Hæstiréttur íslands

Mál nr. 86/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðild
  • Málskostnaður


Fimmtudaginn 16. febrúar 2012.

Nr. 86/2012.

A

(Valborg Þóra Snævarr hrl.)

gegn

B

(Berglind Svavarsdóttir hrl.)

Kærumál. Aðild. Málskostnaður.

C höfðaði faðernismál gegn B fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, A. Var málið síðar fellt niður að beiðni C og var henni með úrskurði héraðsdóms gert að greiða B málskostnað. Var úrskurður héraðsdóms um það atriði kærður til Hæstaréttar. Hæstiréttur felldi hinn kærða úrskurð úr gildi, að þessu leyti, með vísan til þess að ekki væri heimilt að úrskurða lögráðamanni málsaðila skylt að greiða slíkan kostnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru, sem barst héraðsdómi 1. febrúar 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2012, þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðila var fellt niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi „hvað varðar skyldu sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað að fjárhæð kr. 100.000 og honum breytt á þá leið að málskostnaður verði felldur niður aðila á milli“. Með orðinu sóknaraðili í þessari kröfugerð er sýnilega átt við C, lögráðamann sóknaraðila, en með hinum kærða úrskurði var henni gert að greiða varnaraðila hinn umrædda málskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt framansögðu lýtur málskot þetta eingöngu að því ákvæði hins kærða úrskurðar sem gerði lögráðamanni sóknaraðila að greiða varnaraðila málskostnað. Lögráðamaðurinn var ekki málsaðili og var því ekki heimilt að úrskurða honum skylt að greiða slíkan kostnað. Þegar af þeirri ástæðu verður umrætt ákvæði hins kærða úrskurðar fellt úr gildi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Ákvæði hins kærða úrskurðar um að C greiði varnaraðila, B, 100.000 krónur í málskostnað, er fellt úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2012.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 12. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af C, [...], [...], vegna ólögráða dóttur hennar, A, á hendur B, [...], [...], með stefnu birtri 21. september 2011.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé ekki faðir stefnanda, A. Þá er gerð krafa um að allur málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Að beiðni dómsins voru blóðsýni úr málsaðilum rannsökuð og borin saman á Rannsóknastofu Háskóla Íslands í réttarlæknisfræði. Álitsgerð stofunnar er dagsett 3. janúar 2012. Þar er rannsóknaraðferðum lýst og skýrð niðurstaðan um að líkurnar fyrir faðerni stefnda, B, að stúlkunni sé meiri en 99%.

Í þinghaldi þann 12. janúar sl. óskaði lögmaður stefnanda, að fengnum þessum niðurstöðum, eftir að fella málið niður. Þá krafðist lögmaður stefnanda þóknunar með vísan til 11. gr. barnalaga nr. 76/2003. Lögmaður stefnda ítrekaði málskostnaðarkröfu sína. Var ákvörðun um málskostnað lögð í úrskurð dómsins.

Eins og atvikum máls þessa er háttað þykir rétt að stefnandi greiði stefnda 100.000 kr. í málskostnað og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Með vísan til 11. gr. barnalaga ber dómara að ákveða þóknun lögmanns stefnanda og greiðist hún úr ríkissjóði. Þegar litið er til umfangs málsins þykir þóknun lögmanns stefnanda, Valborgu Þ. Snævarr hrl., hæfilega ákvörðuð 100.000 kr. og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Málið er fellt niður.            

Stefnandi, C, greiði stefnda, B 100.000 kr. í málskostnað.

Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Valborgar Snævarr hrl, 100.000 kr.