Hæstiréttur íslands

Mál nr. 540/2002

Ákæruvaldið (Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)
gegn
X (Hilmar Ingimundarson hrl.)

Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Upptaka


Dómsatkvæði

 Ávana- og fíkniefni. Upptaka.

X var dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerð um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni með því að hafa í vörslum sínum 1,47 grömm af hassi og um það bil 200 grömm af metamfetamíni sem sannað þótti að hafi að verulegu leyti verið ætlað til sölu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. nóvember 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega að hann verði einvörðungu sakfelldur fyrir vörslu á 1,47 g af hassi og 10-20 g af metamfetamíni, en verði að öðru leyti sýknaður af kröfum ákæruvalds. Til vara krefst hann þess að refsing hans verði milduð.

Með ákæru sýslumannsins á Selfossi 5. apríl 2002 var ákærða gefið að sök að hafa að morgni 27. ágúst 2001 haft í vörslum sínum á heimili sínu að […], Hveragerði, 1,47 g af hassi og í bifreiðinni […] við Laufskóga í Hveragerði 202,78 g af metamfetamíni, sem þóttu að verulegu leyti ætluð til sölu í ágóðaskyni.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Varðar brot hans við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. lög nr. 60/1980, lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerðir um breyting á henni nr. 248/2001 og 490/2001.

Refsing ákærða er með vísan til sakaferils hans, magns fíkniefnanna og styrkleika þeirra, svo og að öðru leyti þess sem getið er í niðurstöðu héraðsdóms hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 24. október 2002.

I.

                Mál þetta, sem þingfest var hinn 6. maí sl., en tekið til dóms hinn 16. þessa mánaðar, er höfðað með svofelldri ákæru Lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 5. apríl sl., á hendur X kt. […], Hveragerði, þar sem honum er gefið að sök „brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa að morgni mánudagsins 27. ágúst 2001 haft í vörslum sínum á heimili sínu að […], Hveragerði, 1,47 grömm af hassi og í bifreiðinni Laufskóga í Hveragerði, 202,78 grömm af metamfetamíni, sem þykir að verulegu leyti hafi verið ætlað til sölu í ágóðaskyni“.

                Ákæruvaldið segir háttsemi ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75, 1982, sbr. lög nr. 13, 1985, sbr. lög nr. 68, 2001 og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001 og auglýsingu nr. 84, 1986 hvað varðar meðferð ákærða á metamfetamíni.

                Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á ofangreindu 1,47 grömmum af hassi og 202,78 grömmum af metamfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.

                Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Af hálfu ákærða er þess krafist að ákærði verði eingöngu sakfelldur fyrir vörslur á 1,47 grömmum af hassi og 10-20 grömmum af metamfetamíni. Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög frekast heimila. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna sér til handa að mati dómsins.

II.  Málavextir

                Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík, dagsettri 24. ágúst 2001, undirritaðri af A rannsóknarlögreglumanni, bárust lögreglunni upplýsingar um að ákærði stundaði sölu fíkniefna. Þá er þess getið að nafngreind hjón, sem nýlega hefðu keypt hús í Hveragerði, væru með menn í vinnu sem fengju greitt fyrir með fíkniefnum. Samskipti ákærða og konu hans við þessi hjón væru mikil, en „ekki sé ljóst hvort þau séu í samstarfi í fíkniefnasölu”, eins og bókað er í skýrslunni.

                Vegna framkominna upplýsinga fór flokkur lögreglumanna frá fíkniefnalögreglunni til eftirlits í Hveragerði og leiddi sú aðgerð til þess að ákærði var stöðvaður við akstur bifreiðarinnar […] við Laufskóga í Hveragerði. Nánar um aðgerðir lögreglu hinn 27. ágúst 2001 segir svo í upplýsingaskýrslu, dagsettri 29. ágúst 2001 og undirritaðri af  B rannsóknarlögreglumanni: „Upplýsingar höfðu borist til lögreglu um að X stæði að fíkniefnasölu og dreifingu frá heimili sínu að […], Hveragerði. Eftirlit var sett með X sem hér segir:

                Kl. 09:45 Fór X frá heimili sínu að […] í Hveragerði.  X ók bifreiðinni […].  X ók sem leið lá frá heimili sínu, að Austurmörk. Við Austurmörk eru m. a. iðnaðarhús. Vestanmegin við Shell bensínstöðina í Austurmörk er iðnaðarhús (ekki er vitað um húsnúmer).  Umrætt iðnaðarhús stendur sunnan við götuna Austurmörk. Við norðurenda umrædds iðnaðarhúss stóð bifreiðin […]. X ók að bifreiðinni […], fór í farangursrými hennar að aftan og tók þaðan út plastpoka og verkfæri. X setti hlutina yfir í bifreiðina […] og ók henni síðan á brott. X ók að þessu loknu aftur að heimili sínu að […].

                Við athugun kom í ljós að sami aðili er skráður fyrir bifreiðunum […] og […]. Vegna þessa var sett eftirlit á bifreiðina […].

                Kl. 10:08              Kom X að bifreiðinni […] þar sem hún stóð mannlaus við Austurmörk, sjá ofan.  X ók bifreiðinni á brott. Hann ók frá Austurmörk að Reykjarmörk sem hann ók til norðurs, Skólamörk til vesturs, Breiðumörk til norðurs og Laufskóga til suðurs í átt að heimili sínu að […]. Þar sem leiðin þótti óvenjuleg með það í huga að X væri á heimleið var ákveðið að stöðva för hans. ...” 

Í framhaldi af handtöku ákærða fór fram húsleit á heimili hans og í bifreiðunum […] og […] þar sem þær stóðu við heimili hans. Eiginkona ákærða var viðstödd húsleitina og framvísaði hún hassmola sem fólginn var í kertastjaka í stofu hússins. Önnur fíkniefni fundust ekki í húsinu og heldur ekki í bifreiðunum tveimur, en hundur var notaður við leitina. Um það bil klukkustund eftir að leit á og við heimili ákærða lauk fór fram leit í bifreiðinni […]. Við leitina fannst það metamfetamín sem um ræðir í ákæru. Var efnið falið í hjólbarða sem var í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Í framlagðri skýrslu lögreglu um haldlagningu muna segir einnig að við leit í bifreiðinni hafi, auk metamfetamínsins, m. a. verið lagt hald á krukku sem í var “íblöndunarefni” (mjólkursykur), stóra tóma krukku undan rauðkáli, lítinn hníf, skæri, dúkahnífsblöð og stóran glæran plastpoka. Þessir munir fundust á gólfi bifreiðarinnar, framan við framsæti.

                Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík rannsakaði hin haldlögðu efni og komst að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða 1,47 grömm af hassi og 202,78 grömm af amfetamíni. Efni það sem lögregla taldi vera amfetamín var sent til frekari rannsóknar hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands. Í matsgerð undirritaðri af C, dósent, segir: „Efnissýni merkt 010-2001-00246, nr. 1:  Sýnið var hvítt duft, 2,03 g að þyngd.  Með blettagreiningu á þynnu, gasgreiningu á súlu, massagreiningu, vökvagreiningu á súlu og ýmsum efnaprófum fannst að sýnið innihélt metamfetamín (methamfetamine). Efnapróf bentu til þess, að það væri að mestu á formi metamfetamínklóríðs.  Magn metamfetamínbasa í sýninu var 37% sem samvarar 46% af metamfetamínklóríði. Metamfetamín er örvandi lyf, náskylt amfetamíni að verkun og gerð.....”

                Ákærði hefur neitað sök í málinu. Framburður hans fyrir dómi og hjá lögreglu er ólíkur í veigamiklum atriðum og er því óhjákvæmilegt að rekja allítarlega það sem bókað var eftir ákærða hjá lögreglu í skýrslutöku 27. ágúst 2001. Skýrsluna skráði D rannsóknarlögreglumaður en E rannsóknarlögreglumaður var einnig viðstaddur skýrslugjöf. Hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa verið í sambandi við mann, er hann vildi ekki nafngreina en kallaði „vin”. Vinurinn hafi spurt sig, um það bil þremur mánuðum áður, hvort hann væri ekki reiðubúinn til að hjálpa honum „að búa til smá pening, á þann veg að selja fíkniefni sem hann væri milligöngumaður með”, eins og bókað var eftir ákærða. Þessi vinur hefði ekki verið eigandi af fíkniefnunum en hann hefði verið beðinn um að koma þeim í dreifingu gegn umbun. Ákærði kvaðst hafa neitað vini sínum um þessa bón þar sem hann hefði aldrei komið nálægt sölu á fíkniefnum. Hins vegar hefði þessi vinur oft haft samband við sig vikurnar á eftir og þráfaldlega beðið sig um að selja fyrir sig fíkniefnin, þar sem þetta væri eina leiðin fyrir vininn til að afla sér peninga sem hann vantaði. Ákærði kvaðst hins vegar ætíð hafa neitað vininum um þessa aðstoð. 

Tveimur til þremur vikum síðar hafi sameiginlegur kunningi þeirra tveggja komið að máli við sig og beðið sig um að hjálpa hinum sameiginlega vini þeirra. Ákærði kvaðst ekki heldur vilja gefa upp nafn þessa kunningja. Kunninginn hefði hins vegar aldrei rætt við ákærða um hvernig ákærði ætti að standa að málum, né um tegund þeirra fíkniefna sem um væri að ræða, heldur einungis að ákærði væri hinn eini sem vinurinn gæti treyst til verksins. Vegna þessa þrýstings hafi ákærði ákveðið að íhuga málið, en kunninginn hefði afhent sér sendibréf í lokuðu umslagi frá vininum.  Í bréfinu hafi staðið að ákærði ætti að leggja bifreið sinni við norðurgafl dekkjaverksmiðju í Hveragerði, er væri skáhalt á móti gróðrarstöðinni Eden. Þar skyldi ákærði skilja bifreiðina eftir í einn sólarhring, en á þeim tíma yrði dekki með felgu komið fyrir aftur í bifreiðinni og inni í dekkinu yrðu 10-20 grömm af amfetamíni sem ákærði ætti síðan að dreifa og selja. Vinurinn ætti að fá 8.000 krónur fyrir hvert selt gramm. Ákærði kvaðst hafa hent bréfinu í klósettið.  Ákærði kvaðst fljótlega hafa rætt við vin sinn og samþykkt að hjálpa honum, enda myndi hann þá sjálfur fá amfetamín til eigin neyslu. Vinurinn hefði tilgreint að ákærði skyldi skilja bifreiðina eftir á áðurnefndum stað, helgina 17. – 19. ágúst 2001. Ákærði kvað vin sinn ekki hafa sagt sér frá því hver myndi koma amfetamíninu fyrir í bifreiðinni og kvaðst raunar ekki hafa spurt um það atriði. Ákærði kvaðst hafa skilið bifreiðina […] eftir við dekkjaverksmiðjuna frá um klukkan 17:00 til 21:00 laugardaginn 18. ágúst 2001. Hins vegar hafi ekkert dekk verið komið í bifreiðina er hann sótti hana aftur. Vinurinn hefði á ný haft samband við sig og sagt að hann hefði örugglega náð í bifreiðina of fljótt og því skyldi reynt aftur helgina eftir. Ákærði kvaðst hafa hlýtt fyrirmælum þessum og skilið bifreiðina eftir við dekkjaverkstæðið um klukkan 11:00 á sunnudagsmorgninum 27. ágúst 2001. Ákærði kvaðst hafa athugað með bifreiðina við og við, en orðið þess var daginn eftir að dekk var komið í skott bifreiðarinnar. Því næst hefði hann farið heim til sín og látið eiginkonu sína aka sér á staðinn þar sem hann hafi sest inn í bifreiðina og ekið á brott. Þá hafi hann einnig tekið meðferðis nokkuð af mjólkursykri til drýgja efnið, þar sem vinur sinn hefði sagt sér að þetta væri sterkt amfetamín og ætti að þola blöndun þannig að eitt amfetamíngramm yrði drýgt með einu til tveimur grömmum af mjólkursykri. Ákærði kvaðst hafa „rétt verið kominn af stað” er lögregla hefði stöðvað för hans. Ákærði kvaðst strax við handtöku hafa vísað lögreglu á amfetamínið í dekkinu. Ákærði kvaðst hafa ætlað með dekkið á afvikinn stað, rífa gat á það og setja amfetamínið í plastpoka og krukkur. Hann hafi ætlað að fela afganginn af amfetamíninu í krukku en drýgja það síðar með mjólkursykri eins og áður var rakið. Þannig hafi hann ætlað að fá til sölu „alls um 20-30 til 40-60 grömm af amfetamíni” eins og bókað var. Hvert gramm af blönduðu efni  hefði átt að selja á 8.000 krónur til vina og kunningja, en alls ekki til barna eða unglinga.  Mismun þeirrar fjárhæðar sem fengist fyrir amfetamínið og þess sem skila átti til vinarins yrði svo sinn hagnaður. Ákærði kvaðst engum hafa sagt frá þessu og hafi eiginkona sín ekkert vitað. Ákærði kvaðst hvorki vilja gefa upp nafn vinarins né kunningjans af ótta við hefndaraðgerðir og raunar ekkert vita um eiganda amfetamínsins. Aðspurður kvað ákærði það rétt vera að þetta hefði að sínu mati verið óþarflega mikið umstang fyrir afhendingu á 10-20 grömmum af amfetamíni, en sagði: „Svona er nú samt stundum að þegar menn eru að reyna á traust hvors annars í fyrsta skipti þá fara þeir líka sérstaklega varlega þannig að ég var ekkert að kippa mér upp við þetta heldur gerði bara eins og ég var beðinn um.” Aðspurður sagði ákærði það rétt vera að upphaflega hefði verið talað um meira af amfetamíni en 10-20 grömm, eða allt að 50 grömmum, en hann hefði látið það koma fram að hann vildi ekki taka við slíku magni því hann hafi fyrst viljað skoða gæði fíkniefnanna og „sjá hvernig mér gengi að selja það og þannig.”  Því hafi hann beðið vininn um „að hafa þetta í minna magni í fyrstu atrennu, þ. e. 10-20 grömm af amfetamíni”, eins og bókað var eftir ákærða. Ákærði kvaðst engar útskýringar hafa á því hvers vegna magnið hefði síðar reynst svo mikið. Ákærði kvað þá menn sem áttu fíkniefnin ekki hafa haft aðstöðu til þess að selja þau sjálfir, en ákærði kvaðst ekki vilja útskýra þessa fullyrðingu sína nánar. 

                Ákærði viðurkenndi hins vegar bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að hafa átt hassefni það sem um ræðir, en það hafi verið ætlað til eigin neyslu.

                Fyrir dómi lýsti ákærði atvikum þannig að sá maður sem hann hafi kallað vin við skýrslugjöf hjá lögreglu sé í raun ekki vinur hans. Ekki vildi ákærði nafngreina manninn og sagðist hann gera það af ótta við að fjölskyldu sinni kynni þá að vera gert mein. Ákærði sagði að bifreið sín hefði verið í ólagi á þessum tíma, en þó ökufær. Maður sá sem hann kallaði vin hjá lögreglu hefði hringt í sig og sagst þekkja annan mann eða „strák” sem gæti gert við bifreiðina. Ákærði nafngreindi ekki heldur þann mann sem átti að gera við bifreiðina og kvaðst hann hvorki þekkja manninn né hafa talað við hann. Ákærði kvað hins vegar ekkert athugavert við að treysta bláókunnugum manni fyrir bifreið sinni á þennan hátt, en nefndi að „skúrakallar” gerðu við bifreiðar á ódýrari hátt en aðrir. Af því að skúrakallinn rataði ekki um Hveragerði þá ætti hann að leggja bifreið sinni við bensínstöð Skeljungs í Hveragerði og þangað yrði bifreiðin sótt. Ákærði kvaðst hafa gert það og nefndi einnig að hús hans í Hveragerði væri erfitt að finna fyrir þann sem ekki rataði. Degi síðar hafi eiginkona sín ekið sér á nefndan stað þar sem ákærði hafi ætlað að ná í bifreiðina. Þá hafi hann tekið eftir að bifreiðin hefði ekkert verið hreyfð, en hins vegar hefði verið komið dekk aftur í bifreiðina, þ.e. aftur í skut bifreiðarinnar. Ákærða kvaðst þá hafa dottið í hug að það væri „einhver vitleysa í gangi” og skömmu síðar hafi lögregla stöðvað akstur sinn og handtekið sig. Nánar aðspurður sagði ákærði að honum hefði ekki verið kunnugt um að fíkniefni væru í bifreiðinni en þó vitað að „það væri eitthvað vesen”, eins og hann komst að orði og að hann hefði verið misnotaður. Ástæða fyrir því væri að skömmu áður en hann sótti bifreiðina hafi hann fengið símhringingu frá ókunnum manni sem sagt hefði að það væri „komið dekk í bílinn og það væru 10-20 í því”, eins og ákærði komst að orði, en ákærði kvaðst ekki hafa þurft á dekkjum að halda.  Ákærði kvaðst hafa talið að um væri að ræða 10-20 grömm af hassi, og síðar sagði ákærði að hann hafi jafnvel grunað að um væri að ræða  peninga.  Ákærði kvaðst hins vegar hafa sótt bílinn í þeim tilgangi að „komast til botns í þessu og sjá hvaða rugl væri í gangi”, eins og hann komst að orði. Nánar um ástæður þess að hann leitaði ekki til lögreglu þá þegar, sagði ákærði: „Ég bara breytti vitlaust og svona eftir á að hugsa þá hefði ég átt að gera það. Ég ætlaði fyrst að taka dekkið og henda því út úr bílnum. Svo eitthvað hætti ég við það og keyrði áleiðis heim og á leiðinni þangað var ég tekinn.” Ákærði kvaðst ekki hafa ekið óvenjulega leið heim eins og getið er í skýrslu lögreglumanns um eftirför lögreglunnar. Ákærði sagði leið þá er hann ók að vísu ekki hafa verið stystu leið heim en hann kvaðst hafa ætlað að kanna í leiðinni hús sem hafi verið í byggingu og ætlað að hitta þar mann.

Ákærði kvaðst hafa flutt frá Reykjavík til Hveragerðis fyrir um það bil 10 árum í því skyni að komast út úr vítahring fíkniefna. Ákærði margítrekaði fyrir dómi að framburður hans hjá lögreglu hefði verið rangur. Ástæða framburðar hans hjá lögreglu hafi verið sú að hann hafi óttast að vera úrskurðaður í gæsluvarðhald, sérstaklega eftir að hann hafi komist að því um hversu mikið magn fíkniefna væri um að ræða. Þá hefði staðið illa á hjá sér í vinnunni og að sonur sinn hefði átt afmæli degi síðar. Ákærði kvaðst hafa verið í miklu sjokki. Hafi hann því ætlað að „taka þetta á sig og borga mína sekt”, eins og ákærði komst að orði, en efnin hafi fundist í sínum vörslum og því væri hann ekki saklaus. Nánar aðspurður um hvort honum hefði þótt eðlilegt að taka við fyrirmælum ókunnugra eða vafasamra manna um atriði eins og hér um ræðir, þá kvaðst ákærði hafa verið hræddur og óstyrkur og ekki vitað hvað væri í gangi. Ákærði kvaðst fyrst hafa ætlað að henda dekkinu út úr bifreiðinni, en síðar hafa áttað sig á því að ef um væri að ræða fíkniefni þá gæti hann ekki hent þeim þar sem hann hefði þá verið rukkaður um andvirði þeirra. Ákærði kvaðst hafa vitað við hvaða mann var að eiga, þ. e. áðurnefndan vin. Ákærði kvaðst vera […] og hafi hann kynnst þessum manni er maðurinn var  handlangari hjá sér og hafi maðurinn þá verið nánast heimilismaður hjá sér. Þeir tveir hefðu nokkrum sinnum reykt hass saman og væri það líklega ástæða þess að maðurinn hefði snúið sér til ákærða varðandi það mál sem hér um ræðir. Ákærði kvaðst hafa vitað að maðurinn var langt leiddur fíkniefnaneytandi og mikill þjófur. Maður þessi hefði þó tekið sig á síðar.  Ákærði kvaðst ekki telja að þeir sem ekki skulduðu þessum manni þyrftu að óttast hann, en rétt væri þó að gjalda varhug við honum. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa fengið bréf frá þessum manni, eins og hann hafði skýrt frá hjá lögreglu og aldrei hafa boðið manninum aðstoð sína við sölu á fíkniefnum. Þetta hefði hann einungis sagt til að þóknast lögreglunni við yfirheyrslurnar og til að komast hjá því að verða úrskurðaður í gæsluvarðhald eins og áður segir. Ákærði kvaðst hafa spurt lögregluna hvað hann þyrfti að segja til að losna undan gæsluvarðhaldi, en lögreglan sagt að hann þyrfti að játa en jafnframt að segja satt. Ákærði kvað það hins vegar rétt vera sem fram kom hjá honum við yfirheyrslur hjá lögreglu að hann hefði skilið bifreið sína eftir á þessum stað tvær helgar í röð í því skyni að bílaviðgerðarmaðurinn fyndi bifreiðina þar og tæki hana til viðgerðar, en í hvorugt skiptið hefði bifreiðin verið færð úr stað. Ákærði kvaðst hafa skilið bifreiðina eftir þá helgi sem um ræðir þar sem ekki hafði verið náð í bifreiðina helgina áður. Fram kom hjá ákærða að bifreiðin hafi verið ólæst er hann skildi hana eftir.

                Ákærði bar einnig fyrir dómi að sá mjólkursykur sem fundist hafi í bifreiðinni hafi ekki verið í hans eign. Ákærði kvaðst þó vita til þess að mjólkursykur væri notaður til að drýgja með amfetamín. Hjá lögreglu var hins vegar bókað eftir ákærða um þetta atriði að mjólkursykurinn hafi verið hans eign og hafi hann ætlað að drýgja amfetamínið með honum. Þá kvaðst ákærði fyrir dómi ekki eiga þau tæki og tól sem haldlögð voru, en er hann sá þau hafa dottið í hug að „þetta væri eitthvað amfetamíntengt”, eins og ákærði komst að orði. Hjá lögreglu var hins vegar bókað eftir ákærða að hann hafi tekið með sér skæri og hníf til að rífa gat á dekkið og plastpoka og krukkur til að geyma fíkniefnið í. Ákærði kvaðst fyrir dómi hafa notað amfetamín fyrir löngu síðan og vita að mjólkursykur væri notaður til að drýgja amfetamín, „eins og að hella vatni út í vín”, eins og ákærði komst að orði. Ákærði kvaðst hafa sagt strax við lögreglu á vettvangi að dekk væri í bifreiðinni sem hann kannaðist ekkert við og að um fíkniefni gæti verið að ræða. Ákærði kvaðst ekki hafa ekið óvenjulega leið greint sinn eins og fullyrt er hjá lögreglu. Að vísu hafi hann ekki ekið stystu leið heim en hann hafi ætlað að hitta mann sem var að vinna við húsbyggingu í Hveragerði. Ákærði kvaðst hafa átt bifreiðina sem um ræðir. Það hafi þurft að stilla vél bifreiðarinnar, en bíllinn hafi verið seinn þegar hann fór í gang, hann hafi ekki gengið jafnt og svo hafi eitthvað verið athugavert við framdekk bifreiðarinnar. Þá var ekki annað á ákærða að skilja fyrir dómi en að hann hefði skilið bifreiðina eftir við dekkjaverkstæðið fyrir kvöldmat sunnudaginn 26. ágúst 2001, en ekki að morgni sunnudagsins eins og bókað var eftir honum hjá lögreglu. Ákærði sagði að eitt gramm af amfetamíni hefði kostað 5.000 krónur á götunni sl. 20 ár Þá kom fram hjá ákærða að metamfetamín væri „tískuuppskrift”, eins og hann komst að orði og að það þyrfti efnafræðing til að finna mun á milli amfetamíns og metamfetamíns.  Ákærði bar einnig fyrir dómi að yfirleitt væri ekki svona mikil leynd varðandi 10-20 grömm af hassi. Ákærði kvaðst ekki geta gefið skýringu á því af hverju voru svona miklar tilfæringar eins og raun varð á ef jafnvel átti að vera einungis um að ræða 10-20 grömm af hassi eins og var á ákærða að skilja. Ákærði kvaðst hafa átt von á einhverju þar sem svo mikið rugl væri í gangi, eins og hann komst að orði. Ákærði kvaðst ekki muna hvers vegna hann hafi ekki fengið kost á að tala sjálfur beint við bílaviðgerðamanninn og fengið nafn hans uppgefið.

Vitnið F rannsóknarlögreglumaður kvað lögreglu hafa borist upplýsingar um að nokkrir menn væru að dreifa fíkniefnum í Hveragerði. Þess vegna hafi lögregla fylgst með mannaferðum til og frá nokkrum húsum í Hveragerði. Vitnið kvaðst hafa verið viðstaddur húsleit á heimili ákærða og tveimur bifreiðum er tengdust ákærða, en þó ekki bifreið þeirri er fíkniefnin fundust í. Á vitninu var að skilja að lögregla hefði einnig verið með sams konar eftirlit í Hveragerði helgina áður.

Vitnið A rannsóknarlögreglumaður sagði aðgerð lögreglu hafa gengið út á það að fylgjast með ákveðnum mönnum sem upplýsingar voru um að stunduðu fíkniefnasölu í Hveragerði og hefði ákærði verið einn af þeim. Vitnið kvaðst hafa verið í bifreið ásamt Ágústi Eðvald rannsóknarlögreglumanni og m. a. hafi þeir fylgst með ferðum ákærða. Um morguninn kvaðst vitnið hafa fengið upplýsingar þess efnis að ákærði hefði farið frá heimili sínu og kvaðst vitnið hafa heyrt í gegnum fjarskipti hvert ákærði fór. Vitnið kvað aðra lögreglumenn hafa stöðvað för ákærða og handtekið hann við Laufskóga í Hveragerði. Vitnið sagði að ákærði hefði verið færður í bifreið þar sem vitnið var og hafi verið gætt viðeigandi réttarfarsákvæða gagnvart ákærða við handtökuna. Ákærði hafi þá verið spurður um hvort fíkniefni væru í bifreiðinni. Ákærði hafi strax í upphafi sagt að það væru 10-20 grömm af  fíkniefnum í varadekki í bifreiðinni og að hann ætlaði að selja þessi fíkniefni fyrir kunningja sinn. Vitnið kvaðst telja að verð á metamfetamíni á fíkniefnamarkaði væri svipað og á amfetamíni, en menn greini ekki á milli þessara efna á götunni ef efnið er „gott”. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt nákvæmlega um verðmæti efnisins á þessum tíma, en efni töluvert blandað með mjólkursykri seldist líklega á um 4.000 krónur. Þetta efni sem hér um ræðir væri að mati vitnisins hægt að þrefalda með blöndun við mjólkursykur, en lögregla vissi að amfetamín allt niður í 10% að styrkleika hefði verið til sölu á fíkniefnamarkaðnum. Vitnið staðfesti framangreindar skýrslur sínar.

Fram kom hjá síðastgreindum tveimur vitnum að B rannsóknarlögreglumaður hefði stjórnað aðgerðum lögreglu á vettvangi.

Vitnið B rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa stjórnað aðgerðum í Hveragerði í fjarveru lögreglufulltrúa. Aðgerðirnar hafi staðið frá kvöldi 26. ágúst fram eftir næsta degi. Fylgst hafi verið með tiltekinni bifreið í Hveragerði þar sem grunur lék á að í henni væru fíkniefni og að maður myndi koma í bifreiðinni til að sækja fíkniefni. Um morguninn hafi ákærði sótt umrædda bifreið og verið handtekinn í framhaldi af því. Fram kom hjá vitninu að þegar eftirlit hófst, kvöldið fyrir handtöku ákærða, hafi bifreiðin […], staðið við dekkjaverkstæði í Hveragerði og tilgreindi vitnið að lögreglumennirnir F og G hafi m.a. vaktað bifreiðina meðan á aðgerðum stóð. Vitnið kvaðst ekki geta staðfest að ákærði hafi komið tvisvar að bifreiðinni umræddan morgun. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið þátt í leit í bifreiðinni og ekki haft bein afskipti af ákærða og ekki rætt við hann eftir handtöku. Vitnið kvað metamfetamín vera sterkara fíkniefni en amfetamín. Fram kom að verðmæti á grammi af amfetamíni sé mjög breytilegt og fari eftir framboði. Vitnið taldi að fyrir ári síðan hafi grammið af amfetamíni verið þrjú til fimmþúsund krónur. Vitnið kvaðst ekki þekkja verð á metamfetamíni á götunni. Vitnið staðfesti framangreinda skýrslu sína um atvik.

Vitnið H rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa fylgst með tiltekinni bifreið í Hveragerði frá því um kvöldið og alla nóttina. Vitnið minnti að þetta hafi verið bifreið af […] og að hún hafi staðið nálægt gróðrarstöðinni Eden, en kvaðst ekki hafa verið í þeirri aðstöðu að horfa sjálfur á bifreiðina í þessu eftirliti. Vitnið kvaðst minna að lögreglumennirnir F og G hefðu fylgst með bifreiðinni. Hann kvaðst hafa fengið þau fyrirmæli að ef einhver kæmi í bifreiðina að þá ætti að handtaka viðkomandi. Um morguninn hafi ákærði komið í bifreiðina og hafi hann verið handtekinn skömmu síðar. Í framhaldi af því hafi verið gerð húsleit á heimili hans. Vitnið kvaðst hafa verið viðstaddur handtöku ákærða og húsleit á heimili hans. Vitnið kvað ákærða hafa verið rólegan og samvinnuþýðan, og vitnið kvaðst minna að ákærði hafi sagt að hann hefði búist við handtöku. Aðspurt sagði vitnið að virkni eða áhrif metamfetamíns væru sterkari en amfetamíns.

Vitnið D rannsóknarlögreglumaður gaf skýrslu í gegnum síma. Hann kvaðst hafa stjórnað yfirheyrslu yfir ákærða við rannsókn málsins hjá lögreglu. Vitnið sagði að yfirheyrslan hefði verið eðlileg og hefði ákærði ekki sætt neinni þvingun eins og í þá veru að viðurkenndi ákærði ekki brot sitt yrði hann látinn sæta gæsluvarðhaldi. Vitnið kvaðst hafa byrjað yfirheyrsluna á því að bera yfirheyrsluháttinn undir ákærða og beðið ákærða að greina sjálfstætt frá atburðarrás eins nákvæmlega og hann gæti og í réttri tímaröð. Vitnið kvaðst þó hafa stundum skotið inn spurningum ef tilefni gafst til. Vitnið kvaðst hafa lesið bókunina jafnóðum fyrir ákærða og vitnið færði framburð ákærða til bókar. Þá hafi ákærði einnig fengið að lesa skýrsluna í lokin og getað gert þær breytingar sem hann vildi. Vitnið sagði að ákærði hefði greint skýrt frá málsatvikum á greinargóðan hátt og lokað öllum endum. Vitnið kvaðst hafa verið viðstaddur leit í bifreið ákærða og kvaðst minna að ákærði hefði bent lögreglu á fíkniefnin í umræddu dekki. Vitnið kvaðst minna að efnaskýrsla hafi legið fyrir er ákærði var yfirheyrður.

Vitnið E rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa verið viðstaddur skýrslutöku yfir ákærða eftir að ákærði hafði verið fluttur til Reykjavíkur. Þá kvaðst vitnið einnig hafa verið viðstaddur er leit var gerð í bifreið ákærða, þó ekki allan tímann en hafa séð er fíkniefnaleitarhundur hafi merkt lykt í varadekki í bifreið ákærða, sem vitnið minnti að hafa legið í skotti bifreiðarinnar. Vitnið sagði ákærða hafa skýrt greiðlega frá atvikum við skýrslugjöf og hafi frásögn hans verið sjálfstæð. Lögregla hafi bókað orðrétt frásögn ákærða og svör hans við spurningum. Vitnið staðfesti skýrslu ákærða hjá lögreglu sem rétt bókaða. Vitnið nefndi að ákærði hafi lesið skýrslu sína vandlega yfir áður en hann undirritaði hana. Fram kom hjá vitninu að hann hafi ásamt D spurt ákærða og verið viðstaddur alla yfirheyrsluna. Vitnið sagði að ekki hafi farið fram ítarleg rannsókn á mjólkursykri sem haldlagður var, enda ekki þörf á því þar sem engum hafi blandast hugur um að um mjólkursykur var að ræða.

                Vitnið I rannsóknarlögreglumaður kvaðst ekki hafa komið mikið að rannsókn þessa máls. Þó hafi hann verið í lögreglubifreið með tæknibúnað um klukkan níu að morgni 27. ágúst 2001. Vitnið kvaðst hafa fengið vitneskju um það frá samstarfsmönnum sínum að ákærði hefði fyrr um morguninn farið að bifreið sem stóð við skemmu nálægt Eden í Hveragerði og kvaðst hann hafa verið látinn fylgjast með þeirri bifreið eftir það. Um hálftíma síðar hafi hann látið lögreglumenn sem unnu að málinu vita um bifreið sem hefði nálgast bifreið ákærða. Út úr þeirri bifreið hafi ákærði stigið og sest inn í hina bifreiðina og ekið henni á brott. Vitnið kvaðst ekki hafa talað við ákærða meðan á rannsókn málsins stóð, en hafa komið að húsleit heima hjá ákærða og hafi eiginkona ákærða verið viðstödd leitina.

                Vitnið G  rannsóknarlögreglumaður kvaðst minna að hann hafi komið á vakt í Hveragerði um kl. 22:00 kvöldið fyrir atburðinn og verið á vakt þar til klukkan fimm til sex um morguninn. Vitnið kvaðst engan hafa séð koma að bifreiðinni sem fylgst hafi verið með, en bifreiðin hafi staðið við hjólbarðaverkstæði við gróðrarstöðina Eden þegar hann kom á staðinn.

                Vitnið C dósent við Rannsóknarstofu í lyfja og eiturefnafræði gaf skýrslu í gegnum síma. Hann staðfesti framangreinda matsgerð. Vitnið sagði að metamfetamín og amfetamín væru efnafræðilega náskyld efni og því með nánast sömu verkun, nema metamfetamín hefði heldur meiri áhrif á miðtaugakerfið en amfetamín, en vitnið kvaðst ekki halda að metamfetamín væri umtalsvert hættulegra mönnum en amfetamín. Vitnið kvaðst telja að þeir sem að misnoti efnið noti svipaða skammta af metamfetamíni og amfetamíni. Vitnið kvaðst telja að 15 mg af metamfetamíni væri nauðsynlegur skammtur fyrir fíkniefnaneytanda svo hann fengi fullnægjandi verkun. Það efni sem hér um ræðir væri sterkt, og að mati vitnisins mætti drýgja um það bil þrefalt með mjólkursykri eða einhverju slíku efni og miða skammta út frá því, þá yrði 37 % metamfetamínbasi umrædds efnis um 12% að styrkleika. 

III.  Niðurstöður.

Með játningu ákærða, sem samræmist gögnum málsins, er sannað að ákærði átti þau 1,47 grömm af hassi sem fundust við leit á heimili hans og að ákærði ætlaði sjálfur að neyta þessa hassefnis. 

Samkvæmt framburði vitna grunaði lögreglu ákærða um að stunda fíkniefnasölu í Hveragerði.  Sá grunur var byggður á upplýsingum er lögreglu höfðu borist og urðu þær upplýsingar tilefni viðamikilla aðgerða lögreglu sem leiddu til þess að 202,78 grömm af metamfetamíni fundust í varadekki í bifreið ákærða, […].  Þá er upplýst að bifreið ákærða stóð við hjólbarðaverkstæði í nágrenni gróðrarstöðvar­innar Eden í Hveragerði frá sunnudeginum 26. ágúst 2001 allt þar til ákærði ók þaðan stuttu áður en hann var handtekinn klukkan 10:16 daginn eftir.  Af því sem fram er komið í málinu verður ekki talið að lögregla hafi fylgst með bifreið ákærða allan þann tíma er hún stóð mannlaus við hjólbarðaverkstæðið. 

Framburður ákærða um málsatvik er afar mótsagnarkenndur.  Við rannsókn málsins hjá lögreglu játaði ákærði í tvígang að hafa ætlað að selja fíkniefnið sem fannst í bifreið hans, fyrst við handtöku og aftur í ítarlegri formlegri skýrslu sama dag. Þó kom strax fram hjá honum að hann hefði ekki búist við að um svo mikið magn fíkniefna væri að ræða sem raun hafi orðið.  Ákærði hefur fyrir dómi gefið þá skýringu á framburði sínum hjá lögreglu að honum hafi verið brugðið við handtökuna og hann hafi viljað þóknast lögreglu til að komast hjá því að verða settur í gæsluvarðhald, fjölskyldu og vinnu sinnar vegna.  Þær skýringar teljast vart fullnægjandi, auk þess sem framburður ákærða fyrir dómi um málsatvik er um margt óljós og misvísandi. 

Nefna ber í þessu sambandi að ákærði játaði fyrir dómi að hafa talið sig vita að fíkniefni væru í bifreið hans þegar hann sótti hana skömmu áður en hann var handtekinn.  Hins vegar bar ákærði einnig fyrir dómi að hann hefði jafnvel átt von á að peningar hefðu verið fólgnir í varadekki því sem skilið var eftir í bifreiðinni, án þess þó að útskýra það nánar hvers vegna hann hafi talið að peningar gætu verið fólgnir í bifreiðinni.  Þá má nefna að fyrir dómi kvaðst ákærði hafa verið afar órótt er hann ók frá bifreiðaverkstæðinu þar sem hann hafi haft fíkniefni meðferðis í bílnum.  Þrátt fyrir það gaf hann þá skýringu fyrir dómi á óvenjulegri leið er hann ók heim til sín, að hann hafi ætlað að nota ferðina í því skyni að hitta mann og ræða við hann um húsbyggingu.

Hafa ber í huga að ákærði hefur viðurkennt að framburður sinn hjá lögreglu hafi verið með þeim hætti sem bókað var og af framburði þeirra lögreglumanna sem yfirheyrðu ákærða, verður heldur ekki annað séð en að ákærði hafi hjá lögreglu skýrt sjálfstætt og greiðlega frá málsatvikum.

Einnig ber að líta til framburðar ákærða fyrir dómi um fyrirhugaða viðgerð á bifreið hans, sem þó var í ökuhæfu ástandi, og um samskipti hans við óþekktan mann er átti að geta gert við bifreiðar.  Sá framburður er ótrúverðugur, sérstaklega einnig í ljósi þess að ákærði hefur borið að hafa helgina áður skilið ökuhæfa bifreið sína ólæsta eftir á þessum sama stað í þeim tilgangi að bifvélavirkinn, eða „skúrakarlinn”, næði í hana, sem þó ekki varð.  Þá er sá framburður ákærða einnig mjög ótrúverðugur, að maður sem hann þekki vel og hafi verið djúpt sokkinn fíkniefnaneytandi og þjófur, að sögn ákærða sjálfs, hafi haft milligöngu um einfalda viðgerð á bifreið ákærða.

Eins og áður var rakið hefur ákærði fyrir dómi viðurkennt að hafa talið sig vita að fíkniefni væru í varadekki í bifreið þeirri sem hann skildi eftir við hjólbarða­verkstæðið þegar hann sótti hana skömmu áður en hann var handtekinn.  Fyrir dómi greindi ákærði frá símtali við óþekktan mann stuttu áður en hann sótti bifreiðina, þess efnis að „10-20” væru komin í dekkið í bifreið hans.  Ákærði kvaðst hafa haldið að þarna væri um að ræða 10 til 20 grömm af hassi.  Viðbrögð ákærða við þessum fréttum benda hins vegar til þess að honum hafi verið fullkunnugt um að ekki var um hass að ræða og að tilgangurinn með að skilja bifreiðina eftir við hjólbarðaverkstæðið hafi verið sá að sterkara fíkniefni yrði komið þar fyrir, en ekki að bifreiðin yrði sótt þangað af óþekktum „skúrakarli.”  Sá framburður ákærða að hann hafi átt von á 10 til 20 grömmum af hassi þykir ekki trúverðugur með vísan til reikuls framburðar hans sem rakinn hefur verið og þeirra umtalsverðu ráðstafana sem hann viðhafði.  Enda liggur fyrir í málinu að ákærði hafði helgina áður en hann var handtekinn skilið bifreiðina eftir mannlausa og ólæsta við áðurgreint hjólbarðaverkstæði og fyrir lögreglu kvaðst ákærði hafa athugað með bifreiðina við og við deginum áður en hann var handtekinn.  Þá verður einnig til þess að líta að í bifreið ákærða fundust ýmis áhöld og mjólkursykur sem bendir til þess að ákærði hafi búist við að fá afhent metamfetamín og hafi ákærði ætlað að nota mjólkursykurinn við blöndun fíkniefnisins.  Hins vegar verður hvorki ráðið af gögnum málsins né framburði ákærða og vitna nákvæmlega hversu mikið af mjólkursykri ákærði hafði meðferðis. 

Samkvæmt framansögðu er ekkert sem bendir til annars en að ákærði hafi átt von á að fá afhent metamfetamín, en af framburði ákærða fyrir dómi virðist hann engan greinarmun gera á amfetamíni og metamfetamíni, enda upplýst að efni þessi eru efnafræðilega náskyld og því með nánast sömu verkun.  Við niðurstöðu málsins verður byggt á þeirri staðreynd að ákærði fékk afhent metamfetamín en ekki amfetamín eða aðrar tegundir fíkniefna.  Kemur því ekki til skoðunar sá möguleiki að ásetningur ákærða hafi staðið til annars brots en hann er ákærður fyrir.

Samkvæmt því sem að framan er rakið hefur ákærði alls ekki gefið fullnægjandi skýringar á mismunandi framburði sínum hjá lögreglu annars vegar og fyrir dómi hins vegar.  Af því sem að framan er rakið er framburður ákærða fyrir dómi um atvik afar brotakenndur og misvísandi og verður því ekki á honum byggt.  Með vísan til framanritaðs er ekki varhugavert að telja sannað að tilgangur ákærða með því að leggja bifreiðinni við hjólbarðaverkstæðið tvær helgar í röð hafi verið sá að metamfetamíni yrði komið fyrir í bifreiðinni.  Þó ekki verði fullyrt að ákærði hafi nákvæmlega vitað um magn þess metamfetamíns er hann átti von á, eru skýringar ákærða á því við hverju hann bjóst afar mismunandi.  Af skipulagi öllu sem viðhaft var, þeirri leynd sem hvíldi yfir viðskiptunum og þeirri staðreynd að efninu skyldi komið fyrir í varadekki sem komið var fyrir í bifreið í iðnaðarhverfi um helgi, verður ekki annað ráðið en að ákærði hafi átt von á verulegu magni fíkniefna.  Í þessu sambandi verður ekki litið framhjá þeirri staðreynd að um var að ræða 202,78 grömm af metamfetamíni.  Er hér um að ræða mun meira magn en mögulegt er að eingöngu hafi verið ætlað til eigin neyslu og telst sannað að efnið hafi verið ætlað að verulegu leyti til sölu í ágóðaskyni, eins og fullyrt er í ákæru.  Telst ákærði því sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og réttilega er heimfærð til refsiákvæða.

                Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hefur hann tólf sinnum frá árinu 1986 hlotið refsingar. Ætíð er um sektarrefsingar að ræða og af þessum tólf skiptum hefur hann fimm sinnum hlotið refsingar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, þ. e. á árinu 1990 er hann hlaut 14.000 króna sekt, á árinu 1992 er hann hlaut 16.000 króna sekt, á árinu 1995 er hann hlaut 20.000 króna sekt, á árinu 1999 er hann hlaut 80.000 króna sekt og loks í apríl 2001 er hann hlaut 28.000 króna sekt.  Þá hefur ákærði alls 7 sinnum hlotið sektarrefsingar fyrir umferðarlagabrot, fyrst á árinu 1986 og síðast í apríl 2001. Við ákvörðun refsingar ber einkum að líta til þess að ákærði hefur ekki áður sætt refsingum fyrir umtalsvert fíkniefnalagabrot. Hins vegar er í þessu máli um að ræða töluvert magn af sterku fíkniefni sem fullvíst má telja að hafi að verulegu leyti verið ætlað til sölu.  Refsing ákærða er ákveðin 15 mánaða fangelsi.

Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986, eru gerð upptæk þau 1,47 grömm af hassi og 202,78 grömm af metamfetamíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, verður ákærða gert að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 195.000 krónur.

Ólafur Börkur Þorvaldsson dómstjóri kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð

   Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði.

   Upptæk eru gerð 1,47 grömm af hassi, efnaskrárnúmer 010-2001-00252, og 202,78 grömm af metamfetamíni, efnaskrárnúmer 010-2001-00246, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 195.000 krónur.