Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-205
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 1. júlí 2020 leitar Þórhallur Guðmundsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. júní sama ár í málinu nr. 60/2019: Ákæruvaldið gegn Þórhalli Guðmundssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa fróað A án hans samþykkis með því að beita hann ólögmætri nauðung og þannig misnotað sér það traust sem brotaþoli bar til hans sem heilara er hann lá nakinn á nuddbekk hjá leyfisbeiðanda. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði auk þess sem honum var gert að greiða brotaþola miskabætur.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Vísar hann til þess að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem heimfærsla til refsiákvæðis sé röng. Brot leyfisbeiðanda hafi ekki verið refsivert samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga þegar fyrrnefnt atvik átti sér stað, þar sem sá hluti verknaðarlýsingar nauðgunarbrotsins sem varði skort á samþykki hafi ekki komið inn í ákvæðið fyrr en með lögum nr. 16/2018 um breytingu á almennum hegningarlögum. Þá telur leyfisbeiðandi að Landsréttur hafi brotið gegn milliliðalausri sönnunarfærslu þar sem dómurinn hafi byggt á lögregluskýrslum og framburði vitna sem ekki gátu borið um atvik málsins.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að úrlausn meðal annars um beitingu ákvæða 194. gr. almennra hegningarlaga og lagaskil myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er því fallist á beiðni leyfisbeiðanda.