Hæstiréttur íslands
Mál nr. 131/2011
Lykilorð
- Kaupsamningur
- Dráttarvextir
|
|
Fimmtudaginn 15. desember 2011. |
|
Nr. 131/2011.
|
Sundagarðar hf. (Helgi Birgisson hrl.) gegn Arion banka hf. (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) og gagnsök |
Kaupsamningur. Dráttarvextir.
S hf. og SM gerðu með sér samning um kaup S hf. á öllu hlutafé B ehf. Vegna slita SM tók A hf. við aðild hans að málinu fyrir Hæstarétti. Deildu aðilar um framkvæmd við verðmat birgða, viðskiptakrafna og skulda félagsins samkvæmt ákvæðum samningsins. Niðurstaða héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti um annað en upphafstíma dráttarvaxta, var sú að S hf. ætti rétt til lækkunar á kaupverði vegna leiðréttingar á birgðastöðu, heildarskuldum og öðrum eignum en að félagið yrði álitið hafa tekið yfir viðskiptakröfur B ehf. án athugasemda.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. mars 2011. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 66.101.387 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 9. maí 2011. Hann krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Upplýst er í málinu að Sparisjóði Mýrasýslu hefur nú verið slitið og að gagnáfrýjandi hafi tekið yfir starfsemi hans, þar með talið aðild að dómsmáli þessu.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var tveimur löggiltum endurskoðendum auk embættisdómara, verður hann staðfestur um annað en upphafstíma dráttarvaxta.
Aðaláfrýjandi gerði kröfu með stefnufjárhæðinni á hendur Sparisjóði Mýrasýslu með bréfi 1. desember 2008. Í bréfinu var þess getið að sparisjóðurinn hefði undir höndum gögnin sem krafan byggðist á og felst staðfesting á þessu í svarbréfi sparisjóðsins 18. desember 2008. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 verður upphafstími dráttarvaxta af kröfu aðaláfrýjanda ákveðinn 1. janúar 2009.
Þar sem hvorugum málsaðila hefur með áfrýjun héraðsdómsins lánast að fá héraðsdómi breytt, verður málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður að öðru leyti en því að upphafstími dráttarvaxta af dæmdri kröfu skal vera 1. janúar 2009.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2010.
I
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 8. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sundagörðum hf., kt. 000000-0000, Sundagörðum 10, Reykjavík, með stefnu, birtri 12. marz 2009, á hendur Sparisjóði Mýrasýslu, kt. 000000-0000, Digranesgötu 2, Borgarnesi.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 66.101.387 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2008 til greiðsludags, auk málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
II
Málavextir
Árið 2006 urðu Borgarnes kjötvörur ehf., kt. 000000-0000, til við samruna Stjörnusalats ehf., kt. 000000-0000, Borgarnes kjötvara ehf., kt. 000000-0000 og Borgarnes matvæla ehf., kt. 000000-0000, sem var á þeim tíma móðurfélag fyrrnefndra tveggja fyrirtækja. Borgarnes kjötvörur ehf., var lengst af í eigu Sparisjóðs Mýrasýslu og Kaupfélags Borgarness en síðan eignaðist Sparisjóður Mýrasýslu alla hluti í félaginu. Hinn 21. desember 2007 keypti stefnandi, Sundagarðar hf., allt hlutafé Borgarnes kjötvara af Sparisjóði Mýrasýslu. Kaupverð hlutafjárins var ákveðið ein króna, sbr. 3. gr. samningsins, en stefnandi kveður félagið hafa í raun verið gjaldþrota eftir áralangan taprekstur. Þá keypti stefnandi einnig allar kröfur Sparisjóðs Mýrasýslu á hendur Borgarnes kjötvörum ehf. á kr. 115.000.000, en stefnandi kveður þær hafa numið að nafnverði tæpum kr. 500.000.000. Skyldi stefnandi greiða kr. 80.000.000 við afhendingu hins selda og kr. 35.000.000 hinn 13. febrúar 2008. Afhendingardagur hins selda skyldi vera 31. desember 2007, samhliða greiðslu skv. 3. gr. samningsins og skyldi eignarréttur að hinu selda, eignum þess og rekstri færast að öllu leyti yfir til kaupanda við það tímamark.
Stefnandi kveður markmið sitt með kaupunum hafa verið að beina nýtingu framleiðsluþátta, sem notaðir höfðu verið í rekstri Borgarnes kjötvara ehf., í virðisaukandi starfsemi og stöðva þá sóun, sem hefði falizt í óarðbærri starfsemi Borgarnes kjötvara ehf., frá upphafi.
Stefndi kveðst, með rekstri og síðar sölu á félaginu Borgarnes Kjötvörum ehf., hafa horft til samfélagslegs hlutverks síns í því sambandi og leitazt við að halda starfseminni gangandi. Við söluna á félaginu hafi hann einnig lagt mikið upp úr því, að félagið yrði áfram í rekstri og tryggt yrði, að þeir aðilar, sem átt höfðu í viðskiptum við félagið, fengju kröfur sínar greiddar. Af þeirri ástæðu hafi stefndi samið um að taka á sig afföll vegna eigin krafna á félagið, auk þess sem hann hafi lofað að gefa stefnanda afslátt, ef skuldir félagsins yrðu hærri en fram hafi komið í kaupasamningi aðila. Með þessu fyrirkomulagi hafi stefndi viljað stuðla að því, að þeir aðilar, sem höfðu veitt félaginu greiðslufresti eða önnur minni lán, á meðan það var í eigu stefnda, fengju fjármuni sína endurgreidda að fullu.
Í samningi aðila var um það samið, að fram skyldi fara birgðatalning laugardaginn 29. desember 2007 af fulltrúum beggja aðila, og skyldi löggiltur endurskoðandi félagsins verðmeta birgðir, viðskiptakröfur, VSK-inneign og skuldir m.v. 31. desember 2007, samkvæmt góðri reikningsskilavenju, og átti að leggja það mat til grundvallar uppgjöri milli aðila samkvæmt 7. gr. kaupsamnings þeirra.
Umrædd talning átti sér stað af hálfu fulltrúa aðila, en úrvinnsla hennar, verðmat birgða, viðskiptakrafna, VSK-inneign og skuldir, var ekki framkvæmd af endurskoðanda félagsins svo sem samningur aðila kvað á um.
Löggiltur endurskoðanda félagsins á þessum tíma var Gunnar Þór Ásgeirsson, hjá PricewaterhouseCoopers (PWC).
Í 7. gr. samningsins kemur fram, að til grundvallar samningnum hafi m.a. legið útskrift á veltufjármunum félagsins, (samstæðu Borgarnes kjötvara og Stjörnusalats), merkt fylgiskjal 3 frá 31. október 2007. Þá segir, að seljandi ábyrgist, að félagið hafi ekki tekið á sig neinar ábyrgðir eða skuldir, umfram það, sem fram kemur í því yfirliti. Í yfirlitinu um stöðu félagsins frá 31. október 2007 séu birgðir samstæðunnar (Borgarnes kjötvörur og Stjörnusalat) metnar á kr. 134.371.077, ógreiddar viðskiptakröfur nemi samtals kr. 88.822.823 (þar með taldir afskriftarreikningar vegna tapaðra krafna), og virðisaukaskattsinneign kr. 11.667.157, eða samtals kr. 234.861.057. Enn fremur segir í greininni, að komi í ljós, að birgðir, viðskiptakröfur og VSK-inneign nemi annarri fjárhæð á afhendingardegi en þeirri, sem fram kemur í yfirlitinu 31. október 2007, þ.e. annarri fjárhæð en kr. 234.861.057, af hvaða ástæðu sem það kunni að vera, skuli koma til hækkunar eða lækkunar á greiðslum vegna framsals á kröfum skv. 4. gr. sem nemur mismun á þeirri fjárhæð og raunverulegu verðmæti ofangreindra eigna á afhendingardegi. Nemi þær eignir hærri fjárhæð en kr. 234.861.057 komi til viðbótargreiðslu kaupanda, nemi þær lægri fjárhæð, veiti seljandi samsvarandi afslátt af greiðslu.
Í 2. mgr. 7. gr. samningsins segir, að skuldir félagsins við aðra en seljanda hafi numið kr. 129.613.377 samkvæmt fylgiskjali 3 þann 31. október 2007. Reynist sú fjárhæð ekki rétt á afhendingardegi, af hvaða ástæðu sem það kunni að vera, skuli koma til hækkunar eða lækkunar á greiðslum vegna framsals á kröfum skv. 4. gr. sem nemi mismun á kr. 129.613.377 og raunverulegum skuldum, öðrum en þeim, sem seljandi framseldi skv. 4. gr., á afhendingardegi.
Í 4. mgr. 7. gr. samningsins er að finna yfirlýsingu seljanda þess efnis, að honum sé ekki kunnugt um nein atvik, sem gefi tilefni til að ætla, að fjárkröfum verði beint að félaginu eftir undirritun samningsins, eða að málsókn af einhverju tagi kunni að vera í aðsigi eða sé yfirstandandi, sem haft geti áhrif á rekstur félagsins eða eignastöðu þess. Lýsir seljandi því yfir, að frá dagsetningu yfirlita, sbr. fylgiskjal nr. 3, þann 31. október 2007, hafi félagið ekki: a) selt eða samið um sölu á eða losað sig við einhverjar af eignum félagsins, gert einhverjar ráðstafanir sem rýrt hafa eigið fé félagsins, s.s. með útgreiðslum arðs eða sölu eigna, b) hækkað eða samið um hækkun á launum, starfstengdum hlunnindum eða bónusum til starfsmanna félagsins, umfram kjarasamning eða þegar gerða ráðningarsamninga, c) skuldbundið félagið með öðrum hætti en leiði af daglegum rekstri þess, d) leitt til þess, beint eða óbeint, að samkomulög eða viðskiptasamningar, sem félagið hafði við birgja eða viðskiptamenn, féllu niður eða breyttust. Þá ábyrgðist seljandi jafnframt skaðleysi kaupanda vegna krafna, sem orðið höfðu til fyrir afhendingu en komu ekki fram í bókhaldi félagsins þann 31. október 2007, hvort sem seljanda var sjálfum kunnugt um þær við undirritun kaupsamnings þessa eða ekki.
Í 8. gr. samningsins segir, að við undirritun samningsins eigi félagið útistandandi ógreiddar viðskiptakröfur. Kaupandi skuli viðhalda sambærilegum innheimtuaðferðum og verið höfðu í félaginu. Kröfur, sem ekki hefðu fengizt greiddar 1. apríl 2008 skyldu færðar á móti afskriftarreikningi og það, sem út af stæði, skyldi seljandi kaupa miðað við stöðu þeirra 31. desember 2007 og greiða, ekki síðar en 5. apríl 2008.
Stefnandi kveður eina af forsendum við ákvörðun kaupverðs í samningum hafa verið fullyrðingar stefnda um upphæð ákveðinna veltufjármuna umfram skuldir. Fljótlega eftir að stefnandi tók við fyrirtækinu hafi komið í ljós, að þessar fullyrðingar væru verulega ranglega tilgreindar og hafi stefnda þegar verið tilkynnt um það. Þá kveður stefnandi óútskýrðan mun á birgðastöðunni, eins og hún hafi verið gefin upp 31. október 2007, og talningunni í lok árs 2007. Sé krafa stefnanda byggð á fyrirliggjandi endanlegu uppgjöri frá KPMG endurskoðun. Samkvæmt útreikningi KPMG endurskoðunar hafi þessar eignir verið verulega ranglega tilgreindar í yfirlitinu 31. október 2007, auk þess sem skuldirnar hafi verið hærri.
Skömmu eftir kaup stefnanda á Borgarnes kjötvörum ehf., leitaði hann eftir heimild til nauðasamninga vegna fyrirtækisins, og var nauðsamningur fyrir félagið samþykktur með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands þann 15. apríl 2008.
Samkvæmt nauðasamningnum bauð stefnandi, að Borgarnes kjötvörur ehf. greiddu 40% hlutfall af kröfum lánardrottna, þó svo að greiðsla til hvers þeirra yrði að lágmarki kr. 400.000.
Stefndi kveður stefnanda ekki hafa upplýst nánar um það, hver hafi verið kostnaður félagsins af útistandandi kröfum, en í máli þessu fari hann fram á að fá bætur fyrir að hafa tekið yfir skuldir, sem síðar hafi verið felldar niður með nauðasamningi. Verði að telja óvíst hvort Borgarnes kjötvörur ehf. hafi greitt eða muni greiða þær skuldir, þar sem gjalddaga þeirra hefur verið frestað til 31.12. 2013.
Stefnandi gerði sömu kröfur á hendur stefnda og gerðar eru í stefnu með bréfi, dags. 1. desember 2008. Með bréfi dags. 18.12. 2008 óskaði stefndi eftir eftirfarandi upplýsingum og skýringum vegna krafna stefnanda:
1.Óskað var eftir nákvæmum skýringum frá KPMG á aðkomu þeirra að verðmati á birgðum og eftirfylgni af þeirra hálfu til þess að skýra hinn mikla mismun á birgðum milli 31.10. 2007 og 31.12. 2007.
2.Óskað var eftir yfirliti um stöðu þeirra krafna, sem stefndi var í ábyrgð á. Þá var bent á, að við uppgjör vegna þeirra, hafi þurft að taka tillit til þess, að Borgarnes kjötvörur ehf. eigi rétt til endurgreiðslu á virðisaukaskatti af töpuðum viðskiptakröfum.
3.Óskað var eftir upplýsingum um efni nauðasamnings þess, sem Borgarnes kjötvörur ehf. gerðu, sem og um efndir, þannig að gerð verði nákvæm grein fyrir því, að hvað miklu leyti félagið hafi greitt þær kr. 134.809.045, sem taldar eru skuldir félagsins þann 31. 12. 2008.
4.Óskað var eftir staðfestu eintaki af ársreikningi félagsins.
Stefndi kveður stefnanda ekki hafa veitt stefnda umbeðnar upplýsingar, nema hvað hann hafi látið af hendi afrit af samþykktum nauðasamningi og eintak af ársreikningi. Aðrar upplýsingar hafi stefnandi ekki veitt.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveðst reisa kröfu sína á almennri meginreglu samningaréttarins um, að gerða samninga skuli halda, og krefjist hann þess, að kaupsamningur aðila frá 21. desember 2007 verði efndur samkvæmt aðalefni sínu. Í kaupsamningi aðila komi fram, að til grundvallar kaupunum liggi útskrift á veltufjármunum félagsins frá 31. október 2007. Þá komi jafnframt fram, að komi í ljós, að birgðir, viðskiptakröfur og VSK-inneign nemi annarri fjárhæð en fram komi í yfirlitinu frá 31. október 2007, af hvaða ástæðu sem það kunni að vera, skuli koma til hækkunar eða lækkunar á greiðslum vegna framsals á kröfum skv. 4. gr. samningsins, sem nemi mismun á kr. 234.861.057 og raunverulegu verðmæti ofangreindra eigna á afhendingardegi. Nemi ofangreindar eignir hærri fjárhæð en kr. 234.861.057, komi til viðbótargreiðslu kaupanda, en nemi þær lægri fjárhæð, veiti seljandi samsvarandi afslátt af greiðslu. Reynist skuldir félagsins nema annarri fjárhæð en þær, sem framseldar verði skv. 4. gr. samningsins, þ.e. annarri fjárhæð en kr. 129.613.377, á afhendingardegi, af hvaða ástæðu sem það kunni að vera, skuli koma til hækkunar eða lækkunar á greiðslum vegna framsals á kröfum skv. 4. gr., sem vegi mismun á kr. 129.613.377 og raunverulegum skuldum, öðrum en þeim, sem seljandi hafi framselt skv. 4. gr. á afhendingardegi. Reynist skuldirnar hærri, veiti seljandi samsvarandi afslátt af greiðslum skv. 4. gr. samningsins, en reynist þær lægri, komi til samsvarandi viðbótargreiðslu kaupanda.
Á grundvelli þessara ákvæða kaupsamningsins, dags. 21. desember 2007, krefjist stefnandi afsláttar sökum þess, að skuldir hafi verið verulega vanmetnar, auk þess sem vörubirgðir hafi verið verulega ofmetnar. Til vara krefjist stefnandi skaðabóta, verði ekki fallizt á afsláttarkröfu hans.
Orðalag kaupsamnings aðila sé reyndar afar skýrt og hafi stefnda verið fullkomlega ljóst við samningsgerð, að umræddar fjárhæðir gætu breytzt, og að ekki væri um endanlegar fjárhæðir að ræða. Hérlendis gildi meginreglan um samningsfrelsi aðila, og samkvæmt henni geti aðilar ráðið efni samninga, svo lengi sem það samræmist lögum. Samningur stefnanda og stefnda hafi verið gerður með fullum vilja og vitund stefnda og hafi hann engum andmælum hreyft við efni hans við samningsgerðina, þótt honum hefði verið það í lófa lagið. Hér beri að ítreka það sjónarmið, að almennt beri að túlka samninga á þann veg, að efni þeirra haldi gildi sínu, eftir því sem framast er unnt, og samkvæmt fyrirætlunum samningsaðila.
Að sama skapi sé trúnaðarskyldan ein af meginreglum samningaréttararins, og í henni felist, að aðilum samnings beri að sýna gagnkvæman trúnað, t.d með því að koma fram af heiðarleika gagnvart viðsemjanda sínum og hagnýta sér ekki með óréttmætum hætti aðstöðu sína. Þá beri að taka fram, að dómstólar hafi gert strangari kröfur til banka og lánastofnana, um, að þessar stofnanir sinni trúnaðarskyldu við viðsemjendur sína, sbr. grein Viðars Más Matthíassonar prófessors, Trúnaðarskyldan við gerð, framkvæmd og slit samninga (Úlfljótur, 53. árg., 2. tbl., 2000, bls. 190-216). Stefndi hafi ekki sýnt vilja til að efna samning aðila samkvæmt aðalefni sínu og einu viðbrögð hans séu þau, að sérfræðingar á hans vegum séu að athuga málið. Stefnandi hafi aftur á móti sýnt stefnda liðlegheit og langlundargerð fram til þessa. Fullyrðingar stefnda um, að stefnandi hafi skipt um endurskoðanda í janúar 2008 séu á misskilningi byggðar, enda hafi það verið Borgarnes kjötvörur, sem skipt hafi um endurskoðanda, en ekki stefnandi. Sú breyting hafi því ekki þýðingu fyrir lyktir þessa máls. Þó beri að nefna, að þrátt fyrir að stefnandi hefði skipt um endurskoðanda myndi það engu breyta, enda séu endurskoðendur óháðir í störfum sínum, sbr. 19. gr. laga um endurskoðendur nr. 79/2008. Það hafi verið Borgarnes kjötvörur ehf., sem fengu nýjan endurskoðanda, en ekki stefndi.
Meginatriði málsins sé það, að allar þær fjárhæðir, sem samningurinn sé byggður á, komi frá stefnda, og beri hann hallann af eigin ofmati á veltufjármunum félagsins, sem í raun hafi reynzt allt aðrir en stefndi hafi gefið upp. Hér beri einnig að nefna, að það hljóti að standa stefnda nær að leiða í ljós ástæður hinnar gríðarlegu breytingar á birgða- og skuldastöðu, sem orðið hafi á tímabilinu frá 31. október 2007 til 31. desember 2007, sökum þess að afhending hlutafjárins og þeirra réttinda, sem kaupsamningurinn kveði á um, hafi ekki farið fram fyrr en þann 31. desember 2007. Hafi stefnandi því ekki haft umráð þessara réttinda fyrr en eftir þann tíma.
Miðað við meðfylgjandi endanlegan ársreikning séu eignirnar samtals kr. 95.905.719 lægri en þær hafi verið áætlaðar skv. yfirlitinu 31. október 2007 og skuldirnar kr. 5.195.668 hærri. Miðað við, að áætlaðri greiðslu stefnanda þann 13. febrúar 2008, að fjárhæð kr. 35.000.000, sé skuldajafnað á hendur stefnda, nemi höfuðstóll kröfu stefnanda á hendur stefnda samtals kr. 66.101.387. Stefndi muni hafa öll gögn til að staðreyna þennan útreikning stefnanda.
Gerð sé krafa um dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2009, en stefnandi hafi sent stefnda kröfubréf hinn 1. desember 2009.
Stefnandi vísar til almennra meginreglna samningaréttarins og kröfuréttarins um skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi. Þá vísar stefnandi einnig til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, einkum 38. gr. varðandi afslátt. Krafan um vexti er studd við III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og krafa um málskostnað við 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda
Stefndi krefjist sýknu af kröfum stefnanda, enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á, að hann eigi kröfur á hendur stefnda á grundvelli kaupsamnings aðila, dags. 21. desember 2007, sbr. dskj. nr. 7.
Stefnandi krefjist kr. 95.905.719 með vísan til þess, að veltufjármunir félagsins skv. ársreikningi á dskj. nr. 13 hafi í árslok numið samtals kr. 139.346.988, en viðmiðunarfjárhæð í samningi hafi verið kr. 234.861.057, sbr. dskj. nr. 4 og 7. Veltufjármunir skiptist annars vegar í vörubirgðir og hins vegar í viðskiptakröfur.
Sé tala þessi skoðuð nánar, skiptist hún þannig, að vörubirgðir hafi, þann 31.10. 2007, verið taldar nema samtals kr. 137.352.852, en í ársreikningi aðeins verið taldar nema kr. 36.245.955. Muni þar rúmri 101 milljón, sem fái að mati stefnda ekki staðizt. Hafi stefndi ítrekað óskað eftir skýringum á þessum mun og hafnað því að leggja þennan mun til grundvallar uppgjöri við stefnanda án fullnægjandi skýringa.
Í samningi aðila þann 21. desember 2007 sé sérstaklega um það samið að „Birgðir skulu taldar laugardaginn 29. desember 2007 af fulltrúum seljanda og kaupanda... ...Löggiltur endurskoðandi félagsins verðmetur birgðir, viðskiptakröfur, VSK inneign og skuldir m.v. 31. 12. 2007 samkvæmt góðri reikningsskilavenju og skal nota það uppgjör skv. þessari grein“.
Í þessu sambandi vísi stefndi einnig til þess, að samið hafi verið um, að leggja skyldi verðmat endurskoðanda félagsins til grundvallar verðmati birgða. Fyrir liggi, að fulltrúar beggja aðila hafi talið vörubirgðir þann 29. desember 2007, eins og samningurinn kvað á um. Eftir talninguna hafi verðmat birgða átt að vera í höndum endurskoðanda félagsins. Stefnandi hafi kosið að óska ekki eftir þjónustu endurskoðanda félagsins og hafi sjálfur alfarið og á eigin ábyrgð skráð talningu og verðmetið vörubirgðir. Stefndi hafi ítrekað óskað eftir því að fá skýringar á miklum mun og m.a. upplýsingar um það, að hvaða leyti endurskoðandi félagsins hafi komið að verðmati birgða. Stefnandi hafi engu svarað, og í stefnu séu þau svör ein gefin, að það hljóti að standa stefnda nær en honum að svara því, af hverju þessi mikli munur sé á birgðum. Stefndi telji fullvíst, að hluti þessa munar, að því leyti sem hann verði ekki skýrður með vörusölu og þá hækkun á viðskiptakröfum og lausu fé, sé líklegasta skýring hans sú, að annaðhvort hafi birgðir verið ranglega taldar eða ranglega skráðar, nema hvort tveggja sé. Í því sambandi vísi stefndi einnig til þess, sem fram komi í skýrslu fyrrverandi framkvæmdastjóra Borgarnes kjötvara ehf., Þorsteins Benónýssonar, sem stefnandi leggi fram sem sönnunargagn í málinu, dskj. nr. 11. Á bls. 3 í endurriti af framburði Þorsteins sé að finna svar hans við spurningu lögmanns stefnanda um það, hvort hann kunni að skýra þann mikla mun, sem sé á birgðum skv. bókhaldi félagsins þann 31.10. 2007 og svo 31.12. 2007. Hafi hann talið líklegustu skýringuna vera þá, að birgðir hefðu annaðhvort verið ranglega taldar eða ranglega skráðar. Framkvæmdastjórinn hafi einnig verið spurður að því, hvort endurskoðandi félagsins hafi komið að talningunni, og hafi hann svarað því neitandi, sjá bls. 4 neðst og 5 efst, dskj. nr. 11.
Í þessu sambandi verði einnig að hafa í huga, að stefnandi hafi tekið við félaginu þann 31.12. 2007, og eftir þann tímapunkt hafi stefndi engan aðgang haft að félaginu, birgðum þess eða bókhaldi, og hafi hann því enga möguleika átt til þess að fara yfir eða endurskoða gerðir stefnanda að því er varði úrvinnslu talningar og verðmat birgða. Beiðni stefnda um skýringar á hinum mikla mun hafi algerlega verið hunsaðar af hálfu stefnanda. Vísun stefnanda til 19. gr. laga um endurskoðendur nr. 79/2008 og tilraunir til útúrsnúninga í stefnu varðandi skipti á endurskoðanda Borgarnes kjötvara ehf., styrki ekki þær tölur, sem stefnandi leggi til grundvallar kröfum sínum, enda komi fram í áritun endurskoðanda á framlögðum ársreikningi (óundirrituð), að ársreikningurinn sé alfarið byggður á tölum, sem stefnandi hafi sjálfur lagt fram, og sé reikningurinn óendurskoðaður.
Stefndi byggi á því, að stefnandi geti ekki átt kröfu á hendur stefnda vegna meintrar vöntunar á birgðum, byggðri á hans eigin óendurskoðuðum fullyrðingum um birgðastöðuna þann 31.12. 2007, enda hafi verið áskilið í samningi aðila, að krafa um vöntun á birgðum skuli grundvölluð á mati löggilts endurskoðanda félagsins.
Stefndi byggi einnig á því, að í kröfum stefnanda á hendur stefnda vegna veltufjármuna, séu viðskiptakröfur félagsins vantaldar um kr. 26.000.000. Hluti og eðlileg skýring á lækkun birgða væri hækkun útistandandi krafna vegna vörusölu. Samkvæmt dskj. nr. 4, sbr. dskj. nr. 7, hafi viðskiptakröfur þann 31.10. 2007 verið samtals kr. 88.872.823. Í ársreikningi séu viðskiptakröfur þann 31.12. 2007 taldar vera 93.880.442. Í ársreikningi sé vísað í skýringar 7 og 15 vegna viðskiptakrafna, og sjáist við skoðun af skýringu 7, að upplýst sé, að viðskiptakröfur séu færðar niður til að mæta almennri tapsáhættu, auk þess sem kröfur séu færðar niður sem sérstaklega hafi verið metnar í tapshættu. Komi jafnframt fram í skýringu 7, að umræddur frádráttur vegna áætlaðrar tapsáhættu sé dreginn frá viðkomandi lið í efnahagsreikningi. Í skýringu 15 komi fram sundurliðun og upphæðir vegna þessa frádráttar og sjáist þar, að stefnandi hafi lækkað útistandandi viðskiptakröfur í reikningnum um samtals kr. 26.000.000. Þar komi einnig fram, að á árinu 2007 hafi einungis tapazt kröfur að fjárhæð kr. 446.582. Þannig hafi viðskiptakröfur Borgarnes kjötvara ehf. ekki verið kr. 93.880.442 þann 31.12. 2007, heldur samtals kr. 119.880.442, og það hafi alfarið og eingöngu verið vegna ákvörðunar fyrirsvarsmanna stefnanda, að þær séu færðar niður um kr. 26 milljónir í bókhaldi félagsins. Þessi þáttur bókhaldsins, eins og aðrir, hafi hvorki verið unninn af endurskoðanda félagsins né yfirfarinn, þrátt fyrir að skýrt sé í kaupsamningi aðila, 7. gr., að skylt sé, að endurskoðandi félagsins meti viðskiptakröfur.
Að auki hafi verið um það samið í samningi aðila, sjá 8. gr., að þann 1. apríl 2008 hafi átt að fara fram uppgjör vegna útistandandi krafna, þannig, að þær skyldu, að því leyti sem þær væru ógreiddar, framseldar til stefnda gegn greiðslu á þeim, miðað við stöðu þeirra þann 1. apríl 2008. Stefnandi hafi á engum tímapunkti lagt fram upplýsingar um, að viðskiptakröfur frá árinu 2007 hafi verið ógreiddar þann 1. apríl 2008 og ekki óskað eftir því, að stefndi leysti til sín kröfur á grundvelli samningsins. Framangreint fyrirkomulag hafi verið umsamið til að koma í veg fyrir tap á kröfum innan félagsins, og því hafi stefnandi ekki átt þann kost, sem hann hafi valið, að lækka kröfurnar einhliða um 26.000.000 og krefja stefnda um þá greiðslu og halda kröfunum eftir og innheimta sjálfur. Þá byggi stefndi á því, að með því að stefnandi hafi ekki sett fram neinar kröfur vegna tapaðra krafna þann 1. apríl 2008, hafi falizt í því viðurkenning þess, að hann eigi ekki slíkar kröfur.
Að auki hafi stefnandi í kröfum sínum ekki tekið tillit til skammtímakrafna félagsins undir liðnum „aðrar skammtímakröfur“, en óskýrt sé, hvað sé undir þeim lið, en þar gæti t.d. verið virðisaukaskattsinneign, en skv. ársreikningi séu þetta samtals kr. 9.059.819. Þannig séu skammtímakröfur, að mati stefnda, vantaldar um samtals kr. 35.059.819.
Stefnandi geri einnig kröfur á hendur stefnda vegna þess að skuldir hafi verið hærri en samningur aðila miðaði við. Í samningnum sé miðað við, að skuldir séu kr. 129.613.377, þann 31.10. 2007, en samkvæmt ársreikningi hafi skuldir verið taldar nema samtals kr. 600.664.670, þar af skuld við móðurfélag kr. 465.855.059. Miðað við þessar tölur, hafi aðrar skuldir, utan víkjandi láns, verið kr. 134.809.611, og út frá því virðist stefnandi gera kröfur á hendur stefnda um kr. 5.195.668, en stefndi reikni þennan mun sem kr. 5.196.234. Ekki sé upplýst í málinu, hvort skuldir Borgarnes kjötvara ehf. við Borgarbyggð, sem stefndi hafi yfirtekið skv. samningi aðila, hafi ennþá verið inni í bókhaldi félagsins þann 31.12. 2007, og hvort orlofsskuldbinding í bókhaldi Stjörnusalats hafi verið felld niður. Í ljósi þessa sé skorað á stefnanda að leggja fram annars vegar yfirlit yfir viðskiptaskuldir félagsins þann 31.12. 2007 og hins vegar yfirlit yfir „aðrar skammtímaskuldir“ á sama degi.
Það skipti hins vegar mestu í þessum hluta málsins, að strax í janúar 2008 hafi stefnandi farið með Borgarnes kjötvörur ehf. í nauðasamninga. Um slíkt hafi ekki verið samið milli aðila, og hafi stefndi litið svo á, að hann væri í samningi aðila frá 21. desember 2007 að tryggja hagsmuni viðskiptaaðila Borgarnes kjötvara ehf. vegna þeirra skulda, sem til hafi verið stofnað, á meðan félagið var undir stjórn stefnda. Það hafi því verið stefnda mikil vonbrigði, að stefnandi skyldi strax í janúar 2008 leita eftir heimild til nauðasamninga vegna skulda félagsins og stilla þeim aðilum, sem átt hafi kröfur á félagið, þannig upp, að annað hvort tækju þeir tilboði í nauðasamningi, eða félagið yrði sett í gjaldþrot. Svo sem dómskjal nr. 8 beri með sér, hafi Borgarnes kjötvörur ehf. fengið heimild til þess að leita nauðasamninga þann 30. janúar 2008, og þann 15. apríl 2008 hafi nauðsamningur fyrir félagið verið staðfestur. Í nauðasamningnum sé á því byggt, að kröfuhafar fái 40% krafna sinna greiddar, en sem raunvirði fari því fjarri, þar sem umrædd 40% skuli greidd vaxtalaust þann 31. desember 2013, eða nærri 6 árum eftir gerð nauðasamningsins. Verðmæti þeirrar greiðslu sé því fjarri lagi 40% og eflaust nær því að vera 5% miðað við verðlagsþróun frá þeim tíma og ætlaða verðlagsþróun næstu árin. Kröfuhafar hafi einnig átt val um að fá greidd 20% af kröfu sinni 20 dögum eftir samþykki samningsins, og ætli stefndi, að flestir hafi valið þann kost fremur.
Stefndi hafi ítrekað óskað eftir upplýsingum frá stefnanda um efndir nauðasamningsins, en stefndi hafi engar upplýsingar veitt.
Stefndi hafni því, að stefnandi geti átt kröfur á hendur honum vegna yfirtekinna skulda Borgarnes kjötvara ehf., heldur sé þessi hluti málsins í raun þannig, að stefndi eigi kröfur á hendur stefnanda vegna þessara skulda, þar sem þær komi ekki til greiðslu. Sé gengið út frá því, að skuldir hafi verið um kr. 130.000.000, og Borgarnes kjötvörur ehf. þurfi aðeins að borga sem nemi kr. 26.000.000 vegna þeirra (20%), þýði það, að skuldastaða félagsins hafi reynzt vera kr. 129.613.377 - kr. 26.000.000 = kr. 103.613.377, betri en samningur aðila byggði á, og því ætti sú fjárhæð að leggjast við kaupverðið en ekki öfugt.
Stefnandi grundvalli kröfur sínar á hendur stefnda á því, að hann eigi rétt til afsláttar eða skaðabóta, þar sem birgðir hafi verið vanmetnar og skuldir ofmetnar, eins og segi í 2. mgr. á bls. 4 í stefnu (sic í grg.). Krafa um afslátt og krafa um skaðabætur innan samninga, efndabætur, hafi það að markmiði að bæta samningsaðila, tjón, sem hann verði fyrir vegna þess að hið keypta reynist ekki uppfylla ákvæði samningsins, að því er varðar verðmæti. Reynist hið keypta haldið göllum að þessu leyti, beri kaupanda og samningsaðila að leitast við að takmarka og minnka tjón sitt, eftir því sem honum sé unnt. Takist honum að minnka eða takmarka tjón sitt, svo sem í tilfelli stefnanda, með því að gera nauðasamninga um skuldir félagsins, dragi það úr tjóni viðkomandi, eða komi í veg fyrir það og hafi þannig bein áhrif á rétt hans til afsláttar eða skaðabóta. Þessi grunnregla í skaðabótarétti hafi verið skýrð þannig, að „einungis skuli bæta það tjón, sem eftir stendur, er hagnaðurinn hefur verið frá því dreginn“ (Páll Sigurðsson, Kröfuréttur almennur hluti, Reykjavík 1992, bls. 334). Regla þessi sé viðurkennd grundvallarregla í íslenzkum skaðabótarétti.
Í reglunni felist, að stefnanda beri að draga frá meintum kröfum sínum á hendur stefnda þann hluta skulda Borgarnes kjötvara ehf., sem hann hafi losnað undan að greiða með gerð nauðasamnings, sem staðfestur hafi verið þann 15. apríl 2008. Að öðrum kosti fengi stefnandi bætur frá stefnda fyrir tjón, sem hann hafi ekki orðið fyrir, þ.e. bætur fyrir að taka yfir skuldir, sem hann muni ekki greiða og hafi verið leystur undan með nauðasamningi.
Að öllu samanlögðu telji stefndi, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að hann eigi eða geti átt kröfur á hendur stefnda um afslátt eða skaðabætur vegna þess að birgir Borgarnes kjötvara hafi verið vantaldar og skuldir vanmetnar, svo sem málatilbúnaður stefnanda byggi á.
Verði að einhverju leyti fallizt á greiðslukröfu stefnanda, telji stefndi, að slík krafa geti ekki borið vexti fyrir en frá dómsuppsögu, og alls ekki frá 1. janúar 2008, eins og stefnandi fari fram á. Enginn umsaminn gjalddagi hafi verið á þessum kröfum, og stefndi telji, að stefnandi hafi ekki enn lagt fram viðhlítandi gögn um kröfur sínar, og ársreikningur fyrir Borgarnes kjötvörur ehf. ekki verið tilbúinn og skilað til skattyfirvalda fyrr en 1. desember 2008 skv. upplýsingum úr ársreikningaskrá. Vísi stefndi til 7. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 að þessu leyti, en til vara til 4. mgr. 5. gr. sömu laga.
Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Forsendur og niðurstaða
Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Haukur Gunnarsson, löggiltur endurskoðandi, Gunnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri stefnanda, og Gunnar Þór Ásgeirsson, löggiltur endurskoðandi.
Krafa stefnanda á rætur í kaupsamningi aðila og er ekki ágreiningur um efni hans. Hins vegar greinir aðila á um framkvæmd við verðmat birgða, viðskiptakrafna og skulda félagsins m.v. 31. október, samkvæmt ákvæðum samningsins.
Þær upplýsingar, sem fram koma í samningi aðila um verðmat framangreindra atriða hinn 31. október 2007, komu allar úr bókhaldi félagsins, Borgarnes kjötvara, sem þá var í eigu stefnda, og liggur ekki fyrir, að stefnandi hafi haft nokkur tök á að staðreyna þær upplýsingar á þeim tíma, sem samningurinn var gerður.
Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. samningsins skyldu birgðir taldar hinn 29. desember 2007 af fulltrúum seljanda og kaupanda og skyldi engin sala eða afhending vara fara fram frá þeim tíma til ársloka. Þá skyldi löggiltur endurskoðandi félagsins verðmeta birgðir, viðskiptakröfur, VSK-inneign og skuldir miðað við 31. desember 2007 samkvæmt góðri reikningsskilavenju, og skyldi það mat notað við uppgjör samkvæmt 7. gr. samningsins.
Samkvæmt framburði Gunnars Þórs Gíslasonar, framkvæmdastjóra Sundagarða hf., fyrir dómi stóðu fulltrúar Sundagarða, sem og fulltrúar Borgarnes kjötvara, að birgðatalningunni, en einnig var viðstaddur fulltrúi stefnda, Sparisjóðs Mýrasýslu, sem tók stikkprufur af talningunni. Það hafi síðan verið framkvæmdastjóri Borgarnes kjötvara, Þorsteinn Benónýsson, sem færði niðurstöður talningarinnar inn í tölvu og sá jafnframt um að færa kostnaðarverð birgðanna inn á listann. Kostnaðarverðið hafi verið samkvæmt kostnaðarbókhaldi félagsins, og hafi það í flestum tilvikum verið sambærilegt við kostnaðarverð á sömu vöruliðum á birgðalistanum frá 31. október. Þáverandi löggiltur endurskoðandi félagins, Gunnar Þór Ásgeirsson, hafi neitað að taka að sér vinnu við verðmatið, svo sem kveðið var á um í samningi aðila vegna óuppgerðra krafna endurskoðunarskrifstofunnar á hendur félaginu.
Staðfesti Gunnar Þór Ásgeirsson þetta fyrir dómi og kvað ástæðuna þá, að endurskoðunarskrifstofan hefði þegar tapað talsverðum kröfum á hendur Borgarnes kjötvörum og hefðu þeir krafið stefnanda um greiðslu inn á þá skuld. Þar sem ekki hefði verið á það fallizt, hefði hann hafnað því að taka að sér umbeðna vinnu, enda þótt fyrir hefði legið, að greitt yrði að fullu fyrir hana. Hafi störfum hans fyrir fyrirtækið lokið í kringum þessi samskipti með bréfi framkvæmdastjóra endurskoðunarskrifstofunnar til stefnanda.
Liggur ekki fyrir, að athugasemd hafi verið gerð af hálfu aðila við þá aðferð, sem viðhöfð var við birgðatalninguna, og lítur dómurinn svo á, að talningin hafi farið fram í samræmi við ákvæði 3. mgr. 7. gr. samningsins.
Þá telur dómurinn, að þrátt fyrir það að endurskoðandi hafi ekki komið að verðmati veltufjármuna í samræmi við ákvæði í kaupsamningi aðila, leiði það ekki eitt og sér til þess, að kröfum stefnanda beri að hafna, geti hann sýnt fram á það á annan hátt, að hann eigi kröfu á stefnda samkvæmt samningi aðila.
Stefnandi byggir á ársreikningi 2007, en reikningurinn er áritaður af endurskoðanda félagsins, Hauki Gunnarssyni, sem hóf störf fyrir Borgarnes kjötvörur um miðjan febrúar 2008 og tók að sér að gera upp félagið, auk þess að gera ársreikning og skattframtal þess. Kemur fram í áritun endurskoðandans, að vinna við gerð ársreikningsins hafi verið í samræmi við viðurkenndar aðferðir við gerð óendurskoðaðra ársreikninga og í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju, og sé ársreikningurinn byggður á bókhaldi félagsins og öðrum upplýsingum. Þá gerir endurskoðandinn svohljóðandi fyrirvara: „Við höfum ekki endurskoðað eða kannað meðfylgjandi ársreikning og látum því ekki í ljós álit eða annað mat á honum.“
Dómurinn lítur svo á, að með því að ársreikningurinn byggist á bókhaldi félagsins, sem alfarið var í höndum Borgarnes kjötvara, sem var í eigu stefnda til 29. desember 2007, og er þannig byggður á upplýsingum frá stefnda, hafi stefndi haft það í hendi sér að sýna fram á eða gera tortryggilegar þær upplýsingar, sem ársreikningur byggir á. Með því að stefndi hefur ekki gert reka að því, þykir mega leggja ársreikninginn til grundvallar við uppgjör aðila, enda er ekki öðrum eða traustari gögnum til að dreifa og ársreikningurinn unninn í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju, svo sem áritun hans ber með sér.
Við samanburð á upphæðum í birgðatalningu 31. október 2007, dskj. nr. 5, og birgðum 31. desember 2007, dskj. nr. 30, kemur í ljós, að verðmat á hverri einingu einstakra vara er að verulegu leyti hið sama, en þar sem einhverju munar er sá munur óverulegur. Telur dómurinn því, að leggja megi til grundvallar niðurstöðu úr birgðatalningu, svo sem fyrr greinir, sem og birgðamat það, sem stefnandi grundvallar þennan kröfulið sinn á. Samkvæmt ársreikningi 2007 nemur verðmat vörubirgða þannig fundið kr. 36.245.955, og hefur stefndi ekki sýnt fram á, að sú niðurstaða sé röng eða ótrúverðug. Samkvæmt kaupsamningi var andvirði birgða hinn 31. október 2007 kr. 134.371.077, og kemur mismunurinn, kr. 98.125.122, því til lækkunar kaupverði.
Samkvæmt kaupsamningi aðila námu viðskiptakröfur hinn 31. október 2007 kr. 88.822.823, og átti seljandi að bæta eða fá bættan mismuninn, yrðu endurheimtur önnur tala, en fram kom í kaupsamningi. Skyldu kröfur, sem ekki greiddust fyrir 1. apríl 2008, færðar á móti afskriftareikningi. Ef þá stæði eitthvað út af miðað við stöðuna 31. október 2007, átti seljandi að kaupa þær kröfur af kaupanda.
Viðskiptakröfur samkvæmt ársreikningi voru kr. 93.880.442, eftir að búið var að færa þær niður um kr. 26.000.000, til að mæta afskrifuðum kröfum. Námu viðskiptakröfur því í heildina kr. 119.880.442. Engar kröfur komu frá stefnanda hinn 1. apríl 2008 um, hvernig heimtur hefðu orðið fyrir þann tíma, eins og gera átti samkvæmt kaupsamningi. Telur dómurinn því, að líta beri svo á, að hann hafi yfirtekið viðskiptakröfurnar kr. 119.880.442 án athugasemda. Nemur hækkun viðskiptakrafna því kr. 31.057.619, sem kemur til hækkunar kaupverði.
Aðrar eignir (virðisaukaskattsinneign) voru samkvæmt yfirliti frá 31. október 2007 kr. 11.667.157, en samkvæmt ársreikningi námu þær kr. 8.828.941. Mismunurinn, kr. 2.838.216 kemur því til lækkunar kaupverði.
Heildarskuldir samkvæmt kröfugerð stefnanda á dskj. nr. 28, aðrar en skuldir við eigendur, námu samkvæmt kaupsamningi og yfirlitinu frá 31. október, sem lá til grundvallar kaupsamningi, kr. 129.613.377. Samkvæmt ársreikningi námu þær í árslok 2007 kr. 134.809.045. Kemur mismunurinn, kr. 5.195.668, því til lækkunar kaupverði.
Frá þeirri upphæð, sem kemur samkvæmt framansögðu til lækkunar kaupverði, ber að draga kr. 35.000.000, sem eru eftirstöðvar greiðslu, sem kaupanda bar að greiða seljanda vegna uppgjörs á skuldum Borgarnes kjötvara ehf. við seljanda.
Dómurinn lítur svo á, að heimild Borgarnes kjötvara ehf. til nauðasamninga sé stefnda óviðkomandi og enginn fyrirvari í samningi milli aðila um áhrif hugsanlegra nauðasamninga á greiðsluákvæði samningsins.
Ber stefnda því, samkvæmt þessu, að greiða stefnanda kr. 40.101.387, ásamt dráttarvöxtum, sem þykir rétt að miða við dómsuppsögudag.
Með hliðsjón af þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 1.000.000. Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts, en stefnandi hefur ekki gert grein fyrir virðisaukaskattskyldu sinni.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum, Guðmundi Þorvarðarsyni, löggiltum endurskoðanda, og Stefáni Franklín, löggiltum endurskoðanda.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Sparisjóður Mýrasýslu, greiði stefnanda, Sundagörðum ehf., kr. 40.101.387, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögudegi 3. desember 2010 til greiðsludags og kr. 1.000.000 í málskostnað.