Hæstiréttur íslands

Mál nr. 423/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. ágúst 2008.

Nr. 423/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson, lögreglustjóri)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Nálgunarbann. Sératkvæði.

Ekki var fallist á að skilyrði væru fyrir hendi til að X yrði gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. júlí 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta áfram nálgunarbanni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta áfram nálgunarbanni í þrjá mánuði þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við dvalarstað A að [...] á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus umhverfis húsið, mælt frá miðju þess. Jafnframt að lagt verði bann við því að varnaraðili veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- og farsíma hennar eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að sakarkostnaður vegna kæru málsins til Hæstaréttar greiðist úr ríkissjóði.

Fallist er á með héraðsdómi að ekki liggi fyrir rökstudd ástæða til að ætla að varnaraðili muni fremja afbrot gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni eða raska á annan hátt friði hennar. Eru því ekki uppfyllt skilyrði 110. gr. a. laga nr. 19/1991 til að taka megi kröfu sóknaraðila til greina. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila sem ákveðin er að metöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda varnaraðila, 124.500 krónur.

 

Sératkvæði

Páls Hreinssonar

         Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði var ákæru vegna ætlaðrar líkmasárásar varnaraðila vísað frá héraðsdómi vegna annmarka á ákæru 10. apríl 2008. Má af gögnum þess máls sjá að áverkar á brotaþola voru meðal annars rifbeinsbrot, sprungin hljóðhimna auk þess sem hún var með fjölda marbletta víðsvegar um líkamann. Þá liggur fyrir í málinu lögregluskýrsla þar sem brotaþoli kærir varnaraðila fyrir líkamsárás aðfaranótt föstudagsins 21. desember 2007 þar sem hann hafði látið hnefahögg dynja á henni. Einnig eru nú til rannsóknar hjá sóknaraðila ætluð kynferðisbrot varnaraðila gegn brotaþola, sem að hennar sögn hafa staðið yfir um langt skeið. Felast brotin að hennar sögn í því að varnaraðili hafi neytt hana til ýmissa kynferðismaka bæði með honum og með ókunnugum mönnum og hefði varnaraðili tekið atburðina upp á myndband. Hafi varnaraðili stýrt því sem gert var og gefið fyrirmæli sem hún hafi ekki þorað annað en að hlýða þar sem neitun hennar hafi leitt til þess að varnaraðili beitti hana ofbeldi.

Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að vitnisburðir sem fram hafi komið við rannsókn málsins varpi ljósi á alvarleika þess ofbeldis sem brotaþoli hafi mátt þola af hálfu varnaraðila en um hafi verið að ræða ítrekaðar og alvarlegar líkamsmeiðingar.

Í greinargerð sóknaraðila kemur einnig fram að við gerð kröfu um sex mánaða langt nálgunarbann í lok janúar síðastliðinn hafi rannsókn máls verið á upphafsstigum og talið að henni yrði lokið innan þess tíma. Reyndin hafi hins vegar verið sú að rannsóknin hafi orðið viðameiri en ljóst hafi verið í upphafi þar sem afla hafi þurft gagna frá Noregi, Danmörku og Svíþjóð þar sem brotaþoli og varnaraðili bjuggu. Hafi rannsóknin dregist nokkuð af þessum sökum. Þá bendir sóknaraðili á að markmið með nálgunarbanni sé að vernda fórnarlömb og fyrirbyggja frekara ofbeldi. Þar sem þær ástæður sem voru tilefni nálgunarbanns séu enn fyrir hendi verði ekki komist hjá því að óska eftir framlengingu á því í þrjá mánuði en að öðrum kosti kunni öryggi brotaþola að vera stefnt í voða.

Samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er heimilt að beita nálgunarbanni, ef rökstudd ástæða er til að ætla að maður sem krafa beinist að muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði annars manns. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi til laganna segir að nálgunarbann verði ekki reist á því einu að sá sem leiti verndar hafi beyg af öðrum manni. Slík krafa verður því að vera studd haldgóðum og áreiðanlegum gögnum. Við mat á því hvort skilyrði ákvæðisins eru uppfyllt er tekið fram í athugasemdunum að líta beri til fyrri hegðunar manns og samskipta hans við þann sem vernda á með banninu. Hér komi til álita fyrri afbrot, hótanir, ögranir og önnur atriði sem veitt geti rökstudda vísbendingu um það sem koma skal eða kann að vera í vændum.

         Af orðalagi 110. gr. a. laga nr. 19/1991 og lögskýringargögnum verður ráðið að beita megi nálgunarbanni ef þau gögn, sem lögð eru fram um fyrri hegðan manns, veita vísbendingu um að hættan á því, að maður muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á, sé bæði raunveruleg og nærtæk.

Fyrir liggur í máli þessu að varnaraðili hefur verið ákærður fyrir gróft ofbeldisbrot gagnvart kæranda. Ákærunni var vísað frá héraðsdómi vegna annmarka og var tekin ákvörðun um að sameina það mál öðrum málum sem sóknaraðili hafði til rannsóknar á hendur varnaraðila. Eins og áður segir má af gögnum málsins, þar á meðal ljósmyndum, sjá að áverkar brotaþola voru umtalsverðir. Fyrir liggur kæra vegna ætlaðrar kynferðislegrar þvingunar í garð kæranda af hálfu varnaraðila í langan tíma og tengist það ætluðu ofbeldi hans gagnvart henni.

Þegar hafður er í huga tilgangur framangreindrar lagagreinar og einnig að hin tímabundna skerðing á frelsi varnaraðila, sem farið er fram á, gengur ekki lengra en nauðsyn ber til tel ég að fyrir hendi séu skilyrði til að fallast á beiðni sóknaraðila, eins og hún er fram sett.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. júlí 2008

                Lögreglustjórinn í Reykjavíkur hefur gert kröfu um að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði áfram gert að sæta nálgunarbanni í 3 mánuði, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við dvalarstað A, kt. [...], að [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsið, mælt frá miðju þess. Jafnframt er þess krafist að lagt verði bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- og farsíma hennar, eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kynferðisbrotadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar mál á hendur kærða vegna ætlaðra kynferðisbrota, sem og ofbeldisbrota hans á hendur kæranda, sem sé fyrrum sambýliskona hans. Upphaf málsins hjá lögreglu hafi verið að aðfaranótt sunnudagsins 23. september 2007 hafi borist tilkynning um mikil læti úr íbúð kærða og kæranda. Þegar lögregla hafi komið á staðinn hafi kærði verið í átökum við nágranna sem komið hafði að. A hafi hins vegar legið í rúmi og hafi áverkar hennar virst verulegir. Í kjölfarið hafi kærði verið fluttur á lögreglustöðina að Hverfisgötu en A ekið í sjúkrabíl á slysavarðstofu. Síðar hafi borist tilkynning frá starfsfólki slysavarðstofu um að kærði væri þangað kominn en þangað hafði hann haldið rakleiðis eftir að honum hafði verið sleppt úr haldi lögreglu. Þar hafi hann í kjölfarið verið handtekinn. Ástæða þyki til að geta þess að síðar hafi læknir einnig haft samband við lögreglu þar sem honum hafi fundist brýnt að koma því til leiðar að áverkar A væru alvarlegir. Í áverkavottorði sem sé að finna í gögnum málsins, sé  árásinni lýst sem verulega fólskulegri.

A hafi ekki kært ætlaða líkamsárás til lögreglu. Ákæran í málinu hafi því verið gefin út án þess að kæra lægi fyrir í málinu, sem endurspegli mat lögreglu á alvarleika málsins og þá hagsmuni sem þyki liggja að baki ákærunni. Þyki sú staðreynd að A hafi ekki kært svo alvarlega líkamsárás til marks um mikinn ótta hennar við kærða. Ætlað brot gagnvart A varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en samkvæmt áverkavottorði hafi afleiðingar árásarinnar verið m.a. rifbeinsbrot, sprungin hljóðhimna auk þess sem hún hafi verið með fjölda marbletta víðsvegar um líkamann. Í áverkavottorðinu sé þess einnig getið að hún hafi verið með gamla marbletti á efri og neðri útlimum. Þyki þetta renna mjög stoðum undir að hún hafi verið beitt langvarandi ofbeldi af hálfu kærða. Í gögnum málsins séu einnig ljósmyndir sem sýni umtalsverða áverka A við komu á slysadeild, þar sem sjá megi að andlit hennar sé verulega þrútið og fjölmargir stórir marblettir séu víða á líkama hennar.

                Þann 10. janúar hafi sambúð kærða og kæranda lokið. Þyki það til marks um ótta kæranda að hún hafi ekki treyst sér til að fara eins síns liðs á sameiginlegt heimili þeirra til að sækja eigur sínar. Lögreglumenn hafi fylgt henni inn á heimilið á meðan að kærði var í vinnu og kærandi yfirgefið heimilið á meðan kærði var enn í vinnu. Hafi hún dvalið í nokkurn tíma eftir þetta í Kvennaathvarfinu og ekki sótt vinnu af ótta við að kærði myndi koma þangað.

                Þann sama dag, þ.e. 10. janúar síðastliðinn, hafi hún svo kært kærða fyrir ítrekuð kynferðisbrot. Hafi hún sagt kynferðisbrotin hafa staðið yfir frá vorinu 2005 eða um tæplega þriggja ára skeið. Hafi síðasta brot átt sér stað aðfaranótt 5. janúar 2008. Kæruefnið lúti að því að kærði hafi frá vorinu 2005 ítrekað fengið ókunna karlmenn, sem hann hafi komist í samband við á netinu eða annan hátt, til þess að eiga kynferðislegt samneyti við kæranda, stundum fleiri saman. Þetta hafi verið andstætt vilja hennar. Segist kærandi hafa orðið að láta að vilja kærða því öðrum kosti hafi hún mátt þola líkamlegt ofbeldi af hans hálfu. Fram hafi komið að kærði hafi myndað kynferðislegar athafnir mannanna með kæranda.

                Í gögnum málsins sé einnig að finna lögregluskýrslu þar sem kærandi kæri kærða fyrir líkamsárás sem hafi átt sér stað þann 21. desember 2007, mjög skömmu fyrir sambúðarslitin.

                Kærði hafi í skýrslutökum hjá lögreglu ekki gert ágreining um að kærandi hafi haft samfarir og önnur kynferðismök við ókunnuga menn, né um það að hafa tekið kynferðislegar athafnir upp. Hann hafi hins vegar haldið því fram að hann og kærandi hafi sameiginlega tekið ákvörðun um að hún hefði samfarir við mennina og segir kæranda oft hafa átt frumkvæði af því að eiga samfarir við þessa ókunnugu menn. Á meðal gagna málsins sé myndefni og ljósmyndir, þar sem m.a. megi sjá óþekkta karlmenn eiga kynmök við A. Þar sjáist kærði ýmist stýra því sem þar fer fram eða taka þátt í kynferðislegum athöfnum. Á sumum myndum sjáist að A sé með áverka á líkama sínum.

                Þann 11. janúar hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna meintra kynferðisafbrota og hafi gæsluvarðhaldsúrskurðurinn verið staðfestur af Hæstarétti allt til 22. janúar, sbr. a. lið 103. gr. laga nr. 19/1991, í dómi nr. 20/2008.

                Rannsókn málsins standi enn yfir en hún hafi dregist nokkuð þar sem hún hafi reynst enn viðameiri en ætlað hafi verið í fyrstu. Hafi þannig reynst nauðsynlegt að taka skýrslur af erlendum vitnum, m.a. í Danmörku og í Noregi, vegna ætlaðra ofbeldisbrota kærða gegn kæranda, en þau hafi um tíma búið í Noregi. Af þessari ástæðu hafi ekki enn tekist að senda málið til meðferðar ríkissaksóknara, en ekki sé ástæða til að ætla annað en að það verði gert innan þess tíma sem nú sé krafist.        Ákæran fyrir ætlað ofbeldisbrot hafi verið afturkölluð og verði það mál, ásamt ætluðum kynferðisbrotum, sent ríkissaksóknara til meðferðar, enda hafi þótt eðlilegt að sameina málin.

                Ætluð kynferðisbrot og ofbeldisbrot þyki samtvinnuð og hafi ekki þótt unnt að aðskilja þau í rannsókn, enda virðist sem kærandi hafi verið í stöðugum ótta um að þola líkamlegar barsmíðar kærða og hafi hún eingöngu tekið þátt í kynferðislegum athöfnum með mönnunum til þess að komast hjá ofbeldi af hálfu kærða. Gögn málsins þyki bera með sér að um ofbeldissambúð hafi verið að ræða. Kærandi hafi þannig greint frá því í skýrslutökum hjá lögreglu að hún hafi ítrekað orðið fyrir líkamlegu ofbeldi af hálfu kærða á meðan á sambúðinni stóð. Þyki áverkavottorð, ljósmyndir af kæranda á slysadeild, vitnisburðir í málinu, sem og ljósmyndir sem hafi fundist á heimili kærða renna stoðum undir að svo hafi verið.

                Kærði hafi nú sætt nálgunarbanni frá 31. janúar. Hann hafi ekki unað niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur um 6 mánaða nálgunarbann og kært úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar, sem hafi staðfest niðurstöðu héraðsdóms í dómi nr. 58/2008. Í dómi Hæstaréttar segi meðal annars að beita megi nálgunarbanni ef hættan á því að maður muni fremja afbrot eða raska friði annars manns sé bæði raunveruleg og nærtæk. Fyrir liggi í málinu að varnaraðili hafi verið ákærður fyrir gróft ofbeldisbrot á hendur A og þá liggi fyrir kæra vegna ætlaðrar kynferðislegrar þvingunar í hennar garð af hálfu varnaraðila sem tengist ætluðu ofbeldi hans gagnvart henni. Þá segi: „Þegar hafður er í huga tilgangur framangreindrar lagagreinar og einnig að hin tímabundna skerðing á frelsi varnaraðila gengur ekki lengra en nauðsyn ber til, verður að telja að fyrir hendi séu skilyrði til að fallast á beiðni sóknaraðila, eins og hún er fram sett.“

                Upphaflega hafi verið talið að rannsókn málsins yrði lokið innan hins 6 mánaða frests sem núgildandi nálgunarbann taki til. Af því hafi ekki orðið og hafi kærandi óskað eftir framlengingu kröfunnar. Þyki lögreglu enn full ástæða til að ætla að nálgunarbann hafi mikla þýðingu fyrir brotaþola. Sé þá ekki síst litið til fyrri hegðunar kærða og samskipta kærða og kæranda á meðan á sambúð þeirra stóð um nokkurra ára skeið. Ótti kæranda við kærða virðist eiga við sterk rök að styðjast og þyki studdur haldgóðum og áreiðanlegum gögnum, eins og áskilnaður sé gerður um í athugasemdum í frumvarpi til laga um þetta tiltekna ákvæði. Þyki þannig ekki unnt að líta framhjá að kærði var ákærður fyrir alvarlegt ofbeldisbrot sem varði allt að 3 ára refsingu, sannist sök, sbr. 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Kærði hafi að mestu virt nálgunarbann en hafi hins vegar haft samband við kæranda í tengslum við sambúðarslit þeirra, án þess að nauðsyn sé til þess enda séu báðir aðilar með lögmenn sem gæti hagsmuna þeirra. Það sé mat lögreglu að í ljósi ætlaðs ofbeldis á hendur kæranda, sem þyki í senn hafa verið alvarlegt og langvarandi, séu enn skilyrði fyrir nálgunarbanni og sé þá ekki síst haft í huga hver tilgangur lagaákvæðisins sé.

                Í athugasemdum með frumvarpi til laga um nálgunarbann nr. 94/2000 sé vitnað til skýrslu nefndar til að huga að meðferð heimilisofbeldismála í dómskerfinu þar sem segi að nefndin telji nauðsynlegt að setja verði reglur sem geri kleift að vernda þolendur heimilisofbeldis. „Með því að beita nálgunarbanni megi koma í veg fyrir heimilisofbeldi og bregðast við því í þeim tilvikum sem því hafi verið beitt. Markmiðið með nálgunarbanni sé, eins og áður hefur komið fram, að vernda fórnarlambið og fyrirbyggja frekara ofbeldi.”

                Í athugasemdum með frumvarpi til laganna segi jafnframt að við mat á því hvort að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt verði að líta til fyrri hegðunar manns sem krafa beinist gegn og samskipta hans við þann sem vernda eigi með banninu. Hér komi til álita fyrri afbrot, hótanir, ögranir og önnur atriði sem veitt geti rökstudda vísbendingu um það sem koma skuli eða kunni að vera í vændum.

                Áframhaldandi nálgunarbann þyki réttlætanlegt í máli þessu, til að bregðast við ætluðu heimilisofbeldi. Nálgunarbann þyki geta veitt fórnarlambi áframhaldandi vernd og fyrirbyggja frekara ofbeldi eða annað ónæði af völdum kærða.

                Að teknu tilliti til alls þessa þykja skilyrði 110. gr. a, laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mál vera uppfyllt.

                Telja verði með hliðsjón af rannsóknargögnum framangreindra mála að kærði hafi brotið alvarlega gegn kæranda á meðan á sambúð þeirra stóð. Sambúðin hafi einkennst af alvarlegu andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Um langvarandi og hættulegt ástand hafi verið að ræða og atbeina lögreglu þurft til að kærandi teldi sig geta farið af sameiginlegu heimili hennar og kærða. Verði því að telja að kærandi hafi verulega hagsmuni af því að fá áfram frið fyrir kærða og að nálgunarbann muni veita henni þann frið, eins og raun hafi verið á.

                Að síðustu sé vísað er til framangreinds, hjálagðra gagna og 110. gr. a laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000.

                Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 58/2008, sem upp var kveðinn 7. febrúar sl., var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. janúar sama ár, þess efnis að varnaraðili skyldi sæta nálgunarbanni í 6 mánuði, allt til dagsins í dag. Hafði þá skömmu áður opinbert mál verið höfðað á hendur varnaraðila fyrir gróft ofbeldisbrot gagnvart fyrrum sambýliskonu sinni og öðrum manni. Jafnframt lá þá fyrir kæra konunnar vegna ætlaðrar kynferðislegrar þvingunar í hennar garð af hálfu varnaraðila. Ákæru í máli vegna ætlaðra líkamsárása varnaraðila var vísað frá héraðsdómi vegna annmarka á ákæru 10. apríl sl. Ekki liggja fyrir skýringar á ástæðum þess að dregist hafi að gefa út nýja ákæru á hendur varnaraðila eða upplýsingar um hvenær svo muni gert. Þá þykja dóminum skýringar lögreglu ekki geta réttlætt þann drátt sem orðið hefur á rannsókn þeirra mála og annarra mála á hendur varnaraðila. Verður krafa sóknaraðila um nálgunarbann gagnvart varnaraðila ekki á því reist.

                Samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 er heimilt að beita nálgunarbanni, ef rökstudd ástæða er til að ætla að maður sem krafan beinist að muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði annars manns. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi til laganna kemur fram að við mat á skilyrðum ákvæðisins verði að líta til fyrri hegðunar manns sem krafa beinist gegn og samskipta hans við þann sem vernda skal með ákvæðinu. Krafa um nálgunarbann verði því að vera studd haldgóðum og áreiðanlegum gögnum, og verði bannið ekki reist á því einu að sá sem leiti verndar hafi beyg af öðrum manni.

                Þrátt fyrir að fullnægjandi rök hafi á sínum tíma staðið til þess að nálgunarbanni yrði beitt í því skyni að vernda fyrrum sambýliskonu gagnvart varnaraðila, verður ekki fallist á það með sóknaraðila að þær forsendur séu nú fyrir hendi. Þannig liggja engin gögn fyrir sem gefa um það vísbendingu að ætla megi að varnaraðili muni nú fremja afbrot gagnvart konunni eða raska á annan hátt friði hennar. Þvert á móti benda gögn ekki til annars en að varnaraðili hafi bæði látið af áreiti gagnvart konunni eftir sambúðarslit þeirra og virt það nálgunarbann sem beitt var, og er nú að renna út.

                Með vísan til ofanritaðs er það niðurstaða dómsins að hafna beri kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að varnaraðila verði áfram gert að sæta nálgunarbanni gagnvart fyrrum sambýliskonu sinni, A.

Verður sóknaraðila gert að greiða allan sakarkostnað, þ.m.t. þóknun Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.

                Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Hafnað er kröfu sóknaraðila um að X verði áfram gert að sæta nálgunarbanni gagnvart A.

                Sóknaraðili greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. þóknun Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.