- Ærumeiðingar
- Tjáningarfrelsi
- Ómerking ummæla
|
Fimmtudaginn 30. apríl 2009. |
Nr. 475/2008. |
Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir (Hreinn Loftsson hrl.) gegn Ásgeiri Þór Davíðssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Ómerking ummæla. Skaðabætur.
Dæmd voru dauð og ómerk ýmis ummæli í grein í tímaritinu J. Féllst Hæstiréttur á með Á að í tímaritsgreininni hefðu falist aðdróttanir um refsiverða háttsemi. Hins vegar var talið að tvenn ummæli í greininni væru almenns eðlis og beint að ótilgreindum mönnum en ekki Á. Voru J og I því sýknuð af kröfu Á um ómerkingu þessara ummæla. Voru Á dæmdar 500.000 krónur í miskabætur. Þá var fallist á að skilyrði væru til að dæma J og I til greiðslu kostnaðar til að standa straum af birtingu dóms í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 1. september 2008. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara að lækkunar á fjárkröfu hans. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi höfðaði mál þetta á hendur áfrýjendum í tilefni ummæla í tímaritsgrein ritaðri af áfrýjendum er birtist í 6. tölublaði Ísafoldar í júní 2007. Eins og nánar greinir í héraðsdómi var um að ræða ummæli flokkuð í stafliði frá a til v og voru eftirfarandi ummæli í stafliðum a, c, d, i, m, n og o dæmd ómerk: Stafliður a: „Flest bendir til þess að mansal sé stundað í Kópavogi.“ Stafliður c: „Strax við komuna taka yfirmenn þeirra jafnvel flugmiðana eða vegabréfin af þeim. Þær verða að vinna fyrir farmiða og kostnaði áður en þær vinna sér inn réttinn til að yfirgefa staðinn.“ Stafliður d: „Og þeir sem láta sig málið varða vita að aðstæður þeirra hafa ekkert með list að gera, heldur mansal. Þetta eru stúlkurnar á Goldfinger.“ Stafliður i: „Umboðsmenn eru mafía“. Stafliður m: „Stúlkan segist geta fullyrt að aðstæður austur-evrópsku stúlknanna á Goldfinger flokkist undir mansal.“ Stafliður n: „Og þær voru mjög hræddar við eigandann og hans fólk. Enda var alltaf sagt: „Hér kemur Geiri og hirðin.“ Er þetta ekki mansal?“ Stafliður o: „Mansalið í Kópavogi“.
Í umræddri tímaritsgrein segir að samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu geti mansal falist í því að smala, flytja og jafnvel selja fólk, eða taka á móti því með þvingunum eða hótunum um ofbeldi. Mansal geti einnig verið brottnám, svindl, valdamisnotkun eða misnotkun á neyð í þeim tilgangi að nota manneskjur kynferðislega. Samþykki þess, sem er fórnarlamb mansals, skipti engu máli í tilvikum þar sem einhverjum þessum aðferðum hefur verið beitt. Með öðrum orðum flokkist það undir mansal að flytja fólk milli landa og hagnast á því að notfæra sér neyð þess. Í málinu hafa áfrýjendur vísað til þess að hér hafi þau í huga samning Sameinuðu þjóðanna frá 15. nóvember 2000 gegn fjölþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi. Til þessa samnings er skírskotað í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 40/2003 og færði í almenn hegningarlög nr. 19/1940 ákvæði 227. gr. a. um mansal. Er fallist á með stefnda að í tímaritsgreininni hafi falist aðdróttanir um refsiverða háttsemi. Með þessum athugasemdum er staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ómerkja beri ummæli í stafliðum a, d, m, n og o.
Í umræddri tímaritsgrein eru almennar lýsingar á því að sumar stúlkur sem koma til landsins til starfa á nektardansstöðum greiði erlendri umboðsskrifstofu fimmtíu þúsund krónur svo þær komist úr landi. Umboðsskrifstofan sendi þær svo áfram og skipuleggi ferð fyrir þær. Þegar komið sé til landsins sé flugmiðinn tekinn af þeim en ólíkt því sem áður hafi verið haldi þær vegabréfi. Í dag sé farið með þessar stúlkur betur en gert hafi verið fyrir nokkrum árum. Í það minnsta á Íslandi. Þegar þessi lýsing er höfð í huga að virtu orðalagi í ummælum í stafliðum c og i verður að telja þau almenns eðlis og beint að ótilgreindum mönnum en ekki stefnda. Verða áfrýjendur því sýknuð af kröfu hans um ómerkingu þessara ummæla.
Stefndi á rétt á miskabótum úr hendi áfrýjenda samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og verða þær ákveðnar 500.000 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir. Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að skilyrði séu til að dæma áfrýjendur til greiðslu kostnaðar til að standa straum af birtingu dóms í málinu með þeirri fjárhæð sem þar var ákveðin. Þá verður staðfest ákvæði héraðsdóms um málskostnað.
Eftir þessum úrslitum verða áfrýjendur dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Framangreind ummæli í stafliðum a, d, m, n og o skulu vera dauð og ómerk.
Áfrýjendur Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir greiði óskipt stefnda, Ásgeiri Þór Davíðssyni, 800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 500.000 krónum frá 13. október 2007 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjendur greiði óskipt stefnda 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2008.
Mál þetta var höfðað 7. september 2007 og dómtekið 8. f.m.
Stefnandi er Ásgeir Þór Davíðsson, Melaheiði 3, Kópavogi.
Stefndu eru Jón Trausti Reynisson, Vesturgötu 73, Reykjavík og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, Sólvallagötu 48, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Þess er krafist að eftirfarandi ummæli, í stafliðum a til v, sem stefndu viðhöfðu og birtu um stefnanda og veitingastað hans Goldfinger í tímaritsgrein á blaðsíðum 106 til 110 í 6. tölublaði, 2. árgangs Ísafoldar í júní 2007, verði dæmd dauð og ómerk:
a. Flest bendir til þess að mansal sé stundað í Kópavogi.
b. Þær segja vændi vera stundað á staðnum.
c. Strax við komuna taka yfirmenn þeirra jafnvel flugmiðana eða vegabréfin af þeim. Þær verða að vinna fyrir farmiða og kostnaði áður en þær vinna sér inn réttinn til að yfirgefa staðinn.
d. Og þeir sem láta sig málið varða vita að aðstæður þeirra hafa ekkert með list að gera, heldur mansal. Þetta eru stúlkurnar á Goldfinger.
e. Þeim var sagt að þær fengju svo há laun að þær gætu fætt alla fjölskylduna sína. Það var hægt, en þá þurftu þær líka að fara út í vændi. Og flestar gerðu það.
f. Vændi í dansklefum.
g. Stúlkurnar gátu átt von á allt að milljón króna launum á mánuð, ef þær unnu öll kvöld og seldu sig.
h. Það var stundað vændi þarna en ég setti mörkin þar. Vændið er til dæmis stundað inn í einkadansklefunum.
i. Umboðsmenn eru mafía.
j. Hún staðfestir að vændi sé stundað á Goldfinger.
k. Flestar stelpurnar, sem eru fengnar frá Austur-Evrópu, eru ekki dansarar heldur vændiskonur.
l. Það er vitað að þarna er stundað vændi og það er ætlast til þess.
m. Stúlkan segist geta fullyrt að aðstæður austur-evrópsku stúlknanna á Goldfinger flokkist undir mansal.
n. Og þær voru mjög hræddar við eigandann og hans fólk. Enda var alltaf sagt: Hér kemur Geiri og hirðin. Er þetta ekki mansal?
o. Mansalið í Kópavogi.
p. Sumar stúlkurnar á Goldfinger starfa við að bera sig og selja sig án þess að nokkuð áþreifanlegt hafi neytt þær til þess.
q. Þeir sem ekki þekkja til telja gjarnan að þessar konur séu þátttakendur í hinu ólöglega athæfi af fúsum og frjálsum vilja ...
r. Efnahagslegt ójafnvægi sem skapast hefur á milli Vestur- og Austur-Evrópu er meginástæða þess að verslun með konur og börn til kynlífsþjónustu þrífst.
s. Skipulagðir glæpahringir auglýsa stöðugt eftir konum sem vilja fara utan að vinna.
t. Hér fái þær hærri laun við að þjónusta þá kynferðislega en þær geti fengið heima hjá sér.
u. Þær eru nútímaþrælar án hlekkja ...
v. Á meðan dansa stúlkurnar á bak við tjöldin og heimildir um vændi berast víða að.
2. Gerð er krafa um að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda krónur 5.000.000 í miskabætur og beri dómkrafan vexti skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júní til 13. október 2007 en dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.
3. Þá er þess krafist að stefndu, verði dæmd til að greiða stefnanda krónur 480.000 in solidum til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í þremur dagblöðum.
4. Gerð er krafa þess efnis að forsendur og dómsorð dóms í málinu verði birt í næsta tölublaði tímaritsins Nýs lífs eftir að dómur fellur, sbr. 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.
5. Einnig er gerð krafa þess efnis að stefndu verði dæmd til greiðslu málskostnaðar .
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda en til vara að umkrafðar fjárhæðir verði lækkaðar verulega. Einnig krefjast þau málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málsatvik
Í júníhefti tímaritsins Ísafoldar 2007 birtist grein sem hefur orðið stefnanda tilefni höfðunar máls þessa. Hin stefndu í máli þessu eru nafngreind sem höfundar greinarinnar en Jón Trausti Reynisson var ritstjóri tímaritsins og jafnframt blaðamaður og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir var blaðamaður. Á þessu ári hafa tímaritin Ísafold og Nýtt Líf sameinast undir nafninu Nýtt Líf.
Um meginefni greinarinnar segir í stefnu:
„Mansal.
Í inngangi greinarinnar segir að flest bendi til þess að mansal sé stundað í Kópavogi og síðar í greininni er það fullyrt að mansal eigi sér stað í Kópavoginum, en af efnistökum er ljóst að ásökunum um mansal er beint að stefnanda og veitingastaðnum Goldfinger. Síðan segir að strax við komuna til landsins taki jafnvel yfirmenn stúlknanna af þeim flugmiðana eða vegabréfin og þær verði að vinna sér inn réttinn til að yfirgefa staðinn og þeir sem láti sig málið varða viti að aðstæður þeirra hafi ekkert með list að gera heldur mansal. Í greininni segir síðan að hér sé átt við stúlkurnar á Goldfinger og aðstæður þeirra flokkist undir mansal og þær séu mjög hræddar við stefnanda. Síðan segir að stúlkurnar á Goldfinger séu nútímaþrælar án hlekkja og þeir sem ekki þekkja til haldi gjarnan að þær séu þátttakendur í hinu ólöglega athæfi af fúsum og frjálsum vilja. Ástæður fyrir því að verslun með konur og börn til kynlífsþjónustu þrífist segja greinarhöfundar vera efnahagslegt ójafnvægi milli Vestur- og Austur-Evrópu.
Vændi.
Í greininni er ítrekað fullyrt að vændi sé stundað á veitingastað stefnanda og starfstúlkur staðarins séu ýmist kallaðar druslurnar eða hórurnar af yfirmönnum sínum og samstarfsfólki og sagt að stúlkurnar geti átt von á allt að milljón krónum í laun á mánuði ef þær vinna öll kvöld og selja sig, en vændið á meðal annars að vera stundað i dansklefunum á Goldfinger. Síðan segir að flestar stelpurnar frá Austur-Evrópu séu ekki dansarar heldur vændiskonur og það sé ætlast til þess að stúlkurnar stundi vændi en stúlkurnar fái hærri laun hér á landi fyrir að þjónusta karlmenn kynferðislega en þær geti fengið í heimalandinu.
Mafía.
Í greininni er síðan stefnandi bendlaður við alþjóðlega glæpastarfsemi og sagt að hinir svokölluðu umboðsmenn stúlknanna, sem starfa hjá stefnanda, séu í mafíunni og að mafían eigi stúlkurnar, en skipulagðir glæpahringir auglýsi stöðugt eftir konum, sem vilja fara utan að vinna. Þá er því haldið fram að nánasti samstarfsmaður stefnanda sé þekktur í undirheimunum undir nafninu Guðfaðirinn.“
Um málavexti segir í greinargerð stefndu að í ljósi umræðu um svokallaða súlustaði á Íslandi og sögusagna um að vændi væri fylgifiskur starfsemi slíkra staða, þar á meðal næturklúbbsins Goldfinger, hafi þau ráðist í það verkefni að rannsaka starfsemi staðarins, aðstæður stúlkna sem starfi þar og kanna á hlutlausan hátt hvort tengsl væru á milli vændis og þeirra starfsemi sem stunduð sé opinberlega á staðnum. Í þeim tilgangi hafi stefndu heimsótt staðinn og fylgst með því sem fram hafi farið. Þau hafi jafnframt rætt við stúlkur, sem ýmist hafi verið í starfi á staðnum eða hafi starfað þar. Þá hafi þau rætt við aðra heimildarmenn sem þekki til staðarins og þeirrar starfsemi sem þar hafi farið fram. Um niðurstöður sínar hafi þau skrifað greinina.
Á forsíðu umrædds heftis Ísafoldar er athygli vakin á greininni með þessum orðum: „Goldfingerhneykslið í Kópavogi. Rannsókn.“ Fyrirsögn greinarinnar er: „Stúlkurnar á Goldfinger.“ Yfirskrift: „Flest bendir til þess að mansal sé stundað í Kópavogi. Fatafellur, sem starfað hafa á Goldfinger í Kópavogi, segjast hafa orðið fyrir eyðileggjandi sálrænum áhrifum vegna starfa sinna. Þær segja vændi vera stundað á staðnum...“ Vettvangurinn, nektardansstaðurinn Goldfinger í Kópavogi, er kynntur þannig í upphafi greinarinnar: „Um tuttugu léttklæddar stúlkur eru inni á Goldfinger sem er lítill staður, litlu stærri en Dómkirkjan í Reykjavík. Fáir karlmenn eru komnir þótt komið sé fram að miðnætti á laugardegi. Þeim fjölgar síðar. Rússnesk kona um þrítugt situr hjá manni á fimmtugsaldri og sýnir honum verðlista. Þau ganga saman gegnum salinn og inn á einkadanssvæðið. Þar smeygja þau sér inn í einn af fjölmörgum dansklefum og tjaldi er rennt fyrir. Samkvæmt lögreglusamþykkt Kópavogsbæjar er einkadans í lokuðu rými bannaður. Reglur eru ekki það sama og raun og ekki sést hvað fer fram inni í klefanum nema að tjaldið flaksast stundum til...“ Í greininni er m.a., án nafngreininga, vitnað til viðtala við starfsmenn, gesti og dansara á Goldfinger. Millifyrirsagnir eru sem hér greinir: „Allt er mögulegt í lífinu.“ „Þvingandi aðstæður.“ „Vændi í dansklefum.“ „Ömurleg reynsla.“ „Umboðsmenn eru mafía.“ „Heppnar stúlkur?“ „Íslensk stjórnvöld gagnrýnd.“ „Andstaða við hömlur í Kópavogi.“ „ Starfið eyðilagði sálarlífið.“ „Lét undan þrýstingi.“ „Deyfði sig með áfengi.“ „Þingmenn fengu skrifstofuna.“ „Fjárhagsstuðningur Geira.“ „Enn í sárum.“ Nokkrar ljósmyndir, sem eru sagðar vera úr safni 365 og einkaeign, eru birtar með greininni en langstærst þeirra er ljósmynd fremst í greininni af stefnanda í hópi sex ungra kvenna. Myndin ber áletrunina: „Ásgeir Davíðsson á Goldfinger ásamt starfsstúlkum.“
Málsástæður stefnanda
Kröfu um ómerkingu ummæla í kröfulið 1, stafliðum 1 til v, sem er að finna á bls. 106 til 110 í tímaritsgrein í 6. tölublaði Ísafoldar, júní 2007, er beint að stefndu sem höfundum greinarinnar, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.
Ljóst sé að hin umstefndu ummæli feli í sér mjög alvarlegar aðdróttanir að æru stefnanda þar sem honum sé ítrekað gefið að sök að stunda vændisstarfsemi og hafa viðurværi sitt af slíkri starfsemi, mansal með konur og börn til kynlífsþjónustu, frelsissviptingu og tengsl við skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi. Í framangreindum aðdróttunum felist ásakanir um að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi sem margra ára fangelsi liggi við að íslenskum rétti, sbr. m.a. 206. gr. og XXIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 226. gr. og 227. gr. a, en telja verði að allur þorri almennings álíti framangreinda háttsemi svívirðilega. Ljóst sé því að öll framangreind ummæli varði við 234., 235. og/eða 236. gr. almennra hegningarlaga og því beri að ómerkja þau með tilvísun í 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga enda séu þau úr lausu lofti gripin og þar að auki óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda.
Miskabótakrafa stefnanda byggist á því að tilvitnuð ummæli hafi fengið mjög á hann, enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða sem séu uppspuni frá rótum, og umfjöllun stefndu um stefnanda sé sérstaklega rætin. Stefnandi sé veitingamaður sem hafi alla tíð fylgt í einu og öllu þeim leikreglum sem þar til bærir handhafar opinbers valds hafi markað starfsemi hans. Sú háttsemi stefndu að bera út þau ósannindi að stefnandi stundi vændisstarfsemi, standi fyrir mansali og hafi tengsl við alþjóðlega, skipulagða glæpastarfsemi hafi valdið honum tjóni, ama og óþægindum. Fjöldi fólks hafi lesið tímaritið Ísafold, sem hafi verið gefið út í hagnaðarskyni, og útbreiðsla ummælanna hafi verið mikil. Almenn og sérstök varnaðaráhrif skaðabótareglna standi því til þess að stefnanda verði dæmdar háar miskabætur. Krafa stefnanda um miskabætur er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en við mat á þeim vísar stefnandi einnig til grunnraka að baki 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Krafa um greiðslu til að kosta birtingu dóms í málinu er reist á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.
Málsástæður stefndu
Af hálfu stefndu er því haldið fram að umfjöllun sú, sem hér um ræðir, brjóti ekki gegn 234. gr., 235. gr. eða 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Löggjafinn og dómstólar hafi játað fjölmiðlum verulegu svigrúmi til almennrar umfjöllunar um menn og málefni og vísað er til 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, og 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.
Stefndu byggja sýknukröfu sína á aðildarskorti sóknarmegin, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Þegar ummæli þau, sem stefnandi telji upp í kröfugerð sinni, séu skoðuð komi í ljós að þeim sé ekki beint að stefnanda persónulega heldur sé þar fjallað um að hugsanlega kunni vændi að hafa þrifist í tengslum við starfsemi Goldfinger. Lögaðilinn Baltik ehf. sé rekstraraðili Goldfinger. Í 22 af 23 stafliðum í kröfugerð stefnanda sé vísað til atburða sem hugsanlega kunni að hafa átt sér stað, í húsakynnum Goldfinger, án þess að vísað sé til þess að stefnandi hafi sjálfur átt þar hlut að máli. Einungis í staflið n komi nafn stefnanda fyrir en þar sé vitnað beint í heimildarmann blaðsins og öll setningin sé innan gæsalappa. Af 1. og 2. gr. laga, nr. 71/1928 um vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum leiði að þar sem fjallað sé um rekstur Goldfinger eigi stefndi sjálfur ekki aðild að máli heldur lögaðilinn.
Verði ekki fallist á ofangreint benda stefndu á að umræða um tengsl nektardans og vændis sé þrálát, ekki síst fyrir þær sakir að víða erlendis sé slík starfsemi rekin samhliða fyrir opnum tjöldum og á löglegan hátt, en einnig eðlis máls vegna. Sem dæmi um hinn þráláta orðróm hér á landi megi benda á skýrslu bandaríska sendiráðsins á Íslandi frá 2006 um mansal á Íslandi en þar komi fram á bls. 3 að við gerð skýrslunnar hafi starfsmanni sendiráðsins verið boðin kynlífsþjónusta á veitingahúsinu Goldfinger. Óumdeilt sé að starfsemi Goldfinger felist í því að fá stúlkur, í meiri hluta tilvika erlenda ríkisborgara, til að dansa fáklæddar eða klæðlausar. Erfitt sé að fylgjast með öllu sem fram fari inni í slíkum rýmum. Meðal annars vegna þeirrar dulúðar, sem slík starfsemi sé sveipuð flestu fólki, og þráláts orðróms um vændi og mansal hafi stefndu talið að umfjöllun um þetta efni ætti erindi til almennings. Stefndu telji að rekstraraðilar svokallaðra súlustaða verði að þola slíka umfjöllun um starfsemina. Stefnanda hafi, fyrir hönd lögaðilans Baltik ehf. og sem áberandi talsmanni þessarar starfsemi, verið boðið að koma að sínum athugasemdum við greinina og þær verið birtar í lok hennar. Auk þess hafi stefnandi staðfest í viðtali á Stöð 2 hinn 1. júní 2007 að ritstjóri Ísafoldar, stefndi Jón Trausti Reynisson, hafi boðið sér að fá birtar frekari athugasemdir í næsta tölublaði. Hann hafi hins vegar ekki óskað eftir því að birtar yrðu leiðréttingar eða athugasemdir við það sem hann telji rangt í umfjölluninni.
Krafa stefndu um sýknu af miskabótakröfu er reist á því að skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga sé ekki fullnægt. Tilgangur umræddrar greinar hafi ekki verið að skaða stefnanda eða rekstur Goldfinger heldur fyrst og fremst að greina frá aðstæðum stúlkna sem komi hingað frá Austur-Evrópu til þess eins að dansa naktar á næturklúbbum. Umfjöllun tímaritsins sé upplýsandi og niðurstöður komi heim og saman við það sem komið hafi fram víða annars staðar. Til vara er krafist verulegrar lækkunar á kröfunni þar sem hún sé fjarri íslenskri dómvenju.
Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt og þess krafist að dráttarvextir verði í fyrsta lagi ákveðnir frá uppsögu dóms.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu er þess krafist að krafa stefnanda um greiðslu vegna birtingar dómsins verði lækkuð verulega.
Niðurstöður
1
Tjáningarfrelsi nýtur verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, og 10. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994. Sá réttur sætir þó takmörkunum samkvæmt tilvitnuðu stjórnarskrárákvæði og koma þær m.a. fram í 234. - 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem málsókn stefnanda er reist á.
Stefndu bera, sem nafngreindir höfundar, refsi- og fébótaábyrgð á efni þeirrar greinar, sem um ræðir í málinu, á grundvelli 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.
2
Einkahlutafélagið Baltik, sem eru í eigu stefnanda og eiginkonu hans, er eigandi og rekstraraðili veitingastaðarins Goldfinger í Kópavogi sem er áberandi á því sviði skemmtanalífsins sem almennt er auðkennt með súludansi. Stefnandi er kunnur sem forsvarsmaður staðarins. Áður hefur verið getið myndbirtingar af stefnanda og hann er ítrekað nafngreindur í hinni umstefndu grein þótt svo sé aðeins einu sinni í hinum umstefndu ummælum. Af framangreindu og almennum efnistökum stefndu við ritun greinarinnar leiðir að ekki er fallist á að sýkna beri þau vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, með því að lögaðilinn Baltik ehf. hefði með réttu átt að eiga aðild að málssókninni hefði hann talið að sér vegið með umfjöllun Ísafoldar, eins og haldið er fram af hálfu stefndu.
3
Hér verður tekin afstaða dómsins til krafna um ómerkingu ummæla samkvæmt kröfulið 1 í stefnu.
Eftirtalin ummæli eiga það öll sammerkt að þau vísa til þess að vændi hafi verið stundað á veitingastað stefnanda, Goldfinger: Stafliður b. „Þær segja vændi vera stundað á staðnum.“ Stafliður f. „Vændi í dansklefum.“ Stafliður g. „Stúlkurnar gátu átt von á allt að milljón króna launum á mánuði ef þær unnu öll kvöld og seldu sig.“ Stafliður h. „Það var stundað vændi þarna en ég setti mörkin þar. Vændið er til dæmis stundað inni í einkadansklefunum.“ Stafliður j. „Hún staðfestir að vændi sé stundað á Goldfinger.“ Stafliður k. „Flestar stelpurnar, sem eru fengnar frá Austur-Evrópu, eru ekki dansarar heldur vændiskonur.“ Stafliður l. „Það er vitað að þarna er stundað vændi og það er ætlast til þess.“ Stafliður v. „Á meðan dansa stúlkurnar á bak við tjöldin og heimildir um vændi berast víða að.“
Við aðalmeðferð málsins voru leidd fram vitni sem báru um það hvort kynlífsþjónusta af einhverju tagi hefði boðist á Goldfinger. Fyrrverandi starfsmenn staðarins, sem stefndu leiddu, báru að svo hefði verið en núverandi starfsmenn, sem stefnandi leiddi, báru því í gegn. Með framangreindum ummælum er ekki gefið í skyn að stefnandi hafi haft milligöngu um vændi, stuðlað að því eða á einhvern hátt haft þar hagsmuna að gæta. Greinina ber einnig að skoða heildstætt að þessu leyti en þar stendur m.a.: „Bannað var að veita kynlíf inni á staðnum.“ Síðan er haft eftir viðmælanda: „Einu sinni varð ég vitni að því að Geiri gekk inn í klefa þar sem hann vissi að stelpa var að selja sig og rak hana á staðnum. Sundum tók hann stelpur á teppið. En honum var alveg sama hvað þær gerðu utan staðarins.“
Samkvæmt þessu er ekki fallist á að með framangreindum ummælum hafi stefndu haft í frammi ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda og verða stefndu sýknuð af kröfu um ómerkingu þeirra.
Stafliður e:„ Þeim var sagt að þær fengju svo há laun að þær gætu fætt alla fjölskylduna sína. Það var hægt en þá þurftu þær líka að fara út í vændi. Og flestar gerðu það.“ Ummælin vísa til ótilgreindra aðila en verða ekki skilin þannig að þau eigi við um stefnanda enda er því hvergi haldið fram að hann hafi haft atvinnu eða viðurværi sitt af vændi stúlknanna. Ummæli þessi fela því ekki í sér ærumeiðandi aðdróttun í garð stefnanda og verða stefndu sýknuð af kröfu um ómerkingu þeirra.
Stafliður p: „Sumar stúlkurnar á Goldfinger starfa við að bera sig og selja sig án þess að nokkuð áþreifanlegt hafi neytt þær til þess.“ Stafliður q: „Þeir, sem ekki þekkja til, telja gjarnan að þessar konur séu þátttakendur í hinu ólöglega athæfi af fúsum og frjálsum vilja...“ Stafliður r: „Efnahagslegt ójafnvægi, sem skapast hefur á milli Vestur- og Austur-Evrópu, er meginástæða þess að verslun með konur og börn til kynlífsþjónustu þrífst.“ Stafliður s: „Skipulagðir glæpahringir auglýsa stöðugt eftir konum sem vilja fara utan að vinna.“ Stafliður t: „Hér fái þær hærri laun við að þjónusta þá kynferðislega en þær geti fengið heima hjá sér.“ Stafliður u: „Þær eru nútímaþrælar án hlekkja.“ Öll framangreind ummæli eru í samfelldu máli að meginefni og liggur greinileg áhersla á orðum sem koma næst eftir hinum umstefndu ummælum í staflið q: „...konur sem sjálfviljugar hafi flúið fátækt og eymd í heimalöndum sínum í von um að eitthvað skárra væri í boði á hinum ríku Vesturlöndum. Margar konur í Austur-Evrópu hafa von um betra líf á Vesturlöndunum sem kviknar þegar þær kynnast lífsgæðum þar í gegnum fjölmiðla og kvikmyndir.“ Fjallað er um alþekkt, djúpstætt vandamál sem felst í því að vegna fjárhagslegrar og félagslegrar neyðar leiðist stúlkur, sem orðið hafa fórnarlömb aðstæðna heima fyrir, til að dansa naktar á vestrænum súlustöðum og jafnvel selja sig til viðurværis; þær séu þrælar án hlekkja. Engin framangreindra ummæla fela í sér ærumeiðandi aðdróttun í garð stefnanda og verða stefndu sýknuð af kröfu stefnanda um ómerkingu þeirra.
Stafliður a: „Flest bendir til þess að mansal sé stundað í Kópavogi.“ Stafliður d: „Og þeir, sem láta sig málið varða, vita að aðstæður þeirra hafa ekkert með list að gera heldur mansal. Þetta eru stúlkurnar á Goldfinger.“ Stafliður m: „Stúlkan segist geta fullyrt að aðstæður austur-evrópsku stúlknanna á Goldfinger flokkist undir mansal.“ Stafliður n: „Og þær voru mjög hræddar við eigandann og hans fólk. Enda var alltaf sagt: Hér kemur Geiri og hirðin. Er þetta ekki mansal?“ Stafliður o: „Mansalið í Kópavogi.“ Af efnistökum og samhengi greinarinnar er ljóst að í stafliðum a og o er fjallað um veitingastaðinn Goldfinger og þá starfsemi sem stefnandi rekur þar. Hin fyrri þessara ummæla eru í yfirskrift eða uppslætti greinarinnar og hin síðari eru kaflafyrirsögn. Engar sönnur hafa verið færðar að neinum af framangreindum ummælum sem fela í sér ærumeiðandi aðdróttanir um refsiverða háttsemi samkvæmt XXIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk þess að vera svívirðileg að almenningsáliti. Orðið mansal er skýrt sem þrælasala í Íslenskri orðabók (Edda 2005). Ummælin varða við 235. gr. almennra hegningarlaga og ber að fallast á kröfu stefnanda um ómerkingu þeirra, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.
Stafliður c: „Strax við komuna taka yfirmenn þeirra jafnvel flugmiðana eða vegabréfin af þeim. Þær verða að vinna fyrir farmiða og kostnaði áður en þær vinna sér inn réttinn til að yfirgefa staðinn.“ Með orðinu yfirmenn er vegna samhengis augljóslega átt við stefnanda öðrum fremur. Í ummælunum felst ásökun, sem engar sönnur hafa verið færðar að, um refsiverða frelsissviptingu samkvæmt XXIV. kafla almennra hegningarlaga. Ummælin fela í sér ærumeiðandi aðdróttun, sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga, og ber að fallast á kröfu stefnanda um ómerkingu þeirra, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.
Stafliður i: „Umboðsmenn eru mafía.“ Hér er um að ræða kaflafyrirsögn. Fallist er á það, sem haldið er fram af hálfu stefnanda, að þessi ummæli séu til þess fallin að skapa þau hughrif hjá lesendum að stefnandi hafi tengsl við mafíuna og þar með skipulagða, alþjóðlega glæpastarfsemi án þess að neinar sönnur hafi verið færðar að því. Þessu til styrktar er það að í kaflanum, sem ber framangreinda fyrirsögn, segir að nánasti samstarfsmaður Ásgeirs Davíðssonar, eiganda Goldfinger, sé þekktur í undirheimunum undir nafninu Guðfaðirinn. Í framangreindum ummælum felst ærumeiðandi aðdróttun, sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga, og ber, samkvæmt 1. mgr. 241. gr. sömu laga, að fallast á kröfu stefnanda um ómerkingu þeirra.
Samkvæmt framangreindu eru dæmd ómerk ummæli, sem getur í 1. tölulið dómkrafna stefnanda, stafliðum a, c, d, i, m, n og o.
4
Með ummælunum, sem ómerkt eru, drýgðu stefndu ólögmæta meingerð gegn æru stefnanda sem þeim ber að gjalda honum miskabætur fyrir samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum. Bótafjárhæð er ákveðin 1.000.000 króna. Ber því að dæma stefndu óskipt til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
5
Samkvæmt 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er fallist á kröfu stefnanda um greiðslu kostnaðar við birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í dagblöðum enda sætir hún ekki rökstuddum andmælum. Upphafleg kröfufjárhæð samkvæmt 3. tl. dómkrafna stefnanda nam 800.000 krónum. Gerð hefur verið nokkur en þó ófullnægjandi grein fyrir endanlegri kröfufjárhæð, 480.000 krónum. Upphæðin verður metin að álitum og er ákvörðuð 300.000 krónur.
6
Kröfu um birtingu forsendna og dómsorðs í máli þessu í næsta tölublaði tímaritsins Nýs lífs, sbr. 4. tl. dómkrafna stefnanda, sem styðst við 22. gr. laga nr. 57/1956, er ekki réttilega beint að stefndu heldur hefði þurft að stefna útgefanda ritsins til efnda á kröfunni. Á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, ber því að sýkna stefndu af þessari kröfu.
7
Dæma ber stefndu óskipt til að greiða stefnanda málskostnað sem er ákveðinn 400.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Ummæli stefndu, Jóns Trausta Reynissonar og Daggar Kjartansdóttur, í garð stefnanda, Ásgeirs Þórs Davíðssonar, sem birt voru í tímaritsgrein á blaðsíðum 106 til 110 í 6. tölublaði, 2. árgangs, Ísafoldar í júní 2007, eins og nánar greinir í forsendum þessa dóms, eru ómerk.
Stefndu greiði stefnanda óskipt 1.000.000 króna í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 13. október 2007 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda óskipt 300.000 krónur til að standa straum af birtingu dómsins í dagblöðum.
Stefndu eru sýkn af kröfu stefnanda um birtingu forsendna og dómsorðs í máli þessu í næsta tölublaði tímaritsins Nýs lífs.
Stefndu greiði óskipt stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.