Hæstiréttur íslands

Mál nr. 403/2005


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Stjórnsýsla
  • Andmælaréttur
  • Miskabætur
  • Aðild
  • Málsástæða
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. mars 2006.

Nr. 403/2005.

Albert Bergmann Þorvaldsson

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

og gagnsök

 

Skaðabætur. Stjórnsýsla. Andmælaréttur. Miskabætur. Aðild. Málsástæður. Gjafsókn.

Talið var að ákvörðun sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli um að svipta A aðgangsheimild að varnarsvæðum til bráðabirgða í nóvember 2002 hafi haft næga efnislega heimild í 10. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna. Þurfti þá ekki að leysa úr því hvort ákvæði reglugerðar nr. 293/2002 hefðu lagastoð. Annmarkar sem A taldi vera á umræddri ákvörðun, meðal annars að andmælaréttar hans hafi ekki verið gætt, voru ekki taldir þess eðlis eins og á stóð, að ákvörðunin yrði talin ógild af þeim sökum. Var A því talinn hafa verið réttilega sviptur aðgangsheimild sinni til bráðabirgða. Með vísan til þeirra brýnu hagsmuna A sem tengdust aðgangsheimild hans að svæðinu, en hann komst ekki til vinnu sinnar án hennar, var sá dráttur sem varð á að fella bráðabrigðasviptinguna úr gildi, talinn ólögmætur. Var ekki sýnt fram á að efnisleg skilyrði hefðu verið til að svipta hafi mátt A varanlega aðgangsheimild sinni, svo sem loks var gert 1. apríl 2003. Var ríkið talið bera skaðabótaábyrgð á því tjóni A sem af þessu leiddi. Ekki var fallist á kröfu ríkisins um sýknu vegna aðildarskorts. Voru A dæmdar bætur vegna launamissis fram til loka aprílmánaðar 2003, er ráðningarsamningur hans rann út, en ekki vegna ætlaðs fjártjóns hans eftir 1. maí 2003, sem hann reisti á því að hafa ekki fengið atvinnu annars staðar. Þá var kröfu hans um miskabætur hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. september 2005. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 10.780.477 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 248.935 krónum frá 6. desember til 13. desember 2002, af 1.123.095 krónum frá þeim degi til 20. desember sama ár, af 1.372.030 krónum frá þeim degi til 3. janúar 2003, af 1.620.964 krónum frá þeim degi til 17. janúar sama ár, af 1.869.899 krónum frá þeim degi til 31. janúar sama ár, af 2.118.834 krónum frá þeim degi til 14. febrúar sama ár, af 2.367.768 krónum frá þeim degi til 28. febrúar sama ár, af 2.616.703 krónum frá þeim degi til 14. mars sama ár, af 2.865.638 krónum frá þeim degi til 28. mars sama ár, af 3.114.572 krónum frá þeim degi til 11. apríl sama ár, af 3.363.507 krónum frá þeim degi til 25. apríl sama ár, af 3.612.442 krónum frá þeim degi til 2. maí sama ár, af 3.839.735 krónum frá þeim degi til 5. maí sama ár, af 4.189.090 krónum frá þeim degi til 6. maí sama ár, af 4.480.477 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, en af 10.780.477 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 16. nóvember 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að kröfur aðaláfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður í því tilviki felldur niður á báðum dómstigum.

Aðaláfrýjandi heitir nú Albert Bergmann Þorvaldsson samkvæmt skráningu í þjóðskrá eftir nafnbreytingu 8. apríl 2005.

I.

Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli svipti aðaláfrýjanda 18. nóvember 2002 til bráðabirgða aðgangsheimild að varnarsvæðum, en þá var hafin rannsókn á hendur honum vegna tveggja bifreiða, sem fluttar höfðu verið án tilskilinna leyfa út af svæðunum 7. nóvember 2002, auk þess sem hann hafði viðurkennt við yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa heimildarlaust keypt hjólbarða og pantað varahluti fyrir bifreið sína inni á svæðunum. Var honum kunngerð þessi ákvörðun er tveir lögreglumenn komu á skrifstofu hans þennan dag og gerðu honum að afhenda lykla að vinnustað sínum og svonefndan vallarpassa. Heldur hann því fram að ákvörðun sýslumanns um þessa bráðabirgðasviptingu aðgangsheimildar standist ekki lög, bæði vegna þess að ákvæði í reglugerð nr. 293/2002 um umferð og dvöl manna á varnarsvæðum, sem hún hafi byggst á, skorti lagaheimild, auk þess sem ekki hafi, hvað sem því líði, verið nægileg efni til hennar. Þá telur hann einnig að ekki hafi verið gætt málsmeðferðarreglna við þessa ákvörðun. Hann hafi þannig ekki notið andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1992 og 2. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar, ekki hafi verið gætt meðalhófs við ákvörðunina, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, og ákvörðunin hafi ekki verið rökstudd svo sem skylt hafi verið samkvæmt nefndu ákvæði  reglugerðarinnar.

Aðaláfrýjandi hefur bent á að héraðsdómari hafi ekki berum orðum fjallað um málsástæðu sína um að fyrrgreind ákvæði reglugerðar skorti lagastoð, svo sem skylt hafi verið. Fallist er á að annmarki sé á héraðsdómi að því er þetta varðar, en með því að málsástæðunnar er getið í forsendum dómsins og niðurstaða hans síðan byggð á ákvæðum reglugerðarinnar verður talið að í honum sé tekin afstaða til þessarar málsástæðu og henni hafnað. Þykir þetta því ekki næg ástæða til að ómerkja dóminn og vísa málinu til málsmeðferðar á ný í héraði.

Í 17. gr. reglugerðar nr. 293/2002 kemur fram að hún sé meðal annars sett með heimild í 10. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna. Í 1. mgr. 10. gr. þeirra er kveðið svo á að íslenskum starfsmönnum og öðrum sem ekki séu á ábyrgð varnarliðsins sé heimill aðgangur að varnarsvæðunum ef þeir eigi þangað lögmæt erindi og hafi gilda aðgangsheimild, útgefna af sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, í samræmi við ákvæði laganna og ákvæði loftferðalaga. Heimilt sé að takmarka eða synja um aðgangsheimild af öryggisástæðum eða ef allsherjarregla krefjist þess. Í 2. mgr. 10. gr. er utanríkisráðherra síðan veitt heimild til að kveða í reglugerð „nánar á um för manna inn og út af varnarsvæðunum og um dvöl manna á þeim.“ Er jafnframt tekið fram að brot á reglunum varði tímabundinni sviptingu aðgangsheimildar samkvæmt ákvörðun sýslumanns eða varanlegri við ítrekuð brot.

Sviptingin á aðgangsheimild aðaláfrýjanda til bráðabirgða 18. nóvember 2002 var samkvæmt málflutningi gagnáfrýjanda byggð á 3. mgr. 5. gr., sbr. 16. gr.  reglugerðar nr. 293/2002. Í fyrrnefnda ákvæðinu er kveðið svo á að heimilt sé að afturkalla leyfi tímabundið eða að fullu og öllu fyrirvaralaust ef brýna nauðsyn beri til að vernda öryggishagsmuni ríkisins, grundvallaröryggi í starfsemi varnarliðsins eða liðsmanna þess, almannahagsmuni eða allsherjarreglu á svæði varnarstöðvarinnar með þeim hætti, svo og ef grunur leiki á um að leyfishafi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi. Í síðarnefndu greininni er meðal annars í 1. mgr. kveðið á um heimild sýslumanns til að svipta leyfishafa aðgangsheimild að varnarstöð tímabundið, eða að fullu og öllu við ítrekað brot. Í 2. mgr. er síðan svofellt ákvæði: „Séu skilyrði fyrir veitingu aðgangsheimildar ekki lengur fyrir hendi eða ef leyfishafi hefur brotið gegn ákvæðum reglugerðar þessarar getur sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli svipt leyfishafa aðgangsheimild tímabundið, eða að fullu og öllu við ítrekað brot. Ákvörðun um sviptingu skal rökstudd og leyfishafa skal gefinn kostur á að neyta andmælaréttar áður en ákvörðun er tekin. Sýslumaður getur, ef þörf er á eðli máls samkvæmt, afturkallað tímabundið aðgangsheimild leyfishafa að svæði varnarstöðvarinnar meðan á meðferð máls stendur.“

 Þegar bráðabirgðasviptingin 18. nóvember 2002 var ákveðin stóð svo á að aðaláfrýjandi hafði viðurkennt hjá lögreglu að hafa átt í fyrrgreindum ólögmætum viðskiptum inni á varnarsvæðinu með hjólbarða og varahluti fyrir bifreið sína. Jafnframt var hann grunaður um ólögmæta aðild að flutningi tveggja bifreiða út af svæðinu, svo sem fyrr var nefnt. Telja verður að ákvörðun sýslumanns um að svipta hann aðgangsheimild til bráðabirgða við þessar aðstæður hafi haft næga efnislega heimild í ákvæði 10. gr. laga nr. 82/2002 og þarf þá ekki að leysa úr því, hvort fyrrgreind ákvæði reglugerðar nr. 293/2002 hafi veitt víðtækari heimildir til slíkrar sviptingar en felist í lögunum. Þá verður fallist á það með gagnáfrýjanda að vegna eðlis bráðabirgðasviptingarinnar hafi ekki verið þörf á að veita aðaláfrýjanda sérstakan kost á að andmæla sviptingunni, enda hafði afstaða hans til málsins komið fram við skýrslugjöf hjá lögreglu. Aðrir annmarkar sem aðaláfrýjandi telur vera á ákvörðun þessari eru ekki þess eðlis eins og á stóð, að ákvörðunin verði talin ógild af þeim sökum. Samkvæmt þessu verður fallist á það með gagnáfrýjanda að aðaláfrýjandi hafi réttilega verið sviptur aðgangsheimild sinni til bráðabirgða með ákvörðun sýslumanns 18. nóvember 2002.

II.

Sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, sem eins og að framan segir fer með stjórnsýslu að því er varðar veitingu og sviptingu aðgangsheimilda að varnarsvæðum, mátti vera ljóst að mjög brýnir hagsmunir aðaláfrýjanda tengdust heimild hans til aðgangs að varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, þar sem hann komst ekki til vinnu sinnar án hennar. Á sýslumanni hvíldi því brýn skylda til að hraða allri meðferð máls aðaláfrýjanda þannig að ljóst yrði svo fljótt sem unnt var, hvort hann fengi aðgangsheimild að nýju. Gögn málsins benda til þess að strax í nóvembermánuði 2002 hafi verið komnar fram allar upplýsingar í máli aðaláfrýjanda sem þurfti til að leiða þetta til lykta, það er að segja þær upplýsingar sem leiddu til sáttargerðar 28. mars 2003 um sekt aðaláfrýjanda vegna brota á tollalögum og ákvörðunar sýslumanns 1. apríl 2003 um varanlega sviptingu á aðgangsheimild aðaláfrýjanda að varnarsvæðunum. Hefur gagnáfrýjandi ekki fært fram haldbær rök fyrir því að ekki hafi mátt taka ákvarðanir um þessi efni í síðasta lagi í árslok 2002. Var þessi dráttur eins og á stóð ólögmætur gagnvart aðaláfrýjanda.

Gagnáfrýjandi hefur haldið því fram að strax í nóvember 2002 hafi verið komin fram skilyrði, sem heimiluðu sýslumanni að svipta aðaláfrýjanda aðgangsheimildinni varanlega. Telur gagnáfrýjandi tollalagabrotin, sem aðaláfrýjandi hafði strax viðurkennt við upphaf lögreglurannsóknar, og viðurkenningu hans fyrir lögreglu 15. nóvember 2002 á að hafa fallist á brottflutning fyrrgreindra bifreiða út af varnarsvæðinu, hafa falið í sér slík brot gegn skyldum sem hvílt hafi á handhöfum aðgangsheimilda, að varanleg svipting væri heimil. Samkvæmt 16. gr. reglugerðar nr. 293/2002 er varanleg svipting heimil ef skilyrði fyrir veitingu aðgangsheimildar eru ekki lengur fyrir hendi eða leyfishafi hefur ítrekað brotið gegn ákvæðum reglugerðarinnar. Ljóst er að á þessum tíma var aðaláfrýjandi enn í starfi hjá varnarliðinu, þannig að skilyrði voru að því leyti enn fyrir hendi til þess að hann héldi heimildinni. Ekki verður fallist á að brotin sem aðaláfrýjandi hafði orðið uppvís að og síðar leiddu til sektargerðarinnar 28. mars 2003 hafi uppfyllt skilyrði reglugerðarinnar um ítrekun brota. Því verður ekki fallist á þessi sjónarmið gagnáfrýjanda.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður talið að sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli hafi í síðasta lagi í árslok 2002 borið að fella bráðabirgðasviptinguna frá 18. nóvember 2002 úr gildi og veita aðaláfrýjanda á ný aðgangsheimild sína. Ber gagnáfrýjandi skaðabótaábyrgð á því tjóni sem af þessu leiddi fyrir aðaláfrýjanda, enda verði tjón hans talið afleiðing þess að sýslumaður sinnti ekki skyldu sinni að þessu leyti.

III.

Aðaláfrýjandi hefur krafist skaðabóta úr hendi gagnáfrýjanda vegna launamissis frá vinnuveitanda sínum tímabilið 17. nóvember 2002 til loka aprílmánaðar 2003. Gagnáfrýjandi hefur sérstaklega andmælt þessari kröfu á þeim grundvelli að hann verði ekki krafinn um laun til handa aðaláfrýjanda og beri því að sýkna hann af henni vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málatilbúnaður aðaláfrýjanda byggist á því að gagnáfrýjandi sé skaðabótaskyldur en ekki á því að gagnáfrýjanda beri að efna ráðningarsamning hans við varnarliðið. Eru því ekki efni til að taka þessa málsvörn gagnáfrýjanda til greina.

Fallist verður á það með aðaláfrýjanda að hann hafi vegna fyrrgreindrar bótaskyldrar háttsemi embættis sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli orðið fyrir tjóni sem nemur launamissi tímabilið 1. janúar 2003 til 30. apríl sama ár, en kröfugerð aðaláfrýjanda miðar að þessu leyti við lok þess tímabils sem ráðningarsamningur hans við varnarliðið var í gildi. Fyrir þetta tímabil hefur hann gert kröfu að fjárhæð 2.714.011 krónur. Gagnáfrýjandi hefur meðal annars mótmælt kröfu aðaláfrýjanda um bifreiðastyrk, þar sem um sé að ræða útlagðan kostnað sem ekki falli á aðaláfrýjanda, nema þegar hann er í vinnu sinni. Ber að fallast á þessi mótmæli. Nemur fjárhæð bifreiðastyrksins framangreint tímabil 149.902 krónum sem dragast frá kröfu aláfrýjanda. Nemur hún þá 2.564.109 krónum. Ekki eru efni til að taka önnur andmæli gagnáfrýjanda við kröfufjárhæðum aðaláfrýjanda til greina.

Aðaláfrýjandi hefur krafist bóta að fjárhæð 5.000.000 krónur að álitum vegna fjártjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir eftir 1. maí 2003 þar sem hann hafi ekki fengið atvinnu annars staðar. Hann hefur ekki sýnt fram á að skilyrði séu til að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða honum bætur vegna þessa auk þess sem bótafjárhæðin er engum gögnum studd. Eru því ekki efni til að taka þessa kröfu til greina.

Loks hefur aðaláfrýjandi krafist miskabóta að fjárhæð 1.300.000 krónur. Reisir hann kröfu sína annars vegar á því að þvingunaraðgerðir lögreglu við rannsókn málsins, er hann var handtekinn og hald lagt á muni í hans eigu, hafi verið ólögmætar. Með vísun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um að hafna þessum sjónarmiðum staðfest. Í annan stað verður að skilja málatilbúnað aðaláfrýjanda svo að krafa þessi sé einnig reist á b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, þar sem skilyrði miskabóta er ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns. Ekki verður fallist á að atvik þau, sem að framan eru talin valda því að skaðabótaábyrgð er lögð á gagnáfrýjanda vegna embættisfærslu við embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, séu þess háttar að uppfyllt séu þessi skilyrði til að dæma aðaláfrýjanda miskabætur. Verður krafa hans um þær því ekki tekin til greina.

Samkvæmt framansögðu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 2.564.109 krónur með dráttarvöxtum frá þeim degi er mál þetta var höfðað svo sem nánar greinir í dómsorði.

Þar sem aðaláfrýjandi hefur gjafsókn á báðum dómstigum eru ekki efni til að dæma gagnáfrýjanda til að greiða honum málskostnað. Gjafsóknarkostnaður hans í héraði og fyrir Hæstarétti ákveðst í einu lagi svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Albert Bergmann Þorvaldssyni, 2.564.109 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. mars 2004 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans samtals 1.500.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2005.

             Mál þetta, sem dómtekið var 26. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Alberti Sævari Þorvaldssyni,  kt.  061157-4179, Bræðraborgarstíg 4, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu til heimtu skaðabóta og til réttargæslu fyrir hönd ríkissjóðs vegna Varnarliðsins, fjármálaskrifstofu, kt. 6402770-0179, með stefnu birtri 5. mars 2004.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi :

A

Stefnandi krefst þess jafnframt, að stefndi verði dæmdur til greiðslu kr. 4.480.477 ásamt  dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. frá 248.935 6. desember til 13. desember 2002, en af kr. 1.123.095 frá þeim degi (f.þ.d.) til 20. desember 2002, en af kr. 1.372.030 f.þ.d. til 3. janúar 2003, en af kr. 1.620.964 f.þ.d. til 17. janúar 2003, en af kr. 1.869.899 f.þ.d. til 31. janúar 2003, en af kr. 2.118.834 f.þ.d. til 14. febrúar 2003, en af kr. 2.367.768 f.þ.d. til 28. febrúar 2003, en af kr. 2.616.703 f.þ.d. til 14. mars 2003, en af kr. 2.865.638 f.þ.d. til 28. mars 2003, en af kr. 3.114.572 f.þ.d. til 11. apríl 2003, en af kr. 3.363.507 f.þ.d. til 25. apríl 2003, en af kr. 3.612.442 f.þ.d. til 2. maí 2003, en af kr. 3.839.735 f.þ.d. til 5. maí 2003, en af kr. 4.189.090 f.þ.d. til 6. maí 2003, en af kr. 4.480.477 f.þ.d. til greiðsludags.

B

Þá krefst stefnandi þess jafnframt í öðru lagi að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 5.000.000 ásamt dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 01.10. 2003 til greiðsludags.

C

Jafnframt krefst stefnandi þess í þriðja lagi, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 1.300.000 ásamt  dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001  frá 01.10. 2003  til greiðsludags.

Málskostnaðarkrafa.

Loks krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda  málskostnað að skaðlausu auk lögmælts virðisaukaskatts samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati réttarins eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál. 

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Engar dómkröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og engar kröfur hafðar uppi af hans hálfu.

 

Málsatvik

Stefnandi er fyrrverandi starfsmaður varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, nánar tiltekið á skrifstofu söludeildar afgangsvöru varnarliðsins DRMO, (Defence Reutilization Marketing Office). Atvik máls þessa má rekja til þess að þann 7. nóvem­ber 2002 stöðvaði lögreglumaður í aðalhliði varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli dráttarbifreið á leið út af varnar­svæðinu með varnarliðsbifreið. Frumrannsókn lögreglunnar á Keflavíkur­flugvelli leiddi í ljós að bifreiðin var önnur tveggja sem fluttar voru þann dag frá DRMO á vegum E, fyrrum starfsmanns Umsýslustofnunar varnarmála. Á þessum tíma var Umsýslustofnun varnarmála eini íslenski aðilinn sem var heimilt að kaupa afgangsvörur af varnarliðinu og var ljóst að bifreiðarnar átti ekki að flytja til stofnunarinnar heldur annarra aðila sem umræddur starfsmaður hafði selt bifreiðarnar.

Í framhaldi af þessu voru teknar skýrslur af starfsmönnum Umsýslustofnunar og DRMO meðal annarra og leiddi rannsókn lögreglunnar til þess að óskað var eftir húsleitarheimild hjá stefnanda og E.             Húsleit fór fram þann 15. nóvember 2002 bæði á heimili stefnanda og E. Við húsleitina á heimili stefnanda var lagt hald á heimilistölvu hans, tölvudiska, tölvuforrit, Jeep bók og skráningarvottorð bifreiðar hans. Í framhaldi af húsleitinni var stefnandi handtekinn og færður til Keflavíkur til yfirheyrslu. Yfirheyrslur yfir honum hófust kl. 20:09 þennan sama dag og lauk kl. 23:10. Við húsleitina á heimili stefnanda fundust kvittanir sem bentu til þess að hann hefði með ólögmætum hætti keypt vörur af aðila innan varnarsvæðisins og komið þeim út af svæðinu. Við yfirheyrslur hjá lögreglu viðurkenndi stefnandi að hafa fengið starfsmann varnarliðsins til að kaupa fyrir sig dekk undir bifreið sína, PN-127, auk þess sem hann hefði fengið sama aðila til að panta fyrir sig varahluti í fyrrgreinda bifreið, en stefnandi hafði ekki fengið þá varahluti afhenta.

Í framhaldi af yfirheyrslum yfir stefnanda var hann sviptur aðgangsheimild að varnarsvæðinu til bráðabirgða þann 18. nóvember 2002 samkvæmt ákvörðun sýslumanns á meðan mál hans væri til rannsóknar. Varnarliðið sagði stefnanda upp störfum þann 29. janúar 2003. Máli stefnanda lauk með sektargerð fyrir tollalagabrot 28. mars 2003 og var stefnandi sviptur aðgangsheimildinni varanlega með bréfi  sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, dags. 1. apríl 2003.

             Heimilistölvu sína fékk stefnandi afhenta 7. janúar 2003 og afganginn af hinum haldlögðu munum fékk stefnandi í sínar hendur  20. febrúar 2003.

Með bréfi sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli dags. 1. apríl  2003 var stefnandi

sviptur aðgangsheimild að varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli varanlega.

Með bréfum sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli til stefnanda dags. 8. og 29. september 2003 var staðfest að rannsókn vegna meints skjalafals og þjófnaðar stefnanda hafi verið hætt og málinu lokið hvað hann varðar.

Málsástæður stefnanda

Af hálfu stefnanda er m.a. tekið fram um málsatvik að við húsleitina þann 15. nóvember 2002 heima hjá stefnanda hafi fundist upplýsingar, sem sýndu að hann hefði framið afmarkað brot á tollalögum. Var um að tefla kvittun, sem lá á borði á heimili hans. Var það brot með öllu ótengt því málsefni, sem rannsóknaraðgerðir gagnvart stefnanda og DRMO höfðu beinst að og leitarheimild hafði verið fengin út af.  Þótt tolllagabrotið væri afmarkað og einfalt í sniðum, enda strax að fullu játað, hafi sýslumaður dregið lyktir þess fram til loka marsmánaðar 2003. 

Með sama hætti hafi dregist úr hömlu að loka þeim þætti upphaflegrar rannsóknar, sem að stefnanda sneri.  Stefnandi hafi þó mjög haft á tilfinningunni að fljótlega eftir húsleitina hafi legið ljóst fyrir, að hann tengdist alls ekki þeirri brotastarfsemi, sem hann var í upphafi sakaður um.

Er gengið var frá sáttinni vegna tollalagabrotsins 28. mars 2003 hafði stefnandi verið undir bráðabirgðasviptingu aðgangsheimildar að varnarsvæðinu allt frá 15. nóvember 2002 og því ekki getað stundað vinnu sína hjá DRMO, sbr. bréf sýslumanns, dags. 1. apríl 2003, þar sem stefnanda hafi loks verið tilkynnt um varanlega sviptingu aðgangsheimildar hans, án þess að andmælaréttur hans og önnur réttindi samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins hafi í neinu verið virt, hvorki fyrr né síðar. Þá var í bréfi sýslumanns hvergi getið um málskotsrétt stefnanda samkvæmt 16. gr. if. rgl. nr. 293/2002.

Stefnanda hafi verið mjög bagalegt að sýslumaður varð ekki við því að veita stefnanda a.m.k. tímabundna eða takmarkaða aðgangsheimild, svo að hann gæti rækt starfsskyldur sínar.  Hafði stefnandi þær upplýsingar frá starfsmannastjóra varnarliðsins, Guðna Jónssyni, að jafnvel þótt stefnandi gæti einungis mætt til vinnu undir lok uppsagnarfrestsins og aðeins í einn dag, skapaði það grundvöll til að líta svo á, að óviðráðanleg atvik hefðu hamlað vinnusókn hans tímabundið.  Yrðu honum þá greidd öll laun hans og önnur starfskjör frá miðjum nóvember 2002 og fram til starfsloka.

Þegar stefnandi hafði verið sviptur aðgangsheimild að varnarsvæðinu varanlega samkvæmt bréfi sýslumanns dags. 1. apríl 2003 hóf hann að leita eftir vinnu við sitt hæfi.  Sóttist honum það verk illa, enda hafi hann ekki komist hjá því að greina væntanlegum vinnuveitendum frá starfslokum sínum hjá varnarliðinu eftir 27 ára farsælt starf þar.  Þótt hann héldi því fram í umsóknum og atvinnuviðtölum, að hann væri saklaus af þeim alvarlegu hegningarlagabrotum, sem á hann höfðu verið borin, höfnuðu vinnuveitendur honum ýmist alfarið strax eða vildu fresta ákvarðanatöku uns hann gæti sýnt fram á að lögreglurannsókn gagnvart honum hefði verið hætt og hann mætti saklaus teljast. 

Sýslumaður hafði ekki sinnt þeirri brýnu lagaskyldu að tilkynna stefnanda um að málið gagnvart honum væri fellt niður.  Hóf stefnandi formleg afskipti af embættinu vegna þessa þáttar með bréfi lögmanns hans dags. 8. ágúst 2003. Erindið hafi verið ítrekað með bréfi dags. 2. september 2003.  Í kjölfar þess hafi borist bréf sýslumanns dags. 8. september 2003, þar sem loksins hafi verið tekið fram að rannsókn gagnvart stefnanda vegna meintra hegningarlagabrota væri hætt.  Engu að síður hafi efni bréfsins verið andstætt lagaákvæðum, þar sem inn í yfirlýsinguna hafi verið fléttað umfjöllun um óskylt málsefni, tolllagabrotið.  Þar af leiðandi hafi stefnanda ekki nýst bréfið með þeim hætti, sem hann átti rétt til.  Hafi  enn orðið að árétta við sýslumann kröfu um að hann skilaði af sér þeirri yfirlýsingu, sem honum bar að veita, án þess að fram kæmi í henni einskonar heildar sakavottorð um hagi stefnanda. Með bréfi dags. 29. september 2003 hafi svo loks borist sú yfirlýsing, sem sýslumanni hafi verið skylt að veita og sem hann hefði átt að láta af hendi miklum mun fyrr og jafnvel þegar í nóvember 2002.

Hagir stefnanda hafi nú loks verið orðnir þeir, að þessu leyti, sem lög kveði á um. Telur stefnandi sýslumann bera fulla ábyrgð á öllu því tjóni, sem hann hafi orðið fyrir sbr. stefnukröfu, enda hafi sýslumaður á saknæman hátt og ranglega komið af stað lögreglurannsókn hjá sér, húsleit og handtöku, og sömuleiðis með saknæmum hætti sniðgengið lagaskyldur sínar á sviði stjórnsýsluréttar og laga um meðferð opinberra mála og þannig valdið tjóni hans og viðhaldið afleiðingum þess.

Þess er getið að við þær aðstæður sem stefnandi bjó við fram til loka uppsagnarfrestsins 30. apríl 2003 og hann telur sýslumann ábyrgan fyrir, hafi  stefnanda verið ógjörlegt að fá atvinnuleysisbætur.

 

             Málsástæður stefnanda vegna einstakra kröfuliða.

A.     Fjártjón vegna missis samningsbundinna launa. 

Stefnandi byggir á því að fjártjón stefnanda samkvæmt dómkröfulið A sé í því fólgið að hann hafi vegna framangreindra málsatvika ekki fengið greidd laun þau er honum báru frá vinnuveitanda sínum, varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Af sömu ástæðum hafi ekki heldur fengist greidd launatengd gjöld í hans þágu. Greiðslum hafi verið synjað af hálfu atvinnurekandans af þeim ástæðum að stefnandi hafi ekki að neinu leyti innt af hendi vinnuframlag sitt, enda hafi hann ekki mætt til vinnu eftir 18. nóvember 2002.  Ástæður þess að stefnandi mætti ekki til vinnu sinnar frá því skömmu fyrir hádegi mánudaginn 18. nóvember 2002 séu þær einar að sýslumaður á Keflavíkurflugvelli hafði á fyrrnefndum tíma svipt stefnanda vallarpassa og þar með gert honum ómögulegt að sækja upp frá því vinnu sína innan varnarsvæðisins. 

Telur stefnandi að sýslumanni hafi verið efnislega óheimilt að svipta sig aðgangsheimildinni eins og á stóð.  Þá hafi sýslumaður ekki beitt réttum aðferðum að stjórnsýslurétti, þrátt fyrir að honum hafi verið fullljóst hversu mjög íþyngjandi sviptingin var stefnanda. Hafi sýslumaður ekki gætt andmælaréttar stefnanda samkvæmt 13. gr. laga nr. 37/1993, sbr. 16. gr. rgl. nr. 293/2002, en umrædd reglugerð sé sett með heimild í 10. gr. laga nr. 82/2000. Telur stefnandi að sýslumann hafi skort heimild til að kveða á um fyrirvaralausa bráðabirgðasviptingu og síðar varanlega sviptingu vegna tolllagabrots stefnanda á grundvelli 5. gr. rgl. nr. 293/2002 þar sem umrætt reglugerðarákvæði skorti alla lagastoð. Í nefndri 10. gr. laga nr. 82/2000 sé einungis heimild til að svipta aðgangsheimild varanlega við ítrekuð brot. Svo hafi ekki verið í þessu tilfelli

Brot stefnanda hafi auk þess verið smávægilegt og með sviptingunni hafi sýslumaður brotið á meðalhófsreglu 12. gr. laga nr. 37/1993.

Sömuleiðis hafi sýslumaður ekki leiðbeint stefnanda í þessu efni, svo sem honum hafi þó verið skylt m.a. um málsskotsrétt stefnanda og þar með brotið gegn 7. gr. og 20. gr. laga nr. 37/1993.

Þá hafi sýslumaður látið bráðabirgðasviptinguna standa um nær 6 mánaða skeið þótt honum væri eða mætti vera fullljóst miklu fyrr og jafnvel strax eftir sviptinguna að stefnandi væri saklaus af þeim alvarlegu brotum, sem á hann höfðu verið borin og sviptingin hafi í raun grundvallast á.  Tolllagabrotið eitt sér hefði undir engum kringumstæðum getað orðið lögmætur grundvöllur fyrir hinni alvarlegu réttindasviptingu.  Telur stefnandi þessa harkalegu aðgerð sýslumanns dæmalausa.

Tolllagabrotið hafi hins vegar verið notað á síðari stigum sem yfirskin til að réttlæta alvarlegt klúður við rannsókn, misbeitingu valdheimilda og eftir atvikum valdníðslu.

Framhald og lyktir aðgerða sýslumanns, sem þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni af hálfu stefnanda hafi látið það dragast úr hömlu að ljúka málum gagnvart honum, og þannig  með öllu komið í veg fyrir að hann gæti í nokkru sinnt vinnuskyldum sínum og þá jafnframt að hann fengi notið atvinnuleysisbóta á því tímabili,  hafi í senn falið í sér mikla misbeitingu valds og meinbægni embættismanns íslenska ríkisins.  Á sama tíma gat stefnandi á hinn bóginn ekki gengið í að afla sér annarrar atvinnu, enda var aflahæfi hans bundið varnarliðinu með gildum ráðningarsamningi, og kunni til þess að koma hvenær sem var fram að starfslokum hans, að ómöguleikanum yrði aflétt og hann gæti efnt vinnuskyldu sína, eins og honum bar að gera.  Honum hafi því verið allar bjargir bannaðar fram til loka aprílmánaðar 2003.

Þar sem stefnandi hafi saklaus verið dreginn inn í lögreglurannsóknina sem stefnandi telur stafa af gálausum og óforsvaranlegum vinnubrögðum rannsóknaraðila, telur stefnandi að leggja beri ábyrgð á fjártjóninu á ríkissjóð, enda beri ríkissjóður alla ábyrgð og áhættu á tjóni, er hljótist af beitingu lögregluvalds og beitingu annarra valdheimilda sýslumanns í tilvikum sem þessum, þ.m.t. sviptingu aðgangsheimildar.

 

B.      Annað fjártjón.          

Þá krefst stefnandi bóta fyrir annað fjártjón, sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna sinnuleysis eða óvilja sýslumanns um að ljúka málum hans að fullu með eðlilegum hætti og lögum samkvæmt, allt fram til 29. september 2003.  Um upphaf þessa tímabils telur stefnandi að miða verði að svo stöddu við 18. nóvember 2002, enda hafi engin gögn enn fengist frá sýslumanni, er sýnt geti annað tímamark til viðmiðunar.

Telur stefnandi að vegna framgöngu sýslumanns, sinnuleysis og þá einkum sniðgöngu hans við sett lagaákvæði, hafi hann orðið valdur að gríðarlegri röskun á stöðu og högum stefnanda, sem hann hafi beðið mikið fjárhagslegt tjón af.  

Með því að láta stefnanda ekki í té lögbundna yfirlýsingu samkvæmt 114. gr. laga nr. 19/1991, hafi sýslumaður orðið valdur að eða a.m.k meðvaldur að því að stefnanda tókst ekki að fá neina atvinnu við sitt hæfi frá maíbyrjun til loka september 2003. 

Þar sem fyrir liggi í málinu, að sýslumaður lét ekki yfirlýsinguna af hendi, verði að líta svo á, að það atriði sé ástæða þess að stefnandi fékk hvergi starf á þessum tíma.  Velta verði sönnunarbyrði um hið gagnstæða yfir á stefnda og þá eftir atvikum hvort tjónið verði rakið til meðorsaka, sem stefndi beri ekki ábyrgð á. 

 

C.      Miskatjón.     

Stefnandi hafi einnig saklaus orðið þolandi að mikilli mannorðsskerðingu, þjáningum og öðrum miska vegna hinna gálausu athafna lögreglunnar og sýslumanns sem og af langvarandi sinnuleysi sýslumanns að láta stefnanda í té lögskylda yfirlýsingu um að rannsókn væri hætt út af hinum alvarlegu sakargiftum, þjófnaði og skjalafalsi. 

Að stefnanda sótti mikið þunglyndi og kvíði eftir því sem hann sat lengur í þeirri sjálfheldu, sem hann var kominn í.  Fjárhagur hans og fjölskyldu hans hafi verið á fallanda fæti síðan.  Síðbúin yfirlýsing sýslumanns frá 29. september hafi fengist svo seint að hún nýttist stefnanda ekki nægjanlega við áframhaldandi atvinnuleit, enda hafi kjarkur hans þá farið þverrandi, er hér var komið sögu. Við málshöfðun var stefnandi ennþá atvinnulaus en naut atvinnuleysisbóta.  Hóf hann á haustinu sjálfsstyrkingu, m.a. með endurmenntun á námskeiðum í tölvuvinnslu og bókhaldi.

Með síðastnefndu beinu lagabroti sýslumanns hafi miski stefnanda enn verið aukinn og honum viðhaldið allt fram til loka september 2003, en í öllu falli fram til 8. september 2003.

Þrátt fyrir að sýslumaður hafi, með bréfum stefnanda dags. 8. ágúst og 2. september 2003 báðum símsendum samdægurs, verið sérstaklega krafinn um útgáfu lögskyldrar yfirlýsingar, hafi hann dregið það fram til 29. september 2003 að rækja lagaskyldur sínar með réttum hætti, en þó með tilraun í bréfi sýslumanns í bréfi dags. 8. september 2003 til að gera hlut stefnanda sem verstan og hamla því að hann endurheimti mannorð sitt og mannréttindi með eðlilegum hætti.

Á framanlýstri háttsemi telur stefnandi sýslumann bera fulla ábyrgð. Beri því að bæta stefnanda miskatjónið með fébótum úr ríkissjóði.

Kröfur stefnanda taki bæði til fjártjóns og miska.  Vísar hann um vernd réttinda sinna til mannréttindaákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, VII. kafla,  og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. 

Krefst hann ýtrustu skaðabóta úr hendi ríkisins og grundvallar kröfur sínar á 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1994, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1995, ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991, einkum 175. og 176.  gr. um bætur handa sakborningi, ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 26. gr. sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.  

Þá vísar stefnandi varðandi bótakröfur sínar til ákvæða laga nr. 37/1993, sem þverbrotin hafa verið.

Jafnframt vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins, þ.m.t. reglna um húsbóndaábyrgð.

Um skyldur sýslumanns sem rannsóknaraðila og sem ákæruvalds til að gefa út umrædda yfirlýsingu vísast aðallega til 1. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 26. gr. laga nr. 36/1999, og sbr. 112 gr. s.l.  Einnig vísar stefnandi um þetta efni til 4. mgr. 76. gr. sömu laga.

Þar sem embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli hafi fram að þessu skirrst við að láta af hendi umbeðin og lofuð rannsóknargögn varðandi þátt stefnanda, vísar stefnandi að svo komnu máli jafnframt til þess lagastuðnings fyrir kröfum sínum að framganga hlutaðeigandi opinberra starfsmanna við málsmeðferðina frá öndverðu kunni að fara í bága við 130. – 132. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 54/2003 og sbr. 53. gr. laga nr. 82/1998, og að bótagrundvöllur hafi stofnast fyrir saknæmt atferli og eftir atvikum refsivert.

Krafa um málskostnað er reist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 og eigi stefnandi lögboðinn rétt til gjafsóknar skv. 178. gr. oml. nr. 19/1991.

 

Útlistun stefnukrafna.

Stefnandi krefst í máli þessu skaðabóta samkvæmt kröfuliðum A, B og C, samanlagt að höfuðstól kr. 10.780.477 auk vaxta og málskostnaðar, svo sem nánar greinir í kröfugerð í stefnu.

A.     Fjártjón vegna missis samningsbundinna launa.

Skýringar og sundurliðanir.

Þessi bótakrafa stefnanda sé vegna missis hans á launum og öllum öðrum launatengdum starfskjörum hjá varnarliðinu og sviptingar á aðgangsheimild að varnarsvæðinu þann 18. nóvember 2002 til loka uppsagnarfrests þann 30. apríl 2003.

Vinnutímabil hjá launagreiðanda hefjist á sunnudegi og því miðist eftirfarandi sundurgreining við upphafstímann sunnudag 17. nóvember 2002.  

Auk launa í hefðbundnum skilningi, að fjárhæð kr. 2.517.858,  hafi stefnandi við þetta misst af persónuuppbótum, að fjárhæð (kr. 797.228 + kr. 265.743) = kr. 1.062.971, orlofi (frá 17.11. 2002-30.04. 2003), að fjárhæð kr. 318.609, bifreiðastyrkjum að fjárhæð samtals kr. 204.743,  lífeyrissjóðsframlögum að fjárhæð samtals kr. 233.966 og framlögum í séreignarlífeyrissjóð að fjárhæð samtals kr. 142.329.  Alls nema þessir liðir stefnufjárhæðinni í A lið, kr. 4.480.477.

 

Launatímabil hafi verið miðað við tvær vikur í senn, frá sunnudegi til sunnudags. Eftirfarandi tafla sýni nánari sundurgreiningu dómkröfu undir A lið í launaþætti og tímabil.

 

Launatímabil

Einingar

Kr/einingu

Laun

Bifreiða-

Lífeyris-sjóður

Séreignar-sjóður

Samtals

Samtala v/dráttarvaxta

 

 

 

 

styrkur

 

 

 

 

17.11 - 30.11.2002

75

    2.819,55    

211.466    

17.062    

12.688    

  7.719    

248.935

   248.935

Persónuuppbót

 

 

797.228    

 

47.834    

29.099    

874.161    

1.123.095

01.12 - 14.12.2002

75

    2.819,55    

211.466    

17.062    

12.688    

  7.719    

248.935

1.372.030

15.12 - 28.12.2002

75

    2.819,55    

211.466    

17.062    

12.688    

  7.719    

248.935

1.620.964

29.12.- 11.01.2003

75

    2.819,55    

211.466    

17.062    

12.688    

  7.719    

248.935

1.869.899

12.01 - 25.01.2003

75

    2.819,55     

211.466    

17.062    

12.688    

  7.719    

248.935

2.118.834

26.01 - 08.02.2003

75

    2.819,55    

211.466    

17.062    

12.688    

  7.719    

248.935

2.367.768

09.02 - 22.02.2003

75

    2.819,55    

211.466    

17.062    

12.688     

  7.719    

248.935

2.616.703

23.02 - 08.03.2003

75

    2.819,55    

211.466    

17.062    

12.688    

  7.719    

248.935

2.865.638

09.03 - 22.03.2003

75

    2.819,55    

211.466    

17.062    

12.688    

  7.719    

248.935

3.114.572

23.03 - 05.04.2003

75

    2.819,55    

211.466    

17.062    

12.688    

  7.719    

248.935

3.363.507

06.04 - 19.04.2003

75

    2.819,55    

211.466    

17.062    

12.688    

  7.719    

248.935

3.612.442

20.04 - 30.04.2003

68

    2.819,55    

191.729    

17.062    

11.504    

  6.998    

227.293    

3.839.735

Orlof 17.11-30.4

113

    2.819,55    

318.609    

 

19.117    

11.629    

349.355    

4.189.090

Persónuuppbót

  

 

265.743    

 

15.945    

  9.700    

291.387    

4.480.477

 

Stefnandi hafi á tímabilinu hvorki notið atvinnuleysisbóta né annarra tekna.   Komi því engar fjárhæðir til frádráttar þessum kröfulið.

Við starfslokin 30. apríl 2003 hafi stefnandi uppgert áunnið og uppasafnað orlof fram til 17. nóvember 2002, sbr. framlagðan launaseðil dags. 25. apríl 2003, sbr. og framlagða starfslokatilkynningu dags. 28. apríl 2003. Meiri partur þess uppgjörs hafi verið vegna eldra uppsafnaðs orlofs, sem stefnandi hafði reynt að fá greitt eftir að hann missti vallarpassann, en fékk ekki vegna þess hnúts, sem málið var komið í.  Jók þetta enn frekar á tjón stefnanda (vaxtatjón). Ekki séu hafðar uppi kröfur vegna þessa gagnvart íslenska ríkinu, enda verði þetta alfarið að teljast málefni atvinnuveitandans.

B.      Annað fjártjón.

Skýringar og sundurliðanir.

Tjón stefnanda undir þessum lið er að álitum kr. 5.000.000. 

Telja verði sennilegt að stefnandi hefði við eðlilegar ástæður átt að geta fengið starfsráðningu á hinum almenna vinnumarkaði, sem skilað hefði honum svipuðum tekjum og hann hafði í fyrra starfi.  Út frá þeirri viðmiðun hefði stefnandi átt að geta aflað tekna, sem á tímabilinu hefði numið milli 4 og 5 milljónum króna. 

Þá hafi stefnandi haft ýmsan kostnað af atvinnuleitinni og af því erfiða fjárhagsumhverfi, sem hann hafi búið við eftir launamissi í nærri hálft ár fram til aprílloka.

Einnig hafi hann haft talsverðan kostnað af lögfræðiaðstoð fram að lokum septembermánaðar, en sú aðstoð hafi verið stefnanda mjög nauðsynleg til að stíga fyrstu skref í að rétta hlut hans, m.a. með því að knýja fram skýr svör um málalyktir.

C.      Miskatjón.

Skýringar og sundurliðanir.

Stefnandi telur rangar athafnir sýslumanns annars vegar og sinnuleysi hans hins vegar um brýna hagsmuni stefnanda hafa falið í sér meingerð gegn æru hans og mannréttindum.

Hann krefst því miskabóta fyrir handtöku og frelsissviptingu 15. nóvember 2002, sem hann telur hafa verið óréttmæta og ólöglega.  Hafi sýslumaður byggt valdbeitingu sína á röngum forsendum.  Frelsissviptingin hafi staðið lengur en þörf var á og ekki hafi verið farið að því lagaboði 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar að leiða handtekinn mann án undandráttar fyrir dómara. 

Með sömu rökum krefst hann miskabóta fyrir húsleit á heimili hans þann 15. nóvember 2002. Telur stefnandi að sýslumaður hafi í beiðni sinni til Héraðsdóms Reykjavíkur lagt fyrir dóminn rangar forsendur, sem sýslumanni var eða mátti vera ljóst að voru rangar, þótt dómara hafi dulist það.

Þá lúti miskabótakrafa stefnanda einnig að langvarandi haldi lögreglu á eigum hans, sem stefnandi telur að hafi verið með öllu þarflaust.  Í  tölvu hans hafi engin gögn verið varðandi meint brot hans, hvorki hegningarlagabrotin eða tolllagabrotið. Sama máli hafi gegnt um hina haldlögðu diska, sem einungis hafi haft að geyma forrit og fleiri þess háttar gögn.  Afar brýnt hafi hins vegar verið fyrir stefnanda og heimilisfólk hans að hafa þessar eigur til afnota. Telur stefnandi að lögreglu hafi í raun nægt í mesta lagi nokkrar klukkustundir til að fullvissa sig um þetta eða afrita öll gögn.

Stefnandi hafi krafist þess stöðugt frá upphafi í símtölum til embættisins að fá eigurnar til baka. Eigunum hafi þrátt fyrir það verið haldið fram til 7. janúar 2003, (heimilistölva) og fram til 20. febrúar 2003 öðrum haldlögðum eigum, s.s. tölvufor­ritum, tölvudiskum og fleiru.  Kröfufjárhæð miskabóta fyrir þennan lið sé kr. 1.300.000.

Þá krefst stefnandi bóta fyrir miskatjón, sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna sinnuleysis eða óvilja sýslumanns um að ljúka málum hans að fullu með eðlilegum hætti og lögum samkvæmt allt fram til 29. september 2003. Um upphaf þessa tímabils telur stefnandi að miða verði að svo stöddu við 18. nóvember 2002, enda hafi engin gögn enn fengist frá sýslumanni, er sýnt geti annað tímamark til viðmiðunar.

Vaxtakröfu sé í hóf stillt og einungis krafist vaxta af miskabótunum frá því eftir lok áðurnefnds tímabils, eða frá 01. október 2003.

Vaxtakröfur

Vaxtakröfu vegna dómkröfuliða B og C sé í hóf stillt.  Einungis sé krafist vaxta af þeim bótaliðum frá 1. október 2003, að fenginni yfirlýsingu frá 29. september 2003.

 

Málsástæður stefnda

             Stefnandi hafi gert þrenns konar fjárkröfur á hendur stefnda. Byggir hann meðal annars á því að sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli beri ábyrgð á ætluðu tjóni sínu þar sem af hálfu embættisins hafi ranglega og með saknæmum hætti verið komið á lögreglurannsókn, húsleit og handtöku. Þá hafi sýslumaður að mati stefnanda „með saknæmum hætti sniðgengið lagaskyldur sínar á sviði stjórnsýsluréttar og laga um meðferð opinberra mála og þannig valdið tjóni og viðhaldið afleiðingum þess“.

          Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistum. Byggir stefndi á því að rökstuddur grunur um brot sem sætt getur ákæru hafi verið fyrir hendi, sem réttlætti handtöku og húsleit. Umfangsmikil rannsókn hafi farið fram á ætluðum brotum stefnanda sem talin voru geta varðað við 155. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eins og fram er komið varð lögreglan vör við að fluttar voru út af varnarsvæðinu tvær bifreiðar frá söludeild afgangsvöru Varnarliðsins (DRMO) þar sem stefnandi var yfirmaður án þess að þær væru keyptar af Umsýslustofnun varnarmála. Þótti rannsókn leiða í ljós að stefnandi hefði afhent þessar bifreiðar frá DRMO undir því yfirskyni að þær hefðu verið seldar Umsýslustofnun varnarmála, þótt honum hafi verið fullkunnugt um að svo hafi ekki verið. Á þessum grundvelli hafi verið heimiluð húsleit hjá stefnanda.

          Stefndi byggir á því að brýnt og lögmætt tilefni hafi verið til að hrinda af stað rannsókn á ætluðum brotum stefnanda og handtaka hann í þágu rannsóknar málsins. Vísar stefndi einkum til 97. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 89. gr., sbr. 90. gr. sömu laga að því er varðar húsleit. Til grundvallar húsleitinni hafi legið úrskurður héraðsdóms til leitar eins og lög standi til.

          Stefndi byggir þannig á því að fyrir hendi hafi verið rökstuddur grunur um brot sem sætt geti ákæru og í tengslum við þá rannsókn hafi komið  í ljós að stefnandi hafði að sönnu framið tollalagabrot, sem hann hafi undirgengist sektargjörð í. Þá liggi fyrir að stefnandi hafði stundað viðskipti við varnarliðið eða varnarliðsmenn með ólögmætum hætti. Því sé alfarið hafnað að umrætt tollalagabrot hafi verið óskylt öðrum sem rannsóknin beindist að. Að sjálfsögðu hafi ekkert mælt gegn því að það væri tilgreint undir sama málsnúmeri og varðaði ætluð brot önnur. Þvert á móti hafi þau verið upplýst í beinum tengslum við rannsókn á því hvort stefnandi ætti hlut að ólögmætum viðskiptum og refsiverðri háttsemi með vörur úr eigu varnarliðsins.

          Við skýrslutöku af stefnanda þann 15. nóvember 2002 (kl. 20:09) hafi hann viðurkennt að hafa staðið að viðskiptum og flutningi umræddra bifreiða. Við skýrslu­töku síðar um kvöldið viðurkenndi stefnandi einnig að hafa keypt dekk undir bíl sinn, pantað varahluti í hann og þegið viðhaldsþjónustu um olíuskipti. Öll slík viðskipti séu óheimil að lögum, sbr. meðal annars b lið 7. töluliðs 8. gr. viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra við lög nr. 110/1955 um lagagildi varnar­samningsins milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Banda­ríkjanna og eignir þess. Þá hafi umrædd viðskipti einnig verið í trássi við lög nr. 82/2000, einkum 3. og 4. gr. Af þessu leiddi að viðskipti stefnanda voru andstæð reglugerð nr. 227/1995 sem þá gilti um Umsýslustofnun varnarmála, sbr. nú reglugerð nr. 902/2002 um ráðstöfun afgangsvöru varnarliðsins.

          Hafa verði í huga að um sé að ræða varnarsvæði þar sem flotastöð bandaríska hersins hafi aðsetur og því háð ströngum öryggiskröfum. Jafnframt sé þar alþjóðlegur flugvöllur og uppfylla þurfi afar ströng skilyrði um aðgang að honum. Þar fyrir utan sé varnarsvæðið tollfrjálst svæði og því ríkar kröfur til þeirra sem aðgang hafa af því hvað varðar trúnað og ábyrgð. Stefndi leggur áherslu á að lögum samkvæmt eigi fólk almennt ekki frjálsa för um varnarsvæðið heldur því aðeins að það eigi lögmætt erindi þangað og hafi fengið gilda aðgangsheimild, útgefna af sýslumanninum á Keflavíkur­flugvelli. Heimilt sé að takmarka eða synja um aðgangsheimild af öryggisástæðum eða ef allsherjarregla krefst þess.  Um þetta sé mælt fyrir í 10. gr. laga nr. 82/2000, en þar sé ákveðið að utanríkisráðherra skuli í reglugerð kveða nánar á um för manna inn og út af varnarsvæðunum og um dvöl manna á þeim. Brot á þeim reglum varða tímabundinni sviptingu aðgangsheimildar samkvæmt ákvörðunum sýslumanns eða varanlegri við ítrekuð brot. Sérlega alvarleg brot varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

          Sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli hafi verið  rétt og skylt að svipta stefnanda tímabundið aðgangsheimildinni svo sem gert var þann 18. nóvember 2002 á grundvelli 5. gr. reglugerðarinnar enda hafi verið fyrir hendi rökstuddur grunur um að stefnandi hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þessi rökstuddi grunur hafi meðal annars byggst á viðurkenningu stefnanda í skýrslutökum og hafi fyllilega verið efni til að svipta hann heimildinni fyrirvaralaust.

          Í 3. gr. reglugerðar nr. 293/2002 um umferð og dvöl manna á varnarsvæðunum sé sérstaklega áréttað að skylt sé að hlíta boðum og bönnum íslenskra yfirvalda og varnarliðsins innan varnarsvæðanna, eftir því sem við á. Þá sé skylt að því er varðar umferð og umgengni um varnarsvæðin að virða sérstöðu þeirra sem varnarsvæða og hlíta fyrirmælum sem lúti að öryggismálum. Í 5. gr. reglugerðarinnar segi að heimilt sé að afturkalla leyfi tímabundið eða að fullu og öllu fyrirvaralaust ef brýna nauðsyn beri til að vernda öryggishagsmuni ríkisins, grundvallaröryggi í starfsemi varnarliðsins eða liðsmanna þess, almannahagsmuni eða allsherjarreglu á svæði varnarstöðvarinnar með þeim hætti, svo og ef grunur leikur á um að leyfishafi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi. Ákvæði greinarinnar, sem heimili fyrirvaralausa sviptingu aðgangsheimildar, eigi sér fullnægjandi lagastoð. Eins og fyrr sé lýst liggi fyrir að viðskipti stefnanda hafi ítrekað verið í trássi við lög eins og hann hafi viðurkennt. Þá hafi hann einnig verið fundinn sekur um refsivert brot. Af þessum ástæðum hafi verið rétt og skylt að svipta hann aðgangsheimildinni varanlega með vísan til 10. gr. laga nr. 82/2002. Löggjafinn hafi einnig mælt fyrir um að reglur um umferð og dvöl á svæðunum skuli settar í reglugerð. Þær efnisreglur eigi beina stoð í lögum og þar af leiðandi séu viðurlög við broti á þeim, eins og þau að menn verði sviptir aðgagnsheimild.

          Á þeim tíma þegar stefnandi var sviptur aðgangsheimildinni tímabundið eða 18. nóvember 2002 hafði það gerst að hann hafi viðurkennt í skýrslutökum stuttu fyrr eða 15. sama mánaðar að hafa afhent tvær bifreiðar frá DRMO án þess að þær væru keyptar af Umsýslustofnun varnarliðsins. Hann hafi einnig viðurkennt að hafa keypt dekk undir bíl sinn gegnum varnarliðsmann, pantað varahluti með sama hætti og látið skipta um olíu á bíl sinn. Þá hafði hann í raun viðurkennt tollalagabrot. Þannig hafi verið ljóst að hann hafði brotið trúnað gagnvart vinnuveitanda sínum og aðhafst í trássi við þær íslensku réttarreglur sem varða samskipti Íslands við varnarliðið. Sé meðal annars um að ræða þær reglur sem heimildir til aðgangs Íslendinga að varnarsvæðinu taki mið af og þannig hafði stefnandi gerst brotlegur við reglur, beinlínis í krafti þeirrar réttarstöðu sinnar að hafa á hendi aðgangsheimild. Ekki eigi þetta aðeins við um tollalagabrot stefnanda sem var refsivert heldur einnig réttarbrot þau að stunda bein viðskipti við varnarliðið, en augljóslega hafi brot hans verið ítrekuð. Af þessu sjáist að þegar stefnandi var sviptur aðgangsheimildinni tímabundið hafi í raun verið komin fram skilyrði þess að svipta mætti henni varanlega, sem þó hafi ekki verið gert fyrr en 1. apríl 2003. Þannig hafi varanleg svipting aðgangsheimildarinnar farið fram áður en uppsagnarfrestur sem stefnanda var veittur af vinnuveitanda sínum var liðinn.

          Stefnandi hafi ítrekað fengið að tjá sig áður en hann var sviptur aðgangs­heimildinni varanlega.  Telur stefnandi því með engu móti um að ræða brot gegn 13. gr. stjórnsýslulaga eða 16. gr. reglugerðar nr. 293/2002. Honum mátti vera ljóst og það lá fyrir að hann hafði framið refsivert brot, beinlínis í krafti þeirrar réttarstöðu sinnar að hafa á hendi aðgangsheimild. Stefndi byggir sérstaklega á því að gagnvart 13. gr. stjórnsýslulaga, þegar að varanlegri sviptingu kom, hafi afstaða stefnanda legið ljós fyrir og óþarft að óska eftir sérstökum andmælum stefnanda. Stefndi mótmælir því að meðalhófsregla hafi verið brotin, enda hafi honum verið skylt að lögum að svipta stefnanda aðgangsheimildinni.

          Þá byggir stefndi einnig á því að þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að and­mælaréttar hafi ekki verið gætt nægjanlega liggi engu að síður fyrir að lagaskilyrði hafi verið til varanlegrar sviptingar aðgangsheimildar og hafi stefnandi ekki sýnt fram á annað eða gert líklegt að hann hefði fengið aðgangsheimild að nýju. Bótakrafa stefnanda sé því allt að einu óraunhæf og ætlað tjón geti ekki verið afleiðing af málsmeðferðinni.  Í því efni er einnig á því byggt að stefnandi kærði ekki umrædda ákvörðun til utanríkisráðuneytisins til endurskoðunar, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 293/2002, heldur undi henni.  Í þessu efni er bent á að burtséð frá kæruleiðbeiningum séu menn í aðstöðu til að nýta sér kæruheimildir á grundvelli birtra réttarreglna. Við það bætist að stefnanda hafi verið skylt að kynna sér ákvæði reglugerðar nr. 293/2002, sbr. 2. mgr. 5. gr. hennar, og undirritaði yfirlýsingu þess efnis.  Þannig eigi dómkröfur stefnanda sér enga stoð í 7. eða 20. gr. stjórnsýslulaga.

          Þá er tekið fram af hálfu stefnda að allt frá því að stefnandi hafði samband við embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli um áramót 2002/2003 og fram að þeim tíma er gengið var frá sektargerðinni, hafði honum og lögmanni hans verið gerð grein fyrir því að í ljósi tollalagabrots hans meðal annarra sem bæði embættið og varnarliðið litu alvarlegum augum, yrði honum ekki veitt aðgangsheimild að nýju og að við lok rannsóknarinnar mætti hann búast við að verða formlega sviptur henni. Hafi  stefnandi engar athugasemdir gert við sviptinguna sem fram fór 1. apríl 2003 fyrr en lögmaður hans spurðist fyrir um hana löngu síðar eða með bréfi, dags. 8. ágúst 2003, og gerði síðan athugasemdir við hana með bréfi, dags. 21. nóvember 2003.    Stefnanda hafi verið sagt upp störfum af hálfu varnarliðsins. Eftirmálar þeirrar ákvörðunar varði aðeins réttarsamband hans við varnarliðið en stefnandi hafi ekki beint dómkröfum sínum að stefnda vegna þess heldur aðeins vegna aðgerða sýslu­mannsins á Keflavíkurflugvelli. Stefndi vegna sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli eigi því enga aðild að málinu að því er varðar kröfu um óuppgerð laun eða bætur í þeirra stað, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hafi byggt á því að hann hefði á grundvelli loforðs starfsmannastjóra hjá varnarliðinu fengið uppgerð full laun ef hann hefði mætt í einn dag með heimild sýslumanns. Fyrir þessari fullyrðingu sé engin stoð í gögnum málsins og sé hún sérstaklega ósennileg. Er því mótmælt sem ósönnuðu að loforð hafi verið gefið þessa efnis af hálfu starfsmannahalds varnarliðsins.

          Fyrir liggi í málinu bréf frá Starfsmannahaldi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli frá 29. janúar 2003 þar sem stefnanda var sagt upp störfum. Ekki séu tilgreindar ástæður fyrir uppsögninni. Þegar bréfið var ritað hafði stefnandi ekki verið sviptur aðgangsheimildinni varanlega. Gera verði ráð fyrir því að vinnuveitandi stefnanda hafi sagt honum upp störfum á eigin forsendum. Þannig geti ekki staðist að svipting vallarpassans ein og sér hafi valdið uppsögninni heldur atriði sem vörðuðu réttar­samband stefnanda við varnarliðið. Hvort sem lagt yrði til grundvallar sé engu að síður ljóst að tjón stefnanda sé alfarið vegna eigin sakar hans og háttsemi.

          Stefnandi hafi í málatilbúnaði sínum ítrekað byggt á því að hann hafi verið saklaus, en þrátt fyrir það misst starf sitt, laun og aðra möguleika í kjölfarið. Telur hann sig hafa verið saklausan dreginn inn í lögreglurannsókn. Stefndi áréttar að þetta sé ekki rétt því hann hafi að sönnu verið fundinn sekur um refsivert brot sem upp hafi komist við rannsókn lögreglu. Slíkt brot hafi á engan hátt verið smávægilegt, síst af öllu miðað við þann trúnað sem stefnanda hafði verið sýndur vegna eðlis starfs síns og með því að hann hafði aðgangsheimild að varnarsvæðinu. Þá hafi hann verið undir rökstuddum grun um stórfelldari brot.

          Stefndi byggir á því að bótaskilyrði 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 séu í engu uppfyllt. Lögmætt tilefni hafi verið til handtöku, húsleitar og rannsóknar sem fyrr sé lýst. Rannsóknin hafi alls ekki tekið of langan tíma að mati stefnda og með engum hætti sé unnt að segja að grunur hafi beinst frá stefnanda eftir húsleitina heldur þvert á móti. Hvergi sé komið fram annað en að rannsókn málsins hafi farið fram í samræmi við lög og atriði honum til hagsbóta vegin með. Verði ekki fram hjá því litið að stefnandi hafi ekki verið saksóttur fyrir annað en tollalagabrotið, þótt hann hefði viðurkennt að hafa komið að viðskipum með bifreiðar í gegnum DRMO fram hjá Umsýslustofnun varnarmála.

          Umfram það sem framan segir mótmælir stefndi fjárkröfum stefnanda sérstaklega. Í fyrsta lagi er mótmælt tölulegri viðmiðun bóta vegna launa og tímabili, enda um að ræða launamissi vegna ákvörðunar vinnuveitanda hans en ekki vegna aðgerða sýslumanns. Þá mótmælir stefndi sérstaklega þeim þáttum í útreikningi sem ætla verður að séu kostnaðargreiðslur og því háðar vinnuskyldu og viðveru eins og bifreiðastyrk, svo og framlaga í lífeyrissjóði og séreignasjóð.

          Kröfum undir lið B er mótmælt sérstaklega sem órökstuddum.  Ætlað tjón undir þessum lið sé ósannað og því mótmælt sem röngu. Til að mynda hafi stefnandi ekki lagt fram atvinnuumsóknir eða annað sem sanni að hann hafi takmarkað tjón sitt. Ætlað tjón sé undir engum kringumstæðum afleiðing af aðgerðum sýslumanns­embættisins á Keflavíkurflugvelli. Áætlað tímabil feli ýmist í sér tvíreiknað tjón miðað við lið A og sé að öðru leyti óraunhæft. Hvergi sé útlistað hvaða tímabil sé um að ræða og engin gögn komi fram um lögfræðikostnað þann sem nefndur sé til sögunnar, en hafi hann verið einhver hafi hann verið á ábyrgð stefnanda.  Þá hafi stefnandi ekki óskað eftir skipuðum verjanda meðan á lögreglurannsókninni stóð. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á neitt samhengi þess að hafa ekki fengið vinnu og þess hvenær stefnanda hafi verið ritað bréf að beiðni lögmanns hans.

          Stefndi mótmælir einnig kröfum undir lið C. Miskabótakröfu stefnanda er eindregið mótmælt. Ákvarðanir sýslumanns hafi verið teknar á grundvelli laga og reglna samkvæmt embættisskyldu, hvort sem sé vegna rannsóknar opinbers máls eða varðandi aðgangsheimildir að varnarsvæðinu. Á engan hátt hafi stefnanda verið valdið þjáningum eða mannorðsskerðingu. Engin gögn hafi verið lögð fram um þunglyndisástand stefnanda eða kvíða og sé fullyrðingum stefnanda um það mótmælt sem ósönnuðum. Handtaka stefnanda hafi staðið stutt í samræmi við réttarreglur þar að lútandi og hafi hann ekki verið leiddur fyrir dómara þar sem ekki hafi komið til þess að krefjast gæsluvarðhalds. Því sé eindregið mótmælt að lagðar hafi verið fyrir dómara rangar upplýsingar þegar aflað var heimildar til húsleitar. Miskabætur vegna halds á munum eigi sér enga stoð að mati stefnda, en haldlögðum munum hafi ekki verið haldið óeðlilega lengi.

          Stefnandi hafi ekki að því er virðist látið reyna á rétt sinn til atvinnuleysisbóta, en með engu móti sé unnt að útiloka að hann hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum. Slíkar bætur að álitum bæri því að virða til frádráttar ætluðu tjóni og það að stefnandi hafi engin gögn lagt fram um atvinnuumsóknir eða viðleitni til að takmarka tjón, sé því til að dreifa. Skorað er á stefnanda að leggja fram skattframtöl vegna tekna árið 2003 og gögn um tekjur á þessu ári.

          Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda reistum á 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 112. gr. og 76. gr. sömu laga. Bótakröfur stefnanda eigi enga stoð í þessum ákvæðum eða athöfnum sýslumanns og efni bréfa á þessum grundvelli. Í raun hafi engin skylda verið til að tilkynna sérstaklega um að máli stefnanda væri lokið varð­andi aðra þætti rannsóknarinnar, enda hafi henni lokið með sektargerð fyrir tollalagabrot.

          Stefnandi hafi stefnt íslenska ríkinu vegna aðgerða lögreglunnar á Keflavíkur­flugvelli og sama aðila í raun og utanríkisráðherra fyrir þess hönd einnig til réttargæslu fyrir hönd varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þar sem engar kröfur séu gerðar á hendur réttargæslustefnda telur stefndi ekki fært að veita stefnanda neinn þann styrk í málinu fyrir hönd varnarliðsins í málatilbúnaði hans á hendur íslenska ríkinu með þeim hætti sem 21. gr. laga nr. 91/1991 geri ráð fyrir, en í málinu sé tilgangur réttargæslustefnu í engu útskýrður.

          Til stuðnings varakröfu stefnda um stórfellda lækkun er vísað til alls framan­ritaðs. Er sérstaklega í því tilviki vísað til eigin sakar stefnanda. Þá er dráttarvaxtakröfum stefnandi mótmælt, einkum upphafstíma dráttarvaxta.

          Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað er í öllum tilvikum vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í stefnu séu óviðeigandi og röng ummæli í þá veru að sýslumannsembættið hafi rangfært skýrslur og rannsakað málið með þeim hætti að varði við refsilög. Fyrir þessum aðdróttunum er engin stoð og er þeim mótmælt. Telur stefndi að við ákvörðun málskostnaðar beri að líta til þessara röngu staðhæfinga af hálfu stefnanda, sbr. 131. gr. laga nr. 19/1991.

 

Niðurstaða

Í 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 293/2002 um umferð og dvöl manna á varnarsvæðum er fjallað um aðgangsheimildir að varnarstöðinni, sbr. 10. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að íslenskum starfsmönnum og öðrum sem séu ekki á ábyrgð varnarliðsins sé því aðeins heimilt að ferðast um eða dvelja á svæði varnarstöðvarinnar að þeir eigi þangað lögmæt erindi og hafi gilda aðgangsheimild sem sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli gefur út.  Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar er heimilt að afturkalla leyfi tímabundið eða að fullu og öllu fyrirvaralaust ef brýna nauðsyn ber til að vernda öryggishagsmuni ríkisins, grund­vallaröryggi í starfsemi varnarliðsins eða liðsmanna þess, almannahagsmuni eða allsherjarreglu á svæði varnarstöðvarinnar með þeim hætti, svo og ef grunur leikur á  um að leyfishafi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi. 

          Þegar ákvörðun sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli um að að svipta stefnanda aðgangsheimild að varnarsvæðinu tímabundið var tekin 18. nóvember 2002 lá fyrir viðurkenning stefnanda á því að hann hafði afhent tvær bifreiðar frá söludeild afgangsvöru varnarliðsins DRMO, sem átti að farga, út af varnarsvæðinu án heimildar. Þá lá jafnframt fyrir viðurkenning stefnanda á því að hann hafði fyrir milligöngu varnarliðsmanns keypt dekk undir bifreið sína og pantað í hana varahluti. Þá var hafin  rannsókn á hendur honum og öðrum aðila vegna gruns um refsiverða háttsemi, sem tengdist fyrrgreinda tilvikinu. Þegar litið er til atvika máls að þessu leyti, svo og þess að stefnandi gegndi yfirmannsstöðu hjá varnarliðinu á þessum tíma (Property Disposal Officer) er fallist á að tilefni hafi verið til að afturkalla aðgangsheimild hans að varnarsvæðinu tímabundið meðan rannsókn málsins stæði yfir.

Stefnanda var kynnt framangreind ákvörðun sýslumanns samdægurs af tveimur lögreglumönnum á vinnustað sínum á Keflavíkurflugvelli. Honum var gert að afhenda lykla og vallarpassa, og síðan fylgt út af varnarsvæðinu. Stefnanda var hvorki gefinn kostur á því að neyta andmælaréttar áður en ákvörðun var tekin né leiðbeint um það að ákvörðunina mætti kæra til utanríkisráðuneytisins, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. reglugerðar nr.  293/2002, sbr. og 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, var skylt að gæta and­mælaréttar stefnanda. Hér var um mjög íþyngjandi ákvörðun að ræða fyrir stefnanda og framangreindar ástæður sviptingarinnar upphófu ekki andmælarétt hans. Þessi málsmeðferð var til þess fallin að valda stefnanda réttarspjöllum og vafa þar að lútandi ber að skýra stefnanda í hag. Verður því talið að stefnandi eigi rétt til bóta úr hendi stefnda að því marki, sem ætla má að ákvörðun þessi hafi bakað honum tjón.

          Guðni Jónsson, starfsmannastjóri varnarliðsins, skýrði frá því fyrir dómi að uppnámið, sem fyrrgreind rannsókn olli og fjarvera stefnanda frá vinnu, hafi leitt til þess að stefnanda var sagt upp starfi frá og með 1. febrúar 2003. Ekki hafi verið um að ræða brottvikningu vegna þess að hann hefði brotið af sér í starfi.

          Þótt ekki verði séð að stefnanda hafi með formlegum hætti verið gefinn kostur á því að neyta andmælaréttar síns áður en ákvörðun um að svipta hann varanlega aðgangsheimild að varnarsvæðinu var tekin með bréfi sýslumannsins á Kefla­víkurflugvelli, dags. 1. apríl 2003, þá liggur fyrir að stefnandi hafði næg tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en til þess kom.  Fallast má á það með stefnda að þau atvik, sem urðu þess valdandi að stefnandi var sviptur aðgangsheimildinni tímabundið og sú staðreynd að hann hafði undirgengist sáttargerð 28. mars 2003 vegna tollalagabrots hafi gert það að verkum að heimilt hafi verið að afturkalla aðgangsheimild hans að varnarsvæðinu að fullu og öllu samkvæmt 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 293/2002, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 82/2000.  Ekki er fallist á að með sviptingunni hafi meðalhófsregla 12. gr. laga nr. 37/1993 verið brotin, þegar virt eru þau atvik, sem að baki lágu.

          Eftir atvikum verða stefnanda ákvarðaðar bætur fyrir fjártjón að álitum samkvæmt kröfulið A að fjárhæð 1.000.000 krónur.  Skal sú fjárhæð bera vexti frá þingfestingardegi eins og í dómsorði greinir. Ekki er fallist á málsástæðu stefnda um aðildarskort, enda var íslenska ríkinu einnig stefnt til réttargæslu vegna varnarliðsins.            Fallist er á það með stefnda að kröfur stefnanda til bóta fyrir annað fjártjón samkvæmt kröfulið B séu með öllu órökstuddar og ósannaðar.  Ekki hefur verið rennt sérstökum stoðum undir þá málsástæðu stefnanda að vanræksla sýslumanns á því að tilkynna um niðurfellingu saksóknar samkvæmt 114. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála hafi valdið því að stefnanda hafi ekki tekist að fá vinnu frá maíbyrjun til loka september 2003.  Þá eru ekki efni til ákvörðunar bóta samkvæmt þessum lið samhliða bótum samkvæmt kröfulið A sem fyrr greinir. Fjárkröfu samkvæmt kröfulið B er því hafnað.

          Varðandi miskabótakröfu stefnanda samkvæmt kröfulið C er ekki fallist á að grundvöllur bóta sé fyrir hendi vegna húsleitar, handtöku og frelsissviptingar, eins og hér stóð á, sbr. XXI. kafla laga nr. 19/1991. Rökstuddur grunur lá fyrir um refsiverða háttsemi og aðgerðir þessar gagnvart stefnanda tóku ekki óeðlilega langan tíma. Ekki kom til þess að leiða þyrfti stefnanda fyrir dómara vegna rannsóknar málsins. Fallast má á það með stefnanda að dregist hafi að óþörfu að skila haldlögðum munum, en það eitt út af fyrir sig leiðir ekki til miskabóta. Þá skortir að öðru leyti gögn til stuðnings miskabótakröfunni, svo sem vottorð um andlegt heilsufar stefnanda, og ekki hefur verið sýnt fram á að stefnandi hafi á því tímabili sem hér um ræðir látið reyna á rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Þá eru heldur ekki efni til ákvörðunar bóta samkvæmt þessum lið samhliða bótum samkvæmt kröfulið A sem fyrr greinir. Miskabótakröfu samkvæmt kröfulið C er því hafnað.

          Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn í málinu. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Björns Ólafs Hallgrímssonar hrl. 750.000  krónur með virðisaukaskatti.

          Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

          Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Alberti Sævari Þorvaldssyni, 1.000.000 krónur, ásamt  dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. mars 2004 til greiðsludags.

          Málskostnaður fellur niður.

          Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Björns Ólafs Hallgrímssonar hrl., 750.000 krónur með virðisaukaskatti.