Hæstiréttur íslands
Mál nr. 25/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísun
|
|
Þriðjudaginn 12. febrúar 2008. |
|
Nr. 25/2008. |
Sif ehf. (Guðmundína Ragnarsdóttir hdl.) gegn Flugfélagi Vestmannaeyja ehf. (Jóhannes karl Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarákvæði fellt úr gildi.
Ekki var fallist á með héraðsdómi að nánar tilgreindur hluti kröfu S ætti að sæta frávísun vegna vanreifunar, í máli sem að öðru leyti lauk með efnisdómi. Því var lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfuna til munnlegs málflutnings og dómsálagningar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Suðurlands 21. desember 2007 þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila um greiðslu kostnaðar vegna flugvélarskoðunar. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka framangreinda kröfu hans til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að framangreint ákvæði héraðsdóms verði staðfest. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Eins og rakið er nánar í héraðsdómi leigði varnaraðili flugvél af sóknaraðila. Upphaflegur leigusamningur mun hafa verið gerður á árinu 2003 og var vélinni skilað aftur til sóknaraðila í september það ár. Varnaraðili tók vélina aftur á leigu með leigusamningi 24. júní 2004 og var vélinni skilað í janúar 2005. Mun flugvélin hafa verið að einhverju leyti í notkun á vegum sóknaraðila eftir að henni var skilað í síðara sinnið allt þar til hún fór í reglubundna ársskoðun um mánaðarmótin ágúst/september 2005. Við þá ársskoðun komu í ljós skemmdir sem gera þurfti við og mun viðgerðin hafa tekið nokkurn tíma af ástæðum sem nánar er gerð grein fyrir í héraðsdómi.
Í leigusamningnum 24. júní 2004 kemur meðal annars fram að vélinni verði „skilað skoðaðri og ný útskrifaðri úr þeirri skoðun“ sem næst eigi við. Virðist óumdeilt að þegar sóknaraðili fékk flugvélina til baka í janúar 2005 hafi henni verið flogið 10 flugtíma frá síðustu skoðun og hafi því verið eftir 40 flugtímar að svokallaðri 50 tíma skoðun. Í lýsingu málsatvika í héraðsdómi er fullyrt að samkomulag hafi náðst með aðilum um að vegna þessa bæri varnaraðila aðeins að greiða 20% af kostnaði við umrædda 50 tíma skoðun flugvélarinnar. Ekki verður séð að síðastnefnd fullyrðing í héraðsdómi eigi sér stoð í málatilbúnaði aðila eða öðrum gögnum málsins. Verður ekki annað séð en að varnaraðili byggi á því að slíkt samkomulag hafi náðst en gegn mótmælum sóknaraðila.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að krafa sóknaraðila um greiðslu skoðunargjalds væri vanreifuð og rökstuddi þá niðurstöðu meðal annars með vísan til efnis þess samkomulags sem hann ranglega taldi hafa komist á milli aðila.
Krafa sóknaraðila um greiðslu skoðunargjaldsins er byggð á ákvæði framangreinds leigusamnings um að umræddri flugvél skyldi skilað nýútskrifaðri úr þeirri skoðun sem næst ætti við, en óumdeilt er að varnaraðili lét ekki skoða flugvélina áður en hann skilaði henni. Telur sóknaraðili að varnaraðila beri að greiða allt skoðunargjaldið í samræmi við ákvæði samningsins en varnaraðili byggir á því að komist hafi á munnlegur samningur um að hann greiddi aðeins 20% af gjaldinu. Sóknaraðili hefur til stuðnings framangreindri kröfu vísað til reiknings sem hann hefur lagt fram í málinu um greiðslu skoðunargjalds til nafngreinds verkstæðis. Verður því ekki annað séð en að grundvöllur kröfunnar sé nægilega skýr til að dómi verði lokið á hana. Verður kið kærða frávísunarákvæði héraðsdóms því fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka þennan þátt málsins til efnislegrar úrlausnar í kjölfar munnlegs málflutnings.
Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hið kærða ákvæði héraðsdóms um frávísun dómkröfu sóknaraðila, Sifjar ehf., á hendur varnaraðila, Flugfélagi Vestmannaeyja ehf., um greiðslu kostnaðar vegna flugvélarskoðunar, er fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til munnlegs málflutnings og álagningar dóms.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 21. desember 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. nóvember s.l., er höfðað með stefnu birtri 18. október 2006.
Stefnandi er Sif ehf., [kt.], Fluggörðum 26, Reykjavík.
Stefndi er Flugfélag Vestmannaeyja, [kt.], Hrauntúni 57, Vestmannaeyjum.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 2.151.045 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. febrúar 2006 til greiðsludags og málskostnað að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara er krafist lækkunar á stefnukröfum. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt reikningi.
Málavextir.
Málsatvik eru þau að í eigu stefnanda er flugvél af gerðinni Partenavia P-68B, árgerð 1976 og mun stefndi hafa tekið vélina á leigu 31. júlí 2003 en hún bar þá skráningarmerkið TF-JVI. Mun vélin þá hafa verið nýkomin úr mjög viðamikilli og dýrri skoðun hjá viðurkenndu JAR 145 verkstæði. Stefndi heldur því fram að mikið hafi verið um bilanir á vélinni sem rekja mætti til notkunarleysis, en hún hafi þá verið búin að standa í langan tíma. Vélinni mun hafa verið skilað til stefnanda 24. september 2003 og mun stefnandi ekki hafa gert athugasemdir við móttöku vélarinnar. Stefnandi mun hafa breytt skráningarmerkjum vélarinnar í TF-TOA veturinn 2003-2004 og segir stefndi að vélinni hafi nær ekkert verið flogið þangað til stefndi tók hana aftur á leigu 24. júní 2004 og var þá skráningu vélarinnar breytt í TF-VEB. Í leigusamningi aðila var leigutími ótilgreindur en uppsegjanlegur með 30 daga fyrirvara af beggja hálfu. Fram kemur í samningnum að allt stærra viðhald og óeðlilegt slit á vélinni sem rekja megi til notkunarleysis síðustu missera sé á ábyrgð leigusala. Þá kemur fram að farið verði yfir vélina með leigusala til að meta ástand einstakra hluta og teknar verði myndir sem aðilar geymi. Þá er ákvæði um að vélinni verði skilað skoðaðri og nýútskrifaðri úr þeirri skoðun sem næst eigi við. Að leigutíma loknum verði farið yfir vélina með leigusala til að meta ástand hennar. Í upphafi var samið um fasta mánaðarleigu en haustið 2004 munu aðilar hafa komist að samkomulagi um að aðeins yrði greitt fyrir flugtíma.
Stefndi mun hafa skilað stefnanda vélinni í janúar árið 2005 og urðu aðilar ásáttir um að þar sem vélinni hefði einungis verið flogið 10 tíma inn á næstu skoðun myndi stefndi greiða 20% af kostnaði við þá skoðun. Munu forsvarsmenn aðila hafa ákveðið að hittast fljótlega eftir skil vélarinnar til að semja um þetta, en ekki mun hafa orðið af fundi þeirra. Við skil vélarinnar mun flugmaður á vegum stefnda hafa flogið vélinni til Reykjavíkur og var flugvirki á vegum stefnda viðstaddur þegar stefnandi kannaði ástand vélarinnar við móttöku. Segir stefnandi að sést hafi verulegar skemmdir utan á skrokk vélarinnar við nefhjól sem hann hafi gert athugasemdir við. Stefnandi mun hafa tilkynnt um tjónið til Tryggingamiðstöðvarinnar 21. janúar 2005 og þann dag mun tjónaskoðunarmaður hafa skoðað vélina utan frá og tekið nokkrar myndir af skemmdunum. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi ekki viljað að tryggingafélagið gerði tjónið upp þar sem hann myndi þá missa af afslætti eða bónus. Stefndi kannast ekki við að umrætt tjón væri af sínum völdum og telur hafa komið í ljós af myndum að skemmdin sem tjónaskoðunarmaðurinn hafi rætt um hafi verið á vélinni þegar hún hafi upphaflega verið tekin á leigu 31. júlí 2003.
Flugskóli Reykjavíkur mun hafa flogið umræddri vél frá febrúar til ágúst 2005 og þá mun stefnandi hafa boðið stefnda vélina á leigu um verslunarmannahelgina sama ár, en því boði mun hafa verið hafnað.
Stefnandi mun í lok ágúst 2005 hafa pantað tíma í skoðun hjá Flugvélaverkstæði Reykjavíkur og tilkynnti stefnandi stefnda að vélin væri á leið í skoðun, alfarið á ábyrgð stefnda og skoraði á hann að gæta hagsmuna sinna við skoðunina. Mun flugvirki á vegum stefnda hafa aðstoðað við skoðun og viðgerð, en stefndi segist hafa reiknað með því að greiða 20% af kostnaði við skoðunina eins og samið hefði verið um. Stefndi segir að við skoðun hafi komið í ljós verulegar stöðu- og lendingarskemmdir inni í búk vélarinnar sem ekki hafi verið hægt að sjá nema taka hana í sundur. Hafi helstu skemmdir verið á hjólagrind, í festingum að framan og verulegar skemmdir hafi verið á lendingarbúnaði að aftan. Hafi framangreindir hlutir í lendingarbúnaði að framan og aftan verið brotnir og hafi tekið mjög langan tíma að gera við skemmdina, aðallega sökum þess hve langan tíma hafi tekið að útvega varahluti. Stefnandi telur tjónið hafa orðið á leigutímanum og því beri stefnda að bæta það. Ryð hafi verið í brotunum sem bendi til þess að nokkur tími hafi liðið frá því skemmdirnar urðu. Hafi enginn annar en stefndi flogið vélinni frá sumri 2003 þangað til í febrúar 2005. Stefnandi heldur því fram að ótvírætt sé að vélin hafi skemmst meðan hún var í leigu hjá stefnda og telur líklegast að það hafi gerst þannig að henni hafi verið lent harkalega fullhlaðinni, hún gæti hafa fokið eða kjagast að framan í roki á flugvellinum í Vestmannaeyjum. Virðist vélin hafa verið geymd utandyra og ekki verið hirt um að koma henni í flugskýli í vondum veðrum. Stefndi bendir á að Flugöryggissvið Flugmálastjórnar hafi aldrei gert athugasemd við hleðslu þeirra véla sem hann hefði notað. Þá bendir stefndi á að um verslunarmannahelgina árið 2005 hafi starfsmenn Flugöryggissviðs stöðvað vélina í Vestmannaeyjum þar sem fimm fullorðnir karlmenn hafi gengið út úr vélinni auk flugmanns og þá hafi verið töluverður farangur um borð.
Stefnandi krafðist þess að stefndi greiddi fyrir hina samningsbundnu skoðun og fyrir tjón sem orðið hefði á vélinni. Þá gerði stefnandi kröfu til þess að stefndi greiddi leigu fyrir þann tíma sem vélin hefði verið í skoðun á vegum stefnda og þar sem ógerlegt hefði verið að geyma vélina utandyra hafi stefnda verið gerður reikningur fyrir húsaleigu. Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndi greiði skoðunargjald, útlagðan kostnað og kyrrstöðugjald. Stefndi hefur ekki sinnt þessum kröfum stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á leigusamningi aðila frá 24. júní 2004. Hafi stefnandi afhent stefnda vélina nýskoðaða við upphaf leigutíma án athugasemda frá stefnda. Hafi stefnda borið að skila vélinni í sama ástandi, skoðaðri og nýútskrifaðri úr þeirri skoðun sem næst ætti við. Stefnandi hafi farið yfir vélina í lok leigutíma og hafi hann þá gert athugasemdir við ástand hennar. Byggir stefnandi á því að stefndi hafi viðurkennt greiðsluskyldu sína með því að láta flugvirkja sinn vera viðstaddan og hafi hann tekið þátt í viðgerð vélarinnar.
Stefnandi byggir á því að vélin hafi orðið fyrir tjóni á leigutímanum, væntanlega sé um að ræða sama tjón og tilkynnt hafi verið til Tryggingamiðstöðvarinnar, en tjónið hafi verið mun meira en skoðunarmaður tryggingafélagsins hafi séð. Byggir stefnandi á því að ekki hafi verið hægt að sjá raunverulegt tjón á lendingarbúnaði vélarinnar fyrr en hún hafi verið tekin í sundur og hið rétta hafi komið í ljós við samningsbundna skoðun vélarinnar. Stefnda hafi borið að skila vélinni í sama ástandi og hún var er hann tók við henni, en fyrir liggi að hún hafi verið í góðu lagi við afhendingu, enda hafi stefndi engar athugasemdir gert um ástand hennar við móttöku. Stefnandi byggir á því að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að vélin hafi ekki verið í lagi og ekki skemmd við skil hennar. Hefði stefndi getað tryggt sér þá sönnun með því að skila vélinni skoðaðri og nýútskrifaðri í samræmi við samning aðila, en þetta hafi hann látið hjá líða. Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi í raun viðurkennt bótaskyldu sína með því að senda flugvirkja á sínum snærum á staðinn og jafnframt með því að senda varahluti til viðgerðarinnar, bæði við upphaf skoðunar og í lok hennar.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi vanefnt leigusamning aðila og með vanefndinni hafi hann valdið stefnanda miklu tjóni. Eigi stefnandi því rétt á efndabótum sem geri hann líkast því eins settan fjárhagslega og hefði hann öðlast efndir samkvæmt leigusamningi aðila. Stefnandi byggir einnig á almennum reglum skaðabótaréttar vegna tjóns sem telja megi afleiðingu af vanefnd stefnda. Hafi stefnanda verið fyrirmunað að nota flugvélina fyrr en hún hafi fengið vottorð um flughæfni frá Flugvélaverkstæði Reykjavíkur að skoðun og viðgerð lokinni.
Stefnandi telur tjón sitt fólgið í því að hann hafi ekki getað leigt flugvélina út þá mánuði sem hún hafi verið í skoðun og viðgerð og því engar leigutekjur fengið á þeim tíma. Gerir stefnandi kröfu um greiðslu leigu frá byrjun september 2005 til ársloka þess árs, 624.000 krónur. Þá kveðst stefnandi hafa verið tilneyddur að greiða húsaleigu fyrir vélina þann tíma sem hún hafi verið í skoðun og viðgerð og er krafa hans fyrir sama tímabil og að ofan greinir 200.000 krónur. Stefnandi kveðst einnig hafa þurft að greiða skoðunargjald fyrir vélina, eða 378.400 krónur og þá hafi hann þurft að leggja út fyrir varahlutum, 72.159 krónur. Stefnandi telur stefnda einnig þurfa að standa sér skil á 788.637 krónum vegna leigu samkvæmt leigusamningi aðila fyrir janúar til 15. apríl 2006, húsaleigu fyrir sama tíma og vinnu Flugvélaverkstæðis Reykjavíkur vegna skoðunar og viðgerða. Þá hafi stefnandi þurft að greiða tryggingu þá mánuði sem vélin hafi verið í skoðun á vegum stefnda, en hefði vélin verið í útleigu hefði leigutaki greitt tryggingu af henni. Krafa stefnanda af þessum sökum nemur 87.849 krónum. Samtals nemur krafa stefnanda 2.151.045 krónum sem hann telur vera það tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna vanefnda stefnda á leigusamningi aðila.
Stefnandi vísar til reglna kaupa-, samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga og til almennra reglna skaðabótaréttarins. Þá er vísað til laga nr. 60/1998 og reglugerðar nr. 433/1979. Vaxtakröfur eru reistar á lögum nr. 38/2001 og krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir á því að algjörlega sé ósannað að hann beri nokkra ábyrgð á því tjóni sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir. Raunar liggi fyrir að skemmdirnar sem stefnandi telur að stefndi beri ábyrgð á hafi verið fyrir hendi á flugvél stefnanda áður en stefndi tók vélina fyrst í notkun. Þá byggir stefndi á því að einstakir liðir stefnufjárhæðar séu í andstöðu við reglur skaðabótaréttar um bótaskylt tjón.
Stefndi vísar til mynda sem teknar hafi verið af vélinni þar sem fram komi að hún hafi verið löskuð á ýmsan hátt og kollvarpi það algjörlega hugmyndum í stefnu um að stórfelldar skemmdir hafi orðið á vélinni vegna vangæslu stefnda. Aðilar geri sér grein fyrir bágu ástandi vélarinnar með því að semja um að stærra viðhald og óeðlilegt slit vegna notkunarleysis síðustu missera skuli vera á ábyrgð leigusala. Bendi framangreint til þess að ýmislegt hafi verið við vélina að athuga, þ.m.t. það sem stefnandi byggir á að stefndi eigi sök á.
Stefndi telur ósannað að lendingarbúnaður vélarinnar hafi skemmst í meðförum stefnda og eigi það sér enga stoð í gögnum málsins. Stefnandi telji í innheimtubréfi sínu að skemmdin hafi komið í ljós í byrjun september 2005 og hafi það orðið til þess að rekstur vélarinnar stöðvaðist. Þá virðist af gögnum málsins mega ráða að varahlutir hafi verið pantaðir áður en vélin hafi verið skoðuð eftir skil stefnda. Stefndi bendir á að stefnandi hafi tekið við vélinni í janúar 2005 og hafi hann verið með hana í rekstri um margra mánaða skeið, m.a. í útleigu vegna flugkennslu. Geti því ekki talist líklegt, hvað þá sannað í skilningi einkamálaréttarfars að stefndi geti talist bera ábyrgð á skemmdunum. Miklu líklegra sé að stefnandi hafi vitað af skemmdunum frá fyrri tíð, enda hafi hann pantað varahluti áður en vélin hafi komið frá stefnda.
Stefndi bendir á leigusamning aðila þar sem fram komi að vélin hafi ekkert verið notuð síðustu misseri þegar stefndi tók hana á leigu. Sé því útilokað að stefnandi geti gert kröfu um bætur eins og hann gerir. Hann miði við að vélin hafi verið leigð út allan þann tíma sem hún hafi verið til viðgerðar eða beið eftir viðgerð og þá virðist stefnandi ætla sér að krefja stefnda sérstaklega fyrir ætlaðan geymslukostnað á meðan. Stefnandi hefði þurft að gera líklegt hvert tekjutap hans hafi orðið, m.a. í ljósi fyrri reksturs á vélinni. Þá hafi honum láðst að gera grein fyrir þeim kostnaði sem óhjákvæmilega fylgi því að eiga og reka flugvél. Hugsanlegur tjónvaldur geti ekki borið ábyrgð á langri bið eftir varahlutum og sé fyrirkomulag á pöntun varahluta alfarið atriði sem stefnandi beri ábyrgð á.
Stefndi bendir á að við skil vélarinnar hafi ekki verið kominn tími á 50 tíma skoðun vélarinnar. Það hafi ekki verið fyrr en löngu seinna og sé því fráleitt að leggja í slíkan kostnað á þeim tíma þegar samkomulag hafi verið um annað. Þá hafi skil stefnda verið í samræmi við fyrri samskipti aðila þegar vélinni hafi verið skilað árið áður.
Stefndi byggir á meginreglum skaðabótaréttar og fjármunaréttar um sönnunarbyrði fyrir vanefndum á samningi, bótaskyldri háttsemi og fjárhæð tjóns.
Krafa um málskostnað er reist á 129.-130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Málatilbúnaður stefnanda er á því reistur að umrædd flugvél hafi orðið fyrir hnjaski á þeim tíma sem stefndi var með hana í notkun. Óumdeilt er að stefndi tók vélina fyrst á leigu 31. júlí 2003 og skilaði henni 24. september sama ár. Virðist ekki um það deilt að vélin hafi staðið óhreyfð um veturinn og er gert ráð fyrir því í leigusamningi aðila frá 24. júní 2004 að allt stærra viðhald og óeðlilegt slit á vélinni sem rekja megi til notkunarleysis síðustu missera sé á ábyrgð leigusala, stefnanda í máli þessu. Stefndi mun hafa skilað vélinni í byrjun janúar 2005 og 21. þess mánaðar tilkynnti stefnandi tjón til Tryggingamiðstöðvarinnar. Þá er óumdeilt að vélin hafi verið notuð í kennsluflugi frá febrúar sama ár og fram til ágústmánaðar sama ár. Þær skemmdir, sem stefnandi telur stefnda bera ábyrgð á, munu hafa komið í ljós við skoðun vélarinnar í septembermánuði sama ár.
Að mati hinna sérfróðu meðdómenda urðu skemmdirnar á vélinni fyrir aftan efri festingu nefhjólastellsins, sem urðu tilefni sérstakrar skoðunar í janúar 2005 eftir að stefndi hafði skilað vélinni, mjög líklega áður en stefndi tók vélina fyrst á leigu í júlí 2003. Virðist viðgerð með nýjum vinklum hafa átt sér stað um haustið 2003 en af myndum má ráða að þeir hafi bilað aftur í janúar 2005. Engin rannsókn liggur fyrir á orsökum þessara skemmda, hvorki frá dómkvöddum matsmönnum né framleiðanda vélarinnar en stefnandi heldur því fram að orsökina megi rekja til harðrar lendingar. Hinir sérfróðu meðdómendur benda á að rekja megi orsakir skemmdanna til aksturs ofan í holur eða til rangrar notkunar dráttarbeislis sem fest er á öxul framhjóls. Hafi hemlar verið skildir eftir á, eða „frosnir“ vegna langrar kyrrstöðu, geti notkun dráttarbeislis valdið miklu láréttu álagi á efri festingu hjólastellsins og burðarvirkisins fyrir aftan, en þar sé um að ræða bita, álklæði og vinkla sem skemmst hafi. Þá gæti dráttarbeislið hafa verið notað án réttra samsetningarbolta sem eiga að gefa sig þegar leyfðu hámarksálagi á hjólastellið sé náð. Ekki hefur verið fyllilega í ljós leitt hvenær síðasta viðgerð eða endurnýjun á vinklum fyrir aftan efri festingu nefhjólastellsins átti sér stað. Fyrir dómi skýrði fyrirsvarsmaður stefnanda svo frá, aðspurður um breytingu á skrásetningu vélarinnar í febrúar 2005, eftir að tryggingafélaginu og loftferðaeftirlitinu varð kunnugt um skemmdirnar, að hann áliti að viðgerð hafi átt sér stað, enda væri hún nauðsynleg til að viðhalda lofthæfi. Engin gögn hafa verið lögð fram um þessa viðgerð eða hvaða yfirlýsingar hafi verið gefnar loftferðaeftirliti um ástand vélarinnar. Staðhæfing stefnanda um að umræddir vinklar hafi einnig fundist skemmdir haustið 2005 benda til þess að um þriðju viðgerð hafi verið að ræða á þeim stað, sennilega vegna frekari skemmda sem orðið hafi eftir að stefndi skilaði vélinni. Í málinu liggja engin gögn fyrir um kaup á nýjum vinklum.
Engin rannsókn liggur fyrir um orsakir skemmda í burðarvirki aðalhjólastells, nánar tiltekið sprunga út frá festingargati í eyra á annarri aðalfestingu hjólastells, sem fannst við skoðun haustið 2005. Hannes Auðunsson, flugvirki, sýndi festinguna í dóminum og bar að hann hefði fengið hana á verkstæðinu þar sem gert var við flugvélina. Bendir þetta eindregið til þess að rannsókn á orsökum skemmdarinar hafi ekki farið fram. Rannsókn á umræddri festingu, sem er úr áli, fæli í sér að skera hana í sundur á öðrum stað út frá gatinu svo unnt væri að skoða fleti sprungunnar og meta hvort um einstakt átak hafi verið að ræða eða sprungu vegna málmþreytu sökum einhverrar misfellu. Þá bendir dómurinn á að ál ryðgar ekki og getur því sú fullyrðing í stefnu um að ryð hafi fundist í brotunum ekki staðist.
Sérfróðum meðdómsmönnum er ekki að lögum ætlað að bæta úr annmörkum á gagnaöflun málsaðila með því að leggja á grundvelli eigin þekkingar mat á atriði, sem viðhlítandi gögn skortir um. Stefnandi hefur kosið að afla ekki álits dómkvaddra matsmanna á orsökum umræddra skemmda og styðja þannig fullyrðingar sínar um að stefndi beri ábyrgð á þeim. Verður stefnandi að bera hallann af sönnunarskorti í þessum efnum og hefur honum að mati dómsins ekki tekist að sanna að rekja megi orsakir skemmdanna til atvika sem stefndi ber ábyrgð á. Verður stefndi því sýknaður af þeim kröfum stefnanda sem byggja á því að stefndi beri ábyrgð á skemmdum á flugvélinni.
Stefnandi gerir einnig kröfu um að stefndi taki þátt í kostnaði vegna skoðunar flugvélarinnar á grundvelli munnlegs samkomulags aðila þess efnis að stefndi bæri 20% þess kostnaðar. Ljóst er að flugvirki frá stefnda tók þátt í skoðun og viðgerð vélarinnar haustið 2005 þegar komið var að ársskoðun og endurnýjun lofthæfisskírteinis. Liggur ekki fyrir hvort kostnaðarhlutfallinu væri ætlað að lækka eða falla niður af þessum sökum. Er þessi kröfuliður stefnanda því svo vanreifaður að ekki verður hjá því komist að vísa honum frá dómi.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kveður upp dóminn ásamt meðdóms- mönnunum Friðriki R. Jónssyni og Þorsteini Þorsteinssyni, flugvélaverkfræðingum.
DÓMSORÐ:
Vísað er frá dómi kröfu stefnanda, Sifjar ehf., á hendur stefnda, Flugfélagi Vestmannaeyja ehf., um greiðslu kostnaðar vegna flugvélarskoðunar.
Stefndi skal sýkn af öðrum kröfum stefnanda í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.