Hæstiréttur íslands

Mál nr. 30/2000


Lykilorð

  • Nauðungarsala
  • Skaðabótamál


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. maí 2000.

Nr. 30/2000.

Hauður Helga Stefánsdóttir

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

 

Nauðungarsala. Skaðabótamál.

Fulltrúi sýslumanns ákvað gegn andmælum H að fresta uppboði á sumarbústaðargrind, þar til leyst hefði verið úr beiðni BÍ um endurupptöku máls um gildi fjárnáms, sem nauðungarsölubeiðni H var reist á. Beiðni BÍ um endurupptöku málsins var hafnað og ákvað fulltrúinn þá að uppboðið skyldi fara fram. Þegar uppboð var haldið hafði bú gerðarþolans hins vegar verið tekið til gjaldþrotaskipa að kröfu sýslumanns og rann söluverð þeirra muna, sem ráðstafað var við uppboðið, til þrotabúsins. H taldi ákvörðun fulltrúans um að fresta uppboðinu hafa verið ólögmæta og orðið til þess að hún fékk ekki í sinn hlut söluverð sumarbústaðargrindarinnar auk þess sem hún hefði orðið fyrir kostnaði vegna vörslusviptingar, geymslu og fleira. Talið var, að ekki hefðu verið skilyrði að lögum til að láta beiðnina um endurupptöku verða til þess að uppboði yrði frestað. Hins vegar þótti ekkert liggja fyrir í málinu um hvaða tök fulltrúinn hefði haft á að gera sér grein fyrir vægi nýrra sönnunargagna, sem vísað var til í endurupptökubeiðninni, þegar hann tók ákvörðun um framgang uppboðsins. Þá var jafnframt litið til þess að krafa um gjaldþrotaskipti hafði þegar verið lögð fyrir héraðsdóm þegar ákvörðunin var tekin, en vegna ákvæða 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. voru af þessum sökum ekki efni til að telja sennilegt að frestunin hefði horft sérstaklega til tjóns fyrir H. Að öllu þessu virtu þótti ekki nægilega fram komið að skilyrði væru til að fella skaðabótaskyldu á íslenska ríkið vegna framangreindrar ákvörðunar sýslumannsfulltrúans. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna ríkið af kröfu H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. janúar 2000. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 664.479 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. febrúar 1999 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður þá látinn falla niður.

 

I.

Eins og greinir í héraðsdómi gerði sýslumaðurinn í Kópavogi fjárnám 30. september 1997 fyrir kröfu áfrýjanda á hendur Byggðalandi ehf., sem nam á þeim tíma 1.567.141 krónu. Fjárnám var gert í tveimur nánar tilteknum bifreiðum ásamt þremur sumarbústaðagrindum og gólfgrind, sem svo voru nefndar og sagðar vera að Ljósatröð í Hafnarfirði. Var þetta gert samkvæmt ábendingu lögmanns áfrýjanda, enda var ekki mætt við fjárnámið af hálfu gerðarþola. Með beiðni 8. október 1997 til sýslumannsins í Hafnarfirði leitaði áfrýjandi nauðungarsölu á umræddum sumarbústaðagrindum og gólfgrind. Lögmanni áfrýjanda var tilkynnt 20. sama mánaðar að þessir munir yrðu seldir við uppboð, sem haldið yrði að Skútahrauni 2a í Hafnarfirði 29. nóvember 1997, en um leið veitti sýslumaður áfrýjanda heimild til að taka vörslur þeirra.

Hinn 4. nóvember 1997 beindi Orico ehf. kröfu til Héraðsdóms Reykjaness um að fjárnám áfrýjanda yrði fellt úr gildi að því er varðaði tvær af áðurnefndum sumarbústaðagrindum, sem félagið taldi tilheyra sér. Búnaðarbanki Íslands gerði 18. sama mánaðar kröfu sama efnis varðandi þriðju sumarbústaðagrindina. Af þessum sökum ákvað sýslumaðurinn í Hafnarfirði með vísan til 3. mgr. 54. gr. laga nr. 90/1989 um aðför að fresta fyrirhuguðu uppboði. Úrskurður gekk í héraði 27. nóvember 1997 í máli milli áfrýjanda og Búnaðarbanka Íslands, sem var rekið af framangreindu tilefni, og var þar tekin til greina krafa bankans um að fella fjárnám áfrýjanda að hluta úr gildi. Áfrýjandi kærði þann úrskurð 1. desember 1997 til Hæstaréttar, sem hafnaði kröfu um ógildingu fjárnámsins með dómi 11. sama mánaðar. Með bréfi til sýslumanns 9. janúar 1998 greindi lögmaður áfrýjanda frá því að nokkuð gæti dregist að niðurstaða fengist í máli hennar og Orico ehf. um gildi fjárnámsins. Var þess því farið á leit að þeir munir, sem ágreiningur stæði ekki lengur um, yrðu seldir við uppboð, svo og að uppboð á gólfgrind og einni sumarbústaðagrind yrði haldið á nánar tilteknu geymslusvæði við Straumsvík, þar sem áfrýjandi hafi komið þeim fyrir í kjölfar vörslusviptingar. Við þessu varð sýslumaður 4. febrúar 1998 og tilkynnti þá um fyrirhugað uppboð á sumarbústaðagrind 20. sama mánaðar. Hinn 5. febrúar 1998 var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness úrskurður í máli Orico ehf. við áfrýjanda, þar sem krafa félagsins um ógildingu fjárnáms var tekin til greina. Með bréfi til Hæstaréttar 17. febrúar 1998 óskaði Búnaðarbanki Íslands eftir því að áðurnefnt mál sitt og áfrýjanda yrði tekið upp á ný, þar sem lagt hafi verið fram í máli hennar og Orico ehf. skjal, sem bankanum hafi ekki áður verið kunnugt um og leitt gæti til annarrar niðurstöðu en fengin var í máli hans og áfrýjanda. Af þessu tilefni mótmælti bankinn því jafnframt við sýslumann að sumarbústaðagrindin, sem sá fyrrnefndi hafði talið til eignarréttar yfir, yrði seld á uppboði. Sýslumaður ákvað 20. febrúar 1998 gegn andmælum áfrýjanda að uppboðið næði ekki fram að ganga fyrr en útséð yrði um afdrif beiðni Búnaðarbanka Íslands um endurupptöku málsins.

Með dómi Hæstaréttar 5. mars 1998 var hrundið kröfu Orico ehf. um að fjárnám áfrýjanda í tveimur sumarbústaðagrindum yrði fellt úr gildi. Sama dag tilkynnti sýslumaður að allar sumarbústaðagrindurnar yrðu seldar 17. mars 1998 við uppboð, sem yrði haldið á áðurnefndu geymslusvæði við Straumsvík. Hinn 11. sama mánaðar hafnaði Hæstiréttur beiðni Búnaðarbanka Íslands um endurupptöku máls hans og áfrýjanda. Þegar uppboð var síðan haldið á sumarbústaðagrindunum og gólfgrind 17. mars 1998 hafði bú gerðarþolans, Byggðalands ehf., verið tekið til gjaldþrotaskipta. Hafði það gerst 13. sama mánaðar samkvæmt kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði 19. febrúar 1998, en hann taldi félagið standa í skuld að fjárhæð 8.405.452 krónur vegna ógreiddra opinberra gjalda. Krafan um gjaldþrotaskipti var studd við árangurslaust fjárnám, sem annar lánardrottinn hafði fengið gert hjá félaginu 16. febrúar 1998. Söluverð munanna, sem var ráðstafað við uppboðið 17. mars 1998, rann til þrotabús Byggðalands ehf., enda féll fjárnám áfrýjanda í þeim niður vegna ákvæðis 1. mgr. 138. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Áfrýjandi telur fyrrnefnda ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði 20. febrúar 1998 um að fresta uppboði á sumarbústaðagrindinni, sem hún hafði deilt um við Búnaðarbanka Íslands, hafa verið andstæða lögum. Sú ákvörðun hafi orðið til þess að hún hafi ekki fengið í sinn hlut söluverð þeirrar sumarbústaðagrindar, en það hafi numið 462.190 krónum að greiddum kostnaði af uppboði. Þá hafi hún af sömu ástæðum orðið að bera allan kostnað af vörsluviptingu munanna, geymslu þeirra og störfum lögmanns síns við að koma fram nauðungarsölu. Alls séu kröfuliðir áfrýjanda af þessum rótum 202.289 krónur og skaðabótakrafa hennar þannig samtals 664.479 krónur.

II.

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði fór í senn með nauðungarsölu á fyrrnefndum eignum Byggðalands ehf. samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og innheimtu opinberra gjalda félagsins sem innheimtumaður ríkissjóðs í umdæmi sínu, sbr. meðal annars 1. gr. laga nr. 92/1989 um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, svo sem þeim lögum var breytt með 36. gr. laga nr. 15/1998. Samkvæmt því, sem liggur fyrir í málinu, hafði sýslumaður falið sama fulltrúa sínum að fara með báða þessa málaflokka. Var reyndin og sú í þessu tilviki, en fulltrúinn gerði meðal annars kröfu í nafni sýslumanns 19. febrúar 1998 um að bú Byggðalands ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Áfrýjandi hefur ekki borið fyrir sig að þessi sérstöku atvik geti þrátt fyrir ákvæði síðari málsliðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1991 hafa leitt til annmarka á hæfi fulltrúans til að taka ákvörðun um beiðni Búnaðarbanka Íslands um frestun uppboðs 20. febrúar 1998, þannig að ógildingu þeirrar stjórnvaldsákvörðunar geti varðað. Af þeim sökum geta þessi atvik ekki komið til skoðunar við úrlausn málsins í öðru sambandi en við mat á því hvort uppfyllt séu skilyrði sakarreglu fyrir skaðabótaskyldu stefnda vegna ákvörðunarinnar.

Eins og áður greinir var í Hæstarétti kveðinn upp dómur 11. desember 1997 í máli áfrýjanda og Búnaðarbanka Íslands, þar sem slegið var föstu að fjárnám hennar í eign Byggðalands ehf. væri gilt gagnvart bankanum. Með þessu var fengin um það álitaefni bindandi úrlausn, sem beiðni Búnaðarbanka Íslands 17. febrúar 1998 um endurupptöku máls síns og áfrýjanda fékk ein og sér í engu haggað, sbr. 3. mgr. 168. gr. og 3. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og þeim var breytt með 21. gr. og 22. gr. laga nr. 38/1994. Voru því ekki skilyrði að lögum til að láta beiðnina um endurupptöku verða til þess að uppboði yrði frestað 20. febrúar 1998. Þegar tekin er afstaða til þess hvort mistök, sem fólust í ákvörðun fulltrúa sýslumanns um þetta efni, verði metin honum svo til sakar að skaðabótaskyldu varði fyrir stefnda verður hins vegar ekki horft fram hjá því að í skriflegri kröfu Búnaðarbanka Íslands um frestun uppboðsins var skírskotað til afrits af beiðni til Hæstaréttar um endurupptöku máls, þar sem fram kom að hún væri studd við nýtt sönnunargagn. Liggur ekkert fyrir í málinu um hvaða tök fulltrúinn gæti hafa haft á að gera sér grein fyrir vægi þessa gagns þegar hann tók ákvörðun um framgang uppboðs með mati á atvikum eftir ákvæðum 2. mgr. 22. gr., sbr. 2. mgr. 63. gr. laga nr. 90/1991. Þá verður jafnframt að líta til þess að krafa um gjaldþrotaskipti á búi Byggðalands ehf. hafði verið lögð fyrir Héraðsdóm Reykjaness þegar fulltrúi sýslumanns tók ákvörðunina, en af því markaðist hver frestdagur samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 yrði talinn vera ef krafan næði fram að ganga. Vegna ákvæða 139. gr. sömu laga voru af þessum sökum ekki efni til að telja sennilegt, þegar ákvörðun var tekin 20. febrúar 1998 um framgang uppboðsins, að horft gæti sérstaklega til tjóns fyrir áfrýjanda að því yrði frestað um skamman tíma til þess að ótvíræð niðurstaða fengist fyrir dómstólum um réttindi yfir þeim eignum, sem fjárnám áfrýjanda hafði verið gert í. Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á að nægilega sé fram komið að skilyrði séu til að fella skaðabótaskyldu á stefnda vegna umræddrar ákvörðunar fulltrúa sýslumanns um frestun uppboðs. Samkvæmt því verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Hauðar Helgu Stefánsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 175.000 krónur.

 

 

Héraðsdómur barst ekki.