Hæstiréttur íslands

Mál nr. 59/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Föstudaginn 6. febrúar 2009.

Nr. 59/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður héraðsdóms staðfestur.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli l. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 10. febrúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

               

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2009.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 10. febrúar kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þann 29. janúar sl. hafi fjarskiptamiðstöð lögreglunnar borist tilkynning um líkamsárás að [heimilisfang], Mos­fells­bæ. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi tilkynnandi og jafnframt brotaþoli þessa máls, A, tekið á móti þeim. Hafi hann verið mjög illa farinn í andliti, báðar framtennur brotnar að hluta, með umtalsverðar bólgur í andliti, á vinstri kinn, hægra megin á enni og við hægra gagnauga. Jafnframt hafi verið áverkar á hnakka og  hann kvartað undan svima. Hafi brotaþoli verið rólegur og skýr í viðræðum og sagt tvo menn hafa bankað upp og er hann hafi opnað hurðina hafi annar byrjað að kýla hann með hnúajárni. Hafi barsmíðarnar byrjað í anddyri hússins og haldið áfram inn í eldhús og inn í stofu þar sem hann hafi lagst í gólfið og hafi þá verið sparkað í hann þar sem hann lá. Hafi brotaþoli sagst þekkja annan geranda sem kærða, X, væri hann um 30 ára gamall og ætti bifreiða­verkstæðið Z. Hinn árásaraðilann hafi brotaþoli ekki þekkt en gefið þá lýsingu að hann væri í kringum tvítugt, um 185 cm á hæð, frekar grannur með ljósar strípur. Hann hafi sagt mennina hafa ekið á brott á silfurlituðum Grand Cherokee jeppa með skráningarnúmerinu [...]. Kærði muni vera umráðamaður framangreindrar bif­reiðar.

Brotaþola hafi  í kjölfarið verið ekið með sjúkrabifreið á slysadeild Land­spítalans í Fossvogi. Muni hann m.a. hafa nefbrotnað kinnbeinsbrotnað, fingurbrotnað og tannbrotnað í árásinni.

Rannsókn málsins sé skammt á veg komin. Í gær, 3. febrúar, hafi verið tekin skýrsla af kærða þar sem hann beri fyrir sig þá fjarvistarsönnun að hafa verið með B á þeim tíma er árásin hafi átt sér stað. Við yfirheyrslu af B hafi hann í fyrstu borið að kærði hafi verið með sér frá því rétt fyrir hádegi þann 29. janúar til kl. 15.00. Hafi kærði átt að hafa komið til hans í vinnuna og verið hjá honum þar til B skutlaði honum heim um kl. 15.00. Síðar í sömu skýrslutöku hafi B fallið frá fyrri framburði sínum og sagt kærða hafa hringt í sig og beðið sig um að veita honum fjarvistarsönnun á framangreindum tíma. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvers vegna en talið það vera út af því að kærði hefði ekið of hratt eða eitthvað slíkt. Aðspurður hvort hann kannaðist við lýsingu á hinum árásaraðilanum hafi hann gefið lögreglu upp nafn og sé nú verið að reyna að hafa uppi á þeim aðila. Snúi rannsóknin nú fyrst og fremst að því að reyna að hafa uppi á þessum aðila. Þá hafi kærði veitt lögreglu leitarheimild á verkstæði sínu, K, og verði gerð leit þar að framangreindu hnúajárni.

Um sé að ræða meiriháttar líkamsárás þar sem beitt hafi verið sérstaklega hættulegri aðferð, að kýla mann í andlit með hnúajárni og sparka í liggjandi mann. Að mati lögreglu megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að tala við samverkamann sinn og reyna að hafa áhrif á hans framburð. Þá kunni hann að reyna að koma undan framangreindu hnúajárni. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að reyna að hafa uppi á þessum aðila svo og hnúajárninu og til að koma í veg fyrir að kærði geti spillt rannsókn málsins.

Sakarefni málsins sé talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds vísar lögreglan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæslu­varðhaldinu stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Kærði hefur neitað sök.

Eins og að framan var rakið er kærði undir rökstuddum grun um líkamsárás.  Í för með honum á að hafa verið maður sem lögreglan leitar.  Fallist er á það með lögreglunni að kærði geti haft áhrif á framburð þessa manns ef hann gengur laus og er því orðið við kröfunni eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.  Þá er og fallist á að kærði sæti einangrun í gæslunni, samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 10. febrúar 2009 kl. 16.00.   Hann skal sæta einangrun meðan á gæslunni stendur.