Hæstiréttur íslands
Mál nr. 185/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Fimmtudaginn 13. maí 2004. |
|
Nr. 185/2004. |
X(Ragnar H. Hall hrl.) gegn Y(Ragnheiður Bragadóttir hdl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Hæstiréttur staðfesti ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að X skyldi vistuð nauðug á sjúkrahúsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. maí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 30. apríl 2004 um að hún skyldi vistuð gegn vilja sínum á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Þá krefst hún að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga, greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Ragnars H. Hall hæstaréttarlögmanns, og talsmanns varnaraðila, Ragnheiðar Bragadóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 60.000 krónur handa hvorum, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2004.
Með beiðni, dagsettri 1. þ.m. hefur X farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, 30. f.m., um það að hún skuli vistast nauðug á sjúkrahúsi. Sóknaraðili var lögð inn á á sjúkrahús 29. f. m. Meðal gagna málsins er vottorð Ólafs Bjarnasonar geðlæknis 30. þ.m. þar sem fram kemur að sóknaraðili er haldin alvarlegum geðsjúkdómi, geðklofa með aðsóknarhugmyndum auk alkóhólisma. Segir þar að sjúkdómssaga hennar nái aftur til 1994 og hún legið inni á geðsjúkrahúsi áður vegna geðsjúkdómsins. Vaxandi sturlunarmerki séu nú í fari hennar og vanti hana innsæi í veikindi sín. Nauðsynlegt sé að veita henni læknismeðferð, en það sé ekki hægt nema að hún leggist inn á geðdeild. Sóknaraðili hefur komið fyrir dóminn og talað máli sínu. Hún neitar því að vera með geðsjúkdóm umfram það að vera þunglynd. Þá segist hún ekki vera alkóhólisti. Tal hennar er á köflum með nokkuð annarlegum blæ.
Dómarinn telur einsýnt af því sem fram er komið í málinu að brýn þörf sé á því að vista sóknaraðila á sjúkrhúsi. Ber því að ákveða að fyrrgreind ákvörðun ráðuneytisins skuli haldast.
Málskostnað, þar með talda þóknun til talsmanna aðilanna, Ragnars Halldórs Hall, hæstaréttarlögmanns, og Ragnheiðar Bragadóttur, héraðsdómslögmanns, 45.000 krónur til hvors um sig, ber að greiða úr ríkissjóði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, 30. apríl 2004, um það að X, skuli vistast á sjúkrahúsi.
Málskostnaður, þar með talin þóknun til talsmanna aðilanna, Ragnars H. Hall hrl., og Ragnheiðar Bragadóttur, hdl., 45.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.