Hæstiréttur íslands

Mál nr. 199/1999


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Fasteign
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999.

Nr. 199/1999.

Sparisjóður Mýrasýslu

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Þorgerði Oddsdóttur

(Jóhannes Albert Sævarsson hdl.)

og gagnsök

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Fasteign. Gjafsókn.

Þ stefndi S til að þola viðurkenningu á því, að hann bæri skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem hún hefði orðið fyrir er hún hrasaði í tröppum í húsi hans. Ekki var talið sannað gegn mótmælum S að Þ hefði slasast með þessum hætti og var hann því sýknaður.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. maí 1999. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að sakarskiptingu héraðsdóms verði breytt aðaláfrýjanda í hag og málskostnaður felldur niður fyrir báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 1. júlí 1999. Hún krefst þess að viðurkennd verði með dómi bótaskylda aðaláfrýjanda vegna líkamstjóns, sem hún hafi eða kunni að hafa orðið fyrir þegar hún hrasaði á hálkubletti á tröppum húss aðaláfrýjanda að Borgarbraut 14 í Borgarnesi 30. nóvember 1993. Hún krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hún segist njóta fyrir Hæstarétti, þar sem gjafsókn hennar fyrir héraði, sem veitt var 28. janúar 1998, nái til málskostnaðar hér fyrir dómi, sbr. 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Til vara krefst hún þess að málskostnaður falli niður.

I.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi kveðst gagnáfrýjandi hafa orðið fyrir slysi er hún gekk niður tröppur við hús aðaláfrýjanda í Borgarnesi 30. nóvember 1993 laust eftir kl. 12.34. Hafi hún átt erindi inn í starfstöð aðaláfrýjanda og verið á leið þaðan er atvikið varð. Á neðstu tröppunni hafi verið hálkublettur, sem hún hafi ekki getað varast, og runnið til á. Hún hafi þó náð að verjast falli, en við þetta hafi hún rekið hægri mjöðm í handrið, sem liggur meðfram tröppunum, auk þess sem mikill hnykkur kom á bak hennar.

Aðaláfrýjandi telur ósannað í málinu, að gagnáfrýjandi hafi hrasað í áðurnefndum tröppum. Einnig sé ósannað að hálka eða klaki hafi verið á tröppunum umræddan dag, en veðurskýrslur frá Hvanneyri sama dag og næstu á undan bendi eindregið til að svo geti ekki hafa verið, auk þess sem snjóbræðslukerfi í tröppunum hefði þá eytt hálku, hafi hún samt náð að myndast. Verði á hvorugt fallist eigi engu að síður að taka sýknukröfuna til greina, enda verði slysið þá ekki rakið til annars en óhappatilviljunar eða gáleysis gagnáfrýjanda, sem hafi mátt sjá klakann á leið sinni inn í húsið og því átt að varast hann hefði eðlilegrar varkárni verið gætt.

II.

Í málinu hafa verið lagðar fram kvittanir um greiðslu af skuldabréfum, sem bera greiðslustimpil aðaláfrýjanda með dagsetningunni 30. nóvember 1993. Kemur nafn gagnáfrýjanda fyrir á reit, þar sem greiðandi skuldanna er tilgreindur. Telur hún kvittanirnar sanna að hún hafi verið á ferð í afgreiðslu aðaláfrýjanda umræddan dag og hrasað á leið þaðan. Beri auk þess nokkur vitni að hún hafi sagt þeim frá því eftir atburðinn að hún hafi fallið í tröppunum á hálkubletti.

Engin vitni urðu að óhappi gagnáfrýjanda og hún gerði aðaláfrýjanda ekki viðvart um að það hafi orðið. Hún gaf fyrst skýrslu um atvikið hjá lögreglu 17. maí 1995, en aðaláfrýjandi var ekki látinn vita um það fyrr en með bréfi lögmanns gagnáfrýjanda 14. maí 1997. Voru þá liðin nær þrjú og hálft ár frá því að hún kvað það hafa borið að höndum. Staðhæfingar gagnáfrýjanda um hvar og hvernig óhappið varð hafa heldur ekki stoð í læknisvottorðum frá þeim tíma, er það á að hafa gerst. Í vottorði heilsugæslustöðvarinnar í Borgarnesi 10. júlí 1995 er þannig getið um færslu í heilsufarsskrá stofnunarinnar 1. desember 1993, þar sem segir að gagnáfrýjandi hafi þann dag verið frá vinnu vegna verkja í mjöðm, sem hún hlaut við að misstíga sig deginum áður. Færslur um heilsufar gagnáfrýjanda í sömu skrá í lok árs 1993 og byrjun árs 1994 veita engar frekari upplýsingar um tildrög óhapps hennar eða hvar það hafi orðið.

Þegar það er virt, sem að framan greinir, verður ekki talið sannað gegn eindregnum mótmælum aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi hafi slasast með þeim hætti, sem hún heldur fram. Þegar af þeirri ástæðu verður aðaláfrýjandi sýknaður af kröfum hennar í málinu.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda verður staðfest.

Athuga ber, að í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis 28. janúar 1998 um gjafsókn gagnáfrýjanda í héraði er tekið fram berum orðum að gjafsóknin sé takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Leiðir beint af 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 að kostnaður gagnáfrýjanda af meðferð málsins fyrir Hæstarétti verður ekki felldur á ríkissjóð.

Dómsorð:

 Aðaláfrýjandi, Sparisjóður Mýrasýslu, er sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, Þorgerðar Oddsdóttur.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda skal vera óraskað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 17. mars 1999.

Stefnandi þessa máls er Þorgerður Oddsdóttir, kt. 110142-2779, Brákarbraut 1 Borgarnesi, Borgarbyggð. Stefnt er Sparisjóði Mýrasýslu, kt. 610269-5409, Borgarbraut 14 Borgarnesi, Borgarbyggð, og Vátryggingafélagi Íslands hf. (VÍS), kt. 690689-2009, Ármúla 3 Reykjavík, til réttargæslu.

Málið var höfðað með birtingu stefnu 8. júlí 1998. Það var þingfest 15. september s.á. og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 25. febrúar sl.

 

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar: Hún krefst viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna líkamstjóns sem hún (stefnandi) varð fyrir eða kann að hafa orðið fyrir, þegar hún hrasaði á hálkubletti á suðurtröppum húss stefnda, Sparisjóðs Mýrasýslu, að Borgarbraut 14 Borgarnesi, þann 30. nóvember 1993.

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu, en hún krefst málskostnaðar úr hendi stefnda, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál, samkv. fram lögðum málskostnaðarreikningi, þ.m.t. kostnaðar stefnanda af 24,5% virðisaukaskatti. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við málskostnaðinn á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 15 dögum efir dómsuppsögu.

Dómkröfur stefnda, Sparisjóðs Mýrasýslu, eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi hennar að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu og málskostnaður felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., eru engar sjálfstæðar kröfur gerðar, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.

 

Málsatvikum er lýst svo í stefnu: Stefnandi hafi lent í slysi á leið sinni úr Sparisjóði Mýrasýslu 30. nóvember 1993. Hún hafi þá runnið til á svelli sem verið hafi á neðsta þrepi steinsteyptrar suðurtröppu sem liggur að húsi stefnda við Borgarbraut 14 Borgarnesi. Stefnandi hafi þá unnið hjá kjötvinnslu Kaupfélags Borgfirðinga [í Brákarey] í Borgarnesi, og hafi í hádegishléi skotist í Sparisjóðinn persónulegra erinda. Slysið hafi orðið skömmu eftir kl. 12:34 þann dag. Stefnanda hafi tekist að forða sér frá falli, en við það hafi hún fengið mikinn slink á bakið og hún hafi rekið hægri mjöðm utan í handrið hússins [Svo í stefnu. Handrið eru hvort sínum megin við tröppurnar. Innskot dómara]. Hún hafi strax fundið mikið til í bakinu, en haldið að þrautirnar myndu líða hjá. Hún hafi harkað af sér og haldið til vinnu eftir þetta atvik án þess að gera neinum strax viðvart um það sem gerst hefði.

Næsta dag hafi stefnandi ennþá haft miklar þrautir í baki. Þá um morguninn hafi hún haft samband við lækni á heilsugæslustöðinni í Borgarnesi og greint honum frá slysinu. Stefnandi hafi reynt að hefja vinnu að nýju dagana 6. og 7. desember 1993, en það hafi ekki gengið vegna bakverkja hennar. Við skoðun hjá lækni 7. desember hafi komið fram mikil eymsli við álag á hrygg með og án mótspyrnu, og hafi þá verið gefið út “vinnuveitandavottorð” frá 1. desember til 7. desember 1993. Stefnandi kveðst hafa reynt ítrekað að hefja vinnu á ný, en ávallt orðið frá að hverfa vegna verkja. Endanlega hafi hún gefist upp á því að vinna um miðjan janúar 1994, og síðan hafi hún ekkert getað unnið vegna “einkenna frá baki og hægri mjöðm”

Stefnandi kveðst hafa farið í örorkumat hjá Sigurjóni Sigurðssyni lækni. Hann hafi metið að hún hafi verið tímabundið frá vinnu 100% í 4 1/2 mánuð, og varanlega örorku stefnanda hafi hann metið 20%.

Þá segir í stefnu að með bréfi, dags. 14. maí 1997, hafi verið leitað upplýsinga hjá stefnda um aðstæður á slysstað. Stefndi hafi þá upplýst að snjóbræðslukerfi hafi verið í suðurtröppum húss hans, kerfi þetta hafi verið bilað, endurbætur og viðgerð hafi farið fram sumarið 1994, en þá hafi tröppurnar verið brotnar upp og nýjar lagnir settar í þær. Með bréfi [lögmanns stefnanda], dags. 2. júní 1998, hafi verið leitað nánari upplýsinga stefnda um snjóbræðslukerfið, og í svarbréfi, dags. 23. júní 1998, hafi komið fram að fyrst hafi orðið vart við bilun í kerfinu haustið 1993 og að Guðjón Guðlaugsson byggingameistari í Borgarnesi hafi annast viðgerð á kerfinu.

Í stefnu segir að stefndi, Sparisjóður Mýrasýslu, hafi verið með ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda, VÍS, þegar slysið varð. Með bréfi, dags, 7. ágúst 1997, hafi verið óskað eftir afstöðu réttargæslustefnda til bótaskyldu á tjóni stefnanda á grundvelli ábyrgðartryggingar húseiganda. Réttargæslustefndi hafi hafnað bótaskyldu með bréfi, dags. 9. september 1997.

 

Málsástæður stefnanda.

Það er málsástæða stefnanda að hún hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni þegar hún hrasaði á hálkubletti í vanbúnum suðurtröppum húss stefnda. . .,” segir í stefnu. Skjalfest sé að hún hafi verið í sambandi við lækni daginn eftir slysið vegna þeirra “einkenna” sem hún hlaut við að skrika fótur. Frásögn hennar um að að hún hafi runnið til í tröppunum verði ekki studd framburði sjónvitna. Hún hafi ekki snúið inn í Sparisjóðinn til að tilkynna um slysið og ekki hafi hún gefið lögregluskýrslu fyrr en síðar [17. maí 1995. Innskot dómara]. Auk læknis, sem hún hafði samband við daginn eftir slysið, hafi hún greint samstarfsfólki sínu frá því hvað komið hefði fyrir. Greiðsluseðlar stefnanda staðfesti að hún hafi verið stödd í Sparisjóði Mýrasýslu á hádegi slysdaginn. Það verði að telja sannað að stefnandi hafi hrasað á tröppum Sparisjóðsins þegar hún slasaðist á baki og mjöðm.

Stefnandi heldur því fram að suðurtröppur húss stefnda hafi verið vanbúnar og að hún hafi orðið fyrir tjóni vegna þess vanbúnaðar. Fyrir liggi staðfesting stefnda á því að snjóbræðslukerfi, sem var í suðurtröppunum, hafi ekki virkað sem skyldi veturinn 1993-1994. Bilunar í kerfinu hefði fyrst orðið vart um haustið. Í nóvembermánuði 1993 hafi nokkrum sinnum “mælst alhvít jörð í Borgarnesi” [Svo í stefnu. Veðurathuganir í Borgarnesi liggja ekki fyrir, en fram hefur verið lögð skýrsla um Verðurathuganir á Hvanneyri í október og nóvember 1993, ásamt skýringum Trausta Jónssonar veðurfræðings. Sjá síðar. Innskot dómara.]. Það hafi ekki getað farið fram hjá starfsmönnum stefnda að snjóbræðslukerfið virkaði ekki sem skyldi. Hálkublettur sá sem stefnandi rann til á hafi myndast vegna þess að snjóbræðslukerfið var bilað. Um þá bilun hafi starfsfólki stefnda verið kunnugt. Ekki hafi verið hafist handa um viðgerð fyrr en sumarið 1994. Tröppunum hafi ekki verið lokað og umferð viðskiptavina ekki beint um annan inngang inn í húsið, né heldur hafi verið gerðar aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir slys í tröppunum, svo sem með því að bera sand eða salt á þær. Gera verði ríkar kröfur til stefnda, eða starfsmanna hans í þessu efni, þar sem hann rekur starfsemi sem byggir á töluverðri umferð gangandi fólks um lóð hans og húsnæði. Stefnandi telur að á stefnda falli bótaábyrgð á tjóni hennar vegna vanbúnaðar á tröppunum og vegna handvammar starfsfólks stefnda að bregðast ekki við þeim vanbúnaði.

Þá segir í stefnu að lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum leggi þær skyldur á herðar “vinnuveitendum” að öryggi starfsmanna á vinnustað verði tryggt með margvíslegum hætti innan húss og utan. Ekki séu efni til að gera minni kröfur um aðgengi og öryggi viðskiptamanna sömu aðilja. Stefnandi telur að öryggi viðskiptamanna stefnda hafi ekki verið tryggt með þeim hætti sem nefnd lög gera ráð fyrir að tryggja skuli starfsmönnum stefnda. Stefnandi hafi þurft að fara um vinnuumhverfi starfsmanna stefnda til að geta átt venjubundin viðskipti við hann, þegar hún slasaðist.

 

Um lagarök segir í stefnu að krafist sé viðurkenningardóms á bótaskyldu stefnda með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Kröfur stefnanda séu reistar á ólögfestri meginreglu íslensks skaðabótaréttar um ábyrgð húseigenda á tjóni sem kann að hljótast vegna vanbúnaðar á húseignum þeirra. Einnig kveðst stefnandi byggja á ólögfestri meginreglu íslensks skaðabótaréttar um ábyrgð “vinnuveitanda” á skaðaverkum starfsmanna, húsbónda- eða vinnuveitandaábyrgðarreglunni svokölluðu.

Þá kveðst stefnandi byggja kröfur sínar einnig á lögum nr. 46/1980 um hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, “beint eða fyrir lögjöfnun um aðgang, aðbúnað og öryggi á vinnustöðum”.

Kröfur sínar um málskostnað styður stefnandi við lög nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.

Krafa stefnanda um virðisaukaskatt á málskostnað er reist á lögum nr. 50/1980, sbr. og reglugerð nr. 562/1989. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

 

Um málsástæður og lagarök stefnda, Sparisjóðs Mýrasýslu, segir í greinargerð hans, að aðalkrafan um sýknu sé annars vegar byggð á því að það sé ósannað að örorka stefnanda stafi af falli hennar í tröppunum við hús stefnda, og hins vegar á því að skilyrðum almennu skaðabótareglunnar sé ekki fullnægt, enda beri húseigendur ekki hlutlæga ábyrgð á umbúnaði fasteigna sinna.

Stefnda heldur því fram að algjörlega sé ósannað að örorku stefnanda megi rekja til þess að hún hafi runnið til á svelli á tröppum húss stefnda. Stefnandi beri alfarið sönnunarbyrði um orsök tjóns síns. Engir sjónarvottar hafi verið að því þegar stefnandi slasaðist. Hún hafi ekki tilkynnt starfsfólki stefnda um slysið. Hún hafi ekki gefið lögregluskýrslu fyrr en um einu og hálfu ári síðar.

Ef ekki verður á ofangreint fallist, byggir stefndi sýknukröfu sína í öðru lagi á því, að stefndi eigi enga sök á umstefndu slysi stefnanda. Það megi alfarið rekja til gáleysis hennar sjálfrar og óhappatilviljunar. Ósannað sé að hálka hafi verið á tröppum húss stefnda þann 30. nóvember 1993. Hafi svo verið, hafi stefnandi vitað eða mátt vita af því. Stefnandi hafi komið gangandi í Sparisjóðinn frá vinnustað sínum. Engin ástæða sé til að ætla að meiri hálka hafi verið á tröppum hússins en annars staðar á gangvegum í Borgarnesi. Stefnandi segist hafa verið á leið út úr húsinu þegar hún hafi hrasað. Hún hafi því gengið upp tröppurnar skömmu áður. Hún hafi því mátt ætla að aðstæður hefði ekki breyst frá því hún gekk inn í húsið. Slysið verði því alfarið rakið til gáleysis hennar sjálfrar og óhappatilviljunar.

Stefndi byggir á því að umbúnaður fasteignarinnar hafi verið venjulegur og í samræmi við lög og reglugerðir. Orsök slyssins verði ekki rakin til saknæmrar hegðunar starfsmanna stefnda. Ósannað sé að starfsmenn stefnda hafi vitað af bilun í snjóbræðslukerfinu þann 30. nóvember 1993 eða að kerfið hafi verið bilað þann dag. Ekki hafi verið leitt í ljós hvenær vetrarins 1993-1994 varð vart við bilun í kerfinu. Þá hvíli ekki að lögum skylda á fasteignaeigendum að sjá til þess að tröppur og nánasta umhverfi húsa séu ávallt hálkulaus, enda óframkvæmanlegt við íslenskar veðuraðstæður. Því síður hafi hvílt nokkur skylda á stefnda að hafa snjóbræðslukerfi á tröppum hússins.

Stefndi telur að orsök slyssins verði ekki rakin til vanbúnaðar á fasteign stefnda. Ósannað sé að bilun í snjóbræðslukerfi hafi valdið hálku á tröppum hússins þann 30. nóvember 1993, eða að slysið megi rekja til annars vanbúnaðar á fasteigninni. Þá verið ekki talið ámælisvert að lagfæring fór ekki fram á tröppum hússins fyrr en sumarið 1994. Íslenskt veðurfar hamli því að slíkar viðgerðir fari fram yfir vetrartímann.

Stefndi mótmælir því að ekki hafi verið gætt fyllsta öryggis og aðbúnaðar starfsmanna og annarra, sem leið hafi átt um húsnæði stefnda. Þær kröfur sem lög nr. 46/1980 gera, hafi verið uppfylltar að fullu.

Stefndi kveðst einnig byggja á þeirri meginreglu íslensks skaðabótaréttar að eigendur fasteigna beri ekki hlutlæga skaðabótaábyrgð á húseign sinni, þannig að þeir séu bótaskyldir, verði einhver fyrir slysi í eða við húseign þeirra.

 

Varakrafa stefnda um skiptingu sakar er á því reist að skipta beri sök og leggja meginsök á slysinu á stefnanda sjálfa vegna framangreinds gáleysis hennar. Stefnanda hafi verið eða hafi mátt vera kunnugt um aðstæður á tröppunum, enda hefði hún gengið frá vinnustað sínum að Sparisjónum og gengið upp tröppurnar þegar hún gekk inn í húsið. Með öllu sé ósannað að hálka á tröppum hafi verið meiri en annars staðar í bænum þennan dag. Þá liggi ekki neitt fyrir um fótabúnað stefnanda.

 

Stefnandi gaf skýrslu fyrir lögreglu 17. maí 1995. í þeirri skýrslu kemur fram að hún var tekin fyrir beiðni Jónínu Bjartmarz héraðsdómslögmanns. Í skýrslunni er m.a. þetta haft eftir stefnanda:

Hún hafi verið starfandi hjá Kaupfélagi Borgfirðinga, kjötvinnslunni í Brákarey, þegar slysið varð þann 30. nóvember 1993. Hún hafi haft hálftíma í hádegismat, og í því hléi hafi hún farið erinda sinna í Sparisjóð Mýrasýslu. “Er ég var að koma út úr húsi sparisjóðsins við Borgarbraut og fór niður tröppurnar að sunnan verðu, renn ég í neðstu tröppunni, vegna klaka sem þar var. Ég barðist við að halda jafnvægi og tókst að koma í veg fyrir að ég dytti en ég fékk mikinn slink á bakið . . .” Stefnandi sagði að hún hefði þá kennt mikið til í bakinu. Þrátt fyrir mikil bakeymsli hefði hún farið gangandi í vinnuna út í Brákarey og klárað þennan vinnudag. Morguninn eftir hefði hún ekki komist niður stigann heima hjá sér fyrir þrautum. Hún hefði þá haft samband við Ingþór Friðriksson lækni sem hefði ráðlagt henni að fara ekki til vinnu næstu daga.”Um viku eftir að slysið varð fór ég aftur til vinnu minnar og var mér þá ekið til og frá vinnu. Ég hélt áfram í vinnunni þar til seinnipartinn [í] febrúar 1994 en þá gafst ég endanlega upp vegna bakverkja.”

 

Skýrslur fyrir dómi.

Fyrir dómi bar stefnandi mjög á sama veg um atvik og fyrir lögreglu, en mun ítarlegar. Hún staðfesti skýrslu sína fyrir lögreglu. Hún sagði að á þessari ferð sinni í Sparisjóðinn hefði verið hálka yfir öllu, hált hefði verið á götum og gangstéttum. Þessi hálka hefði komið til af snjó sem hefði frosið, þiðnað og frosið aftur. Um hefði verið að ræða klamma, ekki ísingu. Hálka hefði verið í öllum tröppunum. Í neðstu tröppunni, sem hún hrasaði í, hefði verið hálka við tröppubrún. Hún kvaðst hafa hrasað í neðstu tröppunni þegar hún var að koma út úr Sparisjóðnum. Hún hefði gripið í handriðið við tröppurnar til að taka af sér mesta fallið, en þá hefði hún rekist harkalega utan í handriðið með mjöðmina. Hún kvaðst hafa kennt geysilega til við að skella utan í handriðið. Hún hefði staðið þarna um stund og hugleitt að þetta mundi jafna sig. Síðan hefði hún gengið beinustu leið niður í Brákarey. Henni hefði liðið afskaplega illa þennan dag.

Stefnandi var spurð um fótabúnað slysdaginn. Hún sagðist hafa verið í loðfóðruðum kuldastígvélum, sem náð hefðu upp á miðjan legg. Þau hefðu verið með grófmynstruðum, stömum sólum.

Aðspurð sagði stefnandi að það hefði ekki hvarflað að sér að fara aftur inn í Sparisjóðinn eða láta nokkurn mann vita af slysinu. Hún hefði haldið að þetta mundi lagast. Þegar hún hefði haft samband við lækni daginn eftir hefði hún þó sagt honum frá atvikum. Hún nefndi líka að hún hefði sagt verkstjóranum sínum frá slysinu og tengdadóttur sinni [Hér mun stefnandi hafa átt við Jóhönnu Bergmann Þorvaldsdóttur, sem bar vitni í málinu, sbr. hér á eftir. Innskot dómara].

Stefnandi sagði að tröppurnar hefðu ekki verið stráðar sandi eða öðrum efnum til að draga úr hálku.

Stefnandi var spurð um tilefni þess að hún gaf skýrslu fyrir lögreglu. Hún svaraði að lögfræðingur hjá sýslumannsembættinu hefði bent sér á að gera þetta til öryggis, vegna þess að hún ætti rétt á bótum samkvæmt skyldutryggingu sem Kaupfélagið hefði tryggt starfsmenn sína. Hún kvaðst hafa fengið þessar bætur.

 

Þórir Sigfús Sumarliðason, sparisjóðsstjóri stefnda frá hausti 1990, gaf aðiljaskýrslu fyrir dómi. Hann var spurður hvenær stefnandi hefði fyrst leitað til stefnda vegna slyssins. Aðilinn sagði að það hefði verið með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 14. maí 1997. Hann kvaðst aðspurður ekki vita til þess að neinn hefði dottið í tröppum húss Sparisjóðsins, hvorki fyrir né eftir umrætt slys. Hann bar að hitalögn hefði verið sett í tröppurnar 1981 eða 1982, þegar byggt hefði verið við húsið. Við venjulegar aðstæður hefði hitalögnin náð að bræða snjó af tröppunum, en í mikilli snjókomu hefði kerfið ekki haft undan, en þá hefðu tröppurnar verið mokaðar. Yfirleitt hefði verið fylgst með því hvort hálka myndaðist í tröppunum. Starfsmenn stefnda færu þó alla jafna ekki um þessar tröppur. Stefndi hefði keypt hálkueyði, einn poka, í Reykjavík árið 1989 eða 1990 og notað hann. Hann hefði verið notaður á tröppurnar til öryggis. Aðilinn sagði að seint á árinu 1993, eða um haustið, hefði uppgötvast bilun í snjóbræðslukerfinu í tröppunum. Hún hefði komið fram í leka í kjallara hússins. Til að gera við bilunina hefðu tröppurnar verið brotnar upp. Þeir sem um þetta vissu segðu sér að bilun þessi hefði ekki haft áhrif á heitavatnsrennsli í tröppunum. Vitnaði aðilinn í þessu sambandi til Guðjóns Guðlaugssonar byggingameistara, en hann hefði séð um endurbætur á tröppunum.

 

Vitnið Hildur Hallkelsdóttir bar að hún og stefnandi hefðu átt heima í sama húsi, Brákarbraut 1, þegar slysið varð og þangað til í maí 1998, að vitnið fluttist úr húsinu. Hún kvaðst hafa búið á hæðinni fyrir neðan stefnanda.

Vitnið Hildur bar að stefnandi hefði sagt sér frá því að hún hefði dottið á Sparisjóðströppunum. Hún kvaðst ekki muna nákvæmlega hvaða dag þetta var, en hún sagðist muna að stefnandi hefði dottið og að vitnið hefðu þurft að sendast fyrir hana nokkra daga á eftir. Vitnið kvaðst hafa farið í búð að versla fyrir stefnanda. Nánar spurð um það hvenær stefnandi hefði beðið hana að versla fyrir sig, sagði vitnið Hildur, að það hefði verið daginn eftir slysið eða um kvöldið.

 

Vitnið Guðjón Guðlaugsson upplýsti að hann væri tengdasonur sparisjóðsstjórans, Þóris Sigfúsar. Hann kvaðst nú vera húsvörður í byggingu stefnda, en hefði ekki verið það þegar atvik máls gerðust. Hann sagðist hafa brotið upp tröppurnar, þegar hitalögnin í þeim var lagfærð, og steypt þær aftur. Pípulagningamaður hefði lagt hitalögnina. Bilun í hitalögninni hefði uppgötvast haustið 1993. Gert hefði verið við hana í febrúar 1994. Bilunin hefði komið fram í því að farið hefði að leka í kjallara hússins, en hún hefði engin áhrif haft á virkni snjóbræðslukerfisins. Til að gera við hitalögnina hefði þurft að brjóta upp tröppurnar því lekinn hefði verið í heitavatnsleiðslunum í tröppunum. Þetta væri lokað kerfi og lekinn hefði engu breytt um virkni þess. Fyrir lagfæringu hefðu leiðslurnar legið á um 10 sm dýpi í baki trappanna, en eftir lagfæringu lægju þær á 5-6 sm dýpi í í tröppunum sjálfum. Kerfið ætti að vera betra nú en áður, ef eitthvað væri.

Vitnið Guðjón sagði að snjóbræðslukerfið hefði alltaf náð að bræða sjó af tröppunum nema í einstaka tilvikum, þegar mikil ofankoma hefði verið og vindur með og dregið hefði í skafla, þá hefði kerfið ekki hreinsað tröppurnar fullkomlega. Í hitalögnina væri notað affallsvatn af ofnum hússins ásamt sjálfvirkri innspýtingu, sem skerpti á kerfinu þegar hitastig vatnsins færi niður fyrir visst mark. Hann lýsti gerð trappanna þannig að í þeim væri grásteinn ofan á steypu.

Vitnið kvaðst hafa fylgst með tröppunum í sjálfboðavinnu áður en hann varð húsvörður, en ekki haft reglulegt eftirlit með þeim.

 

Vitnið Ingigerður Jónsdóttir kvaðst hafa verið starfsmaður Kaupfélags Borgfirðinga og verkstjóri stefnanda, þegar slysið varð. Hún kvaðst ekki muna dagsetningar, en hún myndi eftir að stefnandi hefði orðið fyrir óhappi “uppi í bæ” og sagt sér frá því. Stefnandi hefði sagt sér frá því að hún hefði hrasað eða dottið fyrir utan Sparisjóð Mýrasýslu. Sig minnti að hún hefði farið í matarhléi “upp í bæ”. Stefnandi hefði þó mætt til vinnu, a.m.k. þennan dag, en svo hefði hún verið frá vinnu marga mánuði á eftir.

 

Vitnið Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir sagðist hafa búið með syni stefnanda í tvö ár fyrir nær tveimur áratugum, og ættu þau barn saman. Vitnið sagði að hún og stefnandi töluðu oft saman. Stefnandi hefði talað við sig daginn eftir slysið. Hún hefði þá sagt sér að hún hefði dottið á hálku framarlega í tröppunum. Vitninu hefði skilist að stefnandi hefði skollið utan í vegg eða steyptan kant og fengið á sig slink og hefði liðið mjög illa. Hún hefði sagst hafa runnið til á bletti fremst í tröppunni.

Vitnið kvaðst hafa haft áhyggjur af stefnanda. Hún hefði heimsótt hana skömmu síðar og fylgst með veikindasögu hennar. Við þetta slys hefðu orðið umskipti í lífi stefnanda. Hún hefði áður verið mjög létt á sér og hlaupið um götur. Það þekktu Borgnesingar. Áður hefði hún stundum verið þreytt í baki, en ekki svo að það hæði henni.

 

Forsendur og niðurstöður.

Verulegur dráttur varð á því að stefnandi sækti þann rétt sinn sem hún í þessu máli telur sig eiga á hendur stefnda. Sá dráttur veldur henni þó ekki réttarspjöllum, enda ekki á því byggt af hálfu stefnda.

 

Að slysi stefnanda voru ekki sjónarvottar, en frásögn stefnanda af atvikum hefur verið einörð og sannfærandi, og hún hlýtur stuðning vættis þeirra sem hún sagði frá atburðinum og læknisvottorðs.

Daginn eftir slysið hafði stefnandi símsamband við lækni á heilsugæslustöðinni í Borgarnesi, Ingþór Friðriksson. Í fram lögðu áverkavottorði, sem Örn E. Ingason læknir á Heilsugæslustöðinni ritar 10. júlí 1995 að beiðni þáverandi lögmanns stefnanda segir orðrétt: “Þ. 30.11.93 skrikaði sjúklingi [þ.e. stefnanda. Innskot dómara] fótur í hálku á leið niður tröppur við inngang að Sparisjóði Mýrasýslu. Þetta mun hafa gerst í hádegishléi frá vinnu og fékk hún við þetta slink eða hnykk á bak. Síðan haft verk í baki niður hæ. ganglim.”

Vitnið Hildur Hallkelsdóttir bar að stefnandi hefði sagt sér frá því að hún hefði dottið á Sparisjóðströppunum. Svo er að skilja að þetta hafi verið mjög fljótlega eftir slysið, því að vitnið bar að stefnandi hefði vegna áverka síns beðið vitnið sama dag eða um kvöldið að fara í búð fyrir sig til að versla.

Vitnið Ingigerður Jónsdóttir, verkstjóri stefnanda, bar að stefnandi hefði sagt sér frá því að hún hefði hrasað eða dottið fyrir utan Sparisjóð Mýrasýslu. Að því er vitnið minnti varð þetta í ferð stefnanda í matarhléi upp í bæ.

Vitnið Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir bar að stefnandi hefði talað við sig daginn eftir slysið. Hún hefði þá sagt sér að hún hefði dottið á hálku framarlega í tröppunum. Vitnið sagði að sér hefði skilist að stefnandi hefði skollið utan í vegg eða steyptan kant og fengið á sig slink. Hún hefði sagst hafa runnið til á bletti fremst í tröppunni.

Þegar virt eru þau gögn sem hér hafa verið rakin og skýrsla stefnanda fyrir lögreglu 17. maí 1995, sem ber saman við skýran og einarðan framburð stefnanda fyrir dómi, telur dómari að sannað sé að stefnandi hafi slasast með þeim hætti sem hún hefur lýst fyrir dómi: Hún hafi hrasað í neðsta þrepi á suðurtröppum húss stefnda, fengið slink á bakið og rekið hægri mjöðm utan í handrið sem er í tröppunum.

 

Stefnandi bar í skýrslu sinni fyrir lögreglu að hún hefði runnið til í neðstu tröppunni vegna klaka sem þar var. Fyrir dómi sagði hún að í neðstu tröppunni, sem hún hrasaði í, hefði verið hálka við tröppubrún. Hún bar og að hálka hefði verið yfir öllu, á götum og á gangstéttum. Hálkan hefði komið til af snjó sem hefði frosið, þiðnað og frosið aftur.

Hitalögn, snjóbræðslukerfi var í tröppunum. Upplýst er af stefnanda að kerfið bilaði haustið 1993, en ekki er nákvæmlega frá því greint hvenær það var. Jafnframt bar vitnið Guðjón Guðlaugsson byggingameistari, sem sá um viðgerð á tröppunum þegar gert var við hitalögnina, og bilunin hefði ekki valdið því að snjóbræðslukerfið virkaði ekki. Þeim framburði hefur ekki verið hnekkt. Þórir Sigfús Sumarliðason sparisjóðsstjóri bar að við venjulegar aðstæður hefði snjóbræðslukerfið náð að bræða snjó að tröppunum, en í mikilli snjókomu hefði það þó ekki haft undan, en þá hefðu tröppurnar verið mokaðar. Vitnið Guðjón Guðlaugsson bar á líkan veg, að kerfið hefði náð að bræða snjó af tröppunum nema í einstaka tilvikum þegar mikil ofankoma hefði verið og vindur með og dregið í skafla.

Af hálfu stefnanda hefur verið lagt fram yfirlit Veðurstofu Íslands yfir veðurfar í nóvember 1993 samkv. mælingum á þeirri veðurathugunarstöð, sem næst er Borgarnesi, þ.e. Hvanneyri. Yfirliti þessu fylgja skýringar og stutt samantekt Trausta Jónssonar veðurfræðings. Þar segir hann m.a.: “Í nóvember var snjór á jörðu í nokkra daga og var örugglega hálka samfara þeim snjó.” Samkvæmt veðurfarsyfirlitinu var úrkoma mikil í nóvember: 13 daga er skráð rigning, 11 daga slydda og 4 daga snjókoma. Hinn 25. nóvember er skráð snjókoma, 9,7 mm. Hiti var mældur tvisvar á dag, kl. 9 að morgni og 9 að kveldi. Þennan dag var lágmarkshiti -0,1° C, en hámarkshiti 7,2 °. Jörð er skráð alhvít. Hinn 26. nóvember er skráð slydda, 1,2 mm, lágmarkshiti -1,8° en hámarkshiti 8,0°. Næstu tvo daga er mikil rigning skráð, 26,7 mm 27. nóv. og 25,5 mm 28. nóv., og kemst hitinn hæst 28. nóv. upp í 10,0°, en virðist þann dag fara ört lækkandi, og er lágmarkshitinn þann dag skráður 0,4°, og má lesa úr skýrslunni að þar sé um kvöldhita að ræða. Næsta dag, daginn fyrir slysið á Sparisjóðströppunum var úrkoma enn meiri, 50,2 mm og nú skráð sem slydda, og jörð er skráð alhvít á Hvanneyri. Þennan dag, þ.e. 29. nóv. var lágmarkshiti, sem mældur hefur verið að morgni, 0,3°, en gera má ráð fyrir að þá hafi verið frost við jörð; meðalvindur þennan dag var 4,7 hnútar en mesti vindur 9 hnútar. Hinn 29. nóv. fer veður hlýnandi, hámarkshiti dagsins mælist 9,0°. Hinn 30. nóvember 1993 mælist 8,1 mm rigning á Hvanneyri, hámarkshiti 7,6 °, en lágmarkshiti 1,2°, sem lesa má úr skýrslunni að hafi verið kvöldhiti. Jörð er skráð alauð á Hvanneyri.

Af veðurfarsskýrslu þessari einni saman verður ekki ráðið hvort hált var á götum og gangstéttum í Borgarnesi 30. nóvember 1993, en að mati dómara útilokar hún heldur ekki að stefnandi fari með rétt mál um þetta. Úrkoman 29. nóvember féll sem slydda á Hvanneyri og varð jörð alhvít. Alkunna er að snjó sem treðst á akbraut eða gangstétt leysir mun hægar en snjó á víðavangi. Er því ekki ólíklegt að klammi hafi verið af þessum sökum á götum og gangstéttum í Borgarnesi 30. nóvember. Upplýst er af hálfu stefnda og húsvarðar stefnda að í mikilli snjókomu hafi snjóbræðslukerfi undir tröppunum ekki haft undan. Úrkoma var mjög mikil 29. nóvember, var skráð sem slydda og hefur því að líkindum fallið sem snjór að hluta.

Þegar framanskráð er virt í heild, þær upplýsingar sem fyrir liggja um veður, framburður stefnanda um hálkuna og læknisvottorð og vætti um frásagnir hennar strax eftir slysið af hálku í tröppum húss stefnda, þykir dómara sannað að rétt sé lýsing stefnanda á hálku, þ.á m. í suðurtröppum húss stefnda, 30. nóvember 1993.

 

Tröppurnar sem stefnanda skrikaði fótur í eru hluti af húsi stefnanda. Um þær liggur annar aðalinngangur í húsið, og fjöldi viðskiptamanna stefnda á þar leið um. Dómari lítur svo á að á stefnda hvíli sú ábyrgð að sjá til þess að ekki sé sérstök hætta á að menn hrasi eða falli í tröppum þessum. Upplýsingar sem fyrir liggja af hálfu stefnda annars vegar um snjóbræðslukerfi í tröppunum og hins vegar um mokstur og notkun hálkueyðis, þegar kerfið hafði ekki undan, benda til þess að stefnda hafi verið ljós þessi ábyrgð. Af þessu leiðir að stefndi, Sparisjóður Mýrasýslu, ber bótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir eða kann að hafa orðið fyrir er hún hrasaði í tröppunum 30. nóvember 1993.

Stefnandi hefur borið að hálka hafi verið alls staðar, á götum og gangstéttum og í margumræddum tröppum þennan tiltekna dag. Hún hafði farið um tröppurnar inn í Sparisjóðshúsið, og vissi því vel að hált var í tröppunum. Dómara þykir af þessum ástæðum óhjákvæmilegt að líta svo á að slys stefnanda hafi að hluta til orðið vegna þess að hún hafi ekki farið nógu gætilega miðað við þær varasömu aðstæður sem hún vissi vel af. Því þykir dómara rétt að fallast að nokkru á varakröfu stefnanda um að sök verði skipt, og er það mat dómara að hæfilegt sé að skipta henni til helminga.

 

Í máli þessu krefst stefnandi viðurkenningar á bótaskyldu vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir eða kann að hafa orðið fyrir þegar hún hrasaði á tröppum húss stefnanda. Kröfugerðin gefur ekki tilefni til að fjalla um tjón stefnanda.

 

Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu. Útlagður kostnaður hennar skv. fram lögðum reikningum er kr. 10.500. Þóknun lögmanns hennar, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hdl., telur dómari vera hæfilega ákveðinn kr. 250.000, auk virðisaukaskatts kr. 61.250, eða samtals kr. 310.250. Þannig verður kostnaður stefnanda af máli þessu samtals kr. 321.750, og greiðist hann úr ríkissjóði.

Eftir atvikum máls og niðurstöðum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 þykir dómara rétt að dæma stefnda, Sparisjóð Mýrasýslu til að greiða hluta málskostnaðar stefnanda í ríkissjóð, eða kr.130.000.

 

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Sparisjóður Mýrasýslu, er bótaskyldur fyrir helmingi þess líkamstjóns, sem stefnandi, Þorgerður Oddsdóttir, varð fyrir eða kann að hafa orðið fyrir, þegar hún hrasaði á hálkubletti á suðurtröppum húss stefnda, Borgarbraut 14 Borgarnesi, 30. nóvember 1993.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 321.750, greiðist úr ríkissjóði.

Stefndi greiði kr. 130.000 í málskostnað í ríkissjóð.