Hæstiréttur íslands

Mál nr. 507/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Mánudaginn 25

 

Mánudaginn 25. september 2006.

Nr. 507/2006.

Ríkislögreglustjóri

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði áfram bönnuð för úr landi á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2006, þar sem varnaraðila var áfram bönnuð brottför af landinu allt til föstudagsins 29. september 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í forsendum dóms Hæstaréttar 11. september 2006 í máli nr. 486/2006 var tekið fram að ráða mætti af gögnum málsins að farbann til 21. september 2006 kl. 16 myndi duga til að ljúka rannsókn á hendur varnaraðila og taka ákvörðun um saksókn yrði sú raunin. Meðal gagna málsins nú er að finna rannsóknargögn, sem aflað hefur verið eftir að nefndur dómur Hæstaréttar gekk, og verður að ætla sóknaraðila hæfilegan tíma til að vinna úr þeim, ljúka rannsókn sinni og taka ákvörðun um hvort ákært verði. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2006.

Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess, með vísan til 110 gr. laga nr. 19,1991, um meðferð opinberra mála, og b-liðar 1. mgr. 103. gr. sömu laga, að X, [kt.], verði bönnuð brottför af landinu allt til föstudagsins 29. september nk. kl. 16:00.

Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að efnahagsbrotadeild Ríkislögreglu­stjóra hafi nú til rannsóknar meint brot kærða á höfundalögum nr. 73/1972 og lögum nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Í þágu rannsóknar málsins hafi kærði sætt farbanni frá 20. ágúst sl., sem hafi svo verið framlengt með úrskurðum héraðsdóms Reykjavíkur 28. ágúst og 7. september sl., en hinn síðastnefndi hafi verið staðfestur  með dómi Hæstaréttar 11. september nr. 486/2006, til dagsins í dag kl. 16:00.

Um málsatvik vísist til krafna efnahagsbrotadeildar um leit og handtöku þann 10. ágúst sl. og um farbann þann 20. og 28. ágúst og 7. september, svo og úrskurða héraðsdóms af því tilefni.

Rannsókn málsins sé nú á lokastigi og verði það afhent saksóknara á allra næstu dögum til ákvörðunar um saksókn.

Í gær hafi ríkislögreglustjóra borist meðfylgjandi greinargerð kæranda, Y, ásamt samantekt um þær skrár sem kærði muni hafa afritað og farið með úr húsnæði fyrirtækisins.  Í greinargerðinni komi fram að um sé að ræða skrár sem innihaldi verðmætustu rannsóknar- og viðskiptaleyndarmál fyrirtækisins.  Nánar tiltekið sé um að ræða afrakstur 10 ára vinnu.

Þá hafi kærði einnig verið yfirheyrður í gær og aftur í dag og hafi þeirri yfirheyrslu lokið nú um hádegisbilið. Kærði viðurkenni að hafa afritað umræddar skrár, en neiti alfarið að um sé að ræða brot gegn ofangreindum lagaákvæðum.

Í framangreindum dómi Hæstaréttar sé því slegið föstu að skilyrðum 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991, sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. sömu laga, um farbann sé fullnægt.  Ekki verði séð að unnt sé að hnekkja því mati Hæstaréttar, enda kærði enn erlendur ríkisborgari og án atvinnu og tengsla við land og þjóð.  Samkvæmt því sé enn uppi hætta um að hann geti komið sér undan málsókn. 

Með vísan til þess sem að framan sé rakið sé þess krafist að dómari leggi fyrir kærða að halda sig á Íslandi allt til föstudagsins 29. september nk. kl. 16.00.

Kærði er grunaður um alvarleg brot gegn 50. gr., sbr. 5. tl. 2. mgr. 52. gr. höfundarlaga nr. 73,1972 og 13. gr., sbr. 26. gr. laga nr. 57,2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, en brot gegn þessum ákvæðum geta varðað fangelsisrefsingu. Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 486/2006 var því slegið föstu að skilyrðum fyrir farbanni í tilviki kærða væri fullnægt, sbr. 110. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991. Að mati dómsins er ekkert fram komið í málinu nú sem hnekkt getur því mati.  Það er og álit dómsins að alveg jafn mikil hætta sé nú og er dómur Hæstaréttar gekk, að kærði  muni reyna „að komast úr landi eða leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málssókn.“  Er krafa ríkislögreglustjóra því tekin til greina.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærða, X, [kt.], er bönnuð brottför af landinu allt til föstudagsins 29. september nk. kl. 16.00.