Hæstiréttur íslands
Mál nr. 653/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 4. janúar 2007. |
|
Nr. 653/2006. |
D A B og C (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn E (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) |
Kærumál. Lögræði. Aðfinnslur.
D og eiginkona hans, A, ásamt tveimur börnum þeirra, kröfðust þess að felld yrði niður fjárræðissvipting D, á grundvelli 15. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Eins og dómkröfum og málatilbúnaði þeirra var háttað varð að leggja til grundvallar að D hefði með gildum hætti verið sviptur fjárræði með úrskurði héraðsdóms 16. janúar 2006 og að sú ákvörðun væri ekki til endurskoðunar. Þá var ekki talið að þau hefðu sýnt fram á að skilyrði 15. gr. lögræðislaga væru uppfyllt svo að verða mætti við kröfu þeirra. Var henni því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. desember 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella niður fjárræðissviptingu sóknaraðilans D, sem ákveðin var með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 16. janúar 2006. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreind fjárræðissvipting verði felld niður. Þá krefjast þau þóknunar skipaðs talsmanns þeirra úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þóknunar skipaðs talsmanns hans úr ríkissjóði.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði deila málsaðilar um hvort skilyrði séu til að fella fjárræðissviptingu sóknaraðilans D 16. janúar 2006 úr gildi með heimild í 15. gr. lögræðislaga. Sóknaraðilar hafa í málflutningi sínum talið að ekki hafi verið skilyrði til að svipta D fjárræði þegar fallist var á kröfu varnaraðila þar að lútandi með úrskurðinum 16. janúar 2006. Þá hafa þau gert athugasemdir við meðferð þess máls, meðal annars um að beiðni varnaraðila hafi ekki uppfyllt þá kröfu sem fram kemur í f. lið 1. mgr. 8. gr. lögræðislaga um að upplýsingar séu veittar um nöfn og heimilisföng maka og lögráða barna þess sem krafa beinist að. Hafi sóknaraðilarnir A, B og C ekkert vitað um málið fyrr en A hafi borist tilkynning frá sýslumanninum í Kópavogi 7. febrúar 2006 um úrskurðinn, en þá hafi kærufrestur verið útrunninn. Ennfremur hafa sóknaraðilar talið að læknisvottorðs, sem sagt er að varnaraðili hafi látið fylgja beiðni sinni, hafi verið aflað með ólögmætum hætti og vísa um það efni til 10. gr. læknalaga nr. 53/1988. Telja þau ennfremur að dómari sem fór með málið hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu samkvæmt lögræðislögum áður en hann kvað upp úrskurðinn. Þrátt fyrir þennan málflutning hafa engin gögn verið lögð fram í þessu máli um meðferð málsins sem lauk með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 16. janúar 2006, hvorki beiðni varnaraðila, vottorð Hallgríms Magnússonar læknis, sem sagt er hafa fylgt beiðninni, endurrit dómskýrslu hans, né úrskurðurinn sjálfur. Eins og dómkröfum og málatilbúnaði sóknaraðila er háttað verður samkvæmt framansögðu lagt til grundvallar í þessu máli að sóknaraðilinn D hafi með gildum hætti verið sviptur fjárræði með úrskurðinum 16. janúar 2006 og sé sú ákvörðun ekki til endurskoðunar.
Til þess að koma fram kröfu um niðurfellingu fjárræðissviptingar samkvæmt 15. gr. lögræðislaga verður sá sem kröfu gerir að sýna nægilega fram á að sá maður sem í hlut á sé fær um að ráða sjálfur fé sínu. Við fyrirtöku málsins 26. september 2006 var bókað um frest „til dómkvaðningar matsmanns“. Við næstu fyrirtöku 11. október 2006 var lögð fram skrifleg beiðni sóknaraðila um öflun vottorða. Var þess þar farið á leit við héraðsdómara að hann „hlutist til um öflun vottorða hæfra og óvilhallra aðila um hæfni [D] til að ráða fjármálum sínum og eignum með aðstoð og atbeina eiginkonu sinnar ...“. Var gerð sú krafa „að dómarinn leiti ekki aðeins til læknis eða lækna heldur einnig til annarra fagaðila svo sem lögmanns eða annarra aðila, sem geta metið hæfi [D] til að fara með eignir sínar og fjármál með þeim sem honum standa næst.“ Um beiðni þessa var vísað til 2. mgr. 11. gr. lögræðislaga, þar sem gert er ráð fyrir að dómari geti sjálfur aflað sönnunargagna í máli af þessu tagi, sbr. 4. mgr. 15. gr. sömu laga. Á dómþinginu var svo bókað að ákveðið væri „að dómari tæki að sér að fá sérfræðinga til þess að leggja mat á hæfi sóknaraðila [D] til þess að fá endurveitingu fjárræðis.“
Þann 12. október 2006 skrifaði héraðsdómari bréf til sama læknis og gefið hafði vottorð um sóknaraðilann D við meðferð fjárræðissviptingarmálsins. Sagði í bréfinu að þess væri farið á leit við lækninn „að fá í hendur nýtt læknisvottorð varðandi það hvort aðstæður hans hafi breyst frá því sem greinir í vottorði yðar frá 10. nóvember 2005 og kom fram í framburði yðar fyrir dómi.“ Í svarbréfi læknisins 6. nóvember 2006 er sagt að D hafi verið skoðaður þann dag á sama hátt og gert hafi verið þegar vottorðið 10. nóvember 2005 hafi verið skrifað. Helstu niðurstöður séu þær að vitræn geta sé svipuð og fyrr. Hann eigi erfitt með að tjá sig, að nokkru vegna Parkinsons einkenna og vegna málstols. Hann sé ekki „áttaður í tíma en þokkalega áttaður á stað.“ Hann eigi erfitt með að meðhöndla tölur, geti reiknað mjög einföld dæmi en ekki þau flóknari meðal annars vegna þess hve skammtímaminni sé lélegt. Niðurstaðan er sú að ástand D „hvað snertir vitræna getu er við skoðun í dag mjög svipað því sem var lýst í vottorði frá 10. nóvember 2005.“ Bréf dómarans og svar læknisins voru lögð fram við munnlegan flutning málsins 30. nóvember 2006. Ekkert var þá bókað um að sóknaraðilar teldu annmarka á þessari gagnaöflun dómarans og hafa engar athugasemdir af þeirra hálfu verið gerðar við hana við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Sóknaraðilar hafa heldur ekki lagt fram í málinu önnur læknisfræðileg gögn til sönnunar á hæfni D til að annast um fjármál sín.
Með vísan til þess sem að framan greinir hafa sóknaraðilar ekki sýnt fram á að skilyrði 15. gr. lögræðislaga séu uppfyllt svo að verða megi við kröfu þeirra um að fella niður umrædda fjárræðissviptingu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Samkvæmt 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðra talsmanna málsaðila úr ríkissjóði svo sem nánar greinir í dómsorði.
Það athugist að meðferð málsins í héraði tók lengri tíma en þörf var á, sbr. 2. og 6. mgr. 10. gr. og 4. mgr. 15. gr. lögræðislaga, og úrskurður var ekki kveðinn upp á þeim fresti sem greinir í 2. mgr. 12. gr., sbr. 15. gr. laganna. Er þetta aðfinnsluvert.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðra talsmanna málsaðila, hæstaréttarlögmannanna Sigurðar G. Guðjónssonar og Guðjóns Ármanns Jónssonar, greiðist úr ríkissjóði, 150.000 krónur til hvors þeirra.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. desember 2006.
Héraðsdómi bárust tvær kröfur varðandi mál þetta. Var sú fyrri frá þremur fyrsttöldum sóknaraðilum móttekin þann 19. apríl 2006 en sú seinni frá síðasttöldum sóknaraðila móttekin 27. júlí 2006. Voru málin sameinuð í þinghaldi þann 21. september 2006 á þann hátt að hið síðara sem fékk skráningarnúmerið L-17/2006 var sameinað hinu fyrra.
I.
Sóknaraðilar, A [kt.], B [kt.] og C [kt.] eru eiginkona og tvö barna sóknaraðilans og D, [kt.] en varnaraðili E [kt.] er sonur sóknaraðilans D sem er vistmaður í [...]. Krefjast sóknaraðilar þess að felld verði niður að öllu leyti ótímabundin fjárræðissvipting sóknaraðilans D samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 16. janúar 2006.
Varnaraðili krefst þess að beiðni um endurveitingu fjárræðis verði synjað.
II.
Sóknaraðilar, A, B og C byggja á því að sjúkdómur D hafi ekki leitt til þess enn sem komið er, að hann geti ekki í samráði við konu sína og og þá sem staðið hafa honum næst í veikindum hans, farið með fjármál þeirra hjóna hér eftir sem hingað til. Sóknaraðilinn, D, bendir á að þrátt fyrir að hann sé haldinn Parkinsons sjúkdómi þá telji hann sig og eiginkonu sína fullfær um að sjá um fjármál þeirra sjálf, eins og þau hafi gert áfallalaust alla þeirra hjúskapartíð frá árinu 1963. Fjárræðissvipting hans valdi honum auknum kostnaði og geri eiginkonu hans óhægt um vik varðandi fjármál þeirra. Af hálfu sóknaraðilja er því lýst að krafa þeirra sé gerð á grundvelli 15. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Varnaraðili heldur því fram að sömu ástæður séu enn fyrir hendi eins og voru þann dag er sóknaraðilinn D var sviptur fjárræði. Það standi uppá sóknaraðila að leggja fram gögn er sanni að aðstæður séu breyttar.
III.
Í þinghaldi þann 26. september voru af hálfu sóknaraðilja lögð fram bréf F flugstjóra og G verkfræðings sem fjalla um samskipti þeirra við D eftir að hann var sviptur fjárræði. Það er mat dómara að slík bréf geti ekki verið gögn sem sanni breyttar aðstæður er nægi til niðurfellingar fjárræðissviptingarinnar, fleira þurfi til að koma. Lögræðissvipting sú sem hér er krafist niðurfellingar á er byggð á læknisvottorði og framburði Hallgríms Magnússonar öldrunargeðlæknis fyrir dómi. Talið var með því í ljós leitt að D væri andlega vanheill og ófær um að annast eigin fjármál. Var hann af þessum sökum með vísan til a-liðar 4. gr. lögræðislaga sviptur fjárræði ótímabundið. Í ofangreindu þinghaldi var málinu frestað til dómkvaðningar matsmanns en í þinghaldi þann 11. október var fallið frá þeirri fyrirætlan og lagði lögmaður sóknaraðilja fram beiðni til dómara um öflun vottorða. Af því tilefni sendi dómari áðurnefndum Hallgrími Magnússyni öldrunargeðlækni bréf þann 12. s.m. og óskaði eftir nýju læknisvottorði varðandi það hvort aðstæður D hefðu eitthvað breyst frá því sem fram hafði komið í fyrra vottorði frá 10. nóvember 2005. Barst dómara umbeðið vottorð dagsett 6. nóvember 2006 sem lagt var fram í dóminum. Var niðurstaða læknisins að ástand D hvað varði vitræna getu væri mjög svipað því sem lýst var í fyrra vottorði frá 10. nóvember 2005. Taldi dómari í ljósi þess að læknir sá sem hann fékk vottorð frá er auk þess að vera sérfróður í öldrunargeðlækningum starfandi við þá stofnun þar sem D nýtur umönnunar þá hafi hann tryggt að málið væri nægjanlega upplýst fyrir úrskurð eins og honum er skylt samkvæmt 1. mgr. 11. gr. lögræðislaga. Taldi dómari því ekki þörf á því að afla vottorða annarra fagaðila. Í þinghaldi 30. nóvember var upplýst að dómari hefði haft samband við Hallgrím Magnússon öldrunargeðlækni og innt hann eftir því hvort það hefði þýðingu að kalla D fyrir dóm og að læknirinn hafi talið það tilgangslaust vegna þess að D gæti ekki tjáð sig. Lýstu lögmenn málsaðilja því yfir að þeir væru dómara sammála um að óþarft væri og tilgangslaust að taka dómskýrslu af D eins og ráð er fyrir gert 2. mgr. 11. gr. lögræðislaga. Dómari bendir á að fjárræði D sé bundið persónu hans með þeim hætti að enginn geti verið til þess bær að fara með það með honum eins og ráðagerð er um í báðum beiðnunum um niðurfellingu fjárræðissviptingarinnar.
Af því sem nú hefur verið rakið telur dómari það nægilega í ljós leitt að þær ástæður sem lágu til grundvallar fjárræðissviptingar D með úrskurði þann 16. janúar 2006 séu enn fyrir hendi. Verður því kröfu sóknaraðilja um niðurfellingu lögræðissviptingar hafnað.
Fyrir liggur að D hefur verið skipaður lögráðamaður í samræmi við 52. gr. lögræðislaga.
Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, sbr. 17. gr. lögræðislaga, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðilja, Sigurðar G. Guðjónssonar hrl. og þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Guðmundínu Ragnarsdóttur, 130.000 krónur til hvors um sig að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Hafnað er kröfum sóknaraðilja A, B, C og D um niðurfellingu lögræðissviptingar D sem sviptur var fjárræði með úrskurði héraðsdóms Reykjaness þann 16. janúar 2006.
Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sigurðar G. Guðjónssonar hrl. og þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Guðmundínu Ragnarsdóttur hdl., 130.000 krónur til hvors um sig og er virðisaukaskattur innifalinn.