Hæstiréttur íslands

Mál nr. 414/2003


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Ákæra


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. febrúar 2004.

Nr. 414/2003.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

(Sif Konráðsdóttir hrl.

skipaður réttargæslumaður)

 

Kynferðisbrot. Börn. Ákæra.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni Y framin í bæjarfélaginu A á tímabilinu frá 1997 til og með 2001 þegar stúlkan var á aldrinum 7 til 11 ára. Var X sakfelldur í héraðsdómi samkvæmt ákæru og dæmdur í þriggja ára fangelsi. Þótt ekki væri í ákæru greint frá fjölda þeirra brota sem X ætti að hafa framið gegn stúlkunni né nákvæmlega hvar brotin hafi verið framin taldi Hæstiréttur ekki alveg næga ástæðu til að vísa ákæru frá héraðsdómi, enda yrði ónákvæmni í ákæruskjali túlkuð X í hag og vörn hans teldist ekki hafa verið áfátt af þessum sökum. Var talið sannað í málinu að X hefði áreitt stúlkuna á tímabilinu frá árinu 1999 til og með 2001 og að í áreitninni hafi falist káf og þukl á brjóstum og kynfærum stúlkunnar, sem varði við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig var talið sannað að X hafi nokkrum sinnum sett fingur inn í kynfæri stúlkunnar og varði það við 1. mgr. sömu lagagreinar. Gegn eindreginni neitun ákærða var hins vegar ekki unnt að telja að ákæruvaldinu hefði tekist að færa fram nægar sannanir um aðrar sakargiftir sem á X voru bornar. Var hann  dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar og til að greiða stúlkunni miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. október 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu hans. Þá er þess krafist, að ákvörðun héraðsdóms um miskabætur verði staðfest.

Ákærði krefst þess aðallega, að ákæru verði vísað frá héraðsdómi. Til vara er þess krafist, að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar. Til þrautavara krefst ákærði þess, að hann verði sýknaður, en ella verði refsing milduð og skilorðsbundin. Þá er þess krafist, að miskabótakröfu verði vísað frá dómi eða hún lækkuð.

 

I.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram er ákærði borinn sökum um kynferðisbrot á A á tímabilinu frá 1997 til og með 2001 gegn stúlkunni Y, sem þá var á aldrinum sjö til ellefu ára.  Í ákærulið I er ákærða gefið að sök að hafa margsinnis kysst stúlkuna á munninn og þá stungið tungunni upp í hana, margsinnis káfað á brjóstum og kynfærum stúlkunnar og í nokkur skipti sett fingur inn í kynfærin. Samkvæmt ákærulið II er ákærði sakaður um að hafa í tvö eða þrjú skipti á heimili sínu, einu sinni um borð í bát sínum og einu sinni í bifreið sinni nuddað getnaðarlim sínum við kynfæri stúlkunnar, uns honum varð sáðlát. Í ákærulið III eru sakargiftir þær, að ákærði hafi í nokkur skipti á heimili sínu og í bifreið sinni sleikt brjóst og kynfæri stúlkunnar.

Krafa ákærða um frávísun ákæru frá héraðsdómi er reist á því, að þar sé ekki tilgreint nægilega skýrt, hvar og hvenær ætluð brot eru talin framin. Brotalýsing í ákæru sé „heildgerð“ og geri ákærða ókleift að haga vörn sinni með fullnægjandi hætti.

Af c. lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er ljóst, að í ákæru verður að greina nákvæmlega það brot, sem talið er hafa verið framið, og stað þess og stund eins skýrt og kostur er auk heimfærslu til refsiákvæðis. Samkvæmt því verður að mega ráða af ákæru, um hversu mörg brot sömu tegundar er talið vera að ræða og hvar þau hafi verið framin. Þótt kynferðisbrot gegn börnum hafi nokkra sérstöðu með tilliti til rannsóknar þeirra verður að fallast á með ákærða, að ákæra sé ekki svo glögg sem skyldi, og á það einkum við um ákærulið I. Þegar gögn málsins eru virt í heild verður hins vegar við það að miða, að ætluð brot samkvæmt þessum ákærulið séu ekki talin hafa verið framin á öðrum stöðum en greindir eru í ákæruliðum II og III, þ.e. á heimili ákærða, í bát hans eða bifreið. Með sama hætti verður að ganga út frá því, að fjöldi ætlaðra brota í þessum ákærulið sé ekki meiri en greinir í hinum liðum ákærunnar, en orðalagið „margsinnis“ er of víðtækt og óskilgreint. Verður þá að túlka orðalagið „í nokkur skipti“ í ákæruliðum I og III ákærða í hag og telja, að það taki ekki til fleiri en fjögurra atburða. Þegar brotalýsing ákæru er skoðuð í þessu ljósi verður hvorki séð, að ákærða hafi verið ógerlegt að haga vörn sinni á fullnægjandi hátt né að svo hafi verið í raun, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991.

Í ákærunni, sem gefin var út 8. apríl 2003, er háttsemi ákærða í öllum tilvikum talin varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 42/1992, án þess að greint væri milli fyrri og síðari málsliðs þessa ákvæðis, eins og það var áður, en í þeim var mælt fyrir um misþunga refsingu. Með 4. gr. laga nr. 40/2003, sem tóku gildi 3. apríl 2003, var þessum málsliðum skipað í sitt hvora málsgreinina.Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti gerði saksóknari grein fyrir því, hvernig ákæruvaldið teldi hvern einstakan efnisþátt ákærunnar greinast milli málsgreina. Hefur þannig verið bætt úr þessum annmarka ákærunnar.

Með hliðsjón af framansögðu er ekki alveg næg ástæða til að vísa ákæru frá héraðsdómi.

II.

Ákærði reisir kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms á því, að of langur tími hafi liðið frá dómtöku málsins til uppsögu héraðsdóms. Þá hafi rannsókn málsins verið alvarlega ábótavant og hún í sumum tilvikum ómarkviss og óskýr.

Málið var dómtekið 1. júlí 2003, en héraðsdómur var ekki kveðinn upp fyrr en 15. ágúst sama ár. Þannig liðu sex vikur og þrír dagar frá dómtöku til dómsuppsögu. Er það í andstöðu við fyrirmæli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991. Við uppkvaðningu héraðsdóms var hins vegar bókað, að hvorki dómarar né sakflytjendur teldu þörf á því, að málið yrði flutt að nýju. Með hliðsjón af því og dómvenju, bæði í opinberum málum og einkamálum, verður héraðsdómur ekki ómerktur af þessum sökum. Þá leiðir það heldur ekki til ómerkingar, þótt rannsókn lögreglu sé áfátt, en ákæruvaldið ber halla af því við sönnunarfærslu fyrir dómi, sem misfarist kann að hafa við rannsóknina, sbr. 112. gr. laga nr. 19/1991.

III.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir tildrögum þess, að sakir voru bornar á ákærða, fyrst í október 2001 og aftur í mars 2002. Í fyrra skiptið leitaði stúlkan Y til S hjúkrunarforstjóra og sagði henni frá áreitni ákærða við sig í eitt skipti, er amma hennar hafi sent sig með pakka til eiginkonu ákærða, sem ekki hafi verið heima. Hjá lögreglu og fyrir dómi kvað S stúlkuna hafa sagt, að ákærði hafi káfað á sér, en hún brotist um og hlaupið út. Þessa sögu hafi hún svo endurtekið að viðstaddri T kennara, sem kvödd var til. Þetta staðfesti T við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi. Frá öðru hafi stúlkan ekki sagt sér þá eða síðar. Sömu sögu hafði móðir stúlkunnar að segja eftir henni á þessum tíma og hafi ekki verið um aðrar frásagnir að ræða. Málið hafi verið kynnt barnaverndarnefnd, en ákveðið hafi verið að kæra ekki og stúlkunni sagt að fara ekki aftur til ákærða.

Í mars 2002 bar svo við, að stúlkan sagði systur sinni, V, frá framferði ákærða við sig. Hjá lögreglu og fyrir dómi kvað V hana hafa sagt sér, að ákærði hafi gert henni eitthvað, káfað á henni og farið með hendi í klof hennar. Þetta varð til þess, að málið var að nýju fengið barnaverndarnefnd og nú jafnframt kært til lögreglu. N félagsráðgjafi var fengin til þess að ræða við stúlkuna í apríl 2002. Í greinargerð hennar 23. sama mánaðar kom fram, að stúlkan hafi greint frá því, að ákærði hafi áreitt sig í að minnsta kosti tvö ár, oft káfað á sér og sett fingur upp í leggöng sín. Félagsráðgjafinn staðfesti þessa frásögn bæði hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi. Móðir stúlkunnar greindi fyrir héraðsdómi frá því, að hún hafi, eftir að málið kom upp í síðara skiptið, talað við sig um káf ákærða og að hann hafi nuddað lim sínum við kynfæri stúlkunnar. Móðirin kvaðst þó ekki vita, hvort það ætti að hafa gerst oftar en einu sinni. Þá er fram komið, að stúlkan sagði vinkonu sinni frá framferði ákærða gagnvart sér nokkru áður en hún sagði öðrum. Vinkonan bar við yfirheyrslu í Barnahúsi 26. júní 2002, að hún hefði aðeins sagt sér frá káfi en ekki öðru og ekki hvar eða hvernig ákærði ætti að hafa strokið hana.

Tekin var skýrsla af stúlkunni Y í Barnahúsi 13. maí 2002 undir stjórn dómsformanns. Þar bar hún ákærða sökum, sem ákæra í málinu er reist á, en frá fæstum þeirra ætluðu atburða hafði hún áður sagt, svo að vitað sé. Hún sagði í  fyrstu, að tvö eða þrjú ár væru liðin frá því að ákærði hefði fyrst þuklað á sér, en síðar í skýrslutökunni vildi hún tengja upphafið við árið 1996, er amma hennar þurfti að gangast undir læknisaðgerð. Er frásögn hennar nánar reifuð í héraðsdómi.

Stúlkan var skoðuð af Jóni R. Kristinssyni barnalækni og Þóru F. Fischer kvensjúkdómalækni í Barnahúsi 15. maí 2002 vegna gruns um, að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Í vottorði þeirra 23. sama mánaðar kom fram, að meyjarhaft hafi verið mjótt og eftirgefanlegt og opið fyrir speculum (andanefju) án sársauka. Þótt ekki sæist rof í meyjarhaftið aftan til gæti niðurstaða þeirra gefið vísbendingu um, að innþrenging hefði átt sér stað, til dæmis með fingri. Skýrði Þóra þessa niðurstöðu svo fyrir héraðsdómi, að hún vekti sterka grunsemd um, að innþrenging hefði átt sér stað, en væri ekki óyggjandi sönnun um hana. Ekki væri unnt að útiloka, að meyjarhaftið væri svona, án þess að nokkur innþrenging hefði átt sér stað, og jafnvel gæti það hafa verið svona frá fæðingu.

IV.

Eins og greinir í héraðsdómi hafa þeir, sem ræddu við stúlkuna í kjölfar ásakana hennar á hendur ákærða, lýst því við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi, að hún hafi átt mjög erfitt með að greina frá atburðum, grátið mikið og verið niðurbrotin. Bæði móðir hennar og amma hafa sagt frá því, að þær hafi greint nokkrar breytingar á hátterni hennar á þessum tíma. Móðir hennar kvað hana hafa orðið uppstökkari og skapstyggari en áður og sífellt borið við þreytu. Amma stúlkunnar kvað hana helst ekki hafa viljað fara með sér í heimsókn til ákærða. Hún hafi alls ekki viljað vera ein í herbergi með honum og jafnan fylgt sér í önnur herbergi, ef ákærði var í heimsókn. Af frásögnum mæðgnanna verður ráðið, að á þessu hafi fyrst farið að bera á árinu 2001, en vegna skólagöngu bjó stúlkan hjá ömmu sinni á veturna frá árinu 1998.

Í bréfi Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings og forstöðumanns Barnahúss til ríkissaksóknara 7. mars 2003 kemur fram, að frá 23. maí 2002 hafi stúlkan verið í fimm greiningar- og meðferðarviðtölum hjá sér að beiðni barnaverndarnefndar. Þessi viðtöl hafi leitt í ljós ýmsar áhyggjur, sem þekktar séu meðal barna, er sætt hafi kynferðislegu ofbeldi. Í fyrstu viðtölunum hafi telpan grátið mikið og lýst kvíða og hræðslu. Telpan hafi sagt sér, að hún hafi upplifað mikinn ótta, þegar ákærði hafi beitt hana kynferðisofbeldi, og hún hafi ekki vitað, hvernig hún ætti að bregðast við. Áreitni ákærða hafi haldið áfram, eftir að hún sagði frá hegðun hans í fyrra skiptið. Henni hafi liðið mjög illa á þessu tímabili, þar sem enginn hafi hjálpað henni og hún talið, að sér væru allar bjargir bannaðar. Í viðtölunum hafi jafnframt komið fram, að telpan hafi átt erfitt í samskiptum við annað fólk og fundist hún utanveltu, en vandamál af þessu tagi væru dæmigerð fyrir börn, sem hefðu orðið fyrir kynferðisofbeldi. Henni hætti til að verða döpur og áhyggjufull og sjálfstraust hennar hefði beðið hnekki. Í bréfi sálfræðingsins til ríkissaksóknara 23. janúar 2004, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt, er frá því greint, að stúlkan hafi komið í fjögur viðtöl eftir aðalmeðferð málsins í héraði. Líðan hennar sé enn að nokkru leyti í samræmi við lýsingar í fyrra bréfinu og henni finnist hún eiga torvelt að ráða við erfiðleika og mótlæti. Hún sé viðkvæm og sveiflótt í skapi og gráti af litlu tilefni. Niðurstöður mælikvarða Kovacs á geðlægð barna 21. janúar síðastliðinn staðfesti, að sjálfsmat telpunnar sé lágt, hún glími enn við nokkra depurð og finnist hún hafa litla stjórn á aðstæðum sínum. Hún sæki nú viðtöl til sálfræðingsins einu sinni í mánuði og muni gera enn um sinn, en ekki sé unnt að meta að svo stöddu, hvort stúlkan muni ná sér að fullu.

V.

Dómarar Hæstaréttar hafa skoðað myndband það af skýrslu stúlkunnar, sem fyrir liggur í málinu. Fallast má á það með héraðsdómi, að framburður hennar sé út af fyrir sig trúverðugur, en sumar frásagnir hennar þar eru á annan veg en hún hefur lýst fyrir öðrum þeim, sem rætt hafa við hana um ætlaðar sakir ákærða. Þá er jafnframt á það fallist með héraðsdómi, að ásakanir eiginkonu ákærða á hendur stúlkunni um hnupl séu ekki til þess fallnar að draga úr trúverðugleika frásagnarinnar, en ósannað er, að þær hafi verið bornar fram, áður en hún sagði fyrst frá í október 2001.

Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi, verður Hæstiréttur að meta, hvort ákæruvaldinu hafi í heild tekist að færa fram nægilega sönnun um sök ákærða, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 45. gr. og 46. gr. laganna. Eins og mál þetta liggur fyrir er ekki varhugavert að telja sannað, að ákærði hafi á þeim stöðum, sem tilgreindir eru í ákæru, áreitt stúlkuna kynferðislega á tímabili, sem þó er ekki öruggt að ætla lengra en frá árinu 1999 til og með 2001. Fær trúverðug lýsing stúlkunnar um þetta stoð í frásögnum allra þeirra, sem rætt hafa við hana um framferði ákærða. Í þessari áreitni hefur falist káf og þukl á brjóstum og kynfærum stúlkunnar, eins og lýst er í ákærulið I, og varðar sú háttsemi ákærða við 2. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/2003, sem hér á við samkvæmt 1. mgr. 2. gr. fyrrnefndu laganna. Þá verður jafnframt að telja sannað, að ákærði hafi nokkrum sinnum sett fingur inn í kynfæri stúlkunnar, eins og honum er gefið að sök í ákærulið I, og eiga þær sakir undir 1. mgr. 202. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 40/2003. Njóta ásakanir stúlkunnar um þetta einkum stuðnings í skýrslu og framburði N félagsráðgjafa og fyrirliggjandi læknisvottorði Jóns Kristinssonar og Þóru F. Fischer auk framburðar hinnar síðarnefndu fyrir dómi. Gegn eindreginni neitun ákærða er hins vegar ekki unnt, án frekari vísbendinga, að telja ákæruvaldinu hafa tekist að færa fram nægar sannanir um aðrar sakargiftir, sem á hann eru bornar.

VI.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður að líta til þess, hversu alvarleg háttsemi hans var gegn ungu barni og hversu háskalegar afleiðingar hún var til þess fallin að hafa, sbr. 1. tl. og 2. tl 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði á sér ekki málsbætur. Hann hefur ekki sakaferil, sem áhrif getur haft á ákvörðun refsingar í þessu máli. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu um takmarkaðri sakfellingu en í héraðsdómi verður ekki hjá því komist að milda refsingu hans frá því, sem þar var dæmt. Þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði, en engin efni eru til að skilorðsbinda refsivistina.

Þá verður ákærði dæmdur til að greiða stúlkunni miskabætur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. janúar 2003, en þá var mánuður liðinn frá birtingu bótakröfu fyrir ákærða. Við ákvörðun bótafjárhæðar verður litið til þess, hversu alvarleg og langvarandi brot ákærða voru gagnvart stúlkunni, en af gögnum málsins er ljóst, að hún mátti vænta trúnaðar af hans hendi. Þá er sýnt, að brot ákærða hafa valdið stúlkunni miklum þjáningum og er óvíst um áhrif þeirra á hana í framtíðinni. Eru bætur hæfilega ákveðnar í héraðsdómi.

Eftir þessum úrslitum verður ákærði dæmdur til að greiða 2/3 hluta sakarkostnaðar, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti, en 1/3 hluti hans greiðist úr ríkissjóði. Ákvörðun héraðsdóms um fjárhæð málsvarnarlauna skipaðs verjanda og þóknunar réttargæslumanns skal vera óröskuð. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti skulu vera þau, sem greinir í dómsorði.  

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði Y 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. janúar 2003 til greiðsludags.

Ákvörðun héraðsdóms um fjárhæð málsvarnarlauna skipaðs verjanda og þóknunar réttargæslumanns skal vera óröskuð. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, skulu nema 300.000 krónum og þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, er ákveðin 80.000 krónur. Þessar fjárhæðir og annan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti skal ákærði greiða að 2/3 hlutum, en 1/3 hluti greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 15. ágúst 2003.

Mál þetta, sem var dómtekið 1. júlí sl., höfðaði ríkissaksóknari 8. apríl sl., á hendur X, [fæðingardagur og heimilisfang],

„fyrir kynferðisbrot, framin á A á tímabilinu frá 1997 til og með 2001, gegn stúlkunni Y, [fæddri 1990], eins og hér greinir:

I

Að hafa margsinnis kysst stúlkuna á munninn og þá stungið tungunni upp í hana, margsinnis káfað á brjóstum og kynfærum stúlkunnar og í nokkur skipti sett fingur inn í kynfæri hennar.

II

Að hafa í tvö eða þrjú skipti á heimili sínu, einu sinni um borð í bát sínum, [D], og einu sinni í bifreið sinni, nuddað getnaðarlim sínum við kynfæri [Y] uns honum varð sáðlát.

III

Að hafa í nokkur skipti á heimili sínu og í bifreið sinni sleikt brjóst og kynfæri stúlkunnar.

Telst háttsemi ákærða í öllum tilvikum varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu Y er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 500.000, auk dráttarvaxta til greiðsludags skv. lögum um vexti og verðbætur nr. 38/2001.“

Ákærði krefst sýknu.

I.    

Stúlkan Y býr á E.  Frá því að hún hóf skólagöngu hefur hún orðið að dvelja á A á veturna.  Fyrst dvaldi móðir hennar þar með henni, en frá haustinu 1998 fram á vor 2002 dvaldi hún hjá ömmu sinni, R.  Ákærði og eiginkona hans voru góðir kunningjar R og var töluverður samgangur milli heimilanna.  Eiginkona ákærða er skyld móður Y.  Kom fram í skýrslu móðurinnar hér fyrir dómi að veturinn 1996-97 hefði Y gist á heimili ákærða í um vikutíma er móðir hennar þurfti að vera fjarverandi og einnig kom fram að hún hefði gist þar síðar, er amma hennar þurfti að fara til F.

Y leitaði haustið 2001 til S, hjúkrunarforstjóra.  S skýrir svo frá að hún hafi verið með viðveru einu sinni í mánuði í grunnskólanum og hafi kennarar sagt börnunum að þau gætu farið til hennar og rætt vandamál sín í trúnaði.  Y hafi komið til hennar 17. október 2001.  S lýsir samtali þeirra svo að þær hafi í fyrstu rætt um heima og geima, en síðan hafi Y sagt sér að amma hennar hefði sent hana með pakka til eiginkonu ákærða, en hún hefði ekki verið heima.  Ákærði hefði þá áreitt hana.  Hafi Y orðað það svo að ákærði hefði káfað á henni.  Hún hafi verið mjög döpur er hún skýrði frá þessu.  S kveðst með leyfi Y hafa sótt kennara hennar, T og hún hafi endurtekið frásögnina að henni viðstaddri.  S segist einnig hafa fengið leyfi Y til að ræða málið við móður hennar.  Hafi hún nokkrum dögum síðar gert það að T viðstaddri og í framhaldi af því látið barnaverndarnefnd vita. 

T lýsir þessum atvikum á sama hátt.  Hún segir að Y hafi verið miður sín er hún kom til þeirra S og greinilega verið búin að gráta.

Móðir Y, U, staðfestir að hafa komið á fund S og T, þar sem henni hafi verið sagt frá frásögn Y.  U kveðst hafa talið á þeim tíma að þetta hefði verið einstakt tilfelli.  Hún hafi spurt stúlkuna hvers vegna hún hefði ekki sagt sér frá þessu og hún sagt að hún hafi verið hrædd við ákærða og haldið að sér yrði ekki trúað.  Þau hafi ákveðið fyrir sitt leyti að kæra atvikið ekki, en bannað stúlkunni að fara heim til ákærða.  Kveðst U ekki vita til þess að hún hafi farið þangað ein eftir þetta.

Þessi frásögn Y og tilkynning S til barnaverndarnefndar leiddi ekki til frekari rannsóknar.

II.

V, systir Y, telur að það hafi verið í mars 2002 sem hún kom til hennar þar sem hún var að gæta barna L og M á heimili þeirra á A.  V segir að systir sín hafi verið hálfgrátandi og er hún hafi gengið á hana hafi hún sagt að sér liði ekki vel að vera ein.  Síðan hafi hún sagt að ákærði hefði gert eitthvað við hana, sem V lýsti þannig að Y hafi sagt að hann hefði káfað á henni.  V sagði þeim L og M frá sögu Y.   M ræddi þetta við lögreglu og var barnaverndarnefnd gert aðvart.  Hinn 17. apríl 2002 fékk nefndin N, félagsráðgjafa, til að ræða við Y, sem hún gerði fimm dögum síðar.  N segist hafa sagt Y í upphafi viðtalsins hvers vegna hún væri komin.  Hún hafi þá brostið í grát og sagst hafa verið hrædd um að enginn myndi hjálpa sér og vísað til þess að hún hefði sagt frá áður, en ekkert hefði verið aðhafst.  Frásögn hennar hafi verið samhengislítil, en hún hafi lýst því að maður sem kæmi oft heim til ömmu hennar væri alltaf að káfa á henni innan klæða og setja fingur upp í leggöng hennar.  Hún gæti ekkert gert, því að maðurinn væri góður við ömmu hennar og að hún vorkenndi honum þar sem hann hefði átt bágt í æsku.  N segir að Y hafi verið svo miður sín og grátið svo mikið að hún hafi misskilið hana og ályktað að Y hefði verið áreitt heima hjá ömmu sinni, en um þetta hefði hún ekki spurt Y beint.

III.

Daginn eftir þetta ritaði N greinargerð um grun um brot gegn Y og sendi sýslumanninum á A.  Að ósk hans tók héraðsdómari skýrslu af Y.  Dómþing til skýrslutökunnar var háð 13. maí 2002 í Barnahúsi og starfsmanni þess falið að spyrja stúlkuna.  Myndbandsupptaka af yfirheyrslunni var sýnd í réttinum við aðalmeðferð málsins og endurrit hennar er meðal málsskjala. 

Y var spurð hvort hún áttaði sig á tilefni skýrslutökunnar og sagði að það væri vegna máls varðandi ákærða, sem hún nefndi með nafni.  Spurð hver hann væri sagði hún að hann væri maðurinn sem hefði gert þetta við hana.  Spurð hvað hefði gerst sagði hún þá að það hefði verið svo margt.  Þá var hún spurð hvar það hefði gerst og svaraði að það hefði verið út um allt, heima hjá honum, í bíl hans og stundum í báti hans.  Spurð hvað ákærði hefði gert sagði hún að hann hefði þuklað á sér og svoleiðis.  Spurð hvenær þetta hefði gerst fyrst sagði hún að hún myndi það ekki og gat ekki lýst fyrsta atvikinu, en sagði að það væru svona tvö til þrjú ár síðan.  Spurð hvenær þetta hefði síðast gerst sagði hún að það hefði verið í kringum síðustu jól.  Hún var beðin að lýsa því atviki og sagði þá að hann hefði bara alltaf verið þuklandi á sér og svoleiðis. Spurð um hvar og hvernig hann hefði þuklað á henni, lýsti hún því svo að hann hefði þuklað innan á henni og nuddað brjóstin og farið niður, nuddað limnum upp við hana, sleikt brjóst hennar og kynfæri og þuklað á kynfærum.  Hún var spurð hvort hún myndi eftir atviki sem hefði gerst í báti ákærða og svaraði að þá hefðu þau ætlað að fara út að veiða.  Hún hefði orðið sjóveik og farið niður.  Ákærði hefði komið og klætt hana úr buxum og reynt að setja lim í kynfæri hennar.  Hann hefði alltaf sagt að þetta væri leyndarmál þeirra og að hún mætti ekki segja frá þessu.  Hún hefði verið mjög hrædd og sagt að hún vildi þetta ekki og ákærði hefði þá fljótlega hætt.  Hún sagði aðspurð að ákærði hefði oftar en í þetta sinn sett lim í kynfæri hennar, svona þrisvar til fjórum sinnum.  Hún hefði stundum meitt sig.  Spurð hvort limurinn hefði verið harður eða linur kvaðst hún ekki muna það, og svaraði neitandi spurningu um hvort hún hefði einhvern tíma séð liminn.  Spurð hvernig hún vissi þá að hann hefði sett hann í kynfæri hennar sagðist hún alveg hafa fundið fyrir því.

Y var spurð hvers vegna hún hefði ekki greint fyrr frá háttsemi ákærða og sagðist ekki vita það, hún hefði verið svo hrædd inni í sér.  Spurð við hvað hún hefði verið hrædd sagðist hún ekki vita það.  Hún var beðin að lýsa einhverju atviki sem hefði gerst í bifreið ákærða og sagði að hann hefði alltaf byrjað að klappa á lærin á henni og síðan farið inn á hana, stöðvað bifreiðina og nefndi þar tvo staði, úti á B eða inni á C og farið að þukla meira á henni og inn í kynfæri og stundum hefði hann farið yfir hana og byrjað að sleikja kynfæri hennar og brjóst, eftir að hafa klætt hana úr buxum.  Þá hefði hann einnig kysst hana og sett tunguna upp í hana.  Spurð síðar í yfirheyrslunni um sáðlát sagði hún: „já en það fór aldrei á mig“. Það hefði gerst bæði í bátnum og bílnum, svona tvisvar eða þrisvar og einu sinni þegar hann var heima hjá sér.  Hún var spurð um hvort hún myndi hvað hún hefði sagt N og nefndi m.a. að N hefði spurt hvort ákærði hefði sett fingur upp í leggöng hennar og hún hefði játað því.  Nánar spurð um þetta sagði hún að ákærði hefði gert það oft og að hún hefði þá oft meitt sig.  Spurð um hvort ákærði hefði einhvern tíma leitað á hana á heimili sínu játaði hún því, bæði hefði það gerst inni í sjónvarpsherbergi og hjónaherbergi.  Spurð um nánari atvik sagði hún að það hefði bara verið eins og í öll hin skiptin.   Nánar spurð lýsti hún því að ákærði hefði nuddað lim við kynfæri hennar og þreifað á brjóstum hennar inni í hjónaherbergi.  Spurð hvort hún myndi eftir atvikum inni í sjónvarpsherbergi sagði hún að ákærði hefði bara þuklað á sér, það hefði ekki verið neitt öðru vísi.  Fullyrðingu spyrjanda um að þegar ákærði hefði þuklað á henni hefði hann iðulega sett fingur inn líka, svaraði hún með jái.

IV.

Ákærði kveðst ekki hafa haft öðru vísi samskipti við Y en önnur börn á Aog segir frásögn hennar vera uppspuna.  Hann hafi oft heimsótt ömmu hennar og stundum tekið Y upp í bifreið sína og ekið henni í skóla ásamt tveimur öðrum börnum.  Þá hafi hún einum tvisvar sinnum farið í siglingu með honum ásamt fleiri börnum.  Hann kveðst ekki muna að hún hafi verið ein með honum í báti hans.  Hann var spurður hvort hún hafi farið með honum í ökuferðir.  Hann kveðst ekki muna glöggt eftir því.  Þó geti verið að hún hafi eitt sinn farið með, er hann var að sækja grjót inn á C.  Þá geti einnig verið að hún hafi farið með honum í ökuferðir út á B, sem hann hafi farið til að fylgjast með starfsemi við höfnina. Oft hafi hann verið heima hjá ömmu hennar að spila og þau Y þá ósjaldan verið að gantast og tuskast. 

Ákærði segir að kona sín hafi staðið Y að hnupli, en hún hafi þó þrætt fyrir það.  Henni hafi þá verið bannað að koma í heimsókn til þeirra nema í fylgd ömmu sinnar. Hafi ásakanir hennar í hans garð komið fram eftir þetta.

R, amma Y, segir kynni sín af ákærða og eiginkonu hans hafa byrjað fyrir tæpum þremur árum.  Eiginkona ákærða og móðir Y séu frænkur og Y hafi þekkt þau.  R kveðst hafa þurft að leita læknis reglulega árin 1996 – 1999 og þá hafi Y dvalið hjá ákærða og konu hans.  Einnig hafi þær oft heimsótt þau og ákærði hafi oft komið á heimili hennar og segir R hann hafa reynst sér mjög vel.  Hún segir að Y hafi oft verið með ákærða í bíl hans og báti.  Breyting hafi orðið á henni í fyrravetur, þannig að hún hafi helst ekki viljað fara heim til ákærða og konu hans, en hún hafi ekki útskýrt hvers vegna.  Þá hafi hún tekið eftir því síðari hluta sama vetrar að hún vildi helst ekki vera ein með ákærða.  R kveðst hafa reynt að færa meint brot ákærða gegn Y í tal við hana í sumar, en hún hafi beygt af og ekki viljað ræða þetta við sig.  Hún kveðst aldrei hafa reynt Y að ósannsögli eða hnupli.

U segir að Y hafi stundum verið hjá ákærða og eiginkonu hans í einn eða tvo daga á árunum 1996 –97 og síðar.  Hún kveðst hafa vitað að Y væri oft með ákærða, hann hafi ekið henni í skóla og farið með hana út á sjó.  Hafi verið misjafnt hvort hún var þá ein með honum eða ekki.  U segir dóttur sína ekki hafa lýst háttsemi ákærða fyrir sér í smáatriðum, en þó hafi komið fram að hann hafi káfað á henni og nuddað lim við kynfæri hennar.  Hún hafi átt erfitt með að ræða þetta við sig og beygt af.

U lýsir dóttur sinni sem hreinskilinni og sannsögulli.  Hún hafi verið hlýðið barn, fjörugt og kraftmikið.  Fyrir tveimur árum hafi orðið breyting á henni, hún hafi orðið skapstyggari og oft verið þreytt og þurft að leggja sig á daginn.  U kveðst hafa talið að þessi breyting væri fylgifiskur þess að hún væri að eldast og þroskast, en hún virðist vera komin í betra jafnvægi núna.  Hún hafi sagt sér frá því haustið 2001 að ákærði og eiginkona hans hefðu borið þjófnað á hana og verið mjög sár yfir því.

O, eiginkona ákærða, segir að hún hafi staðið Y að því í kringum mánaðamót febrúar og mars 2002 að hnupla frá sér skartgripum, ilmvatni og peningum.  Hafi hún fundið þetta í úlpuvasa hennar, en hún samt þrætt fyrir að hafa tekið það.  O kveðst ekki hafa sagt ömmu Y eða foreldrum hennar frá þessu, en bannað stúlkunni að koma einni inn á heimilið eftir þetta.

V.

Jón R. Kristinsson barnalæknir og Þóra F. Fischer kvensjúkdómalæknir skoðuðu Y 15. maí 2002.  Þóra gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti vottorð þeirra um skoðunina.  Í niðurstöðu þeirra kemur fram að meyjarhaft hafi verið mjótt og eftirgefanlegt og opið fyrir speculum (andanefju) án sársauka.  Þótt ekki sjáist rof í meyjarhaftið aftantil gæti niðurstaðan gefið vísbendingu um að innþrenging hafi átt sér stað, t.d. með fingri.  Skýrði Þóra þessa niðurstöðu svo að hún gæfi til kynna sterka grunsemd um að innþrenging hefði átt sér stað, en væri ekki óyggjandi sönnun um hana.

Y hefur sótt níu greiningar- og meðferðarviðtöl til Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings, frá 23. maí 2002 – 27. júní 2003.  Í skýrslu Vigdísar dagsettri 7. mars sl., sem er rituð að undangengnum fimm viðtölum og í skýrslu hennar hér fyrir dómi kemur fram að Y sé hávaxin miðað við aldur en útlit hennar að öðru leyti aldurssamsvarandi.  Hún hafi alvarlegt og fremur fullorðinslegt viðmót og tilsvör hennar og áherslur beri vott um samviskusemi og nákvæmni.

Vigdís kveður viðtöl sín við Y hafa leitt í ljós ýmsar áhyggjur sem séu þekktar meðal barna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi.  Hún hafi grátið mikið í fyrstu viðtölunum og lýst kvíða og hræðslu.  Þá hafi hún lýst miklum ótta sem hún hafi upplifað þegar ákærði hafi beitt hana kynferðisofbeldi og hún hafi ekki vitað hvernig hún ætti að bregðast við.  Getur Vigdís sér þess til að fjarvera hennar frá foreldrum sínum hafi gert henni erfiðara um vik að leita stuðnings þeirra og að það kunni að hafa átt þátt í úrræðaleysi hennar.  Þá getur hún þess að Y hafi sagst hafa verið mjög kvíðin er hún sagði fyrst frá kynferðisofbeldinu haustið 2001 og óttast að henni yrði ekki trúað, eða eitthvað slæmt færi af stað, sem hún hefði ekki stjórn á.  Hún hafi skýrt frá því að hún hafi valið að segja bekkjarbræðrum sínum frá hegðan ákærða og þeir hafi sagt kennara hennar frá og málið hafi verið rætt við hana, en samt hafi enginn hjálpað henni, en ákærði hafi haldið áfram að áreita hana.  Hafi hún lýst líðan sinni sem mjög slæmri á þessum tíma, þar sem hún hafi talið sér allar bjargir bannaðar.  Þá segir Vigdís að Y hafi lýst mikilli hræðslu við að hitta ákærða á förnum vegi eftir að hún greindi frá.  Hún hafi þurft að ganga fram hjá heimili hans á leið til og frá skóla og alltaf verið kvíðin á þeirri leið.  Hún hafi um tíma verið mjög upptekin af ákærða og ferðum hans og sagst hugsa um reynslu sína oft á dag.  Hræðsla hennar hafi minnkað nokkuð er frá leið.  Líðan hennar sé enn sveiflótt og henni hætti til að verða döpur og áhyggjufull.  Hún tali jafnframt um skapsveiflur. Sjálfstraust hennar hafi beðið hnekki og henni finnist hún frábrugðin öðrum börnum vegna reynslu sinnar.  Hún hafi þó ekki sektarkennd vegna atvikanna og segist njóta stuðnings jafnaldra sinna og vina.

Vigdís kveðst vænta þess að Y hafi þörf fyrir áframhaldandi meðferð um nokkurt skeið og líklegt sé að hún þarfnist aðstoðar síðar á ævinni.  Aðspurð segist hún ekki hafa fundið nokkra ástæðu til að rengja frásögn Y.

VI.    

Dómararnir hafa skoðað vandlega myndbandsupptöku af skýrslu Y fyrir dómi.  Skýrslugjöfin var henni greinilega erfið, sérstaklega í fyrstu.  Þegar skýrsla hennar er virt í heild, er frásögn hennar um háttsemi ákærða þó skýr og greinargóð.  Lýsir hún henni á þann veg að hann hafi í mörg skipti þreifað á brjóstum hennar og kynfærum innan klæða, stundum sett fingur inn í kynfæri hennar og í nokkur skipti fært hana úr fötum og sett lim að kynfærum hennar.  Þá lýsir hún því að honum hafi orðið sáðlát í einhverjum tilvikum.  Hún lýsir því að þetta hafi átt sér stað í bifreið ákærða og í báti hans og á heimili hans.  Hún á erfitt með að tímasetja eða greina einstök tilvik, en segir með mikilli áherslu að þetta hafi gerst oft.

Samkvæmt framburði R, ömmu Y, sem hún bjó hjá á veturna, fór hún oft með ákærða í bifreið hans og bát.  Þá var mikill samgangur milli heimilanna. Kom ákærði oft heim til R og Y kom oft á heimili hans, ýmist ein eða með ömmu sinni.  Ákærði kannast við að verið geti að hún hafi farið með honum í ökuferðir, bæði út á C og út á B.  Leikur ekki vafi á að hann hefur haft fjölmörg tækifæri til að fremja þá háttsemi sem honum er gefin að sök.

S og T hlustuðu báðar á Y skýra frá því í október 2001 að ákærði hefði þreifað á henni.  Þrátt fyrir að Y greini frá því að hún hafi fyrst sagt skólasystkinum sínum frá háttsemi ákærða, er framburður T alveg skýr um það að hún hafi fyrst um þetta heyrt, er S kallaði hana til að hlusta á frásögn stúlkunnar.  Í framburði þeirra beggja kemur fram að sú frásögn hafi greinilega verið henni erfið.  V, systir Y og hjónin L og M greina öll frá hræðslu hennar og andlegu uppnámi, sem varð til þess að málinu var vísað til barnaverndarnefndar og lögreglu í mars 2002.  Samkvæmt skýrslu N var Y í miklu uppnámi er hún ræddi við hana og grét mikið.  Móðir Y og amma hennar, sem báðar hafa reynt að ræða við hana um háttsemi ákærða, lýsa því báðar að henni hafi verið það mjög erfitt.  Í skýrslu Vigdísar Erlendsdóttur kemur fram að Y grét mikið í fyrstu viðtölunum og lýsti kvíða og hræðslu og sýndi einkenni, sem Vigdís segir dæmigerð fyrir börn sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi. 

Eftir þessu liggur skýrt fyrir að Y hefur ætíð reynst erfitt að greina frá háttsemi ákærða og að mikil vanlíðan fylgir því fyrir hana að rifja atvik upp.  Þessi einkenni eru greinileg á myndbandsupptöku af skýrslugjöf hennar fyrir dómi.  Dómarar meta þessi atriði í heild mjög til styrktar á trúverðugleika framburðar stúlkunnar.  Ekkert verður séð sem bendir til þess að frásögn hennar sé röng í verulegum atriðum eða uppspuni.  Ekkert liggur fyrir sem sannar frásögn O um að Y hafi hnuplað frá henni.  Móðir Y skýrði frá því að hún hefði sagt sér frá því að O hefði borið á hana hnupl og verið mjög sár yfir því.  Henni og O ber ekki saman um hvenær þetta hafi átt sér stað, en O segir að það hafi verið í mars eða apríl 2002, sem er löngu síðar en Y sagði S að ákærði hefði þuklað hana.  Að þessu athuguðu verður ekki á því byggt að Y beri ákærða hugsanlega sökum vegna þess að hún hafi verið staðin að hnupli á heimili hans.

Frásögn Y fær veigamikla stoð í niðurstöðu læknisrannsóknar, þar sem fram kemur að ástand meyjarhafts gefi vísbendingu um að innþrenging, t.d. með fingri, hafi átt sér stað, þótt meyjarhaftið sé órofið.  Fer þetta alveg saman við lýsingu hennar á því að ákærði hafi sett fingur upp í leggöng hennar og sársauka sem hún hafi fundið til við það.

Þegar virt er í heild sannfærandi frásögn Y við skýrslutöku fyrir dómi, samkvæmur framburður vitna sem hafa rætt við hana um atvik að einhverju leyti um vanlíðan hennar því samfara, skýrsla Vigdísar Erlendsdóttur um líðan hennar í meðferðarviðtölum og lýsingu hennar á hræðslu og vanlíðan og sú stoð sem frásögn hennar fær í niðurstöðu læknisrannsóknar, telja dómarar ekki varhugavert að leggja framburð hennar til grundvallar, þrátt fyrir neitun ákærða.  Verður talið nægilega sannað með honum að ákærði hafi framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar við þargreint ákvæði almennra hegningarlaga.

VII.

Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar hans í þessu máli.  Við ákvörðun hennar verður litið til þess að brot hans gegn stúlkunni eru alvarleg og mörg og varða í mörgum tilvikum við fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, og varða því allt að 12 ára fangelsi.  Hann færði sér í nyt að hann var tíður gestur á heimili ömmu hennar, þar sem hún dvaldist og brást með háttsemi sinni trausti sem hann hafði áunnið sér hjá þeim.  Brot hans hafa valdið stúlkunni miklum þjáningum og erfiðleikum.  Hefur ákærði engar málsbætur.  Með hliðsjón af þessu ákveðst refsing hans fangelsi í þrjú ár.

Í málinu hefur réttargæslumaður stúlkunnar bótakröfu uppi vegna hennar f.h. foreldra hennar.  Krafist er miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 500.000 krónur, auk dráttarvaxta frá 5. janúar 2003, en þá var mánuður liðinn frá því að ákærða var birt bótakrafan.  Bótakrafan var ítarlega reifuð við munnlegan flutning málsins.  Skilyrði fyrir bótaskyldu eru uppfyllt.  Við ákvörðun bótafjárhæðar verður litið til þess hve brot ákærða voru mörg og alvarleg og að augljóst er að þau hafa valdið stúlkunni miklum þjáningum, sbr. vottorð Vigdísar Erlendsdóttur.  Bótakröfunni þykir vera í hóf stillt og verða bætur dæmdar eins og krafist er.

Dæma ber ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen, hrl., sem ákveðast 350.000 krónur í einu lagi vegna starfa hans á rannsóknarstigi málsins og við dómsmeðferð þess og réttargæslulaun Sifjar Konráðsdóttur hrl., sem ákveðast 150.000 krónur í einu lagi vegna starfa hennar á rannsóknarstigi  málsins og við dómsmeðferð þess.

 Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri, ásamt með­dóm­endum, Loga Guðbrandssyni og Sveini Sigurkarlssyni héraðsdómurum.  Dóms­uppsaga hefur dregist nokkuð vegna anna dómsformanns.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár.

Ákærði greiði U og P, vegna ófjárráða dóttur þeirra, Y, 500.000 krónur, með dráttarvöxtum frá 5. janúar 2003 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen, hrl., 350.000 krónur, og réttargæslulaun Sifjar Konráðsdóttur, hrl., 150.000 krónur.