Hæstiréttur íslands
Mál nr. 159/2007
Lykilorð
- Samningur
- Uppsögn
|
|
Fimmtudaginn 8. nóvember 2007. |
|
Nr. 159/2007. |
Ágúst Þorgeirsson(Guðjón Ármann Jónsson hrl.) gegn Orkuveitu Reykjavíkur (Björn Jónsson hrl.) og gagnsök |
Samningur. Uppsögn.
Aðilar gerðu með sér verksamning 20. ágúst 2004 þar sem Á tók að sér nánar tilgreind verkefni fyrir O gegn mánaðarlegu endurgjaldi. Gildistími samningsins var til 1. mars 2005 og kveðið á um að hann væri uppsegjanlegur mánuði fyrir lok gildistímans en að samningurinn framlengdist um sex mánuði „með sömu uppsagnarákvæðum“ ef honum yrði ekki sagt upp. Á átti fund með sviðsstjóra hjá O 4. mars 2005 en fyrir Hæstarétti miðuðu báðir aðilar við að á þessum fundi hefði samningnum verið sagt upp. Á skilaði engu vinnuframlagi eftir fundinn. Fyrir Hæstarétti krafðist hann fjárhæðar er svaraði til endurgjalds samkvæmt samningnum til 1. september 2005. Fallist var á að gildistími samningsins hefði framlengst um sex mánuði til 1. september 2005 þar sem honum hafði ekki verið sagt upp fyrir lok janúar sama ár. Þá var talið að Á hefði mátt líta svo á að O gerði ekki ráð fyrir vinnuframlagi af hans hálfu út gildistíma samningsins. Var því fallist á kröfu Á.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. mars 2007. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi greiði sér 2.988.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 498.000 krónum frá 1. apríl 2005 til 1. maí 2005, af 996.000 krónum frá þeim degi til 1. júní 2005, af 1.494.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2005, af 1.992.000 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2005, af 2.490.000 krónum frá þeim degi til 1. september 2005 og af 2.988.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 24. maí 2007. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Efni umrædds verksamnings málsaðila 20. ágúst 2005 er lýst í hinum áfrýjaða dómi, en lokaákvæði hans hljóðar svo: „Samningur þessi tekur nú þegar gildi og er gildistíminn til 1. mars 2005 og er uppsegjanlegur mánuði fyrir lok gildistímans af beggja hálfu. Sé samningnum ekki sagt upp framlengist hann um sex mánuði með sömu uppsagnarákvæðum.“ Fyrir Hæstarétti miða báðir málsaðilar við að gagnáfrýjandi hafi sagt samningnum upp á fundi 4. mars 2005. Af þessum sökum hefur aðaláfrýjandi breytt kröfu sinni fyrir Hæstarétti og miðar nú við að samningurinn hafi runnið skeið sitt á enda 1. september 2005.
Fallist er á með aðaláfrýjanda að gildistími umrædds samnings hafi framlengst um sex mánuði til 1. september 2005 þar sem honum var ekki sagt upp fyrir lok janúar sama ár.
Málsaðilar eru einnig sammála um að gagnáfrýjandi hafi ekki óskað eftir vinnuframlagi aðaláfrýjanda eftir 4. mars 2005, en fram kom hjá fyrirsvarsmanni gagnáfrýjanda fyrir dómi að hann hafi ekki búist við vinnuframlagi aðaláfrýjanda eftir uppsögn samningsins og hafi hann tjáð aðaláfrýjanda að samskiptum þeirra vegna samningsins væri lokið. Var aðaláfrýjanda því rétt að líta svo á að gagnáfrýjandi gerði ekki ráð fyrir vinnuframlagi af hans hálfu út gildistíma samningsins. Samkvæmt þessu verður fallist á dómkröfu aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Orkuveita Reykjavíkur, greiði aðaláfrýjanda, Ágústi Þorgeirssyni, 2.988.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 498.000 krónum frá 1. apríl 2005 til 1. maí 2005, af 996.000 krónum frá þeim degi til 1. júní 2005, af 1.494.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2005, af 1.992.000 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2005, af 2.490.000 krónum frá þeim degi til 1. september 2005 og af 2.988.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2006.
Mál þetta sem var dómtekið hinn 26. október sl. er höfðað með stefnu birtri 21. febrúar 2006.
Stefnandi er Ágúst Þorgeirsson, Asparfelli 4, Reykjavík.
Stefndi er Orkuveita Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 5.478.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af 498.000 krónum, frá 1. apríl 2005 til 1. maí 2005, af 996.000 krónum frá þeim degi til 1. júní 2005, af 1.494.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2005, af 1.992.000 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2005, af 2.490.000 krónum frá þeim degi til 1. september 2005, af 2.988.000 krónum frá þeim degi til 1. október 2005, af 3.486.000 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2005, af 3.984.000 krónum frá þeim degi til 1. desember 2005, af 4.482.000 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2006, af 4.980.000 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2006 og af 5.478.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að vera sýknaður af kröfum stefnanda.
Til vara krefst stefndi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé heimilt að rifta verksamningi stefnanda og stefnda dags. 20. ágúst 2004.
Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar.
MÁLSATVIK
Stefnandi kveður skuld þessa tilkomna skv. verksamningi dags. 20. ágúst 2004 milli stefnda og stefnanda. Samkvæmt verksamningnum skyldi stefndi kaupa mánaðarlega 86 klukkustunda vinnu af stefnanda og skyldi hver stund greidd með 4.000 krónum, og stefndi greiða að auki mánaðarlega 56.000 krónur fyrir afnot tölvubúnaðar, bifreiðakostnað og síma. Samtals geri þetta 400.000 krónur auk virðisaukaskatts, eða samtals 498.000 krónur á mánuði. Gildistími samningsins hafi verið til 1. mars 2005, en háð því skilyrði að samningnum væri sagt upp mánuði fyrir lok gildistímans. Að öðrum kosti myndi hann framlengjast um sex mánuði með sömu uppsagnarákvæðum.
Í máli stefnda kemur fram að stefnandi skyldi vinna að flutningi ljósmyndasafns Orkuveitu Reykjavíkur frá minjasafni hennar í Elliðaárdal í höfuðstöðvar að Bæjarhálsi 1, Reykjavík. Stefnandi hafi einnig átt að vinna að afritun, “skönnun”, ljósmynda í viðeigandi búnað o.fl. Þessi afritun hafi átt að vera meginverkefni stefnanda. Ljóst hafi verið í lok febrúar 2005 að stefnandi hafi vanefnt samninginn í öllum verulegum efnum. Af því tilefni hafi verið haldinn fundur hinn 4. mars 2005 þar sem fundið hafi verið að verki stefnanda.
Stefnandi kveðst hafa verið boðaður á fund með umsjónarmanni tölvumála hjá stefnda í byrjun árs 2005, en ekki hafi verið rætt um uppsögn samnings á þeim fundi.
Stefnandi kveðst vera með skriflegan samning. Hann geri því þá kröfu að uppsögn samningsins sé skýr og skilmerkileg, enda ráðist tímalengd samningsins á lögmætri uppsögn. Að öðrum kosti framlengist hann sbr. ákvæði þar um í samningnum. Telji stefndi sig hafa orðið fyrir tjóni verði það ekki rakið til stefnanda enda hafi samningi ekki verið sagt upp enn.
Ógreiddar séu samtals 5.478.000 krónur, þ.e. kr. 498.000,- fyrir mars 2005 til og með janúar 2006. Skuld stefnda sem gjaldfallin sé þegar mál þetta sé höfðað nemi kr. 5.478.000,-, sem sé stefnufjárhæðin. Stefndi hafi greitt reikninga stefnanda sem gefnir hafi verið út á grundvelli samningsins fyrir tímabilið 1. október 2004 til og með 1. mars 2005 athugasemdalaust.
Stefnandi kveðst reisa kröfur sínar á almennum reglum samninga- og kröfuréttar, einkum l. nr. 7/1936 um efndir fjárskuldbindinga. Dráttarvaxtakrafa sé gerð á grundvelli vaxtalaga nr. 38/2001.
Stefndi segir að vanefndir stefnanda hafi verið þær að í fyrsta lagi hafi verkinu nánast ekkert miðað þrátt fyrir að rúmir sex mánuðir væru liðnir af verktíma stefnanda hjá stefnda, enda viðvera hans mjög lítil. Í öðru lagi hafi stefnandi skv. verksamningnum átt að setja upp viðeigandi búnað að Bæjarhálsi 1. Þetta hafi stefnandi ekki gert heldur hafi verkið komið í hlut tölvudeildar stefnda. Í þriðja lagi hafi stefnandi átt að annast verkstjórn og kennslu við skráninguna. Þetta hafi stefnandi vanefnt. Í fjórða lagi hafi stefnandi átt að aðstoða starfsmenn stefnda við nýtingu á myndveitu stefnda. Þessum verkþætti hafi stefnandi ekki heldur sinnt, enda viðvera hans mjög lítil og í engu samræmi við skyldur hans skv. samningi aðila.
Skv. almennum reglum sem gildi á sviði verksamninga sé höfuðskylda verktaka að skila verkinu á tiltekinn og fullnægjandi hátt og á réttum tíma. Þessari höfuðskyldu hafi stefnandi brugðist.
Eftir fundinn hinn 4. mars 2005 hafi stefnandi ekki mætt til verksins né látið vita af því að hann ætlaði ekki að sinna skyldum skv. verksamningnum. Stefndi hafi innt allar greiðslur af hendi til stefnanda, eða til 1. mars 2005. Stefnandi hafi á síðasta ári hafið málarekstur gegn stefnda og byggt þar á reikningsgerð vegna verksamningsins. Því máli hafi verið vísað frá dómi. Nú byrji stefnandi aftur með kröfugerð á hendur stefnda og virðist nú alfarið byggja á verksamningi aðila en ekki reikningsgerð sinni. Þetta geri stefnandi þrátt fyrir að hann hafi ekki efnt samningsskyldur sínar heldur hlaupið frá verkinu án nokkurra skýringa eða fyrirvara.
Með framangreindri háttsemi sinni hafi stefnandi sjálfur rift samningi aðila. Háttsemi stefnanda feli það í sér að hann hafi ekki né ætli ekki að sinna skyldum sínum skv. verksamningnum, eins og raun hafi á orðið, og sé þar með litið svo á að hann leysi jafnframt stefnda undan greiðsluskyldum sínum skv. verksamningnum. Það segi sig sjálft að stefnandi geti ekki samtímis krafist greiðslna á verksamningnum og neitað að inna gagngjald sitt af hendi. Stefnandi hafi sjálfur með háttsemi sinni rift samningnum og geti því ekki á nokkurn hátt byggt rétt sinn á honum. Því skuli sýkna stefnda.
Til vara krefst stefndi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé heimilt að rifta verksamningi aðila. Varakrafan byggist á því að ef stefndi verði ekki sýknaður vegna þess að stefnandi hafi í raun sjálfur rift samningnum, þá sé stefnda heimil riftun vegna stórlegra vanefnda stefnanda. Stefnandi hafi ekki staðið við samningsskyldur sínar skv. samningnum. Um verulega vanefnd sé að ræða. Þá hafi stefnandi hlaupið frá samningnum hinn 4. mars 2005 og ekkert mætt til vinnu til að uppfylla samningsskyldur sínar. Stefnandi hafi ekki látið nokkurn mann vita að hann hygðist ekki standa við sinn hluta samkomulagsins. Í því felist veruleg vanefnd sem heimili riftun skv. viðurkenndum sjónarmiðum á sviði samningaréttar.
Stefnandi eigi ekki lögvarða kröfu á stefnda og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Stefndi vísar til almennra reglna kröfu- og samningaréttar.
Stefnandi mætti sjálfur fyrir dóminn og gaf skýrslu. Sagðist hann hafa unnið verkið á eigin skrifstofu. Hluti af starfi hans hefði verið að kenna einni manneskju að skanna. Það hafi hann gert á eigin skrifstofu. Stefnandi sagði að honum hefði síðan verið vísað á dyr að sex mánuðum liðnum. Hann sagði uppsagnarákvæði hafa verið sett inn til að hafa samfellu á verkinu þar sem það gæti tekið tíma. Stefnandi tók fram að hann hafi ekki getað hafist handa við starfsemi í húsnæði stefnda að Bæjarhálsi 1, Reykjavík, þar sem flytja hafi átt bókasafn á milli hæða. Stefnandi staðfesti að hann hefði mætt á fund með fyrirsvarsmanni stefnda hinn 4. mars 2005. Stefnandi sagðist ekki líta svo á sem honum hefði verið sagt upp hinn 4. mars 2005, heldur hafi honum þá verið vísað á dyr að fundi loknum. Stefnandi kveðst hafa efnt samninginn en stefndi vanefnt hann.
Guðjón Magnússon, sviðsstjóri hjá stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann sagði stefnanda hafa verið boðaðan til fundar hinn 4. mars 2005. Hann sagði að láðst hafi að segja samningnum upp, en sú vinna sem fram hefði átt að fara af hálfu stefnanda hefði ekki verið uppfyllt. Hann sagði stefnanda ekki hafa samþykkt uppsögn, en segir stefnda hafa sagt upp samningnum munnlega á fundinum hinn 4. mars 2005. Hann hafi ekki búist við vinnuframlagi frá stefnanda eftir þann tíma. Stefnandi hafi síðan ekkert haft samband eftir fundinn.
Alfa Kristjánsdóttir, deildarstjóri hjá stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi. Sagðist hún kannast við verksamning aðila. Hún sagði að stefnandi hefði ekki haft samráð við hana líkt og honum hefði borið að gera. Hún sagðist hafa óskað eftir að tímaskráning væri tekin saman yfir viðveru stefnanda, þar sem vinnuframlag hans hefði verið takmarkað og lítið hefði komið út úr því sem stefnandi var að gera. Stefnandi kvaðst vinna heima. Stefnandi hafi lítið sést á starfsstöð stefnda. Varðandi flutning á bókasafni þá hafi stefnandi haft aðstöðu á minjasafni stefnda í Elliðaárdal á meðan. Vitnið kvaðst ekki hafa áminnt stefnanda vegna starfa hans.
Úlfar Árnason, kerfisstjóri hjá stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst hafa heyrt það sem fram fór á fundinum 4. mars 2005. Hann sagði fundinn hafa snúist um verksamninginn og vinnuframlag stefnanda. Vitnið sagði að samningnum hefði verið sagt upp á fundinum. Vitnið sagði að hann hefði komið að uppsetningu búnaðar að Bæjarhálsi 1 sem vikið væri að í verksamningi aðila. Hann sagði að starfsskyldur stefnanda hefðu verið þær að sjá um yfirfærslu þekkingar, sem og verkstjórn og kennslu. Stefnandi hefði ekki verið fær um að inna þetta af hendi. Vitnið kvaðst ekki hafa verið boðað á fundinn hinn 4. mars 2005. Hann hafi hins vegar heyrt og séð það sem fram fór á fundinum, þar sem fundurinn hefði farið fram í opnu rými. Hann sagðist ekki hafa komið að samningsgerðinni við stefnanda og ekki vera yfirmaður stefnanda.
NIÐURSTAÐA
Í máli þessu snýst ágreiningur aðila um verksamning þann sem aðilar gerðu með sér hinn 20. ágúst 2004. Af gögnum málsins og framburði aðila og vitna, þykir sýnt að fundur hafi verið haldinn með stefnanda og fyrirsvarsmanni stefnda hinn 4. mars 2005. Fundarefnið þar hafi verið störf stefnanda.
Stefnandi heldur því fram að ekki hafi verið staðið löglega að uppsögn verksamningsins. Samningnum hefði þurft að segja upp hinn 1. febrúar 2005 ef ætlunin hefði verið að láta hann renna út 1. mars 2005. Þar sem það var ekki gert hefði samningurinn framlengst um sex mánuði, frá og með 1. mars að telja.
Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi verið boðaður á fund með fyrirsvarsmanni stefnda í byrjun árs 2005. Mun þar vera vísað til þess fundar sem stefnandi hefur síðan staðfest að hafi farið fram hinn 4. mars 2005. Í stefnunni segir að ekki hafi verið rætt um uppsögn verksamningsins á þeim fundi. Samningnum hafi þannig aldrei verið sagt upp með formlegum hætti. Í málflutningi stefnanda kom hins vegar fram að á fundinum 4. mars 2005 hafi fyrirsvarsmaður stefnda ekki óskað eftir frekara vinnuframlagi af hálfu stefnanda. Því hafi stefnandi ekki starfað frekar fyrir stefnda. Stefnanda hafi verið gert ómögulegt að sinna starfi sínu eftir hinn 4. mars 2005, og í stað þess að segja samningnum formlega upp kjósi stefndi að gera lítið úr vinnuframlagi stefnanda. Stefnandi hafi þó aldrei verið áminntur vegna starfa sinna.
Stefndi heldur því fram að fundarefnið á fundi fyrirsvarsmanns stefnda og stefnanda hinn 4. mars 2005 hafi verið starfslok stefnanda hjá stefnda. Stefndi kveðst hafa sagt verksamningi aðila upp munnlega á fundinum hinn 4. mars 2005. Þar sem stefnandi hafi ekki unnið skv. samningnum eftir fundinn hafi stefndi litið svo á að stefnandi hafi sjálfur rift verksamningnum. Um sé að ræða tvíhliða samning þar sem báðir aðilar þurfi að inna sitt af hendi skv. samningnum.
Af öllum gögnum málsins og framburði vitna er ljóst að verksamningi aðila frá 20. ágúst 2004 var aldrei sagt upp formlega af hálfu stefnda. Aðilar málsins eru ekki sammála um hvað fram hafi farið á fundinum hinn 4. mars 2005. Má þó ljóst vera af framburði vitna að fundarefnið hafi verið störf stefnanda fyrir stefnda skv. verksamningnum. Hvað sem því líður er ljóst af framburði stefnanda og fyrirsvarsmanna stefnda, að stefnandi innti ekki þau störf af hendi sem hann hafði tekið að sér skv. verksamningnum, eftir fund aðila hinn 4. mars 2005. Eins og áður greindi kom fram í stefnu að ekki hafi verið rætt um uppsögn á fundi aðila hinn 4. mars 2005. Þrátt fyrir þær fullyrðingar stefnanda að uppsögn hafi ekki verið rædd á fundinum, innti hann ekki þau störf af hendi sem hann hafði tekið að sér skv. verksamningnum eftir þann dag. Undir rekstri málsins kom fram af hálfu stefnanda að honum hefði verið gert ómögulegt að inna störf sín af hendi eftir fundinn vegna aðgerða og framkomu stefnda, og stefndi hefði ekki óskað eftir vinnuframlagi hans eftir þann tíma. Stefnandi telji því að greiðsluskylda stefnda geti ekki fallið niður með einhliða ákvörðun stefnda.
Það er eðli verksamninga að hvor aðili um sig inni af hendi þær skyldur sem hann tekur að sér skv. slíkum samningi. Slíkir samningar eru gagnkvæmir þannig að skylda hvors aðila um sig helst í hendur við skyldur gagnaðilans. Eftir fund aðila hinn 4. mars 2005 innti stefnandi ekki þau verkefni af hendi sem hann hafði skuldbundið sig til að vinna með verksamningi aðila dags. 20. ágúst 2004, þrátt fyrir að skv. stefnu málsins og framburði stefnanda megi ráða að stefnandi hafi ekki litið svo á sem verksamningnum hefði verið sagt upp. Í málflutningi stefnanda kom þó engu að síður fram að stefnandi teldi að stefndi hefði á fundinum hinn 4. mars 2005 gert það ljóst að stefndi óskaði ekki eftir vinnuframlagi stefnanda eftir þann tíma. Með þeirri hegðun stefnanda að mæta ekki til starfa sinna eftir að fyrrnefndur fundur var haldinn, telur dómurinn að stefnandi hafi í raun litið svo á að stefndi hafi sagt verksamningnum upp á fundinum hinn 4. mars 2005. Hefur engin önnur sennileg skýring komið fram af hálfu stefnanda varðandi fjarveru hans eftir fundinn undir rekstri málsins.
Stefndi segir að boðað hafi verið til fundarins hinn 4. mars 2005 í þeim tilgangi að ræða störf stefnanda skv. verksamningnum. Í málatilbúnaði sínum byggir stefndi á að stefnandi hafi vanefnt samninginn og vísar til nokkurra atriða þar að lútandi. Þrátt fyrir meintar vanefndir stefnanda kaus stefndi að segja ekki upp verksamningi aðila áður en hann rann út hinn 1. mars 2005. Undir rekstri málsins kom fram hjá stefnda að hann hefði sagt upp verksamningnum á fundi aðila hinn 4. mars 2005. Þykir dóminum sýnt með vísan til þess sem að ofan er rakið um framkomu stefnanda eftir fundinn, að stefnandi hafi jafnframt litið svo á. Í greinargerð stefnda kemur fram að stefnandi hafi ekki mætt til verksins eftir fundinn né látið vita af því að hann ætlaði ekki að sinna skyldum sínum skv. verksamningnum. Stefndi neitar því þó alfarið að hann hafi ekki óskað eftir að stefnandi innti frekari störf af hendi eftir fund aðila hinn 4. mars 2005. Verður að telja að sú fullyrðing geti vart átt sér stoð miðað við þær ávirðingar sem bornar eru á störf stefnanda í greinargerð stefnda. Af framburði þeirra vitna er leidd voru af hálfu stefnda má sömuleiðis ráða að stefndi hafi haft töluvert út á störf stefnanda að setja, og því afar ósennilegt að stefndi hefði óskað eftir því að stefnandi innti frekari störf af hendi, eftir að stefndi sagði samningi aðila upp á fundinum hinn 4. mars 2005.
Af því sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að bæði stefnandi og stefndi hafi litið svo á að verksamningi aðila hafi verið sagt upp af stefnda hinn4. mars 2005. Jafnvel þó svo að verksamningnum hafi ekki verið sagt upp skriflega líkt og stefnda hefði verið í lófa lagið að gera, þykir brotthvarf stefnanda frá þeim störfum sem honum bar að vinna skv. verksamningnum eftir fundinn hinn 4. mars 2005 vera nægileg sönnun þess að stefnandi hafi litið svo á sem verksamningnum hafi verið sagt upp þann dag. Skv. verksamningnum var uppsagnarfrestur einum mánuði fyrir lok gildistímans. Hafi samningnum ekki verið sagt upp skyldi hann framlengjast um sex mánuði með sömu uppsagnarákvæðum. Með vísan til þess sem að ofan er rakið og þessara ákvæða verksamningsins, er það niðurstaða dómsins að stefnanda hefði borið að fá greidd verklaun skv. verksamningnum í einn mánuð frá og með því að verksamningnum var sagt upp hinn 4. mars 2005. Verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 547.800 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði. Er þar um að ræða verklaun fyrir marsmánuð 2005 sem og fyrstu þrjá daga aprílmánaðar 2005. Eftir þessum úrslitum ber stefnda að greiða stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Orkuveita Reykjavíkur, greiði stefnanda, Ágústi Þorgeirssyni, 547.800 krónur með dráttarvöxtum frá 4. apríl 2005 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.