Hæstiréttur íslands

Mál nr. 344/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómsátt
  • Málskostnaður


Föstudaginn 5

 

Föstudaginn 5. september 2008.

Nr. 344/2008.

Oddný Ólafía Sævarsdóttir

(Oddgeir Einarsson hdl.)

gegn

Karli Lúðvíkssyni

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Kærumál. Dómsátt. Málskostnaður.

O höfðaði mál fyrir héraðsdómi og krafðist þess að K yrði dæmdur til að greiða sér tilgreinda skuld auk vaxta. Aðilarnir gerðu dómsátt í máli sínu fyrir héraðsdómi. Dómsáttin tók ekki til málskostnaðar. Var sá þáttur málsins lagður í úrskurð héraðsdóms sem felldi málskostnað niður. O kærði úrskurðinn og krafðist þess að K yrði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Með hliðsjón af aðstæðum í málinu, og með vísan til 1. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991, var K gert að greiða hluta málskostnaðar í héraði og kærumálskostnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru, sem barst Hæstarétti frá Héraðsdómi Reykjaness ásamt kærumálsgögnum 24. júní 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2008, þar sem leyst var úr ágreiningi aðila um málskostnað í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Aðilar höfðu gert sátt um stefnukröfuna á dómþingi 5. júní 2008. Dómsáttin tók ekki til málskostnaðar og lögðu aðilar þann þátt málsins í úrskurð dómsins. Í hinum kærða úrskurði komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að fella skyldi þennan kostnað niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að greiða sér 693.303 krónur í málskostnað í héraði, en til vara lægri fjárhæð að mati réttarins. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að krafa sóknaraðila verði lækkuð. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Í bréfi lögmanns sóknaraðila til lögmanns varnaraðila 2. apríl 2007 var meðal annars gerð krafa um greiðslu á hinni umstefndu skuld. Í svarbréfi lögmanns varnaraðila 19. maí 2007 var ekki sérstaklega tekin afstaða til kröfunnar en gerð tillaga um ákveðinn hátt á fjárhagslegu uppgjöri milli aðila. Í lok bréfsins var tekið fram að tilboð varnaraðila fæli ekki í sér „á neinn hátt viðurkenningu á kröfum umbj. yðar.“ Við þessar aðstæður hafði sóknaraðili fengið fullt tilefni til að höfða mál til heimtu kröfu sinnar svo sem hún gerði með stefnu 11. desember 2007, enda hafði varnaraðili ekki boðið fram greiðslu á skuld sinni. Í dómsátt aðila er krafa sóknaraðila að fullu tekin til greina að öðru leyti en því að sóknaraðili fellur að hluta frá kröfu um vexti og dráttarvexti.

Með hliðsjón af því sem hér var rakið og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila vegna málskostnaðar þá fjárhæð sem í dómsorði greinir, sem þykir hæfileg miðað við atvik málsins.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað, svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðili, Karl Lúðvíksson, greiði sóknaraðila, Oddnýju Ólafíu Sævarsdóttur, 300.000 krónur í málskostnað í máli sóknaraðila gegn varnaraðila.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2008.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 5. júní sl., var þingfest 19. desember 2007.

Dómkröfur stefnanda voru þær aðallega að stefnda yrði gert að greiða henni skulda að fjárhæð 1.814.413 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 4. nóvember 2004 til greiðsludags. Til vara krafðist stefnandi þess að stefnda yrði gert að greiða henni skuld að fjárhæð 1.814.413 krónur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. nóvember 2004 til 1. janúar 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda auk virðisaukaskatts á málskostnað. 

Stefndi krafðist lækkunar á kröfu stefnanda og krafðist þess jafnframt að stefnandi yrði dæmd til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

Á dómþingi 5. júní sl. gerðu aðilar sátt í málinu að hluta þess efnis að stefndi greiddi stefnanda 1.814.413 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 2. maí 2007 til greiðsludags. Samkvæmt sáttinni ber stefnda að greiða skuldina þannig að hann greiði 768.606 krónur þann 9. júní 2008, sömu fjárhæð þann 1. júní sama ár ásamt dráttarvöxtum af 1.537.211 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 5. júní 2008 til 1. júlí 2008 og sömu fjárhæð þann 1. ágúst sama ár ásamt dráttarvöxtum af 768.606 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. júlí sama ár til 1. ágúst sama ár.

Ágreiningur aðila um málskostnað var lagður í úrskurð dómsins í þinghaldinu og voru sjónarmið aðila um málskostnað reifuð og málið tekið til úrskurðar að því er málskostnað varðar.

Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal hver sá sem tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. laganna. Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu.

Málsaðilar hafa gert dómsátt um ágreining sinn. Niðurstaða sáttarinnar er sú að stefndi greiðir stefnanda höfuðstól stefnukröfunnar. Í greinargerð stefnda kemur fram að hann hafi aldrei hafnað umræddri skuld en byggi kröfu sína um lækkun stefnukröfunnar á því að hvorki hafi verið samið um afmörkun á gjalddaga né greiðslu vaxta af kröfunni. Í kröfugerð stefnanda er þess aðallega krafist að stefnufjárhæðin beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 4. nóvember 2004 til greiðsludags en til vara er þess krafist að stefnufjárhæðin beri almenna vexti samkvæmt 4. gr. vaxtalaga frá 4. nóvember 2004 til 1. janúar 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Eins og áður er komið fram er gert ráð fyrir því í sáttinni að dráttarvextir greiðist af hluta stefnufjárhæðarinnar frá 5. júní sl. til 1. júlí nk. og síðan af sömu fjárhæð frá 1. júlí nk. til 1. ágúst nk. Þegar framanritað og öll atvik málsins eru virt, er það niðurstaða dómsins að beita beri undantekningarákvæði 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 við úrlausn á ágreiningi aðila um málskostnað. Samkvæmt því ber hvor aðili sinn kostnað af málinu.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Málskostnaður fellur niður.