Hæstiréttur íslands
Mál nr. 93/2013
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Líkamsárás
- Ölvunarakstur
- Ökuréttarsvipting
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 23. maí 2013. |
|
Nr. 93/2013.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Jóhannes Ásgeirsson hrl.) (Björgvin Jónsson hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Líkamsárás. Ölvunarakstur. Ökuréttarsvipting. Skaðabætur.
X var sakfelldur fyrir nauðgun með því að hafa að heimili sínu haft önnur kynferðismök en samræði við A með því að beita hann ofbeldi og hótunum. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var X einnig sakfelldur fyrir umferðarlagabrot og líkamsárás með því að hafa ekið bifreið sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis til B þar sem hann kýldi C einu höggi með krepptum hnefa í andlit, með þeim afleiðingum að hann hlaut sprungu á efri vör. Var háttsemin talin varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til þess að brot X gegn A hefði verið hrottalegt og hefði hann beitt þar í senn ofbeldi og alvarlegum hótunum. Var refsing X ákveðin fangelsi í 3 ár og 6 mánuði og honum var gert að greiða A 800.000 krónur í miskabætur. Þá var hann að auki sviptur ökurétti ævilangt
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. janúar 2013 af hálfu ákæruvaldsins og krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða.
Við ákvörðun refsingar ákærða verður að gæta að því að brot hans samkvæmt ákæru 10. júlí 2012 var hrottalegt og beitti hann þar í senn ofbeldi og alvarlegum hótunum, en brotaþoli hlaut talsverða áverka af hans völdum. Að þessu virtu en jafnframt því, sem greinir í hinum áfrýjaða dómi, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.
Að því er varðar einkaréttarkröfu brotaþola verður að líta til þess að í málinu hafa ekki verið lögð fram sérfræðileg gögn um afleiðingar af broti ákærða. Verður því að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um kröfu brotaþola.
Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.
Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 739.409 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2012.
I
Málið, sem dómtekið var 27. nóvember síðastliðinn, var höfðað með tveimur ákærum ríkissaksóknara á hendur ákærða, X, kennitala [...]. Fyrri ákæran var gefin út 10. júlí 2012, og sú síðari 24. október 2012.
Í fyrri ákærunni er ákærða gefin að sök „nauðgun með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 29. maí 2011, að ofangreindu heimili ákærða, haft önnur kynferðismök en samræði við A með því að beita hann ofbeldi og hótunum: Í rúmi ákærða tók hann A nokkrum sinnum kverkataki og hótaði honum lífláti. Inni á salerni sló hann höfði A utan í vegg, hótaði honum ítrekað lífláti og að hann myndi beita hnífum, sem lágu í salernisvaski, á A, og neyddi hann til munnmaka, en á meðan munnmökum stóð tók hann harkalega um höfuð A. Í rúmi ákærða, í kjölfar munnmakanna, hótaði hann A frekara ofbeldi, meðal annars að nauðga honum og smita hann af AIDS, tók buxur hans niður og setti því næst lim sinn að rassi hans. Þá þrýsti ákærði framhandlegg sínum allt að fimm sinnum framan á háls A, þar sem hann lá í rúminu, og hótaði honum lífláti.
Við atlöguna hlaut A roða beggja vegna framan á hálsi á svæði réttivöðva og talsverð eymsli á því svæði og framan á hálsi, mikinn roða í koki og rifur beggja vegna á gómboga, auk einkenna heilahristings.
Telst háttsemin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 1.200.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 29. maí 2011, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“
Í síðari ákærunni eru ákærða gefin að sök „eftirtalin hegningar- og umferðarlagabrot, þriðjudagskvöldið 10. maí 2011:
I.
„Umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni [...] frá Reykjavík og að [...] í B, sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði um og yfir 3,0).
II.
Húsbrot og líkamsárás, með því að hafa, í kjölfar þess sem greinir í I. ákærulið, ruðst heimildarlaust inn á heimili föður síns, C, kt. [...], að [...] í B, og kýlt hann einu höggi með krepptum hnefa í andlitið, með þeim afleiðingum að C hlaut sprungu á efri vör, vinstra megin.
Telst háttsemin í I. ákærulið varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og í II. ákærulið við 231. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.“
Við upphaf málflutnings féll ákæruvaldið frá ákæru fyrir húsbrot.
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi.
II
Málavextir varðandi fyrri ákæruna eru þeir að brotaþoli kom á lögreglustöð miðvikudaginn 8. júní 2011 og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna þess sem greinir í fyrri ákærunni. Í skýrslu, sem tekin var af honum, skýrði hann frá því sem ákærða er gefið að sök í ákærunni. Ákærði var yfirheyrður og neitaði að mestu leyti að tjá sig um sakarefnið.
Brotaþoli fór á slysadeild síðdegis 31. maí. Í vottorði læknis segir að hann hafi lýst því að hann hafi farið heim með manni sem hafi reiðst og ráðist á hann. Maðurinn hefði skellt höfði hans í vegg, hótað honum lífláti og neytt hann til munnmaka. Eftir brotaþola er haft að hann sé mjög aumur í koki og með höfuðverk og ógleði. Um áverka á brotaþola segir í vottorðinu að það sé roði utan á hálsi á svæði réttivöðva beggja vegna og talsverð eymsli þar og framan á hálsi. Í koki sé mikill roði og rifur séu beggja vegna á gómboga og byrjandi gróandi á svæðinu. Þá segir að grunur leiki á að brotaþoli hafi fengið heilahristing þar sem hann sé enn með höfuðverk.
Brotaþoli leitaði til Stígamóta 6. júní 2011 og aftur 11. september síðastliðinn. Í vottorði segir að í viðtali síðari daginn hafi hann skýrt frá kynferðisofbeldi og líðan sinni eftir það. „Frásögn hans benti til þess að hann upplifir margar vel þekktar afleiðingar kynferðisofbeldis sem hafa hamlandi áhrif á hann í daglegu lífi. Má sem dæmi nefna skömm, sektarkennd, kvíða, depurð og ótta.“
Málavextir varðandi síðari ákæruna eru þeir að lögreglunni barst tilkynning klukkan 22:37 þriðjudaginn 10. maí 2011 um að ákærði væri á leið til B að skjóta föður sinn. Lögreglan hafði mikinn viðbúnað og meðal annars voru lögreglumenn á verði á [...]vegi og sáu þeir bifreið þá, sem í ákæru greinir, aka eftir veginum. Lögreglumenn fóru á framangreint heimili föður ákærða og var bifreiðin þar fyrir utan. Skömmu síðar kom faðirinn út og sagði lögreglumönnum að ákærði væri einn inni. Ákærði kom einnig út og lagði á flótta en var eltur uppi og handtekinn. Samkvæmt lögregluskýrslu var hann greinilega undir áhrifum áfengis og var hann færður til töku á blóðsýni, en síðan vistaður í fangaklefa. Samkvæmt gögnum málsins var honum tekið blóð klukkan 01:35 og aftur klukkan 02:41.
Faðir ákærða var blóðugur um munninn og sagði hann lögreglumönnum að ákærði hefði slegið sig. Hann leitaði til læknis 12. maí og í vottorði læknis segir að hann hafi verið með sprungna efri vör vinstra megin.
Blóð- og þvagsýni úr ákærða voru rannsökuð og sýndu niðurstöður mjög háan styrk vínanda. Rannsóknastofan var beðin um nánara álit á niðurstöðunum og segir í álitsgerð, eftir að gerð hefur verið grein fyrir útreikningsaðferðum, að ef sé reiknað „með brotthvarfshraða etanóls úr blóði viðkomandi (0,27°/°° klst.) hefur etanólstyrkur í blóði getað verið um og yfir 3°/°° þremur klukkustundum fyrir fyrri blóðsýnistöku, þ.e. um kl. 22:37 að því gefnu að drykkju hafi að mestu verið lokið um og fyrir kl. 21:30. Umræddur ökumaður hefur því verið mjög ölvaður þegar hinn meinti ölvunarakstur átti sér stað.“
III
Fyrri hluti aðalmeðferðar var 15. nóvember síðastliðinn og sótti ákærði þá ekki þing en verjandinn upplýsti að hann væri veikur. Síðari hluti aðalmeðferðarinnar fór fram 27. nóvember síðastliðinn og var ákærði ekki mættur við upphaf hennar. Sækjandi kvað lögreglu hafa reynt að finna hann en það hefði ekki tekist. Þegar lokið var við að yfirheyra vitni þennan dag mætti ákærði. Hann var spurður hví hann hefði ekki sótt þing fyrri dag aðalmeðferðarinnar og kvaðst hann ekki hafa haft tök á því af persónulegum ástæðum. Hann var og spurður hví hann hefði ekki mætt fyrr á seinni degi aðalmeðferðarinnar og kvaðst hann hafa verið vant við látinn við að gera aðra hluti.
Ákærða var boðið að tjá sig um fyrri ákæruna og kvaðst hann neita sök og ekki þurfa að tjá sig neitt frekar um það. Hann ítrekaði að það væri ekki rétt sem borið væri á hann í ákærunni. Hann þekkti ekki brotaþola og hefði aldrei hitt hann. Hann kvaðst þekkja stúlkuna, sem á að hafa ekið honum og brotaþola, en bætti við að hann myndi ekkert eftir þessu kvöldi og ekki að hafa hitt hana þetta kvöld. Ákærði neitaði alfarið að hafa beitt brotaþola því ofbeldi sem lýst er í ákærunni.
Nú verður fyrst rakið það sem vitni báru við aðalmeðferð og varðar sakarefni fyrri ákærunnar.
Brotaþoli bar að hann hefði hitt ákærða, sem hann þekkti ekki fyrir, á veitingastað í miðborginni umrædda nótt. Eftir að þeir höfðu kynnt sig hvor fyrir öðrum hefði ákærði kysst sig og hann hefði kysst hann á móti. Ákærði hefði síðan gripið í hönd sér og spurt hvort hann vildi koma með sér og kvaðst brotaþoli hafa gengið með ákærða út eftir að hafa hugsað sig um í smástund. Þegar þeir komu út hafi vinkona ákærða verið þar á bifreið sem þeir hafi sest inn í. Hann kvað ákærða hafa sest fram í en sjálfur hafi hann setið í aftursæti. Ákærði og stúlkan hafi verið að rífast á leiðinni heim til ákærða, en brotaþoli kvaðst ekki vita hvað gatan heitir. Þeir hafi síðan gengið yfir götuna og á leiðinni hafi ákærði tekið hönd sína og sagst elska hann. Brotaþoli kvað þá hafa kysst hvor annan á leiðinni í bílnum og eins áður en þeir fóru inn í húsið. Þetta hafi verið „mömmukossar“ eins og brotaþoli nefndi þá. Stúlkan hafi ekið upp að þeim áður en þeir fóru inn, horft í augu sér og hótað sér einhverju. Þeir hafi síðan farið inn í íbúð ákærða og á meðan hafi stúlkan hringt og hún og ákærði verið að rífast í símanum. Brotaþoli kvaðst hafa farið úr jakka og lagt hann á ísskápinn og einnig hefði hann farið úr skóm. Ákærði hefði sagt sér að leggjast upp í rúm og hefði hann gert það. Ákærði hefði síðan lagst í rúmið eftir að hafa farið úr buxum og kvaðst brotaþoli hafa farið að „totta“ hann smávegis en á meðan hefði ákærði enn verið að tala við stúlkuna í símann. Hann kvað munnmökin hafa verið án þvingunar af hálfu ákærða. Brotaþoli kvað sér ekki hafa líkað þetta og hefði byrjað að ýta ákærða af sér og jafnframt sagt að hann vildi ekki meira. Ákærði hefði reiðst þessu og sagt margt ljótt í símann, meðal annars að hann þyrfti að drepa brotaþola, en svo hefði hann grýtt símanum í vegg. Í framhaldinu hefði ákærði tekið sig hálstaki en hann hafi þá legið á honum. Þetta hefði gerst nokkrum sinnum að ákærði hafi tekið sig hálstaki og sleppt aftur. Brotaþoli kvaðst hafa spurt hvort hann mætti fara að pissa og hefði ákærði leyft honum það. Sér hefði hins vegar ekki tekist að pissa og hefði ákærði þá orðið reiður og sagt sér að setjast aftur á klósettið. Þegar hann hafði gert það hafi ákærði sagt að hann þyrfti að drepa hann, en ef hann gerði eins og honum væri sagt myndi allt vera í lagi. Nú hafi ákærði farið aftur úr buxunum og sagt brotaþola að hann yrði að „totta“ sig. Brotaþoli kvaðst hafa hallað sér að vaskinum og opnað munninn og hefði ákærði þá tekið harkalega um höfuð hans með báðum höndum og fært það fram og til baka með stífan liminn uppi í honum og kvaðst brotaþoli hafa meiðst mikið í hálsinum við þetta. Einnig hefði ákærði hótað sér með hnífum, en þeir hafi verið í vaskinum. Einnig hefði hann skellt höfðinu á sér í vegginn og kvaðst brotaþoli hafa fundið mikið til. Brotaþoli kvað ákærða nú hafa leyft sér að standa upp og sagt honum að fara að rúminu, en brotaþoli tók fram að mjög lítið bil sé milli dyranna að klósettinu og rúmsins. Þegar brotaþoli hafi beygt sig niður að rúminu og verið eiginlega á hnjánum hefði ákærði ýtt honum niður og byrjað taka niður um hann buxurnar. Ákærði hefði síðan lagt lim sinn við endaþarmsop brotaþola eins og hann hefði ætlað að stinga honum inn, en hann hefði ekki gert það. Allan þennan tíma hafi ákærði verið að hóta að nauðga sér og spurt hvort hann ætti að smita hann með AIDS. Einnig hefði ákærði tekið hníf af skrifborði og hótað sér og svo grýtt hnífnum á borðið. Þá hefði ákærði alltaf verið að nefna tiltekna konu á nafn og sagt að brotaþoli ætti að þekkja hana sem hann hafi ekki gert. Eins hefði ákærði sagst þekkja menn sem gætu meitt hann og hann látið hann hverfa. Í framhaldinu hefði ákærði þrýst framhandlegg sínum að hálsi hans. Þetta hefði gerst þrisvar sinnum að því er brotaþoli taldi, eða þar til hann hefði hætt að berjast á móti, en brotaþoli kvaðst hafa legið í rúminu allan þennan tíma. Þá kvað brotaþoli ákærða hafa hótað sér allan tímann sem hann var í íbúðinni.
Brotaþoli kvað sér nú hafa tekist að standa á fætur, fara í jakka og skó og taka síma sinn. Hann hefði síðan gengið í átt að dyrunum, en ákærði hefði setið á enda rúmsins. Ákærði hefði þá spurt: „Ætlar þú að hafa þetta svona? Þú varst að biðja um þetta“. Þegar brotaþoli hafi hváð hafi ákærði sagt að hann hefði verið að biðja um þetta með myndum á fésbók. Þetta kvað brotaþoli vera kolrangt, að hann hefði verið að sækjast eftir ofbeldi. Brotaþoli kvaðst nú hafa farið út úr íbúðinni og byrjað að gráta, enda hefði hann ekkert vitað hvað hann ætti að gera. Þá hefði bíll komið akandi og hafi þar verið komin stúlkan sem ók þeim þangað. Hún hefði ekið upp að sér og sagst þurfa að tala við hann og boðið honum far heim. Hann kvaðst hafa setið afturí og meðan hún ók kvaðst hann hafa sagt henni hvað hefði gerst og hefði hún verið að verja gerðir ákærða. Brotaþoli kvaðst hafa tekið upp samræður þeirra á síma sinn. Hún hefði meðal annars sagt að ákærði myndi sjá eftir þessu þegar hann vaknaði og brotaþoli ætti ekki að kæra hann, enda myndi það ekki hjálpa brotaþola. Þá hefði hún sagt sér hvað hún elskaði ákærða mikið og hvað hún væri búin að eyða miklum tíma í hann.
Brotaþoli kvaðst hafa beðið stúlkuna að aka sér heim til foreldra sinna og hefði hann farið inn til þeirra, enda hefði hann ekki treyst sér til að vera einn eftir það sem fyrir hafði komið. Hann kvaðst hafa brotnað saman eftir að hann kom út úr bílnum og hafa hringt í vinkonu sína til að tala við einhvern. Hann hefði þó varla getað sagt henni hvað hafði gerst. Þegar heim var komið hefði hann brotnað aftur saman og farið að gráta og vart getað skýrt frá því sem hefði gerst. Næstu daga hefðu vinir hans þurft að vera mikið með honum vegna áfallsins og eins hefði vinkona hans farið með honum á slysadeild. Brotaþoli lýsti því að þetta hefði haft mikil áhrif á líf hans og honum hefði liðið mjög illa. Sérstaklega væri hann hræddur við að hitta ákærða aftur en hann kvaðst geta búist við honum hvar sem væri. Hann hefði farið til Stígamóta en ekki leitað til sálfræðings, enda teldi hann sig ekki hafa gagn af því.
Stúlkan, sem ók ákærða og brotaþola, bar að ákærði hefði hringt í sig þar sem hún hefði verið sofandi heima hjá sér. Hann hefði beðið sig að sækja hann niður í bæ og aka honum heim. Hún hefði gert það, eins og oft áður. Þegar niður í bæ var komið hefði ákærði komið og maður með honum sem hún hefði ekki átt von á. Ákærði hefði beðið sig um að aka þeim báðum heim og kvaðst hún hafa gert það. Hún hefði þó ekki skilið hvaða erindi hinn maðurinn átti og talið helst að ákærði væri að gera at í sér, enda hefði hún haldið að þau ákærði hefðu verið að laga samband sitt. Á þessum tíma hefðu þau ekki verið saman, en þau hefðu verið par í mörg ár. Þau hefðu þekkst í 9 ár og hún kvaðst aldrei hafa vitað til þess að ákærði væri samkynhneigður eða tvíkynhneigður. Hún kvað þau ekki vera í sambandi núna.
Hún kvað ákærða hafa sest við hlið sér en hinn manninn aftur í. Á leiðinni hefðu þeir verið að kyssast. Eftir að þeir voru farnir úr bílnum heima hjá ákærða kvaðst hún hafa hringt í hann til að fá skýringu á þessu og hefðu þau talað saman í nokkra stund meðan brotaþoli var inni hjá ákærða, en ekki kvaðst hún hafa heyrt neitt í honum. Hún kvað ákærða ekki hafa verið æstan heldur frekar eins og hann væri kaldhæðinn. Hún kvaðst hafa verið akandi þegar hún hringdi, en síðan ákveðið að snúa við og aka aftur heim til ákærða, banka upp á og heimta útskýringu frá honum. Þegar þangað var komið hefði brotaþoli verið fyrir utan og hefði hún ætlað að ræða við hann til að fá skýringar, en hann hefði þá talað um að hringja á leigubíl. Hún kvaðst þá hafa boðist til að aka honum heim til að fá útskýringar hjá honum. Á leiðinni hefði brotaþoli sagt að ákærði hefði haldið sér nauðugum og áreitt sig. Stúlkan kvað brotaþola hafa verið mjög svipaðan í útliti og þegar hún tók hann upp í bílinn við veitingastaðinn í miðborginni. Þá kvaðst hún hafa orðið vör við að brotaþoli hefði verið að taka upp á síma það sem hún sagði, en hann hefði setið aftur í og hefði hún því ekki getað fylgst vel með hvað hann var að gera. Hún kvað brotaþola ekki hafa sagt sér nákvæmlega hvað hefði gerst. Brotaþoli hefði þó sagt að hann hefði viljað fara á klósettið. Þá kvaðst hún muna til þess að brotaþoli hefði sagt að ákærði hefði haldið sér nauðugum og að ákærði hefði hótað sér kynmökum en ekki kvaðst hún muna til þess að hann hefði lýst kynmökum milli þeirra. Hún kvað brotaþola ekki hafa litið út eins og maður sem hefði verið ráðist á. Hann hefði ekki grátið og ekki litið út fyrir að hafa grátið. Þá tók hún fram að hún hefði verið hrædd við brotaþola og forðast að segja eitthvað sem gæti æst hann upp.
Hún kvaðst hafa ekið brotaþola þangað sem hann vildi fara. Hann hefði talað um að kæra, en hún hafi ekki vitað hvað hann hefði átt við. Eftir að brotaþoli var farinn kvaðst hún hafa ekið heim og farið að sofa án þess að hafa fengið að vita raunverulega hvað gerðist. Undir hana var borið endurrit lögreglu af símtölum og kannaðist hún við að þetta væri í stórum dráttum það sem henni og brotaþola hefði farið á milli. Efni símtalanna verður reifað í IV. kafla.
Vinkona brotaþola bar að hann hefði hringt í sig umrædda nótt hágrátandi. Hann hefði þá verið kominn úr bílnum og verið að ganga heim til foreldra sinna. Brotaþoli sagði henni að hann hefði farið heim með ákærða sem hefði ráðist á hann, ýtt honum á vegg og beðið hann um munnmök og ekki leyft honum að fara út úr húsinu. Hún kvað brotaþola hafa sagt sér nánar frá þessu daginn eftir, en þann dag hefði hún farið með hann á slysadeild. Nánar hefði brotaþoli sagt sér að stúlka hefði ekið honum og ákærða og hefðu ákærði og stúlkan verið að rífast á leiðinni. Þegar inn var komið hefði ákærði sagt brotaþola að fara á rúmið og þeir hefðu kysst hvor annan. Á meðan hefði ákærði verið að rífast við stúlkuna í símanum. Ákærði hefði tosað buxurnar niður um hann og reynt að nauðga honum og eins hótað honum með hníf. Á klósettinu hefði ákærði ýtt höfði hans í vegg og við það hefði brotaþoli fengið heilahristing. Vinkonan kvaðst hafa verið mikið með brotaþola eftir að þetta gerðist og meðal annars gist heima hjá honum. Hún kvað þetta mál hafa tekið mikið á brotaþola og það hangi yfir honum enn þann dag í dag.
Faðir brotaþola bar að hann hefði komið heim um nóttina hágrátandi og sagst hafa farið heim með strák og hefði stúlka ekið þeim. Brotaþoli hefði ætlað út en þá hefði strákurinn þvingað hann, hótað honum öllu illu og otað hníf að honum. Einnig hefði strákurinn beitt hann þvingunum til munnmaka og hótað að láta nauðga honum í fangelsi. Þarna um nóttina hefði brotaþoli verið algerlega niðurbrotinn og eftir þetta hefði hann verið illa haldinn og meðal annars ekki getað búið einn, enda alltaf verið hræddur. Brotaþoli hefði svo frétt að ákærði hefði farið af landi brott og við það hefði honum létt.
Móðir brotaþola bar að hann hefði komið heim grátandi og sagt frá því að hann hefði farið heim með strák og hefði stúlka ekið. Strákurinn hefði neytt hann til munnmaka og ætlað að fara „aftan að honum“ eins og hún orðaði það, en það ekki tekist. Þá hefði strákurinn skellt honum utan í vegg inni á baði og hótað honum, bæði með hníf og að smita hann af alnæmi. Móðirin kvað það hafa verið greinilegt að brotaþoli hefði verið í áfalli. Eftir að hann hafði farið í bað hafi hann lagst grátandi undir sæng og grátið næstu daga eins og hún orðaði það. Hún kvað brotaþola enn vera illa haldinn vegna þessa. Hann þyrði til dæmis ekki að fara inn á tiltekna staði og eins hefði exem, sem hann er með, versnað mikið. Þá hefði hann sagt upp leiguhúsnæði og flutt heim til hennar vegna þess að hann hafi ekki getað búið einn vegna hræðslu við ákærða sem hefði hótað að koma heim til hans.
Læknir, sem ritaði framangreint vottorð um brotaþola, staðfesti það. Hún bar að brotaþoli hefði borið þá áverka sem í vottorðinu greinir. Brotaþoli hefði sagst hafa farið heim með strák en svo séð eftir því og viljað fara en ekki fengið það og verið haldið. Brotaþoli hafi meðal annars skýrt frá því að höfði hans hefði verið slegið utan í vegg og hann verið þvingaður til munnmaka. Þá hefði staðið til að þvinga hann til endaþarmsmaka en áður en til þess kom hefði æðið runnið af gerandanum. Einnig hefði hann lýst því að hann hefði verið tekinn hálstaki. Hann hefði verið mjög miður sín og kvartað yfir vanlíðan, höfuðverk og ógleði. Einnig hefði hann kvartað yfir mjög miklum eymslum í hálsi. Skoðun hefði sýnt að áverkarnir í munni væru farnir að gróa og hafi það getað samrýmst því að brotaþoli hefði fengið þá þann dag sem hann sagði atburðinn hafa gerst. Læknirinn kvað áverkana í munni brotaþola geta samrýmst því að hann hefði verið þvingaður til munnmaka og þau hljóti að hafa verið harkaleg.
Starfskona Stígamóta staðfesti framangreint vottorð. Hún kvað brotaþola hafa lýst fyrir sér hvað hafði gerst en hann hefði hitt mann og farið með honum heim. Þar hefði honum verið haldið föngnum og hann beittur líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Meðal annars hefði honum verið nauðgað í munn. Þá hefði brotaþoli lýst afleiðingunum eins og fram komi í vottorðinu. Einnig hefði komið fram hjá honum að hann ætti erfitt með að vera einn og að hann einangraði sig félagslega.
Nú verður rakið það sem fram kom við aðalmeðferð og varðar seinni ákæruna.
Varðandi síðari ákæruna kvaðst ákærði ekki kannast við ákæruefnin og neitaði sök. Hann kvaðst ekki hafa farið til B umræddan dag og ekki farið á heimili föður síns. Hann hefði því hvorki ekið bifreiðinni né kýlt föður sinn og ekki brotist inn til hans.
Faðir ákærða skoraðist undan því að bera vitni en staðfesti að hann hefði kært ákærða.
Lögreglumaður, sem var viðstaddur þegar ákærði var handtekinn í B, bar að tilkynnt hefði verið um mann, vopnaðan skotvopni, sem væri á leiðinni að myrða föður sinn. Þegar lögreglumenn komu að húsi föður ákærða hafi bifreið ákærða verið þar fyrir utan. Innan úr húsinu hefðu heyrst mikil öskur og greinilegt hefði verið að þar voru átök í gangi. Hann kvað lögreglumenn ekki hafa farið inn heldur hefðu þeir kallað á ákærða og sagt honum að koma út. Ákærði hefði komið hlaupandi út, en neitað að hlýða skipunum lögreglumanna um að stansa. Hann hefði því verið eltur uppi og handtekinn. Lögreglumaðurinn kvaðst ekki hafa séð föðurinn. Hann kvað megna áfengislykt hafa verið af ákærða og auk þess hefði hann talað mjög mikið og samhengislaust. Hann kvaðst ekki hafa séð ákærða aka bifreið.
Annar lögreglumaður bar að hann hefði verið á verði á [...]vegi umrætt kvöld og átt að fylgjast með ákveðinni bifreið, en ekki orðið var við hana. Þegar honum hafi orðið ljóst að ákærði kynni að hafa verið á annarri bifreið hafi hann áttað sig á því að þeirri bifreið hefði þegar verið ekið fram hjá sér. Hann kvaðst þá hafa farið á vettvang í B. Lögreglumaðurinn staðfesti að hann hefði séð ákærða aka bifreiðinni, sem nefnd er í ákæru, eftir [...]veginum. Ákærði hefði verið einn í bifreiðinni.
Þriðji lögreglumaðurinn bar að borist hefði tilkynning um að vopnaður maður væri á leið til B á ákveðinni bifreið til að drepa föður sinn. Hann kvaðst hafa verið á verði á [...]vegi og þá hefði komið tilkynning um að maðurinn gæti hugsanlega verið á annarri bifreið og hefði annar lögreglumaður tekið eftir að þeirri bifreið hafði áður verið ekið eftir veginum. Þegar þetta var komið í ljós hefðu lögreglumenn farið að heimili föður ákærða og hefði bifreiðin verið þar fyrir utan. Innan úr húsinu hefðu heyrst öskur og læti. Lögreglumenn hefðu skipað þeim, sem inni voru, að koma út og hefði faðirinn komið strax. Hann hafi verið blóðugur og hefði blætt úr vitum hans. Þá hefði hann litið út fyrir að vera þreyttur, sveittur og hræddur. Skömmu síðar hefði ákærði komið hlaupandi út og ekki hlýtt skipunum um að stansa. Hann hefði verið eltur uppi og handtekinn. Ákærði hefði verið mjög undarlegur í háttum og einnig hefði verið áfengislykt af honum og hann borið greinileg merki ölvunar.
Læknir, sem skoðaði föður ákærða og ritaði framangreint vottorð, staðfesti það. Hann kvað föðurinn hafa verið með sprungna efri vör vinstra megin, en aðra áverka hefði ekki verið að sjá við skoðun. Læknirinn kvað það geta samsvarað því að hann hefði verið kýldur í andlitið.
Deildarstjóri rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði staðfesti framangreinda matsgerð og lýsti því hvernig hún var unnin og á hverju hún byggði. Hún kvað niðurstöðurnar sýna að viðkomandi hefði verið nálægt áfengiseitrun.
IV
Ákærði neitar sök. Varðandi fyrri ákæruna kvaðst hann ekki þekkja brotaþola og aldrei hafa hitt hann. Hann kvaðst kannast við stúlkuna en ekki hafa hitt hana umrætt kvöld. Reyndar kvaðst hann ekki muna eftir kvöldinu. Hér að framan var rakinn framburður brotaþola og stúlkunnar sem ók honum og ákærða að heimili ákærða umrædda nótt. Með samhljóða framburði þeirra tveggja telur dómurinn sannað að ákærði og brotaþoli fóru saman inn á framangreint heimili ákærða. Eftir að þangað var komið er brotaþoli einn til frásagnar um það sem gerðist, en ákærði hefur alfarið neitað að hafa beitt brotaþola ofbeldi eins og hann er ákærður fyrir. Skýrsla brotaþola var rakin hér að framan. Framburður hans um það sem gerðist á heimili ákærða styðst við það sem hann sagði foreldum sínum og vinstúlku þessa sömu nótt, en við þau ræddi hann eftir að honum hafði verið ekið heim til sín. Þá koma áverkarnir, sem hann bar og lýst var, heim og saman við frásögn hans. Þá bar starfskona Stígamóta um að lýsing hans á líðan sinni væri í samræmi við líðan þeirra sem hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Loks má nefna að lögreglan hefur endurritað samtöl brotaþola við stúlkuna, sem ók honum heim, og hann tók upp á síma sinn. Í samtölunum kemur að mestu fram sama lýsing brotaþola á því sem gerðist og kom fram hjá honum hjá lögreglu og fyrir dómi og að framan var rakið. Þá er og greinilegt að stúlkan kannast við ákærða og hún segir brotaþola að hann gangi ekki heill til skógar og hann hafi ekki ætlað að gera brotaþola það sem hann gerði.
Það er mat dómsins að brotaþoli hafi verið trúverðugur í frásögn sinni. Frásögnin var bæði hiklaus og örugg, þótt hann kæmist oftar en ekki í geðshræringu þegar hann var að lýsa því sem gerðist. Þegar virt er trúverðug frásögn brotaþola, sem styðst við framangreind gögn málsins, er það mat dómsins að leggja skuli hana til grundvallar úrlausn málsins. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í fyrri ákærunni, nema hvað ákærði verður sakfelldur fyrir að hafa þrýst framhandlegg sínum að hálsi brotaþola þrisvar sinnum en ekki fimm sinnum og er það í samræmi við framburð brotaþola fyrir dómi. Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.
Varðandi síðari ákæruna kvaðst brotaþoli ekki hafa farið til B umræddan dag og því hvorki ekið bifreiðinni né kýlt föður sinn. Hér að framan var rakinn framburður þriggja lögreglumanna sem komu að handtöku ákærða umrædda nótt. Þá var hér að framan gerð grein fyrir aðgerðum lögreglu á vettvangi og niðurstöðum alkóhólrannsóknar og mati á ölvun ákærða umrætt sinn. Með vísun til þess, sem þar kemur fram, telur dómurinn sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi ekið bifreiðinni undir áhrifum áfengis eins og honum er gefið að sök í ákærunni. Samkvæmt gögnum málsins, sem að framan voru rakin, bar faðir ákærða áverka þá sem í ákæru greinir. Þrátt fyrir að faðir hans hafi skorast undan því að bera vitni í málinu telur dómurinn sannað með framangreindum gögnum, gegn neitun ákærða, að hann hafi valdið föður sínum þessum áverka, enda ekki öðrum til að dreifa. Ákærði verður því sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í síðari ákærunni og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða. Það athugast að fallið var frá ákæru fyrir húsbrot.
Árið 2006 var ákærði sektaður og sviptur ökurétti fyrir ölvunarakstur. Á árinu 2008 var hann sektaður og sviptur ökurétti í 3 ár frá [...] 2009. Síðast var ákærði sektaður 11. maí 2011 fyrir að aka sviptur ökurétti. Við ákvörðun refsingar ákærða verður höfð hliðsjón af 77. og. 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði mun lengi hafa átt við andlega erfiðleika að etja og þótt ekki hafi þótt ástæða til að rannsaka geðhagi hans sérstaklega er rétt að taka hér upp niðurstöðu vottorðs geðlæknis sem verjandi hans lagði fram. Þar segir að um sé „að ræða ungan mann með persónuleikaröskun, þunglyndi og kvíða og ýmis alvarleg félagsleg vandamál. Nauðsynlegt er að hann fái endurhæfingu vegna þessara einkenna og tekið verði tillit til þess í sambandi við skólagöngu og annað. X á mjög erfitt með að hemja skap sitt og erfitt með að stjórna sér eins og hentugast væri og kemur það illa niður á honum sjálfum og hans nánustu aðstandendum.“ Samkvæmt þessu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 2 ár. Þá verður ákærði sviptur ökurétti ævilangt.
Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og með hliðsjón af þeim gögnum sem liggja fyrir um afleiðingar brotsins fyrir brotaþola og að framan voru rakin þykir hann eiga rétt á miskabótum. Eru þær hæfilega ákveðnar 800.000 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan 2. desember 2011 og miðast upphafstími dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg dómsformaður, Halldór Björnsson og Sigríður Ólafsdóttir.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. maí 2011 til 2. janúar 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 144.810 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 502.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 251.000 krónur.