Hæstiréttur íslands

Mál nr. 249/2000


Lykilorð

  • Stjórnarskrá
  • Lífeyrissjóður
  • Verðtrygging
  • Eftirlaun


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. janúar 2001.

Nr. 249/2000.

Lífeyrissjóður bankamanna

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Sigmundi M. Andréssyni

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

og gagnsök

                                                   

Stjórnarskrá. Lífeyrissjóður. Verðtrygging. Eftirlaun.

Með setningu reglugerðar nr. 667/1997 um Lífeyrissjóð bankamanna voru gerðar tilteknar breytingar á skipulagi L. Leiddu þær til lækkunar á lífeyrissréttindahlutfalli S, sem vann hjá aðildarfyrirtækjum sjóðsins frá 1957-1980. Var lækkunin rakin til þeirrar túlkunar sjóðsins á ákvæðum reglugerðarinnar að 11. gr. hennar stæði framar 36. gr. og leiddi það til þess að sá sem léti af starfi eftir gildistöku reglugerðarinnar, greitt hefði iðgjald til sjóðsins og væri orðinn fullra 65 ára ætti rétt á 2.125% eftirlaunum fyrir hvert starfsár í fullu starfi, en að þeir sem hættir væru störfum fyrir gildistöku reglugerðarinnar, en hæfu töku lífeyris eftir þann tíma ættu ekki rétt á að lífeyrir þeirra tæki mið af 11. gr. Héraðsdómur féllst ekki á þessa túlkun L og taldi að skýrlega hefði þurft að kveða á um það í gildandi reglugerð ef önnur regla ætti að gilda um réttindahlutfall starfandi sjóðfélaga en þeirra sjóðfélaga sem hættir voru störfum fyrir gildistökuna og hefðu ekki hafið töku lífeyris. Slíkt mætti ekki lesa úr reglugerðinni og því væri fallist á kröfu S þess efnis að hann skyldi njóta 2.125% lífeyris fyrir hvert ár sem hann greiddi í sjóðinn. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með þeirri athugasemd að í reglugerð nr. 669/1997 fyrir Lífeyrissjóð bankamanna væri ekki um það getið, að annað ætti að gilda um réttindi þeirra, sem látið hefðu af störfum af öðrum ástæðum en elli og örorku, en þeirra, sem greiddu í sjóðinn á sama tíma og þeir og héldu áfram störfum hjá bönkunum. Um réttindi S fari því að 15. gr. reglugerðarinnar, en þar sé vitnað til 11. gr. hennar. Þá stóð ágreiningur um afnám svokallaðrar eftirmannsreglu, en hún varðaði aðferð til að verðtryggja rétt sjóðfélaga. Taldi S að afnám hennar myndi skerða eftirlaunaréttindi sín og krafðist þess að ákvæði reglugerðarinnar þar um yrði dæmt ólögmætt gagnvart sér. Héraðsdómur féllst ekki á kröfu S og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu og taldi breytingun hafa verið almenna og tekið til allra sjóðfélaga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. júní 2000. Krefst hann viðurkenningar á því að gagnáfrýjandi „hafi unnið sér rétt til lífeyrisréttinda sem svari til 41,5% af þeim launum, sem eftirmaður hans hafði þann 31. desember 1997, eins og áfrýjandi viðurkennir.“ Að öðru leyti krefst aðaláfrýjandi sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði til Hæstaréttar 17. ágúst 2000 á hendur aðaláfrýjanda og íslenska ríkinu til réttargæslu. Hann krefst þess aðallega, að viðurkennt verði með dómi að tilgreind ákvæði í 36. gr. reglugerðar nr. 669/1997 fyrir Lífeyrissjóð bankamanna séu ólögmæt gagnvart sér, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Þá krefst hann þess að viðurkennt verði að hann hafi áunnið sér lífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði bankamanna sem svari til 41,5% af launum, sem á hverjum tíma fylgi því starfi sem hann gegndi síðast hjá Seðlabanka Íslands. Loks er þess krafist að málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verði staðfest og að aðaláfrýjandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi gerir engar kröfur á hendur réttargæslustefnda, sem lætur málið ekki til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Málavextir og málsástæður eru ítarlega rakin í héraðsdómi. Ágreiningur aðila varðar efni réttinda gagnáfrýjanda hjá aðaláfrýjanda eftir breytingar sem gerðar voru á skipulagi lífeyrissjóðsins og tóku gildi 31. desember 1997. Gagnáfrýjandi vann hjá aðildarfyrirtækjum sjóðsins frá 1957 til ágúst 1980, er hann fór til annarra starfa.  Aðaláfrýjandi er samtryggingarsjóður sem rekinn er sem sjálfseignarstofnun. Hafa gilt um hann reglugerðir sem staðfestar hafa verið af fjármálaráðuneyti. Núverandi reglugerð er nr. 669/1997 fyrir Lífeyrissjóð bankamanna, en áður gilti um sjóð þennan reglugerð og útlánareglur frá 1988 fyrir eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans.  Fyrir skipulagsbreytingarnar báru aðildarfyrirtæki sjóðsins ábyrgð á skuldbindingum hans í hlutfalli við aðild þeirra að sjóðnum. Við breytingarnar skuldbundu þau sig til að gera upp skuldir sínar við sjóðinn. Tók það loforð til allra skuldbindinga sjóðsins, eins og þær voru reiknaðar við breytingarnar, en eftir þær var að því stefnt að ábyrgð aðildarfyrirtækjanna félli niður. Áttu eignir sjóðsins eftir það uppgjör að nægja fyrir skuldbindingum hans.

II.

Fallast má á það með héraðsdómi að vanda hefði mátt betur undirbúning og framkvæmd skipulagsbreytinganna í lok árs 1997 en þær verði ekki ógiltar af þeim sökum.  Þá er tekið undir það með héraðsdómi að sá réttur sem gagnáfrýjandi hafði áunnið sér við þetta tímamark njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem því var breytt með 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Greinir aðila ekki á um þetta, heldur hitt hvort breyta mátti aðferð við að verðtryggja réttindi sjóðfélaga til framtíðar litið miðað við þetta tímamark. Þar sem hér er um samtryggingarsjóð að ræða bar að fara eins með réttindi allra sjóðfélaga, sem eins stóð á um. Þar sem ekki er annað fram komið en að breytingin hafi verið almenn að þessu leyti og tekið til allra sjóðfélaga ber að fallast á það með héraðsdómi að gagnáfrýjandi hafi ekki sýnt fram á, að breytingar á reglugerðinni frá svokallaðri eftirmannsreglu til verðtryggingar lífeyrisréttinda samkvæmt vísitölu neysluverðs séu óskuldbindandi gagnvart honum. Verður aðalkrafa gagnáfrýjanda ekki tekin til greina.

Varakrafa gagnáfrýjanda er við það miðuð að hann eigi að njóta þess hlutfalls lífeyris af launum sem tekið var upp með 11. gr. reglugerðar nr. 669/1997, eða 2,125% fyrir hvert ár sem hann greiddi í sjóðinn. Mælt er fyrir um réttindi gagnáfrýjanda eftir áðurgreinda breytingu í 15. gr. reglugerðarinnar. Er þar sérstaklega vitnað til 11. gr. um réttindi hans. Hvergi í reglugerðinni er þess getið að annað eigi að gilda um réttindi þeirra sem látið hafa af störfum af öðrum ástæðum en elli og örorku en þeirra, sem greiddu í sjóðinn á sama tíma og þeir og héldu áfram störfum hjá bönkunum. Er það einnig í samræmi við eiginleika sjóðsins sem sameignarsjóðs og þeirrar samtryggingar sem leiða má af reglum hans. Með þessari athugasemd en annars með vísun til rökstuðnings héraðsdóms ber að taka varakröfuna til greina.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar er ákveðið í dómsorði.

                                                    Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Lífeyrissjóður bankamanna, greiði gagnáfrýjanda, Sigmundi M. Andréssyni, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2000.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi  24. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 30. apríl 1999. Málið var þingfest 4. maí 1999.

Stefnandi er Sigmundur Andrésson, kt. 140839-7799, Lækjarási 9 Reykjavík.

Stefndi er Lífeyrissjóður bankamanna, kt. 510169-4259, Suðurlandsbraut 24, Reykjavík.

Réttargæslustefndi er íslenska ríkið, kt. 550169-2829, Arnarhvoli, Reykjavík og er fjármálaráðherra stefnt fyrir þess hönd.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

l. Að viðurkennt verði með dómi, að eftirfarandi ákvæði í 36. gr. reglugerðar nr. 669/1997 fyrir Lífeyrissjóð bankamanna:

"Einnig skal lífeyrisréttur þeirra sjóðfélaga sem hættir eru störfum hjá aðildarfyrirtækjum fyrir l. janúar 1998 miðast við laun eftirmanns þeirra eins og þau voru 31. desember 1997 eigi sjóðsfélagi verðtryggðan rétt til lífeyris hjá sjóðnum. Jafnframt skal allur lífeyrir, greiddur af sjóðnum eftir 31. desember 1997, sem nýtur verðtryggingar, verðtryggður með vísitölu neysluverðs, sbr. 3. mgr. 11. gr., og gildir það bæði um þá sem njóta lífeyris hjá sjóðnum á þeim tíma og þá sem taka munu lífeyri síðar"

séu ólögmæt gagnvart stefnanda.

2. Að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi hafi áunnið sér lífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði bankamanna sem svari til 41,5% af launum sem á hverjum tíma fylgja því starfi sem hann gegndi síðast hjá Seðlabanka Íslands.

Til vara er sú krafa gerð, að viðurkennt verði að áunnin lífeyrisréttindi stefnanda í Lífeyrissjóði bankamanna nemi 44,09375% af launum eftirmanns hans í því starfi sem hann gegndi síðast hjá Seðlabanka Íslands, eins og þau voru 31. desember 1997, sem verðbætist með vísitölu neysluverðs frá þeim degi fram til útborgunar ellilífeyris samkvæmt reglugerð sjóðsins nr. 669/1997.

3. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnandi hefur ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti sem hann þarf að greiða af málskostnaði.

Dómkröfur stefnda eru eftirfarandi:

Stefndi viðurkennir, að stefnandi hafi unnið sér rétt til lífeyrisréttinda sem svari til 41,5% af þeim launum, sem eftirmaður hans hafði 31. desember 1997. Stefndi gerir þær dómkröfur að öðru leyti að verða algjörlega sýknaður af kröfum stefnanda og krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Á hendur réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar og hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Málið var dómtekið 24. febrúar sl. en síðan eru liðnar fimm vikur. Við fyrirtöku í málinu í dag staðfestu lögmenn málsaðila yfirlýsingu sem þeir höfðu gefið dómaranum í fyrr í vikunni, þess efnis að þeir teldu ekki þörf á að flytja málið munnlega að nýju og var dómarinn sama sinnis.

II

Óumdeild málsatvik og helstu ágreiningsefni

Stefnandi hóf störf í Búnaðarbankanum á árinu 1957 og starfaði þar fram til mánaðarmóta maí og júní 1968 þegar hann hóf störf í Seðlabanka Íslands. Þar starfaði stefnandi fram í ágúst 1980. Hann hóf að greiða í lífeyrissjóð á árinu 1959 og fékk þau réttindi flutt í Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans eftir að hann hóf störf í Seðlabankanum. Stefnandi starfaði um skamman tíma hjá Verslunarbankanum en fékk að ávinna sér réttindi í sjóðnum vegna þess tímabils gegn peningagreiðslu. Óumdeilt er að starfstími stefnanda til lífeyrisréttinda úr Lífeyrissjóði bankamanna er 20,75 ár.

Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbanka Íslands var stofnaður samkvæmt 49. gr. laga um Landsbanka Íslands nr. 10/1928, en áður höfðu verið í lögum ákvæði um styrktarsjóð starfsmanna bankans. Með lögum nr. 10/1961 og 11/1961 fékk lífeyrissjóðurinn heitið Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans og var þá gerður að sjálfstæðri stofnun undir eigin stjórn og hefur svo verið síðan.

Fyrsta reglugerð sjóðsins var sett af bankaráði Landsbanka Íslands 14. desember 1928 en eiginlegar reglugerðir höfðu ekki verið til um styrktarsjóð starfsmann Landsbankans. Önnur reglugerð sjóðsins tók gildi 1. apríl 1948, sú þriðja 1. janúar 1960 og sú fjórða 1. júlí 1970 en hún var hin fyrsta sem bar nafnið "Reglugerð um eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans". Fimmta reglugerðin tók gildi 1. janúar 1978, sú sjötta 1. janúar 1982, sú sjöunda 1. janúar 1988. Núgildandi reglugerð um Lífeyrissjóð bankastarfsmanna nr. 669/1997 tók gildi 1. janúar 1998.

Frá 1. janúar 1929 og allt þar til reglugerð nr. 669/1997 tók gildi var stjórn sjóðsins skipuð tveimur fulltrúum bankanna og einum fulltrúa sjóðfélaga. Nú er stjórnin skipuð sex fulltrúum, það er þremur fulltrúum aðildarfyrirtækja og þremur fulltrúum sjóðfélaga.

Heimild til breytinga á reglugerð var í upphafi í höndum bankaráðs og allt fram til reglugerðar nr. 669/1997 í höndum stjórna eða bankaráða aðildarfyrirtækja, en jafnframt skyldi leita álits sjóðfélaga áður en breyting tók gildi. Með reglugerð 669/1997 var ákvörðunarvald um breytingar á reglum sjóðsins fært til fundar sjóðfélaga en breytingar taka gildi við staðfestingu meirihluta bankaráðs eða stjórna aðildarfyrirtækja.

Fundur var haldinn með sjóðfélögum Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans 29. janúar 1997 og var þar kynnt breytingartillaga við reglugerð sjóðsins frá 1988. Svohljóðandi tillaga var samþykkt í lok fundarins.

"Stjórn Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans leggur til við fund sjóðfélaga haldinn 29. janúar 1997, að fundinum verði frestað þar til sjóðfélagar hafa fengið í hendur samanburðarútreikning varðandi áhrif breytingar á reglugerð á eigin réttindi".

Í kjölfarið var starfandi sjóðfélögum sendir samanburðarútreikningar þeir sem getið var um í fundarsamþykktinni. Framhaldsfundur sjóðfélaga var auglýstur tvívegis í Morgunblaðinu 8. og 15. júní 1997. Í auglýsingunni kom fram að tillaga til breytinga á reglugerð sjóðsins yrði lögð fram til framhaldsumræðu og afgreiðslu. Fundurinn var haldinn í Háskólabíói 19. júní 1997. Í fundargerð þess fundar er ritað að tillaga um breytingar á reglugerð sjóðsins hafi verið samþykkt með handauppréttingu og með meirihluta atkvæða.

Með núgildandi reglugerð nr. 669/1997 var gerð sú meginbreyting á skipulagi lífeyrissjóðsins að honum var skipt í þrjár deildir sem skal halda fjárhagslega aðskildum hverri frá annarri, sbr. 4. gr. Sérstök deild er fyrir þá starfsmenn sem hófu störf fyrir 1. janúar 1998, með réttindum og skyldum samkvæmt II. kafla og vegna sjóðfélaga sem hætt hafa störfum en stefnandi tilheyrir þeirri deild. Fyrir starfsmenn sem hófu störf eftir 31. desember 1997 er starfrækt sérstök deild og sú þriðja vegna réttinda stjórnenda.

Með reglugerð 669/1997 var tekin upp stigasöfnunarregla fyrir þá sem hófu störf eftir gildistöku hennar en áður hafði svokölluð eftirmannsregla verið í reglugerðum sjóðsins frá árinu 1960. Í 36. gr. reglugerðarinnar segir um þá, sem hættir voru starfi 1. janúar 1998, að eftirlaun þeirra, eða áunninn réttur, reiknist miðað við laun eftirmanns eins og þau voru 31. desember 1997, en séu verðtryggð samkvæmt vísitölu neysluverðs frá þeim tíma.

Í málinu liggur fyrir að stefnandi fékk upplýsingar frá stefnda í bréfi 28. ágúst 1998 um að samkvæmt reglugerð sem í gildi hefði verið þegar hann hefði látið af störfum væri eftirlaunahlutfall hans 32,25% og laun eftirmanns hans 192.847 krónur 31. desember 1997. Eftirlaun stefnda yrðu því 62.193 krónur á mánuði í upphafi, auk verðtryggingar með vísitölu neysluverðs frá þeim tíma sem taka eftirlauna hæfist.

Í niðurlagi bréfs sem stefnda barst frá stefnanda með yfirliti um réttindi hans í sjóðnum segir orðrétt:

Áunnin réttindi þann 31.12.1998 eru 33,875% af föstum launum, fyrir fullt starf sem í lok desember 1997 fylgdu starfi því sem þér gegnduð seinast hjá aðildarstofnun sjóðsins, verðbætt með vísitölu neysluverðs.

Í máli þessu er einkum deilt um gildi 36. gr. reglugerðar nr. 669/1997 gagnvart stefnanda. Einnig er deilt um hvort reikna eigi hlutfall lífeyris stefnanda af launum eftirmanns samkvæmt 11. gr. reglugerðarinnar.

III

Málsástæður og lagarök stefnanda

Um heimild til að leita viðurkenningardóms um kröfur sínar vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi beinir kröfum sínum að stefnda á þeim grundvelli að um sé að ræða sjálfseignarstofnun sem hafi yfirtekið réttindi og skyldur Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans og beri því að efna lífeyrisskuldbindingar þess sjóðs gagnvart stefnanda. Vísar stefnandi um þetta til 1. gr. reglugerðar nr. 669/1997.

Stefnandi færir þau rök fyrir viðurkenningarkröfu sinni, að efni réttinda sem hann eigi til ellilífeyris úr sjóðnum hafi verið breytt honum í óhag með reglugerðar­breytingu sjóðsins 31. desember 1997. Breytingin felist í því, að í stað þess að fjárhæð ellilífeyris skuli taka mið af launum eftirmanns hans, eins og þau verði á hverjum tíma, skuli laun eftirmanns, eins og þau voru 31. desember 1997, framreiknuð með vísitölu neysluverðs þegar réttur stefnanda til töku ellilífeyris úr sjóðnum verði virk. Stefnandi telur þessa breytingu fela í sér ólögmæta skerðingu á réttindum sem njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995. Bendir stefnandi á að íslenska ríkið hafi borið ábyrgð á eftirlaunaskuldbindingu Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans gagnvart honum samkvæmt áðurnefndu ákvæði 4. mgr. 5. gr. reglugerðar sjóðsins frá 11. apríl 1988. Sú ábyrgð sé enn til staðar þar sem Landsbankinn og Seðlabankinn, sem báðir séu í eigu ríkisins, beri enn ábyrgð á iðgjaldaskuldbindingum og ríkið beri ábyrgð á rekstri þessara banka. Réttindaskerðingin verði því ekki "réttlætt" með því að hún hafi verið óhjákvæmileg til þess að sjóðurinn fengi staðið undir skuldbindingum sínum.

Stefnandi telur ljóst að stefndi hafi ekki sýnt fram á eða gert líklegt að 36. gr. reglugerðar nr. 669/1997 tryggi honum jafn góð réttindi og fyrir breytingu á reglugerðinni. Hin nýja regla feli í sér verulega skerðingu og útilokað sé að ákveða slíka réttindaskerðingu með þeim hætti sem gert hafi verið. 

Síðari viðurkenningarkrafa stefnanda sé byggð á því, að stefnandi hafi samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðar sjóðsins frá 2. nóvember 1988 áunnið sér eftirlaunarétt sem svari til 41,5% af launum sem á hverjum tíma fylgja því starfi sem hann gegndi síðast hjá Seðlabanka Íslands.

Misvísandi yfirlit hafa borist frá stefnda um það hlutfall af launum eftirmanns sem eftirlaunin skuli miðast við. Nauðsyn ber því til að fá því slegið föstu með dómi, hvers efnis réttindi stefnanda séu í sjóðnum þar sem búið sé að fella reglugerðina frá 11. apríl 1988 formlega úr gildi.

Verði ekki á það fallist að stefnandi eigi þennan rétt á grundvelli reglugerðarinnar frá 2. nóvember 1988, er gerð varakrafa um viðurkenningu á því að stefnandi hafi áunnið sér rétt til ellilífeyris sem nemi 44,09375% af launum eftirmanns hans eins og þau voru 31. desember 1997, verðtryggðum með vísitölu neysluverðs frá þeim degi þar til lífeyrisgreiðslur fari fram. Um þessa kröfu vísar stefnandi til 11. gr., sbr. 36. gr. reglugerðar fyrir Lífeyrissjóð bankamanna nr. 669/1997, svo og til yfirlita stefnda um iðgjaldagreiðslur stefnanda til sjóðsins. Stefnandi telur fráleitt að stefndi geti valið úr reglugerðinni þau ákvæði sem hann telji henta. Brjóti þau vinnubrögð gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Við munnlegan málflutning kom fram af hálfu stefnanda að aðild hans að sjóðnum hafi grundvallast á lögum frá 1974 um starfskjör launþega og hafi verið um skylduaðild að ræða. Samkvæmt reglugerð frá 1988 hafi það verið bankanna að setja eftirlaunasjóðnum reglur en áður skyldi leitað álits fundar sjóðfélaga. Í árslok 1997 hafi sjóðfélagar verið um 5000 þótt virkir sjóðfélagar væru þá einungis um 1400. Líta verði til hagsmuna allra sjóðfélaga þegar reglum sjóðsins sé breytt. Boðað hafi verið til fundarins 29. janúar 1997, þar sem breytingar á reglugerð sjóðsins hafi fyrst verið til umræðu, með almennri auglýsingu á starfsstöðvum aðildarfyrirtækja sjóðsins. Þá hafi samanburðarútreikningar varðandi áhrif breytinga á reglugerðinni á réttindi sjóðfélaga einungis verið sendir þeim sem greiddu í sjóðinn á árinu 1997, þrátt fyrir að samþykkt væri á umræddum fundi að senda sjóðfélögum slíka útreikninga. Ekkert hafi verið minnst á fyrirhugaðar breytingar á reglum sjóðsins í bréfi sem honum hafi borist frá sjóðnum í maí 1997. Ekkert hafi komið fram í auglýsingu um fundinn í Morgunblaðinu hverju hafi átt að breyta í reglum sjóðsins. Breytingar á reglugerðum sjóðsins hafi sífellt verið til umræðu og því hafi auglýsingin ekki gefið stefnanda tilefni til að ætla að fjalla ætti um hagsmuni hans á umræddum fundi. Þegar verið sé að fjalla um efni sem afgerandi áhrif geti haft á réttindi sjóðfélaga verði að gera þá lágmarkskröfu að hverjum og einum sjóðfélaga sé send tilkynning um fund.

Stefnandi bendir ennfremur á, að fundur sá sem samþykkti reglugerðarbreytinguna hafi verið laus í formi, ekkert komi fram í fundargerð um hvort fundurinn hafi verið ályktunarbær, hvernig hann hafi verið sóttur eða hverjir hafi sótt hann. Þá hafi atkvæði verið greidd um tillögurnar í heild en ekki einstaka greinar. Af hálfu stefnanda er því fram að útilokað sé að lögmætra aðferða hafi verið gætt við fund sem hafi slíkt álitsgefandi vald varðandi breytingar á réttindum manna til að fá endurgreiðslu úr sjóðnum.

Þá byggir stefnandi á því að við breytingar á reglugerð lífeyrissjóðs verði að taka sanngjarnt tillit til hagsmuna allra sjóðfélaga. Meirihluti sjóðfélaga eða eins og í þessu tilviki greiðandi sjóðfélagar geti ekki með gildum hætti tekið ákvarðanir sem skerði réttindi annarra sjóðfélaga eins verulega og í tilviki stefnanda.

IV

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er viðurkennt að stefnandi hafi unnið sér rétt til lífeyrisréttinda, sem svari til 41,5% af þeim launum, sem eftirmaður hans hafði 31. desember 1997.

Stefndi telur ljóst af dómafordæmi Hæstaréttar Íslands að lífeyriskrafa stefnanda á hendur sjóðnum svari til eignarréttar, sem varinn sé af 72. gr. stjórnarskrárinnar eins og henni hafi verið breytt með stjórnskipunarlögum nr. 97/1995. Af þessu leiði þó ekki að verðmæli réttindanna hafi ekki mátt breyta, enda hafi verið réttilega að þeirri breytingu staðið.

Stefndi færir að öðru leyti eftirfarandi rök fyrir sýknukröfum sínum.

1. Stefndi telur ljóst að frá gildistöku laga nr. 10/1961 og 11/1961 hafi stefndi verið sjálfstæð stofnun en ekki lögbundin. Ákvæðum reglugerða sjóðsins varð því breytt í samræmi við ákvæði þeirra þar um. Allar breytingar hafi verið gerðar með samþykki sjóðfélaga en í fyrri reglugerðum hafi verið kveðið á um að breytingar mætti ekki gera nema álits fundar sjóðfélaga hefði áður verið leitað. Frumkvæði að breytingum hafi komið frá sjóðfélögum sjálfum, en bankaráð eða stjórnir aðildarfyrirtækja síðan samþykkt þær. Breytingarnar sem leiddu til setningar reglugerðar nr.666/1997 hafi ekki  tekið gildi fyrr en sjóðfélagar höfðu samþykkt þær.

2. Stefndi telur aðildarfyrirtæki ekki bera ábyrgð á skuldbindingum stefnda. Fram til setningar reglugerðar nr. 669/1997 hafi aðildarfyrirtækin borið ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins þar til eignir hans nægðu fyrir skuldbindingum en þessi ábyrgð hafi verið til vara. Fram til 1961 hafi reglugerðir sjóðsins gert ráð fyrir því, að eignir hans einar stæðu undir skuldbindingum. Reyndist svo ekki vera, báru aðildarfyrirtækin ábyrgð á þeim hluta umframskuldbindinga, sem frá þeim stöfuðu. Við setningu reglugerðar nr. 669/1997 hafi þessar ábyrgðir verið reiknaðar út og gerðar upp, eins og þær hafi staðið 31. desember 1997, og þá fallið niður. Geti stefnandi því engan sérstakan rétt reist á því, að fram til þess tíma hafi íslenska ríkið borið ábyrgð á skuldbindingunum sjóðsins.

3. Stefndi telur að breyting verðmælis með reglugerð nr. 669/1997 hafi verið heimil. Áður en reglugerðin hafi tekið gildi gildi hafi réttindi stefnanda verið reiknuð út, eins og þau þá voru talin standa, miðuð við 192.847 króna mánaðarlaun eftirmanns hans 31. desember 1997.  Hafi stefnandi ekki gert athugasemdir við það. Væntanleg eftirlaunaréttindi stefnanda séu því 41,5% af þeirri fjárhæð eða 80.032 krónur á mánuði, verðtryggð með vísitölu neysluverðs frá þeim tíma samkvæmt 36. gr. reglugerðar 9/1997.

Hin svokallaða "eftirmannsregla" hafi verið verðmælir, til þess ætluð að lífeyrisréttindi héldu verðgildi sínu á tíma mikillar verðbólgu. Breyting á slíkum verðmæli úr einum í annan jafngildan hafi verið talin stjórnvöldum heimil. "Eftirmannsreglan" hafi verið orðin mjög erfið í framkvæmd vegna mikilla breytinga á starfsumhverfi í aðildarstofnunum á síðustu árum og áratugum. Þau störf og stöðuheiti sem áður hafi verið til staðar finnist ekki lengur og það skapi talsverða erfiðleika í framkvæmd. Hin nýja aðferð við verðmælingu sé almenn aðferð sem miði að því að treysta fjárhagsstöðu sjóðsins, sem sé fjárhagslega sjálfstæður.

4. Stefndi telur eðlilegt er að gera greinarmun á réttindum sjóðfélaga sem látið hafi af störfum af öðrum ástæðum en elli eða örorku og þeirra sem starfa óslitið þar til réttindi vegna elli eða örorku verði virk. Starfsmenn, sem valið hafi sér annan starfsvettvang, séu ekki lengur starfsmenn aðildarfyrirtækjanna og þau ekki lengur bundin skyldum við þá né þeir við þau. Vegna þess, að eftirlaunaréttur sé varinn af 72. gr. stjórnarskrár hvíli sú skylda á stefnda að tryggja að væntanleg lífeyrisréttindi rýrni ekki en fyrrverandi starfsmaður eigi hins vegar ekki rétt á, að réttindi hans vaxi í raun t.d. vegna hærra iðgjaldahlutfalls vinnuveitanda.

5. Stefndi byggir á því að í reglugerðum þeim, sem giltu á starfstíma stefnanda og síðar, hafi verið kveðið á um, að ákvæði þeirra tækju ekki til áfallinna skuldbindinga samkvæmt eldri reglugerðum. Samkvæmt því sé ljóst, að réttindahlutfall stefnanda, 2% á hvert ár, hafi farið eftir þeirri reglugerð sem í gildi hafi verið þegar hann hafi látið af störfum en ekki síðari reglugerð.

Gegn varakröfu stefnanda um rétt til 44,09375% af launum eftirmanns 31. desember 1997, færir stefndi þau rök að réttur til 2,125% eftirlauna fyrir hvert starfsár hafi ekki orðið til fyrr en eftir að stefnandi lét af störfum. Hafi þessi hækkun m.a. byggst á auknum iðgjaldagreiðslum aðildarfyrirtækja. Með vísan til þessa og þess sem að framan sé sagt um rétt þeirra sem látið hafi af störfum eigi krafa þessi ekki við nein rök að styðjast.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að málsástæður stefnanda sem lúti að undirbúningi að breytingu á reglugerðinni og formi fundar þar sem breytingarnar voru samþykktar komist að í málinu þar sem þær hafi ekki verið hafðar uppi fyrr en við aðalmeðferð málsins. Þá er því haldið fram að réttilega hafi verið staðið að boðun fundar sjóðfélaga 19. júní 1997 og ekkert hafi verið athugavert við form fundarins. Engar athugasemdir hafi heldur komið fram á fundinum um form hans eða framkvæmd atkvæðagreiðslu. Undirbúningur að breytingum á reglum sjóðsins hafi að öðru leyti verið fullkomlega lögmætur. Ástæða þess að sjóðsfélögum sem ekki voru greiðandi í sjóðinn var ekki send tilkynning um áhrif breytinga á reglum sjóðsins á réttindi þeirra hafi einfaldlega verið sú að engin breyting hafi orðið á réttindum þeirra.

Krafa um að tillit verði tekið til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar sé reist á lögum nr. 50/1988, en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

V

Niðurstaða

Óumdeilt er að stefnandi telst sjóðfélagi í Lífeyrissjóði bankamanna samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 669/1997. Skýra verður ákvæði reglugerðarinnar með hliðsjón af því að iðgjöld sjóðfélaga og mótframlög aðildarfyrirtækja renna og hafa runnið í sameiginlegan sjóð, þótt sá sjóður sé nú deildarskiptur samkvæmt 4. gr. reglugerðar sjóðsins. Iðgjöld þeirra sem á hverjum tíma greiða í sjóðinn hafa verið ávöxtuð með sama hætti. Sameignar og samtryggingareðli sjóðsins leiðir til þess að reglugerð sjóðsins verður á hverjum tíma að skýra með hliðsjón af því að hún tryggi sem best jafræði þeirra sjóðfélaga sem á hverjum tíma greiða í sjóðinn.

Við skýringar á reglugerðinni verður einnig að horfa til þess að á þeim tíma sem stefnandi greiddi í sjóðinn báru Landsbanki Íslands og Seðlabanki Íslands, sem þá voru báðir að öllu leyti í eigu ríkisins, ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Aðildarfyrirtæki að Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans hafa skuldbundið sig til að gera upp skuld sína við sjóðinn. Sú skuldbinding tekur til eldri skuldbindinga sjóðsins og þá væntanlega jafnt til skuldbindinga vegna sjóðfélaga sem hættir eru störfum og þeirra sem enn voru við störf 1. janúar 1998. Ábyrgð þessi hlýtur að taka til allra eldri skuldbindinga eins og þær verða skýrðar samkvæmt réttri túlkun á þeirri reglugerð sem nú er í gildi.

Um 1. kröfulið stefnanda

Þegar stefnandi lét af störfum í Seðlabankanum í ágúst 1980 var í gildi reglugerð frá 1. janúar 1978. Með breytingu á 1. mgr. 8. gr. þeirrar reglugerðar, sem tók gildi í maí 1980, var töflu um starfstíma og eftirlaun breytt þannig að hlutfall lífeyris varð 2% fyrir hvert starfsár að 30 ára marki og 3% á ári næstu fimm ár. Í 15. gr. reglugerðarinnar var kveðið á um að ef sjóðfélagi, sem verið hafi í sjóðnum lengur en 6 ár, hætti störfum fyrir 65 ára aldur af öðrum ástæðum gæti hann látið iðgjöld sín standa inni í sjóðnum. Hafi hann öðlast meira en 15 ára réttindi í sjóðnum miðuðust eftirlaun og makalífeyrir við laun eins og þau væru, þegar lífeyrisgreiðslur byrja. Í 22. gr. reglugerðarinnar var kveðið á um að ákvæði hennar tækju ekki til áfallinna skuldbindinga sjóðsins samkvæmt eldri reglugerðum.

Frá því að stefnandi lét af störfum hafa verið settar nýjar reglugerðir 1. janúar 1982 og aftur 1. janúar 1988 og höfðu þær að geyma sambærileg ákvæði um þau atriði sem hér skipta máli og reglugerðin frá 1978.

Í 36. gr. núgildandi reglugerðar er sömu reglu að finna, með undantekningum þó. Greinin hljóðar svo í heild sinni:

"Reglugerð þessi gildir frá 31. desember 1997. Ákvæði hennar taka ekki til áfallinna skuldbindinga sjóðsins gagnvart eldri reglugerðum. Þó skal við það miða að lágmarksiðgjaldatími til þess að öðlast verðtryggðan lífeyri sé 6 ár vegna réttinda sem mynduðust fyrir 1. janúar 1997. Einnig skal lífeyrisréttur þeirra sjóðfélaga sem hættir eru störfum hjá aðildarfyrirtækjum fyrir 1. janúar 1998 miðast við laun eftirmanns þeirra eins og þau voru 31. desember 1997 eigi sjóðfélagi verðtryggðan rétt til lífeyris hjá sjóðnum. Jafnframt skal allur lífeyrir, greiddur af sjóðnum eftir 31. desember 1997, sem nýtur verðtryggingar, verðtryggður með vísitölu neysluverðs, sbr. 3. mgr. 11. gr. og gildir það bæði um þá sem njóta lífeyris hjá sjóðnum á þeim tíma og þá sem taka mun lífeyri síðar".

Af 11., 15. og 36. gr. reglugerðar nr. 669/1997 leiðir að svokölluð eftirmannsregla, sem verið hafði í reglugerðum sjóðsins frá því áður en stefnandi lét af störfum, var felld úr gildi en í stað hennar tekin upp verðtrygging samkvæmt vísitölu neysluverðs. Fyrir sjóðfélaga sem hættir voru störfum fyrir 1. janúar 1998 var eftirmannsreglan þó felld niður með þeim hætti að miða skyldi við laun eftirmanns, eins og þau voru 31. desember 1997 en frá þeim degi skyldi taka við verðtrygging samkvæmt vísitölu neysluverðs. Stefnandi heldur því fram að þessi reglugerðarbreyting hafi ekki gildi gagnvart honum.

Af hálfu stefnanda var við munnlegan málflutning á því byggt að slíkir annmarkar hafi verið á undirbúningi að breytingu á reglugerðinni að hún hefði ekki gildi gagnvart honum. Af hálfu stefnda var þessari málsástæðu mótmælt sem of seint fram kominni. Í stefnu er ekki beinlínis vikið að undirbúningi reglugerðarinnar og ekki lögð fram gögn varðandi það atriði. Í greinargerðinni er hins vegar vikið að því hvernig standa skyldi að breytingum á reglugerð stefnda og hvernig aðferð við breytingar var breytt með reglugerð nr. 669/1997. Í fyrsta þinghaldi eftir að greinargerð var skilað af hálfu stefnda lagði lögmaður stefnanda fram í málinu bókun þar sem skorað var á stefnda að leggja fram gögn um fund í Eftirlaunasjóði Landsbankans og Seðlabankans þar sem samþykkt var sú breyting á reglugerð sjóðsins sem deilt er um í málinu. Af hálfu stefnda voru ekki bókuð nein mótmæli við þeirri áskorun og umbeðin gögn lögð fram í næsta þinghaldi. Á þessum gögnum, sem stafa frá stefnda, byggir stefnandi nú umrædda málsástæðu. Umrædd málsástæða raskar ekki grundvelli málsins og stefndi mátti, frá því að krafa kom fram um öflun umræddra gagna, vera ljóst að hún yrði höfð uppi í máli og hefur því gefist ráðrúm til að verjast henni. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að umrædd málsástæða sé nægjanlega snemma fram komin og verður á henni byggt í málinu.

Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans var samkvæmt 1. gr. reglugerðar sem gilti frá 1. janúar 1998 sjálfstæð stofnun með eigin stjórn. Aðildarfyrirtækin báru þó, samkvæmt 4. mgr. 5. gr., ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins í hlutfalli við aðild þeirra að sjóðnum, þar til eignir hans nægðu fyrir skuldbindingum hans. Sjóðurinn hafði áður starfað á grundvelli laga um Landsbanka Íslands nr. 10/1928 en eftir að þau lög féllu í gildi má segja að sjóðurinn hafi orðið samningsbundinn sjóður sem aðeins laut almennum lagaákvæðum um slíka sjóði. Eftirlaunasjóðurinn hafði um margt eðli sjálfseignarstofnunar og reglugerðir sjóðsins, sem staðfestar eru af fjármálaráðuneyti, eru í raun samþykktir hans.

Óumdeilt er hins vegar að framlög sjóðsfélaga í sjóðinn og mótframlög vinnuveitenda þeirra skapa sjóðfélögum lífeyrisréttindi sem talin hafa verið njóta verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar. Eftirlaunasjóðurinn ber því svip sérstakrar sameignar. Með hliðsjón af eðli sjóðsins verður því að gera strangar kröfur til þess hvernig staðið er að breytingum á reglugerðum og á það jafnt við um form og efni.

Undirskriftir til staðfestingar á reglugerð eftirlaunasjóðsins, sem var í gildi frá 1. janúar 1998, ber það með sér að hún var sett af bankaráðum Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands. Í 20. gr. reglugerðarinnar var kveðið á um að engar breytingar skyldu gerðar á henni án þess að áður hafi verið leitað álits fundar sjóðfélaga. Sambærileg ákvæði höfðu verið í fyrri reglugerðum lífeyrissjóðsins. Óumdeilt er að breytingar á reglugerðum sjóðsins komu oft frá sjóðsfélögum og að litið var svo á að þeim yrði ekki breytt nema með atbeina félagsfundar. Engin nánari ákvæði voru í reglugerðinni um hvernig standa skyldi að boðun fundar félagsmanna, um ályktunarbærni hans eða um það hvernig standa skyldi að atkvæðagreiðslu um breytingatillögur.

Sem fyrr segir var fyrst fjallað um tillögur þær að breytingum á reglugerð sjóðsins sem urðu að reglugerð nr. 669/1997 á fundi sjóðfélaga 29. janúar 1997. Í lok fundarins var borin fram og samþykkt með öllum atkvæðum tillaga um að fundinum yrði frestað þar til sjóðfélagar hefðu fengið í hendur samanburðarútreikning varðandi áhrif breytingar reglugerðar á eigin réttindi. Ekki liggur fyrir hvernig boðað var til þessa fundar og ekki kemur fram í fundargerð hversu margir sóttu fundinn.

Upplýst er í málinu að í kjölfar fundarins var starfandi sjóðfélögum sendir samanburðarútreikningar en ekki öðrum sjóðfélögum. Boðað var til framhaldsfundar í Háskólabíói 19. júní 1997 með tveimur auglýsingum sem birtust í Morgunblaðinu sunnudagana 8. og 15. júní 1997. Í auglýsingunni kemur m.a. fram að á fundi sjóðsfélaga 29. janúar 1997 hafi verið kynnt breytingartillaga við reglugerð sjóðsins og að tillagan yrði lögð fram til framhaldsumræðu og afgreiðslu. Þá kom fram að tillaga stjórnarinnar lægi frammi á skrifstofu sjóðsins, Bankastræti 7, 3. hæð. Á umræddum fundi var tillaga að nýrri reglugerð sjóðsins samþykkt. Í fundargerð kemur ekki fram hversu margir sjóðfélagar sóttu fundinn en af henni verður ráðið að þeir hafi verið á þriðja hundrað.

Tillagan um breytingu á reglugerð sjóðsins var borin undir fundinn í heild sinni og hún samþykkt. Í fundargerð segir um það að tillagan hafi verið samþykkt með handauppréttingu og meirihluta atkvæða. Í fundargerð kemur ekki fram að athugasemdir hafi verið gerðar við boðun fundarins, ályktunarbærni hans eða form atkvæðagreiðslu.

Þar sem engin ákvæði voru í reglugerð sjóðsins um hvernig boða skyldi til fundar sjóðfélaga verður að líta til almennra reglna félagaréttar um boðun félagsfunda. Skýrt kom fram í auglýsingunni að afgreiða ætti tillögu stjórnar sjóðsins um breytingar á reglugerð og því fullt tilefni fyrir alla sjóðfélaga sem létu sig breytingar á sjóðnum varða að sækja fundinn. Þá áttu sjóðfélagar þess kost að kynna sér efni breytingartillagna. Morgunblaðið er víðlesnasta dagblað landsins og telst sá háttur sem hafður var á boðun fundarins því uppfylla kröfur sem gera verður til boðunar slíks fundar.

Sem fyrr segir fékk stefnandi bréf frá sjóðnum 29. maí 1997 með yfirliti um iðgjaldagreiðslur. Enda þótt þar hafi ekki verið minnst á fyrirhugaðar breytingar á reglugerðum sjóðsins gat það ekki gefið stefnanda sérstakt tilefni til að ætla að ekki væru á döfinni breytingar sem vörðuðu eftirlaunarétt hans.

Ljóst er af ákvæðum í reglugerð þeirri sem gilti frá 1. janúar 1988, að sjóðfélagar voru taldir þeir sem tóku laun hjá aðildarbönkunum og skyldir voru til að greiða iðgjöld til sjóðsins, þeir sem á hverjum tíma nutu eftirlauna og örorkulífeyris úr honum svo og þeir sem höfðu áunnið sér rétt til lífeyris úr honum samkvæmt reglugerðinni. Stefnandi taldist til síðasta hópsins.

Sigtryggur Jónsson framkvæmdastjóri stefnda bar fyrir dómi að samanburðarútreikningar þeir sem fundur sjóðfélaga 29. janúar 1997 hefði samþykkt að yrði sendur sjóðfélögum hafi eingöngu verið sendir starfandi sjóðfélögum en ekki þeim sem áttu geymd réttindi í sjóðnum.

Kjartan Gunnarsson fyrrverandi formaður stjórnar stefnda bar fyrir dómi að samkvæmt orðalagi tillögu sem samþykkt var á fundi sjóðfélaga 29. janúar 1997 hefði átt að senda öllum sjóðfélögum samanburðarútreikning á réttindum þeirra fyrir og eftir gildistöku breytingar á reglugerð sjóðsins.

Samkvæmt þeirri tillögu sem samþykkt var á fundi sjóðfélaga 29. janúar 1997 þykir ljóst að stefnandi hefði átt að fá samanburðarútreikning varðandi áhrif breytingar á reglugerð á réttindi hans. Slíka samanburðarútreikninga fékk stefnandi ekki senda. Af hálfu stefnda hefur þetta verið skýrt með því að breytingarnar á reglugerðinni hafi ekki verið taldar til þess fallnar að hafa áhrif á þau réttindi sem stefnandi átti geymd í sjóðnum og því óþarfi að senda honum slíkan útreikning.

Telja verður að slíkur samanburðarútreikningur hefði ekki verið til þess fallinn að varpa ljósi á breytingar á réttindum stefnanda vegna afnáms eftirmannsreglunnar þar sem áhrifa breytinganna gat ekki farið að gæta fyrr en eftir gildistöku hennar og á þeim tíma með öllu óvíst hver áhrifin yrðu. Með tilliti til þess að ekkert var mælt fyrir um slíkan samanburðarútreikning í reglugerð sjóðsins verður ekki talið að umrædd vanræksla eigi að leiða til þess að ákvæði reglugerðarinnar teljist óskuldbindandi gagnvart stefnanda.

Fallast má á þau sjónarmið stefnanda að óvandaður háttur hafi verið hafður á atkvæðagreiðslu um breytingartillöguna og að betur hefði farið á að bera einstaka greinar upp til samþykktar og skrá niðurstöðu atkvæðagreiðslu. Þar sem engin fyrirmæli voru í reglugerð sjóðsins um slíka atkvæðagreiðslu og engar athugasemdir komu fram á fundinum þykir ekki vera um að ræða slíkan galla á afgreiðslu félagsfundar á breytingartillögunum að ákvæði reglugerðarinnar teljist óskuldbindandi gagnvart stefnanda af þeim sökum.

Enda þótt löglega boðaður félagsfundur sjóðfélaga hafi afgreitt tillögu að breytingum á reglugerð sjóðsins og raunar samþykkt hana tekur það ekki af öll tvímæli um að ákvæði hennar teljist skuldbindandi gagnvart stefnanda. Svo sem áður er fram komið nýtur réttur sem stefnandi hafði unnið sér til eftirlauna verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar eins og ákvæðinu var breytt með 10. gr. laga nr. 97/1995.

Þar sem óumdeilt er að ekki var staðið að breytingu á reglugerð sjóðsins með þeim hætti sem tilskilið er í 72. gr. stjórnarskrárinnar verður að taka til skoðunar hvort í reglugerðinni felist skerðing á stjórnarskrárvernduðum eignarréttindum stefnanda.

Fyrir liggur að Seðlabanki Íslands bar ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins hvað lífeyrisrétt stefnanda varðaði, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar sjóðsins sem tók gildi 1. janúar 1988. Í málinu liggur fyrir samkomulag um uppgjör á skuldbindingum aðildarfyrirtækja Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbanka og Seðlabanka gagnvart sjóðnum. Samkvæmt því skyldu aðildarfyrirtækin, eftir gildistöku reglugerðar nr. 669/1997, gera upp skuld sína við sjóðinn samkvæmt tryggingarfræðilegu mati, miðað við 31. desember 1997. Í samkomulaginu voru tilgreindar þær tryggingafræðilegu forsendur sem lágu til grundvallar uppgjörinu. Svo virðist því sem ábyrgð aðildarfyrirtækjanna sé enn til staðar gagnvart eldri skuldbindingum ef forsendur uppgjörsins breytast. Þar sem Seðlabanki Íslands er ríkisbanki ber íslenska ríkið því óbeina ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins gagnvart stefnanda. Má því fallast á með stefnanda að möguleg skerðing á réttindum hans verði ekki réttlætt með því að hún hafi verið óhjákvæmileg til þess að sjóðurinn fengi staðið undir skuldbindingum sínum.

 Stefndi hefur í málinu lagt fram útreikning tryggingarfræðings um hver hefði verið viðmiðunarfjárhæð eftirlauna stefnanda miðað við 31. desember 1997 ef núgildandi reglur um útreikning eftirlauna hefðu gilt frá því að stefnandi hætti störfum í Seðlabanka Íslands en ekki svokölluð eftirmannsregla. Umrædd viðmiðunarlaun eru reiknuð út frá tvenns konar forsendum, annars vegar meðaltali fastra launa stefnanda í 22 mánuði fyrir starfslok og hins vegar í 60 mánuði. Útreiknuð mánaðarlaun miðað við 22 mánuði eru 169.554 krónur en 154.424 krónur miðað við 60 mánuði. Laun eftirmanns stefnanda 31. desember 1997, sem eftirlaun hans taka mið af, voru hins vegar 192.847 krónur. Þessir samanburðarútreikningar sýna, að á þeim sautján árum sem liðin eru frá því að stefnandi hætti störfum hafa laun fyrir sambærilegt starf og stefnandi gegndi síðast hækkað meira en vísitala neysluverðs. Útreikningarnir veita aðeins vísbendingu en ekki sönnun fyrir því að sú þróun haldi áfram fram til þess tíma sem stefnandi hefur töku eftirlauna eða eftir það.

Telja verður að umrædd breyting á reglugerð feli í sér breytingu á aðferð til að verðtryggja rétt sjóðfélaga en breyti í raun ekki þeim eftirlaunaréttindum sem þeir áttu í sjóðnum 31. janúar 1997. Fallast má á með stefnda að málefnaleg rök standi til þess að taka upp annað verðtryggingarkerfi en eftirmannsregluna þar sem stefndi hefur gert sennilegt að örar breytingar á starfsumhverfi og verkefnum bankastarfsmanna leiði til þess að sífellt erfiðara reynist að finna sambærileg störf til að miða eftirlaun samkvæmt eftirmannsreglunni við. Þá gengur breytingin á reglugerðinni tiltölulega jafnt yfir alla þar sem eftirmannsviðmiðun var látin halda sér til 31. desember 1997. Einnig má geta þess að samkvæmt 5. gr. reglugerðar stefnda skal stjórn sjóðsins árlega láta tryggingafræðing rannsaka fjárhag hans. Leiði rannsóknin í ljós að misræmi hafi myndast milli eigna og skuldbindinga einstakra deilda skal áunnum lífeyrisréttindum sjóðfélaga breytt að fengnum tillögum tryggingarfræðings þannig að jöfnuður verði milli eigna og skuldbindinga. Af þessu ákvæði verður sú ályktun dregin að takist stjórn sjóðsins vel upp með ávöxtun sjóðsins nýtur stefnandi góðs af því til jafns við aðra þá sem tilheyra sömu deild í sjóðnum.

Stefnandi hefur ekki lagt fram gögn því til stuðnings að afnám eftirmannsreglunnar muni sannanlega skerða eftirlaunaréttindi hans frá því sem þau voru samkvæmt fyrri reglugerð og ekki þykir rétt að leggja sönnunarbyrði á stefnda fyrir hinu gagnstæða.

Samkvæmt framansögðu þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að breytingar á reglugerðinni frá svokallaðri eftirmannsreglu til verðtryggingar lífeyrisréttinda samkvæmt vísitölu neysluverðs, sem samþykkt var á fundi sjóðfélaga, sé byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum eða til þess fallin að skerða réttindi hans til eftirlauna með þeim hætti að brjóti gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Verður því ekki fallist á með stefnanda að ákvæði 36. gr. reglugerðar nr. 669/1997 sé ólögmætt gagnvart honum.

Um 2. kröfulið

Stefnandi hefur aðallega gert kröfu um að viðurkennt verði með dómi að hann hafi áunnið sér lífeyrisréttindi sem svari til 41,5% af launum sem á hverjum tíma fylgja því starfi sem hann gegndi síðast hjá Seðlabanka Íslands. Í greinargerð stefnda er fallist á þessa kröfu að hluta með því að viðurkennt er að stefnandi hafi unnið sér til lífeyrisréttinda sem svari til 41,5% af þeim launum, sem eftirmaður hans hafði 31. desember 1997. Af hálfu stefnanda er á því byggt að frá þeim degi njóti umrædd lífeyrisréttindi stefnanda verðtryggingar samkvæmt vístölu neysluverðs. Með hliðsjón af þeim rökum sem færð eru fyrir framangreindri niðurstöðu, um að ákvæði 36. gr. reglugerðar nr. 669/1997 teljist ekki ólögmæt gagnvart stefnanda, verður ekki fallist á að hann eigi eftir gildistöku reglugerðarinnar rétt á að fá viðurkennd lífeyrisréttindi sem taki mið af launum eftirmanns eins og þau eru eftir 31. desember 1997. Ljóst er að sá hluti aðalkröfu stefnanda sem stefndi hefur viðurkennt gengur skemur en varakrafa stefnanda. Með hliðsjón af því hvernig stefnandi setur fram aðal- og varakröfu ber að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda samkvæmt 2. kröfulið.

Stefnandi gerir þá varakröfu, að viðurkennt verði að áunnin lífeyrisréttindi hans í Lífeyrissjóði bankamanna nemi 44,09375% af launum eftirmanns í því starfi sem hann gegndi síðast hjá Seðlabanka Íslands, eins og þau voru 31. desember 1997, sem verðbætist með vísitölu neysluverðs frá þeim degi fram til útborgunar ellilífeyris samkvæmt reglugerð sjóðsins nr. 669/1997. Varakrafan miðast við að stefnandi eigi að njóta þess hlutfalls lífeyris af launum sem tekið var upp með 11. gr. reglugerðar nr. 669/1997 eða 2.125% fyrir hvert ár sem hann greiddi í sjóðinn.

Meginreglan hlýtur að vera sú að sjóðfélagar ávinni sér rétt til lífeyris úr lífeyrissjóði í samræmi við þær reglur sem sjóðurinn starfar eftir á hverjum tíma. Samkvæmt því ættu þeir starfsmenn sem hófu störf á sama tíma að ávinna sér sambærileg lífeyrisréttindi vegna þess tíma sem þeir voru báðir við störf nema reglugerðir sjóðsins hafi að geyma skýrar reglur um annað og mismununin styðjist við málefnaleg rök.

Í 15. gr. reglugerðar nr. 669/1997 er kveðið á um rétt sjóðfélaga sem hætta störfum af öðrum ástæðum en elli eða örorku. Segir þar að ellilífeyrir sjóðfélaga sem svo stendur á um, örorkulífeyrir hans og lífeyrir eftirlifandi maka og barna miðist við 11.-14. gr. og taki breytingu samkvæmt vísitölu neysluverðs frá þeim tíma. Í 11. gr. er fjallað um hlutfall lífeyris af launum og segir þar m.a. svo:

"Hver sjóðfélagi sem lætur af starfi og hefur greitt iðgjald til sjóðsins og orðinn er 65 ára að aldri á rétt á árlegum eftirlaunum úr sjóðnum í hlutfalli við iðgjaldagreiðslutíma. Upphæð lífeyris er hundraðshluti af launum fyrir fullt starf í þeirri stöðu sem sjóðfélaginn gegndi síðustu fimm árin og skal endurmeta laun fyrstu fjögurra áranna til verðlags á því síðasta með vísitölu neysluverðs. Skulu eftirlaunin nema 2,125% fyrir hvert iðgjaldagreiðsluár í fullu starfi..."

Í síðustu reglugerðum sjóðsins hafa verið samsvarandi tilvísanir milli ákvæðis um rétt sjóðfélaga sem hætta störfum og ákvæðis um hlutfall lífeyris af launum. Af hálfu stefnda er því haldið fram að samsvarandi ákvæði og upphafsákvæði 36. gr., þess efnis að ákvæði nýrrar reglugerðar tækju ekki til áfallinna skuldbindinga samkvæmt eldri reglugerðum, hafi ávallt verið skilin og framkvæmd þannig að hlutfall lífeyris af launum ætti að reikna á grundvelli þeirrar reglugerðar sem í gildi var þegar viðkomandi sjóðfélagi lét af störfum og hætti að greiða iðgjöld í sjóðinn. Sjóðfélagar sem hættir væru störfum, hvort sem er vegna aldurs, örorku eða af öðrum orsökum, gætu því ekki byggt rétt til eftirlauna á reglugerð sem tekið hefði gildi eftir starfslok þeirra. Af hálfu stefnda er því haldið fram að aðildarfyrirtækjum sjóðsins væri heimilt að semja við starfandi sjóðfélaga um hækkun á hlutfalli lífeyris af launum, einnig fyrir liðinn starfstíma.

Eins og fyrr segir er í 15. gr. reglugerðar sjóðsins, sem fjallar um rétt sjóðfélaga sem hætta störfum af öðrum ástæðum en elli og örorku, og sambærilegum ákvæðum eldri reglugerða, alfarið vísað til 11. gr. hvað varðar hlutfall lífeyris af launum. Í 11. gr. kemur skýrt fram að eftirlaun skuli vera 2,125% fyrir hvert iðgjaldagreiðsluár. Í þessum reglugerðarákvæðum er ekki að finna neina sérreglu, undantekningu eða fyrirvara um að hlutfall lífeyris þeirra sem eiga geymd réttindi í sjóðnum og hefja töku lífeyris 65 ára eigi að vera annað en þeirra sem starfa hjá aðildarfyrirtæki sjóðsins til 65 ára aldurs.

Ljóst  er að 11. gr. reglugerðarinnar er ekki í fullu samræmi við upphafsákvæði 36. gr. reglugerðarinnar. Fyrir liggur að stjórn stefnda túlkar reglugerðina svo að 11. gr. gangi framar 36. gr., þannig að sá sem lætur af starfi eftir gildistöku reglugerðarinnar, greitt hefur iðgjald til sjóðsins og orðinn er fullra 65 ára eigi rétt á 2,125% eftirlaunum fyrir hvert starfsár í fullu starfi, einnig vegna þeirra ára þegar réttindahlutfallið var lægra. Fallast má á þessa túlkun stefnda á reglugerðinni. Stefndi túlkar reglugerðina jafnframt á þann hátt, að þeir sem hættir voru störfum fyrir gildistöku reglugerðarinnar en hefja töku lífeyris eftir þann tíma, eigi ekki rétt á að lífeyrir þeirra taki mið af 11. gr. Með vísan til 15. gr. reglugerðarinnar verður hins vegar ekki séð að þessi túlkun stefnda eigi næga stoð í henni sjálfri.

Stefndi hefur m.a. fært þau rök fyrir umræddri mismunun að aðildarfyrirtæki sjóðsins greiði mun hærra hlutfall af launum sjóðfélaga í iðgjöld til sjóðsins en áður var og því sé heimilt að umbuna þeim sjóðfélögum sem enn séu í starfi með því að veita þeim hærra réttindahlutfall en þeir njóti sem hættir séu störfum. Ekkert er fram komið í málinu um að þessi hækkun framlaga aðildarfyrirtækja eigi að standa undir eldri skuldbindingum sjóðsins vegna starfsmanna sem enn eru við störf. Eldri skuldbindingar hafa aðildarfyrirtækin lofað að gera upp samkvæmt sérstöku samkomulagi. Vegna sameignareðlis sjóðsins og þar sem framlög sjóðfélaga og atvinnurekenda í fortíðinni hafa væntanlega ávaxtast jafnt, verður við það uppgjör að gæta jafnræðis milli sjóðfélaga sem enn eru við störf og hinna sem hættir eru störfum en eiga geymd réttindi. Framangreind röksemd stefnda fær því eingöngu staðist hvað varðar tímabilið eftir að reglugerðin tók gildi og rennir ekki stoðum undir þá skýringu á reglugerðinni sem stefndi heldur fram.

Þá má enn nefna að í áður tilvitnaðri 5. gr. reglugerðar nr. 669/1997 er kveðið á um að stjórn sjóðsins skuli árlega láta tryggingafræðing rannsaka fjárhag hans. Leiði rannsóknin í ljós að misræmi hafi myndast milli eigna og skuldbindinga einstakra deilda skal áunnum lífeyrisréttindum sjóðfélaga breytt að fengnum tillögum tryggingarfræðings þannig að jöfnuður verði milli eigna og skuldbindinga. Af þessu ákvæði er ljóst að hækkun réttindaprósentu til handa starfandi sjóðfélögum í þeirri deild sjóðsins sem stefnandi tilheyrir, vegna starfstíma þeirra fyrir 1998, hlýtur að minnka líkurnar á að eignir sjóðsins vaxi umfram skuldbindingar þannig að réttindum stefnanda verði breytt til hækkunar. Felur túlkun stefnda á reglugerðinni því í sér skerðingu á réttindum stefnanda og mismunun sjóðfélaga sem stefnda þykir ekki hafa tekist að réttlæta.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða og með hliðsjón af jafnræðissjónarmiðum, sem leiða má af eðli stefnda sem sameignarlífeyrissjóðs, verður að telja að skýrlega hefði þurft að kveða á um það í gildandi reglugerð sjóðsins ef önnur regla átti að gilda um réttindahlutfall starfandi sjóðfélaga en þeirra sjóðfélaga sem hættir voru störfum fyrir gildistöku reglugerðarinnar og höfðu ekki hafið töku lífeyris. Þar sem slík mismunun verður ekki með óyggjandi hætti lesin úr úr reglugerðinni sjálfri þykir stefnandi því hafa áunnið sér lífeyrisrétt samkvæmt varakröfu sinni á grundvelli 11., 15. og 36. gr. reglugerðar nr. 669/1997. Ber því að taka varakröfu stefnanda samkvæmt 2. kröfulið til greina.

Með vísan til úrslita málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af lögmannsþóknun.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Ragnar H. Hall hrl. en Jakob R. Möller hrl. af hálfu stefnda.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Lífeyrissjóður bankamanna, skal vera sýkn af kröfu stefnanda, Sigmundar Andréssonar um, að viðurkennt verði með dómi, að eftirfarandi ákvæði í 36. gr. reglugerðar nr. 669/1997 fyrir Lífeyrissjóð bankamanna:

"Einnig skal lífeyrisréttur þeirra sjóðfélaga sem hættir eru störfum hjá aðildarfyrirtækjum fyrir l. janúar 1998 miðast við laun eftirmanns þeirra eins og þau voru 31. desember 1997 eigi sjóðsfélagi verðtryggðan rétt til lífeyris hjá sjóðnum. Jafnframt skal allur lífeyrir, greiddur af sjóðnum eftir 31. desember 1997, sem nýtur verðtryggingar, verðtryggður með vísitölu neysluverðs, sbr. 3. mgr. 11. gr., og gildir það bæði um þá sem njóta lífeyris hjá sjóðnum á þeim tíma og þá sem taka munu lífeyri síðar", séu ólögmæt gagnvart stefnanda.

Stefndi skal ennfremur vera sýkn af kröfu stefnanda um að, viðurkennt verði með dómi, að stefnandi hafi áunnið sér lífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði bankamanna sem svari til 41,5% af launum sem á hverjum tíma fylgja því starfi sem hann gegndi síðast hjá Seðlabanka Íslands.

Fallist er á varakröfu stefnanda um viðurkenningu á því, að áunnin lífeyrisréttindi hans í Lífeyrissjóði bankamanna nemi 44,09375% af launum eftirmanns hans í því starfi sem hann gegndi síðast hjá Seðlabanka Íslands, eins og þau voru 31. desember 1997, sem verðbætist með vísitölu neysluverðs frá þeim degi fram til útborgunar ellilífeyris samkvæmt reglugerð sjóðsins nr. 669/1997.

Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.