Hæstiréttur íslands
Mál nr. 527/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 9. október 2006. |
|
Nr. 527/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. nóvember 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Af gögnum málsins verður ráðið að sterkur grunur sé fyrir hendi um að þáttur varnaraðila í innflutningi fíkniefna hafi verið með þeim hætti að almannahagsmunir krefjist þess að hún sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Fram er komið að málið verði sent ríkissaksóknara í byrjun þessarar viku. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2006.
Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilsfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. nóvember 2006, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meintan innflutning á miklu magni af fíkniefnum til landsins. Kærða sé grunuð um aðild að hinu meinta broti. Meint aðild hennar sé a.m.k. talin varða skipulagningu, milligöngu og móttöku fíkniefnanna. A, [kt.], og B, [kt.], hafi bæði verið handtekin þann 9. ágúst sl. af tollgæslu á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins frá Spáni. B hafi verið með fíkniefnin í farangri sem hún hafi verið með meðferðis en A hafi verið handtekinn skömmu síðar í flugstöðinni eftir að hann hafði farið í gegnum hlið tollgæslunnar. Þau hafi bæði verið yfirheyrð. Í framburðarskýrslum A kemur m.a. fram að hann og B hafi tekið að sér að flytja fíkniefnin til landsins að beiðni X, búsettri á [...] í Reykjavík. Í skýrslunni lýsti A aðdraganda ferðarinnar, fundi sem hann átti með X þar sem ferðin skipulögð, móttöku fíkniefnanna á Spáni, milligöngu X við aðila á Spáni í tengslum við móttökuna, auk þess sem hann hafi greint frá þátttöku B í brotinu. Nánar sé vísað til framburðarskýrslna A varðandi meinta aðild kærðu að málinu, sem verði að teljast veruleg. Kærða hafi verið yfirheyrð vegna málsins og hafi játað aðild sína að meintu broti og sé það m.a. framburður hennar að hún hafi haft milligöngu með þessum innflutningi vegna þess að hún skuldi manni, sem hún vill ekki nefna, peninga vegna fíkniefnaviðskipta. Nánar um framburð hennar sé vísað til framburðarskýrslna kærðu.
Rannsókn málsins sé lokið. Nú stendur frágangur rannsóknargagna yfir og einnig gerð greinargerðar rannsóknara til Ríkissaksóknara skv. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 19/1991um meðferð opinberra mála. Sé miðað við að málið verði sent Ríkissaksóknara til viðeigandi meðferðar í byrjun næstu viku. Málið verði í framhaldi af því rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Kærða þyki vera undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Kærða hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 10. ágúst sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðar á grundvelli almannahagsmuna sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 472/2006. Meint aðild kærðu þyki mikil en hún sé talin tengjast skipulagningu, milligöngu og móttöku fíkniefnanna. Einnig sé lagt til grundvallar að um sé að ræða mjög mikið magn sterkra og hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærðu þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærða sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hennar sé til meðferðar en telja verður og reikna með að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og kærða, gangi laus áður en máli lýkur með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærðu í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr.: 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Sé ekki talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé ekki fullnægt í því máli sem hér um ræðir.
Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Kærða hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 10. ágúst sl. Hún hefur játað aðild sína að hinu ætlaða broti. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 472/2006 frá 30. ágúst sl. var komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að varnaraðili sæti í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna, en á því var byggt að fyrir hendi væri sterkur grunur um að kærða hefði átt þátt í innflutningi á umtalsverðu magni hættulegra fíkniefna þannig að varðað gæti við 173. gr. a. laga nr. 19/1940, en brot á þeirri lagagrein varðar allt að 12 ára fangelsi. Var talið að brotin væru þess eðlis að telja yrði gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Ekki verður séð að þær forsendur hafi breyst í áframhaldandi rannsókn málsins. Mál þetta hefur gengið nokkuð greiðlega fyrir sig í rannsókn, sem hefur ekki dregist úr hófi, en unnið er að frágangi málsins áður en það verður sent ríkissaksóknara. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir kærðu. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra um áframhaldandi gæsluvarðhald, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
Úrskurðarorð :
Kærða, X, [kt. og heimilsfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. nóvember 2006, kl. 16:00.