Hæstiréttur íslands

Mál nr. 143/1998


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Bifreið
  • Búfé


Nr

Nr. 143/1998.

Tryggvi Árnason og

Guðrún Hlín Bragadóttir

(Þórólfur Kr. Beck hrl.)

gegn

Guðnýju Elínu Snorradóttur

(Örn Clausen hrl.)

og gagnsök

                                                             

Skaðabætur. Bifreiðir. Búfé.

Tveir hestar í eigu T og G urðu fyrir bifreið í eigu E á þjóðvegi nr. 1 í landi Kópavogs. Höfðu hestarnir sloppið úr girðingu kvöldið fyrir slysið. Var talið að brotthlaup hestanna mætti rekja til gáleysis vörslumanns þeirra og að T og G bæru skaðabótaábyrgð á tjóni E, en ekki var talið sannað að ökumaður bifreiðar E hefði gerst sekur um gáleysi við aksturinn. Voru T og G dæmd til að greiða E bætur fyrir tjón, sem varð vegna skemmda á bifreiðinni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 31. mars 1998 og krefjast aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, en til vara að þær verði lækkaðar. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 15. júní 1998 og krefst þess aðallega að aðaláfrýjendur verði dæmdir óskipt til að greiða sér 909.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 855.000 krónum frá 1. júní 1996 til 1. ágúst 1997, en af 909.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Einnig krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Slysið, sem mál þetta er risið af, varð á þjóðvegi nr. 1 fyrir ofan Lækjarbotna á níunda tímanum að kvöldi 1. mars 1996. Mun slysstaðurinn vera nokkru vestar en fjárgirðing um höfuðborgarsvæðið. Svo sem greinir í héraðsdómi vildi slysið þannig til að tveir hestar urðu fyrir fólksbifreið gagnáfrýjanda, sem ekið var áleiðis til Reykjavíkur. Átti aðalfrýjandi Guðrún annað þeirra, en aðalfrýjandi Tryggvi hitt og drápust bæði hrossin. Eftir áreksturinn var bifreiðin talin ónýt.

Hestar þessir voru geymdir ásamt öðrum hrossum á býlinu Geirlandi, sem er nálægt Suðurlandsvegi skammt fyrir austan býlið Gunnarshólma. Bragi Sigurjónsson, faðir aðaláfrýjandans Guðrúnar, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið með hestana á gjöf á Geirlandi og sett þá út í gerði, sem er áfast húsinu. Einhver styggð hafi komið að hestunum meðan hann hafi verið inni að gefa, þannig að þeir hafi brotið niður girðinguna í gerðinu og hann hafi tapað þrem þeirra út í myrkrið. Kvaðst hann í birtingu morguninn eftir hafa byrjað að leita að hestunum ásamt fleiri mönnum, en án árangurs. Í málinu nýtur ekki við nánari lýsingar á þessum atvikum eða umbúnaði gerðisins.

Fram er komið að Bragi og systkini hans höfðu um eitthvert árabil verið með hross og fé að Geirlandi og að Bragi annaðist hestana þar fyrir aðaláfrýjendur á þeim tíma, sem hér skiptir máli. Skýrði hann lögreglunni svo frá, að hestarnir hafi verið „alfarið í minni umsjá“. Húsin að Geirlandi voru að sögn Braga um 500 m frá þjóðveginum. Bar hann fyrir dómi að mjög mikið hefði verið um að hross slyppu úr vörslum manna í næsta nágrenni. Ekki hafi verið óalgengt að hann og aðrir tækju þarna laus hross.

Við þessar aðstæður var nauðsynlegt að gera gerðið þannig úr garði, að hross gætu ekki auðveldlega brotist út úr því. Bar Braga sem vörslumanni hestanna að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þeir ættu greiða leið úr gerðinu að einum fjölfarnasta þjóðvegi landsins. Verður að leggja til grundvallar, að brotthlaup hestanna megi rekja til gáleysis hans.

II.

Aðaláfrýjendur hafa meðal annars borið fyrir sig, að bótaábyrgð verði ekki felld á þá, þótt talið yrði að tjón gagnáfrýjanda hefði hlotist af gáleysi Braga. Hér ber þó á það að líta, að óumdeilt er að Bragi var að sinna hestunum og sá í umrætt sinn um vörslu þeirra í þágu aðaláfrýjenda. Hafa þeir ekki sýnt fram á, að staða hans gagnvart þeim hafi verið svo sjálfstæð, að ekki verði lögð á þá bótaskylda vegna saknæms atferlis hans. Bera aðaláfrýjendur því skaðabótaábyrgð á tjóni gagnáfrýjanda að því marki, sem hann verður ekki sjálfur talinn meðábyrgur.

III.

Í skýrslu lögreglumanna úr Reykjavík 1. mars 1996, sem komu að slysinu, sagði að annar hesturinn hafi drepist strax, en hinn verið aflífaður skömmu síðar. Hafi verksummerki bent til að ekið hafi verið aftan á hestana. Um aðstæður á slysstað sagði, að myrkur hafi verið og skýjað, en yfirborð hins malbikaða vegar blautt. Eftir skýrslunni að dæma var úrkomulaust. Þá var tekið fram, að í slíku myrkri, sem þarna var, sé hæpið að skepnur á veginum sjáist fyrr en komið sé nærri þeim. Annar hesturinn hafi verið steingrár, en hinn dökkbleikur. Þá sagði, að önnur skepnan hafi lent upp á vélarhlíf bifreiðarinnar, í framrúðuna og kastast upp á þak. Stýrishjólið hafi verið bogið og bak sætis ökumanns „lagt aftur“. Miklar skemmdir hafi verið á bifreiðinni að framan og á yfirbyggingu.

Stjórnandi bifreiðar gagnáfrýjanda skýrði lögreglunni frá á slysstað, að hann hafi ekið með háum ljósgeisla í umrætt sinn. Hann hafi allt í einu séð hross á veginum rétt framan við bifreiðina. Var frásögn hans um það á sömu lund í lögregluskýrslu 12. mars 1996 og síðar fyrir dómi. Taldi hann að hestarnir hefðu hlaupið inn á veginn. Hafi hann sveigt til vinstri til þess að forðast árekstur, en það hafi ekki tekist. Hann kvaðst ekki vera viss um hvort hann hafi náð að beita hemlum áður en áreksturinn varð. Voru engin hemlaför sýnd á uppdrætti, sem lögreglumaður gerði af vettvangi. Bifreiðin rann alllangt út fyrir veginn áður en hún stöðvaðist.

Í frumskýrslu lögreglu 1. mars 1996 var ritað „80-90 km“ í reit fyrir sagðan ökuhraða, en við skýrslugjöf hjá lögreglu 12. sama mánaðar kvaðst stjórnandi bifreiðarinnar hafa ekið á um 80 km hraða. Leyfður hámarkshraði var 90 km á klukkustund. Af ummerkjum eftir slysið verður ekki ráðið með neinni vissu um ökuhraða. Hafa aðaláfrýjendur ekki með öðrum hætti hnekkt staðhæfingum gagnáfrýjanda  um þetta efni.

Enginn sjónarvottur var að slysinu. Er ekkert fram komið, sem gefur tilefni til að draga í efa frásögn ökumanns af aðdraganda slyssins. Verður að leggja hana til grundvallar. Aðstæður til aksturs eru góðar á þeim kafla hringvegarins, sem hér um ræðir, vegurinn beinn og ekkert, sem birgir útsýni. Þótt gera verði þá kröfu til stjórnenda bifreiða að þeir aki að öðru jöfnu hægar í myrkri en í dagsbirtu, þykir ekki verða metið ökumanni bifreiðar gagnáfrýjanda til gáleysis að hafa í umrætt sinn ekið á rúmlega 80 km hraða á klukkustund. Ber hér einkum að hafa í huga, að ekki verður talið að hann hafi á þessum stað og tíma mátt búast við stórgripum á veginum eða annarri umferð en bifreiða. Verður því að fallast á með gagnáfrýjanda, að ósannað sé að ökumaður bifreiðar hans hafi gerst sekur um gáleysi við aksturinn. Samkvæmt framansögðu verður öll bótaábyrgð á tjóni gagnáfrýjanda lögð á aðaláfrýjendur óskipt.

Þykir mega staðfesta mat héraðsdómara á bótafjárhæð. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti gerðu málsaðilar ekki athugasemdir við ákvörðun héraðsdóms um upphafstíma vaxta. Verða aðaláfrýjendur dæmdir til að greiða gagnáfrýjanda 882.000 krónur ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði, sem ákveðinn er í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Tryggvi Árnason og Guðrún Hlín Bragadóttir, greiði óskipt gagnáfrýjanda, Guðnýju Elínu Snorradóttur, 882.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af  855.000 krónum frá 5. mars 1997 til 1. ágúst sama árs, en af 882.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjendur greiði óskipt gagnáfrýjanda samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                           

                                                                                 

Héraðsdómur Reykjavíkur 16. janúar 1998.

Ár 1998, föstudaginn 16. janúar, er í Héraðsdómi Reykjaness í máli nr. E-601/1997: Guðný Elín Snorradóttir gegn Tryggva Árnasyni og Guðrúnu  Hlín Bragadóttur kveðinn upp svohljóðandi dómur:

I.

                Mál þetta sem dómtekið var 27. nóvember s.l., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dóminum með þingfestingu þess 10. júní 1997.

                Stefnandi er Guðný Elín Snorradóttir, Heiðarbrún 7, Hveragerði, kt. 161050-2889. Stefndu eru Tryggvi Árnason, kt.180128-7949, Álfabrekku 13, Kópavogi og Guðrún Hlín Bragadóttir, kt.120779-3709, Birkigrund 63, Kópavogi.

                Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmd til greiðslu bóta að fjárhæð kr. 909.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum, af kr. 855.000 frá 1. júní 1996 til 1.ágúst 1997 og frá þeim degi af kr. 909.000 til greiðsludags, og að dráttarvextir verði lagðir við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. júní 1997 en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati réttarins, ásamt vöxtum af málskostnaði skv. 3. kafla vaxtalaga frá uppkvaðningu dóms til greiðsludags.

                Stefndu gera þær dómkröfur aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda en til vara að þær verði stórlega lækkaðar. Þá krefjast stefndu málskostnaðar sér til handa, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun, úr hendi stefnanda.

                Sáttaumleitanir dómara báru ekki árangur.

                Dómari gekk á vettvang við upphaf aðalmeðferðar ásamt lögmönnum aðila, ökumanni bifreiðarinnar XE-269, Guðmundi Kolbeini Finnbogasyni og vörslumanni hrossa þeirra er málið varðar, Braga Sigurjónssyni.

                Í máli þessu krefur eigandi bifreiðar, stefnandi, eigendur hrossa, stefndu, um bætur vegna skemmda á bifreið er urðu hinn 1. mars 1996 með þeim hætti að bifreiðin lenti á hrossum er voru á Suðurlandsvegi nálægt Lögbergsbrekkunni.

II.

Að kvöldi 1.mars 1996 um kl. 21:00 ók Guðmundur Kolbeinn Finnbogason sem er eiginmaður stefnanda í máli þessu, bifreiðinni XE-269 frá Hveragerði vestur Suðurlandsveg áleiðis til Reykjavíkur eins og hann hefur gert næstum daglega um áratugaskeið. Samkvæmt lögregluskýrslum var náttmyrkur og þurrt í lofti en yfirborð akbrautar blautt. Í lögregluskýrslunni segir ennfremur að í slíku myrkri sem þarna var sé hæpið að sjá skepnur á veginum fyrr en nærri þeim er komið, nema ef grilli í augu eins og oft er ef skepnur snúa þannig við að ljósið falli á þær. Þá er þess getið að bæði hrossin hafi verið dökkleit. Guðmundur Kolbeinn ók að eigin sögn á 80 km. hraða á klukkustund fram úr stórum vöruflutningabíl sem var hlaðinn loðnu. Hann kvaðst hafa verið búinn að aka á eftir þessari bifreið um nokkurn tíma og hafi verið leiðindaúði aftur úr henni. Stuttu eftir framúraksturinn rétt fyrir ofan Lögberg, hafi skyndilega birst hross á veginum fyrir framan bifreiðina. Ekki hafi tekist að afstýra slysi og urðu hrossin sem reyndust vera tvö, annað steingrátt og hitt dökkbleikt, fyrir bifreiðinni og drapst annað þeirra strax en hitt þurfti að aflífa á staðnum. Áverkar voru nokkrir á hrossunum einkum á afturfótum og afturbúk.

Bifreiðin lenti út af veginum sunnanmegin og rann talsverðan spöl frá honum yfir móa og mela þar til hún stöðvaðist.

                Í skýrslu sinni fyrir dóminum kvaðst ökumaðurinn, Guðmundur Kolbeinn, hafa ekið framúr loðnuflutningabifreiðinni við Litlu kaffistofuna. Hann kvaðst hafa ekið framúr vegna úða frá flutningabifreiðinni. Þetta hafi verið hvimleiður úði en ekki vegna loðnufarmsins. Hann kvað úðann hafa farið af framrúðunni eftir framúraksturinn. Hann kvaðst hafa ekið á 80 km. hraða. Allt í einu hafi hross henst upp á veginn. Hann hafi reynt að beygja frá og taldi hann sig hafa náð að tipla aðeins á bremsur. Hann kvaðst hafa kippt bifreiðinni strax til vinstri en eftir höggið þegar bifreiðin lenti á hrossunum hafi hún farið út af og stöðvast úti í móa rétt við stóran stein. Hann kvaðst hafa séð hrossið nánast um leið og slysið varð, ekki hafi liðið meira en 2-3 sekúndur. Hann taldi hrossin hafa komið hlaupandi inn á veginn. Hann taldi sig ekki hafa getað brugðist öðruvísi við. Hann kvaðst hafa ekið með há ljós og taldi hann yfirsýn yfir veginn hafa verið góða á þessu svæði.

                Bifreiðin, sem er af gerðinni Mazda 4WD árgerð 1993 og var ekin 71.000 km., skemmdist mikið, m.a. var stýrishjólið bogið, framrúðan brotin og bak ökumannssætis lagt aftur og miklar beyglur voru á yfirbyggingu bifreiðarinnar að framan. Stefnandi lét dómkveðja matsmenn til að meta markaðsverð bifreiðarinnar þegar hún lenti í tjóninu og kostnað við viðgerð á bifreiðinni ásamt afnotamissi. Í niðurstöðu matsmannanna Finnboga Eyjólfssonar og Haraldar Þórðarsonar kemur m.a fram að viðgerðarkostnaður bifreiðarinnar er talinn hærri heldur en matsverð hennar á tjónsdegi og því um altjón að ræða. Þeir mátu viðgerðarkostnað á kr. 913.244, en markaðsverð bifreiðarinnar fyrir tjón mátu þeir á kr. 830.000.

                Vitnið Bragi Sigurjónsson, faðir stefndu Guðrúnar Hlínar og umsjónarmaður hestanna, upplýsti að hann hafi verið að gefa þeim kvöldið áður, en hrossin hafi verið geymd á gömlu býli sem heiti Geirland. Hann hafi sett þau út í gerði á meðan og þegar hann hafi ætlað að koma þeim inn aftur hafi þau sloppið út úr gerðinu og hlaupið út í myrkrið. Seinna hafi tvö þeirra fundist dauð á þjóðveginum eftir áreksturinn en hið þriðja hafi komið heim daginn eftir. Hann kvaðst hafa tilkynnt lögreglunni í Kópavogi um hvarf hrossanna og einnig hafi hann ásamt fleirum leitað hrossanna en án árangurs.

Í bréfi sýslumannsins í Kópavogi, dagsettu 6. maí 1997, kemur fram að við athugun hafi komið í ljós að ekkert sé bókað í dagbók lögreglunnar í Kópavogi um laus hross á Suðurlandsvegi við Lögberg á tímabilinu 28. febrúar til 1. mars 1996.

                Lögreglan kom á slysstað og tók skýrslur og gerði teikningar af vettvangi.

III.

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því, að stefndu séu bótaskyld vegna þess að bifreið hans hafi orðið fyrir tjóni vegna lausagöngu hrossa á þjóðvegi í landi Kópavogs þar sem lausaganga er bönnuð, sbr lögreglusamþykkt Kópavogs frá 28. júlí 1986, og eigendur þeirra beri því bótaábyrgð á grundvelli almennu skaðabótareglunnar á því tjóni sem hrossin valda á  þeim svæðum þar sem þeim er ekki heimil för.

Til stuðnings framangreindu telji stefnandi að leggja verði ríkari kröfur á eigendur dýra þar sem hættan á tjóni af völdum þeirra sé meiri. Á Suðurlandsvegi aki um 4.000 bifreiðar daglega sem kalli á ríkari aðgæslu við geymslu hrossa, sérstaklega að vetri til þar sem ekki sé hægt að sjá til hrossa þegar mikið myrkur er.

Stefnandi telji slysið hafa orðið án nokkrar sakar eða aðgæsluleysis ökumanns bifreiðarinnar enda hafi hann ekið undir leyfilegum hraða við ágætis aðstæður miðað við árstíma og hann hafi ekki undir nokkrum kringumstæðum séð til hrossanna þar sem þau komu í veg fyrir bifreiðina fyrirvaralaust.

Þá telji stefnandi að eigendur hafi ekkert gert til að tilkynna eða vara við þeirri hættu sem þeim hafi borið er hrossin sluppu úr gerðinu. Lögreglunni í Kópavogi hafi ekki verið tilkynnt um að hrossin hafðu sloppið úr gerðinu og engin tilkynning hafi því verið send í útvarp né upplýsingar gefnar til vegfarenda á annan hátt sem leitt hefði til frekari aðgæslu vegfarenda. Telji stefnandi að um hafi verið að ræða vítavert athafnaleysi þar sem enginn möguleiki hafi verið til að sjá til hrossa á vegi, hvað þá ef þau hlaupa inn á veg að kvöldi til á þessum árstíma.

                Stefnandi krefst greiðslu bóta in solidum á hendur stefndu þar sem um tvö hross hafi verið að ræða, en stefndu hafi bæði fengið hrossin bætt úr ábyrgðartryggingu bifreiðar stefnanda.

Bótakrafan er byggð á mati hinna dómkvöddu matsmanna dags. 5. febrúar 1997. Bótakrafan sundurliðast svo:

Tjón á bifreið

kr. 830.000

Flutningur á bifreið

kr. 18.000

Skoðun og geymsla

kr. 7.000

Afnotamissir

kr. 54.000

Samtals

kr. 909.000

IV.

Sýknukrafa stefndu er á því byggð að ökumaður bifreiðarinnar hafi sjálfur verið valdur að ákeyrslunni með stórfelldu gáleysi og með því að aka of hratt miðað við aðstæður.

Í því sambandi vekja stefndu máli sínu til stuðnings athygli á vissum staðreyndum sem þau telji bera með sér að akstur bifreiðarinnar hafi verið afar gáleysislegur.

                Í fyrsta lagi liggi fyrir samkvæmt lögregluskýrslum, að akstursskilyrði hafi verið mjög erfið þegar ekið var á hrossin og krafist ýtrustu varkárni við aksturinn. Þá hafi ákeyrslan átt sér stað þar sem gera verði ráð fyrir umferð fénaðar og hrossa.

                Í öðru lagi sé öldungis ljóst að ökumaður bifreiðarinnar hafi ekki haft þá yfirsýn yfir veginn framundan bifreiðinni sem lög bjóða miðað við þann hraða sem hann ók á. Svo virðist sem bifreið stefnanda hafi verið ekið á hrossin á fullri ferð og skelli á þeim án nokkurs aðdraganda samkvæmt eigin lýsingu ökumanns. Telji stefndu að skort á yfirsýn ökumanns yfir veginn megi að nokkru rekja til þess að hann hafi ekið með lágu ljósin á og að útsýni út um framrúðu bifreiðarinnar kunni að hafa verið skert vegna úða sem stóð aftan úr loðnuflutningabílnum. Þá sé hugsanlegt að ökumaðurinn hafi verið þreyttur og hugsanlega dottað við aksturinn. Ekkert verði þó fullyrt um hvað hafi truflað einbeitingu ökumanns, en hitt sé þó ljóst að yfirsýn hans yfir veginn framundan hafi verið víðsfjarri því að vera nægileg miðað við hraða bifreiðarinnar. 

Stefndu mótmæli því að hrossin hafi hlaupið skyndilega inn á veginn enda sýni áverkar þeir sem hrossin báru að þau hafi hlaupið eftir veginum þegar ekið var á þau.

                Í þriðja lagi telji stefndu að hraðinn á bifreið stefnanda hafi verið mun meiri en ökumaður gefi upp og benda á að bifreið stefnanda hafi farið um 50 metra vegalengd frá vegarbrún yfir móa og mela áður en hún stöðvaðist. Þegar áætla skuli hraða bifreiðarinnar á veginum þurfi einnig að gera ráð fyrir hemlunarvegalengd bifreiðarinnar inni á veginum, en svo virðist sem hemlaför hafi ekki verið mæld. Þá þurfi að auki að taka tillit til þess að hrossin voru um 300-400 kg. að þyngd hvort um sig og hafa tekið nokkuð af ferð bifreiðarinnar, en svo sé að sjá sem hrossin hafi kastast eina 6-10 metra fram af bifreiðinni eftir að hafa borist nokkurn spöl með henni. Eftir það haldi bifreiðin áfram 50 metra utan vegar.

Á það er og bent af hálfu stefndu að tryggingarfélag bifreiðar stefnanda Sjóvá- Almennar tryggingar hf. hafi greitt bætur fyrir báða hestana að fullu.

Um lagarök vísa stefndu til XIII kafla umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum. Einnig vísa þau til almennu skaðabótareglunnar.

Þá byggja stefndu á því að 22. gr. lögreglusamþykktar Kópavogs, sem miðast við þéttbýli, gildi ekki á svæði því sem áreksturinn varð á, sem er dreifbýli, heldur almennar reglur um lausagöngu búfjár. Lausaganga hrossanna verði því eigi metin stefndu til sakar í þessu samhengi. Þá vísa stefndu til dómafordæma í hliðstæðum málum.

V.

Niðurstaða.

                Í máli þessu greinir aðila á um það hvort lausaganga búfjár sé bönnuð á þeim stað þar sem umrætt umferðarslys átti sér stað. Slysið átti sér stað á Suðurlandsvegi innan lögsagnarumdæmis Kópavogs og kemur því til álita hvort 22. gr. lögreglusamþykktar fyrir Kópavogskaupstað frá 28. júli 1986 taki til atviksins, en þar segir m.a. að hross megi ekki ganga laus á almannafæri. Af hálfu stefndu er á því byggt að ákvæðið eigi einungis við um þéttbýlishluta kaupstaðarins en að utan hans séu engar hömlur lagðar á lausagöngu búfjár. Af hálfu stefnanda er því hins vegar haldið fram að ákvæðið gildi á umræddum stað þar sem um sé að ræða almannafæri í skilningi samþykktarinnar.

                Í lögreglusamþykktinni kemur ekkert fram um það hvort ofangreint ákvæði eigi við um þéttbýliskjarna sveitarfélagsins eingöngu eða hvort það eigi við allt lögsagnarumdæmið. Umrædd lögreglusamþykkt var gerð samkvæmt heimild í 1. gr. laga nr. 1/1890 um lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina er giltu er samþykktin var sett, en þau lög hafa nú verið leyst af hólmi með lögum nr. 36/1988. Í 4. gr. fyrrnefndu laganna er svohljóðandi ákvæði: „Samþykktin gildir að öllum jafnaði um allt lögsagnarumdæmi kaupstaðarins. Ef rétt þykir vera að skipa svo fyrir, að ákvæði samþykktarinnar skuli eigi gilda á hlutum af landi því, er heyrir undir lögsagnarumdæmið, annaðhvort að nokkru eða öllu leyti, skal þess getið í samþykktinni, svo sem nauðsynlegt er”. Sambærilegt ákvæði er í nýrri lögunum. Þar sem engar slíkar undantekningar eru í lögreglusamþykktinni fyrir Kópavogskaupstað, sem 4. gr. laga nr. 1/1890 fjallar um, má slá því föstu að lausaganga hrossa er óheimil á þeim stað þar sem umferðarslysið varð, enda telst sá staður almannafæri í skilningi ákvæðisins.

                Eins og áður getur voru hrossin í vörslu Braga Sigurjónssonar að Geirlandi er þau sluppu út úr hestagerði og hurfu á braut. Upplýst er í málinu að hrossin voru í vörslu við stað þar sem umferð er afar mikil og lausaganga hrossa er bönnuð eins og áður getur. Í ljós þykir leitt að vegfarendur á Suðurlandsvegi megi almennt reikna með því að ekki sé lausgangandi búfé á þessum slóðum.

Verður því að telja að við þessar aðstæður hafi varsla hrossanna ekki verið með þeim hætti sem gera mátti kröfu til. Verður að meta vörslumanni þeirra, Braga Sigurjónssyni, það til gáleysis að hrossin sluppu úr vörslum hans. Á því bera stefndu ábyrgð sem eigendur hrossanna. Með lausagöngu hrossanna á þessum stað brutu stefndu gegn banni 22. gr. lögreglusamþykktar Kópavogs, sem áður er gerð grein fyrir. Upplýst þykir að svipast hafi verið um eftir hrossunum af hálfu vörslumanns þeirra en ekki þykir sannað að lögreglunni í Kópavogi hafi verið tilkynnt um hvarf þeirra. Hafa stefndu ekki sýnt fram á að reynt hafi verið að vara vegfarendur við þeirri hættu sem þeim gæti stafað af  lausagöngu hrossanna.

Telja verður meginorsök umferðarslyssins vera þá að hrossin hafi hlaupið inn á veginn í veg fyrir bifreiðina en sökum myrkurs og lélegs skyggnis hafi ökumaður eigi mátt verða þeirra var fyrr en mjög nærri þeim var komið. Verða stefndu því talin bótaskyld in solidum vegna þess tjóns sem eigandi bifreiðarinnar, stefnandi, varð fyrir og hlaust af þessari lausagöngu hrossanna.

                Ökumaður bifreiðar stefnanda segist sjálfur hafa ekið á 80 km hraða á klukkustund þegar hann ók á hrossin. Í lögregluskýrslu kemur fram að náttmyrkur hafi verið á vettvangi og yfirborð akbrautar blautt. Bifreiðin lendir á þungum hrossum sem við áreksturinn kastast marga metra eftir akbrautinni. En þrátt fyrir hið mikla högg sem áreksturinn veldur, sem ætla má að hefði átt að draga nokkuð úr hraða hennar, fer bifreiðin eina 50 metra yfir óslétt mólendi utan vegar áður en hún stöðvast. Bendir þetta til, að ökuhraði bifreiðarinnar hafi verið of mikill miðað við aðstæður, einkum í ljósi þess að náttmyrkur var og slæmt skyggni. Verður því að telja að ökumaður bifreiðarinnar hafi ekki gætt þeirrar varúðar sem ökumönnum ber að sýna við slíkar aðstæður. Þegar það er virt þykir ökumaður einnig eiga nokkra sök á því hvernig fór en þá sök ber stefnandi. Þykir hæfilegt að telja stefnanda eiga sjálfa 1/4 sakar og að hún geti því aðeins krafið stefndu um 3/4 hluta tjóns síns.

                Dómkröfur sínar byggir stefnandi á mati dómkvaddra matsmanna á verðmæti bifreiðar fyrir tjón, útlögðum kostnaði vegna flutnings á bifreiðinni og skoðun á henni og afnotamissi bifreiðar. Matinu hefur ekki verið hnekkt og reikningum vegna útlagðs kostnaðar ekki mótmælt. Hins vegar var kröfuliðnum afnotamissi kr. 54.000 mótmælt í munnlegum málflutningi. Samkvæmt matsgjörð og framlögðum reikningum nemur tjón stefnanda að undanskyldum afnotamissi bifreiðar kr. 855.000 og er það tekið til greina. Bætur fyrir afnotamissi byggir stefnandi á daggjaldi tryggingafélaga kr. 900 per dag og krefst hann bóta fyrir tvo mánuði. Þegar til þess er litið að bifreiðin var talin ónýt þykir eðlilegt að bætur fyrir afnotamissi miðist við þann tíma sem ætla má að taki að útvega nýja bifreið og þykir sá tími hæfilega ákveðinn einn mánuður. Þykir tjón stefnanda vegna afnotamissis bifreiðar hæfilega ákveðið kr. 27.000.

Samkvæmt þessu telst heildartjón stefnanda hafa numið kr. 882.000, og ber stefndu að bæta 3/4 hluta þess in solidum, eða kr. 661.500 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 641.250 frá 5. mars 1997 til 1. ágúst 1997 en af kr. 661.500 frá þeim degi til greiðsludags.

                Eftir þessum málsúrslitum ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað in solidum og þykir hann hæfilega ákveðinn kr. 180.000, þar með talinn útlagður kostnaður stefnanda vegna mats á bifreiðinni og annars samtals kr. 51.814. Ekki er tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómara og veikinda. Dómari og lögmenn eru á einu máli um að endurflutningur sé óþarfur.

                Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari, kveður dóminn upp.

Dómsorð

Stefndu Tryggvi Árnason og Guðrún Hlín Bragadóttir greiði in solidum stefnanda Guðnýju Elínu Snorradóttur kr. 661.500.- með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 641.250 frá 5. mars 1997 til 1. ágúst 1997 en af kr 661.500 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 180.000 í málskostnað.