Hæstiréttur íslands

Mál nr. 229/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Res Judicata
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                              

Föstudaginn 27. apríl 2012.

Nr. 229/2012.

Hera Guðrún Cosmano

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

gegn

Högum hf.

(Kristín Edwald hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Res Judicata áhrif. Frávísunarúrskurður staðfestur.

H höfðaði mál gegn H hf. og S hf. til réttargæslu til heimtu skaðabóta vegna líkamstjóns sem hún hlaut í vinnuslysi á starfsstöð HV sem er í eigu H hf. Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins frá dómi með vísan til þess að krafa H hefði þegar verið dæmd að efni til og að málatilbúnaður H að því er varðaði endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 uppfyllti væri ekki nægilega skýr.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. mars 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Hera Guðrún Cosmano, greiði varnaraðila, Högum hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2012.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda föstudaginn 23. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Heru Guðrúnu Cosmano, kt. 240454-5729, Hringbraut 111, Reykjavík, með stefnu, birtri 9. ágúst 2011, á hendur Högum hf., kt. 670203-2120, Skútuvogi 7, Reykjavík, og Sjóvá Almennum tryggingum hf., kt. 650909-1270, Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæzlu.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi greiði stefnanda kr. 3.920.405.-, með 4,5% vöxtum af kr. 1.143.950.- frá 3. nóvember 2005 til 15. maí 2007, en af kr. 3.920.405 frá þeim degi til 29. apríl 2011, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá þeim degi til  greiðsludags. Þá er krafizt málskostnaðar að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að máli þessu verði vísað frá dómi og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara  gerir stefndi þá kröfu, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Til þrautavara gerir stefndi þær kröfur, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður.

Af hálfu réttargæzlustefnda eru engar kröfur gerðar.

II

Málavextir

Málavextir eru þeir, að stefnandi lenti í vinnuslysi á starfsstöð Hýsingar-Vöruhótels hinn 3. nóvember 2005. Hýsing-Vöruhótel er einstaklingsfyrirtæki með kennitölu, en er í eigu stefnda Haga hf. Er ekki ágreiningur um aðild stefnda að máli þessu. Bótaskylda vegna slyssins er óumdeild.

   Læknarnir Guðmundur Björnsson og Jónas Hallgrímsson mátu afleiðingar slyssins á heilsufar stefnanda og er matsgerð þeirra dagsett 21. nóvember 2008. Er niðurstaða þeirra sú, að stefnandi hefði orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni frá slysdegi 3. nóvember 2005 til 15. maí 2007 og þjáningatímabil stefnanda hefði einnig verið frá slysdegi til 15. maí 2007. Þá hefði stefnandi hlotið 35% varanlegan miska af völdum slyssins og 50% varanlega örorku. Á grundvelli matsgerðarinnar sendi stefnandi kröfubréf til réttargæzlustefnda, dags. 2. desember 2008, sem ekki mun hafa verið sinnt.

   Stefnandi höfðaði dómsmál til greiðslu bóta hinn 12. maí 2009, en felldi það niður vegna rangrar aðildar.

   Hinn 21. október 2009 fór fram uppgjör í málinu, á grundvelli framangreindrar matsgerðar, með fyrirvara um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, varanlegrar örorku og frádrátt frá bótum, sem og dráttarvexti. Voru stefnanda greiddar kr. 12.798.328 vegna slyssins úr vátryggingum hjá réttargæzlustefnda.

   Stefnandi höfðaði mál að nýju hinn 4. desember 2009 með breyttri aðild vegna þeirra kröfuliða, sem enn var ágreiningur um. Dómkröfur stefnanda í málinu lutu að því að stefnda yrði gert að greiða skaðabætur fyrir varanlega örorku stefnanda en kröfufjárhæðin nam annars vegar lækkun ætlaðs eingreiðsluverðmætis bóta frá Sjúkratryggingum Íslands og hins vegar 40% af ætluðu eingreiðsluverðmæti bóta frá Lífeyrissjóði Verzlunarmanna, bætur fyrir tímabundið atvinnutjón ásamt greiðslu sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns að álitum. Byggðist kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda á framangreindri matsgerð frá 2008. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. janúar 2011, í máli nr. E-13728/2009 var stefnda gert að greiða stefnanda kr. 10.901, ásamt vöxtum, vegna ógreidds sjúkrakostnaðar, en var sýknaður af öðrum kröfum stefnanda. Dóminum var ekki áfrýjað.

   Eftir að dómur var kveðinn upp í framangreindu máli aflaði stefnandi álitsgerðar örorkunefndar samkvæmt 10. gr. laga nr. 50/1993. Niðurstaða örorkunefndar í álitsgerð, dagsettri 23. marz 2011, var sú, að stefnandi hefði orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni frá slysdegi til 15. maí 2007, þjáningatímabil stefnanda hefði einnig verið frá slysdegi til 15. maí 2007. Þá hefði stefnandi hlotið 45% varanlegan miska af völdum slyssins og 65% varanlega örorku. Líkt og í framangreindri matsgerð frá árinu 2008 var stöðugleikapunktur talinn vera 15. maí 2007.

   Á grundvelli framangreindrar álitsgerðar gerði stefnandi kröfu með bréfi dagsettu 29. marz 2011 um greiðslu bóta úr vátryggingum hjá réttargæzlustefnda, sem nemur þeim hækkunum á varanlegum miska og varanlegri örorku stefnanda, sem niðurstaða álitsgerðarinnar kveður á um, þar sem varanlegur miski er metinn 10 stigum hærri en í fyrra mati frá 2008 og varanleg örorka 15% hærri. Að auki gerði stefnandi í umræddu kröfubréfi fyrirvara við mat á afleiðingum slyssins. Af hálfu réttargæzlustefnda var frekari bótagreiðslum til handa stefnanda vegna slyssins úr vátryggingum stefnda hafnað með tölvuskeyti dagsettu 16. ágúst 2011. Var vísað til þess, að málið hefði verið endanlega gert upp að fullnaðardómi í málinu gengnum og í fullu samræmi við dómsorð héraðsdómsins, og því yrði frekari kröfum ekki komið fram á hendur stefnda í málinu vegna þessa tjónsatburðar.

   Snýst ágreiningur aðila um það, hvort stefnandi eigi rétt til frekari bóta úr hendi stefnda.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að slys það, sem hún varð fyrir, hafi haft afgerandi áhrif á heilsu hennar, en áverkar þessir hafi haft víðtæk áhrif á líkamlegt og andlegt ástand hennar og getu til þess að starfa og sinna áhugamálum.

   Afleiðingar slyssins hafi upphaflega verið metnar af læknunum Guðmundi Björnssyni og Jónasi Hallgrímssyni, sbr. matsgerð þeirra, dags. 21. nóvember 2008. Niðurstaða þeirra sé eftirfarandi:

·                    Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skbl:

o        3. nóvember 2005 – 15. maí 2007.

·                    Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl:

o        3. nóvember 2005 – 15. maí 2007.

·                    Stöðugleikapunktur:

o        15. maí 2007

·                    Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl:

o        35 stig

·                    Varanleg örorka skv. 5.-7. gr. skbl:

o        50%

·                    Hefðbundin læknisfræðileg örorka:

o        35 %.

   Frá því að gengið var frá uppgjöri af hálfu réttargæzlustefnda árið 2009, hafi heilsufar stefnanda versnað jafnt og þétt, unz ljóst hafi verið orðið, að fyrri matsniðurstaða hafi alls ekki gefið rétta mynd af áhrifum slyssins á heilsu stefnanda. Því hafi stefnandi ákveðið að leita eftir endurupptöku málsins.

   Í kröfubréfinu frá 2. desember 2008, sem gert var á grundvelli matsgerðarinnar, hafi verið gerður fyrirvari við mat á afleiðingum. Á grundvelli þess fyrirvara hafi stefnandi farið þess á leit við Örorkunefnd, með samþykki réttargæzlustefnda, skv. heimild í 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að nefndin léti í ljós álit sitt á varanlegum afleiðingum slyssins þann 3. nóvember 2005. Um samþykki félagsins vísist til yfirlýsingar með matsbeiðni, dags. 9. febrúar 2011, svo og til tölvupósts, dags. 11. febrúar 2011. Álitsgerðin sé dagsett 23. marz 2011, og niðurstöður hennar séu eftirfarandi:

·                     Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skbl:

o        3. nóvember 2005 – 15. maí 2007.

·                     Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl:

o        3. nóvember 2005 – 15. maí 2007.

·                     Stöðugleikapunktur:

o        15. maí 2007

·                     Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl:

o        45 stig

·                     Varanleg örorka skv. 5.-7. gr. skbl:

o        65%

·                     Hefðbundin læknisfræðileg örorka:

o        45 %.

   Í niðurstöðum Örorkunefndar komi eftirfarandi fram:

Viðvarandi vandi tjónþola, sem hún rekur til slyssins 3. nóvember 2005 er daglegir höfuðverkir, um hnakka og hvirfil, meira vinstra megin í höfðinu. Verkur í vinstra auga og hún segir úthald hafa versnað við lestur. Hún rekur stöðugan hátíðnisón í vinstra eyra til slyssins. Hún á erfiðara með að einbeita sér og finnst minnið hafi versnað, hún þurfi að reiða sig á minnismiða. Tjónþoli kveðst stöðugt vera með verki og stirðleika í hálsi, verki leiði þaðan í herðar og í vinstri handlegg að olnboga og í efra bak.

Tjónþoli segir andlega líðan sína vera slæma, hún sofi illa og eigi erfitt með að sofna. Hún kveðst hafa misst allt öryggi og traust á sjálfri sér, hún líði af jafnvægisleysi og sé haldin minnisleysi og hræðslu. Hún segir samhæfingu augna og handa lélega, úthald hennar sé slæmt og hún hafi misst allt öryggi við heimilishald og missi iðulega allt úr höndunum. Hún hafi einangrast og fari helst aldrei út úr húsi nema þegar hún má til.

Tjónþoli átti bágt með sig á matsfundi og henni leið greinilega illa bæði til líkama og sálar, hún felldi tár. Hún gaf greiðlega svör við öllu, sem hún var spurð um. [...] Við skoðun á hálsi var mikil hreyfiskerðing, hreyfingar sárar, beyging og rétting var 10°, snúningur 30°, hallahreyfingar 10° og 15° , minni til hægri. Það voru mikil eymsli í hnakkafestum, hálsvöðvum og við álag á hálstinda. Eymsli voru í vinstri höfuðvendi og festu hans í stikli og hana verkjaði við álag á vinstri kjálkalið. Eymsli voru í sjalvöðvum og herðablaðsléttum. Hreyfiferill í vinstri öxl var mikið skertur. Virk beyging og fráfærsla aðeins 45° en óvirk heldur meiri.

   Réttargæzlustefndi hafi í engu anzað kröfubréfi stefnanda, sem ritað hafi verið á grundvelli niðurstaðna matsgerðarinnar, dags. 29. marz 2011. Sé þar af leiðandi óljóst, á hverju félagið byggi þá afstöðu að hafna bótagreiðslu á grundvelli álitsgerðar Örorkunefndar. Þá sé lögð áherzla á, að í málinu reyni ekki á 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um endurupptöku, sökum hins skýra fyrirvara, sem gerður hafi verið í upphaflegu kröfubréfi, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 300/2006. Ítreka beri umræddan fyrirvara, sem gerður hafi verið í kröfubréfinu, en hvað sem öðru líði séu skilyrði 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku tvímælalaust uppfyllt í málinu í ljósi þess, hve mikið heilsa stefnanda hafi versnað frá upphaflegu mati og uppgjöri, en varanlegur miski hafi hækkað um 10 stig og varanleg örorka um 15%.

   Kröfur sínar sundurliði stefnandi svo:

1.   Bætur skv. 4. gr.                                                                 kr.             3.835.800.-            

3.898.850 x 7175 / 3282 = 8.524.000

45% af kr. 8.524.000.-

Að frádreginni innborgun réttarg.st., 19. okt. 2009:          kr.               -2.691.850.-

2.   Bætur skv. 5-7. gr. skbl.                                                    kr.               2.776.455.-

(2004) 1.857.458 x 1.07 / 251,4 x 316,9 =                       2.505.300

(2003) 2.006.225 x 1.07 / 239,3 x 316,9 =                       2.842.778

                                                                                                  5.348.078

       

 5.348.078 / 2 = 2.674.039 x 6,922 x 15 %

                                                                                                 SAMTALS               kr.  3.920.405

   Kröfugerð stefnanda miðist við álitsgerð Örorkunefndar um afleiðingar slyssins með tilliti til skaðabótalaga nr. 50/1993 (skbl.). Um varanlegan miska og varanlega örorku vísist til álitsgerðar Örorkunefndar.

   Við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku sé tekið mið af 2. mgr. 7. gr. skbl., sbr. greiðslu réttargæzlustefnda, dags. 19. október 2009. Varanleg örorka stefnanda hafi verið metin 65% af Örorkunefnd og taki kröfugerðin mið af aukningu frá fyrra mati, þ.e. aukningu um 15%. Við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku sé ekki unnt að taka mið af tekjum síðastliðinna þriggja almanaksára fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. skbl., þar sem stefnandi hafi verið tekjulaus hér á landi á árinu 2002, enda hafi hún flutt það ár til Íslands eftir langa búsetu erlendis. Sé því farin sú leið, með vísan til 2. mgr. 7. gr. skbl., að taka mið af tekjum síðastliðinna tveggja almanaksára fyrir slysið (2003 – 2004). Þá sé, við útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku, tekið tillit til hækkunar launavísitölu frá miðju ári 2003 annars vegar og árinu 2004 hins vegar fram til stöðugleikatímapunkts þann 15. maí 2007 (316,9), en upphaf varanlegrar örorku miðist við það tímamark. Þá hafi verið tekið tillit til 7% framlags vinnuveitanda til lífeyrissjóðs.

   Varanlegur miski sé reiknaður upp miðað við niðurstöðu Örorkunefndar, og viðbót við mat á varanlegum miska sé notuð til útreiknings fyrir þann bótaþátt.

   Stefnandi veki sérstaka athygli á því, að ekki verði um að ræða frádrátt frá bótum vegna bótaréttar frá Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóðum, enda hafi fullur frádráttur þegar farið fram við fyrra uppgjör, sbr. útreikninga Ragnars Þ. Ragnarssonar og Steinunnar Guðjónsdóttur tryggingastærðfræðinga. Ljóst sé orðið, að allur réttur stefnanda hjá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum hafi átt rætur að rekja til afleiðinga slyssins, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. janúar 2011 í máli nr. E-13728/2009. Fullur frádráttur hafi því þegar farið fram við fyrra uppgjör, og beri stefnda að greiða stefnanda óskertar bætur samkvæmt fyrirliggjandi álitsgerð Örorkunefndar.

   Krafizt sé 4,5% vaxta af miskafjárhæðinni, frá slysdegi fram að stöðugleikatímamarki, en frá þeim degi einnig af bótum vegna varanlegrar örorku, skv. 16. gr. skbl., fram til 29. apríl 2011, en dráttarvaxta frá því tímamarki, sbr. lög nr. 38/2001, eins og boðað hafi verið í kröfubréfi, dags. 29. marz 2011.

   Kröfur stefnanda styðjist við skaðabótalög nr. 50/1993 með síðari breytingum og almennar ólögfestar reglur íslenzks réttar um skaðabætur, þ. á m. reglur um vinnuveitandaábyrgð og endurupptöku. Um vaxtakröfuna vísi stefnandi sérstaklega til 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um aðild sé vísað til 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað sé vísað til 21. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.

Málsástæður stefnda

Aðalkrafa stefnda í máli þessu er sú, að málinu verði vísað frá dómi og er sá þáttur þess einungis hér til úrlausnar.

   Frávísunarkröfu sína styður stefndi þeim rökum, að með dómsúrlausn Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. janúar 2011 í máli nr. E-13728/2009 hafi gengið fullnaðardómur um úrslit sakarefnisins í málinu. Í umræddu héraðsdómsmáli hafi stefnandi krafizt greiðslu bóta úr hendi stefnda vegna varanlegrar örorku, tímabundins atvinnutjóns, sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns. Dómurinn hafi fallizt á kröfu stefnanda um endurgreiðslu útlagðs sjúkrakostnaðar en hafnað dómkröfum stefnanda að öðru leyti. Sé dómsorðið svohljóðandi:

Stefndi, Hagar hf., greiði stefnanda, Heru Guðrúnu Cosmano, 10.901 krónu með 4,5% ársvöxtum frá 3. nóvember 2005 til 14. janúar 2011 en samkvæmt 1. mgr. 6.gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

   Stefnandi hafi þannig áður haft uppi kröfu í dómsmáli á hendur stefnda um greiðslu skaðabóta vegna slyssins. Að mati stefnda hafi krafan því verið dæmd áður, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Skipti í því sambandi ekki máli, þótt stefnandi reisi kröfuna að hluta á nýjum málsástæðum, enda hafi hún ekki gefið viðhlítandi skýringu á, hvers vegna hún hafi ekki haft þær uppi í fyrra málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Í þessu sambandi bendi stefndi sérstaklega á, að stefnandi hafi engan reka gert að því að afla álitsgerðar örorkunefndar eða að láta framkvæma annað örorkumat/yfirmat, meðan á rekstri fyrra héraðsdómsmálsins stóð, heldur hafi hún látið hjá líða að senda beiðni þess efnis þar til tæpur mánuður var liðinn frá dómsuppkvaðningu.

   Stefnandi haldi því fram á bls. 2 í stefnu, að nokkru eftir að bætur vegna slyssins höfðu verið gerðar upp, hafi komið í ljós, að afleiðingar vegna slyssins hefðu aukizt talsvert. Af þeim sökum hafi stefnandi óskað eftir álitsgerð örorkunefndar með beiðni, dagsettri 9. febrúar 2011, (dskj. nr. 52). Stefndi mótmæli þessari fullyrðingu stefnanda alfarið sem rangri og ósannaðri. Stefnandi hafi ekki gefið neinar viðhlítandi skýringar á þessum drætti, sem orðið hafi af hans hálfu við að afla annarrar matsgerðar, og verði stefnandi því sjálf að bera hallann af því tómlæti, að svo hafi ekki verið gert. Breyti þar engu þó að stefnandi haldi því fram, að ástæða þess, að aflað hafi verið álitsgerðar örorkunefndar, hafi verið sú, að heilsufar hennar hafi versnað með ófyrirsjáanlegum hætti frá fyrra mati. Hafi sú verið raunin, hafi það varla getað gerzt á umræddu mánaðartímabili, sem liðið hafi frá því að dómur var kveðinn upp í fyrra héraðsdómsmálinu og þar til beiðni var send til örorkunefndar. Þá árétti stefndi, að stefnanda hafi verið unnt að koma þessum kröfum að undir rekstri fyrra héraðsdómsmálsins, auk þess sem henni hefði verið í lófa lagið að áfrýja málinu.

   Þær bætur, sem þegar hafi verið greiddar á fyrri stigum og á grundvelli dóms héraðsdóms í málinu nr. E-13728/2009, séu fullnaðarbætur stefnanda vegna slyssins. Stefndi telji því, að viðbótarkröfur, sem stefnandi geri í þessu máli vegna þessara lögskipta aðila, verði ekki sóttar í nýju máli, og því beri að vísa máli þessu frá dómi, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Breyti engu í því sambandi, þó að kröfur stefnanda byggist nú á öðrum málsástæðum en í fyrra málinu. Stefndi árétti í þessu sambandi, að stefnandi hafi ekki áfrýjað héraðsdóminum en tekið við greiðslu stefnda í samræmi við dómsorð hans hinn 11. apríl 2011 (dskj. nr. 60).

   Að mati stefnda verði frekari kröfum ekki komið fram á hendur honum í málinu vegna þessa slyss, þar sem fullnaðardómur um úrslit sakarefnisins hafi þegar gengið um kröfur stefnanda. Stefnanda hefði verið unnt að koma að frekari kröfum undir rekstri fyrra héraðsdómsmálsins samkvæmt almennum réttarfarsreglum. Þar sem stefnandi hafi látið það hjá líða, séu fallnir niður allir einhliða fyrirvarar, sem gerðir hafi verið af hálfu stefnanda á fyrri stigum málsins. Stefndi mótmæli því alfarið, sem haldið sé fram í stefnu, að stefnandi hafi aflað álitsgerðar örorkunefndar með samþykki og vitneskju stefnda, enda hafi réttargæzlustefndi ekki, með því að undirrita yfirlýsingu á dómskjali nr. 53, samþykkt að falla frá réttaráhrifum dómsúrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-13728/2009. Með umræddri yfirlýsingu hafi réttargæzlustefndi einungis staðfest, að hann hefði ljósrit af matsbeiðninni undir höndum, ásamt þeim gögnum, sem henni fylgdu, sem hann hefði yfirfarið, og að hann þyrfti ekki að koma frekari sjónarmiðum varðandi gögnin á framfæri við örorkunefndina.

   Stefndi telji engar lagaheimildir vera til þess að koma að kröfum, að fullnaðardómi gengnum í málinu, nema samkvæmt heimildarákvæði til endurupptöku, sbr. 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í þessu sambandi telji stefndi rétt að benda á, að á bls. 4 í stefnu komi fram, að stefnandi byggi málatilbúnað sinn ekki á 11. gr. skaðabótalaga um endurupptöku sökum þess fyrirvara, sem hann hafi gert í kröfubréfi, dagsettu 29. marz 2011, sbr. dskj. nr. 56.

   Með hliðsjón af framangreindu telji stefndi framangreinda dómsúrlausn vera bindandi um úrslit sakarefnisins á milli aðila, og því beri að vísa þessu nýja máli, sem stefnandi hafi höfðað um sakarefnið, frá dómi. Styðjist sú afstaða stefnda við það, að samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem komi að lögum í þeirra stað, um þær kröfur, sem dæmdar séu að efni til. Verði dæmd krafa ekki borin undir sama eða hliðsettan dómstól, og beri að vísa frá dómi máli um slíka kröfu, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

Sjónarmið stefnanda vegna frávísunarkröfu stefnda

Stefnandi mótmælir frávísunarkröfu stefnda og krefst þess að henni verði hrundið og stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir þennan þátt málsins sérstaklega.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því, að fullnaðardómur hafi gengið um kröfu stefnanda og verði ekki dæmt um hana á ný.

   Stefnandi mótmælir þessu sjónarmiði og byggir á því, að dómur sá, sem stefndi vísar til, fjalli um aðra kröfuliði en mál þetta, en samkvæmt niðurstöðu þess dóms hafi ágreiningur aðila snúizt um frádrátt vegna bóta og sjúkrakostnað.

   Framangreindur héraðsdómur liggur fyrir í málinu og segir svo í upphafi niðurstöðu hans: „Ágreiningur aðila snýst um það annars vegar, hver frádráttur bóta vegna varanlegrar örorku stefnanda skuli vera og hins vegar hverjar bætur skuli vera vegna sjúkrakostnaðar.“ Stefna í því máli liggur einnig fyrir í máli þessu. Í kröfugerð þeirrar stefnu segir svo m.a., að stefandi höfði málið „…til greiðslu skaðabóta að fjárhæð …“. Í kafla III, sem ber yfirskriftina „dómkröfur stefnanda sundurliðast þannig“, eru kröfur stefnanda sundurliðaðar svo:

      1.   Sjúkrakostnaður og annað fjártjón                                                              kr.1.010.901

      2.   Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skbl.                                                     kr.   604.949

      3.   Bætur fyrir varanlega örorku skv. 5.-7. gr. skbl.                                          kr. 7.388.147

      4.   Bætur frá Sjúkratr. Íslands til frádráttar                                                      kr.   621.158

   Eins og dómkröfur stefnanda voru fram settar í fyrri stefnu, þykir ekki fara á milli mála, að eldra dómsmál snerist um sömu kröfu og hér er fyrir dómi, hvað varðar bætur fyrir varanlega örorku, en hins vegar var ekki fjallað í fyrra málinu um bætur samkvæmt 4. gr. skbl. Enda þótt það sé niðurstaða dómsins, að ágreiningur aðila hafi snúist um frádrátt bóta vegna varanlegrar örorku og bætur vegna sjúkrakostnaðar, stóð krafan, eins og hún var fram sett, óbreytt þar til dómur gekk í málinu. Þá er ljóst, að bæði málin fjalla um skaðabótakröfur stefnanda, sem eiga rætur að rekja til vinnuslyss þess, sem hún varð fyrir í starfi hjá Hýsingu-Vöruhóteli hinn 3. nóvember 2005, enda þótt ekki sé nema að hluta til byggt á sömu lagaákvæðum og málsástæðum í þeim. Hefur krafa stefnanda því verið dæmd að efni til í skilningi 116. gr. laga nr. 91/1991.

   Óljóst er á hvaða grunni stefnandi reisir endurupptökukröfu sína, en annars vegar segir svo í stefnu, að áherzla sé lögð á það, að í málinu reyni ekki á 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um endurupptöku, sökum fyrirvara í upphaflegu kröfubréfi, en hins vegar segir svo, að hvað sem öðru líði séu skilyrði 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku tvímælalaust uppfyllt í málinu í ljósi versnandi heilsu stefnanda frá upphaflegu mati og uppgjöri. Er málatilbúnaður stefnanda óskýr að þessu leyti og í andstöðu við e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991.

   Þegar allt framangreint er virt er ekki hjá því komizt að vísa málinu frá dómi í heild sinni.

   Eftir atvikum ber að úrskurða stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 200.000.

   Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málinu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Hera Guðrún Cosmano, greiði stefnda Högum hf., kr. 200.000 í málskostnað.