist ákærði aka of hratt miðað við aðstæður. Vitnið kvaðst hafa rætt um aksturslag ákærða við sambýliskonu sína, en hún hafi verið mjög óróleg. Það hefði verið ástæða þess að hann færði sig yfir í hægri kant, bæði til að ná betra veggripi og til að vera lengra frá bifreið ákærða.
Ástæðu þess að hann hafi fylgst vel með akstri ákærða kvað hann þá að hann hefði haldið að bifreið ákærða hefði skömmu áður verið ekið fram úr sinni bifreið vestar á heiðinni, við mjög slæmar aðstæður. Hann áréttaði að hann hefði strax eftir framúraksturinn farið inn á réttan vegarhelming aftur, en það hefði bifreið ákærða ekki gert, þó svo þeir hefðu verið í samfloti í framúrakstrinum. Borin var undir vitnið lögregluskýrsla sem vitnið gaf og kvað hann orðalag þar ekki alls kostar nákvæmt um að hann hefði fyrst veitt því athygli að bifreið ákærða var ekki komin á rétta akrein þegar vitnið færði bifreið sína að hluta yfir á vegöxl. Nákvæmara orðalag væri að á þeim tímapunkti hefði hann verið farinn að undrast að ákærði hefði þá ekki fært bifreið sína yfir á réttan vegarhelming. Hann fullyrti að bifreið ákærða hefði aldrei verið ekið á réttri akrein eftir framúraksturinn, heldur allan tímann verið á miðakrein.
Þuríður Helga Þorsteinsdóttir, sambýliskona Hjalta Pálmasonar, gaf skýrslu í gegnum síma. Vitnið kvaðst hafa verið farþegi í bifreið með Hjalta á leið niður Kamba í umrætt sinn. Bifreið þeirra hefði verið þriðja bifreið á eftir hvítri sendibifreið. Slabb hafi verið á veginum, rigningarslydda og myrkur. Hún lýsti framúrakstrinum á sama veg og vitnið Hjalti Pálmason. Hjalti hefði strax farið yfir á rétta akrein aftur, en bifreið ákærða hefði verið ekið áfram á miðakrein vegarins og beint í veg fyrir jeppa sem kom upp Kamba, líklega um 20 metra frá bifreið þeirra Hjalta. Vitnið sagði að þau hefðu farið framúr sendibifreiðinni þegar þau voru nýkomin framhjá útsýnispallinum í Kömbum. Vitnið kvaðst hafa fylgst með bifreið ákærða og sýnst hann fljóta í krapinu. Sér hafi virst sem ákærði kæmist ekki inn á rétta akrein aftur og að hann hafi hrakist lengra og lengra til vinstri. Hún kvaðst hafa rætt um það við Hjalta að bifreið ákærða hefði löngu átt að vera komin aftur inn á rétta akrein. Vitnið kvaðst hvorki hafa séð hemlaljós á bifreið ákærða, né að henni hefði verið beygt. Vitnið ítrekaði að það hefði horft á bifreið ákærða allan tímann eftir að framúrakstri lauk og var þess fullvisst að ákærði hefði allan tíman ekið á miðakrein.
Grímur Hergeirsson, rannsóknarlögreglumaður, kvaðst hafa stjórnað sjúkraflutningamönnum á vettvangi, en þegar fleiri sjúkraliðar komu á staðinn hefði hann farið að sinna vettvangsrannsókn. Vitnið sagði að ísing hefði verið á veginum, en hún hafi horfið á innan við hálftíma. Á yfirborði vegar hefði verið krapi, heldur meiri í köntum og utan við hjólför. Yfirborðsmerkingar á vegi hefðu að einhverju leyti verið sjáanlegar. Vitnið kvað árekstursstað hafa verið á miðakrein og hefði mátt ráða það af ummerkjum, braki, olíu á vegi og staðsetningu ökutækja. Þá hefðu mestu ákomur verið framan á bifreiðunum. Bifreið ákærða hefði þó lent aðeins meira vinstra megin að framan á jeppabifreiðinni. Vitnið upplýsti að staðsetning slysstaðar á loftmynd hefði verið gerð út frá hnitum sem tekin voru á vettvangi. Fram kom hjá vitninu að mjög erfitt hefði verið að segja til um hvaða hjólför tilheyrðu þeim bifreiðum sem í árekstrinum lentu, enda mikil umferð á umræddum vegi. Ekki hafi tekist að finna för eftir þessar bifreiðar í krapanum þar sem ekki hafi verið hægt að rekja þau frá ökutækjunum sjálfum. Vitnið kvað algengt að við jafn harðan árekstur sem þennan hendist bifreiðar til og lendi jafnvel utan vegar.
Svanur Kristinsson lögreglumaður kvaðst hafa sinnt starfi vettvangsstjóra á slysstað. Hálka hafi verið og lítilsháttar krapi á veginum. Vitnið kvað yfirborðsmerkingar hafa verið greinilegar, alla vega sums staðar. Öll ummerki á vettvangi hefðu borið þess merki að árekstur hafi orðið á miðakrein vegarins, þ.e. á vinstri akrein fyrir umferð upp Kambana. Þar hefði verið mikið brak úr báðum bifreiðunum, olía og vatn eða frostlögur. Þá hefðu mestu ákomur á bifreiðunum verið að framan og því hafi hann ályktað þegar hann kom á vettvang að bifreiðarnar hefðu lent hvor framan á annarri.
Klemens Geir Klemensson, fyrrverandi lögreglumaður, kvað mikla ísingu hafa verið á leið þeirra á slysstað neðst í Kömbum. Þá hafi einnig verið mikil ísing á slysstað, en hún hafi horfið stuttu síður. Við það hefði vegurinn orðið auður og vettvangsrannsókn gengið betur. Hann kvaðst strax hafa farið að sinna hinum slösuðu og vinna við endurlífgunartilraunir. Eftir að hafa sinnt hinum slösuðu kvaðst vitnið hafa unnið að vettvangsrannsókn. Vitnið kvaðst hafa gert vettvangsuppdrátt og hefði enginn farið um vettvang aðrir en lögreglumenn og sjúkraliðar. Vitnið kvaðst hafa leitað vel að árekstursstað og hafi hann reynst vera aftan við þann stað sem jeppinn stöðvaðist. Þar hafi fundist megnið af brotum úr framljósum bifreiðar ákærða, en þau brotni fyrst í árekstrum sem þessum og falli til jarðar. Þar hafi einnig verið olía úr bifreið ákærða og fleira brak. Brak hafi hins vegar verið dreift um svæðið, en það brak sem yfirleitt fellur fyrst úr bifreiðum við árekstur hefði verið áberandi þéttast á svæði sem merkt er sem E á uppdrættinum. Vitnið sagði að brak, sem fannst á svæði sem merkt er E á uppdrættinum, hafi eingöngu verið eftir árekstur bifreiðar ákærða og jeppans, ekki árekstur jeppans og rútunnar.
Ekki þykir ástæða til að rekja framburð Sigurðar Þórs Ástráðssonar, skoðunarmanns hjá Frumherja, fyrir dómi.
Niðurstaða.
Í framburði ákærða fyrir dómi kom fram að hann myndi ekkert eftir slysinu eða aðdraganda þess.
Af framburði vitna verður ráðið að þegar árekstur varð var krapaelgur á Suðurlandsvegi og vegurinn launháll.
Öll vitni að árekstrinum, nema Þorsteinn Halldórsson, vinur ákærða, hafa borið fyrir dómi að árekstur hafi orðið á miðakrein, sem einungis er ætluð umferð til vesturs, upp Kamba. Framburður annarra vitna en Þorsteins á sér einnig stoð í framburði lögreglumanna sem fyrstir komu á vettvang og skoðuðu hann og þeim myndum sem liggja frammi í málinu.
Þegar framangreint er virt og litið til breytts framburðar vitnisins, Þorsteins, fyrir dómi og tengsla hans við ákærða, er sannað að árekstur bifreiðanna varð á miðakrein vegarins.
Lýsing vitna á því hvenær þau sáu fyrst bifreið ákærða á röngum vegarhelmingi er nokkuð misvísandi eftir því hvort vitnin voru í bifreiðum sem óku móti akstursstefnu bifreiðar ákærða eða í sömu akstursstefnu og hann. Ökumaður hópbifreiðarinnar, ökumaður jeppabifreiðarinnar og annar farþega hennar hafa öll lýst því að þeim hafi virst sem ákærði hafi í fyrstu ekið á réttum vegarhelmingi, en runnið yfir á rangan vegarhelming áður en árekstur varð. Ökumaður hópbifreiðarinnar bar og að sér hafi virst sem ákærði hefði ekki náð beygjunni. Framangreind vitni voru öll í bifreiðum sem ekið var móti akstursstefnu ákærða. Eitt vitnið, Hafdís Bridde, kvaðst þó aldrei hafa séð bifreið ákærða á réttum vegarhelmingi.
Hjalti Pálmason og Þuríður Helga Þorsteinsdóttir, sem voru í bifreiðinni fyrir aftan bifreið ákærða hafa bæði fullyrt að bifreið ákærða hafi ekki verið ekið yfir á réttan vegarhelming eftir að hann hafði ekið fram úr sendibifreið vestar á Hellisheiði, heldur hafi ákærði haldið sig á miðakrein, sem ætluð er umferð upp Kamba. Á sama veg bar ökumaður sendibifreiðarinnar, en hann kvaðst þó ekki geta fullyrt um það á sama hátt og ofangreind tvö vitni. Hann kvað þó bifreið ákærða hafa verið ekið frekar ,,glannalega ” miðað við akstursskilyrði. Vitnið Edda Björk Gunnarsdóttir bar og að sér hefði fundist ákærði aka fremur hratt.
Framburður þeirra Hjalta og Þuríðar fyrir dómi var mjög greinargóður og nákvæmur og lýsti Hjalti m.a. krapaelg sem skvettist undan hjólbörðum bifreiðar ákærða og áhyggjum sínum af því að ákærði færði ekki bifreið sína á hægri vegarhelming og æki of greitt.
Við aðalmeðferð málsins var sýnt myndband sem lögregla tók af slysstað og veginum austan og vestan við slysstað. Þá skoðaði dómari vettvang ásamt verjanda ákærða og fulltrúa ákæruvalds, en dómari er einnig gjörkunnugur aðstæðum. Eins og fram kemur í gögnum málsins, m.a. uppdrætti af slysstað, varð árekstur sá sem mál þetta fjallar um, í beygju ofarlega í Kömbum, þar sem hún er kröppust. Bifreið ákærða var ekið niður Kamba, en jeppabifreið og hópbifreið upp Kamba og var jeppabifreiðinni ekið rétt fyrir framan hópbifreiðina, á miðakarein. Rétt fyrir aftan bifreið ákærða var bifreið vitnisins Hjalta Pálmasonar ekið á hægri akrein og að hluta á vegöxl til hægri. Í ljósi þessara aðstæðna verður að skoða framburð þeirra vitna er sáu áreksturinn, en vegna hinnar kröppu beygju sem á veginum er, hafa þau vitni sem voru fyrir aftan bifreið ákærða haft mun betra sjónarhorn á áreksturinn og meiri yfirsýn en þau sem voru í bifreiðum sem óku á móti bifreið ákærða.
Þær myndir sem liggja frammi í málinu sýna að ákomur á bifreið ákærða og jeppabifreiðinni voru mestar framan á bifreiðunum. Lögreglumenn sem fyrir dóminn komu kváðu að þeim hefði virst af ummerkjum á vettvangi og ákomum á bifreiðunum að þær hefðu skollið hvor framan á annarri á miðakrein. Þótt ekki verði fullyrt með vissu hversu lengi ákærði ók á röngum vegarhelmingi, er sannað með framburði ökumanns hópbifreiðarinnar, ökumanns og farþega í jeppabifreiðinni, sem og þeirra vitna er óku í bifreiðunum fyrir aftan bifreið ákærða, þeirra Hjalta Pálmasonar, Þuríðar Helgu Þorsteinsdóttur og Garðars Jóhannssonar, að ákærði ók bifreið sinni án nægilegrar aðgæslu við slæm akstursskilyrði í krappri beygju og á röngum vegarhelmingi þegar árekstur varð.
Með greindri háttsemi hefur ákærði gerst brotlegur við 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 14. gr. og c- og h-liði 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Læknisvottorð þau sem lögð hafa verið fram í dóminum sanna og að afleiðingar þessarar háttsemi ákærða eru þær sem í ákæru greinir, enda ótvírætt að þeir áverkar sem Halldór Jóhannsson, Maron Guðmundsson, Þorsteinn Halldórsson og Edda Björk Gunnarsdóttir hlutu í slysinu falla undir 215. og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 215. og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Við ákvörðun refsingar ber að horfa til þess að samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé. Ákærði slasaðist sjálfur mjög alvarlega í árekstrinum og hefur ekki náð sér. Hins vegar ber að líta til þess að ákærði varð með vítaverðum akstri sínum, valdur að hörðum árekstri er leiddi til mikils tjóns.
Samkvæmt framanrituðu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er refsing ákæða ákveðin fangelsi í einn mánuð, en rétt þykir að fresta fullnustu þeirrar refsingar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, skal ákærði sviptur ökurétti. Með hliðsjón af framsögðu skal ákærði sviptur ökurétti í eitt ár frá birtingu dóms þessa að telja.
Samkvæmt þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1940 um meðferð opinberra mála, skal ákærði greiða allan sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Friðjóns Arnar Friðjónssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 95.000 krónur.
Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, Guðmundur Jóhannsson, sæti fangelsi einn mánuð, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1995.
Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá dómsbirtingu að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Friðjóns Arnar Friðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 95.000 krónur.