Hæstiréttur íslands

Mál nr. 356/2009


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. desember 2009.

Nr. 356/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir

vararíkissaksóknari)

gegn

Tómasi Ívarssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Þjófnaður. Skilorðsrof.

T var sakfelldur fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með brotinu rauf hann skilorð eldri dóms þar sem hann hafði hlotið 7 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga var skilorðsdómur T tekinn upp og honum gerð refsing með hliðsjón af 77. gr. laganna. Var T dæmdur í 8 mánaða fangelsi.

                         

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. júní 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún bundin skilorði.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var ákærði 30. september 2008 dæmdur í sjö mánaða fangelsi og var sú refsing bundin skilorði. Með broti því sem dæmt er um í þessu máli hefur ákærði rofið skilorð þess dóms. Fallist er á með héraðsdómi að dæma beri upp þann dóm og ákveða refsingu í einu lagi, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 77. gr. laganna. Refsing ákærða er hæfilega ákveðin í héraðsdómi og verður hann staðfestur með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hans.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Tómas Ívarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 134.417 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2009.

                Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 26. maí sl. á hendur ákærða, Tómasi Ívarssyni, Skipholti 14, Reykjavík, kt. 060859-5239, „fyrir þjófnað með því að hafa fimmtudaginn 5. febrúar 2009, í verslun Elko í Skeifunni, Reykjavík stolið fjórtán dvd diskum, samtals að verðmæti 26.220.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakar-kostnaðar.“

Málavextir

Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir.  Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæðis.  Ákærði var fyrst dæmdur fyrir auðgunarbrot árið 2001, 30 daga skilorðsbundið fangelsi.  Frá því hefur hann hlotið fjóra skilorðsbundna fangelsisdóma fyrir auðgunarbrot, síðast 30. september í fyrra að hann var dæmdur í sjö mánaða fangelsi.  Ákærði hefur rofið skilorð þessa dóms og ber að dæma hann upp og gera ákærða refsingu í einu lagi.  Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði.

    Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl. 50.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Tómas Ívarsson, sæti fangelsi í 8 mánuði.

Ákærði greiði verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl. 50.000 krónur í málsvarnarlaun.