Hæstiréttur íslands

Mál nr. 505/2005


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Yfirmatsgerð


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. maí 2006.

Nr. 505/2005.

Þorleifur Kjartan Jóhannsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Eimskipafélagi Íslands ehf.

(Kristín Edwald hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Yfirmatsgerð.

Þ slasaðist við vinnu sína í þágu E sem háseti um borð í Goðafossi árið 2002 og höfðaði mál gegn E, og vátryggingafélaginu S til réttargæslu, til heimtu bóta fyrir líkamstjón. S hafði greitt Þ þær bætur sem honum voru dæmdar með héraðsdómi og undi E þeirri niðurstöðu. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms að Þ hafi ekki átt rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón, enda hafi hann ekki verið óvinnufær í kjölfar slyssins. Jafnframt var staðfest að undantekningarregla 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga ætti við í tilviki Þ og var niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð þjáningarbóta staðfest. Einnig var talið ósannað að Þ, sem hafði starfað hjá E í sumarleyfum og með námi sínu í Stýrimannaskólanum árin fyrir slysið, hefði farið að vinna sem stýrimaður eða bátsmaður hjá E. Var hann látinn bara hallann af því við mat á árslaunum sem bætur fyrir varanlega örorku skyldu miðast við. Þá var staðfest niðurstaða um rétt E til að draga frá kröfu Þ bætur vegna tímabundins atvinnutjóns og varanlegrar örorku að hluta, sem honum höfðu verið greiddar með fyrirvara.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Björk Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 2005. Endanlegar kröfur hans fyrir Hæstarétti eru aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 18.304.640 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 19. júní 2002 til 23. apríl 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti um verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum á tilgreindum dögum samtals að fjárhæð 16.881.255 krónur. Þar með er talin greiðsla frá réttargæslustefnda í héraði 19. janúar 2006, sem ágreiningslaust er að hafi verið rétt uppgjör á þeim fjárhæðum sem héraðsdómur dæmdi. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 17.310.648 krónur með sömu vöxtum og innborgunum og í aðalkröfu. Að því frágengnu krefst hann staðfestingar héraðsdóms. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

          Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfu áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður í því tilviki felldur niður.

          Stefndi unir niðurstöðu héraðsdóms. Reisir hann aðalkröfu sína um sýknu á því að hann hafi þegar greitt áfrýjanda í samræmi við dómsorð hins áfrýjaða dóms.

          Með áfrýjun þessari leitar áfrýjandi endurskoðunar á niðurstöðum hins áfrýjaða dóms um tímabundið atvinnutjón, fjárhæð þjáningarbóta, árslaun sem ákvörðun um bætur fyrir varanlega örorku miðast við og rétt stefnda til að draga frá kröfu áfrýjanda bætur vegna tímabundins atvinnutjóns og varanlegrar örorku að hluta sem honum höfðu verið greiddar og grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi.

          Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem ekki hefur verið gagnáfrýjað, verða niðurstöður hans um framangreind atriði og um málskostnað staðfest. Með því að stefndi hefur þegar greitt áfrýjanda í samræmi við dómsorð héraðsdóms verður hann sýknaður af kröfum áfrýjanda.

          Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

          Stefndi, Eimskipafélag Íslands ehf., er sýkn af kröfu áfrýjanda, Þorleifs Kjartans Jóhannssonar.

          Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.

          Áfrýjandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2005.

I

Mál þetta var höfðað 10. júní 2004 og dómtekið 21. september 2005.  Stefnandi er Þorleifur Kjartan Jóhannsson, 240174-5379, Brekastíg 7a, Vestmannaeyjum en stefndi er Eimskipafélag Íslands hf., kt. 461202-3220, Korngörðum 2, Reykjavík.  Réttargæslustefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 20.894.590 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá 19. júní 2002 til 23. mars 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum 12.094.719 krónum, sem sundurliðast svo:

1.494.394 krónur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga

250.000 krónur sem greiddust inn á kröfuna 16. maí 2003

250.000 krónur sem greiddust inn á kröfuna 13. júní 2003

250.000 krónur sem greiddust inn á kröfuna 4. júlí 2003

531.660 krónur sem greiddust inn á kröfuna 1. ágúst 2003

200.000 krónur sem greiddust inn á kröfuna 5. september 2003

504.358 krónur sem greiddust inn á kröfuna 26. september 2003

100.000 krónur sem greiddust inn á kröfuna 31. október 2003

100.000 krónur sem greiddust inn á kröfuna 11. nóvember 2003

100.000 krónur sem greiddust inn á kröfuna 23. desember 2003

1.000.000 krónur sem greiddust inn á kröfuna 7. apríl 2004

7.314.307 krónur sem greiddust inn á kröfuna 11. mars 2005.

Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.  Til vara gerir stefnandi þær kröfur að honum verði greiddar 18.937.340 krónur með sömu vöxtum og innágreiðslum og í aðalkröfu.  Til þrautavara gerir hann kröfu um að honum verði greiddar 17.443.307 krónur.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.  Til vara krefst hann þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur í málinu.

II

Málsatvik eru þau  að stefnandi slasaðist við vinnu sína í þágu stefnda sem háseti um borð í Goðafossi þann 19. júní 2002 er skipið var að búast til brottfarar frá Grundartangahöfn.  Verið var að hífa landgang inn þegar vír slitnaði.  Stefnandi var á landganginum sem féll og við það klemmdist hægri fótur hans milli skips og landgangs.  Stefnandi fór á slysadeild og reyndist fótur hans ekki brotinn en þreifieymsli voru á liðböndum innanverðum og utanvert á hægri ökkla.

Stefnandi sneri aftur til skips og hélt áfram vinnu og fór með skipinu til Þýskalands og kemur fram hjá stefnanda að honum hafi þá verið farið að líða mjög illa og því hafi hann farið til læknis í Þýskalandi sem taldi hann hafa laskað liðbönd.  Hélt stefnandi áfram vinnu þrátt fyrir sársauka í ökkla og hné en kveðst hafa tekið inn verkjalyf. 

Stefnandi leitaði 15. ágúst 2002 til Stefáns Dalberg læknis sem taldi að stefnandi hefði hlotið kramningsáverka og tognun á hægra fæti þar sem ökklaliðurinn, hásinin og iljaboginn hafi aðallega orðið fyrir áverkum.  Hafi hann sýnt mjög hægan og lítinn bata við lyfjagjöf og sjúkraþjálfun.  Þá hafi hann einnig hlotið tognun á hægra hné, innanvert og framanvert.

Stefnandi hætti störfum hjá stefnda um haustið 2002 og fór í Stýrimannaskólann og kveðst hafa tekið þá ákvörðun vegna þeirra áverka sem hann hefði orðið fyrir í slysinu. Stefndi kveðst ekki endilega hafa ætlað í skólann aftur þetta haust vegna breyttra aðstæðna.  Hann hafi verið kominn í sambúð og átt von á barni og hafi hann því ætlað sér að taka frí frá námi og afla sér tekna. 

Samkvæmt gögnum málsins hafði stefnandi stundað nám við skólann veturinn 1998-1999 og hélt því áfram veturinn 2001-2002.  Hann hélt svo náminu áfram haustið 2002 og fram á vor 2003.  Haustið 2003 hélt hann náminu áfram en hætti að lokinni haustönn að sögn á þeim forsendum að hann hefði ekki efni á því lengur.

Stefnandi leitaði til Marínós P. Hafstein læknis og í læknisvottorði hans 12. júní 2003 kemur fram að grunur sé um taugaklemmu um hægri ökkla.  Sendi Marínó stefnanda í uppskurð til Guðmundar Más Stefánssonar læknis sem losaði um taugaklemmuna 2. júní 2003 en samkvæmt vottorði læknisins 2. október 2003 hafði komið í ljós að taugin var töluvert klemmd á þessu svæði.  Í niðurstöðu vottorðsins kemur fram að enn sem komið er hafi aðgerðin ekki skilað neinum árangri þar sem stefnandi hafi enn þá dofa og verki í fætinum.  Þó sé ekki hægt að meta enn hvort einhver árangur verði af aðgerðinni þar sem bati eftir slíka taugaklemmu eða áverka komi oft ekki fram fyrr en eftir marga mánuði, jafnvel allt upp í tvö ár.  Sé því ljóst að fylgjast þurfi áfram með einkennum stefnanda. 

Kveðst stefnandi hafa verið slæmur lengi eftir aðgerðina og gengið við hækjur.  Hann hafi engan bata fundið eftir þessa aðgerð heldur frekar versnað.

Stefnandi leitaði í kjölfar uppskurðarins til Sigurðar Á. Kristinssonar læknis.  Í vottorði hans frá 25. júní 2003 kemur meðal annars fram að það sé hans mat að mar á innanverðu hægra hné og hægri ökkla hafi getað framkallað bólgubreytingar á innanverðu stuðningsliðbandi hægra hnéliðar svo og á svæðinu fyrir aftan innri ökklahnútu þar sem "tibialis posterior" taugin liggi.  Geti þetta hafa háð stefnanda nokkuð við álagsvinnu en gera megi ráð fyrir að sjúkraþjálfun hafi fljótlega áhrif á hnéstatus.  Hafi skoðun læknisins ekki vakið grun um liðþófaáverka og hafi segulómrannsókn 30. október 2002 útilokað slíkt.   Um árangur af aðgerðinni á ökkla verði tíminn að leiða í ljós.

Stefnandi óskaði eftir því 29. desember 2003 að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta afleiðingar slyssins á grundvelli skaðabótalaga og voru Ríkharður Sigfússon bæklunarlæknir og Páll Sigurðsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands dómkvaddir í þessu skyni.  Er matsgerð þeirra dagsett 16. mars 2004.  Í niðurstöðu matsgerðar kemur fram að stefnandi hafi vegna slyssins hlotið klemmuáverka á hægri ökkla með "causalgi" frá "tibialis posterior" taug, væg tognunareinkenni frá hægra hné og streituröskun.  Þá teljist stöðugleikapunkti náð 2. desember 2003 og þar sem stefnandi hafi sest á skólabekk haustið 2003 teljist óvinnufærnitíma í kjölfar aðgerðar hafa lokið þá.  Þá er það niðurstaða matsmanna að stefnandi teljist ekki ná 75% örorku samkvæmt staðli Tryggingastofnunar ríkisins.  Varanlegur miski sé 20%, bæði samkvæmt danskri matstöflu og íslenskum viðmiðunum og varanleg örorka hans sé 25%.

Réttargæslustefndi viðurkenndi ekki niðurstöðu matsgerðarinnar um örorkustig stefnanda og vildi miða við að örorkustigið væri 10% bæði hvað snertir varanlegan miska og varanlega örorku.  Samkvæmt fullnaðaruppgjöri 7. maí 2004 greiddi réttargæslustefndi stefnanda, með öllum fyrirvara af hálfu félagsins næðist ekki samkomulag um bætur, 1.668.321 krónu og var sú fjárhæð móttekin af lögmanni stefnanda með fyrirvara.  Greiðslan sundurliðast svo:

Tekjutap vegna tímabundinnar örorku        

1.036.018

Þjáningabætur

116.400

Varanlegur miski        

555.150

Varanleg örorka

2.860.650

Vextir til uppgjörsdags

113.889

Útreiknuð bótafjárhæð

4.682.107

Frádráttur áður greitt

-3.286.018

Lögmannsþóknun m/vsk. og útl. kostn.

272.232

Samtals greitt

1.668.321

 

Í framangreindum útreikningi á varanlegri örorku er árslaunaviðmiðun 3.765.192 krónur sem réttargæslustefndi leiðrétti síðan þar sem vegna mistaka hefðu vísitölur víxlast.

Eins og rakið hefur verið vildi réttargæslustefndi ekki una við fyrrgreinda matsgerð og óskaði þann 15. október 2004 eftir yfirmati.  Voru Stefán Carlsson, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, Torfi Magnússon, sérfræðingur í taugalækningum og Viðar Már Matthíasson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, dómkvaddir í þessu skyni og er yfirmatsgerð þeirra dagsett 2. febrúar 2005.  Í niðurstöðum yfirmatsins kemur fram að það sé mat yfirmatsmanna að líkamstjón það sem stefnandi hlaut í slysinu hafi ekki haft í för með sér tímabundna óvinnufærni.  Þá hafi stefnandi ekki verið veikur vegna slyssins og fullnægi því ekki skilyrðum meginreglu 3. gr. skaðabótalaga um þjáningabætur.  Yfirmatsmenn telja að stöðugleikatímapunktur sé sex mánuðum eftir slysið þann 19. desember 2002.  Þá telja yfirmatsmenn varanlegan miska hæfilega metinn 20% og varanlega örorku hæfilega metna 25%.

Í kjölfar yfirmatsgerðar greiddi réttargæslustefndi stefnanda skaðabætur á grundvelli fullnaðaruppgjörs 24. febrúar 2005, með öllum fyrirvara af hálfu félagsins náist ekki samkomulag um bætur, samtals 7.314.307 krónur.  Við móttöku þeirrar greiðslu gerði lögmaður stefnanda fyrirvara um árslaunaviðmiðun og heimild félagsins til frádráttar áður greiddra bóta vegna tímabundins tekjutaps og þjáningabóta.  Í uppgjöri þessu er árslaunaviðmið vegna varanlegrar örorku 3.047.179 krónur.  Greiðslan sundurliðast svo:

 

Tekjutap vegna tímabundinnar örorku        

0

Þjáningabætur

0

Varanlegur miski

1.116.700

Varanleg örorka

8.790.596

Vextir til 7. maí 2004

570.290

Dráttarvextir

880.882

Útreiknuð bótafjárhæð

11.358.468

Áður greitt vegna tekjutaps 

-1.036.018

Áður greitt

-3.532.200

Áður greiddir vextir

- 113.889

Ógreiddar bætur

6.676.361

Eftirstöðvar lögm.þóknunar m/vsk og kostnaður 

726.034

Heildargreiðsla

7.402.395

Fjármagnstekjuskattur

-88.088

Samtals greitt

7.314.307

 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur réttargæslustefndi greitt samtals 9.907.296 krónur auk vaxta og kostnaðar inn á tjón stefnanda og er það óumdeilt.  Þá er óumdeilt að greiðslur, samtals að fjárhæð 1.494.394 krónur, eiga að dragast frá tjóni stefnanda á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.

Ágreiningur lýtur að því fyrst og fremst hvort stefnandi eigi rétt á bótum vegna tímabundinnar örorku og þjáningabótum og um rétt stefnda til að draga frá bótum greiðslur sem þegar hafa verið inntar af hendi vegna þessara bótaþátta.  Þá er ágreiningur um árslaunaviðmið við útreikning á varanlegri örorku.

III

Stefnandi kveðst byggja á fyrirliggjandi matsgerð þeirra Páls Sigurðssonar prófessors og Ríkharðs Sigfússonar læknis þar sem hann telur að yfirmatsgerðin hafi ekki hnekkt henni.  Kröfu sína sundurliðar hann svo:

 

1. Miskabætur 5.537.000 x 20%

kr.    1.107.400

2. Bætur fyrir varanlega örorku,

4.500.000 x 106% x 13,74 x 25%

kr.  16.384.950

3. Þjáningabætur 970 x 492   

kr.      477.240

4. Tímabundin örorka

kr.    2.925.000

Samtals

kr.  20.894.590

 

Bætur fyrir miska séu grundvallaðar á matsgerðinni og 4. gr. skaðabótalaga.  Afleiðingar slyssins séu metnar til 20% miskastigs og höfuðstóll miska í mars 2004 hafi verið 5.537.000 krónur.

Við útreikning bóta fyrir varanlega örorku sé miðað við meðalárslaun háseta hjá stefnda þrjú ár fyrir slysið.  Undanfarin ár hafi stefnandi unnið hjá stefnda sem háseti og verið fastráðinn.   Hafi hann stefnt að því að verða stýrimaður og átt möguleika á því að verða ráðinn bátsmaður fljótlega.  Hann hafi stundað nám í Stýrimannaskólanum árin fyrir slysið og ætíð unnið með náminu fyrir töluverðum tekjum en hann hafi séð um það fyrir stefnda að koma skipum frá Reykjavíkurhöfn til lestunar og losunar í Grundartangahöfn og síðan til baka í Reykjavíkurhöfn. 

Stefnandi kveðst eiga rétt á því að miða árslaun sín við meðallaun háseta hjá stefnda árin fyrir slysið en þau hafi ekki verið undir 4.500.000 krónum.  Þá hafi stefnandi byrjað snemma að vinna fyrir sér og ætíð haft góðar tekjur.  Byggi launaviðmið stefnanda á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.   

Til vara gerir stefnandi kröfu um greiðslu á 18.937.340 krónum með sama vaxtafæti og innágreiðslum og varðandi aðalkröfu og byggi sú fjárhæð á því að árslaunaviðmið sé 4.200.000 krónur.  Til þrautavara sé gerð krafa um greiðslu á 17.443.307 krónum og þá sé árslaunaviðmið 3.765.192 krónur.

Þjáningabætur kveðst stefnandi byggja á 3. gr. skaðabótalaga og séu þær miðaðar við að stefnanda hafi farið batnandi frá slysdegi fram að stöðugleikapunkti.

Kröfu sína um bætur fyrir tímabundna örorku byggi hann á undirmatsgerð og 2. gr. skaðabótalaga.  Hann hafi aðeins fengið greidd laun út október 2003.  Hann hafi ekki ætlað í Stýrimannaskólann um haustið 2002 en hann hafi þá nýhafið sambúð og átt von á barni með sambýliskonu sinni.  Hann hafi því ætlað að taka sér hlé frá námi og afla sér tekna í staðinn.  Vegna slyssins hafi hann ekki haft möguleika á að stunda sjóinn og því hafi hann farið í Stýramannaskólann í þeirri von að honum batnaði og hann gæti aftur hafið vinnu á sjó.  Þá hafi afleiðingar slyssins komið í veg fyrir að hann gæti unnið með skólanum.

Um lagarök að öðru leyti en að ofan greinir byggir stefnandi á 1., 5. og 6. gr. skaðabótalaga, á reglum skaðabótaréttarins um fullar bætur, á kjarasamningum útgerðarmanna og háseta og  ákvæðum siglingalaga um bótaskyldu útgerðarmanna.

IV

Stefndi byggir aðalkröfu sína á því að með greiðslu 9.907.296 króna að viðbættum vöxtum og kostnaði frá réttargæslustefnda hafi stefnandi fengið allt tjón sitt vegna slyssins bætt.  Stefndi mótmælir því að stefnandi eigi rétt á bótum vegna tímabundins atvinnutjóns og þjáningabótum og byggir þær kröfur sínar á niðurstöðu í yfirmati.

Þá kveðst stefndi mótmæla þeim árslaunum sem stefnandi miði við til útreiknings á bótum vegna varanlegrar örorku sbr. 7. gr. skaðabótalaga.  Telji stefndi að ekki séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 7. gr. um að meta skuli  árslaun stefnanda sérstaklega.  Með vísan til meginreglu 1. mgr. 7. gr. skuli miða við meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð þ.e. árin 1999, 2000 og 2001, leiðrétt samkvæmt launavísitölu.  Árslaun stefnanda hafi verið 1.989.528 árið 1999, 2.680.048 krónur árið 2000 og 2.740.593 krónur árið 2001. 

Meðalárslaun stefnanda á þessum þremur árum leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess stöðugleikapunkts sem miðað sé við í undirmatsgerð séu 3.211.063 krónur að meðtöldu 6% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð.  Meðalárslaun stefnanda á þessum tíma séu hins vegar 3.047.179 krónur, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess stöðugleikapunkts sem staðfestur sé í yfirmatsgerð og að meðtöldu framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð.  Sé sú fjárhæð sú rétta við mat á bótum fyrir varanlega örorku enda hafi stefndi þegar greitt bættur í samræmi við það.  Í uppgjöri 7. maí 2004 hafi árlaunaviðmiðið verið 3.765.192 krónur en það hafi verið rangt og hafi réttargæslustefndi leiðrétt þau mistök.

Telur stefndi ósannað að annar mælikvarði en nú hafi verið rakið um laun síðustu þriggja almanaksára sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé réttari um líklegar framtíðartekjur stefnanda en stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði 2. mgr. 7. gr. séu að öðru leyti uppfyllt.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda sé gerð varakrafa um verulega lækkun bóta með vísan til sömu málsástæðna og að framan eru raktar og að ekki verði miðað við hærri árslaun en sem nemur 3.492.558 krónum en það séu meðalárslaun háseta á Goðafossi árið 2004. 

Þá krefst stefndi þess að bætur fyrir varanlega örorku beri vexti frá stöðugleikapunkti þeim sem ákveðinn var í yfirmatsgerð sbr. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga og dráttarvexti frá því að yfirmatsgerð lá fyrir. 

Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

V

Eins og rakið hefur verið er ekki ágreiningur um bótaskyldu stefnda og afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda hvað snertir örorku.  Lýtur ágreiningur aðila einkum að því við hvaða árslaun rétt sé að miða í útreikningi bóta fyrir varanlega örorku.  Þá er deilt um það hvort stefnandi eigi rétt á bótum vegna tímabundinnar örorku og þjáningabótum og ef svo er ekki hvort stefnda hafi verið heimilt að draga áður greiddar bætur að þessu leyti frá öðrum bótagreiðslum.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal ákveða bætur fyrir atvinnutjón fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans er orðið stöðugt.  Það tímamark sem fyrr verður ræður því hvenær réttur til bóta fyrir tímabundið atvinnutjón fellur niður.  Regla þessi verður ekki skýrð á annan veg en þann að réttur til bóta fyrir tímabundið atvinnutjón falli niður þegar tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eftir veikindi sem leiða af líkamstjóni.  

Fyrir liggur í málinu að stefnandi hélt áfram starfi sínu hjá stefnda strax eftir slysið og vann á Goðafossi fram á haustið 2002 þegar hann hélt áfram námi sínu í Stýrimannaskólanum.  Samkvæmt því var hann ekki óvinnufær í kjölfar slyssins og það kemur í veg fyrir að stefnandi eigi rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón.  Skiptir því ekki máli í þessu sambandi hvenær heilsufar stefnanda telst hafa orðið stöðugt.  Réttargæslustefndi greiddi stefnanda 1.036.018 krónur vegna meints tjóns stefnanda af tímabundinni örorku.  Var sú greiðsla innt af hendi með fyrirvara næðist ekki samkomulag um bætur.  Ljóst er að samkomulag náðist ekki um bætur milli aðila og var stefnda því, á grundvelli framangreinds fyrirvara, heimilt að draga þá fjárhæð, sem þannig var ofgreidd, frá öðrum bótagreiðslum.

Samkvæmt 3. gr. skaðabótalaganna skal greiða þjáningabætur fyrir tímabilið frá því að tjón varð þar til heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, 1.300 kr. fyrir hvern dag sem hann er rúmfastur og 700 kr. fyrir hvern dag sem hann er veikur án þess að vera rúmfastur.  Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að greiða þjáningabætur þótt tjónþoli sé vinnufær.  Mat á því hvenær heilsufar er orðið stöðugt er læknisfræðilegt og í dómaframkvæmd hefur ákvæði 3. gr. skaðabótalaganna verið skýrt svo að tjónþoli þurfi að vera veikur til þess að eiga rétt á þjáningabótum.  Af orðalagi undantekningarreglunnar um að greiða megi þjáningabætur þegar sérstaklega stendur á þótt tjónþoli sé vinnufær verður ekki dregin önnur ályktun en að almennt verði maður ekki talinn veikur í skilningi ákvæðisins nema hann sé óvinnufær og fara þannig að jafnaði saman veikindahugtakið og óvinnufærnihugtakið með framangreindri undantekningu.

Eins og að framan er rakið hefur því verið slegið föstu að stefnandi var ekki óvinnufær í kjölfar slyssins.  Kemur því aðeins til álita hvort stefnandi kunni að eiga rétt á þjáningabótum á þeim grundvelli að sérstaklega standi á í hans tilviki.

Í málinu liggja frammi matsgerðir, annars vegar undirmat læknis og lögfræðings og hins vegar yfirmat tveggja lækna og lögfræðings.  Í undirmatinu er það niðurstaða matsmanna að stöðugleikapunktur hafi verið 2. desember 2003 eða sex mánuðum eftir aðgerð þá sem stefnandi fór í 2. júní 2003 og að stefnandi hafi hætt að vera óvinnufær þegar hann settist á skólabekk að nýju haustið 2003.  Í yfirmatsgerð er niðurstaðan sú að stöðugleikapunktur hafi verið sex mánuðum eftir slysið þann 19. desember 2002 og stefnandi hafi aldrei verið óvinnufær.

Við mat á því hvenær svokölluðum stöðugleikapunkti er náð er litið til þess hvenær ekki sé að vænta frekari bata.  Af gögnum málsins er ljóst að stefnandi fékk ekki frekari bata eftir aðgerð þá sem gerð var á hægra fæti hans 2. júní 2003.  Var því enginn árangur af aðgerðinni og því ekki rökrétt að miða stöðugleikapunkt sex mánuðum frá henni eins og gert er í undirmatsgerð heldur frekar sex mánuðum frá slysi eins og slegið er föstu í yfirmatsgerð.  Samkvæmt niðurstöðu yfirmats er stöðugleikapunktur 19. desember 2002 og þar sem þeirri niðurstöðu hefur ekki verið hnekkt ber leggja hana til grundvallar.

Í yfirmatsgerð er í rökstuðningi varðandi það hvort stefnandi hafi verið veikur í kjölfar slyssins sbr. 3. gr. skaðabótalaga nánast vísað til þess að þar sem matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi ekki verið óvinnufær hafi hann ekki verið veikur í skilningi ákvæðisins.  Hins vegar taka matsmenn ekki afstöðu til þess hvort beita skuli undantekningarreglu ákvæðisins með vísan til 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.

Af yfirmatsgerð verður ekki ráðið með vissu að tekin sé afdráttarlaus afstaða til þess hvort stefnandi kunni að hafa verið veikur í læknisfræðilegum skilningi á umræddu tímabili enda þótt hann hafi verið vinnufær.  Fyrir dómi kom fram hjá læknunum sem stóðu að yfirmati að á tímabilinu frá slysi og fram til stöðugleikapunkts hafi stefnandi í raun verið veikur í læknisfræðilegum skilningi þótt ekki hafi hann verið óvinnufær.   Fær það stoð í þeim læknisvottorðum sem stefnandi hefur lagt fram og er ljóst að stefnandi leitaði til lækna í kjölfar slyssins vegna verkja sem hann hafði í fætinum.  Þótt stefnandi hafi verið vinnufær þykja skilyrði undantekningareglu 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaganna eiga við í tilviki stefnanda frá slysdegi til 19. desember 2002 eða í 180 daga.  Ljóst er að stefnandi var ekki rúmfastur og samkvæmt því á hann rétt á þjáningabótum sem nema 700 krónum á dag eða 970 krónum eftir að tekið hefur verið tillit til vísitölu.  Samtals á hann því rétt á þjáningabótum sem nemur 176.400 krónum.  Réttargæslustefndi greiddi samkvæmt uppgjöri 7. maí 2004 116.400 krónur inn á þennan kröfulið með fyrirvara.  Var honum því rétt að draga þessa fjárhæð frá í lokauppgjöri sínu með sömu rökum og að framan er rakið varðandi ofgreiðslu bóta fyrir tímabundið tekjutap.  Hefur stefndi því gert ráð fyrir þeirri greiðslu í frádrætti sínum frá bótum til stefnanda og eru því dæmdar þjáningabætur til stefnanda óbættar.

Eins og áður hefur komið fram telur stefndi að tjón stefnanda sé að fullu bætt með þeim bótum sem réttargæslustefndi hefur greitt honum en við lokaútreikning bóta fyrir varanlega örorku miðaði réttargæslustefndi við tekjur stefnanda þrjú ár fyrir slysið árin 1999, 2000 og 2001 uppreiknuðum með vísitölu á stöðugleikatímapunkti að viðbættu framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð.   Telur stefndi þannig að við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku eigi að beita 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna en þar segir að árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku skuli teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.  Stefnandi telur hins vegar að beita skuli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna en þar segir að árslaun skuli þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.

Eins og fram er komið starfaði stefnandi hjá stefnda árin fyrir slysið bæði í sumarleyfum og með námi sínu í Stýrimannaskólanum.  Voru þessar aðstæður óvenjulegar að því leyti til að hann var ekki í fullri vinnu allt árið og gefa tekjur hans þessi þrjú ár fyrir slysið því ekki raunsanna mynd að líklegum framtíðartekjum hans.   Hins vegar er allsendis óvíst hvaða störf stefnandi hefði farið í hefði hann ekki slasast og hefur stefnandi ekki lagt fram haldbær gögn sem styðja það að viðmiðunartekjur þær sem hann gerir ráð fyrir í kröfum sínum séu líklegar framtíðartekjur stefnanda og allsendis ósannað að hann hefði farið að vinna sem stýrimaður eða bátsmaður hjá stefnda.  Verður stefnandi að bera hallann af þessum sönnunarskorti.

Fyrir liggur að stefnandi vann sem háseti á Goðafossi þegar hann lenti í slysinu og hafði gert svo árin á undan með skóla.  Er því ekkert fyrirliggjandi annað en að hann hefði haldið þeim störfum áfram hjá stefnda.  Hefur stefndi lagt fram gögn sem ekki hefur verið hnekkt sem sýna fram á að meðalárslaun háseta á Goðafossi hafi á árinu 2004 verið 3.492.558 krónur.   Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið verður við það miðað að þær tekjur séu líklegur mælikvarði á framtíðartekjur stefnanda.

Á stöðugleikapunkti þann 19. desember 2002 var stefnandi 28 ára gamall og í samræmi við 6. gr. skaðabótalaga  er margföldunarstuðullinn 13,750.  Að teknu tilliti til 6% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð  reiknast varanleg örorka stefnanda því þannig:

3.492.558 x 106% =3.702.111 x 13.750 x 25% eða samtals 12.726.008 krónur.  Af þeirri fjárhæð dregst það sem stefnandi hefur fengið greitt frá þriðja aðila samtals að fjárhæð 1.494.394 krónur og innborgun stefnanda inn á þetta tjón samtals að fjárhæð 8.790.596 krónur.  Stendur því eftir óbætt vegna varanlegrar örorku samtals 2.441.018 krónur. 

Eins og rakið hefur verið er óumdeilt að réttargæslustefndi hefur greitt stefnanda bætur fyrir varanlegan miska að fullu.  Þá hefur réttargæslustefndi greitt vexti og dráttarvexti af þeim fjárhæðum sem hann hefur viðurkennt fram til greiðsludags síðasta uppgjörs 11. mars 2005 auk greiðslna vegna lögmannskostnaðar og annars útlagðs kostnaðar.  Að teknu tilliti til þess og að því virtu sem nú hefur verið rakið verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 2.617.418 krónur með vöxtum í samræmi við 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga eins og nánar greinir í dómsorði.  Með hliðsjón af atvikum þykir rétt að miða upphafstíma dráttarvaxta við dómsuppkvaðningu sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega metinn 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Steingrímur Þormóðsson hrl. en af hálfu stefnda flutti máli Kristín Edwald hrl.

             Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Eimskipafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Þorleifi Kjartani Jóhannssyni, 2.617.418 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 af 176.400 krónum frá 19. júní 2002 til 19. desember 2002 en af 2.617.418 krónum frá þeim degi til 11. október 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

             Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.