Hæstiréttur íslands

Mál nr. 339/1998


Lykilorð

  • Líftrygging
  • Lögræði
  • Fyrning
  • Gjafsókn


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 6. maí 1999.

Nr. 339/1998.

Steingrímur Blöndal

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

Ingunni H. Þóroddsdóttur

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

og gagnsök

Líftrygging. Lögræði. Fyrning. Gjafsókn.

I tók við líftryggingarfé eftir mann sinn árið 1970. Í stað þess að varðveita hlut ólögráða sonar þeirra, S, ráðstafaði hún fénu. S varð lögráða árið 1986. Árið 1997 höfðaði hann mál á hendur I til heimtu síns hlutar af tryggingafénu auk þeirrar ávöxtunar sem hann hefði fengið, hefði féð verið varðveitt frá greiðsludegi. Kvaðst hann fyrst hafa frétt af tryggingunni árið 1995, en I kvað S hafa vitað um trygginguna frá því hann hafði aldur og þroska til. Talið var ósannað að I hefði þagað um trygginguna, vitandi að S væri ókunnugt um hana. Yrði S að bera hallann af þessu og væru því ekki fyrir hendi skilyrði þess að fyrning kröfunnar frestaðist á grundvelli 7. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda fram yfir það sem mælt er fyrir um í 8. gr. laganna. Krafa S var því talin fyrnd og var I sýknuð af kröfu hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 1998. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjandi verði dæmd til að greiða sér 2.848.965 krónur með dráttarvöxtum frá 17. nóvember 1996 til greiðsludags, en til vara lægri fjárhæð með dráttarvöxtum frá 15. júlí 1970 eða síðara tímamarki. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum var veitt í héraði.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 14. október 1998. Hún krefst aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hún þess að aðaláfrýjanda verði aðeins dæmdar 56.488 krónur með dráttarvöxtum frá 17. nóvember 1996 til greiðsludags, en málskostnaður falli þá niður.

Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Um þá er ekki ágreiningur að öðru leyti en því, að gagnáfrýjandi kveður aðaláfrýjanda hafa vitað um líftryggingar föður síns frá því hann hafði aldur og þroska til, en aðaláfrýjandi kveðst ekkert hafa vitað um þær fyrr en nákominn ættingi hafi vakið athygli hans á þeim árið 1995. Gagnáfrýjandi mótmælir því ekki að hún hafi ráðstafað fé því, sem greitt var vegna líftrygginganna 15. júlí 1970, þegar aðaláfrýjandi var tveggja ára og hún sjálf orðin ekkja tvítug, í stað þess að varðveita og ávaxta hans hluta fjárins, eins og boðið hafi verið í 33. gr. þágildandi laga nr. 95/1947 um lögræði og síðar 33. gr. lögræðislaga nr. 68/1984. Þetta hafi hún gert af vanþekkingu og gáleysi.

Gagnáfrýjandi reisir sýknukröfu sína á fyrningu, sbr. 2. tölulið 8. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Í ákvæði þessu sé sérregla um fyrningu krafna ómyndugra á hendur fjárhaldsmönnum. Þar sé kveðið á um lengri fyrningarfrest með þeim hætti, að án tillits til þess hvenær krafan stofnist byrji hún ekki að fyrnast fyrr en fjárhaldinu lýkur og þá á fjórum árum. Gagnáfrýjandi hafi verið fjárhaldsmaður og lögráðamaður aðaláfrýjanda, sem hafi orðið lögráða 31. janúar 1986. Hafi krafa hans því fyrnst 31. janúar 1990.

Aðaláfrýjandi andmælir þessu og vísar til 7. gr. laga nr. 14/1905, sem hér eigi við. Þar sé kveðið á um að dragi skuldari sviksamlega dul á eða vanræki að skýra frá atvikum, er krafa byggist á eða valdi því að hún verði gjaldkræf og skuldaranum hafi borið skylda til að segja frá, þá fyrnist skuldin ekki, hvað sem öðru líði, fyrr en fjögur ár séu liðin frá þeim degi er kröfueigandinn fékk vitneskju um þessi atvik. Gagnáfrýjandi hafi vanrækt að segja frá tryggingarfénu og því hafi fyrningarfrestur ekki byrjað að líða fyrr en árið 1995. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins þurfi vanræksla gagnáfrýjanda ekki að hafa verið sviksamleg.

Á þessi málsrök aðaláfrýjanda verður ekki fallist. Af orðalagi nefnds ákvæðis 7. gr. laga nr. 14/1905 er ljóst, að skilyrði þess að fyrningarfrestur lengist með þessum hætti eru þau, að skuldunautur hafi annaðhvort sviksamlega dregið dul á eða sviksamlega vanrækt að skýra frá atvikum, sem krafan er reist á og honum var skylt að skýra frá. Aðaláfrýjandi ber þannig sönnunarbyrði fyrir því, að gagnáfrýjandi hafi sviksamlega vanrækt upplýsingaskyldu sína gagnvart honum. Ekki er í ljós leitt að gagnáfrýjandi hafi þagað yfir vitneskju sinni um líftryggingarféð vitandi að aðaláfrýjanda væri um það ókunnugt. Er því ekki sýnt að hún hafi að þessu leyti komið sviksamlega fram við aðaláfrýjanda. Ber því að fallast á með gagnáfrýjanda að krafa aðaláfrýjanda sé fyrnd, sbr. 2. tölulið 8. gr. laga nr. 14/1905. Verður gagnáfrýjandi þannig sýknuð af kröfum aðaláfrýjanda í máli þessu.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms verður staðfest.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Ingunn H. Þóroddsdóttir, er sýkn af kröfum aðaláfrýjanda, Steingríms Blöndal.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 2. júní 1998.

Mál þetta höfðaði Steingrímur Blöndal, kt. 310168-5809, Albertslund, Danmörku, með stefnu birtri 19. mars 1997 á hendur Ingunni H. Þóroddsdóttur, kt. 110949-7669, Vesturbyggð 4, Biskupstungum.

Stefnandi krefst greiðslu á kr. 2.848.965 með dráttarvöxtum frá 17. nóvember 1996 til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Hann leggur fram kostnaðaryfirlit samtals að fjárhæð kr. 642.067.

Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar, til vara að hún verði ekki dæmd til að greiða hærri fjárhæð en kr. 56.488 með vöxtum eins og stefnandi krefst og að málskostnaður verði þá felldur niður.

Málið var dómtekið 11. maí sl. Það var síðan endurupptekið 27. maí til þess að gefa stefnanda færi á að leggja fram tiltekna útreikninga. Var málið síðan dómtekið á ný.

Stefnandi er sonur stefndu. Hann krefur hana um skaðabætur vegna vanrækslu hennar á að ávaxta í hans þágu líftryggingarfé er greitt var til hennar 1970 vegna föður hans, sem lést fyrr á því ári.

Stefnandi er fæddur 31. janúar 1968, sonur stefndu og eiginmanns hennar, Steingríms Blöndal, kt. 190247-2369. Steingrímur lést 13. júní 1970. Aðilar máls þessa voru einkaerfingjar. Skiptameðferð á dánarbúinu var sleppt á grundvelli yfirlýsingar um að ekki fyndust eignir umfram útfararkostnað.

Er faðir stefnanda lést voru í gildi tvær líftryggingar vegna hans hjá Líftryggingafélaginu Andvöku. Önnur tilgreindi lögerfingja sem rétthafa og greiddust úr henni kr. 289.000 (gamlar krónur). Hin tilgreindi ekki rétthafa, úr henni greiddust kr. 25.000 (gamlar krónur). Féð var greitt til stefndu 15. júlí 1970.

Stefnandi kveðst aldrei hafa vitað um líftryggingar þessar og ekki frétt af þeim fyrr en ættingi hans spurði hann hvort hann ætti ekki eignir því faðir hans hefði verið “svo vel líftryggður”.

Stefnda hefði af þessu tilefni tjáð honum að um smápeninga hefði verið að ræða. Loks eftir könnun hjá Líftryggingafélaginu Andvöku hefði hann í maí 1995 fengið að vita um áðurgreindar líftryggingar og hversu háar fjárhæðir hefðu verið greiddar til stefndu.

Málsástæður stefnanda.

Stefnandi kveður kröfu sína vera skaðabótakröfu og að hún byggist á 33. gr. lögræðislaga nr. 68/1984. Hann hafi sem lögerfingi verið rétthafi líftryggingarbótanna og borið að fá 2/3 hlut þeirra, gamlar krónur 210.083 af 315.125.

Stefnandi vísar til skyldu stefndu sem lögráðamanns hans til að ávaxta fé hans tryggilega.

Kröfu sína kveðst stefnandi miða við að hann verði eins settur fjárhagslega og ekkert réttarbrot hefði átt sér stað.

Að beiðni stefnanda reiknaði Böðvar Þórisson, hagfræðingur, starfsmaður Seðlabanka Íslands verðmæti fjárhæðarinnar 315.125, ef stefnda hefði varðveitt og ávaxtað féð með kaupum á spariskírteinum ríkissjóðs frá 15. júlí 1970 til 13. september 1996, en þann dag var útreikningur gerður. Niðurstaða hans er sú að líftryggingabæturnar þannig ávaxtaðar hefðu numið kr. 4.273.447. Stefnandi kveðst eiga rétt á 2/3 hlutum þeirrar fjárhæðar, kr. 2.848.965, sem sé stefnufjárhæðin.

Undir rekstri málsins var Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur kvaddur af dóminum til að reikna ávöxtun sparifjár frá 15. júlí 1970. Niðurstaða hans er dagsett 1. febrúar sl. Hann gerir grein fyrir aðferðum sínum. Þær byggja allar á því að fé sé lagt til ávöxtunar 15. júlí 1970 og að lokadagur sé 13. september 1996. Reiknar hann þrjá möguleika með því að kaupa spariskírteini ríkissjóðs á hverjum tíma og eiga þau til loka binditíma og þá sé fjárfest á ný í spariskírteinum sem þá bjóðist. Með mismunandi fjárfestingarleiðum í spariskírteinum eru niðurstöður hans að 315.125 gamlar krónur væru a) kr. 6.166.956, b) kr. 4.290.011 eða c) 4.914.441.

Í matsgerðinni er einnig reiknað með ávöxtun á bankareikningum. Er þá reiknað með hæstu vöxtum á bundnum reikningum frá 15. júlí 1970 til 30. júní 1979, en meðaltali banka á verðtryggðum reikningum með lengstum binditíma frá 1. júlí 1979 til 13. september 1996. Fæst þá talan 1.459.208.

Niðurstöður byggðar á ávöxtun með spariskírteinum leiða allar til hærri niðurstöðu en stefnukrafan.

Er málið hafði verið endurupptekið leitaði stefnandi á ný til Vilhjálms Bjarnasonar og skilaði hann útreikningi á ávöxtun miðað við bestu kjör á bundnum bankareikningum frá 15. júlí 1970 til 1. júlí 1984 og spariskírteinaflokki 1984-1 frá þeim degi til 31. janúar 1986. 210.083 gamlar krónur næmu samkvæmt því kr. 98.961 þann 31. janúar 1986, er stefnandi varð fjárráða.

Málsástæður stefndu.

Stefnda vísar til þess að krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt 2. tl. 8. gr. laga nr. 14/1905. Ákvæðið sé sérregla um fyrningu krafna ófjárráða manns á hendur fjárhaldsmanni. Fyrningarfrestur slíkra krafna taki ekki að líða fyrr en fjárhaldinu lýkur og sé fyrningarfrestur fjögur ár.

Varakröfu styður stefnda með því að samkvæmt 38. gr. lögræðislaga nr. 95/1947, er í gildi voru allt fram til 1984, hafi mátt ávaxta fé ófjárráða manna í innlánsstofnunum með ríkisábyrgð. Heimild til að taka við fé ófjárráða hafi Landsbanki Íslands haft samkvæmt 20. gr. laga nr. 11/1961. Stefnda fékk Jón Erling Þorláksson tryggingastærðfræðing til að reikna verðmæti líftryggingafjárins ef það hefði verið ávaxtað á sparisjóðsbók í Landsbanka Íslands til 20. september 1996. Samkvæmt niðurstöðu hans næmi hlutur stefnanda kr. 56.488.

Stefnda heldur því fram að stefnanda hafi ekki tekist að sanna tjón sitt. Útreikningar þeir og matsgerð er hann hefur lagt fram sanni ekki tjón hans. Útreikningar þessir séu byggðir á forsendum sem eigi sér ekki stoð í lögum. Lögráðamenn hafi ekki verið skyldir til að ávaxta fé ólögráða með þeim hætti er matsgerð byggist á. Loks mótmælir stefnda matsgerð og útreikningum matsmanns sem óstaðfestum, en matsmaður kom ekki fyrir dóm.

Niðurstaða.

Er stefnda tók við líftryggingarfénu 15. júlí 1970 voru í gildi lögræðislög nr. 95/1947. Samkvæmt 33. gr. þeirra hvíldi á henni skylda til að varðveita hluta stefnanda til hagsbóta fyrir hann, af trúmennsku og hagsýni. Nánar er í 38. gr. veitt heimild til að reiðufé sé ávaxtað í lánastofnunum með ríkisábyrgð, enda hafi stofnunin heimild að lögum til að varðveita fé ólögráða manna.

Lög nr. 68/1984 leystu af hólmi lögin frá 1947 og tóku gildi 1. júlí 1984. Samkvæmt 38. gr. þeirra laga bar að ávaxta fé ólögráða manna “tryggilega eins og best er á hverjum tíma …”.

Ekki er staðhæft að stefnda hafi haldið fé stefnanda aðgreindu frá eigin fé 15. júlí 1970 eða síðar. Hún hefur með því að nota féð og að vanrækja ávöxtun þess í samræmi við lögræðislögin frá 1947 og 1984 bakað sér bótaskyldu gagnvart syni sínum, stefnanda málsins. Engu skiptir til hvers féð var notað, en á stefndu hvíldi skylda til að framfæra stefnanda.

Ósannað er að stefnandi hafi fengið vitneskju um líftryggingaféð fyrr en hann segir sjálfur. Leiðir því 7. gr. laga nr. 14/1905 til þess að fyrningarfrestur tók ekki að líða fyrr en stefnandi fékk vitneskju sína. Er krafa hans því ekki fyrnd.

Stefnandi getur krafist skaðabóta er reiknast sem höfuðstóll sá er honum bar að fá 15. júlí 1970 og sú ávöxtun er hann hefði borið miðað við að stefnda hefði fullnægt þeim skyldum er lögræðislög á hverjum tíma lögðu henni á herðar. Því var málið endurupptekið og lagt fyrir stefnanda að útvega útreikning á ávöxtun á bankareikningi í Landsbanka Íslands frá 15. júlí 1970 til 1. júlí 1984, en með spariskírteinum ríkissjóðs frá þeim degi til 31. júlí 1986. Ekki er unnt eins og stefnda gerir að miða útreikning við óbundnar sparisjóðsbækur, en skylda hennar bauð að ávaxtað yrði með bestu kjörum í bankanum. Verður útreikningur matsmannsins Vilhjálms Bjarnasonar lagður til grundvallar niðurstöðu.

Síðastnefndan dag varð stefndandi fjárráða og skyldur stefndu sem lögráðamanns féllu niður. Er því ekki unnt að reikna honum skaðabætur miðað við að fjárhæðin ávaxtist eftir þann dag. Krafan bæri hins vegar vexti frá þeim degi í samræmi við löggjöf á hverjum tíma, frá 14. apríl 1987 samkvæmt vaxtalögum. Þar sem vaxta er ekki krafist nema frá 17. nóvember 1996 þarf ekki að fjalla nánar um þá kröfu og hugsanlega fyrningu hennar.

Niðurstaðan er sú að stefnda verður dæmd til að greiða stefnanda kr. 98.961 með dráttarvöxtum frá 17. nóvember 1996.

Stefnandi hefur gjafsókn. Málflutningsþóknun lögmanns hans ákveðst án virðisaukaskatts kr. 230.000. Samkvæmt 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda dæmd til að greiða málskostnað til ríkissjóðs sem ákveðst kr. 135.000.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefnda, Ingunn H. Þóroddsdóttir, greiði stefnanda, Steingrími Blöndal, kr. 98.961 með dráttarvöxtum frá 17. nóvember 1996 til greiðsludags.

Stefnda greiði kr. 135.000 í málskostnað til ríkissjóðs.

Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.á.m. málflutningsþóknun lögmanns hans, kr. 230.000.