Hæstiréttur íslands

Mál nr. 85/2006


Lykilorð

  • Fasteignaskattur
  • Skattheimild
  • Vextir


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. október 2006.

Nr. 85/2006.

Kópavogsbær

(Þórður Clausen Þórðarson hrl.)

gegn

Sigurþór Hallbjörnssyni og

Áróru Gústafsdóttur

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

 

Fasteignaskattur. Skattheimild. Vextir.

Deilt var um hvort K væri heimilt að skattleggja húsnæði S og Á samkvæmt b. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga eða hvort skattleggja bæri húsnæðið samkvæmt a. lið sama ákvæðis. Fallist var á að raunveruleg notkun fasteignar ráði flokkun hennar með tilliti til fasteignaskatts og var talið sannað að umrætt húnæði hefði verið nýtt sem íbúð. Ekki var talið að sjónarmið K, sem byggðust m.a. á skipulagi sveitarfélagsins og skráningu fasteignarinnar, girtu fyrir rétt S og Á til að greiða fasteignaskatt í sama gjaldflokki og eigendur annars íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu. Var því talið að skattleggja bæri húsnæði S og Á samkvæmt a. lið 3. mgr. 3. gr. laganna og K gert að endurgreiða þeim þá fjárhæð sem hafði verið ofgreidd.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2006 og krefst sýknu af kröfum stefndu. Hann krefst þess einnig að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 2. febrúar 2005 í máli nr. 13/2004 verði felldur úr gildi. Jafnframt að viðurkennt verði að honum sé heimilt að skattleggja húsnæði stefndu að Hafnarbraut 6 í Kópavogi samkvæmt b. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga með áorðnum breytingum. Þá krefst hann þess að málskostnaður í héraði falli niður og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður, þó þannig að áfrýjandi, Kópavogsbær, greiði stefndu, Sigurþór Hallbjörnssyni og Áróru Gústafsdóttur, vexti samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda af 105.191 krónu frá 1. ágúst 2001 til 1. ágúst 2002, af 256.924 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2003, en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti um verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. ágúst 2003, af 480.078 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2004, af 710.994 krónum frá þeim degi til 28. september 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefndu 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. janúar 2006.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 17. þessa mánaðar, var höfðað 9. maí 2005.

Gagnsök var höfðuð 14. júní 2005 og sameinuð aðalsök við þingfestingu gagnsakar 15. júní 2005.

Aðalstefnandi og gagnstefndi er Kópavogsbær, Fannborg 2, Kópavogi.         Aðalstefndu og gagnstefnendur eru Sigurþór Hallbjörnsson og Áróra Gústafsdóttir, bæði til heimilis að Hafnarbraut 6, Kópavogi.

             Í aðalsök krefst aðalstefnandi þess, að húsnæði aðalstefndu að Hafnarbraut 6, Kópavogi, matseining 0102 (fastanúmer 225-7927), verði skattlagt samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, sbr. lög nr. 144/2000 og þannig hnekkt úrskurði Yfirfasteignamatsnefndar ríkisins frá 2. febrúar 2005 um að umrætt húsnæði skuli skattlagt samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Aðalstefnandi krefst ekki málskostnaðar í aðalsök.

Í aðalsök krefjast aðalstefndu sýknu af kröfum aðalstefnanda og jafnframt krefjast þau þess að staðfestur verði úrskurður Yfirfasteignamatsnefndar frá 2. febrúar 2005 um að matshluti 225-7927 í fasteign aðalstefndu að Hafnarbraut 6, Kópavogi, skuli skattlagður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Aðalstefndu krefjast málskostnaðar í aðalsök.

Í gagnsök krefjast gagnstefnendur þess að gagnstefnda verði gert að greiða þeim 710.994 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu af 105.191 krónum frá 1. ágúst 2001 til 1. ágúst 2002, af 256.924 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2003, af 480.078 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2004, af 710.994 krónum frá þeim degi til 28. september 2004, en með dráttarvöxtum af allri fjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Gagnstefnendur krefjast málskostnaðar í gagnsök

Í gagnsök krefst gagnstefndi sýknu af öllum kröfum gagnstefnenda og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Aðalsök.

             Helstu málsatvik eru þau, að með bréfi til aðalstefnanda, dagsettu 28. ágúst 2004, krafðist aðalstefndi Sigurþór Hallbjörnsson þess að fasteignin Hafnarbraut 6 í Kópavogi yrði flokkuð sem íbúðarhúsnæði og fasteignaskattur lagður á hana samkvæmt a. lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Kvaðst aðalstefndi Sigurþór hafa keypt fasteignina í apríl 2000 og búið þar ásamt fjölskyldu sinni og átt þar lögheimili frá því í september sama ár. Í bréfi sínu kvað aðalstefndi fasteignina Hafnarbraut 6 vera íbúðarhús og uppfylla alla þætti skilgreiningar á íbúðarhúsnæði sem væri að finna í 2. mgr. 92. gr. byggingareglugerðar nr. 441/1998, en aðrar skilgreiningar á íbúðarhúsnæði væru ekki í gildandi lögum. Þá bæri eingöngu að líta til afnota fasteignarinnar við flokkun  samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Aðalstefnandi hafnaði kröfu aðalstefndu og kærðu þau þá ákvörðun til Yfirfasteignamatsnefndar ríkisins sem kvað upp úrskurð í málinu þann 2. febrúar 2005. Í niðurstöðu úrskurðar Yfirfasteignamatsnefndar ríkisins segir að húsnæði aðalstefndu skiptist í tvær matseiningar sem báðar séu skráðar sem vinnustofur. Matseiningin 0102 (fastanúmer 225-7927) sé nýtt til íbúðar af aðalstefndu og þar hafi fjölskyldan átt heimili. Hvorki sé í lögum nr. 4/1995 né í reglugerð um fasteignaskatt nr. 945/2000 að finna á því skilgreiningu hvaða skilyrði skuli vera uppfyllt til þess að húsnæði teljist vera íbúð í skilningi laganna. Hins vegar sé skilgreint í 2. mgr. byggingareglugerðar nr. 44/1998 hvað teljist lögleg íbúð. Var niðurstaða nefndarinnar síðan sú að matseining 0102 væri miðað við lýsingu og notkun íbúðarhúsnæði í skilningi a-liðar 3 mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og skyldi skattlögð samkvæmt því en að matseining 0103 sem nýtt var sem vinnustofa skyldi með hliðsjón af þeirri notkun um skyldu til greiðslu fasteignagjalda falla undir b-lið 3. mgr. 3. gr. sömu laga.

             Á fundi þann 18. febrúar 2005 samþykkti bæjarráð Kópavogs að hafna kröfu aðalstefndu um endurgreiðslu fasteignaskatts og skjóta úrskurði yfirfasteignamats ríkisins til dómstóla samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995.

             Í greinargerð aðalstefndu kemur m.a. fram að þau hafi keypt matshluta 225-7927 í fasteigninni Hafnarbraut 6 í Kópavogi árið 2000 og flutt þangað ásamt börnum sínum í september sama ár og átt þar lögheimili síðan.. Frá því að þau festu kaup á eigninni hafi þau gert miklar endurbætur á henni og breytt ofangreindum matshluta í glæsilega íbúð. Þegar þau keyptu eignina hafi hún verið lítið annað en útveggirnir og hafi verðmæti hennar aukist mikið með endurbótunum. Samhliða verðmætisaukningu sem varð á eigninni vegna breytinganna hafi aðalstefndu óskað eftir breytingu á fasteigna- og brunabótamati eignarinnar til hækkunar þar sem þeim hafi verið nauðsynlegt að taka lán fyrir kaupum og endurbótum á húsnæðinu, en fjárhæð láns hafi tekið mið af þeim mötum. Eftir því sem fasteignamat eignarinnar hafi hækkað hafi þau gert sér grein fyrir því að fasteignaskattar sem innheimtir voru af eigninni voru mjög háir. Er þau leituðu eftir skýringum komust þau að því að að fasteignaskattur sem innheimtur var af eignarhluta þeirra miðaðist við atvinnuhúsnæði. Þau hefðu ekki viljað una þessari skattheimtu þar sem þau töldu ótvírætt að matshlutinn væri íbúðarhúsnæði og að skattlegja bæri hann samkvæmt því. Hefðu þau því farið þess á leit við aðalstefnanda að skattlagningu matshlutans yrði breytt. Í kjölfar þess hefði málið hafnað hjá Yfirfasteignamatsnefnd ríkisins sem hefði úrkurðað aðalstefndu í vil.

II.

             Af hálfu aðalstefnanda er í aðalsök byggt á því að húsnæði aðalstefndu sé á svæði í vesturbæ Kópavogs, sem skilgreint sé sem svæði með blandaða landnotkun, íbúðir og athafnasvæði í staðfestu aðalskipulagi, en svæðið sé ódeiliskipulagt. Aðalstefndu hafi að vísu búið og átt lögheimili að Hafnarbraut 6 frá árinu 2000 og jafnframt haft þar vinnustofu. Hafnarbraut 6 hafi frá öndverðu verið skráð sem atvinnuhúsnæði, nánar fiskverkun. Þann 9. mars 2001 hafi í byggingarnefnd verið samþykktar teikningar þar sem húseigninni var skipt upp í þrjár einingar, sem allar séu skilgreindar sem vinnustofur. Hafi eignin verið skráð sem vinnustofa í fasteignamati frá 2002. Byggingarnefnd Kópavogs hafi ekki samþykkt íbúð í húsinu og samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingar­reglugerðar sé óheimilt að breyta notkun eða útliti mannvirkja án samþykkis byggingarnefndar, en samþykkt íbúða sé háð ákvæðum í gildandi deiliskipulagi, ákvæðum skipulags- og byggingaralaga og byggingarreglugerðar.

             Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 skuli leggja árlega fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar séu í fasteignamati. Vandséð sé hvernig við annað verði miðað við flokkun og álagningu fasteignaskatts en skráningu og flokkun hennar í fasteignamati Landsskrár fasteigna.

             Aðalstefnandi hafi miðað álagningu fasteignaskatts við samþykkta uppdrætti og sé skráning og mat fasteigna eingöngu á grundvelli samþykktra uppdrátta og í framhaldi af því lögbundinni tilkynningu byggingarfulltrúa til Fasteignamats ríkisins um notkun og stærð húsnæðis. Þannig sé á því byggt að mikil réttaróvissa myndi  skapast við það ef miða ætti við  eitthvað annað.

             Á undanförnum árum hafi verið nokkuð um framboð atvinnuhúsnæðis og standi mikið af slíku húsnæði autt. Ýmsir hafi því gripið til þess ráðs að innrétta slíkar íbúðir án tilskilinna leyfa. Það geti vart samrýmst almennri jafnræðisreglu að þeir sem þannig fara ekki að lögum og reglum skuli betur settir en þeir sem sitja uppi með atvinnuhúsnæði sem engin notkun er á, en sveitarfélög hafi ekki ljáð máls á lækkun gjalda af slíku húsnæði.

III.

             Aðalstefndu byggja sýknukröfu sína í aðalsök á því að skattleggja beri íbúðarhúsnæði þeirra að Hafnarbraut 6, matshluta 225-7927, samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Í sýknukröfunni felist því krafa um staðfestingu úrskurðar Yfirfasteignamatsnefndar frá 2. febrúar 2005. Byggja aðalstefndu sýknukröfu sína á eftirtöldum málsástæðum:

1.          Að matshluti aðalstefndu sé íbúðarhús og skuli skattlagður sem slíkur.

             Aðalstefndu byggja á því að réttur þeirra til að búa í íbúð sinni að Hafnarbraut 6, ásamt öllum þeim réttindum sem slíkri búsetu fylgir, sé stjórnarskrárvarinn, en samkvæmt 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands skuli allir ráða búsetu sinni.

             Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga sé samkvæmt a-lið lagður ½ % fasteignaskattur m. a. á íbúðir og íbúðarhús en samkvæmt b-lið sömu lagagreinar sé lagður allt að 1,32 % fasteignaskattur á aðrar fasteignir en tilgreindar eru í a-lið. Matshluti aðalstefndu nr. 225-7927 í ofangreindri fasteign sé íbúð og sé það óumdeilt í málinu. Aðalstefndu hafi innréttað matshlutann sem íbúðarhús á árinu 2000 og flutt þangað ásamt fjölskyldu sama ár og átt þar lögheimili síðan.

             Hvorki sé að finna skilgreiningu á hugtakinu íbúð eða íbúðarhúsnæði samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, í lögunum, greinargerð með lögunum, eldri lögum um tekjustofna sveitarfélaga né í reglugerð um fasteignaskatt nr. 945/2000. Verði því að styðjast við almennar skilgreiningar á hugtökum sem koma fram í ákvæðinu, sem m. a. sé að finna í öðrum settum lögum. Einu skilgreininguna á íbúðarhúsnæði í skráðum lögum sé að finna í 2. mgr. 92. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, svohljóðandi: “ Til þess að vistarvera teljist lögleg íbúð skal þar vera íbúðarherbergi sem sé að minnsta kosti 18 m2 að stærð, eldhús, baðherbergi og salerni, enda séu rými tengd innbyrðis þannig að ekki þurfi að fara um sameign á milli þeirra. Auk þess viðeigandi geymslurými, þvottaherbergi eða aðgangur að því í sameign.” Matshluti aðalstefndu að Hafnarbraut 6 uppfylli öll framangreind skilyrði og teljist því ótvírætt vera lögleg íbúð að gildandi lögum. Af því og settum lögum leiði því að sakttleggja beri matshluta aðalstefndu sem íbúðarhúsnæði. Yfirfasteignamatsnefnd hafi og í úrskurði sínum staðfest, m.a. með vettvangsgöngu, að matshluti aðalstefndu sé íbúðarhúsnæði samkvæmt framan­greindri skilgreiningu.

             Af hálfu aðalstefndu er byggt á því að hvorki sé í lögum nr. 4/1995 né í reglugerð nr. 945/2000 að finna reglu eða sjónarmið um flokkun fasteigna milli a- og b-liða 3. mgr. 3. gr. laganna. Því verði að túlka ákvæðið eftir orðanna hljóðan. Engin skilyrði séu til að fella fasteignir sem sannanlega eru íbúðarhúsnæði undir b-lið ákvæðisins.

             Hafi ætlun löggjafans verið sú að ákveðin tegund íbúðarhúsnæðis skyldi falla undir b-lið ákvæðisins hefði þurft að taka það skýrt og ótvírætt fram í lögunum eða öðrum réttarheimildum. Áréttað sé að þröng lögskýring sé meginreglan við skýringu og túlkun skattalaga og því sé ekki heimilt að leggja rýmri merkingu í ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 en tilefni sé til.

             Þá staðfesti athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 8/1972 að eina sjónarmiðið sem ræður flokkuninni sé raunveruleg afnot fasteignar. Með gildistökun laganna hafi verið lögleidd sú flokkun sem núverandi álagning fasteignaskatta sé byggð á. Þar segi um flokkunina: “Samkvæmt gildandi lögum eru öll hús í sama gjaldflokki án tillits til afnota. Lagt er til, að íbúðir og íbúðarhús með tilheyrandi lóðarréttindum verði í lægri skattflokki en aðrar húseignir, en gert er ráð fyrir tveim skattflokkum, en nú eru skattflokkarnir þrír.” Það hafi því beinlínis verið tilgangur lagasetningarinnar að lækka fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði vegna sérstöðu þess. Flokkunin sé eingöngu byggð á afnotum. Þar sem matshluti aðalstefnda sé íbúðarhúsnæði beri að skattleggja hann sem slíkan. Með því að skattleggja íbúð aðalstefndu sem atvinnuhúsnæði sé aðalstefnandi að koma í veg fyrir að aðalstefndu geti nýtt sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn samkvæmt 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar.

2.          Að fasteignaskattur sé gjald fyrir veitta þjónustu sveitarfélags.

             Af hálfu aðalstefndu er vakin athygli á eftirtöldu sem segir í greinargerð með frumvarpi því sem varða að 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga: “Gengið er út frá því að fasteignaskattur sé gjald fyrir veitta þjónustu sveitarfélags, en ekki eignarskattur.” Þjónusta sem sveitarfélag innir af hendi við eigendur fasteigna ráðist alfarið af nýtingu fasteignarinnar. Þannig njóti eigandi atvinnuhúsnæðis annarrar og meiri þjónustu en eigandi íbúðarhúsnæðis og greiði því hlutfallslega hærri fasteignaskatt en eigandi íbúðarhúsnæðis. Með skattlagningu á matshluta aðalstefndu sem atvinnuhúsnæðis séu aðalstefndu að greiða gjald fyrir þjónustu sem sveitarfélagið veitir þeim ekki, en óumdeilt er að matshluti aðalstefndu er íbúðarhúsnæði.

3.          Að skattlagning matshluta aðalstefndu brjóti gegn jafnræðisreglu.

             Af hálfu aðalstefndu er bent á að þau hafi gert verulegar endurbætur á matshluta þeirra að Hafnarbraut 6 og samhliða endurbótunum hafi fasteignamat matshlutans hækkað verulega, enda verðmæti hans aukist mikið. Íbúðarhúsnæði sé að jafnaði verðmætara en atvinnuhúsnæði að sömu stærð og sé fasteignamat íbúðar­húsnæðis því almennt hærra á hvern fermetra. Sé það önnur skýring þess að fasteignaskattur sé hærri á atvinnuhúsnæði en íbúðarhúsnæði. Þar sem fasteignamat íbúðar aðalstefndu hafi hækkað verulega undanfarin ár og sé nú fasteignamat íbúðar en ekki atvinnuhúsnæðis sé mjög ósanngjarnt að aðalstefndu sé gert að greiða skatt líkt og um atvinnuhúsnæði væri að ræða. Þau greiði því mun hærri fasteignaskatt af íbúð sinni en aðrir íbúar sveitarfélagsins sem búa í jafnstórum íbúðum. Þetta telji aðalstefndu brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

4.          Að sjónarmið sem aðalstefnandi byggi mismunun á séu ómálefnaleg.

             Af hálfu aðalstefndu eru þau sjónarmið sem fram koma í stefnu þar sem skattlagning matshluta aðalstefndu er byggð á skipulagssjónarmiðum, talin ómálaefnaleg. Þannig vísi aðalstefnandi til skilgreiningar landsvæðisins, sem húsnæði aðalstefndu stendur á, til gildandi aðalskipulags sem og til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þá telji aðalstefnandi eingöngu unnt að miða skattlagningu við samþykkta uppdrætti. Er af hálfu aðalstefndu byggt á því að einungis sé heimilt að horfa til raunverulegrar notkunar fasteignar við skattlagningu hennar. Engin heimild sé í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að líta til annarra sjónarmiða.

             Verði á hinn bóginn talið að skipulagssjónarmið geti haft einhver áhrif á flokkunina bendi aðalstefndu á:

i.                     Að húsnæði aðalstefndu sé á landsvæði sem ekki hafi verið deiliskipulagt. Í gildandi aðalskipulagi sé gert ráð fyrir blandaðri byggð á svæðinu, íbúðum og athafnasvæði. Eina skilyrði til þess að fá íbúð samþykkta á umræddu svæði sé að hún uppfylli skilyrði byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Það geri íbúð aðalstefndu.

ii.                    að fullyrðing aðalstefnanda að samþykkt íbúða sé háð skilyrðum í gildandi deiliskipulagi, samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, sé röng ef hana beri að skilja með þeim hætti að óheimilt sé að samþykkja íbúðir nema fyrir liggi deiliskipulag. Fyrir slíkri túlkun sé engin lagastoð. Þvert á móti verði að telja, að þar sem aðalstefnandi hafi enn ekki deiliskipulagt svæðið, eins og honum sé skylt, gildi ekki aðrar takmarkanir á landnotkun á svæðinu en fram komi í aðalskipulagi, sbr. 2. mgr. greinar 3.1.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Samkvæmt aðalskipulaginu sé heimilt að vera með íbúðir á svæðinu. Notkun húsnæðis aðalstefndu sem íbúðar­húsnæðis sé því í samræmi við einu bindandi skipulagsáætlunina sem til sé af svæðinu og þar af leiðandi í samræmi við skipulagsstefnu Kópavogsbæjar og skipulagssjónarmið.

iii.                  að í samræmi við framangreint og gildandi skipulag svæðisins séu fasteignirnar að Hafnarbraut 8 og 12 skráðar sem íbúðarhúsnæði. Önnur skipulagsrök geti ekki átt við húsnæði aðalstefndu. Slíkt væri mismunun og andstætt sjónarmiðum um jafnræði borgaranna.

iv.                  að aðalstefndu hafa ásamt fjölskyldu sinni átt lögheimili að Hafnarbraut 6 frá árinu 2000 og hafi lögheimilisskráningin verið athugasemdalaus af hálfu aðalstefnanda og annarra og verið það síðan  Aðalstefnandi hafi því vitað, eða a.m.k. mátt vita, að aðalstefndu hafa átt lögheimili að Hafnarbraut 6 frá árinu 2000.

v.                   að aðalstefnandi sé stjórnvald og á honum hvíli m.a. leiðbeiningarskylda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga.

IV.

Gagnsök

             Í gagnsök vísa aðilar til aðalsakar hvað varðar málsatvik. Í gagnstefnu kemur fram að matshluti fasteignar gagnstefnenda, sem um er deilt í málinu, hafi verið skattlagður sem atvinnuhúsnæði allt frá því að þau festu kaup á honum árið 2000, en í september það ár hafi þau flust þangað og skráð þar lögheimili sitt.

             Í greinargerð sinni í gagnsök heldur gagnstefndi því fram og byggir á því að gagnstefnendur hafi fyrst með bréfi dagsettu 28. ágúst 2004 krafist þess að fasteignin að Hafnarbraut 6 yrði flokkuð sem íbúðarhúsnæði og fasteignaskattur lagður á hana samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.

Eftir dómtöku dómtöku málsins 29. nóvember sl. kom í leitirnar bréf frá gagnstefnda, dagsett 10. júlí 2002, þar sem fram kom að á fundi bæjarráðs gagnstefnda þann 5. júlí 2002 hafi erindi gagnstefnenda um að veittur yrði afsláttur eða að felldur verði niður hluti fasteignagjalda vegna Hafnarbrautar 6 verið hafnað. Af þessum sökum varð dómari við ósk gagnstefnenda um endurupptöku málsins í því skyni að gefa þeim kost á að leggja þessi gögn fram. Var það gert í þinghaldi 21. fyrra mánaðar. Var þá upplýst  að gagnstefnendur gætu ekki fundið umrætt bréf, er þau höfðu sent gagnstefnda. Lögmaður gagnstefnda upplýsti að gagnstefndi hefði ekki haft tök á að finna bréf þetta hjá sér, en augljóst væri að slíkt bréf hefði borist gagnstefnda.

Skömmu fyrir dómsuppsögu í málinu, sem boðuð hafði verið til 17. þessa mánaðar, veitti dómari því athygli annmörkum á kröfugerð gagnstefnenda að því er varðaði kröfur vegna fasteignaskatta árið 2005 og þá um leið á kröfu þeirra um dráttarvexti. Var málið því endurupptekið 17. þessa mánaðar samkvæmt heimild í 104. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, í því skyni að gefa gagnstefnendum kost á að ráða bót á annmörkunum. Í því þinghaldi féllu gagnstefnendur frá kröfum í gagnsök að því er varðaði árið 2005 og lækkuðu þar með gagnstefnukröfur sínar úr 970.647 krónum í 710.994 krónur og breyttu dráttarvaxtakröfu sinni því til samræmis.

V.

             Í gagnsök byggja gagnstefnendur á því að skattleggja beri matshluta þeirra nr. 225-7927 í fasteigninni að Hafnarbraut 6, Kópavogi eftir a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Yfirfasteignamatsnefnd hafi staðfest að svo sé.

             Krafan um endurgreiðslu oftekinna fasteignaskatta byggi á ákvæðum laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, en í 1. mgr. 1. gr. laganna segi: “Stjórnvöld, sem innheimta skatta eða gjöld, skulu endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt ásamt vöxtum skv. 2. gr.” Ákvæði þetta tryggi skilyrðislausa endurgreiðslu oftekinna skatta án úrlausnar á sök eða ástæðum ofgreiðslunnar.

             Kröfu sína byggja gagnstefnendur á þeim mismun sem sé á innheimtum fasteignasköttum umrætt tímabil og fasteignasköttum, sem innheimtir hefðu verið, ef matshluti gagnstefnenda hefði verið réttilega skattlagður eftir a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

             Gagnstefnendur krefjast einvörðungu endurgreiðslu oftekins fasteignaskatts frá og með árinu 2001, en krafa vegna ársins 2000 sé fyrnd samkvæmt 4. gr. laga nr. 29/1995.

             Af hálfu gagnstefnenda er endurgreiðslukrafa þeirra sundurliðuð þannig eftir árum:

1.         Árið 2001:

Árið 2000-2002 hafi fasteignaskattur verið innheimtur í einu lagi af allri fasteigninni Hafnarbraut 6, sbr. dskj. nr. 20. Þar komi fram að gjaldárið 2001 hafi fasteignaskattur allrar fasteignarinnar verið 269.324 krónur. Þar sem fasteignin sé samtals 420,9 fermetrar nemi skatturinn 640 krónum á hvern fermetra. Þar sem matshluti 225-7927 sé 216,4 fermetrar hafi fasteignaskattur á hann árið 2001 numið 216,4 x 640 eða 138.496 krónum.

Samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 skuli fasteignaskattur af íbúðum og íbúðarhúsnæði vera allt að ½ % af álagningarstofni, sem sé fasteignamat samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis. Gagnstefndi hafi hins vegar ákvarðað fasteignaskatt 0,375 % af álagningarstofni árið 2001.

Fasteignamat Hafnarbrautar 6 hafi verið 17.274.000 krónur árið 2001, eða 41.041 krónur á fermetra. Fasteignamat umdeilds matshluta hafi því verið 216,4 x 41.041 krónur eða 8.881.272 krónur. Fasteignaskattur  samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 reiknist því: 8.881.272 x 0,375 eða 33.305 krónur. Mismunur ársins 2001, sem krafist er endurgreiðslu á, nemi því 138.496 krónum – 33.305 krónur eða 105.191 krónum.

2.         Árið 2002:

             Árið 2002 hafi álagður fasteignaskattur numið 386.054 krónum á alla fasteignina Hafnarbraut 6 eða 198.484 krónur á umdeildan matshluta samkvæmt forsendum í lið 1 hér að framan.

             Fasteignamat matshlutans nam 12.467.000 krónum árið 2002 og reiknist því fasteignaskattur samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 12.467.000 krónur x 0,375 % eða 46.751 krónur. Mismunur ársins 2002 nemi því 198.484 krónum - 46.751 krónur eða 151.733 krónur.

3.         Árið 2003:

             Árið 2003 hafi fasteignaskattur verið lagður sérstaklega á nefndan matshluta og lagður á gagnstefnendur sitt í hvoru lagi sem skráða eigendur að 50% hvort. Samanlagt hafi skatturinn numið 268.159 krónum.

             Fasteignamat matshlutans hafi verið 13.045.000 krónur. Árið 2003 hafi fasteignaskattur á íbúðir og íbúðarhúsnæði verið lækkaður í 0,345 %. Reiknaður fasteigna­­skattur samkvæmt a-liðnum hafi því numið 13.045.000 krónur x 0,345 % eða 45.005 krónum. Mismunur ársins 2003 nemi því 268.159 krónum - 45.005 krónur eða 223.154 krónum.

4.         Árið 2004:

             Árið 2004 nam sameiginlegur fasteignaskattur á gagnstefnendur 280.682 krónum.

             Fasteignamat nefnds matshluta nam 14.425.000 krónum árið 2004. Reiknaður fasteignaskattur samkvæmt a-liðnum nam því 14.425.000 krónum x 0,345 % eða 49.766 krónum. Mismunur ársins 2004 nemi því 280.682 krónum- 49.766 krónur eða 230.916 krónum.

             Samtals nemi krafa gagnstefnenda því 710.004 krónum.

Vaxtakrafa gagnstefnenda miðast við síðasta gjalddaga hvers gjaldaárs, sem hafi verið 1. ágúst ár hvert. Byggja gagnstefnendur vaxtakröfuna á 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nr. 29/1995. Gagnstefnendur hafi krafist endurgreiðslu oftekinna fasteignagjalda þann 28. ágúst 2004 og sé því krafist dráttarvaxta af allri kröfunni frá 28. september s.á., samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995.

             Málskostnaðarkröfu sína byggja gagnstefnendur á 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála,

             Um heimild til að hafa uppi kröfu í gagnsök er vísað til 2. mr. 28. gr. laga um meðferð einkamála.

VI.

             Af hálfu gagnstefnda er byggt á því að kröfu gagnstefnenda um að umdeildur matshluti skuli teljast íbúðarhúsnæði og skattleggjast samkvæmt því, hafi verið hafnað af gagnstefnda. Fram til þess tíma hafi ekki verið gerðar neinar ráðstafanir af hálfu gagnstefnenda til að breytra skráningu húsnæðisins í fasteignamati og hafi gagnstefnda verið ókunnugt um að húsnæðið væri innréttað með öðrum hætti en fram komi í samþykktum teikningum af húsnæðinu, en Hafnarbraut 6 hafi frá öndverðu verið skráð sem atvinnuhúsnæði, nánar fiskverkun.

             Af hálfu gagnstefnda er þess getið að þann 9. mars 2001 hafi teikningar sem gagnstefnandi Sigurþór lagði fram, verið samþykktar í byggingarnefnd, en samkvæmt þeim hafi fasteigninni verið skipt upp í þrjár einingar, sem allar voru skilgreindar sem vinnustofur. Matseining 0102 sem gagnstefnendur nýttu til íbúðar, hafi verið skráð sem vinnustofa í fasteignamati frá 2002 og hafi gagnstefnendur ekki gert ráðstafanir til þess að fá því breytt.

             Byggt sé á því að byggingarnefnd Kópavogs hafi ekki samþykkt íbúð í húsinu og samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingar­reglugerðar nr. 441/1998 sé óheimilt að breyta notkun eða útliti mannvirkis án samþykkis byggingarnefndar, en samþykkt íbúða sé háð ákvæðum í gildandi deiliskipulagi, ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar. Gagnstefnendur hafi ekki sótt um leyfi fyrir því að breyta hinu umrædda húsnæði í íbúð og hafi þau þannig brotið gegn 43. gr. skipulags- og byggingarlaga og framangreindri reglugerð.

             Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 eigi að leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru fasteignamati og sé vandséð hvernig við annað verði miðað við flokkun og álagningu fasteignaskatts en skráningu og flokkun hennar í fasteignamati Landsskrár fasteigna og í því tilviki sem hér um ræðir hafi ekkert legið fyrir um það hjá gagnstefnda að búið væri að breyta húsnæðinu í íbúð.

             Gagnstefndi hafi miðað álagningu á fasteignaskatti við samþykkta uppdrætti og sé skráning og mat fasteigna eingöngu á grundvelli samþykktra uppdrátta og í framhaldi af því lögbundinni tilkynningu byggingarfulltrúa til Fasteignamats ríkisins um notkun og stærð húsnæðis.

             Þá beri að gæta lagasamræmis og í því sambandi beri til þess að líta að margvíslegar skyldur hvíli á sveitarfélögum, sem þeim beri að rækja gagnvart íbúum, atvinnufyrirtækjum og fleiri aðilum.

             Þá sé til þess að líta að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi skoðað umrætt húsnæði þann 10. september 2003 og gert eftirfarandi athugasemdir:

“Notkun húsnæðisins ekki í samræmi við samþykktar teikningar.

Tvær óháðar útgönguleiðir skulu vera úr hverri íbúð.

Aðrir veggir að íbúð skulu vera E190.

Aðgengi að handslökkvitæki skal vera til staðar.

Vakin er athygli á að notkun húsnæðisins til íbúðar er ekki samþykkt af byggingar- og skipulagsyfirvöldum í Kópavogi.”

Samkvæmt þessari skoðunarskýrslu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins uppfylli umrætt húsnæði ekki þær kröfur sem gerðar séu til íbúðarhúsnæðis og ekki liggi fyrir að bætt hafi verið úr þessum ágöllum.

             Þá sé því mótmælt að það skapi gagnstefnendum einhvern rétt að þau hafi fengið lögheimili sitt skráð í umræddu húsnæði, enda hafi gagnstefndi talið sér óheimilt að hafna skráningu lögheimilis í atvinnuhúsnæði, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 474/2004.

             Samkvæmt framansögðu séu engar forsendur til að halda því fram að gagnstefndi hefði strax átt að leggja á umrædda eign samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Ekkert hafi legið fyrir um að húsnæðinu hafi verið breytt í íbúð og raunar liggi ekkert fyrir um það hvenær ráðist var í hinar ólögmætu breytingar á húsnæðinu. Það hafi ekki legið fyrir fyrr en með úrskurði Yfirfasteignamatsnefndar ríkisins þann 2. febrúar 2005 að húsnæðið væri íbúðarhúsnæði að mati nefndarinnar. Nefndin virðist hins vegar ekki hafa hirt um að kynna sér hvort húsnæðið uppfyllti kröfur um eldvarnir. Sé því mótmælt að húsnæðið hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu til íbúðarhúsnæðis, sbr. 5. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

             Verði niðurstaða dómsins sú að leggja beri á umrædda eign samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sé því mótmælt að sú niðurstaða verði afturvirk til þess tíma er gagnstefnendur fluttu í íbúðina og reiknist endurgreiðsla þá einungis frá þeim tíma er niðurstaða yfirfasteignamats lá fyrir.

VII.

A.        Aðalsök.

             Ekki sætir ágreiningi að aðalstefndu hafa búið og átt lögheimili að Hafnarbraut 6 í Kópavogi frá því í september 2000. Þá er óumdeilt að hinn umdeildi matshluti aðalstefndu 0102, fastanúmer 225-7927, í umræddri fasteign hefur verið skráður sem vinnustofa ásamt tveimur öðrum einingum í fasteigninni frá árinu 2002 á grundvelli teikninga sem lagðar voru fyrir byggingarnefnd Kópavogs og samþykktar þar þann 9. mars 2001. Fram að þeim tíma hafði öll fasteignin verið skráð sem atvinnuhúsnæði, nánar tiltekið fiskverkun. Þá sætir ekki ágreiningi að aðalstefndu leituðu ekki samþykkis byggingarnefndar Kópavogs áður en þau réðust í að breyta umræddum eignarhluta í íbúðarhúsnæði árið 2000, en samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998 er óheimilt að breyta notkun eða útliti mannvirkja án samþykkis byggingarnefndar, en samþykkt íbúða er háð ákvæðum í gildandi deiliskipulagi, ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar.

             Á grundvelli skráningar umrædds matshluta sem atvinnuhúsnæðis hjá Fasteignamati ríkisins hafa fasteignaskattar verið lagðir á matshlutann á grundvelli b-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og hafa aðalstefndu greitt þá skatta.

             Telja verður að aðalstefndu hafi með málatilbúnaði sínum sýnt fram á að umræddur matshluti þeirra í fasteigninni Hafnarbraut 6 í Kópavogi sé íbúðarhúsnæði í skilningi laga. Samkvæmt lögum nr. 4/1995 er skattprósenta fasteignaskatts lægri á íbúðarhúsnæði en aðrar fasteignir, sbr. a- og b-liði 3. mgr. 3. gr. laganna. Af athugasemdum með eldri lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 8/1972 má ráða að flokkun húsnæðis í gjaldflokka skyldi einvörðungu ráðast af raunverulegum afnotum fasteignar. Með þeim lögum var lögleidd sú flokkun sem núverandi álagning fasteignaskatta er reist á. Þar segir um flokkunina: “Samkvæmt gildandi lögum eru öll hús í sama gjaldflokki án tillits til afnota. Lagt er til að íbúðir og íbúðarhús með tilheyrandi lóðarréttindum verði í lægri skattflokki en aðrar húseignir...”. Í greinargerð með lögum nr. 4/1995 er fasteignaskattur skilgreindur þannig: “Gengið er út frá því að fasteignaskattur sé gjald fyrir veitta þjónustu sveitarfélags en ekki eignarskattur.”

Með hliðsjón af því sem að ofan er rakið telst sannað, að umræddur matshluti aðalstefndu í fasteigninni Hafnarbraut 6 í Kópavogi, sem þau innréttuðu sem íbúð og hafa búið í ásamt börnum sínum og átt lögheimili frá árinu 2000, sé íbúðarhúsnæði.

Þá fellst dómurinn á að raunveruleg notkun húsnæðis ráði því hvernig eign flokkist með tilliti til fasteignaskatta. Telja verður löggjöf og vilja löggjafans ótvíræðan að þessu leyti. Fallist er á þau sjónarmið aðalstefndu að þurft hefði að taka það skýrt og ótvírætt fram í lögum nr. 4/1995 eða öðrum réttarheimildum ef ætlun löggjafans hefði verið að ákveðin tegund íbúðarhúsnæðis skyldi skattlögð með öðrum hætti en íbúðarhús almennt.

             Samkvæmt framansögðu er því ekki fallist á að þau sjónarmið sem teflt er fram af hálfu aðalstefnanda, sem m. a. byggjast á skipulagssjónarmiðum, girði fyrir að aðalstefndu fái að greiða fasteignaskatt af sínu íbúðarhúsnæði í sama gjaldflokki og aðrir eigendur sambærilegs íbúðarhúsnæðis í bæjarfélaginu. Aðalstefndu nýta eignarhlutann raunverulega sem íbúðarhúsnæði og það er sú notkun sem ræður því í hvaða álagningarflokk fasteignin lendir. Það að aðalstefndu sóttu ekki um leyfi til að breyta umræddu húsi í íbúð haggar ekki þessari niðurstöðu. Þar vegur þyngra stjórnarskrárvarinn réttur borgaranna til að ráða eigin búsetu svo og framangreind sjónamið um að raunveruleg nýting fasteignar ráði skattlagningu fasteigna.

Þegar af framangreindum ástæðum ber því að fallast á að eignarhluti aðalstefndu í fasteigninni Hafnarbraut 6 í Kópavogi, matseining 0102, fastanúmer 225-7927, skuli vera skattlagður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Ber því að sýkna aðalstefndu af kröfum aðalstefnanda í aðalsök. Í þessari niðurstöðu felst staðfesting á niðurstöðu Yfirfasteignamatsnefndar ríkisins varðandi skattlagningu umrædds matshluta.

B.         Gagnsök.

             Samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1995 skulu stjórnvöld, sem innheimta skatta eða gjöld, endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt ásamt vöxtum samkvæmt 2. gr. sömu laga. Í þeirri grein segir í 1. mgr., að við endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda skv. 1. gr. skuli greiða gjaldanda vexti, sem skulu jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma, af því fé sem oftekið var frá þeim tíma er greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram.

Í 2. mgr. 2. gr. laganna segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli greiða dráttarvexti skv. 10. gr. laga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta og gjalda.

             Samkvæmt niðurstöðu í aðalsök, sem að framan hefur verið rakin, er ljóst að gagnstefnendur hafa greitt hærri fasteignaskatta en þeim bar með hliðsjón af notkun eignarhlutans sem íbúðarhúsnæðis. Í samræmi við skýlausa endurgreiðsluskyldu stjórnvalda á ofteknum sköttum og gjöldum samkvæmt lögum nr. 29/1995, ber gagnstefnda því að endurgreiða gagnstefnendum mismun greiddra fasteignaskatta, sem á gagnstefnendur voru lagðir samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og þeirra fasteignaskatta sem leggja átti á þau samkvæmt a-lið sömu lagagreinar, allt eins og síðar verður reifað. Ekki er ágreiningur um fjárhæðir, en á hinn bóginn er ágreiningur um það frá hvaða tíma beri að miða endurgreiðsluna. Af hálfu gagnstefnenda er ekki krafist endurgreiðslu þess hluta af fasteignasköttunum sem talinn er fyrndur samkvæmt 4. gr. laga nr. 29/1995.

             Ekki er fallist á þau sjónarmið gagnstefnda að miða beri endurgreiðslu oftekinna fasteignaskatta við úrskurð Yfirfasteignamatsnefndar eða það girði fyrir endurgreiðslu að gagnstefndi hafi ekki vitað betur en að umræddur matshluti væri atvinnuhúsnæði. Samkvæmt 1. gr laga nr. 29/1995 er skylda stjórnvalds til að endurgreiða oftekna skatta skýr og ótvíræð og hefur huglæg afstaða þar enga þýðingu. Endurgreiðsluskyldan ræðst einvörðungu af því hvernig lögum samkvæmt hefði borið að haga skattlagningu miðað við atvik eins og þau voru á hverjum tíma, í tilviki þessa máls hvernig raunveruleg notkun matshlutans var.

             Samkvæmt ofanskráðu ber að taka kröfur gagnstefnenda í gagnsök til greina að öllu leyti og er gagnstefndi því dæmdur til að greiða þeim hina umstefndu fjárhæð, 710.994 krónur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

             Eftir úrslitum málsins ber að dæma aðalstefnanda og gagnstefnda til að greiða aðalstefndu og gagnstefnendum málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

             Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.

Dómsorð:

             Í aðalsök eru aðalstefndu, Sigurþór Hallbjörnsson og Áróra Gústafsdóttir, sýkn af kröfum aðalstefnanda, Kópavogsbæjar í málinu.

             Í gagnsök greiði gagnstefndi, Kópavogsbær, gagnstefnendum, Sigurþór Hallbjörnssyni og Áróru Gústafsdóttur, 710.994 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu af 105.191 krónum frá 1. ágúst 2001 til 1. ágúst 2002, af 256.924 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2003, af 480.078 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2004, af 710.994 krónum frá þeim degi til 28. september 2004, en með dráttarvöxtum af allri fjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

             Aðalstefnandi greiði gagnstefnendum 400.000 krónur í málskostnað.