Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-176
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamsárás
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 22. júní 2021 leitar Óskar Einar Hallgrímsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 28. maí sama ár í málinu nr. 117/2020: Ákæruvaldið gegn Óskari Einari Hallgrímssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið brotaþola í andlitið með nánar tilgreindum afleiðingum. Í dómi Landsréttar kom fram að með trúverðugum framburði brotaþola, nánar tilgreindum framburði vitna og gögnum væri sannað svo að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að leyfisbeiðandi hefði gerst sekur um þá háttsemi sem hann var ákærður fyrir. Refsing hans var ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Með héraðsdómi 23. janúar 2020 hafði leyfisbeiðandi verið sýknaður af kröfum ákæruvalds.
4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt þar sem hann hafi verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur í Landsrétti. Þá telur hann að með dómi Landsréttar sé gengið gegn ákvæðum sakamálaréttarfars og að dómurinn sé rangur að efni til.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda, brotaþola og nafngreindra vitna en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laganna. Af framangreindu er ljóst að áfrýjun til réttarins mun ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. lokamálslið 4. mgr. sömu greinar. Samkvæmt þessu er beiðni um áfrýjunarleyfi hafnað.