Hæstiréttur íslands
Mál nr. 215/2004
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skilorð
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 16. desember 2004. |
|
Nr. 215/2004. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn X (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Skilorð. Miskabætur.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlku, A, fæddri 1991, en neitaði sök. Vitnisburður A þótti trúverðugur og var meðal annars studdur framburði tveggja stúlkna sem verið höfðu við barnagæslu með A þegar atvikið átti sér stað. Var X sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga og staðfest niðurstaða héraðsdóms um þriggja mánaða skilorðsbundna fangelsisrefsingu X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 11. maí 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og að refsing ákærða verði þyngd, svo og að hann verði dæmdur til að greiða 500.000 krónur í miskabætur.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað að nýju til lögmætrar meðferðar.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 1. apríl 2004, er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 16. desember 2003 á hendur X, kt. [ ], Reykjavík, fyrir kynferðisbrot með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 25. maí 2003, að [ ], Reykjavík, strokið A, kt. [ ], innan klæða um maga upp að brjósti og reynt að setja hönd undir buxnastreng hennar.
Þetta er talið varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992 og lög nr. 40/2003.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu S, kt. [ ], f.h. A, er krafist miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur auk dráttarvaxta frá 25. maí 2003 til greiðsludags og kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.
Málsatvik
Með bréfi Barnaverndar Reykjavíkur frá 27. maí 2003 var óskað eftir því við lögregluna í Reykjavík að rannsókn færi fram á því hvort brotið hefði verið kynferðislega á A. Í bréfinu kemur fram að faðir telpunnar hafi tilkynnt grun sinn um að telpan hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu ákærða er hún gætti barns ásamt vinkonum sínum, H og B, á heimili fyrrverandi sambýliskonu ákærða. Í bréfinu er því lýst að A hafi vaknað við að ákærði hafi strokið henni innanklæða og reynt að fara með höndina að kynfærum hennar.
Lögregla yfirheyrði ákærða 16. ágúst 2003 og lýsti hann atvikum á þá lund að hann hafi komið heim milli klukkan þrjú og fjögur umrædda nótt, en þrjár stúlkur hafi gætt barns sambýliskonu hans. Ein þeirra, H, hafi opnað fyrir sér og hafi hann spurt stúlkurnar þrjár hvort þær vildu ekki fara heim, þar sem hann væri kominn. Þær hafi þá sagst vilja gista. Hann hafi farið að hátta, en fundist það undarlegt að stúlkurnar ætluðu að sofa áfram í stofusófanum og hafi hann því farið fram, sest á sófann hjá A og reynt að vekja hana. Hann hafi lagt aðra höndina á hana og ýtt við henni. Hún hafi þá vaknað, litið á ákærða og farið að gráta. Í framhaldi af því hafi stúlkurnar viljað fara heim. Ákærði neitaði því að hafa strokið líkama A á þann hátt sem lýst er í ákæru.
Með vísan til a-liðar 74. gr. laga um meðferð opinberra mála óskaði lögreglan í Reykjavík eftir því 27. ágúst 2003, að tekin yrði skýrsla fyrir dómi af A. Jafnframt var óskað eftir því með vísan til c-liðar 1. mgr. 74. gr. laganna að teknar yrðu skýrslur af H og B.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Fyrir dómi bar ákærði að hann hefði komið í íbúð fyrrum sambýliskonu sinnar um hálffjögurleytið umrædda nótt. Hann hafi viljað að stelpurnar þrjár, sem gættu barnsins, færu heim, en þær sagst vilja gista í íbúðinni. Ákærði hafi síðan ætlað að fara að sofa, en fundist óþarfi að stelpurnar væru að kúldrast frammi í sófa. Hann hafi því vafið utan um sig sænginni og farið fram og vakið A, sem farið hafi að gráta. Í framhaldi af því hafi stúlkurnar farið heim. Ákærði kvaðst enga skýringu hafa á framburði stúlknanna um meinta háttsemi hans.
Vitnið, A, greindi svo frá fyrir dómi að hún hefði umrætt kvöld verið að passa barn að [ ], ásamt vinkonum sínum, þeim B og H. Um nóttina hafi H vaknað við það að dyrabjöllunni var hringt og hafi hún farið til dyra og opnað fyrir ákærða. Vitnið kvað ákærða hafa sagt, er hann kom inn, að stúlkurnar mættu fara heim. Vitnið hafi þá sagt að klukkan væri orðin svo margt að þær ætluðu bara að gista. Síðan hafi vitnið heyrt vatnshljóð, eins og heyrðist í sturtu. Vitnið kvaðst hafa verið að festa blund er ákærði hafi komið inn í stofu með handklæði vafið utan um sig og sest í sófann, þar sem vitnið lá. Ákærði hafi byrjað að strjúka á vitninu magann innanklæða og farið með hendi sína upp undir brjóst á vitninu. Vitnið hafi getað varnað því að hann færi lengra, með því að færa hönd sína fyrir og hafi þá ákærði reynt að færa hönd sína neðar og verið kominn með höndina að buxnastreng vitnisins, er vitnið hafi snúið sér við í sófanum og farið að gráta. Vitnið kvað B vinkonu sína hafa sofið meðan þessu fór fram, en H hafa vaknað er ákærði hafi hringt dyrabjöllunni.
Vitnið, B, kvaðst hafa verið að gæta barns umrætt kvöld með vinkonum sínum H og A. Hún kvaðst ekki hafa vaknað er ákærði hringdi dyrabjöllunni og fyrst vaknað við það er ákærði stóð fyrir framan stúlkurnar. Hann hafi spurt þær hvort þær væru ekki þreyttar, hvort ekki væri þröngt um þær í sófanum og hvort einhver vildi ekki koma og leggjast hjá sér inni í rúmi. Þær hafi sagt að ágætlega færi um þær. Ákærði hafi síðan sest hjá A og farið inn undir bol hennar og farið að strjúka henni á maganum. A hafi þá verið vöknuð og ákærði fært hönd sína neðar og reynt að fara undir buxurnar hennar. A hafi þá velt sér á hliðina og sagst vilja fara heim. Þær hafi síðan farið heim til A. Vitnið kvaðst hafa skýrt móður sinni strax frá þessu, en móðir hennar hafi náð í hana til A um nóttina. Vitnið kvaðst ekki hafa verið vel vakandi er þessu fór fram, en kvaðst þó hafa séð þá háttsemi ákærða sem hún lýsti. Hún kvaðst hafa rætt atvikið eftir á við H vinkonu sína, en vilji þó helst ekki tala mikið um það.
Vitnið, H, kvaðst hafa verið að passa barn umrædda nótt fyrir E, sem búi að [ ]. Með henni hafi verið vinkonur hennar, þær B og A. Þær hafi verið farnar að sofa þegar dyrabjöllunni hafi verið hringt. Hafi vitnið farið til dyra og hleypt ákærða inn. Hann hafi spurt hvort þær vildu ekki fara heim, en vitnið sagt að E hefði boðið þeim að gista um nóttina. Vitnið kvaðst hafa séð að ákærði fór á salernið. Er hann hafi komið þaðan hafi hann verið nakinn að öðru leyti en því að lítið handklæði hafi verið vafið um mitti hans. Ákærði hafi sest hjá A og farið með hönd sína undir teppið hjá henni og snert á henni klofið. Vitnið kvaðst þó ekki hafa séð hvað ákærði var að gera við A, en hann hafi hreyft hönd sína undir teppinu. Allt í einu hafi A öskrað: ,,Viltu hætta” og ,,Ég vil fara til pabba”. Ákærði hafi þá öskrað: ,,Farið þið bara heim”. Þær hafi þá allar risið á fætur, en A hafi verið hágrátandi. A hafi svo sagt vinkonum sínum hvað ákærði hefði gert, en vitnið kvaðst einnig hafa séð þegar ákærði hafi lyft teppinu sem A hafði yfir sér og farið með hönd sína undir það.
Vitnið, S, faðir A kvað hana hafa komið heim til sín umrædda nótt ásamt þeim H og B. Hafi þær allar verið í mikilli geðshræringu og A sýnu mestri. Þær hafi tjáð vitninu að ákærði hefði komið heim um miðja nótt og sest hjá A þar sem hún svaf á sófa. Vitnið kvað A hafa sagt sér að hún hefði vaknað við að ákærði hafi farið með hönd sína undir teppið sem yfir henni var og undir bolinn hjá henni og ætlað að káfa á efri hluta líkama hennar. Vitnið kvað A hafa sagt að hún hefði náð að hnipra sig saman og sagt honum að hætta. Þá hafi ákærði einnig reynt að fara niður í buxnastrenginn hjá henni. A hafi farið að gráta og sagst vilja fara heim til pabba. Ákærði hafi þá sagt stelpunum að hypja sig út og ekki sagst kæra sig um neinar pabbastelpur. Vitnið kvað H hafa sagt sér að ákærði hefði horft mjög ógnandi á hana, á meðan á þessu hafi staðið.
Vitnið kvað atvikið hafa haft mikil áhrif á A og sé hún nú orðin myrkfælin, líti sífellt um öxl þegar hún sé á gangi og sé óörugg. Hún hafi átt erfitt með einbeitingu skömmu eftir atvikið, en sé nú komin yfir það og gangi vel í námi.
Vitnið, EÓ, móðir H, kvað H hafa hringt í sig umrædda nótt. Hún hafi verið grátandi og sagt ,,svolítið hræðilegt” hafa gerst. H hafi lýst því að unnusti E, sem þær voru að passa fyrir, hafi sest á sófann þar sem A hafi legið, farið með hönd sína undir teppið sem yfir henni var og þuklað á henni. A hafi hrópað að hún vildi fara til pabba síns og hafi hann þá sagt að hún skyldi gera það.
Vitnið, HS, móðir B, kvað vinkonurnar þrjár hafa átt að gista hjá E, þar sem þær hafi verið að gæta barns. B hafi hringt í vitnið um nóttina og sagt að sér liði illa og vildi koma heim. Hún hefði tjáð vitninu að ákærði hefði komið heim og hefði B sagt vitninu að hún hefði séð ákærða þukla á maga A þar sem A svaf á sófa í íbúðinni, en A beðið ákærða að hætta.
E kom fyrir dóm. Hún kvað þau ákærða hafa verið í sambúð á þeim tíma er atvik það sem lýst er í ákæru tekur til. Hún kvaðst hafa fengið stúlkurnar til að gæta barns fyrir sig umrætt kvöld og hafi þær átt að gista um nóttina. Þegar hún hafi komið heim hafi þær verið farnar. Daginn eftir hafi ákærði sagt að hann hefði sent stúlkurnar heim úr því að hann væri kominn. S, faðir A, hefði hringt í hana næsta morgun og tjáð sér hvað gerst hefði.
Vitnið, Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur, kvað A hafa komið í nokkur viðtöl til sín. Hún kvað frásögn A trúverðuga, en ekki eiga von á því að A hlyti varanlegt tjón vegna háttsemi ákærða, einkum vegna þess að A hafi strax skýrt frá því sem gerðist. Hún kvað A hafa tengt vanlíðan sína við háttsemi ákærða, en ekki önnur áföll sem A hefði orðið fyrir.
Í málinu liggur fyrir skýrsla Vigdísar frá 26. janúar 2004 um A. Þar kemur fram að fyrst hafi telpan komið í viðtal 2. desember 2003. Hafi hún þá sagt að sér hefði þótt erfitt að greina frá atvikinu og ekki viljað ræða meira um það sem gerðist. Hún hafi þó fallist á að mæta aftur í viðtal eftir að henni hafði verið gerð grein fyrir að hún þyrfti ekki að skýra frá atvikinu á nýjan leik. A hafi sagt í viðtölum að hún hefði vaknað við háttsemi ákærða og orðið mjög hrædd. Hún hafi farið að gráta, en verið nokkuð sátt við hvernig hún brást við. Hún hefði þó hugsað töluvert um það að hún hefði ekki átt að skilja barnið eftir, sem hún og vinkonur hennar hefðu átt að passa. Henni hafi verið svo brugðið að hún hafi ekki haft hugsun á öðru en að forða sér. Þá hafi komið fram í viðtölum við A að hún væri orðin hræddari við að vera ein og fyndi fyrir myrkfælni. Hún væri tortryggin og vör um sig eftir atvikið, liti sífellt um öxl þegar hún væri úti við og fyndi fyrir streitu og hræðslu við þær aðstæður. Líðan hennar hefði ekki komið niður á námsárangri, sem væri talsvert yfir meðallagi. Þá hefði telpan greint frá því að hún hefði misst móður sína í apríl 2002, en þau einkenni sem telpan greindi frá í viðtölunum hefðu þó ekki verið til staðar áður en ákærði áreitti hana kynferðislega og teldi hún að þær breytingar sem orðið hefðu á líðan hennar væru afleiðing þess atviks.
Í niðurstöðum Vigdísar kemur fram að viðtöl við A hafi leitt í ljós ýmis einkenni sem þekkt séu meðal barna sem orðið hafi fyrir áföllum. Sum þeirra einkenna séu líklegri til að gera vart við sig í kjölfar áreitni/ofbeldis en dauðsfalls, svo sem streita og kvíði í tengslum við það að vera á ferli utandyra, sem og endurteknar hugsanir um áreitnina/ofbeldið. Ljóst sé að háttsemi ákærða hafi valdið telpunni umtalsverðum óþægindum, en ætla megi að vanlíðan hennar sé tímabundin.
Niðurstaða.
Ákærði hefur neitað að hafa strokið A á þann hátt sem í ákæru greinir. Hann hefur viðurkennt að hafa farið fram í stofu eftir að hann var háttaður þar sem honum hafi þótt óþarfi að stúlkurnar væru að ,,kúldrast frammi í stofu”. Þá hefur hann viðurkennt að hafa sest hjá A umrædda nótt og ýtt við henni í þeim tilgangi að vekja hana. Hún hafi orðið hrædd og farið að gráta.
Vitnið, A, lýsti háttsemi ákærða ýkjulaust og yfirvegað og er framburður hennar trúverðugur að mati dómsins.
Vitnið H var sú eina af stúlkunum sem vaknaði við að ákærði kom umrædda nótt, en hún lauk upp dyrum fyrir honum. Hún bar fyrir dómi að hún hefði séð ákærða setjast á brún sófa, þar sem A svaf og setja hönd sína undir teppið sem yfir henni var. A hefði þá hrópað og beðið ákærða að hætta og sagst vilja fara heim. Þótt H hafi annars vegar lýst því að hún hafi ekki séð nákvæmlega hvað ákærði gerði við A og hins vegar sagt hann hafa snert klof hennar, rennir framburður hennar stoðum undir framburð A um athæfi ákærða og er að mati dómsins trúverðugur um þau atriði er máli skipta.
Þótt fram sé komið að vitnið B hafi ekki verið vel vakandi þegar meint háttsemi átti sér stað, kvaðst hún sérstaklega aðspurð hafa séð þá háttsemi ákærða sem hún lýsti fyrir dómi. Það eykur og trúverðugleika framburðar hennar að framburður ákærða um að honum hafi þótt óþarfi að stúlkurnar væru að kúldrast í sófanum er í samræmi við framburð hennar um að ákærði hafi spurt stúlkurnar að því hvort ekki væri þröngt í sófanum.
Framburður vitnanna S, föður A, EÓ, móður H, og HS, móður B, er nánast samhljóða um það sem telpurnar tjáðu þeim að gerst hefði, jafnskjótt og þær komu frá ákærða. Framburður þeirra rennir og styrkum stoðum undir framburð A, en í framburði vitnanna kom einnig fram að stúlkurnar hefðu verið í miklu uppnámi þegar þær komu heim. Þá er sannað með framburði E, fyrrum unnustu ákærða, sem samræmist frásögn telpnanna, að ákveðið hafi verið að telpurnar gistu heima hjá henni umrædda nótt, en fram er komið að þær fóru mjög skyndilega.
Þegar allt framangreint er virt þykir ótrúverðugur sá framburður ákærða að hann hafi einungis ýtt við A í þeim tilgangi að vekja hana og við það hafi hún farið að gráta. Þá er ekkert fram komið í málinu sem rýrt geti trúverðugleika framburðar brotaþola eða annarra vitna. Þegar virtur er trúverðugur framburður vitna þeirra er fyrir dóm komu og höfð hliðsjón af atvikum að öðru leyti er að mati dómsins fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Refsiákvörðun
Ákærði hefur ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði, en rétt þykir eftir atvikum að skilorðsbinda refsinguna eins og nánar greinir í dómsorði.
Skaðbótakrafa
Í málinu hefur S, fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, A, krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 500.000 krónur auk dráttarvaxta frá 25. maí 2003 til greiðsludags og greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.
Krafan er rökstudd á þá lund að stúlkan hafi átt í nokkrum andlegum erfiðleikum, bæði meðan á háttsemi ákærða stóð og til þessa dags. Atferli ákærða sé til þess fallið að skaða sjálfsmynd hennar og valda henni vanlíðan. Ákærði hafi brugðist trausti barnsins og skyldum sínum gagnvart því.
Í greinargerð Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings, frá 26. janúar 2004, kemur fram að líðan telpunnar hafi breyst nokkuð eftir atvikið og sé hún hræddari við að vera ein en hún hafi áður verið. Þá segist hún vera orðin tortryggin og vör um sig eftir að atvikið hafi átt sér stað. Líðan hennar hafi þó ekki komið niður á námsárangri eða einbeitingu. Í niðurstöðu Vigdísar segir meðal annars að viðtöl við hana hafi leitt í ljós ýmis einkenni sem þekkt séu meðal barna sem orðið hafi fyrir áföllum og ljóst sé að kynferðisofbeldið hafi valdið henni umtalsverðum óþægindum, en ætla megi að vanlíðan hennar vegna atviksins sé tímabundin.
Af framangreindu verður ráðið að ólögmæt meingerð ákærða gegn persónu og friði A hafi haft á hana umtalsverð áhrif. Samkvæmt því og með vísan til 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ber að dæma ákærða til að greiða A miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 150.000 krónur. Ákærða var birt miskabótakrafa 30. október 2003 og ber því dráttarvexti frá 30. nóvember 2003 til greiðsludags samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Sakarkostnaður.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, greiði ákærði allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Birgis Más Ragnarssonar, héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur, héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragnheiður Harðardóttir saksóknari.
Héraðsdómararnir Ingveldur Einarsdóttir, sem dómsformaður, Arngrímur Ísberg og Kristjana Jónsdóttir kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð
Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar ákærða skilorðsbundið í tvö ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsingin falla niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 150.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. nóvember 2003 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Birgis Más Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.