Hæstiréttur íslands
Mál nr. 172/2003
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Stjórnsýsla
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2003. |
|
Nr. 172/2003. |
X og Y (Jóhannes Karl Sveinsson hrl. Viðar Lúðvíksson hdl.) gegn Z (Stefán Geir Þórisson hrl. Lárentsínus Kristjánsson hdl.) I J M K og L (Valborg Þ. Snævarr) |
Börn. Forsjá. Stjórnsýsla. Gjafsókn.
Í málinu kröfðust X og Y ógildingar, í heild eða að hluta, á úrskurði barnaverndarnefndar Z og úrskurði barnaverndarráðs, sem staðfesti niðurstöðu fyrrnefnda úrskurðarins, um að X og Y skyldu svipt forsjá 6 barna sinna. X og Y sem voru af erlendu bergi brotin höfðu komið á fólksbifreið með farþegaferju til landsins og sest að, ásamt börnunum á tjaldstæði við Z. Gekk þeim erfiðlega að finna húsnæði framan af og höfðu barnaverndaryfirvöld afskipti af þeim þar sem óttast var um velferð barnanna. Sama dag og úrskurður barnaverndarnefndar um varanlega sviptingu forsjár barnanna var kveðinn upp höfðu X og Y tekið á leigu húsnæði fyrir fjölskylduna og var barnaverndarnefnd gert kunnugt um það fyrir uppkvaðningu úrskurðarins. Á þeim tíma lá ekki fyrir niðurstaða sérfræðings um forsjárhæfni X og Y sem barnaverndarnefndin hafði óskað eftir. Eftir að úrskurðurinn hafði verið kærður til barnaverndarráðs, en áður en úrskurður ráðsins var kveðinn upp, gekk barnaverndarnefnd Z frá varanlegum fóstursamningum vegna barnanna. Fyrir Hæstarétti var aðeins deilt um forsjá fjögurra yngstu barnanna þar sem tvö þau elstu voru orðin lögráða. Talið var að úrskurður barnaverndarnefndar Z hafi verið haldinn svo alvarlegum annmörkum að varðaði ógildingu hans. Hins vegar var talið að úr þeim annmörkum hafi verið bætt við málsmeðferð fyrir barnaverndarráði. Hafi sjálfstæð gagnaöflun barnaverndarráðs leitt í ljós alvarlega vanhæfni X og Y og full ástæða hafi verið til að óttast um heill barnanna. Barnaverndarráð hafi því ekki brotið gegn 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 þegar ráðið hafi staðfest niðurstöðu barnaverndarnefndar Z. Kröfu X og Y um ógildingu úrskurðanna var því hafnað. Ekki var heldur fallist á þrautvarakröfu þeirra um ógildingu á úrskurði barnaverndarnefndar Z um umgengni þeirra við börnin.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 9. maí 2003. Þau krefjast þess aðallega, að ógiltur verði með dómi úrskurður barnaverndarnefndar Z 18. september 2000 þar sem þau voru svipt forsjá barna sinna, A, B, C, D, E og F, og úrskurður Barnaverndarráðs Íslands 6. júní 2001, þar sem þau voru svipt forsjá barna sinna, B, C, D, E og F. Jafnframt krefjast þau þess, að þeim verði dæmd forsjá C, D, E og F. Til vara krefjast áfrýjendur þess, að framangreindir úrskurðir verði ógiltir að hluta og þeim fengin forsjá þeirra barna sinna, er viðkomandi hluti úrskurðanna varðar. Til þrautavara krefjast þau þess, að ógiltur verði úrskurður barnaverndarnefndar Z 1. október 2001 um umgengni þeirra við börn sín. Í öllum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi Z krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndu I, J, M, K og L krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Eins og nánar getur í héraðsdómi komu áfrýjendur ásamt sjö börnum sínum frá Færeyjum til Seyðisfjarðar 18. maí 2000. Þrjú barnanna, A, B og C, átti áfrýjandinn X með fyrri konu sinni, N, en þau skildu árið 1997. Áfrýjandinn Y átti önnur þrjú, G, D og E, tvo þá síðastnefndu með fyrrverandi manni sínum, O, en þau skildu 1997. Fyrrverandi makar áfrýjenda, N og O, tóku upp sambúð á því ári. Áfrýjendur hófu sambúð í ágúst 1998 og áttu saman dótturina F, þegar þau héldu til Íslands. Þau fóru öll saman í bifreið sinni frá Seyðisfirði til Z, þar sem þau tjölduðu tveimur kúlutjöldum á tjaldstæðinu í Z. Hinn 22. maí 2000 barst barnaverndarnefnd Z tilkynning um slæman aðbúnað barnanna og grunsemdir um að þau væru þolendur líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis. Barnaverndarnefndin brást þegar við og kom börnunum fyrir í skammtímavistun á meðan mál þeirra væri kannað betur. Samþykktu áfrýjendur vistun barnanna til 1. september 2000. Með úrskurði barnaverndarnefndar Z 18. september 2000 voru áfrýjendur svipt forsjá sex barnanna, en héldu forsjá elsta sonar áfrýjandans Y, G, f. [...] 1986. Áfrýjendur kærðu úrskurðinn til barnaverndarráðs, sem staðfesti niðurstöðu hans 6. júní 2001. Tvö elstu börnin, A, f. [...] 1983, og B, f. [...] 1985, eru orðin lögráða, þannig að mál þetta snýst nú um forsjá C, f. [...] 1989, D, f. [...] 1993, E, f. [...] 1997, og F, f. [...] 2001. Eftir komuna til Íslands hafa áfrýjendur eignast tvö börn, [...] 2001, og [...] 2003, sem búa hjá þeim ásamt G.
II.
Áfrýjendur byggja málsókn sína á því, að barnaverndarnefnd Z og Barnaverndarráð hafi brotið svo alvarlega gegn grundvallarreglum stjórnsýsluréttar og barnaverndarlaga að ógilda beri úrskurði þeirra frá 18. september 2000 og 6. júní 2001. Þá telja þau einnig, að fyrrnefndir úrskurðir séu efnislega rangir.
Er barnaverndarnefnd Z hafði borist framangreind tilkynning um vanrækslu barnanna hófst hún þegar handa við að kynna sér málið. Hún setti sig í samband við barnaverndaryfirvöld í Færeyjum og fékk þaðan skýrslur um afskipti þeirra af fjölskyldunni. Þar kom fram, að yfirvöld hafi fyrst haft afskipti af málefnum fjölskyldu áfrýjandans X og N, fyrrverandi konu hans, árið 1991 og hafi það aðallega verið vegna elstu drengjanna, B og C, sem taldir voru 5 - 6 árum á eftir jafnöldrum sínum í þroska. Varð að samkomulagi, að þeir fóru á ríkisrekið barnaheimili í Þórshöfn 1997. Á árinu 1998 vaknaði grunur um það, að N og sambýlismaður hennar, O, hefðu misnotað drengina kynferðislega og einnig D, son O og áfrýjandans Y. Með dómi Eystri-Landsréttar Danmerkur 5. maí 2000 var N dæmd í tveggja ára fangelsi vegna þessara brota og jafnframt fyrir áralanga kynferðislega misnotkun á A, dóttur hennar og áfrýjandans X, en O í níu mánaða fangelsi. Áfrýjendur tóku elstu drengina af barnaheimilinu 1. október 1999 gegn vilja barnaverndaryfirvalda. Í byrjun árs 2000 vaknaði grunur hjá yfirvöldum um, að B og C sættu líkamlegu ofbeldi heima fyrir, þar sem þeir komu í skólann með sýnilega áverka. Barnaverndaryfirvöld reyndu að veita fjölskyldunni stuðning, en áfrýjendur voru ekki fúsir til samstarfs. Voru áfrýjendur boðuð á fund barnaverndaryfirvalda 23. maí 2000 til að ræða um málefni barnanna, en það fundarboð fengu þau ekki, þar sem þau höfðu farið til Íslands 17. maí.
Barnaverndarnefnd Z lét börnin gangast undir læknisrannsókn um leið og þau komust í hennar umsjá. Niðurstaða hennar var sú, að ekki væri vafi á því, að C hefði verið beittur líkamlegu ofbeldi, og áverkar á A og B staðfestu einnig, að þau hefðu orðið fyrir slíku.
Barnaverndarnefndin fékk Gylfa Ásmundsson sálfræðing til að meta forsjárhæfni áfrýjenda og fól tveimur starfsmönnum sínum, [...] yfirsálfræðingi og [...] félagsráðgjafa hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Z að gera úttekt á stöðu og högum barnanna. Skiluðu þær ítarlegri greinargerð í byrjun júlí 2000 þar sem þær lögðu til, að A og C yrðu sett í langtímafóstur og sótt yrði um langtímameðferðarúrræði fyrir B. Að því er hin börnin varðaði lögðu þær til, að áfrýjendur fengju þau, að því tilskildu, að þau yrðu komin í viðeigandi húsnæði og samþykktu ákveðna meðferðaráætlun. Fengju áfrýjendur aftur á móti ekki viðeigandi húsnæði fyrir 4. september, þá lögðu þær til, að börnin yrðu sett í langtímafóstur. Í byrjun september leigðu áfrýjendur tvö herbergi með aðgangi að eldhúsi og baði á farfuglaheimili. Fyrrgreindir starfmenn nefndarinnar féllust ekki á, að þau fengju börnin til sín í það húsnæði, en lögðu 5. september 2000 til að þau fengju þau til sín þegar þau yrðu komin í viðeigandi húsnæði og samþykktu meðferðaráætlun.
Hinn 18. september 2000 tóku áfrýjendur á leigu hús frá og með næstu mánaðamótum. Fór lögmaður þeirra þess á leit við barnaverndarnefndina, að hún skoðaði húsnæðið áður en hún réði málum áfrýjenda til lykta. Síðar sama dag kvað barnaverndarnefnd Z upp þann úrskurð, að áfrýjendur skyldu svipt forsjá allra barnanna nema G. Var kröfu áfrýjenda um forsjá barnanna hafnað með vísan til 25. gr. þágildandi barnaverndarlaga nr. 58/1992. Rökstuðningurinn var sá, að áfrýjendur hefðu ekki verið til samvinnu við barnaverndaryfirvöld í Færeyjum, sem reynt hefðu að koma á stuðningsúrræðum, en barnaverndarnefnd Z hefði ekki getað beitt stuðningsúrræðum samkvæmt 21. gr. laganna vegna aðstæðna fjölskyldunnar þar sem hún hefði í raun hvergi átt heima hér á landi.
Þegar úrskurður barnaverndarnefndar var kveðinn upp lá álitsgerð Gylfa Ásmundssonar sálfræðings ekki fyrir, en hann hafði, eins og að framan getur, verið fenginn til þess af barnaverndarnefndinni að kanna forsjárhæfni áfrýjenda. Er álitsgerð hans dagsett 9. október 2000. Úrskurðurinn var í andstöðu við tillögur starfsmanna nefndarinnar um afgreiðslu málsins. Áður en hann var kveðinn upp barst vitneskja um, að áfrýjendur hefðu tekið á leigu gott húsnæði, en það virðist hafa skipt miklu máli um niðurstöðu úrskurðarins, að ekki hefði verið unnt að beita stuðningsaðgerðum vegna húsnæðisleysis þeirra. Engu að síður var úrskurðurinn kveðinn upp án þess að húsnæðið væri kannað. Samkvæmt framansögðu er ljóst, að barnaverndarnefndin braut gegn rannsóknarreglu 18. gr. og 43. gr. barnaverndarlaga, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ljóst er, að fyrstu aðgerðir barnaverndarnefndar vegna barnanna voru nauðsynlegar og réttmætar. Í 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga voru talin upp þau skilyrði, sem þurftu að vera fyrir hendi svo að barnaverndarnefnd gæti með úrskurði svipt foreldra forsjá barns. Í 2. mgr. sömu greinar sagði, að úrskurð um forsjársviptingu skyldi því aðeins kveða upp, að ekki væri unnt að beita öðrum aðgerðum til úrbóta samkvæmt 21. gr. og 24. gr. eða slíkar aðgerðir hefðu verið fullreyndar án nægilegs árangurs. Í málinu er fram komið, að barnaverndarnefndin beitti ekki öðrum stuðningsúrræðum en þeim að ráðstafa börnunum í skammtímavistun, áður en til forsjársviptingar kom, en ekki verður talið að stuðningsúrræði hafi verið fullreynd af hálfu barnaverndaryfirvalda í Færeyjum. Gögn málsins benda til þess, að barnaverndarnefnd Z hafi ekkert gert til að aðstoða áfrýjendur við útvegun húsnæðis, en boðið þeim aðstoð við að fara aftur heim til Færeyja, sem þau höfnuðu. Vegna alls þessa var málsmeðferð barnaverndarnefndarinnar haldin svo alvarlegum annmörkum að varðaði ógildingu úrskurðar hennar.
III.
Áfrýjendur kærðu úrskurð barnaverndarnefndar Z til Barnaverndarráðs 14. október 2000. Fyrir ráðinu lá matsgerð Gylfa Ásmundssonar sálfræðings 9. október 2000 um forsjárhæfni áfrýjenda, en auk þess aflaði ráðið ítarlegra gagna í málinu og var það rætt á 13 fundum ráðsins áður en úrskurður var kveðinn upp 6. júní 2001. Barnaverndarnefnd Z kom börnunum fyrir í varanlegt fóstur í september og október 2000 og var gengið frá fóstursamningum í desember 2000 og byrjun janúar 2001. Af þeim fjórum börnum, sem málið varðar fóru tvö á heimili í [...] og tvö á [...].
Barnaverndarráð staðfesti úrskurð barnaverndarnefndar Z með skírskotun til d-liðar 25. gr. barnaverndarlaga að því er varðaði yngri börnin þrjú, D, E og F, og með vísan til a-, b-, c- og d-liða 25. gr. að því er varðaði eldri drengina, B og C. Niðurstaða ráðsins var reist á því, að gagnaöflun sú, sem fram fór á vegum þess, hefði leitt í ljós alvarlega vanhæfni áfrýjenda sem foreldra og taldi ráðið, að úrskurði barnaverndarnefndar yrði ekki hrundið á þeim forsendum, að vægari úrræði hefðu ekki verið reynd áður en til forsjársviptingar kom eða gallar hefðu verið á málsmeðferð hjá nefndinni.
Í úrskurði Barnaverndarráðs er vitnað í matsgerð Gylfa Ásmundssonar, þar sem fram kemur, að hann telji áfrýjandann X vera betur í stakk búinn til að taka ábyrgð á heimili og börnum en áfrýjandann Y. Hún hafi hvorki tifinningalegan þroska til að sinna þörfum barnanna fyrir öryggi og blíðu né félagslega dómgreind til að ráða fram úr flóknum vandamálum í daglegu lífi með mörg börn. Hún sé þó ekki alls ófær um að hafa börn sín hjá sér, eitt eða fleiri, svo fremi hún notfærði sér stuðning frá félagsmálastarfsfólki og manni sínum. Forsaga málsins um kynferðislega misbeitingu og líkamlegt ofbeldi sýni, að áfrýjendum hafi ekki tekist að búa börnunum lágmarks öryggi og uppeldisskilyrði. Þau hafi bæði sýnt af sér dómgreindarleysi með skyndilegum og óundirbúnum flutningi sínum til Íslands.
Þá er vitnað í úrskurðinum til skýrslna sálfræðinganna Önnu Debes Hentze, Ingþórs Bjarnasonar og Sigurgísla Skúlasonar um drengina B og C, þar sem fram kemur, að þeir séu mjög mikið á eftir í andlegum þroska. Telur ráðið ekki verða séð, að drengirnir hafi notið þeirrar umönnunar og stuðnings, sem nauðsynlegur sé börnum með svo mikla þroskaskerðingu. Áfrýjendur virðist ekki hafa áttað sig á því hversu mjög þeir væru þroskaheftir og til hverra úrræða þyrfti að grípa vegna þeirra. Gögn málsins sýni, að þeir hafi verið beittir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Telur Barnaverndarráð ljóst, að drengirnir hafi gengið í gegnum miklar þrengingar og hafi áfrýjendur sýnt af sér stórkostlega vanrækslu gagnvart þeim og ekki sýnt skilning á því hversu mjög þeir þyrftu á stuðningi að halda. Það var því mat Barnaverndarráðs, að áfrýjendur væru ekki hæf til að fara með forsjá þeirra og var vitnað til a,- b,-, c,- og d-liða 25. gr. barnaverndarlaga.
Að því er þrjú yngri börnin varðaði taldi Barnaverndarráð að skoða yrði öll gögn málsins í samhengi. Ljóst væri af niðurstöðum sálfræðinga, að mikill vafi léki á færni áfrýjandans Y til að veita börnum sínum félagslega og vitsmunalega örvun, leiðbeiningu og stöðugleika. Taldi ráðið sögu málsins og allan feril þess bera skýr merki um það, að hegðun áfrýjenda gagnvart börnunum hefði einkennst af innsæis- og dómgreindarleysi. Þau hafi hvorki megnað að setja sig í spor barnanna né verið nægjanlega meðvituð um þarfir þeirra. Þau hafi ekki getað veitt þeim nauðsynleg uppeldisskilyrði þar sem þau gátu ekki komið til móts við andlegar, vitsmunalegar og líkamlegar þarfir þeirra. Barnaverndarráð taldi því, að hagsmunir barnanna væru ekki tryggðir hjá áfrýjendum og of mikil áhætta væri fólgin í því að fela þeim forsjá þeirra. Barnaverndarráð staðfesti því niðurstöðu úrskurðar barnaverndarnefndar Z að því er varðaði forsjá D, E og F með vísan til d-liðar 25. gr. barnaverndarlaga.
Eins og að framan greinir var úrskurður barnaverndarnefndar Z haldinn miklum annmörkum. Barnaverndarráð hefði því getað ómerkt hann og sent málið aftur til nefndarinnar til frekari rannsóknar. Það var ekki gert, heldur hófst Barnaverndarráð handa um ítarlega og yfirgripsmikla gagnaöflun. Meðferð þess á málinu bætti úr annmörkum sem voru á rannsókninni hjá barnaverndarnefnd.
Eins og að framan getur var aðalreglan sú, sbr. 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga, að úrskurð um forsjársviptingu skyldi því aðeins kveða upp, að ekki væri unnt að beita öðrum aðgerðum til úrbóta samkvæmt 21. gr. og 24. gr. eða slíkar aðgerðir hefðu verið fullreyndar án árangurs. Í 17. gr. laganna sagði, að þess skyldi að jafnaði gætt, að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu yrðu reynd áður en gripið væri til þvingunarúrræða. Í lokamálslið greinarinnar sagði: „Þó skal ávallt það ráð upp taka sem ætla má að barni sé fyrir bestu.“ Eins og lýst er hér að framan leiddi gagnaöflun Barnaverndarráðs í ljós alvarlega vanhæfni áfrýjenda og að full ástæða væri til að óttast um heill barnanna, ef þau fengju aftur forsjána. Verður því ekki talið, að Barnaverndarráð hafi brotið gegn 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga með því að staðfesta niðurstöðu úrskurðar barnaverndarnefndar Z.
IV.
Í héraði voru dómkvaddir sálfræðingarnir Oddi Erlingsson og Þorgeir Magnússon til að meta forsjárhæfni áfrýjenda. Samkvæmt matsgerð þeirra 29. október 2002 telja þeir áfrýjendur almennt hæfa til þess að fara sameiginlega með forsjá barna. Þeir gerðu þó veigamikla fyrirvara við forsjárhæfni áfrýjenda og töldu vafasamt, að þau gætu annast öll börnin nægilega vel, jafnvel þótt nauðsynleg aðstoð væri í boði. Sömu matsmenn voru einnig dómkvaddir að beiðni fósturforeldra barnanna til að kanna aðstæður þeirra, aðlögun og líðan, tengsl barnanna við fósturforeldrana og hvort skilnaður frá fósturforeldrum gæti reynst andstæður hagsmunum þeirra. Matsgerð 4. febrúar 2003 leiddi í ljós, að ytri aðstæður og aðbúnaður barnanna væri þeim alls staðar hagstæður og að öll byggju þau við mikið ástríki fósturforeldra sinna. Yngri börnin tvö hefðu aðlagast fóstrinu best, enda hefðu þau dvalist þar meiri hluta ævi sinnar. Eldri drengirnir hefðu einnig aðlagast fóstrinu vel, en þeir þyrftu báðir á sérhæfðri aðstoð að halda. Öll börnin væru í góðum og þroskavænlegum tengslum við fósturforeldra sína. Að áliti matsmanna yrði það mikið áfall fyrir börnin og myndi raska öryggi þeirra ef þau þyrftu að yfirgefa þá. Matsmennirnir komu fyrir dóm og töldu hagsmunum barnanna best borgið með því að þau fengju að vera áfram hjá fósturforeldrum sínum.
Samkvæmt öllu framansögðu er fallist á með héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að með tilliti til framtíðar væri óverjandi að raska nú hag barnanna og þeim sé því fyrir bestu að ekki verði gerð breyting á forsjá þeirra.
V.
Þrautavarakrafa áfrýjenda snýr að ógildingu úrskurðar barnaverndarnefndar Z 1. október 2001 um umgengni þeirra við börn sín. Samkvæmt þeim úrskurði skal umgengni vera tvisvar á ári, 3 klukkustundir í senn, undir eftirliti starfsmanna barnaverndarnefndar. Auk þess liggur fyrir, að börnin fjögur, sem mál þetta varðar, hafa hist innbyrðis fyrir tilstilli fósturforeldra. Framangreindir sálfræðingar voru dómkvaddir til að meta hvort umgengni áfrýjenda við börn sín væri óæskileg og hvort óæskilegt væri að áfrýjendur hefðu ríkari umgengni við börnin en kveðið var á um í úrskurði barnaverndarnefndar. Í matsgerð sálfræðinganna 6. febrúar 2003 kemur fram, að þeir telja ekki óæskilegt, að börnin hitti með reglubundnum hætti systkini sín og foreldra. Þótt fundunum yrði fjölgað lítillega sjá matsmenn ekki að á því yrði breyting þannig að samfundirnir yrðu óæskilegir. Ljóst sé þó, að áfrýjendur séu enn afar ósátt við fósturráðstöfun barnanna, tortryggni þeirra og innsæisleysi virtist síst minna en var og ekki til þess fallið að skapa það andrúmsloft, sem æskilegt sé á umgengnisfundunum. Þeim sé ekki í huga að styðja við fóstrið með því að samþykkja það í eyru barnanna. Að þessu virtu er fallist á það með héraðsdómi, að ekki séu fram komnar sérstakar ástæður til að auka umgengni áfrýjenda við börnin að svo stöddu.
VI.
Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Rétt þykir, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, X og Y, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 1.000.000 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefndu I, J, M, K og L greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. maí 2003.
Málið var höfðað 7. janúar 2002 og dómtekið 5. apríl 2003. Stefnendur eru X og Y, bæði til heimilis að [...]. Stefndu eru Z vegna barnaverndarnefndar Z, [...], I, [...], J, [...], K, [...], L, [...] og M, [...].
Málið er rekið til endurheimtu forsjár barnanna C, fædds [...] 1989, D, fædds [...] 1993, E, fædds [...] 1997 og F, fæddrar [...] 1999, en stefnendur, sem eru færeysk, voru svipt forsjá barnanna í kjölfar komu sinnar til Íslands 18. maí 2000. Jafnframt voru þau svipt forsjá tveggja annarra barna, A og B, sem nú eru orðin 18 ára gömul og eru því ekki lengur hafðar uppi kröfur vegna þeirra. Málið var upphaflega höfðað eingöngu á hendur Z, en með sakaukastefnu, sem lögð var fram á dómþingi 1. júlí 2002, var málið einnig höfðað á hendur fósturforeldrum fyrstnefndu barnanna, þeim I, J, K, L og M, til að þola ógildingu á ákvörðun barnaverndaryfirvalda um forsjársviptingu barnanna fjögurra.
Dómkröfur stefnenda eru annars svohljóðandi:
Aðallega, að ógiltir verði úrskurður barnaverndarnefndar Z frá 18. september 2000 og úrskurður Barnaverndarráðs frá 6. júní 2001, að því leyti sem stefnendur voru sviptir forsjá barnanna C, D, E og F. Jafnframt er þess krafist að stefnendum verði með dómi fengin forsjá barnanna að nýju.
Til vara er þess krafist, að framangreindir úrskurðir verði ógiltir að hluta og stefnendum fengin forsjá þeirra barna er viðkomandi hluti úrskurðanna varðar.
Til þrautavara er þess krafist, að ógiltur verði úrskurður barnaverndarnefndar Z frá 1. október 2001 um umgengni stefnenda við börnin.
Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi Z krefst sýknu af dómkröfum stefnenda og málskostnaðar.
Sakaukastefndu, I, J, K, L og M, krefjast hvert um sig sýknu af dómkröfum stefnenda og málskostnaðar úr hendi þeirra eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Stefnandi X er frá Trongisvági á Suðurey í Færeyjum, fæddur [...] 1953 og því liðlega fimmtugur að aldri. Að loknu skyldunámi lærði hann til vélsmiðs í iðnskólanum í Þórshöfn og flutti 26 ára gamall til Danmerkur, þar sem hann hlaut vélstjóraréttindi eftir eins árs nám í vélskóla í Esbjerg. Þar kynntist stefnandi N. Þau giftu sig og bjuggu um hríð í Danmörku þar sem þau eignuðust dótturina A 1983. Þaðan fluttu þau til Færeyja og settust að í Trongisvági. N ól stefnanda synina B 1985 og C 1989. Þau skildu 1997. Óumdeilt er að stefnandi hafi alla tíð verið harðduglegur til vinnu og hann reynt að sjá sér og sínum farborða.
Stefnandi Y er fædd í Þórshöfn í Færeyjum [...] 1964 og verður því fertug á næsta ári. Skömmu eftir fæðingu var hún send til sjúkrahúsdvalar í Kaupmannahöfn vegna meðfæddrar bæklunar í fótleggjum og hnjám og bjó þar næstu sex árin. Þaðan flutti hún til Færeyja, lauk þar skyldunámi og flutti 16 ára gömul til Danmerkur að nýju þar sem hún bjó í sex ár. Stefnandi var lengstum atvinnulaus á meðan hún bjó í Danmörku og þáði atvinnuleysisbætur. Þar kynntist hún manni og átti með honum soninn G, fæddan 1986. Sama ár fluttu þau til Færeyja. Stefnandi sinnti þar húsmóðurstörfum og naut örorkubóta vegna bæklunar sinnar. Hún skildi við manninn tæpum tveimur árum síðar. Stefnandi kynntist öðrum manni sínum, O, 1991 og átti með honum drengina D, fæddan 1993 og E, fæddan 1997. Þau slitu sambúð skömmu fyrir fæðingu yngri drengsins, eftir að stefnandi hafði að eigin sögn komist að því að O hefði misnotað eldri drenginn kynferðislega.
II.
Stefnendur fóru hvort um sig með forsjá barna sinna eftir samvistaslit við maka sína á árinu 1997. Atvikum háttaði svo að N og O tóku upp sambúð sama ár og höfðu því umgengni við börnin. Samkvæmt gögnum málsins (dskj. 194) liggur fyrir að þau hafi á árunum 1997-1999 misnotað B, C og D kynferðislega, með því að hafa á greindu tímabili að minnsta kosti þrívegis stungið fingri í endaþarm C og þuklað á kynfærum hans, með því að hafa í eitt skipti í maí 1998 stungið priki í endaþarm D og með því að hafa margsinnis á árinu 1997 misnotað B kynferðislega; O með því þukla ítrekað á kynfærum drengsins og N með því að hafa í fjölmörg skipti stungið priki í endaþarm hans. Fyrir þessa háttsemi voru N og O hvort um sig dæmd í tveggja ára fangelsi af færeyskum dómstól í janúar 2000, en N var jafnframt fundin sek um kynferðisbrot gagnvart A dóttur sinni, með því að hafa á tímabilinu frá 1990-1995 margsinnis stungið fingri inn í leggöng stúlkunnar og sleikt kynfæri hennar. Dóminum var áfrýjað til Eystri Landsréttar í Danmörku, sem staðfesti 5. maí 2000 refsingu N, en lækkaði refsingu O í níu mánaða fangelsi.
III.
Eftir skilnaðinn við N bjó stefnandi X einn í Trongisvági í rúmt ár ásamt A dóttur sinni, en synir hans B og C höfðu verið vistaðir á ríkisreknu fósturheimili í Þórshöfn sumarið 1997. Var það gert að ráði barnaverndaryfirvalda og með samþykki X og N, í þeim tilgangi að létta undir með foreldrunum eftir skilnaðinn og koma betur til móts við sérþarfir drengjanna, sem voru langt á eftir jafnöldrum sínum í þroska og afar illa á vegi staddir. X starfaði sem sjómaður á þessum tíma og var langdvölum að heiman. Hann hóf sambúð með stefnanda Y í ágúst 1998 og fluttu hún og börn hennar G, D og E þá inn á heimili X. Þau eignuðust svo dótturina F í maí 1999. Að sögn X munu þau Y fyrst og fremst hafa tekið saman vegna barna hennar og til að geta tekið B og C af fósturheimilinu. Bera gögn málsins með sér að X hafi snemma verið því mótfallinn að drengirnir væru þar til langdvalar og að hann og Y hafi háð harða báráttu við barnaverndaryfirvöld í Færeyjum til að fá drengina til sín. Fór svo að lokum að X sótti drengina 30. september 1999 í trássi við vilja barnaverndaryfirvalda, sem töldu að hag þeirra væri best borgið með áframhaldandi vistun á fósturheimilinu. Segir um þetta í bókun barnaverndarnefndar 1. október 1999 (dskj. 170), að hægt verði að taka málefni drengjanna aftur upp frá byrjun „þegar vandamálin koma upp á ný, en formaður og barnaverndarnefnd eru ekki í nokkrum vafa um að það muni gerast.“
Elisabeth Olsen var formaður barnaverndarnefndarinar í Trongisvági. Hún bar fyrir dómi að samskipti barnaverndaryfirvalda við stefnendur hefðu verið góð þangað til B og C voru teknir af fósturheimilinu, en frá þeim tímapunkti hefði allt samstarf hrunið. Barnaverndarnefndin hefði talið fráleitt að drengirnir byggju í Trongisvági, en þar hefðu hvorki verið starfandi sálfræðingar né í boði önnur nauðsynleg sérfræðiaðstoð fyrir drengina. Þá hefði nefndin haft áhyggjur af hinum mikla barnafjölda sem fyrir var á heimili stefnenda og talið augljóst að það væri Y um megn að annast einnig um drengina tvo, en X hefði verið langdvölum að heiman vegna vinnu sinnar. Fram kom í vætti Elisabethar að barnaverndaryfirvöld hefðu aldrei haft tilefni til beinna afskipta af börnum Y, heldur hefðu áhyggjur þeirra beinst að börnum X, þeim A, B og C. Hefðu þær farið vaxandi eftir að tilkynningar fóru að berast um að börnin sættu harðræði og ofbeldi á heimilinu. Drengirnir hefðu mætt með marbletti og aðra áverka í skólann og Elisabeth hefði séð A með hálft andlitið blátt og marið og með mikinn farða til að hylja áverkana. Að sögn Elisabethar hefði borið meira á slíku þegar X hefði verið á sjónum og Y ein með börnin. Hún kvaðst ekki hafa heyrt að drengirnir hefðu orðið fyrir einelti í skólanum eða sætt barsmíðum af hálfu skólafélaga.
Til að varpa ljósi á það hvað vakti fyrir barnaverndaryfirvöldum með afskiptum sínum af málefnum B og C er nauðsynlegt, áður en lengra er haldið, að skoða niðurstöður athugana og prófana, sem gerðar voru á drengjunum á meðan þeir bjuggu á fósturheimilinu í Þórshöfn. Ber fyrst að nefna niðurstöður prófana, sem Anna Debes Hentze sálfræðingur gerði í október-nóvember 1998. B var þá tæplega 14 ára og C 9 ára. Samkvæmt þeim prófum mældist B 5-6 árum á eftir jafnöldrum sínum í þroska (dskj. 17) og C 4-5 árum á eftir sínum jafnöldrum (dskj. 18). Þá lágu fyrir athuganir, sem gerðar höfðu verið á drengjunum á tímabilinu frá 28. ágúst 1997 til 19. janúar 1999. Þar er B meðal annars svo lýst í lok tímabilsins, þá 14 ára gömlum (dskj. 14): Hreyfingar hans eru stirðar og þunglamalegar. Hann er innskeifur, með sveigðan hrygg og lotinn í herðum. B pissar í bleyju á hverri nóttu og gerði í sig og á þegar hann kom fyrst á fósturheimilið 1997. Hann þvær hvorki hendur sínar né burstar tennur nema hann sé beðinn um það sérstaklega. Hann hefur lítinn orðaforða og notar ofbeldi í stað orða til að leysa ágreiningsmál sín. Kynhvöt B birtist meðal annars í því að hann tekur þátt í kynferðisleikjum með öðrum drengjum á sama aldri og hefur einnig misnotað fimm ára stúlku. Hann notar óhrein nærföt af börnum og fullorðnum konum til að fróa sér, verður kynferðislega æstur af sumum kvenstarfsmönnum fósturheimilisins og hefur reynt að snerta þær á viðkvæmum stöðum. Í niðurstöðum nefndrar skýrslu segir svo: „B er mjög illa á vegi staddur málfarslega, félagslega, tilfinningalega og bóklega og líka m.t.t. hreyfistjórnunar. ... Enda þótt hann fái stuðningskennslu í skóla og tekur stöðugum framförum er ólíklegt að hann komi til með að taka út nægan þroska til þess að komast á sama þroskastig og jafnaldrarnir. B hefur umfram allt þörf fyrir umhyggju og öryggi dags daglega. Hann hefur þarfnast samvista við fólk sem getur skapað honum skipulagt daglegt líf en sem getur á sama tíma gefið honum fjölbreyttar og góðar upplifanir. ...“
Í sambærilegri skýrslu, byggðri á athugun á C (dskj. 13), er honum meðal annars svo lýst í lok tímabilsins, þá 9 ára gömlum. Limaburður C er luralegur, göngulag stirt og augnaráð flöktandi. Hann pissar í bleyju á hverri nóttu og hvorki þvær sér um hendur né burstar tennur nema hann sé beðinn um það. C teiknar eins og smábarn og er málfarslega illa á vegi staddur. Í niðurstöðum nefndrar skýrslu segir svo: „C er mjög illa á vegi staddur á öllum sviðum: málfarslega, félagslega, tilfinningalega, faglega og m.t.t. hreyfigetu. Eins og stendur er hann á eftir sínum jafnöldrum á flestum sviðum, og þótt hann taki stöðugum framförum er ólíklegt að hann komi til með að taka út nægan þroska til þess að komast á sama þroskastig og jafnaldrarnir. C hefur umfram allt þörf fyrir öryggi og umhyggju dags daglega. Hann hefur þörf fyrir fastar reglur en hefur jafnframt þörf fyrir að upplifa eitthvað gott og skemmtilegt, bæði innan- og utandyra. Það þarf að styrkja sjálfstraust hans og sjálfsmynd. Auk þess hefur hann þörf fyrir að það séu gerðar til hans kröfur og að einhvers sé vænst af honum. Hann þarf að fá þjálfun á öllum sviðum mannlegra samskipta.“
Eins og áður segir fluttu drengirnir heim til stefnenda 30. september 1999. F var þá tæplega hálfs árs gömul, E tveggja ára, D sex ára, C tíu ára, G þrettán ára, B fjórtán ára og A sextán ára. X var mikið að heiman vegna vinnu sinnar og kom þá í hlut Y að annast um börnin, en hún var heimavinnandi og fékk greiddar örorkubætur vegna bæklunar í fótleggjum. Stefnendur töldu að vel væri hugsað um börnin og að B og C liði mun betur heima hjá sér en á fósturheimilinu. Þar hefði þeim liðið afar illa og þeir ekki fengið þá sérfræðiaðstoð, sem þeim hefði borið, bæði vegna bágrar þroskastöðu og undangenginnar kynferðislegrar misnotkunar. Þá töldu stefnendur að umönnun drengjanna hefði verið ábótavant á vistheimilinu og að þeir hefðu sætt þar kynferðislegri misnotkun á nýjan leik. Að sögn stefnenda hefðu þau greint barnaverndaryfirvöldum frá þessu, en þeim hefði ekki verið trúað. Hefði það spillt enn frekar fyrir samskiptum stefnenda og nefndra yfirvalda, en öll samskipti þeirra í milli hefðu farið versnandi eftir að stefnendur hófu sambúð sína. Þannig hefðu þau verið ranglega ásökuð um að beita börnin líkamlegu ofbeldi, þau ekki fengið úthlutað leikskólaplássi fyrir yngri börnin og verið synjað um stuðningsaðila á heimilinu vegna B og C. Voru stefnendur jafnframt afar ósátt við afskipti barnaverndaryfirvalda og það skilningsleysi, sem þau töldu sig hafa mætt af hálfu barnaverndarnefndarinnar í Trongisvági. Fannst stefnendum að þau væru lögð í einelti af barnaverndarnefndinni og að þar færi fremst í flokki Elisabeth Olsen, en hún hefði verið þeim andvíg frá upphafi sambúðar þeirra.
Málið horfði allt öðruvísi við frá sjónarhorni barnaverndaryfirvalda. Fram kemur í gögnum málsins (dskj. 170) að yfirvöld höfðu fylgst með fjölskyldu stefnanda X allt frá árinu 1991 og ráðið stuðningsaðila á heimili hans til að vinna í málefnum fjölskyldunnar. B hefði þá verið kominn í leikskóla og honum verið útvegaður stuðningskennari. Fjölskyldunni hefði síðan verið veitt fjárhagsaðstoð á árunum 1993 og 1994 vegna B og C, sem ekki hefðu haft stjórn á þvaglátum um nætur. Í ársbyrjun 1997 hefði barnaverndaryfirvöldum borist tilkynning um að börn X virtust vera vanrækt. Í framhaldi hefði verið veitt leyfi til að ráða stuðningsaðila á heimilið, bæði til að sinna B og C og eins til að leiðbeina N, þáverandi eiginkonu X, ef á þyrfti að halda. Ekki varð af ráðningu stuðningsaðila, þar sem enginn mun hafa sótt um það starf og varð því úr að drengirnir tveir færu á áðurnefnt fósturheimili. X og N voru þá skilin. Staða drengjanna var metin í lok október 1997, eftir nokkurra mánaða dvöl á fósturheimilinu. Fram hefði komið að B langaði ekki heim til sín í komandi haustfríi og að „ekkert líkamlegt samband“ virtist vera milli drengjanna og foreldra þeirra. Grunsemdir voru orðaðar þess efnis að drengirnir hefðu búið við það að vera læstir inni á heimili sínu. Fært var til bókar um andlegt ástand B, að hann sýndi engar tilfinningar eða svipbrigði og hótaði og verði sig með því að draga upp hníf. Um C var sagt, að með tilliti til þroska væri hann á lægsta stigi; hann byggi ekki yfir neinni almennri kunnáttu og væri vart mælandi. Var gengið svo langt í nefndri bókun að ýja að því að B væri jafnvel „glataður“ og að aðeins væri hægt að „bjarga“ C ef vel væri unnið í hans málum. Af gögnum málsins er ljóst að áhyggjur barnaverndaryfirvalda jukust til muna eftir að drengirnir fluttu heim til stefnenda (dskj. 170). Í febrúar 2000 hefði verið farið í heimsókn til stefnenda, í kjölfar ítrekaðra ábendinga frá skóla B og C um að sterkur grunur léki á að þeir væru beittir ofbeldi á heimilinu. Þannig hefðu kennarar tekið eftir marblettum á andlitum þeirra tvær vikur í röð í nóvember 1999, sem C hefði sagt að væru af völdum Y (dskj. 32). Þá hefði C verið með marbletti á hálsi og andliti og útbreidd sár á höndum eftir áramót. Aðspurður hefði hann ekki látið uppi hver hefði meitt hann, en sagst hafa verið að þrífa herbergi sitt með óblönduðum klór og við það brennt hendur sínar (dskj. 32). Um mánaðamót janúar-febrúar hefði hann svo ekki komið í skólann í fimm daga, en síðan mætt með stóran gulan marblett vinstra megin á enni og rauðan blett undir vinstra auga. Aðspurður hefði C sagt að faðir hans hefði slegið höfði hans í gólfið (dskj. 32). Í viðræðum við X hefði hann þvertekið fyrir að drengirnir sættu ofbeldi heimafyrir og látið í ljósi þá skoðun sína að um ofsóknir væri að ræða á hendur sér og drengjunum. Málefni fjölskyldunnar voru áfram til umfjöllunar næstu mánuði á vegum barnaverndaryfirvalda og í apríl var ákveðið, á fundi með stefnendum, að ráðinn yrði tilsjónarmaður með fjölskyldunni í tvo mánuði til reynslu. Ekki varð af þeirri ráðningu, meðal annars vegna þess að X mun hafa viljað ákveða hver ráðinn yrði til starfans. Hins vegar fór Anna Debes Hentze sálfræðingur í Þórshöfn í nokkrar heimsóknir til stefnenda í mars og apríl og eins munu starfsmenn barnaverndaryfirvalda hafa ámálgað við X hvort koma mætti B og C í fóstur. Þá voru lögð drög að því í apríl og byrjun maí að koma yngri börnunum í dagvistun, en opinber fjárveiting fyrir slíku mun ekki hafa fengist. Hinn 10. maí var Elisabeth Olsen boðuð á fund skólastjóra eftir að C mætti í skólann með stóra rifu bak við eyra. Drengurinn var í framhaldi færður til læknisskoðunar, en ekki mun hafa fengist staðfest hvernig rifan var til komin. Daginn eftir mun Elisabeth hafa tilkynnt yfirvöldum að búið væri að útvega tvö dagvistarpláss fyrir yngri börn stefnenda. Er bókað þann sama dag (dskj. 170) að samskipti barnaverndaryfirvalda og stefnenda hafi aldrei verið stirðari en þá og að X vildi hvorki sjá né heyra af barnaverndarnefnd eða öðrum félagsmálayfirvöldum. Hann vildi því ekki lengur þiggja umrædda dagvistun. Daginn eftir var ákveðið að boða stefnendur á fund hjá félagsmálastofnuninni í Þórshöfn 23. maí og var ábyrgðarbréf þar að lútandi sent stefnendum 16. sama mánaðar. Bréfið komst ekki til skila, þar sem stefnendur héldu daginn eftir til Íslands með farþegaskipinu Norrænu.
Stefnendur hafa gefið þá skýringu á för sinni til Íslands, að daginn fyrir brottförina hafi C komið heim úr skólanum, blár og marinn eftir slagsmál, en hann hefði löngum sætt einelti í skólanum. Stefnendur hafi vitað að barnaverndaryfirvöld myndu kenna þeim um marblettina og að í kjölfarið yrðu öll börnin tekin af þeim. Þau hafi því ákveðið í skyndingu að flýja undan ofríki nefndra yfirvalda og fara til Íslands, þar sem búa mætti börnunum betra líf, en stefnendur höfðu heyrt að hér á landi væri skilningur og stuðningur barnaverndaryfirvalda meiri en í Færeyjum. Að sögn stefnenda vannst ekki tími til að flytja búslóðina og því létu þau nægja að taka með sér fatnað, leikföng barnanna, tvö tjöld og svefnpoka fyrir allan hópinn, sem þau komu fyrir í fimm manna fólksbifreið sinni af gerðinni Toyota Carina.
IV.
Hinn 20. maí 2000, þremur dögum eftir brottför stefnenda frá Færeyjum, skilaði Anna Debes Hentze sálfræðingur skýrslu til Almannastovunnar í Þórshöfn (félagsmálastofnunar), en henni hafði verið falið að kanna hagi fjölskyldunnar í mars og apríl 2000 „til þess að finna bestu leiðina til að hjálpa fjölskyldunni við núverandi aðstæður“, eins og segir í skýrslu sálfræðingsins (dskj. 42). Umrædd skýrsla er ítarleg og er óumdeilt að hún gefi raunsanna mynd af málefnum fjölskyldunnar á greindum tíma. Þykir því rétt að rekja orðrétt meginefni skýrslunnar. Þar segir:
„Staða fjölskyldunnar er sú, að bæði börn ...[X] og ...[Y] hafa sætt kynferðislegri misnotkun, sum þeirra í mörg ár. Auk þess áreitis sem börnin hafa mátt þola hafa nýlega borist kvartanir frá skóla drengja ...[X], þeirra B og C, þar eð tekið hefur verið eftir því að þeir eru báðir með marbletti sem þykja ískyggilegir og sem að áliti starfsfólks skólans gætu stafað af illri meðferð. Í kvörtun skólans kemur fram grunur um að ...[Y] eigi sök á marblettunum ... Þegar ég spurði um tilurð marblettanna svaraði fullorðna fólkið, að þegar börnin eru að leika sér gengur stundum svo mikið á, að þau fá marbletti. Þegar ég spurði svo stóru börn ...[X] um marblettina sögðu þau að elsti og næstelsti strákur ...[Y] ættu sök á þeim. Það eru einkum B og C sem eru með marbletti.
B og C eru í þeirri sérstöku aðstöðu að þeir eru báðir þroskaheftir. Samkvæmt niðurstöðum sálfræðilegra rannsókna sem Barnaheimilið (ríkisrekna fósturheimilið í Þórshöfn innskot dómenda) fól mér að gera 1999 eru þeir báðir 5-6 árum á eftir sínum aldri í þroska. Við það bætist að þeir hafa sætt kynferðislegri misnotkun o.fl. sem hefur að sjálfsögðu sett mark sitt á þá. Í þau skipti sem ég kom í heimsókn til fjölskyldunnar voru þeir einstaklega stilltir og feimnir. Hér er um að ræða tvo drengi sem þurfa sérstaklega á hjálp að halda, svo sem umhyggju, lögráðanda o.fl. Auk þeirra á ...[X] dóttur sem er víst í 9. eða 10. bekk grunnskóla og sem virðist vera eðlileg m.t.t. gáfnafars o.þ.h. Þegar ég spyr hana hvernig henni líði eftir allt sem hún hefur mátt þola svarar hún að hún reyni bara að gleyma því. Annars finnst henni aðstæður sínar miklu betri en áður þá voru þau bæði lamin og misnotuð, en það gerist ekki núna.
Þá er komið að börnum ...[Y]. Að mínu mati eru börnin hennar sérlega lífleg, þ.e.a.s. þau eru alltaf að og gengur mikið á þegar þau eru að leika sér ekki óvenju mikil læti en þarna er mikið fjör. Það er erfitt að segja til um alla vega við núverandi aðstæður hvernig þau myndu haga sér innan um önnur börn. Mér skilst að tveir yngri drengirnir hafi ekki náð skólaaldri og eru þar af leiðandi heima allan daginn. Elsta drenginn hennar sá ég bara sem snöggvast. Mér skilst að honum gangi sæmilega í skólanum.
Þá er það sameiginlega barnið, 9-10 mánaða gömul stúlka. Eitt skiptið sem ég kom þangað var hún veik og þar af leiðandi dálítið ræfilsleg. Hin skiptin sem ég sá hana virtist hún hins vegar vera nokkuð eðlilega þroskuð, líkamlega og andlega, miðað við aldur, en dálítið guggin og tekin til augnanna.
Um ...[X og Y] er það að segja að þau tóku vel á móti mér á heimilinu og ég ræddi mikið við þau. ...[X] talaði mikið um það að drengjunum hafði verið komið fyrir á Barnaheimilinu og að þeir hefðu orðið fyrir kynferðislegri misnotkun þar. Honum sárnar líka framkoma barnaverndar Tvöroyrar við sig og segist hafa misst alla trú á því fólki. Hann segir að það hafi aldrei viljað hlusta á það sem hann hafði að segja heldur hafi bara farið sínu fram. Hann hefur enga trú á því að félagsleg yfirvöld vilji honum neitt gott, hann trúir því ekki að við viljum hjálpa fjölskyldunni. Hins vegar ræddum við líka um það að hann eigi 3 börn sem árum saman sættu illri meðferð af hálfu fyrri konu hans án þess að hann hefði haft minnsta grun um það. Sömuleiðis átti ...[Y] mann sem árum saman níddist á börnum hennar, svo það er engin furða þótt félagsleg yfirvöld séu á verði núna.
...[Y] hefur verið búsett í Þórshöfn í mörg ár. Hún er örorkulífeyrisþegi vegna líkamlegrar fötlunar. Hún lá á spítala flest árin í bernsku og á m.a. erfitt með gang. Það getur etv. verið skýringin á því að hún er svolítið seinþroska m.t.t. tilfinninga og viðbragða, að það taki dálítinn tíma áður en hún bregst við, en þar á ég líka við það að setja börnunum vissar reglur og bregðast við þörfum þeirra. Þegar hún var búsett í Þórshöfn og átti 2 börn kom til tals að heimilið fengi aðstoð og börnin fengju inni á stofnun til þess að létta undir með henni og til þess að þau fengju að vera með öðrum börnum. Elsti sonur hennar átti þá í dálitlum félagslegum erfiðleikum í skólanum, einelti o.fl.
Eins og stendur er staðan sú að kvartanir hafa borist frá skólanum vegna marbletta á börnunum og að fullorðna fólkið fer út frá börnunum þó nokkuð lengi í einu án þess að nokkur fullorðin manneskja sé til að sinna þeim, t.d. er elsti sonur ...[Y] barnapía. Kannski koma marblettirnir við svona tækifæri? Hvað með þroskaheftu drengina fá þeir næga umhyggju o.s.frv.? Geta þeir t.d. varið sig ef stóru drengirnir vilja slást við þá o.þ.h.?
En hvaða ráð er hægt að gefa í þessu máli?
Eins og mér kemur núverandi ástand fyrir sjónir á að byrja á því að gera samning við ...[X] um það að hann taki þátt í öllu sem gerist, þ.e.a.s. að engar ákvarðanir séu teknar án hans vitundar. Að honum sé gerð grein fyrir því að ráðstafanir verði gerðar til þess eins að hjálpa fjölskyldunni og börnunum, að þau ...[hann og Y] fái jafnt og þétt upplýsingar ásamt ráðgjöf um það, hvernig þau geti gerst hæfari foreldrar, ef komist sé að því að eitthvað sé ekki í lagi í uppeldi barnanna.
Það er persónuleg skoðun mín að ...[Y] ráði ekki við að bera ábyrgð á 7 börnum allan sólarhringinn, (...[X] er vélstjóri á sjó og þar af leiðandi mikið að heiman), en þá á ég bæði við líkamlega og andlega burði hennar. Þetta verkefni er henni einfaldlega um megn. Þar af leiðandi finnst mér að það ætti að koma 3 yngstu börnunum fyrir í einhvers konar dagvist þar sem kunnáttufólk getur sinnt þeim.
B og C þurfa á sérstakri umönnun að halda m.t.t. þess að þeir eru fatlaðir. Þeir hafa þörf fyrir meiri umhyggju en venjuleg börn. Þegar fram í sækir verða þeir hugsanlega vistmenn á stofnun.
Unglingsstúlkunni á að bjóða upp á sálfræðilega hjálp sem hún getur þegið þegar hún er tilbúinn til þess.
Eftir að fylgst hefur verið með yngstu börnum ...[Y] á dagheimili um tíma mætti reyna að finna bestu leiðina til þess að hjálpa börnunum/fjölskyldunni í erfiðleikunum ef einhverjir verða.
Það er enginn vafi á því að þessi börn hafa orðið fyrir mjög miklum áföllum og að eitthvað verður að gera til þess að bæta ástandið.
Mér skilst að það geti orðið erfitt að fá einhvern eftirlitsaðila inn á heimilið en hugsanlega væri hægt að fá hann lánaðan annars staðar um tíma. Þetta er bara uppástunga.“
Elisabeth Olsen staðfesti í vitnisburði sínum fyrir dómi, að af hálfu barnaverndaryfirvalda í Færeyjum hefði staðið til að veita stefnendum stuðningsúrræði til að ráða fram úr vandamálum fjölskyldunnar. Ráðgert hefði verið að A yrði send í skóla í Danmörku, B færi á meðferðarheimili í Þórshöfn, C yrði komið í fóstur á einkaheimili og að stefnendum yrði veittur stuðningur til að annast um hin börnin. Hefði í því sambandi staðið til að útvega yngri börnunum leikskólapláss, til að létta undir með Y.
V.
Stefnendur komu til Seyðisfjarðar 18. maí 2000. Þau þekktu til færeyskrar fjölskyldu, sem búsett var í Z og héldu því för sinni þangað. Mun ferðalagið hafa tekið um það bil sólarhring, enda var þröngt um börnin sjö í bifreiðinni og því mikið um stopp á leiðinni. Stefnendur slógu upp tveimur kúlutjöldum á tjaldstæðinu í Z. Í skýrslum þeirra fyrir dómi kom fram að fjölskyldunni hefði liðið vel á tjaldstæðinu og að vel hefði farið um öll börnin. Þar hefði verið ágæt þjónustumiðstöð, með baði og snyrtingu og stóru herbergi þar sem fjölskyldan gat setið og matast. G tók undir lýsingu foreldra sinna í vitnisburði sínum fyrir dómi og sagði að fjölskyldunni hefði liðið vel á tjaldstæðinu. Vitnið Æ frá Færeyjum tók í sama streng, en Æ bar fyrir dómi að hann hefði kynnst stefnendum við komu þeirra til Z og hefði strax orðið mikill samgangur milli fjölskyldu hans og þeirra. Hann hefði oft hitt börn stefnenda og ekki séð neitt athugavert við líðan þeirra eða aðbúnað á tjaldstæðinu. Bróðir hans, Q, mun hafa verið á öðru máli, en hann þekkti til stefnenda frá fyrri tíð.
Hinn 22. maí tilkynnti Q barnaverndarnefnd Z um slæman aðbúnað barnanna og grun sinn um að þau væru þolendur líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis. R félagsmálastjóri Z og T félagsráðgjafi hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Z fóru samdægurs á tjaldstæðið til að kanna aðstæður og aðbúnað barnanna. R bar fyrir dómi að bæði stefnendur og börnin hefðu verið afar óhrein til fara og illa lyktandi. Eins hefði verið vond lykt í þjónustumiðstöðinni eftir veru þeirra þar inni. Í viðræðum við stefnendur hefðu þau greint í stórum dráttum frá hremmingum fjölskyldunnar í Færeyjum og afskiptum og skilningsleysi þarlendra barnaverndaryfirvalda. Máli sínu til stuðnings hefðu þau sýnt R og T mikinn bunka af skjölum, sem tengdust málefnum fjölskyldunnar í Færeyjum. Að sögn R hefðu börnin verið vansæl að sjá og tilfinningalega „flöt“. Þó hefði G verið betur á sig kominn en hin og virtist R sem hann hefði verið efstur í „goggunarröðinni“ meðal barnanna. C hefði verið útsteyptur í marblettum í andliti og A með skallabletti á höfði, mikið förðuð í framan og með klút þétt vafinn um hálsinn. Aðspurð hefðu stefnendur sagt að áverkar C væru eftir áflog í skólanum í Færeyjum og þau samþykkt að farið yrði með drenginn og öll hin börnin til læknis.
Hans Erlandsson heilsugæslulæknir skoðaði börnin sama dag. Í vottorði hans (dskj. 44) er greint frá minni háttar marblettum og rispum á B, G, D og E og nefrennsli og eyrnabólgu hjá F. A hafi verið með stóran marblett á hægri kálfa og C með dreifða marbletti, misgamla, á andliti, brjóstkassa, baki og hægri fótlegg. Að ráði læknisins tóku starfsmenn barnaverndaryfirvalda ljósmyndir af áverkum A og C og fylgja þær dómskjali nr. 59 í málinu. Af þeim myndum að dæma voru tugir marbletta á líkama C. Læknirinn spurði drenginn hvort foreldrar hans hefðu veitt honum áverkana og mun C þá hafa kinkað kolli.
Að lokinni læknisskoðun ákváðu barnaverndaryfirvöld að koma börnunum fyrir í skammtímavistun á meðan málefni þeirra væru könnuð betur og féllust stefnendur á þá tilhögun með skriflegri yfirlýsingu 22. maí. Sama dag fóru öll börnin í fóstur hjá P og eiginmanni hennar í Ö. P bar fyrir dómi að börnin hefðu verið köld og svöng við komuna til hennar. F hefði borðað vel og verið róleg eftir það og auðveld í meðförum. E og D hefðu verið hræddir og D fljótlega sýnt af sér ofbeldishneigð í leik með hinum krökkunum. C hefði verið verst útlítandi, afar lokaður og erfitt að nálgast hann. B hefði einnig verið afar lokaður og A „frosin“, með þykkt lag af andlitsfarða. G hefði verið eina barnið, sem hefði sýnt tilfinningar og hefði hann grátið mikið í fyrstu. P sagði að aðlögun barnanna hefði annars gengið ótrúlega vel og að henni hefði komið á óvart hve sátt þau virtust vera við þessa breytingu.
Hinn 23. maí hafði R félagsmálastjóri samband við barnaverndaryfirvöld í Færeyjum, fékk upplýsingar um stöðu mála þar í landi og óskaði eftir gögnum þaðan. Sama dag leitaði hún álits Barnaverndarstofu og fékk þær upplýsingar að barnaverndarnefnd Z væri að lögum skylt að leysa úr málefnum fjölskyldunnar. Lá þá fyrir í málinu að stefnendur vildu alls ekki snúa aftur til Færeyja, þrátt fyrir að þau væru vegalaus hér á landi en ættu einbýlishús í Færeyjum. U formaður barnaverndarnefndar ákvað sama dag að kyrrsetja öll börnin á heimili P.
Næstu daga á eftir var gagnaöflun og rannsókn málsins fram haldið. Börnin, að frátaldri F, fóru í rannsóknarviðtöl í Barnahúsi 25. maí (dskj. 63). Fram kom í viðræðum við E að B hefði einhvern tíma meitt hann á tippinu og að C hefði einnig meitt hann. D sagði B vera vondan og oft hafa lamið hann og einnig hafa komið við tippi hans. Stefnendur væru hins vegar ekki vondir við hann. C greindi frá því að B hefði áreitt hann kynferðislega og að stefnendur flengdu hann stöku sinnum á rassinn. Þá hefði Y í einhver skipti slegið hann í andlitið og aftan á kálfana. Aðspurður um áverkana í andliti sagðist C hafa dottið niður í kjallara heima í Færeyjum, eftir rifrildi við D bróður sinn. G greindi frá því að E, D og C væru oft að slást og að C hefði einnig verið lagður í einelti í Færeyjum. Marblettina í andliti hefði C fengið í slagsmálum. Aðspurður sagði G að stefnendur væru góð við hann og hin börnin og lemdu þau ekki, heldur skömmuðu ef eitthvað kæmi upp á og reyndu að útskýra málin. A þvertók einnig fyrir að stefnendur hefðu lagt hendur á systkinin og sagði þau vera góða foreldra. Líkt og G bróðir hennar sagði A að C hefði komið heim úr skólanum í Færeyjum, marinn og blár í framan. Hún sagði að þau systkinin væru stundum að rífast og slást, eins og önnur systkini. B aftók einnig að stefnendur hefðu lagt hendur á börnin, en sagði að hann og systkinin slægust stundum innbyrðis og eins hefðu hann og C lent í slagsmálum í skólanum. Þannig hefði C fengið marblettina í andliti. Þá hefði A fengið sína marbletti þegar „hún datt niður stiga og fékk spýtur í lappirnar á sér“. Í rannsóknarviðtölunum komu einnig fram upplýsingar um kynferðislega misnotkun á sumum börnunum af hálfu N og O, sem óþarft er að rekja samhengi máls vegna, en um athæfi þeirra N og O vísast til II. kafla hér að framan.
Hinn 26. maí fóru öll börnin í almenna læknisskoðun á Barnaspítala Hringsins í Reykjavík. Samkvæmt vottorðum barnalækna (dskj. 51-57) kom ekkert óeðlilegt fram við almenna líkamsskoðun á G, D og F, en þess var getið að telpan væri á sýklalyfjum vegna eyrnabólgu. Varðandi E var bent á að hann þyrfti að komast undir hendur bæklunarlækna vegna snúinna fótleggja. Á B sáust marblettir neðanvert á hægri upphandlegg, sem gáfu til kynna að drengurinn gæti hafa sætt harðræði. A var með stóra og útbreidda marbletti, misgamla, á báðum ganglimum, marbletti á upphandleggjum og greinilega hárþynningu hægra megin á hvirfli, sem staðfestu að mati viðkomandi læknis að stúlkan hefði verið beitt líkamlegu ofbeldi, enda hefði hún ekki gefið viðhlítandi skýringu á áverkunum. Tekið var fram í vottorði vegna A að hún hefði verið með svo mikinn andlitsfarða að ekki hefði verið hægt að sjá hvort áverkar leyndust undir farðanum. Varðandi C var bent á að marblettir á líkama hans væru slíkir að enginn vafi léki á því að hann hefði sætt líkamlegu ofbeldi. Af umræddum læknisvottorðum verður ekki annað ráðið en að heilsufar barnanna hafi að öðru leyti verið gott.
Á fundi barnaverndarnefndar Z 29. maí var staðfest ákvörðun um kyrrsetningu barnanna frá 23. sama mánaðar. Jafnframt var ákveðið að stefnendur fengju að svo stöddu að hitta börnin undir eftirliti einu sinni í viku, tvær klukkustundir í senn. Þá var ákveðið að skipa börnunum talsmann í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga og var Helgi Birgisson hæstaréttarlögmaður fenginn til þess starfa.
Hinn 31. maí voru stefnendur yfirheyrð af lögreglunni í Z vegna gruns um brot á barnaverndarlögum og Y ennfremur vegna gruns um líkamsárásir á börnin A, B og C. Er ekki ástæða til að rekja efni skýrslnanna (dskj. 47-48), en þó er rétt að geta þess að stefnendur neituðu sem fyrr að hafa beitt börnin ofbeldi. Þá sögðu þau bæði að fjölskyldan hefði verið lögð í einelti af barnaverndaryfirvöldum í Færeyjum og því hafi þau ákveðið að flýja til Íslands.
Með bréfi lögmanns stefnenda 6. júní 2000 til Fjölskyldu- og félagsþjónustu Z var þess krafist að börnunum yrði skilað aftur til foreldra sinna. Bréfinu fylgdu fjölmörg gögn, sem vörðuðu samskipti stefnenda og barnaverndaryfirvalda í Færeyjum. Þremur dögum síðar bárust barnaverndarnefnd Z gögn frá félagsmála-stofnuninni í Færeyjum (Almannastovunni) um afskipti þarlendra yfirvalda af mál-efnum fjölskyldunnar.
Hinn 16. júní ákvað barnaverndarnefnd, með samþykki stefnenda, að vista börnin áfram í þrjár vikur hjá P og eiginmanni hennar í Ö. B, G og C fóru síðan til sumardvalar í sveit í byrjun júlí, með vitund stefnenda, sem undirrituðu 4. júlí samþykki sitt fyrir áframhaldandi fóstri allra barnanna til 1. september, á meðan verið væri að meta forsjárhæfi stefnenda og hagi og stöðu barnanna.
VI.
Um mánaðamót ágúst-september tók Fjölskyldu- og félagsþjónusta Z saman greinargerð, sem leggja átti fyrir barnaverndarnefnd í byrjun september, þegar framhald málsins yrði ákveðið (dskj. 59). Þar er meðal annars gerð grein fyrir því að ekki hafi tekist að fá sálfræðing frá Færeyjum til að meta forsjárhæfi stefnenda og að ekki hafi verið unnt að fá tíma hjá sérfræðingi hér á landi fyrr en í september. Mat hafi hins vegar verið gert á börnunum, með þeim takmörkunum, sem leiðir af því að þau tali ekki íslensku. Umgengni hafi farið fram einu sinni í viku og hafi starfsmenn félagsþjónustunnar ávallt verið viðstaddir. Í greinargerðinni er stöðu barnanna lýst í lok sumars. Þar segir meðal annars að B og C hafi braggast vel í sveitinni, hvor hjá sinni vistfjölskyldu og að þeir vilji vera þar áfram. G hafi hins vegar ekki plumað sig jafn vel og hann fengið leyfi til að fara tímabundið til stefnenda 25. ágúst. Mun drengurinn hafa verið því feginn, enda saknaði hann Y móður sinnar mjög mikið og virtist sem þau væru tengd sterkum böndum. Þegar fylgst hafi verið með drengjunum í umgengni við stefnendur hafi B og C virst standa utan við fjölskylduna og vera henni ótengdir. G hafi á hinn bóginn virst njóta sérstöðu í barnahópnum; hann verið mjög ráðríkur og fengið mesta athygli stefnenda, sérstaklega Y. Um líðan A er lítt fjallað í greinargerðinni, en D er sagður hress og glaðlegur strákur, sem sýni þó ofbeldishneigð í garð annarra barna að sögn P og eiginmanns hennar. Í umgengni við Y sýni hann engin tilfinningaviðbrögð og sæki hvorki til hennar athygli né umhyggju. Svipaða sögu er að segja um E. F er sögð hafa tekið jákvæðum breytingum í vist hjá fósturforeldrum sínum, hún sé farin að brosa meira og sækist mikið eftir umhyggju og blíðu. Í umgengni við börnin sýni X telpunni mesta athygli, en líkt og Y eigi hann erfitt með að sýna börnunum tilfinningasemi og blíðu. Í ályktarorðum nefndrar greinargerðar eru settar fram svohljóðandi tillögur til barnaverndarnefndar:
1. Að A og C verði komið í langtímafóstur á vegum nefndarinnar.
2. Að sótt verði um langtímameðferðarúrræði fyrir B á vegum Barna-verndarstofu, þ.e. vistun á meðferðarheimili.
3. Að stefnendur fái hin börnin fjögur til sín að nýju, að því tilskildu að þau verði komin í viðeigandi húsnæði og samþykki meðferðaráætlun, sem lúti að því að stefnendur fari í athugun hjá Gylfa Ásmundssyni sálfræðingi til að meta hæfni þeirra sem foreldra, að á heimili þeirra verði skipaður tilsjónarmaður, sem hafi það hlutverk að leiðbeina stefnendum varðandi uppeldi barnanna og heimilishald, að D fari ávallt í skólasel að loknum skóladegi, að E fari í leikskóla allan daginn og að F fari til dagmömmu allan daginn.
Því næst segir orðrétt í greinargerðinni:
4. „Ef ...[stefnendur] verði ekki komin með viðeigandi húsnæði, þann 4. september 2000, þá er lagt til að G , D, E og F verði sett í langtímafóstur á vegum Barnaverndarnefndar Z.
5. Lagt er til að foreldrarnir flytji aftur til Færeyja, en þar eiga þau húsnæði, þar sem það er alfarið á ábyrgð þeirra að búa börnunum öruggt athvarf.“
Með greinargerðinni voru ýmis fylgiskjöl, þar á meðal sálfræðiathuganir á G og D og meðferðaráætlun sú, sem nefnd var í 3. tölulið hér að framan. Meðferðaráætlunin, sem er óundirrituð, er dagsett 31. ágúst 2000 (dskj. 64). Þar eru nöfn barnanna fjögurra tilgreind og ástæða fyrir afskiptum barnaverndarnefndar sögð: „Foreldrar þurfa á stuðningi að halda varðandi uppeldi barnanna.“ Markmið afskiptanna er sagt: „Að foreldrar verði styrkt í foreldrahlutverkinu með því að þau fái aðstoð svo þau geti betur tekist á við uppeldishlutverk sitt.“
VII.
Þegar hér var komið sögu hafði stefnandi X fyrir löngu útvegað sér ágæta vinnu hjá Skipasmíðastöð Z, þar sem hann vinnur enn í dag. Fyrir liggur að stefnendum hafði hins vegar gengið afar illa að útvega íbúðarhúsnæði og héldu því til á sama tjaldstæði og áður fram til 4. september er þau fengu leigð til bráðabirgða tvö herbergi á Farfuglaheimilinu V í Z. Samkvæmt framburði stefnenda fyrir dómi höfðu þau áður reynt allt sem þau gátu til að útvega varanlegt húsnæði, meðal annars auglýst í dagblöðum og hengt upp auglýsingar í matvöruverslunum á [...]. Jafnframt kváðust þau hafa leitað ásjár hjá félagsmálayfirvöldum í Z, vitandi að félagslegar íbúðir væru þar á lausu, en hefðu fengið þau svör að yfirvöldum væri ekki skylt að hjálpa þeim við útvegun húsnæðis. Fram kom hjá stefnanda Y að hin neikvæðu viðbrögð barnaverndarnefndar hefðu valdið henni miklum vonbrigðum, á sama tíma og nefndin hefði lagt mikla áherslu á að þau útveguðu íbúðarhúsnæði til þess að geta fengið börnin til sín aftur.
R félagsmálastjóri staðfesti fyrir dómi að barnaverndaryfirvöld hefðu lagst gegn því að aðstoða stefnendur við útvegun húsnæðis. Um hefði verið að ræða „pólitíska“ ákvörðun bæjarstjórnar að láta stefnendur ekki ganga fyrir öðrum íbúum sveitarfélagsins, sem biðu eftir félagslegu húsnæði og til þess litið að þau ættu hús í Færeyjum og væri því frjálst að fara þangað aftur með börnin og vinna þar úr sínum málum. R bar að starfsmenn félagsþjónustunnar hefðu á hinn bóginn haft vilja til að aðstoða stefnendur í húsnæðismálum, en þar sem „pólitískur vilji“ hefði ekki verið fyrir því hefðu hendur þeirra verið bundnar. Þá hefði félagsþjónustan viljað beita stuðningsúrræðum barnaverndarlaga og því samið fyrrnefnda meðferðaráætlun, með það markmið í huga að stefnendur myndu fá börnin G , D , E og F til sín, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Hefðu starfsmenn félagsþjónustunnar jafnframt vænst þess að beðið yrði eftir niðurstöðum forsjárathugunar Gylfa Ásmundssonar sálfræðings og niðurstöðum um húsnæðisleit stefnenda áður en málinu yrði ráðið til lykta. Barnaverndarnefndin hefði hins vegar haft tillögur félagsþjónustunnar að engu og ekki talið forsvaranlegt að láta afgreiðslu málsins dragast lengur.
VIII.
Á fundi barnaverndarnefndar Z 4. september 2000 voru bókuð mótmæli stefnenda við áðurnefndum tillögum félagsþjónustunnar um langtímafóstur A og C og vistun B á meðferðarheimili. Jafnframt óskuðu þau eftir að fá öll börnin til sín að nýju og féllust í því sambandi á öll þau stuðningsúrræði, sem félagsþjónustan hafði lagt til í meðferðaráætlun sinni varðandi hin börnin fjögur. Þá var bókuð sú ákvörðun barnaverndarnefndar að húsnæðisaðstaða stefnenda í farfuglaheimilinu yrði könnuð áður en ákveðið yrði hvort fallist yrði á tillögur þeirra eða öðrum úrræðum beitt (dskj. 65).
Daginn eftir skiluðu starfsmenn félagsþjónustunnar greinargerð til barnaverndarnefndar um úttekt sína á umræddu húsnæði (dskj. 66). Þar er aðstöðu stefnenda lýst og þess getið að um sé að ræða tvö herbergi, með aðgangi að eldhúsi og baði, sem stefnendur hafi leigt til eins mánaðar, með möguleika á áframhaldandi leigu í einhverja mánuði til viðbótar. Kannað hafi verið hvort heimilt væri að skrá lögheimili barnanna á viðkomandi stað, með tilliti til þess að unnt væri að skrá þau í skóla og leikskóla í Z, en það hefði reynst óheimilt. Það var síðan mat starfsmannanna að húsnæðið væri ekki viðunandi til búsetu fyrir foreldra með börn og meðal annars til þess tekið að húsbúnaður væri ónógur og að þar væri ekki viðunandi aðstaða fyrir tilsjónarmann. Þá töldu viðkomandi starfsmenn að það væri óásættanlegt að stefnendur hefðu ekki tryggingu fyrir búsetu á farfuglaheimilinu eða annars staðar lengur en til 4. október. Í ályktarorðum nefndrar greinargerðar segir að ekki sé unnt að fallast á að stefnendur fái börn sín aftur á meðan þau búi á farfuglaheimilinu, enda sé litið svo á að þar sé ekki mögulegt að framfylgja flestum þeim stuðningsúrræðum, sem mælt hafi verið með varðandi börnin G , D , E og F í fyrri greinargerð félagsþjónustunnar (dskj. 59). Sem fyrr var þó lagt til að stefnendur fengju umrædd börn til sín að nýju að því tilskildu að sömu stuðningsúrræðum yrði beitt og að stefnendur væru búin að finna viðunandi húsnæði. Engin tímamörk voru sett í því sambandi.
Með bréfi lögmanns stefnenda 6. september til félagsþjónustunnar var ítrekuð ósk þeirra um að fá öll börnin til sín að nýju, en ellegar þau fjögur börn, sem félagsþjónustan hefði mælt með að yrðu afhent. Jafnframt var því lýst yfir að stefnendur væru tilbúin til fulls samstarfs við barnaverndarnefnd og að þau myndu áfram leita allra ráða til að finna varanlegt íbúðarhúsnæði fyrir sig og börnin.
Upp úr miðjum september hafði eigandi einbýlishússins nr. 8 við [...] í Ö samband við stefnendur og bauð þeim húsið á leigu í eitt ár frá og með 1. október. Lögmaður stefnenda hafði strax samband við félagsþjónustuna og sendi henni símbréf 18. september, þar sem hann tilkynnti að stefnendur hefðu tekið umrætt hús á leigu. Í bréfinu var þess getið að lögmaðurinn hefði vitneskju um að barnaverndarnefnd kæmi saman til fundar síðar sama dag til að taka ákvörðun um framtíðarbúsetu barnanna og var þess því farið á leit að ákvörðun í málinu yrði frestað þar til nefndin hefði skoðað hvort húsnæðið teldist viðunandi (dskj. 69).
Óumdeilt er að síðar sama dag kvað barnaverndarnefndin upp úrskurð þess efnis að stefnendur skyldu svipt forsjá allra barnanna að G undanskildum.
Með bréfi lögmanns stefnenda til félagsþjónustunnar 20. september (dskj. 72) var tilkynnt að lögmanninum hefði borist í hendur úrskurður barnaverndarnefndar og það átalið að í úrskurðinum virtist ekki hafa verið tekin efnisleg afstaða til hinna nýju upplýsinga um húsnæðismál stefnenda. Jafnframt var óskað skýringa á því hverju þetta sætti. Í svarbréfi formanns barnaverndarnefndar 28. sama mánaðar (dskj. 75) kemur fram að málið hafi verið tekið til úrskurðar 8. september og að bréf lögmannsins hefði ekki borist nefndinni fyrr en daginn sem úrskurðurinn hefði verið kveðinn upp. Þá var þess getið að bréfið hefði verið lagt fram á fundi nefndarinnar, en þar sem húsnæðismál stefnenda hefðu „ekki verið meginforsendur fyrir úrskurðinum heldur er um marga samverkandi þætti að ræða og þá fyrst og fremst vanhæfni þeirra sem foreldra, eins og sjá má í forsendum úrskurðarins, var niðurstaða nefndarinnar sú að ekki væri ástæða til að taka sérstaklega tillit til umrædds bréfs.“
Að þessu sögðu er rétt að líta nánar á röksemdir barnaverndarnefndar fyrir ákvörðun sinni.
IX.
Í úrskurði barnaverndarnefndar (dskj. 70) er forsaga málsins reifuð allt aftur til ársins 1991 og hliðsjón höfð af þeim gögnum, sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan. Greint er frá áverkum á A og C, sem sérstaklega hafi verið nefndir við læknisskoðun hér á landi í maí 2000 og þess getið að stefnendur hafi sagt áverka C vera til komna vegna slagsmála í skóla heima í Færeyjum og að þau vissu ekki hvernig A hefði marist á fótleggjum. Því næst eru raktar fyrstu aðgerðir barnaverndaryfirvalda í Z og þær rökstuddar með tilliti til öryggis barnanna. Þess var getið að stefnendur hefðu fallist á að gangast undir mat á forsjárhæfi, sem unnið yrði af Gylfa Ásmundssyni sálfræðingi í september 2000. Þá var frá því greint í úrskurðinum að starfsmenn barnaverndarnefndar hefðu hinn 5. september kannað húsnæðisaðstæður stefnenda í farfuglaheimilinu í Z, talið þær óviðunandi með tilliti til uppeldis barna og jafnframt ómögulegt að koma þar við þeim stuðningsúrræðum, sem tilsjónarmaður yrði að hafa á sinni könnu. Í framhaldi af því segir svo í úrskurði nefndarinnar: „X og Y eiga hús í Færeyjum sem þau geta farið í og er litið svo á að það sé á ábyrgð þeirra að veita börnunum öruggt athvarf. Er því litið svo á að þau sem foreldrar séu ekki að gegna uppeldisskyldum sínum við börnin svo sem best hentar hag og þörfum barnanna, sbr. 29. gr. barnalaga (skv. 17. gr. laga nr. 58/1992).“
Nefndin færði því næst rök fyrir því að öll börnin að G undanskildum væru betur komin í forsjá annarra en stefnenda, en vegna eindregins vilja G til að búa hjá stefnendum og náins sambands hans við Y væri rétt að þau hefðu forsjá hans að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Var sú ákvörðun ennfremur rökstudd með vísan til sálfræðiálits, þar sem fram hefði komið að drengurinn væri með slaka meðalgreind, eðlilega sjálfsmynd og ætti ekki í neinum tilfinningalegum erfiðleikum. Að áliti nefndarinnar væri drengnum því ekki talin hætta búin hjá stefnendum.
Fram kemur í úskurði nefndarinnar að börnin A og B hafi lýst því yfir á fundi nefndarinnar 30. júní 2000 að þau vildu einnig fá að búa hjá foreldrum sínum á Íslandi. Nefndin féllst ekki á þær óskir barnanna. Um A segir í úrskurðinum að hún hafi augljóslega búið við mikla vanrækslu í uppeldinu, verið misnotuð kynferðislega af kynmóður sinni og tilfinningalega vanrækt af foreldrum. „Hún hefur verið beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi af hendi stjúpmóður. Vanrækslan felst einnig í því að ekki var hugsað um að leyfa A að klára skólann, heldur var lagt upp í ferð sem var algjörlega óundirbúin og vanhugsuð, til annars lands þar sem þau höfðu ekkert húsnæði, töluðu ekki tungumálið og þekktu ekki til aðstæðna. Heilsugæslu hefur ekki verið sinnt þó að um greinilega vanheilsu hafi verið að ræða. A hafði m.a. ekki haft blæðingar um hríð, hún var með áverka á fótlegg, hár hennar var mjög þunnt og nauðsynlegt var fyrir A að komast í eftirlit hjá tannréttingalækni.“ Því næst er það rakið að ástand og útlit A hafi breyst mjög til batnaðar hjá fósturforeldrum sínum, P og eiginmanni hennar og að henni virðist líða mun betur. Hár hennar hafi þykknað á ný, hún sé hætt að farða sig í framan og hafi lagt hálsklútinn til hliðar. A stefni á frekara nám á Íslandi og hyggst setjast hér að.
B og C er einnig lýst í úrskurðinum og lífsferill þeirra rakinn. Er ekki ástæða til að endurtaka þá lýsingu hér, en um hana má vísa til þess sem segir í II.-IV. kafla hér að framan. Er óumdeilt að drengirnir hafi átt erfiða æsku í Færeyjum, þeir búið við kynferðislega misnotkun og annað ítrekað ofbeldi og ekki fengið þann stuðning og sérfræðihjálp, sem þeim var nauðsynleg vegna þroskaskerðingar sinnar. Hitt er svo annað mál, hver eða hverjir beri ábyrgð á hinum slæma aðbúnaði drengjanna, en á því álitaefni verður tekið í niðurstöðum þessa dóms. Barnaverndarnefnd telur í úrskurði sínum ljóst að mikil vanræksla hafi átt sér stað í uppeldi og aðbúnaði B og C, þeir misnotaðir kynferðislega af hálfu kynmóður og verið tilfinningalega vanræktir af foreldrum sínum. Þá hafi þeir báðir verið beittir líkamlegu og andlegu ofbeldi á heimili sínu, en vanrækslan felist einnig í því að stefnendur hafi lagt upp í hina óundirbúnu og vanhugsuðu ferð til Íslands með börnin, svo sem nánar er rökstutt í umfjöllun nefndarinnar um hagsmuni A. Bent er á að heilsugæslu B hafi ekki verið sinnt; honum hafi vantað gleraugu. Þá hafi fatnaði þeirra beggja verið ábótavant við komuna til Íslands. Drengjunum líði nú báðum mun betur í umsjá vistforeldra sinna í sveitinni og vilji fá að búa þar áfram.
Um D segir í úrskurðinum að hann hafi verið misnotaður í eitt skipti af kynföður sínum í Færeyjum (O). Þegar hann bjó þar hefði hann aldrei verið í dagvistun þrátt fyrir óskir barnaverndaryfirvalda þar um. Fram hefði komið að drengurinn hefði sýnt af sér ofbeldishneigð og árásargirni eftir að hann var vistaður hjá P og eiginmanni hennar og að honum semdi illa við önnur börn. Á hinn bóginn hefði D komið starfsmönnum félagsþjónstunnar fyrir sjónir sem hress og glaðlegur drengur, duglegur að leika sér og eftirtektarsamur. Í umgengni við stefnendur hefði verið til þess tekið að D hefði ekki sýnt nein tilfinningaleg viðbrögð þegar hann hitti Y móður sína og hvorki sóst eftir athygli hennar né umhyggju. Samkvæmt sálfræðiathugun væri D með slaka meðalgreind. Hann kynni ekki að skrifa nafnið sitt, þekkti ekki litina og gæti ekki talið. Þá vissi hann ekki hvenær hann ætti afmæli. Var það því álit nefndarinnar að drengnum hefði ekki verið sinnt með vitsmunalegri örvun, en auk þess var árásargirni hans talin geta verið eitt merki um vanrækslu í uppeldi.
Um E segir meðal annars í úrskurði nefndarinnar að hann beri merki augljósrar vanrækslu í uppeldi og aðbúnaði, sem til dæmis felist í því að stefnendur hafi ekki farið með hann til bæklunarsérfræðings vegna fótameins, en drengurinn eigi mjög erfitt með gang vegna þeirra fötlunar. Þá sé það staðreynd að E sé ekki hættur með bleyju, en slíkt teljist ekki eðlilegt fyrir barn á hans aldri (3 ½ árs). Almennri umhirðu sé einnig ábótavant.
Varðandi F er sagt í úrskurðinum að hún hafi virst frekar dauft og vansælt barn þegar starfsmenn barnaverndarnefndar (félagsþjónustunnar) hefðu séð hana fyrst; hún verið svipbrigðalaus, ekkert brosað og látið lítið heyra í sér. Þá hafi hún verið með eyrnabólgu. Á þeim tíma sem hún hafi dvalist hjá vistforeldrum sínum í Ö hafi telpan breyst töluvert; hún sé farin að brosa og tala meira og sækir mikið eftir umhyggju og blíðu. Í vikulegri umgengni við foreldra sína hefði verið eftirtektarvert að þau hefðu sýnt henni umhyggjuleysi og hvorki knúsað hana né átt við hana bein tjáskipti. Loks er bent á að stefnendur hafi ekki sinnt heilugæslu F og er í því sambandi bent á að telpan hafi verið með eyrnabólgu þegar afskipti barnaverndarnefndar hófust af málefnum fjölskyldunnar á tjaldstæðinu í Z.
Um stefnendur er einnig fjallað sérstaklega í úrskurði nefndarinnar. Þar segir meðal annars að það sé mat starfsmanna barnaverndarnefndar að ýmsir þættir bendi til vanrækslu stefnenda í uppeldi og aðbúnaði allra barnanna. Er sérstaklega bent á það ábyrgðarleysi að rífa börnin fyrirvaralaust úr umhverfi sínu í Færeyjum, en þar hefðu þau búið við ákveðið öryggi, stundað skóla og átt vini og ættingja. Þá hafi stefnendur ekki verið búin að kanna fyrirfram aðstæður á Íslandi með tilliti til húsnæðis, atvinnu og skólamála og þau sjálf dvalið svo mánuðum skipti á tjaldstæði. Einnig er átalið að þau skyldu hafa lagt börnin í hættulegar aðstæður við komuna til Íslands með því að aka níu saman í fimm manna fólksbifreið frá Seyðisfirði til Z. Því næst segir orðrétt í úrskurðinum: „Ljóst þykir að börn X og Y séu beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi sem felst í afskiptaleysi gagnvart tilfinningum og þörfum barnanna, þar með talið skortur á ástúð, vernd og athygli sem börnin þurfa til að örva þroska þeirra. Einnig felst ofbeldið í því að börnin fá ekki það sem þau þarfnast af umhyggju og lífsnauðsynjum.“
Barnaverndarnefnd dregur síðan saman niðurstöður sínar í lok úrskurðarins. Í þeirri samantekt er að auki bent á að samkvæmt upplýsingum frá Færeyjum virðist Y eiga erfitt með að setja börnunum mörk og bregðast við þörfum þeirra. Þá hafi bæði hún og X skilið börnin oft eftir heima án eftirlits í lengri tíma. Því næst eru reifaðar efasemdir færeyskra barnaverndaryfirvalda um að Y hafi verið fær um að sinna börnunum sjö allan sólarhringin í ljósi líkamlegrar og andlegrar vanhæfni sinnar og ennfremur hvort hún hafi verið fær um að sinna sérþörfum B og C og veita þeim nauðsynlega umhyggju og umönnun. Bent er á að samskipti stefnenda við börnin séu frekar yfirborðskennd, þar sem lítið beri á ást og umhyggju. Í framhaldi áréttar nefndin að rökstuddur grunur leiki á því að A, B og C hafi verið beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi heimafyrir og er það álit rökstutt með vísan til fyrirliggjandi læknisvottorða og ummæla B, C og D í þá veru.
Það er síðan niðurstaða barnaverndarnefndar að hag A sé best borgið með því að hún fari í fóstur til 18 ára aldurs hjá fólki, sem tryggir að hún fái nauðsynlegan stuðning. Tekið er fram að faðir hennar, stefnandi X, hafi ekki getað veitt henni þá umhyggju og umönnun, sem hún hafi þarfnast í uppeldi sínu. Hið sama er talið vera fyrir hendi í uppeldi B, sem sé að auki mörgum árum á eftir jafnöldrum sínum í þroska, bæði námslega og félagslega. Hagmunum hans er því talið best borgið á meðferðarheimili, þar sem fagmenntað fólk geti veitt honum nauðsynlegan stuðning og þá meðferð, sem honum er þörf á. Sömu hagsmunir eru taldir í húfi fyrir C , meðal annars með tillit til þroskastöðu hans, en hag hans telur nefndin best borgið með því að honum verði komið í fóstur hjá fólki, sem getur veitt honum rétta umönnun og alúð. Þá er það álit barnaverndarnefndar að D , E og F séu ekki mjög tengd foreldrum sínum. Þau hafi öll þurft að þola vanrækslu í uppeldi sínu, þar sem virðist hafa skort meiri ást og umhyggju af hálfu stefnenda. Því er hag barnanna talið best borgið með því að þau fari í varanlegt fóstur til fólks, sem geti veitt þeim viðunandi aðbúnað og uppeldisskilyrði.
Því næst segir orðrétt í úrskurði nefndarinnar: „Reynt hefur verið að koma á stuðningsúrræðum í Færeyjum, en foreldrar hafa ekki verið til samvinnu við barnaverndaryfirvöld þar. Barnaverndarnefnd Z hefur ekki getað beitt stuðningsúrræðum (skv. 21. gr. laga nr. 58/1992) vegna aðstæðna fjölskyldunnar. Börnin hafa búið við það óöryggi síðustu þrjá mánuði að vita ekki hvar þau muni búa. Ekki hefur verið hægt að skrá börnin í skóla, leikskóla eða heilsugæslu, þar sem fjölskyldan hefur í raun hvergi átt heima hér á landi.“
Með framangreindum rökum og með vísan til 25. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 ákvað barnaverndarnefnd að svipta stefnendur forsjá allra barnanna að G undanskildum og synjaði með sömu lagarökum um þá varakröfu stefnenda að fá að halda forsjá D, E og F. Þá var forsjá þeirra með G bundin þeim skilyrðum að stefnendur færu í títtnefnt forsjárhæfismat og að gerð yrði meðferðaráætlun vegna drengsins á grundvelli 21. gr. nefndra laga, sem stefnendur myndu samþykkja. Jafnframt var ákveðið að umrædd áætlun og málefni G yrðu lögð fyrir nefndina að nýju að liðnum þremur mánuðum frá gerð áætlunarinnar.
R félagsmálastjóri Z gat þess fyrir dómi að ráðgert hefði verið að fylgja eftir meðferðaráætlun barnaverndaryfirvalda vegna G, en þar sem stefnendur hefðu fljótlega flutt í annað umdæmi ([...]) hefði hún engar upplýsingar um það hvort fylgst hefði verið með aðbúnaði drengsins eftir uppkvaðningu nefnds úrskurðar.
X.
Í kjölfar úrskurðar barnaverndarnefndar var umræddum börnum komið í varanlegt fóstur; þó ekki B, sem var vistaður á meðferðarheimilinu [...], undir forsjá barnaverndarnefndar. Hann er nú orðinn 18 ára og býr hjá vistforeldrum í [...], sækir nám í fjölbrautaskóla [...] og virðist pluma sig nokkuð vel. A fór í fóstur hjá P og eiginmanni hennar í Ö fram til 18 ára aldurs og býr þar enn. Hún gengur í Fjölbrautaskóla [...] og hefur að sögn fósturmóður sinnar gengið afar vel í skólanum og hún tengst fósturforeldrum sínum ágætum tilfinningaböndum.
C fór í varanlegt fóstur hjá stefndu K og M frá og með 18. september 2000 (dskj. 164), en hann hafði verið hjá þeim í vist um sumarið og líkaði vel.
D fór í fóstur hjá stefndu J frá og með 15. október 2000 (dskj. 165), en fram að þeim tíma bjó hann sem fyrr hjá P og eiginmanni hennar í Ö. Hið sama var uppi á teningnum hjá E og F, en drengurinn fór síðan í fóstur hjá stefndu I 15. október 2000 (dskj. 163) og telpan sama dag í fóstur hjá stefndu L (dskj. 162).
XI.
Stefnendur skutu úrskurði barnaverndarnefndar Z til Barnaverndarráðs með kæru dagsettri 14. október 2000. Af kærunni er ljóst að stefnendum var á þeim tímapunkti ekki kunnugt um niðurstöðu álitsgerðar Gylfa Ásmundssonar sálfræðings frá 9. október um forsjárhæfi þeirra (dskj. 81). Þar segir meðal annars að greind stefnanda X sé í góðu meðallagi, hann í eðlilegum raunveruleikatengslum og með rökrétta hugsun. Stefnandi Y mælist með mun lakari greind, en þó innan eðlilegra marka. Hún sé sein í viðbrögðum, treg á köflum og mjög hlutbundin í hugsun. Veruleikaskynjun og dómgreind mælist slök og er það álit sálfræðingsins að hún eigi fremur snautt tilfinningalíf og eigi í erfiðleikum með að tengjast öðru fólki. Að líkindum sé hún fyrst og fremst vanþroska persónuleiki. Hún virðist engu að síður vera álitin almennt forsjárhæf, að því gefnu að hún notfæri sér öflugan stuðning bæði frá X og félagsmálayfirvöldum.
Við meðferð málsins hjá Barnaverndarráði var aflað nýrra gagna um málefni fjölskyldunnar og meðal annars rætt við A 31. október og 8. nóvember 2000. Í þeim viðtölum greindi A frá því að Y hefði í eitt skipti sparkað í fótleggi hennar í támjóum skóm og þannig valdið henni þeim marblettum, sem fundist hefðu við læknisskoðun í maí sama ár. Þá sagði hún Y í eitt skipti hafa margbrotið kústskaft á baki hennar, oft hafa lamið hana með krepptum hnefa og einnig hárreitt hana. Að sögn A hefði hún notað andlitsfarða til að hylja ummerki slíkra áverka. Hún kvaðst einnig hafa séð Y slá B og C , en ekki hin börnin.
Meðan á meðferð málsins stóð hjá Barnaverndarráði felldi barnaverndarnefnd Z úrskurð 4. desember 2000 um umgengnisrétt stefnenda við þau sex börn, sem tekin höfðu verið úr forsjá þeirra. Samkvæmt þeim úrskurði skyldu stefnendur hafa umgengnisrétt við börnin tvisvar á ári, tvær klukkustundir í senn, í maí og nóvember, undir eftirliti barnaverndaryfirvalda. Úrskurðinum var skotið til Barnaverndarráðs 8. desember 2000 og var honum breytt á þann veg 17. janúar 2001, að stefnendur skyldu hafa umgengni við börnin einu sinni í mánuði þar til úrskurður Barnaverndarráðs varðandi forsjá barnanna lægi fyrir.
Barnaverndarráð aflaði álitsgerðar Páls Magnússonar sálfræðings 9. mars 2001 um tengsl D við stefnendur, einkum Y (dskj. 121), sem og álitsgerðar Kára Leivsson Petersen sálfræðings frá Færeyjum um stefnendur og drengina B og C (dskj. 128). Í viðtali við Kára 11. apríl 2001 mun B hafa þvertekið fyrir að stefnendur hefðu beitt hann líkamlegu ofbeldi og drengurinn lýst því yfir að hann óskaði sér þess að fá að sameinast föður sínum og systkinum að nýju. C hefði í viðtali daginn eftir virst sakna B mjög mikið og einnig föður síns og systkina. Aðspurður hvernig hann hefði fengið þá marbletti, sem fundist hefðu við læknisskoðun í maí 2000 hefði drengurinn svarað nokkuð vélrænt og ósjálfrátt „Y“. Í framhaldi hefði hann bent á bak sitt og fótleggi, en jafnframt neitað því aðspurður hvort aðrir fullorðnir hefðu lagt á hann hendur. Í ályktarorðum sálfræðingsins kemur fram að tilefni viðtala við drengina tvo hafi verið að kanna, með aðstoð færeyskumælandi sérfræðings, hvort varpa mætti meira ljósi á tilurð marbletta, sem fundist hefðu á drengjunum við komuna til Íslands í maí 2000. Niðurstaða hans var sú að frásagnir drengjanna teldust ekki sönnunargögn einar sér, þegar tekið væri tillit til andlegs vanþroska þeirra og þar af leiðandi áhrifagirni gagnvart nánustu persónum í lífi þeirra. Viðtölin mætti hins vegar nota sem hluta af heildarmynd um málefni drengjanna, þar sem stuðst yrði við sannaðar staðreyndir.
Þá gerðist það hinn 25. apríl 2001 að A kom ótilkvödd á lögreglustöðina í Z og greindi frá því að hún hefði logið fyrir rétti í dómsmáli á hendur N móður sinni 1999 fyrir kynferðisbrot og bar því við að hún hefði verið undir þrýstingi frá stefnanda Y um að segja ósatt frá staðreyndum þess máls. Um niðurstöðu umrædds dómsmáls vísast til II. kafla hér að framan, en samkvæmt persónuleikaprófi, sem sálfræðingur barnaverndaryfirvalda í Z lagði fyrir A 8. maí sama ár, var hin nýja frásögn hennar metin trúverðug (dskj. 132). A sætir nú opinberri rannsókn fyrir ætlaðar rangar sakar-giftir á hendur móður sinni (dskj. 205).
Með úrskurði Barnaverndarráðs 6. júní 2001 (dskj. 143) var staðfest ákvörðun barnaverndarnefndar Z um forsjársviptingu barnanna B, C, D, E og F, en varðandi A var þess getið að hún hefði náð 18 ára aldri fyrir uppkvaðningu úrskurðarins og því tæki hann ekki til hennar. Í úrskurðinum er fallist á að upphafsaðgerðir barnaverndarnefndar hafi verið nauðsynlegar og réttmætar í þágu velferðar barnanna, en sú málsmeðferð, sem fylgt hefði í kjölfarið, væri að ýmsu leyti athugunarverð. Þannig yrði ekki séð af gögnum málsins að reynt hafi verið að beita stuðningsúrræðum samkvæmt 21. og/eða 24. gr, sbr. 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992, öðrum en þeim að ráðstafa börnunum í skammtímavistun áður en til forsjársviptingar hafi komið. Þá er þess getið að stefnendur hafi verið húsnæðislaus við uppkvaðningu úrskurðar barnaverndarnefndar og að barnaverndaryfirvöld hafi af „pólitískum“ ástæðum ekki talið forsvaranlegt að útvega þeim húsnæði heldur aðeins boðist til þess að aðstoða þau við að flytja aftur til Færeyja. Ennfremur er gagnrýnt að ekki virtist hafa verið gerð skrifleg meðferðaráætlun samkvæmt 19. gr. barnaverndarlaga og eigi heldur áætlun samkvæmt 27. gr. laganna vegna B, sem væri þroskaheftur og vistmaður á meðferðarheimili. Þá er það átalið að við uppkvaðningu nefnds úrskurðar hafi verið óljóst hvernig barnaverndarnefndin hyggðist tryggja sem best hagsmuni C, sérstaklega með tilliti til þess að hann væri einnig þroskaheftur. Einnig er það gagnrýnt að börnunum hafi verið ráðstafað í fóstur, hvert á sitt heimili, í andstöðu við fyrirmæli 2. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Loks er fundið að því að nefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn án þess að bíða eftir niðurstöðum Gylfa Ásmundssonar sálfræðings um forsjárhæfi stefnenda, en slíkt hafi verið í andstöðu við 1. mgr. 43. gr., sbr. 18. gr. sömu laga og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því næst segir í úrskurði Barnaverndarráðs, að vegna framangreindra annmarka á málsmeðferð barnaverndarnefndar og vegna umfangs málsins hafi ráðinu þótt óhjákvæmilegt að ráðast í ítarlega gagnaöflun. Eru niðurstöður þeirrar rannsóknar raktar í beinu framhaldi og þar meðal annars getið um álitsgerð Gylfa Ásmundssonar, álitsgerðir sálfræðinganna Páls Magnússonar og Kára Leivsson Petersen, fyrrnefnd viðtöl Barnaverndarráðs við A og viðtöl ráðsins við P og aðra fósturforeldra barnanna.
Í ályktarorðum Barnaverndarráðs segir meðal annars, að þrátt fyrir niðurstöður sálfræðiprófana um að stefnandi X sé mun starfhæfari einstaklingur en stefnandi Y, líti ráðið viðbrögð hans í málinu mjög alvarlegum augum. Hvorki hann né Y muni hafa áttað sig á því hversu mjög þroskaheftir B og C væru og til hvaða úrræða þyrfti að grípa í því sambandi. Drengirnir væru afar illa á vegi staddir, andlega og félagslega og hafi ekki notið þeirrar umönnunar af hálfu stefnenda, sem telja verði nauðsynlega fyrir börn með svo mikla þroskaskerðingu. Drengirnir hafi gengið í gegnum miklar þrengingar í umsjá stefnenda og þau sýnt af sér stórkostlega vanrækslu gagnvart þeim. Ráðið taldi að leggja mætti til grundvallar frásögn A og C um að Y hefði beitt þau og B slíku líkamlegu harðræði að þau hafi öll borið þess merki. Það var því niðurstaða Barnaverndarráðs, með vísan til a-, b-, c- og d- liða 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga, að stefnendur væru ekki hæf til að fara með forsjá drengjanna tveggja.
Í niðurstöðum Barnaverndarráðs er hvergi vikið sérstaklega að drengnum G og verður því að ætla að ráðið hafi fallist á röksemdir barnaverndarnefndar fyrir því að stefnendur héldu forsjá hans. Við mat á því hvort stefnendur teldust hæf til að fara með forsjá þriggja yngstu barnanna var hins vegar bent á að skoða yrði öll gögn málsins í samhengi, meðal annars með hliðsjón af niðurstöðum viðtala og sálfræðiprófana Gylfa Ásmundssonar, Páls Magnússonar, Kára Leivsson Petersen og Önnu Debes Hentze, en hennar er áður getið í III. og IV. kafla að framan. Barnaverndarráð taldi að ráða mætti af niðurstöðum sálfræðinganna að forsjárhæfni Y væri slök og að stórlega mætti efast um færni hennar til að veita börnunum félagslega og vitsmunalega örvun, leiðbeiningu og hvatningu, en umræddir þættir væru að mati ráðsins afar mikilvægir við uppeldi barnanna. Tekið var fram að forsaga málsins og allur ferill þess hjá barnaverndaryfirvöldum bæri þess skýr merki að hegðun stefnenda gagnvart börnunum hefði einkennst af innsæis- og dómgreindarleysi, þar sem þau hafi einatt neitað því að eitthvað væri að hjá börnunum og þau talið vanda fjölskyldunnar stafa af ofsóknum færeyskra og íslenskra barnaverndaryfirvalda. Hvorugt þeirra virtist hafa skilið eðli vandamálsins og þau því hvorki megnað að setja sig í spor barnanna né heldur verið nægilega meðvituð um þarfir þeirra. Stefnendur hafi af þeim sökum ekki getað veitt börnunum nauðsynleg uppeldisskilyrði þar sem komið væri til móts við andlegar, vitsmunalegar og líkamlegar þarfir þeirra. Með framangreind atriði í huga og með vísan til d-liðar 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga taldi Barnaverndarráð að mikil hætta væri í því fólgin að fela stefnendum forsjá barnanna þriggja að nýju og að hagsmunir þeirra væru ekki tryggðir með slíkri skipan.
Áréttað var í niðurlagi úrskurðar Barnaverndarráðs að athugasemdir hefðu verið gerðar við málsmeðferð barnaverndarnefndar Z, meðal annars vegna þess að stuðningsúrræði hafi ekki verið reynd sem skyldi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga. Jafnframt var vísað til 17. gr. laganna og þess getið að undir ákveðnum kringumstæðum þyrfti ekki að láta reyna á hin almennu stuðningsúrræði áður en gripið væri til þvingunarúrræða, enda bæri barnaverndarnefnd ávallt að taka það ráð upp, sem ætla mætti að væri barni fyrir bestu. Því næst segir orðrétt: „Eins og fram hefur komið fór fram mikil gagnaöflun hjá Barnaverndarráði. Að mati Barnaverndarráðs leiddi sú gagnaöflun í ljós alvarlega vanhæfni foreldra. Af þeim sökum verður úrskurðinum [úrskurði barnaverndarnefndar innskot dómenda] ekki hrundið á þeim forsendum að vægari úrræði hafi ekki verið reynd áður en til forsjársviptingar kom. Með vísan til sömu raka verður heldur ekki talið að gallar á málsmeðferð hjá barnaverndarnefnd að öðru leyti geti varðað því að hrinda beri úrskurðinum.“
XII.
Í kjölfar niðurstöðu Barnaverndarráðs óskuðu stefnendur eftir því hinn 4. september 2001 að barnaverndarnefnd Z myndi ákvarða umgengnisrétt þeirra við börnin (dskj. 146). Bent var á að þau hyggðust bera úrskurðina um forsjársviptingu undir dómstóla og á meðan beðið væri endanlegrar niðurstöðu í málinu væri eðlilegt að þau fengju að hitta börnin einu sinni í mánuði, fjórar klukkustundir í senn, eins og verið hefði á meðan málið hefði verið til meðferðar hjá Barnaverndarráði. Jafnframt óskuðu stefnendur eftir því að fá að auki að hafa símasamband við börnin í það minnsta í hálfa klukkustund einu sinni í mánuði. Með úrskurði barnaverndarnefndar 1. október 2001 (dskj. 147) var synjað um kröfur stefnenda og í því sambandi vísað til 2. gr. reglugerðar nr. 532/1996 um ráðstöfun barna í fóstur. Umgengni var jafnframt ákveðin tvisvar á ári, í maí og nóvember, þrjár klukkustundir í senn og ávallt undir eftirliti barnaverndarnefndar. Úrskurður þessi var ekki kærður til Barnaverndarráðs.
XIII.
Með bréfi dómsmálaráðherra 9. október 2001 var stefnendum veitt gjafsókn vegna rekstrar máls þessa fyrir héraðsdómi. Sem fyrr segir var málið síðan höfðað á hendur stefnda Z 7. janúar 2002 og á hendur sakaukastefndu 1. júlí 2002. Undir rekstri málsins fengu stefnendur tvívegis dómkvadda sérfróða matsmenn, annars vegar 23. maí 2002, til að meta forsjárhæfi stefnenda og hins vegar 5. nóvember 2002, til að meta atriði tengd þrautavarakröfu stefnenda um umgengni við börn sín. Sálfræðingarnir Oddi Erlingsson og Þorgeir Magnússon voru dómkvaddir til nefndra starfa og skiluðu þeir fyrri matsgerð sinni 29. október (dskj. 190) og hinni síðari 6. febrúar 2003 (dskj. 198). Þá voru sömu sálfræðingar dómkvaddir af hálfu sakaukastefndu 5. nóvember 2002, til að leggja mat á ýmis atriði tengd högum og núverandi aðstæðum fjögurra yngstu barnanna og var þeirri matsgerð skilað 4. febrúar 2003 (dskj. 197). Niðurstöðum matsmannanna og vitnisburði þeirra fyrir dómi um atriði tengd matsgerðunum þremur verða gerð skil í XV.-XVII. kafla hér á eftir, en áður þykir rétt að gera grein fyrir framburði stefnenda og sakaukastefndu um sömu atriði, sem og vætti annarra vitna, að svo miklu leyti, sem þýðingu getur haft fyrir málsúrslit. Í þeirri umfjöllun verður aðeins lítillega vikið að málefnum B og A, enda eru þau bæði orðin 18 ára og eru því ekki lengur hafðar uppi kröfur í málinu vegna þeirra.
XIV.
Stefnendur búa nú að [...], Ö, í 130-140 m² einbýlishúsi, sem þau festu kaup á snemma árs 2002. G er orðinn 17 ára og er við nám í Fjölbrautaskóla [...]. Á heimilinu býr einnig H, sem verður tveggja ára í júní á þessu ári. Samkvæmt gögnum málsins hefur drengurinn verið undir reglulegu eftirliti lækna frá fæðingu og virðist hafa verið vel um hann annast og hann dafnað og þroskast vel fyrstu níu mánuði ævinnar (dskj. 155, 157-158, 211 og 214). Frá þeim tíma hefur drengurinn ekki þyngst eðlilega og hefur nýlega vaknað grunur um að hann sé einhverfur. Er ráðgert að hann fari innan skamms í rannsóknir vegna þessa á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Y er nú barnshafandi og væntir fæðingar á þriðja barni sínu og X 1. ágúst 2003.
Stefnendur lýstu fyrir dómi sambandi sínu við börnin C , D , E og F. X sagði að samband sitt við börnin hefði ávallt verið náið og djúpt og hann verið í mjög góðum tengslum við þau. Samband Y við börnin hefði verið síst minna og einnig hefðu öll hans börn tengst henni sterkum böndum frá fyrstu kynnum. B og C væru enn nátengdir henni, en af óskiljanlegum ástæðum hefði A snúist gegn stefnendum báðum eftir komuna til Íslands. Y tók í sama streng og sagði mjög náið samband hafa verið milli sín og barnanna. E saknaði hennar enn mjög mikið og F liði greinilega fyrir aðskilnað þeirra mæðgina. Telpan hefði breyst gríðarlega mikið í umsjá fósturmóður sinnar. Hún hefði verið mjög tápmikið og glaðlynt barn, en sé nú mjög breytt og ekki eins glöð og áður. Stefnendur kváðust gera sér grein fyrir því að það yrði ákaflega erfitt að taka við forsjá C, D, E og F á nýjan leik, eftir svo langan aðskilnað, en sögðust vera tilbúin að takast á við þá erfiðleika og hlýta í því sambandi fyrirmælum og leiðbeiningum fagfólks í hvívetna og þiggja alla þá félagslegu aðstoð, sem væri í boði. C þyrfti að fá mikla sérfræðihjálp vegna þroskaskerðingar sinnar og eins þyrfti að huga vel að aðlögun hinna barnanna þannig að röskun á umhverfi þeirra og félagslegum aðstæðum yrði sem minnst. Töldu stefnendur að réttast væri að börnin myndu koma heim til þeirra í einhver skipti í umgengni og venjast smátt og smátt breyttum aðstæðum áður en þau flyttu endanlega frá fósturforeldrum sínum. Aðspurður fyrir dómi átti X í erfiðleikum með að gera grein fyrir helstu kostum og göllum sínum sem uppalandi, en sagðist myndu gera allt sem í sínu valdi stæði til að börnin myndu þrífast vel í umsjá hans og Y og tók fram að þau hefðu ávallt viljað gera það eitt, sem væri börnunum fyrir bestu. Y sagðist aðspurð ekki geta bent á sérstaka galla í sínu fari sem foreldri, en sagði kosti sína felast í því að hún veitti börnum sínum ást og umhyggju. X greindi frá því að til stæði að B flytti heim til stefnenda í vor eftir að hann lyki skólanum fyrir norðan. Aðspurð um umgengni sína við börnin undanfarin misseri sögðu stefnendur að börnin væru alltaf ánægð að sjá þau. Börnin væru leið og spyrðu ávallt hvenær þau megi koma aftur heim til stefnenda.
G bar fyrir dómi að hann saknaði systkina sinna afar mikið og vildi að þau kæmu heim. Hann aftók með öllu að Y móðir hans hefði nokkurn tíma lagt hendur á A, B og C og sagðist hafa orðið vitni að því er C var laminn af hópi krakka í skólanum í Færeyjum daginn áður en fjölskyldan fór til Íslands. Slíkt hefði verið daglegt brauð, bæði í lífi C og B. Þá bar G að A hefði sagt honum frá því á leiðinni til Íslands með farþegaskipinu Norrænu að hún hefði marist illa á fæti nokkrum dögum áður, þegar hún hefði misst spýtur á fótlegginn.
Þ nágrannakona stefnenda og vinkona bar þeim óspart lof í vitnisburði sínum fyrir dómi og sagðist telja þau vera fyrirmyndarforeldra í alla staði.
Sakaukastefndu M og K, fósturforeldrar C, eru bændur á [...]. M greindi frá því fyrir dómi hvernig C hefði verið á vegi staddur þegar hann hefði flutt til hennar og K eiginmanns hennar sumarið 2000, þá 11 ára gamall. Hún sagði að ástand drengsins hefði verið skelfilegt. Hann hefði nærst illa, verið horaður og þreklítill, sagnafár og hræddur og vætt rúmið sitt um nætur. Hann hefði verið alveg ólæs og óskrifandi, ekki þekkt til árstíða og ekki vitað hvenær hann ætti afmæli. Þá hefði drengurinn verið stíflyndur og eigingjarn á sitt og ekki kunnað að deila með öðrum eða eiga eðlileg samskipti og samræður við annað fólk. Kynhegðun hans hefði verið óvenjuleg og hann sótt mjög upp í rúm til yngri barna á heimilinu þegar þau hefðu verið fáklædd. C hefði nú breyst mikið til batnaðar á undanförnum misserum. Eftir að hann hefði fengið að vita að hann mætti eiga heima hjá stefndu hefði hann hætt að pissa í rúmið. Honum gengi nú þokkalega í skóla miðað við aðstæður, kynni sæmilega að lesa og gæti ráðið fram úr einföldum stærðfræðidæmum. Hann væri þó tveimur árum á eftir sínum jafnöldrum í skóla. M sagði að C væri afar linur við sjálfan sig og þyrfti því stöðuga hvatningu, bæði innan skóla og utan. Þau hjónin hefðu því mikið samstarf við skólann og væri stöðugt unnið í málefnum drengsins „í einum heildarpakka“. M sagði að C ræddi nú aldrei um stefnendur að fyrra bragði heldur aðeins þegar hún minntist á þau, svo sem þegar líða færi að reglubundinni umgengni hverju sinni. Aðspurð kvaðst hún telja að núverandi fyrirkomulag umgengninnar væri hæfilegt fyrir C og að hann hefði ekki þörf fyrir að umgengni yrði aukin. Sjálfur sæktist hann ekki eftir því að hitta stefnendur oftar en nú er. M kvaðst hins vegar hafa stuðlað að því frá upphafi að C fengi að hitta sem oftast hin systkini sín, sem væru í fóstri og hefði tekist vinskapur með fósturforeldrum þeirra barna. M taldi að það yrði afar slæmt fyrir C ef ákveðið yrði að honum bæri að fara aftur til stefnenda. Máli sínu til stuðnings lögðu M og eiginmaður hennar fram skriflega aðilaskýrslu (dskj. 184), umsögn frá [skóla] (dskj. 185) og gögn frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (dskj. 212), sem lýsa náms- og þroskastöðu C og framförum, sem hann hefur tekið frá því að hann fór í varanlegt fóstur.
Sakaukastefnda J, fósturmóðir D, er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir að mennt, búsett í [...]. Hún greindi frá því fyrir dómi að D hefði verið „mjög flatur“, úthaldslítill, lítt örvaður og illa áttaður þegar hann hefði flutt til hennar í október 2000. Sjö ára gamall hefði hann varla kunnað að tjá sig á eigin móðurmáli. Að sögn J hefði hún tekið drenginn í fóstur með litlum fyrirvara og ekki áttað sig á því hve illa hann væri á vegi staddur. Á næstu vikum og mánuðum hefði komið í ljós villt hegðun og vanhæfni drengsins í mannlegum samskiptum. Hann hefði verið óagaður samanborið við jafnaldra sína, þrasgjarn, hortugur og einnig afar árásargjarn. Mannasiðir hans hefðu verið eins og hjá tveggja ára barni og umgengni og samskipti við önnur börn verið í „algjöru núlli“. D hefði einnig verið illa upplýstur og illa að sér vitsmunalega séð. Hann hefði greinilega ekki verið vanur að bursta tennurnar og ekki kunnað að fara á klósettið. Þá hefði hann ekki kunnað einn einasta söngtexta. J greindi einnig frá því að fyrsta eina og hálfa árið hefði D iðulega fengið slæmar martraðir, sem leitt hefðu af sér margar vökunætur fyrir hana. Vegna allra þessara vandamála hefði hún snemma valið þann kost að hætta að vinna úti og þess í stað helgað lífi sínu að umönnun og uppeldi drengsins. Á þeim rúmum tveimur árum sem liðin væru hefði D farið gríðarlega mikið fram og í dag væri hann „óþekkjanlegur“ frá því sem verið hefði. Hann þyrfti þó enn mjög skýr mörk og ytra aðhald, en þá liði honum best. J gat þess að drengurinn væri mjög félagslyndur og tónelskur og væri nú bæði í barnakór og fyrsti trompetleikari í lúðrahljómsveit. Hann ætti þó enn við ákveðin hegðunarvandamál að stríða og væri í bígerð að senda hann í greiningu á barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Þá væri hann í viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi, auk þess sem mikil samvinna hefði verið gegnum tíðina við fjölda annarra sérfræðinga um málefni drengsins. J sagði að ef allt gengi vel með D í sumar þá stefndi hún að því að fara aftur út á vinnumarkaðinn í haust, að minnsta kosti í hlutastarf. Hún kvaðst ávallt hafa búið ein með D og ekki hafa kynnt hann fyrir karlmönnum í sínu lífi. Hann hefði hins vegar kynnst fjölda karlmanna náið, með tilliti til svokallaðrar föðurímyndar og nefndi J sérstaklega í því sambandi tvo bræður sína. Að sögn J talaði D yfirleitt aldrei um stefnendur, en hún hefði alls ekki latt hann í þeim efnum og leyft honum að tjá tilfinningar sínar í þeirra garð, ef því væri að skipta. Honum þætti örugglega vænt um Y móður sína, en væri jafnframt hræddur vegna misvísandi skilaboða um að hann væri á leið til hennar aftur. J kvaðst ekki geta hugsað til þess að svo færi. Hún hefði tekið drenginn að sér til frambúðar og þætti jafn vænt um hann eins og hann væri hennar eigið barn. Aðspurð hvort aldrei hefði hvarflað að henni að gefast upp á fóstrinu áður en gengið hefði verið endanlega frá fóstursamningi í janúar 2001 svaraði J því til að hún gæti ekki skilað D frekar en fötluðu barni, sem hún hefði alið sjálf. Aðspurð taldi J að núverandi fyrirkomulag á umgengni við stefnendur væri hæfilegt fyrir D og nægði honum til að viðhalda og rækja nauðsynleg tengsl við þau. Varðandi tengsl hans við önnur systkini sín, sem væru í fóstri, sagðist J ávallt hafa stuðlað að slíkum samskiptum og væri mikil samvinna milli allra fósturforeldranna um að rækja þau tengsl utan umgengnistíma barnanna við stefnendur. Líkt og meðstefndu M og K lagði J fram ýmis gögn um stöðu D í dag, þar á meðal ítarlega aðilaskýrslu (dskj. 179), vitnisburð frá [skóla] (dskj. 180-181) og skýrslur frá Margréti Arnljótsdóttur sálfræðingi (dskj. 183 og 213).
Sakaukastefnda I, fósturmóðir E, er gæðastjóri í frystihúsi á [...], búsett á sama stað. Hún greindi frá því fyrir dómi að E hefði verið ágætlega á sig kominn líkamlega þegar hann hefði komið til hennar í fóstur í október 2000, þá rúmlega þriggja og hálfs árs gamall. Hann hefði borið af í fríðleika samanborið við hin fósturbörnin, en I bætti því við að þetta álit hennar væri ekki hlutlaust, enda hefði verið um drenginn hennar að ræða. E hefði verið í sérsmíðuðum skóm, allt of litlum og hefði hún strax fest kaup á nýjum skóm fyrir hann. Þá hefði hún farið með hann til bæklunarsérfræðings og væri nú búið að ráða verulega bót á fótameini hans. Að sögn I hefði E verið afar lokaður fyrstu tvo mánuðina í fóstri og virst vera í sínum eigin hugarheimi. Hann hefði fljótlega byrjað í leikskóla og líkað vel. Þegar hún hefði sótt hann í skólann hefði hann iðulega hlaupið upp um háls hennar og sagt „Ég á þig“. I lýsti E sem „miklu leikbarni“. Hann væri afskaplega dundinn og gæti setið lengi vel og leikið sér með bíla og „Batman kalla“. Samband þeirra hefði með tímanum orðið mjög náið og innilegt og þyrfti hún stundum að klípa sig í handlegginn til að muna eftir því að hún hefði ekki alið hann sjálf. I kvaðst ávallt hafa búið ein með E, en sagði hann geta sótt hina svokölluðu föðurímynd í lífi sínu til góðs vinar hennar, sem væri afar nákominn drengnum og hefði gengið honum í afa stað. Þeir brösuðu ýmislegt saman, sem karlmenn gera og jafnframt gisti strákurinn yfirleitt hjá „afa“ og „ömmu“ eina nótt í hverri viku, frá föstudegi til laugardags. Hefði hann af því ómælda ánægju. I gat þess að E hefði ekki verið vel agaður þegar hann hefði flutt til hennar og hefði hún því þurft að setja honum skýr mörk og kenna honum eðlilegar samskiptareglur gagnvart öðru fólki. Hún hefði farið með hann til skólasálfræðings, sem ekki hefði talið þörf á að veita honum sérhæfðan stuðning að svo stöddu. I grunaði engu að síður að E hefði sætt kynferðislegu ofbeldi í bernsku og benti á að drengurinn hefði sagt að ótilgreindur einstaklingur hefði meitt hann í rassinum. Hann væri enn afar viðkvæmur þegar hún væri að hjálpa honum á klósettinu og hefði í eitt skipti orðið náfölur og hræddur þegar hún hefði ætlað að þurrka honum á bossanum. I kvaðst vera ákveðin í að leita sér aðstoðar sérfræðings til að ganga úr skugga um hvað gæti hrjáð drenginn í þessum efnum. Að sögn I talaði E ennþá um stefnendur og sé þá að velta fyrir sér fortíðinni. Í eitt skipti hefði hann spurt hvort ekki væri í lagi að hann saknaði þeirra og hefði hún svarað honum að svo væri. I sagðist ekki hafa minnsta vilja til að afmá foreldra drengsins úr lífi hans og vildi að hann hefði áfram reglulega umgengni við þau. Hún taldi núverandi fyrirkomulag umgengninnar vera ágætt með tilliti til hagsmuna drengsins af því að viðhalda nauðsynlegum tengslum við uppruna sinn. I sagði að fyrstu mánuðina eftir að E hefði flutt til hennar hefði hann verið þjakaður af martröðum og þá hefði hún óvart fullvissað hann um að hún myndi ávallt vernda hann fyrir fortíðinni. Hún hefði gert sér grein fyrir því eftir á að þetta hefði ekki verið alveg rétt af henni, en hún gæti bara ekki hugsað til þess að drengurinn færi aftur til stefnenda. Markmið hennar í lífinu væri að elska þetta barn og koma því til manns. Fram kom hjá I að hún hefði lagt sitt af mörkum til þess að fósturbörnin fjögur gætu hist reglulega og haldið sambandi sín á milli, utan umgengnistíma við stefnendur. Máli sínu til frekari stuðnings lagði I fram ítarlega aðilaskýrslu (dskj. 177) og umsögn frá leikskólanum [...] (dskj. 178).
Sakaukastefnda L, fósturmóðir F, er viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi að mennt, búsett á [...]. Hún greindi frá því fyrir dómi að F hefði komið til hennar í fóstur með litlum fyrirvara í október 2000, þá tæplega eins og hálfs árs gömul. Telpan hefði í fyrstu verið afar vör um sig og sýnt óeðlilega lítil tilfinningaleg viðbrögð að undanskildum ógurlegum grátköstum, sem komið hefðu án nokkurs sýnilegs tilefnis fyrstu þrjá mánuðina. Hegðun hennar hefði valdið L verulegum áhyggjum og því hefði hún leitað aðstoðar hjá Þórkötlu Aðalsteinsdóttur sálfræðingi, sem hefði leiðbeint henni með góðum árangri hvernig skyldi bregðast við grátköstunum. L kvaðst enn vera í góðu sambandi við sálfræðinginn varðandi málefni telpunnar. Hún sagði að F dafnaði vel í dag, væri einkar skemmtilegur einstaklingur og ótrúlega sjálfstæð í hugsun. Telpan væri afskaplega hlý og vildi iðulega knúsa L og aðra í fjölskyldunni. Þótt þær byggju tvær saman hefðu þær mjög náin samskipti við foreldra og systkini L og væri telpan sérstaklega hænd að einum mági hennar. Taldi L að sá maður væri telpunni ágæt föðurímynd. Hún kvaðst ekki geta hugsað þá hugsun til enda ef F færi aftur til stefnenda, enda hefðu þær „mæðgur“ byggt allt sitt líf í kringum nánar samverustundir og væru nú að flytja í nýtt húsnæði. L kvaðst engu að síður gera sér grein fyrir því að F þyrfti að umgangast stefnendur og taldi núverandi fyrirkomulag umgengninnar þjóna hagsmunum telpunnar nægilega vel. Þess utan hefðu hún og fósturforeldrar hinna barnanna samband og stuðluðu að því að systkinin gætu hist sem oftast. Að sögn L ræddi F aldrei um stefnendur að fyrra bragði, en sjálf talaði hún stundum um þau við hana og færi yfir hver væri hver í fjölskyldunni þannig að telpan þekkti örugglega uppruna sinn. Líkt og fósturforeldrar hinna barnanna lagði L fram ítarlega aðilaskýrslu (dskj. 176), sem og umsögn frá Barnaheimilinu [...] (dskj. 189).
XV.
Sem fyrr segir voru sálfræðingarnir Oddi Erlingsson og Þorgeir Magnússon dómkvaddir til að meta forsjárhæfi stefnenda. Þess var óskað að þeir legðu mat á hæfi stefnenda til að fara með forsjá barnanna B, C, D, E og F, með hliðsjón af persónulegum og félagslegum aðstæðum stefnenda. Við matið skyldi annars vegar lagt til grundvallar að stefnendur nytu lög- og venjubundinna stuðningsúrræða á vegum ríkis og sveitarfélaga, auk þeirra úrræða sem talin eru í 21. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 og eftir atvikum 24. gr. sömu laga. Hins vegar skyldi forsjárhæfi þeirra metið án tillits til slíkra stuðningsúrræða. Matsmenn fengu færeyskan túlk sér til aðstoðar, en auk hefðbundinna viðtala og heimsókna á heimili stefnenda voru lögð fyrir þau fjölmörg próf, þar á meðal forsjárhæfispróf og þrenns konar persónuleikapróf. Við matsgerðina voru jafnframt höfð til hliðsjónar niðurstöður sálfræðiprófa, sem Gylfi Ásmundsson og Kári Leivsson Petersen höfðu lagt fyrir stefnendur í október 2000 og apríl 2001.
Í viðtölum við stefnanda X kom margoft fram að hann teldi að fjölskylda sín hefði sætt ofsóknum og verið beitt órétti af hálfu færeyskra og íslenskra barnaverndaryfirvalda og að börnunum hefði jafnvel verið gert mein til þess eins að hægt væri að ásaka stefnendur um vanrækslu. Þá hefðu eldri börnin verið beitt ofbeldi og þrýstingi í Færeyjum og þeim snúið gegn stefnendum. X nefndi sérstaklega Elisabeth Olsen í þessu sambandi, en hún hefði viljað fá B og C aftur inn á fósturheimilið í Þórshöfn og ef til vill staðið fyrir því að á þeim sáust marblettir og aðrir áverkar, sem stefnendum yrði kennt um. X taldi ennfremur að börnin væru nú undir áróðursálagi hjá fósturforeldrum sínum. Hann kvaðst gera sér grein fyrir því að B og C þyrftu sérfræðiaðstoð og tók fram að ef hin börnin væru meðferðarþurfi í dag þá væri það alfarið sök barnaverndaryfirvalda. X sagði greinilegt að F liði ekki vel í fóstri og að D óttist bæði barnaverndaryfirvöld og fósturmóður sína.
Í niðurstöðum matsmanna segir meðal annars um X:
„Athuganir staðfesta að X er vel greindur einstaklingur með sjálfsbjargarviðleitni og fulla starfsorku. Hann er ekki haldinn geðröskunum eða sálrænum bágindum sem líkleg eru til að há honum í leik eða starfi. Samkvæmt prófunum er hann þó fremur stíflyndur, stjórnsamur og lokaður maður og víða kemur fram óraunsæi í mati hans á eigin stöðu og samskiptum. Í raun virðist X ekki hafa glöggt innsæi í eigið sálarlíf; um leið og hann afneitar brestum í eigin fari og sinna nánustu ásakar hann aðra. Í því sambandi er umhugsunarvert að X telur enn að misfellur í þroska sona hans hafi fyrst komið fram við skólaaldur og séu sök skólafólks og barnaverndarstarfsmanna. Almennt er X forsjáll maður og duglegur að bjarga sér og sínum, hann er reglusamur og stýrist almennt ekki af hvatvísi eða tilfinningum augnabliksins. Engin merki eru um annað en að hann vilji börnunum vel, þyki vænt um þau og vilji reynast þeim vel. Í samræmi við þetta hefur hann ásamt konu sinni séð fjölskyldu sinni farborða og sýnir dugnað við það. Hann virðist vera leiðandi aðilinn í sambandi þeirra Y og slá tóninn í samskiptum þeirra við umhverfið. Það er álit matsmanna að hann sé hæfur til að fara með forsjá barna.“
Í viðtölum við stefnanda Y komu einnig fram ásakanir í garð barnaverndaryfirvalda, einkum þó í Færeyjum. Hún ásakaði færeysk yfirvöld um ófarir B og bága þroskastöðu og taldi að ranglega hefði verið tekið á vandamálum hans. Þá kvaðst Y hafa áhyggjur af F í forsjá fósturmóður hennar og sagði telpuna vera dapra í bragði og líta illa út.
Í niðurstöðum matsmanna segir meðal annars um Y:
„Vegna ásakana elstu barna X, þeirra B og A um að hún beiti þau ofbeldi, fullyrðir hún að það sé allt rógburður að undirlagi fyrrverandi sambýlismanns hennar O og A. Þvert á móti lýsir Y samskiptum sínum við börnin og föður þeirra átakalausum og jákvæðum, þar sem hún hafi ávallt lagt sig fram um að sýna ró og yfirvegun.
Y lýsir börnunum út frá líðan þeirra, tengslum þeirra við aðra, persónuleika þeirra og heilsu. Hún undirstrikar fyrst og fremst jákvæða eiginleika þeirra eins og gleði og hjálpsemi. Hún rekur rætur erfiðleika og vanmáttar þeirra til þess harðræðis sem þau hafa verið beitt af öðrum, einkum barnaverndaryfirvöldum. Hún gerir almennt lítið úr vanda þeirra.
Á sálfræðilegum prófum þar sem hún lýsir sjálfri sér gefur hún ótrúverðuga mynd af sér. Kemur það fram á réttmætiskvarða prófanna. Lýsing Y á sjálfri sér felur í sér almenna vellíðan, góða starfs- og félagshæfni og jafnvægi. Svörin gefa ekki merki um vísvitandi blekkingu eða óheiðarleika, heldur endurspegla þau tilfinningalegan vanþroska og dómgreindarleysi. Svörin lýsa frekar æskilegri hegðun en raunsannri. Gera má ráð fyrir að persónuleiki hennar sé vanþroskaður hvað varðar tilfinningalegt innsæi og félagsleg samskipti. Þrátt fyrir snautt tilfinningalíf og að hún er háð öðrum (passive-dependent) er hún dugleg til verka, hvorki kvíðin né þunglynd. Líklegt er að undir álagi fái hún reiðiköst sem bitna á umhverfinu. Töluverð tortryggni liggur að baki samskiptaerfiðleika hjá fólki sem lýsir sér eins og Y. Á greindarprófi kemur fram að heildargreind hennar er eðlilega há, en í munnlega hluta prófsins og á persónuleikaprófi kemur fram veruleg skerðing á félagslegu innsæi. Fram kemur að greind Y er hlutbundin og alvarleg tregða er á málfarssviði líkt og oft sést hjá einstaklingum sem hafa búið við vanrækslu í æsku.“
Matsmenn draga heildarniðurstöður sínar saman í lok matsgerðarinnar. Þar segir orðrétt:
„Þau X og Y hafa á undanförnum misserum sýnt að þau geta aðlagast aðstæðum á Íslandi og hafa komið sér allvel fyrir. Þau eru bæði reglusöm og starfsöm, sjá sér farborða með vinnu og örorkulífeyri, eru í tengslum við kunningja og hafa fest sér húsnæði sem getur hentað allstórri fjölskyldu. Þar hafa þau búið í haginn fyrir börnin og skapað lágmarks aðstæður fyrir hvert og eitt þeirra. Þau annast í dag tvo drengi, tveggja og 16 ára, og ekki annað að sjá en vel fari um þá í þeirra umsjá. Þau eru tilfinningalega tengd börnum sínum og finna til með þeim að dvelja hvert í sínu lagi hjá vandalausum, enda hafa þau bæði þá reynslu að hafa verið aðskilin frá foreldum sínum á bernskuárum. Þau leggja allt kapp á að fá þau til sín aftur.
Matsmenn telja ofangreind atriði vera merki um styrkleika þeirra X og Y og álíta að þau séu í dag almennt hæf til þess að fara sameiginlega með forsjá barna. Þessari staðhæfingu verða þó að fylgja eftirfarandi fyrirvarar þegar forsjárkrafa þeirra er höfð í huga:
1. Samtals er um að ræða fimm börn sem þau X og Y gera kröfu um að annast auk þeirra tveggja sem hjá þeim dvelja nú. Samkvæmt gögnum málsins munu sum barnanna hafa talsverðar sérþarfir. Eftir því sem börnunum fjölgar í umsjá þessara foreldra og fjölþættari kröfur eru gerðar til þeirra vegna mismunandi þarfa þeirra, koma gallar þeirra X og Y sem foreldrar betur í ljós. Þar er einkum átt við tvennt. Annars vegar er það slakt almennt innsæi og skortur á dómgreind sem birtist m.a. í tilhneigingu þeirra beggja til þess að réttlæta og afneita vandamálum sem upp koma. Hins vegar er það varnarstaðan sem þeim er báðum eiginlegt að fara í gagnvart opinberum hjálparaðilum og kemur m.a. fram í tortryggni, ásökunum, ósveigjanleika og flótta undan afskiptum.
2. Y virðist hafa farið vel úr hendi að annast ein uppeldi elsta sonar síns þegar hann var á viðkvæmum mótunarárum. Engu að síður álíta matsmenn að forsjárhæfni hennar sé að því leyti skert að hún ráði ekki ein til lengdar við uppeldi margra barna. Þrátt fyrir praktíska greind, verksvit og getu til að annast ýmsar frumþarfir barna er félags- og tilfinningaþroska Y þannig háttað að hún ræður illa við aðstæður þar sem reynir á margþætt og krefjandi samskipti. Hún hefur verið ásökuð um að missa stjórn á sér og beita ofbeldi við slíkar aðstæður. Y hefur hins vegar stuðning af X, sem hefur meiri samskiptahæfni og er í betra jafnvægi, virðist háð honum og yfirleitt fylgja honum í viðhorfum.
3. Að áliti matsmanna er það forsenda þess að foreldrunum verði veitt forsjá allra barnanna að (a) þeim standi til boða viðeigandi aðstoð yfirvalda, (b) að þau þiggi þá aðstoð og (c) að þau færi sér hana í nyt. Hafa verður í huga að verkefnið hlýtur að vera mjög krefjandi. Börnin eru sum þroskaskert og/eða hafa orðið fyrir endurteknum áföllum, þau eru óvenju mörg, á ólíkum aldri og þess vegna með mjög mismunandi þarfir. Öll eru þau að koma úr fóstri þar sem þau hafa dvalið á þriðja ár í mjög litlum tengslum við foreldrana. Aðlögun verður því vandasöm.
Ö er lítið sveitarfélag þar sem lítil sérhæfing er í dag varðandi stuðningsúrræði fyrir fjölskyldur. Þar er t.d. ekki fastur starfsmaður sem sinnir félagsþjónustu og barnaverndarstarfi. Í bígerð mun að sameina barnaverndarnefndina nefndinni í Z og mun úrræðum þá væntanlega fjölga.
Í 24. gr. núverandi barnaverndarlaga og áfram, er kveðið á um úrræði sem nefndin getur beitt til að aðstoða foreldra við umönnun barna, með eða án samþykkis foreldra. Þarna er m.a. um að ræða leiðbeiningar til foreldra um uppeldi og aðbúnað, sérstök stuðnings- og meðferðarúrræði fyrir börnin, útvegun tilsjónarmanns, persónulegs ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu, vistun barna utan heimilis, eftirlit með heimilinu o.fl. Ljóst er að fjölskylda X og Y mundi þurfa öflugan stuðning af þessu tagi ef börnin fimm flytja aftur inn á heimilið auk þess sem skólamál þurfa væntanlega sérstaka skoðun. Samstarfsvilji og samstarfshæfni eru því lykilatriði.
Ætla verður að viðeigandi úrræði verði fyrir hendi hjá félagsmála- og skólayfirvöldum í Ö ef til þess kemur að börnin flytjast aftur heim. Hættan er sú að þegar á hólminn kemur hafni foreldrarnir slíkri aðstoð eða fari ekki eftir ráðleggingum á þeim forsendum að þau telji vandann ekki fyrir hendi, aðstoðar ekki þörf eða úrræðin ekki við hæfi. Reynslan ein getur skorið úr þessu en út frá forsögu málsins og niðurstöðum prófa og viðtala telja matsmenn líkur á að miklir erfiðleikar verði í samstarfi hjálparaðila við þau X og Y.
Af framangreindum ástæðum telja matsmenn vafasamt að þau X og Y geti annast öll börnin nægilega vel, jafnvel þótt tilskilin aðstoð sé í boði, einkum þau sem þurfa á mestri aðstoð að halda vegna áfalla og þroskaskerðinga.“
Matsmenn voru beðnir að útskýra nánar framangreindar niðurstöður fyrir dómi. Fram kom í vitnisburði þeirra að staða stefnenda væri betri í ljósi þess að B væri orðinn 18 ára og því ekki lengur gerð krafa um forsjá hans. Engu að síður væru þrjú barnanna illa á vegi stödd, C, D og E, og ættu þau enn í miklum erfiðleikum, einkum tvö þau fyrstnefndu. C þyrfti mjög mikla aðstoð vegna þroskaskerðingar sinnar og áfalla, sem hann hefði orðið fyrir í lífinu og skipti þar mestu máli að hann fái áfram sérfræðiaðstoð af hálfu hins opinbera. D þyrfti á hinn bóginn fyrst og fremst mjög mikið aðhald frá uppeldisforeldri sínu vegna fyrri áfalla og hefði fósturmóðir hans staðið sig sérstaklega vel í þeim efnum og fórnað sér algjörlega í hans þágu. E virtist enn vera óöruggur og hræddur vegna fyrri áfalla og þyrfti áfram mikið eftirlit í uppeldinu, öruggar aðstæður, hlýju og nærgætni. F væri hins vegar mun betur á vegi stödd, enda hefði hún farið mjög ung í fóstur og virtist hafa náð sér nánast að fullu eftir áföll í sínu lífi. Aðspurður taldi Oddi Erlingsson matsmaður að það væri ekki raunhæft að stefnendur gætu tekið við forsjá C og D að nýju. Þar kæmi annars vegar til þörfin á opinberri aðstoð, sem ólíklegt væri að þau myndu hagnýta sér og hins vegar skortur á persónulegum eiginleikum til að sinna þörfum drengjanna. Þorgeir Magnússon matsmaður vildi ekki tiltaka einstök börn í þessu sambandi og taldi að það yrði afar erfitt fyrir stefnendur að taka við forsjá hvers og eins barns að nýju og það af ólíkum ástæðum. Matsmenn bentu á að innsæisleysi væri ríkjandi í fari beggja stefnenda og að þau ýmist afneituðu vandamálum barna sinna eða kenndu öðrum um ófarir þeirra. X virtist halda að börn ali sig upp sjálf og að því fleiri börn sem væru á heimili, því betra. Oddi gat þess að sömu sjónarmið væru einnig einkennandi í fari Y. Hann kvað það álit sitt að ófarir barnanna mætti rekja annars vegar til ófullnægjandi aðstoðar skóla og félagsmálayfirvalda í Færeyjum og hins vegar til ábyrgðarleysis stefnenda í uppeldi þeirra. Þorgeir tók hér í sama streng. Matsmenn voru sammála um að X og Y tækju ekki neina ábyrgð á stöðu barnanna og virtust trúa því að þau væru bestu foreldrarnir til að annast um börnin. Nánar aðspurður um styrkleika X sem uppalanda, þ.e. hæfni hans til að sinna þörfum og tilfinningalífi barna sinna, sagði Oddi að slíkir eiginleikar væru í raun ekki fyrir hendi hjá X. Styrkur hans fælist fyrst og fremst í dugnaði við vinnu og að koma sér upp húsnæði fyrir fjölskylduna. Honum væri engu að síður mjög annt um börnin, en innsæisleysi hans væri algert. Öll sömu sjónarmið giltu um Y, en hún væri þó í ágætu jafnvægi í daglegu lífi. Þorgeir var einnig inntur eftir því hvar styrkleiki stefnenda lægi sem foreldrar. Hann svaraði því til að þau hefðu ýmsa kosti til að bera og benti á að þau væru dugleg og þætti vænt um börnin sín. Þá væru þau í eðli sínu og hugsun „fjölskyldufólk“. X hefði þó ekki tengst börnunum sterkum böndum, en hann væri vel gefinn, virtist vera í jafnvægi og ætti að vera fær um að örva börnin og veita þeim leiðsögn. Hann hefði hins vegar brugðist börnunum að þessu leyti og þau Y bæði verið aðgerðarlaus í uppeldinu. Þá skorti þau bæði verulega á innsæi í þarfir barnanna. Matsmenn voru sammála um að ólíklegt væri að Y hefði beitt börnin líkamlegu ofbeldi, þótt ekki væri hægt að útiloka það og byggðu þá niðurstöðu meðal annars á sálfræðiprófum, sem þeir hefðu lagt fyrir hana við matsgerðina.
XVI.
Oddi Erlingsson og Þorgeir Magnússon voru einnig fengnir til að meta eftirfarandi atriði tengd börnunum C, D, E og F og fósturforeldrum þeirra, sakaukastefndu í málinu:
1. Aðstæður barnanna hjá fósturforeldrum, aðlögun þeirra og líðan.
2. Tengsl barnanna við fósturforeldra.
3. Hvort aðskilnaður frá fósturforeldrum geti reynst andstæður hagsmunum barnanna.
4. Afstaða barnanna til málsins eftir því sem mögulegt er.
5. Að tiltekið verði annað það í matsgerð sem máli kann að skipta með tilliti til hagsmuna barnanna.
Matsmenn heimsóttu börnin á fósturheimili þeirra og ræddu við þau og foreldrana. Einnig var rætt við kennara C, D og E. Þá voru lögð ýmis sálfræðipróf fyrir börnin. Í matsgerðinni (dskj. 197) draga matsmenn saman niðurstöður sínar um hvert og eitt barn og leitast við að svara framangreindum spurningum í sömu röð og þær eru settar fram. Þó er ekki tekið sérstaklega á síðustu spurningunni í matsbeiðni fósturforeldranna. Niðurstöðurnar eru þessar:
„Niðurstöður varðandi C .
1. Aðstæður á fósturheimili C, framvinda sérþjálfunar, aðlögun hans og líðan.
Aðstæður sem C býr við hjá fósturforeldrum virðast góðar. Hann býr í sveit þar sem hann kynnist dýrum og sveitavinnu og á heimilinu á hann jafnaldra sem hann tengist vel. C er nokkrum árum á eftir í þroska og þarf þess vegna á sérúrræðum að halda. Í ítarlegri matsgerð frá Greininga- og ráðgjafarstöð ríkisins frá nóvember 2001 kemur í ljós að C á við þroska- og málhömlun að stríða og þarf þess vegna á öflugri sérkennslu að halda og annarri þjálfun sem foreldrarnir og barnaverndaryfirvöld hafa lagt sig fram um að koma til móts við í samvinnu við kennara á staðnum. Námslega stendur C mjög höllum fæti og tengist illa jafnöldrum. Að mati matsmanna og kennara er þörfum hans fyrir sérkennslu sem stendur fullnægt í skólanum. Vegna fötlunar C þarf sérstaka lagni og þolinmæði til að sinna honum bæði heima og í skólanum og virðist á báðum stöðum hafa tekist vel. Foreldrar virðast lagin að örva hann og setja honum tilheyrileg mörk, enda hafa þau áralanga reynslu af að vera með fósturbörn á þessu aldursskeiði. C segist líða vel bæði í skólanum og heima hjá fósturforeldrum sínum og umsagnir þeirra og kennara um líðan hans og framfarir og niðurstöður sálfræðilegra prófa bera vott um að honum líður vel.
Að mati foreldra og kennara hefur C tekið miklum framförum frá því hann kom á fósturheimilið að [...] fyrir tveimur árum. Í upphafi hafi hegðun hans og útgangur borið vitni um vanrækslu, hann hafi verið árásargjarn og viðbrögð hans hafi borið þess merki að hann hafi verið beittur líkamlegu harðræði. Hann hafi haft tilhneigingu til að leita kynferðislega á yngri eða óþroskaðri krakka. Þessi vandamál séu nú vart til staðar þó fósturforeldrar hafi allan varann á. Að áliti matsmanna er ekki enn komið að því að C geti unnið úr fyrri áföllum með sérfræðilegri aðstoð.
2. Tengsl C við fósturforeldra.
Tengsl C við fósturforeldra eru góð og í huga hans er fjölskyldan á [...] hans fjölskylda. Svo virðist sem söknuðurinn eftir fyrri fjölskyldu valdi honum ekki lengur miklu hugarangri. Samkvæmt tengslaprófi gegnir fósturmóðir lykilstöðu í lífi hans og er sú manneskja sem tengist honum best. Hún er sú sem uppfyllir frumþarfir hans, veitir honum hlýju og er tilfinningalega nærandi. Hann tengist fósturföður sínum jákvæðum böndum og hann er honum jákvæð fyrirmynd. C tengist fóstursystkinum dæmigerðum systkinaböndum.
3. Áhrif aðskilnaðar C við fósturforeldra.
Áður en C kom í fóstur að [...] upplifði hann síendurtekin tengslarof og áföll (foreldraskilnaður, ofbeldi, langvarandi vistun á barnaheimili, hrakningur frá heimalandi og slit frá fyrri fósturforeldrum í Ö). Þessi reynsla gæti hafa átt sinn þátt í að sljóvga hann og stuðlað að kröfuleysi hans í garð umhverfisins. Hann virðist ekki hafa unnið úr fyrri áföllum og hans fyrra líf er í megin atriðum óafgreitt. Hann virðist eiga í erfiðleikum með að samþætta tengsl við báðar fjölskyldur sínar. C hefur aðlagast fóstrinu býsna vel. Að áliti matsmanna gætu brátt skapast forsendur fyrir hann til takast á við fortíðina, burt séð frá því hversu vel honum tekst að vinna úr áföllunum.
4. Afstaða C til málsins.
C er óvanur að koma fram með kröfur um óskir sínar og langanir. Í dag finnst honum hann tilheyra fjölskyldunni á [...]. Hann segist vilja búa þar áfram og ekki breyta neinu. Þessa afstöðu má einnig lesa úr niðurstöðum tengslaprófana og teikningum. Hann bælir minningar um fyrri tíma og er enn ekki fær um að tjá sig um tengslin við fjölskylduna fyrir sunnan að öðru leyti en því að hann segist sakna hennar dálítið. Tengsl hans við systkini, einkum alsysturina A og stjúpbróðurinn E, virðast honum mikilvæg. Tengslin við E hafa viðhaldist vegna áhuga og nábýlis fósturforeldra þeirra. Athyglisvert er að C minnist ekki á albróður sinn B sem hann þó áður var í nánustu tengslum við.“
„Niðurstöður varðandi D .
1. Aðstæður á fósturheimili, aðlögun D og líðan.
Allar aðstæður á fósturheimili D eru góðar. Fósturmóðir hans stendur sig mjög vel í því verkefni sem hún hefur tekið að sér, jafnt faglega sem tilfinningalega. Hún hefur sótt reglulega handleiðslu til fagaðila varðandi verkefnið og samvinna við skóla er góð. Hún hefur skilning á stöðu drengsins og viðbrögð hennar eru viðeigandi. Samhliða hlýju þarf D mikið aðhald sem henni tekst að skapa, en við “strúktúrleysi” koma brestir hans í ljós; dómgreindarleysi og hegðunarerfiðleikar. D hefur brugðist vel við uppeldisaðferðum J og aðlagast fóstrinu vel á yfirborðinu. Tengslin við móður og upprunafjölskyldu eru enn virk í huga hans og líðan hans í fóstrinu truflast auðveldlega við heimsóknir til þeirra og kemur honum í uppnám.
2. Tengsl D við fósturmóður.
D metur tengsl sín við fósturmóður og hennar fjölskyldu ákaflega góð og honum virðist líða vel hjá henni. Á heimilinu skorti hann þó skýra föðurímynd. Fósturmóðir er sú manneskja sem D tengist nánast og hann metur hana mikils. Hún er mjög gefandi í sambandinu, er honum jákvæð og verndandi, en setur honum jafnframt reglur og mörk. Tengsl við kynmóður og X eru enn virk samkvæmt tengslaprófi, en ekki sama uppspretta umhyggju og frá stjúpmóður. Tengsl hans við systkini sem eru honum blóðtengd eru honum mikilvæg.
3. Áhrif aðskilnaðar D við fósturmóður.
Hjá fósturmóður eru D tryggður persónulegur áhugi og umhverfi sem veitir honum aðhald og skýr mörk. Þessi miklu persónulegu tengsl og skýri rammi henta honum einkar vel þar sem hann sjálfur hefur þennan ramma ekki í sér. Frá því D kom í fóstrið hefur hann tekið framförum í félagslegri aðlögun þó enn vanti töluvert á. Hann nýtur nú sérfræðiaðstoðar og kemur til með að þurfa slíka aðstoð enn um sinn. Skilningur og virk þátttaka uppalanda varðandi þessa aðstoð er lykilatriði. Ef D á að fara í burtu frá fósturmóður sinni þá þarf hann að eiga vísan sambærilegan skilning og virkni.
4. Afstaða D til málsins.
Afstaða D til breytinga á búsetu er nokkuð hverful og virðist velta á líðan hans og jafnvægi hverju sinni. Eftir heimsóknir til fjölskyldunnar í Ö kemst hann stundum í uppnám og segist vilja flytja. Þegar frá líður kemst hann í betra jafnvægi og snýst þá hugur. Þegar matsmenn ræddu við D sagðist hann vilja búa áfram hjá J án þess að geta rökstutt það með fjölbreyttum hætti. Hann virkaði stoltur og ánægður með sjálfan sig og heimili sitt.“
„Niðurstöður varðandi E .
1. Aðstæður á fósturheimili, aðlögun E og líðan.
Aðstæður I til að annast fósturbarn virðast góðar. I er virk og kraftmikil kona sem á myndarlegt heimili á [...] þar sem hún á uppruna sinn og traustan félagslegan bakhjarl. E nýtur óskiptrar athygli fósturmóður sinnar sem mun hafa sinnt þörfum hans af mikilli natni allt frá því að hann kom [...] og tekið verkefni sitt af mikilli alvöru. I hefur gætt þess að viðhalda vitneskju drengsins um upprunafjölskyldu hans þannig að hann er kunnugur nöfnum og útliti skyldfólks síns og verustað flestra. Það fer vel um drenginn á leikskólanum og I hefur búið svo um hnúta að hjón á miðjum aldri sem hún þekkir vel og treystir, [...] og [...], koma dálítið að umönnun drengsins líkt og væru þau í hlutverki afa og ömmu. Þau hafa bæði tengst E jákvæðum böndum og er [...] E væntanlega vísir að mikilvægri föður- eða karlmannsímynd.
Ekki verður betur séð en að E hafi aðlagast fósturaðstæðunum vel, hann tengist fólki og finnur hjá því öryggi, tekur eðlilegum framförum og er vellíðunarlegur. Afbrigðileiki í hegðun og lund voru áberandi en hefur mikið rénað. Finna má hnökra á vitsmunaþroska sem líkjast því þegar almennri hvatningu hefur verið ábótavant í uppeldisumhverfinu jafnframt því sem enn gætir meira öryggisleysis í tilfinningalífi en venjulegt er hjá fimm ára barni. Þetta kemur m.a. fram í því að drengurinn er mjög háður návist fósturmóður sinnar, kvikur í lund og hugarheimur hans all átakasamur og stutt í áföll og ósigra lítilmagnans. Líðan E virðist þannig enn all viðkvæm og næm fyrir allri röskun á stöðugleika og högum.
Helsti annmarkinn á fósturráðstöfuninni er væntanlega sá að I er einstæð móðir svo E skortir skýra föðurímynd í nánasta umhverfi sínu.
2. Tengsl E við fósturmóður.
E hefur nú búið jafn lengi á [...] hjá I fósturmóður sinni og hann gerði í upphafi ævinnar hjá móður sinni, stjúpa og systkinum, eða í rúm tvö ár. Tengsl þeirra tveggja virðast heilbrigð, þau eru sterk, jákvæð og gagnkvæm. I verndar drenginn og örvar en gerir einnig til hans sanngjarnar kröfur og setur honum mörk. E er reyndar mjög háður fósturmóður sinni og sækir eiginlega til hennar allt sitt öryggi, en líta verður svo á að það sé eðlilegt ástand, æskilegt og drengnum mikilvægt enn um sinn í kjölfar þess öryggisleysis sem virðist hafa ríkt í sálarlífi hans við upphaf fóstursins.
Viðhorf drengsins til móður, stjúpa og systkina er jákvætt eftir því sem best verður séð en þýðing þeirra virðist óljós í huga drengsins. Hann hefur verið upptekinn við að mynda samband við fósturmóður sína og á yfirborðinu er hann óháður gömlu fjölskyldunni sinni og minningunni um einstaka skyldmenni; helst að eina alsystkinið, D, sé honum hugleikinn og umhugsunin um að eiga "fullt af stórum bræðrum". Með tímanum og eftir því sem kynnin vaxa munu viðhorfin til þessara nánu ættingja væntanlega skýrast og styrkjast.
3. Áhrif aðskilnaðar E við fósturmóður.
E dvaldi tvö fyrstu æviárin með móður sinni, stjúpa og systkinum og síðan með systkinum sínum í nokkra mánuði áður en núverandi fóstur hófst. Án þess að hægt sé að fullyrða um gæði þessara frumtengsla drengsins við fjölskyldu sína mun viðskilnaðurinn og raskið sem því fylgdi hafa verið honum mikið áfall. Í dag finnur E til persónulegs öryggis í tengslum við fósturmóður sína og sýnist þrífast vel í návist hennar en það öryggi á enn eftir að staðfestast betur innra með honum, verða að sjálfsöryggi og leiða til aukins sjálfstæðis. Aðskilnaður mundi áreiðanlega raska þroskaferli og jafnvægi E að nýju og valda afturkipp í hegðun hans og líðan. Erfiðara er að fullyrða um langtímaafleiðingar slíkra grundvallarbreytinga, mikið mundi þar velta á viðbrögðum móðir hans og stjúpa og að hvaða marki þau mundu sýna stöðu hans skilning. Að mati matsmanna er aðlögunarhæfni þessa drengs takmörk sett og verið að taka áhættu með endurteknum grundvallarumskiptum í tengslalífi hans.
4. Afstaða E til málsins.
Vegna aldurs síns hefur E takmarkaðan skilning á fjölskylduaðstæðum sínum og er ekki meðvitaður um að á grundvallarhögum hans geti orðið neinar sérstakar breytingar. Hann lýsir ekki yfir neinum sérstökum óskum um breytingu, heldur þvert á móti virðist hann sáttur við hagi sína.“
„Niðurstöður varðandi F.
1. Aðstæður á fósturheimili, aðlögun F og líðan.
Aðstæður L til að annast fósturbarn virðast góðar. Hún á hlýlegt og rúmgott heimili, hefur góða atvinnu og vegnar vel félagslega. Ekki verður annað fundið en að hún hafi tengst F nánum og jákvæðum tilfinningaböndum. L tók við F í greinilegu kreppuástandi en hefur sýnt það sl. tvö ár að hún er fær um að laða telpuna að sér og koma til móts við þarfir hennar fyrir ástúð, öryggi, örvun og rétta umönnun. Þá kemur fram að hún hefur jákvæðan skilning á þörfum F fyrir vitneskju um kynfjölskyldu sína og að viðhalda þarf sambandi við systkini og foreldra.
Helsti annmarkinn er væntanlega sá að L er ein í uppeldis- og foreldrahlutverkinu og á einnig annríkt utan heimilis. F skortir því væntanlega skýrari föðurímynd í nánasta umhverfi sínu. Mikilvægt er að leikskólinn sinni vel hlutverki sínu. Sjálf er F greinilega orðin vel aðlöguð fóstrinu, það er komin ró yfir hana í þessum aðstæðum og ekki kemur annað fram en að henni líði vel og að hún þroskist eðlilega. Hún mælist með eðlilegan greindarþroska og nýtur nauðsynlegrar örvunar.
2. Tengsl F við fósturmóður.
F hefur dvalið meirihluta sinnar skömmu ævi hjá L. Samband þeirra hefur þróast á því æviskeiði þegar börnum er eiginlegt að bindast foreldrum sínum hvað nánustum böndum, þau læra að mynda geðtengsl og öðlast öryggiskennd sem nýtast þeim út ævina. Flest bendir til að L hafi tekist að mæta þessum tengslaþörfum telpunnar all vel eftir áfallið sem vafalaust fylgdi tengslarofi við foreldra og systkini þegar hún var eins árs gömul. F lítur á L sem móður sína, sinn nánasta aðstandanda og umönnunaraðila og heimili hennar sem sitt eigið. Samband þeirra virðast nærandi og passa telpunni vel.
3. Áhrif aðskilnaðar F við fósturmóður.
F dvaldi fyrsta æviárið með foreldrum sínum og síðan með systkinum sínum í nokkra mánuði áður en hún fór í núverandi fóstur. Án þess að hægt sé að fullyrða um gæði þessara frumtengsla hlýtur þýðing þeirra að hafa verið mikil fyrir F og rof þeirra vafalaust mikið áfall fyrir hana. Í dag hefur hún byggt upp ný persónuleg grunntengsl sem virðast þroskavænleg. Aðskilnaður mundi að áliti matsmanna verða F ný áraun og áhætta við þessar aðstæður. Flest bendir til að ekki sé bara um yfirborðsaðlögun að ræða milli þeirra F og L heldur sé um virkt, persónulegt samband að ræða sem sé þroskavænlegt í eðli sínu og þurfi að halda áfram til að bera fullan ávöxt. Telpan er á þeim aldri þegar börn eru hvað háðust persónulegu sambandi við foreldra sína og áhætta í því fólgin að láta þau taka upp þráðinn aftur og aftur.
4. Afstaða F til málsins.
Vegna aldurs síns hefur F ekki skilning á margslungnum fjölskylduaðstæðum sínum og tengslum. Hún býr við öryggi í fóstrinu og þótt hún viti um tilvist kynforeldra sinna og systkina er hún um þessar mundir ekki upptekin af eða háð nánum tengslum við þau. Þannig hefur hún t.d. ekki sérstakar spurningar, áhyggjur eða kröfur í frammi um tíðari eða strjálli samskipti. Dvelji hún áfram í fóstrinu munu slíkar þarfir smám saman koma fram, ef allt er eðlilegt, í breytilegum myndum og í samræmi við vaxandi þroska hennar og skilning og þá þurfa sína svörun.“
Í lok matsgerðarinnar draga matsmenn síðan heildarniðurstöður sínar saman á svohljóðandi veg:
„1. Aðstæður barnanna hjá fósturforeldrum, aðlögun þeirra og líðan.
Tveir albræður, D (9) og E (5), hálfsystir þeirra í móðurætt, F (3), og hálfbróðir hennar í föðurætt, C (13), hafa nú dvalið hver á sínu fósturheimilinu í rúm tvö ár. Þrjú þeirra búa hjá einstæðum fósturmæðrum í [...] og á [...] en elsta barnið býr [...] hjá fósturforeldrum sínum, ungri dóttur þeirra og tveimur fóstursonum.
Ytri aðstæður og aðbúnaður á þessum heimilum er alls staðar börnunum hagstæður, húsakynni góð, efnahagur sömuleiðis, viðeigandi skólaþjónusta til staðar og börnin velkomin á heimilin. Öll búa þau við mikið ástríki fósturforeldra sinna. Yngstu börnin, E og F, hafa aðlagast fóstrinu best, hafa enda dvalið þar meiri hluta sinnar skömmu ævi. Þau eru í góðu jafnvægi og í nánu tilfinningasambandi við fósturmæður sínar, vita að þau eiga kynforeldra og systkini, þekkja nöfn þeirra og kannast við útlit en tengslin eru ekki persónuleg. Eldri börnin, C og D, hafa einnig aðlagast vel en aðlögun þeirra ristir ekki jafn djúpt enn sem komið er. Þeir þurfa báðir á sérhæfðri aðstoð að halda, C vegna seinkaðs vitsmuna- og félagsþroska og D vegna óstöðugs lundarfars og hegðunarerfiðleika. Í báðum tilfellum takast fósturforeldrarnir á við sérþarfir drengjanna með all góðum árangri og þeir hafa sýnt miklar framfarir. Þeir þurfa báðir gott ytra skipulag, vökult aðhald og sífellda örvun til þess að nýta þroskamöguleika sína.
2. Tengsl barnanna við fósturforeldra.
Athugun sýnir að öll eru börnin í góðum og þroskavænlegum tengslum við fósturforeldra sína og tvö þau yngstu hafa væntanlega sambærileg tengsl við fósturmæðurnar og börn hafa venjulega við kynmæður sínar. Tengsl eldri drengjanna við fósturforeldrana einkennist af því að tengslin við kynforeldrana eru enn virk og þeir greina þarna andstæður. Togstreitu verður því vart eins og algengt er þegar um fóstur er að ræða á stálpuðum börnum, sátt ríkir ekki um ráðstöfunina og spenna ríkjandi vegna umgengnismála. Einkum á það við um D. Við bætist að drengirnir eru báðir, hvor með sínum hætti, viðkvæmir fyrir óvissu og spennu. C virðist ýta hugsuninni um kynforeldrana til hliðar og reyna að aðlagast en D er meira vaklandi og tengsl hans við fósturmóðurina viðkvæmari.
3. Hvort skilnaður frá fósturforeldrum geti reynst andstæður hagsmunum barnanna.
Yngri börnin tvö eru í eðlilegum tengslum við fósturmæður sínar og eru óviðbúin breytingum á persónulegum högum sínum. Þau búa við öryggi, eru bæði á þeim aldri sem börn eru hvað háðust nánustu uppalendum sínum og eiga mikið undir því að tengslasamfellan rofni ekki til frambúðar. Að áliti matsmanna yrði það mikið áfall fyrir þau og mundi raska persónulegu öryggi þeirra að þurfa að yfirgefa þessa nánustu umönnunaraðila sína.
Eldri drengirnir eiga sér samkvæmt skjölum málsins áfallasama sögu með endurteknu tengslarofi, hrakningum, vanrækslu og ofbeldi. Eins og rakið hefur verið hafa þeir báðir miklar persónulegar sérþarfir og eru viðkvæmir einstaklingar. Aðstæður þeirra í dag virðast hins vegar stöðugri og þroskavænlegri en áður, ekki síst vegna framgöngu fósturforeldranna sem drengirnir treysta orðið og taka framförum hjá. Matsmenn treysta sér ekki til þess að spá fyrir um það með neinni vissu hvaða áhrif nýr aðskilnaður frá slíkum “lykilpersónum” hefði, en telja þó að um nýtt áfall yrði að ræða og að með slíku sé verið að taka áhættu.
4. Afstaða barnanna til málsins.
Yngri börnin tvö eru of ung til að skilja fjölskylduaðstæður sínar eða hafa á þeim sérstaka skoðun. Tilfinningaafstaða þeirra er ótvírætt sú að vilja dvelja áfram hjá fósturmæðrum sínum. Elsta barnið, C tjáir matsmönnum að hann vilji búa áfram hjá fósturforeldrum. Sama afstaða kemur fram í tengslaprófi. Næst elsta barnið, D slær úr og í og afstaða hans virðist velta á líðan hans og jafnvægi hverju sinni. Þegar matsmenn ræddu við hann sagðist hann vilja búa áfram hjá fósturmóður sinni, en það er í samræmi við niðurstöður tengslaprófs.“
Oddi Erlingsson matsmaður var ómyrkur í máli þegar hann var spurður að því fyrir dómi hvaða forsjárskipan hentaði börnunum best miðað við stöðu mála í dag. Hann sagði að börnunum liði öllum vel hjá fósturforeldrum sínum við núverandi aðstæður og því myndi það valda minnstri röskun á högum barnanna ef óbreyttu ástandi yrði haldið. Þorgeir Magnússon matsmaður var ekki síður afdráttarlaus í vitnisburði sínum, en hann sagði það álit sitt að hagsmunum allra barnanna væri best borgið með því að þau fengju að búa áfram hjá fósturforeldrum sínum. Hann áréttaði að hann teldi ekki réttmætt að tína til eitt eða fleiri börn og kveða á um skil þeirra til stefnenda. Börnin væru á ólíkum aldri og ættu við misjöfn vandamál að stríða. C og D væru mun meira krefjandi en E og F og uppeldi þeirra mun vandasamara. Á móti kæmi að styttra væri í að drengirnir yrðu sjálfráða. Yngri börnin ættu á hinn bóginn allt sitt undir því að uppeldisaðstæður þeirra væru góðar næstu árin. Uppalendur þeirra myndu á þeim tíma hafa úrslitaáhrif á það hvernig börnunum komi til með að vegna í framtíðinni. Þorgeir sagðist því hafa áhyggjur af velferð allra barnanna. Færi C aftur til stefnenda væri hættast við að hann myndi hreinlega gleymast og fengi ekki þá sértæku aðstoð sem hann þurfi. D væri mjög erfitt barn í uppeldi og gerði miklar kröfur. Uppalandi hans þurfi því fulla heilsu og fullan kraft til að sinna honum og veita honum daglegan stuðning. Fósturmóðir hans hefði staðið sig afar vel í þessu hlutverki. Taldi Þorgeir að ef ekki væri rétt tekið á vandamálum drengsins núna þá gæti það leitt til enn meiri hegðunarvandamála og alvarlegra persónuleikatruflana í framtíðinni. Þorgeir sagði að E væri líkur D að því leyti að hann væri einnig mjög viðkvæmur einstaklingur, sem virtist skorta innri bjargráð. Fósturmóðir hans hefði staðið sig vel í uppeldishlutverkinu og væri á góðri leið með að vinna úr vandamálum drengsins. Hún hefði hins vegar þurft að hafa mikið fyrir því og ætti annríkt með að mæta öllum þörfum hans. Þorgeir kvaðst efast um að stefnendur gætu komið til móts við hinar mörgu og ólíku þarfir barnanna. Hann benti á að bæði E og F hefðu farið mjög ung í fóstur og því yrði afar erfitt fyrir þau að aðlagast nýju lífi með stefnendum. Til þess að slíkt gæti tekist þyrfti gríðarlega mikla vinnu, utanaðkomandi aðstoð og fulla samvinnu við fósturforeldra barnanna. Ábyrgðin á því að þessir þættir kæmu allir saman myndi hvíla á stefnendum. Þorgeir svaraði því aðspurður að matsmenn mætu það ekki fósturmæðrum D, E og F í óhag að þær væru einstæðar, enda væru margar leiðir færar til að veita börnum hina svokölluðu föðurímynd í lífinu.
XVII.
Oddi Erlingsson og Þorgeir Magnússon voru einnig beðnir að láta í té rökstutt álit um það hvort óæskilegt gæti talist að stefnendur hefðu umgengni við börnin C, D, E og F. Þá voru þeir beðnir álits á því hvort óæskilegt gæti talist að stefnendur hefðu ríkari umgengnisrétt við börnin en mælt væri fyrir um í úrskurði barnaverndarnefndar Z frá 1. október 2001, þ.e. oftar en tvisvar á ári, þrjár klukkustundir í senn. Matsmenn byggðu niðurstöður sínar á fyrirliggjandi gögnum í málinu, en öfluðu að auki skýrslna frá barnaverndarnefnd um samfundi barnanna og stefnenda og ræddu við stefnendur um reynslu þeirra og skoðanir á umgengnismálunum. Í matsgerðinni (dskj. 198) er matsspurningunum svarað og niðurstöður dregnar saman með svohljóðandi hætti:
„Matsmenn telja alls ekki óæskilegt að börnin fjögur hitti með reglubundnum hætti hvert annað, systkini sín og þau Y og X. Samkvæmt lýsingum á samfundunum mætti hjálpa Y og X að skipuleggja fundina betur, gera þá ánægjulegri og gefa þeim innihald sem er meira við hæfi barnanna (dæmi: matast saman, fara í leiki, hlusta á tónlist, segja frá högum sínum, sýna myndir, fræðast um Færeyjar, fara í gönguferðir, í Húsdýragarðinum o.s.frv.). Sökum tungumálaerfiðleika er líklega þörf á túlki.“
Seinni spurningunni er svarað svo í niðurstöðum matsgerðarinnar:
„Eins og að framan greinir er ljóst að þau Y og X eru enn afar ósátt við fósturráðstöfun barnanna, ósammála brotttöku þeirra í upphafi og þeirrar skoðunar að illa fari um börnin eins og er. Tortryggni þeirra og innsæisleysi virðist síst minna en áður hefur komið fram og ekki til þess fallið að skapa það andrúmsloft sem æskilegt er á umgengnisfundunum. Eins og málum er háttað er þeim ekki í huga að styðja við fóstrið með því að samþykkja það í eyru barnanna, “gefa þeim leyfi” til að bindast fósturforeldrunum nánari böndum. Hins vegar virðist matsmönnum sem ítök þeirra í sálarlífi barnanna séu varla það mikil að það ógni beinlínis tengslum þeirra við fósturforeldrana. Þótt fundunum verði fjölgað lítillega sjá matsmenn ekki að á því verði breyting þannig að samfundirnir verði óæskilegir. Fleiri samfundir eru til þess fallnir að efla systkinasamböndin sem matsmenn telja að sé af hinu góða eins og fyrr hefur verið rakið.“
XVIII.
Stefna í málinu er óhæfilega löng eða 24 blaðsíður. Þar af er 19 blaðsíðum varið í umfjöllun um málsástæður og lagarök stefnenda. Er þar að miklu leyti um skriflegan málflutning að ræða, sem er í andstöðu við fyrirmæli réttarfarslaga um munnlegan málflutning. Það er því hlutskipti dómsins að draga saman helstu málsástæður og lagarök, sem stefnendur byggja kröfur sínar á, en við þá reifun verður höfð hliðsjón af þeim atriðum, sem lögmaður þeirra lagði megináherslu á í málflutningsræðu sinni fyrir dómi.
Stefnendur byggja aðal- og varakröfu sína á því að málsmeðferð barnaverndarnefndar Z og Barnaverndarráðs hafi verið haldin svo alvarlegum ágöllum að ekki verði komist hjá því að ógilda úrskurði beggja stjórnvalda. Þá byggja stefnendur á því að niðurstaða nefndra stjórnvalda sé efnislega röng.
Stefnendur telja í fyrsta lagi að málsmeðferðin og ákvörðunartaka beggja stjórnvalda hafi falið í sér augljóst og gróft brot á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að sínu leyti 3. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992, sem hafi að geyma strangari málsmeðferðarreglur en 12. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga sé því aðeins heimilt að svipta foreldra forsjá barna sinna, að uppfyllt séu annað af tveimur skilyrðum lagagreinarinnar, þ.e. að ekki sé unnt að beita öðrum aðgerðum til úrbóta samkvæmt 21. gr. (stuðningsúrræði) og 24. gr. (úrræði án samþykkis foreldra) eða slíkar aðgerðir hafi verið fullreyndar án nægilegs árangurs. Hvorugu þessara skilyrða hafi verið fullnægt í tilviki stefnenda og því hljóti forsjársviptingin að teljast ólögmæt. Tilvísun Barnaverndarráðs til niðurlagsákvæðis 17. gr. laganna í úrskurði sínum 6. júní 2001 breyti engu í þessu sambandi, enda verði því ákvæði ekki beitt til að komast hjá því að beita lögmæltum stuðningsúrræðum. Telja stefnendur að hér hafi því verið um máttvana tilraun Barnaverndarráðs að ræða til að berja í brestina á slælegri málsmeðferð barnaverndarnefndar, eingöngu í því skyni að réttlæta ólögmæta töku barnanna af foreldrum sínum. Þessu til stuðnings benda stefnendur á að R félagsmálastjóri Z hafi viðurkennt fyrir dómi að barnaverndarnefndin hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að beita ekki stuðningsúrræðum í málefnum fjölskyldunnar og hún gengið á snið við tillögur og meðferðaráætlun Fjölskyldu- og félagsþjónustu Z. Þá benda stefnendur á að þau hafi frá upphafi verið fús til fullrar samvinnu við íslensk barnaverndaryfirvöld og veitt liðsinni sitt við könnun málsins á barnaverndarstigi, sbr. 4. mgr. 18. gr. barnaverndarlaga. Jafnframt hafi þau gert allt sem í þeirra valdi hafi staðið til að útvega viðunandi húsnæði fyrir sig og börnin, en mætt litlum skilningi barnaverndarnefndar, sem hafi neitað þeim um aðstoð við útvegun húsnæðis. Stefnendum hafi engu að síður tekist að finna bráðabirgðahúsnæði í farfuglaheimilinu V, en barnaverndarnefndin hafnað því húsnæði á röngum forsendum og án nægilegs rökstuðnings með vísan til þess að þar væri ekki viðeigandi aðstaða fyrir börnin, auk þess sem viðeigandi aðstaða væri ekki fyrir tilsjónarmann í húsinu. Af þeim sökum hefði að áliti nefndarinnar ekki verið unnt að beita stuðningsúrræðum samkvæmt 21. gr. laganna. Stefnendur telja að nefndin hafi þó brotið með enn alvarlegri hætti gegn hagsmunum þeirra og barnanna þegar hún ákvað að fresta ekki uppkvaðningu úrskurðar um forsjársviptingu 18. september 2000, þrátt fyrir að legið hafi fyrir skjalfestar upplýsingar um að stefnendur hafi verið búin að taka á leigu rúmgott einbýlishús í Ö. Með þeirri ákvörðun og með því að kanna ekki umrætt húsnæði hafi nefndin ekki aðeins þverbrotið meðalhófsreglu 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga heldur einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. og 2. mgr. 18. gr. og 43. gr. barnaverndarlaga. Þá hafi viljaleysi barnaverndarnefndar til að aðstoða stefnendur við að gegna foreldraskyldum sínum og beita í því skyni eftir atvikum lögmæltum stuðningsúrræðum falið í sér sjálfstætt brot á 17. gr. barnaverndarlaga. Barnaverndarráð hafi reyndar fundið að framangreindri málsmeðferð barnaverndarnefndar í úrskurði sínum og átalið vinnubrögð hennar, en af óskiljanlegum ástæðum ekki talið ástæðu til að ógilda úrskurð nefndarinnar.
Stefnendur byggja ennfremur á því að ekkert liggi fyrir um það í málinu að knýjandi nauðsyn hafi verið á forsjársviptingu. Þar hafi barnaverndarnefnd og síðar Barnaverndarráð misbeitt valdi sínu við val á leiðum til úrlausnar málsins og þannig brotið gegn óskráðri reglu stjórnsýsluréttar um það sem kallast „procedurefordrejning“. Reglan leiði til þess að stjórnvaldsákvörðun, sem tekin hafi verið á grundvelli viðleitni stjórnvalds til að reka mál eftir einföldum farvegi, í stað þess að reka málið eftir lögbundnum farvegi, sem er tímafrekari, vandaðri og fyrirhafnarmeiri, þar sem gætt sé hagsmuna borgarans, sé skilyrðislaust ógildanleg. Telja stefnendur að Barnaverndarráð hafi hvorki í þessu tilliti né í sambandi við brot barnaverndarnefndar á meðalhófs- og rannsóknarreglum stjórnsýsluréttarins haft heimild til að bæta úr svo stórkostlegum ágöllum í málsmeðferð lægra setts stjórnvalds við meðferð málsins hjá hinu æðra stjórnvaldi. Hinar alvarlegu brotalamir í meðferð barnaverndarnefndar leiði því sjálfstætt til ógildis beggja umræddra úrskurða.
Stefnendur árétta að í málsmeðferð og ákvarðanatöku barnaverndarnefndar og Barnaverndarráðs hafi falist svo vítaverð brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar að það eitt nægi til ógildingar á úrskurðum þeirra. Er hér fyrst og fremst vísað til þess að ekkert tillit hafi verið tekið til þess að stefnendur útveguðu viðunandi húsnæði 18. september 2000, en engu að síður hafi barnaverndarnefnd byggt niðurstöðu sína um forsjársviptingu að stórum hluta á meintum húsnæðisskorti stefnenda, svo sem fram komi með skýrum hætti víða í úrskurði nefndarinnar. Hafi því skylda barnaverndarnefndar verið ríkari en ella til að kanna málið betur og gera meðal annars faglega úttekt á hinu nýja húsnæði áður en málinu væri ráðið til lykta, sérstaklega þegar haft væri í huga að nefndin byggði ákvörðun sína á því að ekki hafi verið hægt að koma við stuðningsúrræðum samkvæmt 21. gr. barnaverndarlaga, við þær aðstæður sem stefnendur hafi búið við til 18. september. Þá telja stefnendur að barnaverndarnefndin hafi einnig brugðist rannsóknarskyldum sínum á vítaverðan hátt með því að afla ekki sérfræðiskýrslna um aðstæður og hagi hvers og eins barns áður en ákvörðun var tekin um forsjársviptingu og með því að bíða ekki eftir álitsgerð Gylfa Ásmundssonar sálfræðings um forsjárhæfi stefnenda, sem nefndin hafi þó sjálf beðið um. Þá hafi nefndin ekki hirt um að gera skriflega og ítarlega áætlun um meðferð máls stefnenda í samræmi við 19. gr. barnaverndarlaga. Verði að átelja framangreind vinnubrögð harkalega, enda hafi Barnaverndarráð fundið að þessu í úrskurði sínum. Umrædd vinnubrögð barnaverndarnefndar séu því alvarlegri þegar hafðir séu í huga hinir gríðarlegu hagsmunir stefnenda og barna þeirra og hve afdrifarík og íþyngjandi ákvörðun hennar hafi verið. Stefnendur telja að úr slíkum annmörkum verði ekki bætt hjá æðra stjórnvaldi og að viðleitni Barnaverndarráðs í þá átt breyti engu í þessu sambandi.
Stefnendur byggja einnig á því að ákvarðanir barnaverndarnefndar og Barnaverndarráðs um sviptingu á forsjá barnanna C, D, E og F hafi ekki verið byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og að þær uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga. Ákvarðanir beggja stjórnvalda séu því efnislega rangar. Rökstuðningur barnaverndarnefndar fyrir sinni niðurstöðu hafi verið alls ótækur sem grundvöllur forsjársviptingar. Þannig hafi nefndin byggt niðurstöðuna á því að stefnendur hafi ekki undirbúið ferð sína til Íslands nægilega vel, að þau hafi sett börn sín í hættu við að aka með þau í fólksbifreið frá Seyðisfirði til Z, að börnin hafi ekki litið sómasamlega út á tjaldstæðinu í Z og að eitt þeirra hafi mátt þola ofbeldi af hálfu móður. Barnaverndarnefnd hafi engu að síður tekið ákvörðun um að svipta stefnendur forsjá allra barnanna og réttlætt þá ákvörðun í ljósi grunsemda um að eitt barnanna hafi þurft að þola ofbeldi á heimili sínu. Þá virðist nefndin leggja þó nokkurn þunga á að C, D, E og F líði vel hjá fósturforeldrum sínum. Ekkert þessara sjónarmiða sé hins vegar málefnalegt og verða þau ekki talin fullnægjandi rök fyrir forsjársviptingu. Stefnendur mótmæla því harðlega að þau hafi beitt börnin ofbeldi og segja grunsemdir barnaverndaryfirvalda ekki hafa verið studdar viðhlítandi rökum. Önnur atvik, sem forsjársviptingin hafi verið reist á, hafi verið tímabundin vegna húsnæðisleysis stefnenda, en þau hafi lagt allt kapp á að finna viðunandi húsnæði og fá búslóð sína senda frá Færeyjum. Barnaverndarnefnd hafi ekkert tillit tekið til þessara aðstæðna og við ákvörðun sína byggt eingöngu á aðstæðum stefnenda eins og þær voru áður en þau tóku umrætt einbýlishús á leigu og áður en búslóð þeirra kom frá Færeyjum. Með því hafi nefndin útilokað að stefnendur gætu komið sér almennilega fyrir með börnin hér á landi, í góðu húsnæði, þar sem unnt hefði verið að fylgjast með högum og líðan barnanna, kanna hæfi stefnenda sem uppalenda og koma við lögbundnum stuðningsúrræðum ef því væri að skipta. Ákvörðunin hafi því falið í sér alvarlega valdníðslu og nefndin sem fyrr lagt fyrir róða hið skyldubundna mat sitt á öllum aðstæðum í heild samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Stefnendur telja að hið sama eigi við um úrskurð Barnaverndarráðs, að því leyti sem ráðið byggi ákvörðun sína á sömu sjónarmiðum og barnaverndarnefndin. Báðir stjórnvaldshafarnir hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnendur hefðu ekki sýnt nægilegt innsæi og skilning á þörfum barnanna og því væri hagsmunum þeirra betur borgið hjá öðrum. Þær fullyrðingar séu hins vegar ekki rökstuddar þannig að fullnægt sé einstökum töluliðum 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga. Þá telja stefnendur að nefndar fullyrðingar standist alls ekki þegar virt sé sú niðurstaða sömu úrskurðaraðila að stefnendur séu almennt forsjárhæf og að þau hafi þannig verið metin hæf til að fara áfram með forsjá G.
Stefnendur telja að síðastgreind ákvörðun barnaverndarnefndar og Barnaverndarráðs hafi verið rétt, þ.e. að þau skyldu halda forsjá G. Röksemdir fyrir þeirri niðurstöðu eigi hins vegar einnig við um börnin C, D, E og F, einkum þrjú þau síðastnefndu, en börnin séu öll tengd stefnendum og hafi liðið vel í umsjá þeirra. Engin málefnaleg rök hafi því verið færð fyrir forsjársviptingu þessara barna, enda viðurkennt að stefnendur séu almennt forsjárhæfir, eins og fram hafi komið í sálfræðiathugunum og forsjárhæfisprófum, sem lögð hafi verið fyrir þau eftir að þau misstu forsjá nefndra barna. Barnaverndarnefnd og Barnaverndarráð hafi hins vegar kosið að líta framhjá greindum niðurstöðum og í störfum sínum viðhaft mikið ósamræmi og óákveðni, sem ekki hafi verið útskýrt eða rökstutt. Þurfi þó veigamikil rök til að víkja frá jafnræði í stöðu barnanna að þessu leyti. Þar sem engin slík rök sé að finna í úrskurðunum tveimur telja stefnendur að bæði nefndin og ráðið hafi með ákvörðunum sínum brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995.
Stefnendur benda loks á að það geti seint talist glæpur að eiga mörg börn og að þau hljóti í öndverðu að hafa átt rétt á því að fá stuðning og aðstoð félagsmálayfirvalda hér á landi við að koma sér fyrir með börn sín. Ákvörðun um forsjársviptingu hafi því verið ólögmæt, eins og að henni var staðið og sé ekkert fram komið í málinu sem réttlæti hina grimmilegu aðför barnaverndaryfirvalda gegn þeim og börnunum. Í þeim efnum stoði það ekki barnaverndarnefnd eða Barnaverndarráð að vísa til forsögu málsins í Færeyjum, enda hafi forsjárhæfi stefnenda aldrei verið dregið í efa á meðan þau bjuggu þar. Gögn málsins beri þvert á móti með sér að þarlend barnaverndaryfirvöld hafi eingöngu haft áhyggjur af velferð B og C og málsmeðferð nefndra yfirvalda einungis lotið að því hvaða meðferð væri rétt að veita drengjunum með hliðsjón af fötlun þeirra. Stefnendur hafi þar barist gegn því að drengirnir færu aftur á fósturheimilið í Þórshöfn, en forsjársvipting hefði aldrei komið til tals vegna drengjanna og því síður vegna annarra barna stefnenda. Það sætir því furðu að áliti stefnenda að barnaverndarnefnd Z hafi tekið slíka ákvörðun, einkum þegar haft væri í huga að þau höfðu aðeins búið á Íslandi í skamman tíma. Vönduð matsgerð sálfræðinganna Odda Erlingssonar og Þorgeirs Magnússonar á dómskjali nr. 190 hafi svo endanlega staðfest og staðreynt að stefnendur séu almennt forsjárhæf. Matsmenn telji ennfremur að aðstæður stefnenda séu góðar í dag og að vel hafi verið annast um drengina G og H . Því sé að áliti stefnenda ekkert sem girði fyrir að þau fái nú aftur forsjá barnanna C, D, E og F, eða að minnsta kosti forsjá þriggja yngstu barnanna, enda eigi mistök íslenskra barnaverndaryfirvalda og rangindi í garð stefnenda ekki að bitna á þeim og brýnum hagsmunum barnanna að fá að sameinast kynforeldrum sínum á nýjan leik og alast upp saman, sbr. 1. gr. barnaverndarlaga.
Stefnendur telja að dómar Hæstaréttar 12. júní 1997 í máli nr. 196/1997, 26. mars 1999 í máli nr. 511/1998 og 8. febrúar 2001 í máli nr. 402/2000 styðji framangreindan málatilbúnað þeirra um að barnaverndaryfirvöldum sé skylt að beita stuðningsúrræðum samkvæmt 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga áður en til forsjársviptingar geti komið og að gæta þurfi meðalhófs og rannsóknarskyldu við meðferð viðkomandi barnaverndarmáls. Þá vísa stefnendur varðandi valdníðslu barnaverndaryfirvalda til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 24. mars 1998 í málinu Olsson gegn Svíþjóð I.
Þrautavarakröfu sína byggja stefnendur á því að öll rök hafi skort til þess að ákveða umgengni þeirra við börn sín svo nauma, sem raun ber vitni, eða einungis tvisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn. Þá sé þeim meinað að hafa símsamband við börnin. Telja stefnendur að hinn umþrætti úrskurður barnaverndarnefndar Z frá 1. október 2001 gangi þvert gegn rétti þeirra og rétti barnanna til umgengni við kynforeldra sína, en sá réttur sé tryggður í barnaverndarlögum. Þá rökstyðji nefndin ekki hvernig það gæti gengið gegn hagsmunum barnanna að njóta umgengni við stefnendur oftar, en nefndin beri ríka skyldu til rökstuðnings fyrir hinni afdrifaríku ákvörðun sinni. Í þessu sambandi er sérstaklega bent á að hvergi komi fram í gögnum málsins að það sé á nokkurn hátt óæskilegt fyrir börnin að umgangast stefnendur. Matsgerð sálfræðinganna Odda Erlingssonar og Þorgeirs Magnússonar á dómskjali nr. 198 styðji þvert á móti meiri umgengni þeirra í milli, en jafnframt vísa stefnendur hér til sjónarmiða í hæstaréttardómi 26. mars 1999 í máli nr. 511/1998 og dómi Mannréttindadómstóls Evrópu (Olsson gegn Svíþjóð I). Með framangreind atriði í huga telja stefnendur að héraðsdómi beri nú að ógilda fyrrnefndan úrskurð barnaverndarnefndar.
Auk áðurnefndra lagaraka vísa stefnendur kröfum sínum til stuðnings til ákvæða Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989, sem öðlast hafi gildi hér á landi 27. nóvember 1992. Er einkum byggt á ákvæðum 5. gr., 8. gr., 9. gr., 12. gr., 2. mgr. 14. gr., 16. gr., 18. gr. og 3. mgr. 27. gr. samningsins.
Fósturforeldrum C, D, E og F, sakaukastefndu í málinu, er stefnt til að þola dóm samhliða stefnda Z vegna barnaverndarnefndar sveitarfélagsins, þar sem dómkröfur stefnenda feli eðli máls samkvæmt í sér kröfu um að fóstursamningar sakaukastefndu og forsjá þeirra yfir börnunum falli brott, sbr. meðal annars 2. málsliður 2. mgr. 29. gr. og 31. gr. barnaverndarlaga.
XIX.
Greinargerð stefnda Z er með því sama marki brennd og stefna að hún er óhæfilega löng eða 22 blaðsíður. Gætir þar einnig skriflegs málflutnings í ríkum mæli. Það verður því enn hlutskipti dómsins að draga saman helstu málsástæður og lagarök, sem stefndi byggir kröfur sínar á. Verður við þá reifun höfð hliðsjón af þeim atriðum, sem lögmaður stefnda lagði megináherslu á í málflutningi.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að úrskurðir barnaverndarnefndar Z og Barnaverndarráðs, sem krafist sé ógildingar á, hafi verið efnislega réttir og engir þeir annmarkar verið á málsmeðferð nefndra stjórnvalda, sem réttlætt geti ógildingu úrskurðanna. Úrskurður barnaverndarnefndar frá 18. september 2000 hafi verið byggður á traustum grunni og hafi við uppkvaðningu hans legið fyrir allar þær upplýsingar, sem nauðsynlegar hafi verið til að komast að efnislega réttri niðurstöðu. Því er sérstaklega mótmælt að rannsóknarskyldu samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið fullnægt, en sú regla leggi þá kvöð á stjórnvald að tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Í því tilviki, sem hér um ræðir, hafi legið fyrir með óyggjandi hætti að að minnsta kosti fjögur af sjö börnum stefnenda höfðu orðið fyrir kynferðislegri misnotkun og eitt eða jafnvel tvö barnanna höfðu að öllum líkindum sjálf gerst sek um kynferðislega misnotkun eða áreitni. Þá hafi sum börnin borið augljós merki um að hafa verið beitt líkamlegu ofbeldi, sem staðfest hafi verið að hluta til með skýrslum lækna, auk þess sem fjölmörg gögn málsins hafi gefið vísbendingar um ofbeldi af hálfu stefnenda. Öll börnin hafi verið illa til höfð, óhrein og illa lyktandi þegar barnaverndarnefndin hafi hafið afskipti sín af fjölskyldunni og þau búið á tjaldstæði við aðstæður, sem ekki hafi verið boðlegar fyrir níu manna fjölskyldu, sérstaklega í ljósi þess að börnin hafi verið á öllum aldri, eitt þeirra líkamlega fatlað, annað með eyrnabólgu og tvö barnanna mjög andlega vanþroskuð. Börnin hafi öll verið rifin án nokkurs fyrirvara úr umhverfi sínu, skömmu fyrir skólaslit og án þess að kveðja vini og vandamenn, þeim siglt til framandi lands og því næst ekið með þau í fimm manna fólksbifreið þvert yfir landið, þar sem slegið hafi verið upp tjöldum, án þess að nokkrar vísbendingar hafi verið í málinu um að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar fyrirfram af hálfu stefnenda vegna ferðarinnar. Stefnendur hafi þannig valið fjölskyldunni óöryggi og húsnæðisleysi á Íslandi í stað öruggs húsaskjóls og samstarfs við barnaverndaryfirvöld í Færeyjum, en barnaverndarnefnd hafi aflað nauðsynlegra gagna frá þarlendum barnaverndaryfirvöldum áður en ákvörðun hafi verið tekin um forsjársviptingu. Umrædd gögn hafi staðfest það álit barnaverndarnefndar að stefnendur hafi verið vanhæf sem foreldrar og allsendis ófær að annast um öll börnin með viðunandi hætti. Við meðferð barnaverndarmálsins hér á landi hafi stefnendur og sýnt sama innsæis- og dómgreindarleysið, sem fram komi í gögnum frá Færeyjum og þau neitað að horfast í augu við vandamál sín og barnanna. Þess í stað hafi þau skellt skuldinni á hérlend og þarlend barnaverndaryfirvöld og síðar á A, elstu dóttur stefnanda X. Eftir athugun sína á gögnum málsins hafi barnaverndarnefnd því verið svo sannfærð um réttmæti ákvörðunar sinnar að ekki hafi verið talin ástæða, með tilliti til hagsmuna barnanna, til að fallast á tillögur starfsmanna nefndarinnar um að reyna vægari úrræði en forsjársviptingu varðandi yngstu börnin.
Telji dómur að barnaverndarnefndin hafi ekki rannsakað málið nægjanlega fyrir ákvarðanatöku sína þá byggir stefndi á því að eftir enn ítarlegri rannsókn Barnaverndarráðs, þar sem meðal annars hafi verið kannað hvort mögulegt hefði verið að beita vægari úrræðum, hafi legið fyrir fullnægjandi upplýsingar í málinu til að taka mætti efnislega rétta ákvörðun. Hafi Barnaverndarráði að sjálfsögðu verið heimilt að rannsaka málið frá grunni og afla frekari gagna, sbr. 3. mgr. 49. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 og dóm Hæstaréttar 26. mars 1999 í máli nr. 511/1998.
Stefndi mótmælir því að rétt hefði verið í máli þessu að beita vægari úrræðum en forsjársviptingu og vísar meðal annars til 1. gr. og niðurlagsákvæðis 17. gr. barnaverndarlaga. Börnunum hafi sannanlega verið hætta búin í umsjá stefnenda og því hafi barnaverndarnefnd eðli máls samkvæmt látið hagsmuni barnanna vega hér þyngra en hagsmuni stefnenda. Meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar hafi engu að síður verið gætt, en barnaverndarnefnd komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið forsendur fyrir því að beita stuðningsúrræðum samkvæmt 21. og/eða 24. gr. nefndra laga. Hafi þar ráðið miklu vilja- og getuleysi stefnenda til að þiggja og hagnýta sér stuðning félagsmálayfirvalda, sem meðal annars hafi endurspeglast í gögnum málsins frá Færeyjum. Þaðan hafi stefnendur flúið undan barnaverndaryfirvöldum, sem hafi viljað rétta þeim hjálparhönd og stefnendur sakað þau um ofsóknir. Þá hafi einnig ráðið miklu við mat barnaverndarnefndar að stefnendur bjuggu á tjaldstæði og síðar farfuglaheimili fram eftir hausti 2000 og því hafi verið illmögulegt að koma við nauðsynlegum stuðningsúrræðum. Þá hafi nefndin metið það svo að börnin, að G undanskildum, virtust ekki vera hænd að stefnendum og hafi þau lítið sótt félagslegan og tilfinningalegan stuðning til þeirra. Aðalatriðið í þessu mati barnaverndarnefndar hafi þó verið hið slæma ástand, sem börnin hafi verið í. Hafi hún metið ástandið svo að framtíðarmöguleikar barnanna í forsjá stefnanda væru í besta falli það litlir að ástæða væri til að bregðast við með afgerandi hætti og í samræmi við 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga.
Stefndi mótmælir því að húsnæðisaðstæður stefnenda hafi vegið þungt við ákvörðun barnaverndarnefndar og segir stefnendur gefa sér þá forsendu, án þess að hennar finni stað í rökstuðningi nefndarinnar fyrir forsjársviptingu. Þá bendir stefndi á að Barnaverndarráð hafi síðar komist að sömu niðurstöðu og barnaverndarnefnd þótt ráðið hafi gert ákveðnar athugasemdir við málsmeðferð nefndarinnar. Við ákvörðun sína í málinu hafi Barnaverndarráð meðal annars haft hliðsjón af breyttum forsendum í húsnæðismálum stefnenda, en ekki talið þær breyta neinu um niðurstöðuna. Hagsmunir barnanna hafi þar verið settir í öndvegi á sama grunni og nefndin hafði áður gert.
Þá mótmælir stefndi þeirri ályktun stefnenda að með því einu að barnaverndarnefnd og Barnaverndarráð hafi metið stefnendur hæf til að fara áfram með forsjá G þá hafi falist í því almennt mat á forsjárhæfi þeirra og að hin börnin hafi því ranglega verið tekin af þeim. Þessu hafi í raun verið þveröfugt farið og það tekið skýrt fram í úrskurðum beggja stjórnvaldshafa að stefnendur væru almennt vanhæf sem foreldrar. Að baki því áliti hafi meðal annars legið sálfræðiálit Önnu Debes Hentze, Páls Magnússonar og Gylfa Ásmundssonar. Stefnendur hafi einungis fengið að halda forsjá G vegna þess að staða hans hafi verið mun betri en hinna barnanna, en sú ákvörðun hafi þó verið skilyrt og hafi barnaverndarnefnd ætlað sér og talið nauðsynlegt að mikið eftirlit yrði haft með drengnum í umsjá stefnenda. Telur stefndi fráleitt að með þeirri ákvörðun hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrárinnar.
Komist dómur að þeirri niðurstöðu að barnaverndarnefnd og jafnvel Barnaverndarráð hafi brotið gegn rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar þá er á því byggt af hálfu stefnda að þeir annmarkar á málsmeðferð nefndra yfirvalda geti ekki talist það verulegir að leiða eigi til ógildingar á hinum umþrættu úrskurðum þeirra. Þá mótmælir stefndi því alfarið að barnaverndarnefnd hafi gerst sek um valdníðslu gagnvart stefnendum, en nefndin hafi kappkostað að rannsaka málið eins og frekast hafi verið unnt svo að komast mætti að réttri niðurstöðu á grundvelli hlutlægs heildarmats á öllum gögnum málsins. Telur stefndi að matsgerð sálfræðinganna Odda Erlingssonar og Þorgeirs Magnússonar á dómskjali nr. 190 hafi endanlega staðfest vanhæfni stefnenda til að fara með forsjá barnanna C, D, E og F og styðji þannig réttmæti ákvörðunar barnaverndaryfirvalda. Þá telji sömu matsmenn að það þjóni ekki hagsmunum barnanna að stefnendur fái nú forsjá þeirra að nýju og hljóti það að teljast grundvallaratriði í málinu að nefndir sérfræðingar mæli gegn slíkri niðurstöðu.
Stefndi vísar um þrautavarakröfu stefnenda til þeirra sjónarmiða, sem fram komi í úrskurði barnaverndarnefndar Z frá 1. október 2001 og annarra gagna málsins um umgengnisrétt. Telur stefndi að núverandi tilhögun umgengni stefnenda við börnin C, D, E og F þjóni fyllilega markmiðum barnaverndarlaga og því markmiði að börnunum sé kunnugt um uppruna sinn og þekki kynforeldra sína. Engin ástæða sé til breytinga, enda ekkert fram komið í málinu, sem bendi til þess að börnin hafi verið í slíkum tilfinningalegum tengslum við stefnendur að kalli á meiri umgengni en ákvörðuð hafi verið. Þvert á móti sé ýmislegt, sem bendi til þess að frekari umgengni færi gegn hagsmunum barnanna.
Auk framangreindra lagaraka vísar stefndi til 18. gr., 1. mgr. 25. gr. og 43. gr. barnaverndarlaga, almennra reglna stjórnsýsluréttar og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 20. nóvember 1989, sem öðlast hafi gildi hér á landi 27. nóvember 1992, einkum 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 9. gr., 1. mgr. 18. gr., 19., 20., 23. og 24. gr. sáttmálans.
XX.
Sakaukastefndu byggja öll sýknukröfu sína á því að úrskurðir barnaverndarnefndar Z og Barnaverndarráðs, sem krafist sé ógildingar á, hafi verið efnislega réttir og engir þeir annmarkar verið á málsmeðferð nefndra stjórnvalda, sem leitt geti til ógildingar úrskurðanna. Þá er því mótmælt að stjórnsýslureglur hafi verið brotnar við meðferð málsins á barnaverndarstigi. Barnaverndarráð hafi þó í úrskurði sínum frá 6. júní 2001 gert ákveðnar athugasemdir við málsmeðferð barnaverndarnefndar, en engin þeirra hafi verið svo alvarleg að varðað hafi heimvísun málsins til nefndarinnar að nýju. Barnaverndarráð hafi hins vegar bætt úr fyrirliggjandi ágöllum með ítarlegri rannsókn sinni og frekari gagnaöflun, svo sem ráðinu hafi verið heimilt samkvæmt 49. gr. barnaverndarlaga 58/1992.
Því er sérstaklega mótmælt að meðalhófsregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin. Í úrskurði Barnaverndarráðs komi skýrt fram að rannsókn málsins hafi leitt í ljós alvarlega vanhæfni stefnenda sem forsjáraðila. Af þeim sökum hafi ekki verið talin réttmæt ástæða til að hrinda úrskurði barnaverndarnefndar á þeirri forsendu að vægari úrræði hafi ekki verið reynd áður en til forsjársviptingar hafi komið. Ráðið hafi því staðfest að ekki hefði verið hægt að beita stuðningsúrræðum í máli stefnenda og í því sambandi vísað sérstaklega til 17. gr. barnaverndarlaga um heimild til að víkja til hliðar stuðningsúrræðum þegar brýnir hagsmunir barna krefðust þess. Í máli stefnenda hafi það verið mat Barnaverndarráðs að tillitið til hagsmuna barna þeirra gengi framar tillitinu til hagsmuna stefnenda sjálfra af því að fá frekari tækifæri með beitingu stuðningsúrræða, en fyrir hafi legið alvarleg vanhæfni þeirra sem foreldra og upplýsingar frá barnaverndaryfirvöldum í Færeyjum, sem þóttu sýna að mjög hafi skort á samstarfsvilja og hæfileika til samstarfs hjá stefnendum. Því telja sakaukastefndu að lagaskilyrðum 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga um meðalhóf hafi verið fullnægt.
Þau mótmæla því ennfremur að brotin hafi verið rannsóknarregla stjórnsýsluréttar, jafnræðisregla, sem og lögmætisreglan og byggja þau andmæli á sömu sjónarmiðum og meðstefndi Z. Jafnframt benda þau á varðandi meinta valdníðslu að undirbúningslaus ferð stefnenda til Íslands og eftirfarandi hættuakstur með börnin sjö í fimm manna bifreið frá Seyðisfirði til Z sýni svo alvarlegan dómgreindarskort og vanhæfni til forsjár barna að nægja ætti til forsjársviptingar. Þá hafi öll önnur hegðun stefnenda gagnvart börnunum einkennst af innsæis- og dómgreindarleysi, stórfelldri vanrækslu, afneitun á vandamálum barnanna og ásökunum í garð færeyskra og íslenskra barnaverndaryfirvalda um ofsóknir á hendur þeim.
Þá benda sakaukastefndu á að ekki megi gera svo strangar sönnunarkröfur í málum sem þessu, að sýna þurfi fram á að barn hafi hlotið tjón af uppeldi og aðbúnaði hjá kynforeldrum, heldur beri að skoða fyrirliggjandi gögn heildstætt við mat á því hvort skilyrðum 25. gr. barnaverndarlaganna sé fullnægt. Allan vafa í þeim efnum verði að meta barni í hag. Einnig þurfi að skoða hvernig fari um barn í fóstri og hvaða afleiðingar það hafi fyrir barnið að flytja heim til kynforeldra að nýju. Niðurstaða dómsmáls verði þannig ávallt að þjóna hagsmunum barna, en þeir skuli ávallt vega þyngra en hagsmunir eða réttindi foreldra, sbr. til dæmis dómur Hæstaréttar 26. mars 1999 í máli nr. 511/1998 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í máli þessu verði því ekki komist hjá því að líta til núverandi aðstæðna C, D, E og F hvers um sig í fóstri og bera þær saman við aðstæður barnanna fyrir forsjársviptingu. Af gögnum málsins sé ljóst að aðbúnaður þeirra hafi verið slæmur hjá stefnendum og börnin verið vanrækt í uppeldinu á margvíslegan hátt. Matsgerð sálfræðinganna Odda Erlingssonar og Þorgeirs Magnússonar á dómskjali nr. 197 sýni á hinn bóginn stöðu barnanna í dag og hve gríðarlega miklum framförum þau hafi tekið í fóstri hjá sakaukastefndu. Þá sýni matsgerðin glöggt hve sterk og jákvæð tengsl hafi myndast milli barnanna og fósturforeldranna. Það geti því fráleitt þjónað hagsmunum barnanna að flytja á ný til stefnenda, en með því væru börnin lögð í alvarlega hættu og gætu beðið varanlegan skaða af. Matsmenn bendi sérstaklega á að með því yrði tekin mikil áhætta og að ólíklegt sé að stefnendur myndu þiggja og/eða hagnýta sér nauðsynlega aðstoð og stuðningsúrræði til þess að þau gætu annast um börnin nægilega vel. Hagsmunum barnanna sé því best borgið með því að þau verði áfram í fóstri, þar sem þeim líði vel og hafi dafnað og þroskast eðlilega. Eigi þetta sjónarmið að leiða til sýknu í málinu, annað hvort sjálfstætt eða með öðrum framangreindum sjónarmiðum.
Sakaukastefndu benda einnig á að allt framferði stefnenda undanfarin misseri sýni glöggt að þau hafi ekkert reynt að bæta sig í foreldrahlutverkinu. Þannig hafi þau leynt því fyrir félagsmálayfirvöldum að stefnandi Y væri þunguð af H allt fram á níunda mánuð meðgöngunnar og hún því ekki sótt mæðraeftirlit þrátt fyrir að hafa verið komin vel á fertugsaldur þegar hún hafi gengið með barnið. Þá hafi stefnendur hvorki leitað sér sérfræðihjálpar né heldur boðið G upp á slíka hjálp þrátt fyrir að þau áföll, sem þau hafi öll orðið fyrir við forsjármissi hinna barnanna. Þá hyggist stefnendur nú taka B úr því örugga umhverfi, sem hann búi við hjá vistforeldrum sínum [...] og taka hann inn á heimili sitt, með alla þá erfiðleika sem því fylgi vegna þroskaskerðingar drengsins. Á sama tíma séu að koma í ljós flókin vandamál tengd þroska og andlegu ástandi H, en sterkur grunur leiki á að hann sé einhverfur. Loks hafi stefnendur leynt því að Y væri nú vanfær af þriðja barni hennar og X og þau neitað því fyrir dómi þrátt fyrir að von sé á barninu innan tíðar. Telja sakaukastefndu að framangreind atriði sýni, svo ekki verði um villst, hvílíkt dómgreindar- og innsæisleysi hrjái stefnendur enn í dag. Jafnframt telja þau að C, D, E og F myndu verða fyrir svo alvarlegu áfalli, ef þeim yrði gert að flytja heim til stefnenda á nýjan leik, að börnin myndu aldrei bíða þess bætur.
Af hálfu sakaukastefndu er því mótmælt að öll rök hafi skort fyrir úrskurði barnaverndarnefndar Z um umgengni stefnenda við börnin. Beri því einnig að hrinda þrautavarakröfu stefnenda í málinu, enda ekkert fram komið sem bendi til þess að hinn umþrætti úrskurður hafi verið ólögmætur. Matsgerð hinna dómkvöddu manna breyti engu í því sambandi, en álit sálfræðinganna geti á hinn bóginn eftir atvikum verið grundvöllur fyrir endurupptökubeiðni stefnenda hjá barnaverndarnefnd. Umræddur úrskurður sé þvert á móti í góðu samræmi við venju, sem skapast hafi í málum sem þessum þegar börnum hafi verið komið í varanlegt fóstur og markmiðið sé ekki að sameina fjölskyldu á nýjan leik. Rökin fyrir þeirri skipan séu augljós, enda hagsmunir barnanna eingöngu þeir að þekkja kynforeldra sína, vita hverjir þeir eru og hafa lágmarkssamband við þá. Ef umgengni stefnenda við C, D, E og F yrði aukin væri það eingöngu til þess fallið að gera þeim aðlögun í fóstri erfiðari, valda óróa á hinum nýju heimilum þeirra og hafa truflandi áhrif á tengslamyndun milli þeirra og fósturforeldranna. Þá beri að hafa í huga að börnin eru sátt við núverandi tilhögun umgengninnar og eiga í engum erfiðleikum með að kveðja stefnendur að henni lokinni. Þurfi því sérstaklega að rökstyðja frekari umgengni en ákveðin var með nefndum úrskurði frá 1. október 2001, en hér sem endranær verði hagsmunir og langanir stefnenda að víkja fyrir hagsmunum barnanna. Sú regla sé í samræmi við grunnsjónarmið barnaverndarlaga, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og styðjist einnig við fordæmi Hæstaréttar í dómum 11. febrúar 1993 í máli nr. 360/1992 og 7. desember 2000 í máli nr. 208/2000.
Um frekari lagarök vísa sakaukastefndu almennt til ákvæða barnaverndarlaga, einkum V. og VI. kafla, ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10.-12. gr., Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.
XXI.
Svipting forsjár og ráðstöfun barns í fóstur eru barnaverndarúrræði. Um þau gilda nú ákvæði barnaverndarlaga nr. 80/2002, sem öðluðust gildi 1. júní 2002. Með gildistöku laganna urðu þær grundvallarbreytingar á meðferð forsjársviptingarmála að ákvörðun um sviptingu forsjár færðist frá barnaverndaryfirvöldum til dómstóla. Að þessu virtu og með hliðsjón af lagaskilareglum 100. gr. nefndra laga er ljóst að um meðferð þess máls, sem hér er til úrlausnar, fer eftir reglum eldri barnaverndarlaga nr. 58/1992 með síðari breytingum. Samkvæmt 49. gr. þeirra laga fór Barnaverndarráð með fullnaðarúrskurðarvald í málum, sem skotið var til þess. Þrátt fyrir umrætt ákvæði er viðurkennt í íslenskri dómaframkvæmd að dómstólar séu bærir til að endurskoða úrskurði barnaverndaryfirvalda um forsjársviptingu og geta metið hvort lagaskilyrðum forsjársviptingar hafi verið fullnægt. Þá verður lagt undir úrskurð dómstóla hvort ákvarðanir um umgengni barna í fóstri við kynforeldra sína séu byggðar á lögmætum grunni.
Stefnendur byggja málssókn sína á því að barnaverndarnefnd Z og Barnaverndarráð hafi við meðferð málsins á barnaverndarstigi brotið svo alvarlega gegn grundvallarreglum stjórnsýsluréttar að ógilda beri úrskurði þeirra 18. september 2000 og 6. júní 2001, að því leyti sem stefnendur voru svipt forsjá barnanna C, D, E og F. Þá er á því byggt að ákvarðanir nefndra stjórnvalda séu efnislega rangar og að þau hafi misbeitt valdi sínu til að komast að hinni umþrættu niðurstöðu. Beri einnig af þeim sökum að ógilda úrskurðina að öllu leyti eða að hluta. Þrautavarakrafa stefnenda lýtur að því að ógiltur verði umgengnisréttarúrskurður barnaverndarnefndar 1. október 2001.
XXII.
Forsögu málsins má rekja aftur til ársins 1991 þegar færeysk barnaverndaryfirvöld hófu afskipti af málefnum fjölskyldu stefnanda X og fyrrverandi eiginkonu hans, N. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að þau samskipti hafi verið jákvæð og að fjölskyldan hafi á næstu árum þar á eftir nýtt sér þá aðstoð, sem var í boði. Snemma árs 1997 var komið los á hjónaband X og N og jukust þá afskipti barnaverndaryfirvalda til muna. Er óumdeilt að áhyggjur þeirra hafi fyrst og fremst lotið að drengjunum B og C, sem voru langt á eftir jafnöldrum sínum í þroska. X var langdvölum að heiman vegna vinnu sinnar og N mun hafa ráðið illa við daglega umönnun drengjanna. Varð því að samkomulagi að drengirnir færu á ríkisrekið fósturheimili í Þórshöfn. N tók um svipað leyti saman við O, sem þá hafði nýlega slitið sambúð við stefnanda Y. Árið 1998 vaknaði rökstuddur grunur um að N og O hefðu misnotað B og C kynferðislega, sem og D, son O og Y. Hlutu þau síðar fangelsisdóma fyrir það athæfi og N jafnframt fyrir áralanga kynferðislega misnotkun á A, dóttur hennar og X. X og Y hófu sambúð síðla sumars 1998 og flutti hún þá inn á heimili X með börnin sín, G, D og E. Hefur X lýst því yfir að þau Y hafi fyrst og fremst tekið saman vegna barnanna hennar og til þess að geta tekið B og C af fósturheimilinu. Gengu stefnendur í það verk af mikilli ákveðni og fór svo að lokum að X tók drengina af fósturheimilinu 30. september 1999 í trássi við vilja barnaverndaryfirvalda. Stefnendur hafa gefið sínar skýringar á því af hverju þau hafi gengið svo hart fram til að ná drengjunum til sín og virðast þau hafa haft nokkuð til síns máls í þeim efnum, það er að umönnun og aðbúnaður drengjanna á fósturheimilinu hafi ekki verið sem skyldi. Á hitt er að líta, að þrátt fyrir bága stöðu drengjanna tveggja verður ekki séð að stefnendur hafi tekið á brýnum vandamálum þeirra eftir að heim kom. X hélt áfram í sömu vinnu, sem fól í sér mikla fjarveru frá heimili og eftirlét Y daglega umönnun og uppeldi sjö barna. Þótt dómurinn efist ekki um velvilja og hlýhug X til sona sinna þá bera aðgerðir hans og Y, eða öllu heldur aðgerðarleysi, í kjölfar heimkomu drengjanna vott um dómgreindarbrest og skort á innsæi í þarfir þeirra. Er það álit dómsins að stefnendum hefði verið nær að vinna í málefnum drengjanna með aðstoð og fulltingi barnaverndaryfirvalda, annað hvort með því að stuðla að bættum aðbúnaði þeirra á fósturheimilinu eða með því að tryggja drengjunum nauðsynlega sérfræðiaðstoð áður en þeir fluttu heim til stefnenda. Er fram komið í málinu að slík aðstoð var ekki fyrir hendi í heimabæ þeirra, Trongisvági og hefði því þurft að skipuleggja hana með aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga. Í ljósi framanritaðs er eðlilegt að barnaverndaryfirvöld hafi haft áhyggjur af velferð B og C. Þau héldu því áfram afskiptum af fjölskyldu stefnenda og lögðu sitt af mörkum til að drengirnir færu aftur á fósturheimilið og að stutt yrði við bakið á fjölskyldunni varðandi umönnun hinna barnanna. Svo virðist sem fjárskortur félagsmálayfirvalda hafi að einhverju leyti hamlað því að viðeigandi stuðningsúrræðum yrði beitt, en það breytir engu um það álit dómsins að viðmót stefnenda til barnaverndaryfirvalda, afneitun þeirra á vandamálum fjölskyldunnar og ásakanir um einelti og ofsóknir hafi verið að ófyrirsynju. Keyrði um þverbak í samskiptum þeirra í milli um og eftir áramót 1999-2000 þegar B og C mættu nokkrum sinnum í skóla með sýnilega áverka. Dómurinn telur nægilega sannað, með hliðsjón af framlögðum gögnum, að drengirnir hafi hlotið umrædda áverka heimafyrir. Skiptir ekki öllu máli hvort stefnendur hafi sjálf beitt drengina líkamlegu ofbeldi eða hvort þeir hafi fengið áverkana af völdum annarra heimilismanna, en frásögn barna stefnenda hefur verið mjög misvísandi í þeim efnum. Aðalatriðið er, að drengirnir hlutu ítrekaða áverka á heimilinu, á meðan þeir voru í umsjá stefnenda. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þau hafi nokkuð aðhafst í þeim málum. Barnaverndaryfirvöld höfðu því, af sýnilegum ástæðum, áhyggjur af velferð drengjanna. Á sama tíma lék grunur á að A hefði sætt líkamlegu ofbeldi á heimilinu. Því var lagt kapp á að finna einhverjar lausnir fyrir fjölskylduna. Var þá komið fram í mars 2000. Anna Debes Hentze sálfræðingur í Þórshöfn var fengin til að ræða við stefnendur, í því skyni að kanna hagi fjölskyldunnar og finna hvernig mætti hjálpa henni við þær aðstæður, sem þá voru uppi. Svo virðist sem hún hafi náð að vinna traust stefnenda. Í álitsgerð hennar 20. maí 2000, sem rakin er í IV. kafla að framan, er gerð grein fyrir högum fjölskyldunnar og lagðar til ákveðnar lausnir til úrbóta. Felast þær í margháttuðum stuðningsúrræðum við fjölskylduna, þar sem áhersla er lögð á að stefnendur, eða öllu heldur X, taki þátt í öllu sem gerist, þ.e.a.s. að engar ákvarðanir verði teknar án hans vitundar og að honum verði gerð grein fyrir þeim ráðstöfunum, sem rétt þyki að grípa til. Þá fái hann og Y ráðgjöf um það hvernig þau geti gerst hæfari foreldrar, ef komist verði að því að eitthvað sé ekki í lagi með uppeldi barnanna. Í álitsgerðinni er tekið fram að A þurfi á sálfræðilegri aðstoð að halda og að B og C þurfi sérstaka umönnun með tilliti til þess að þeir séu þroskaheftir. D, E og F þurfi að fara í einhvers konar dagvistun og í framhaldi beri að meta hvort og þá hvernig megi aðstoða stefnendur við uppeldi þeirra. Tekið er fram að enginn vafi leiki á því að umrædd börn hafi orðið fyrir mjög miklum áföllum og að eitthvað verði að gera til þess að bæta ástandið. Í álitsgerðinni er fyrst varpað fram hugmyndum um forsjárhæfi stefnenda og það dregið stórlega í efa að Y hafi andlega og líkamlega burði til að annast um öll börnin, en tekið er fram að X sé vélstjóri á sjó og því mikið að heiman. Elisabeth Olsen, formaður barnaverndarnefndarinnar í Trongisvági, sem hvað mest hefur sætt gagnrýni af hálfu stefnenda fyrir ofríki í þeirra garð, staðfesti fyrir dómi að í maí 2000 hefðu færeysk barnaverndaryfirvöld ráðgert að veita stefnendum fjölþætt stuðningsúrræði til að ráða fram úr vandamálum fjölskyldunnar. Ekki reyndi á slík úrræði þar sem stefnendur flúðu til Íslands 17. maí, undan ofríki barnaverndaryfirvalda að eigin sögn. Elisabeth staðfesti einnig að færeysk barnaverndaryfirvöld hefðu fram til þess tíma ekki haft tilefni til beinna afskipta af börnum Y, heldur hefðu áhyggjur þeirra fyrst og fremst beinst að börnunum A, B og C.
Víkur þá sögunni til Íslands, en þar hófust afskipti barnaverndarnefndar Z af fjölskyldunni 22. maí, eftir að fjölskyldan hafði dvalið í nokkra daga á tjaldstæðinu í Z við rýran kost. Dómurinn dregur ekki í efa að aðbúnaði barnanna sjö hafi verið almennt áfátt á tjaldstæðinu og að þau hafi búið þar við mjög kröpp kjör. Við þetta bættist að C var útsteyptur í marblettum í andliti og útlit A þess eðlis að vakti ugg hjá starfsmönnum barnaverndarnefndar. Telur dómurinn því að fyrstu aðgerðir nefndarinnar hafi verið eðlilegar og þær að fullu réttlættar í ljósi aðstæðna barnanna, upplýsinga er fram komu í rannsóknarviðtölum í Barnahúsi 25. maí og niðurstaðna læknisskoðunar á börnunum dagana 22. og 26. maí. Börnunum var komið í skammtímavistun á heimili P og eiginmanns hennar í Ö. Var þetta gert með samþykki stefnenda. Er óumdeilt að þau hafi áfram veitt liðsinni sitt við könnun málsins fram eftir sumri og meðal annars samþykkt áframhaldandi vistun barnanna til 1. september 2000, á meðan barnaverndarnefnd kannaði forsjárhæfi þeirra og gerði úttekt á högum og stöðu barnanna.
Dómurinn telur að þessi jákvæða afstaða stefnenda til samvinnu við barnaverndarnefndina fyrstu mánuðina eftir komu þeirra til Íslands skipti verulegu máli við úrlausn málsins og að ekki megi leggja of mikið upp úr neikvæðum samskiptum þeirra við færeysk barnaverndaryfirvöld, sérstaklega þegar skoðuð eru málefni barnanna D, E og F. Kemur þar meðal annars til fyrrgreint sálfræðiálit Önnu Debes Hentze um fyrirhuguð stuðningsúrræði vegna nefndra barna, sem staðfest var af Elisabethu Olsen og vitnisburður hennar þess efnis að barnaverndaryfirvöld í Færeyjum hefðu ekki haft sérstök afskipti af málefnum barnanna þriggja fyrr en á vormánuðum 2000. Er upplýst að ekki hafi þótt efni til að svipta stefnendur forsjá þeirra barna, heldur hafi verið ráðgert að aðstoða þau við uppeldið og hjálpa þeim til að gerast hæfari foreldrar. Af vætti Elisabethar og nefndri álitsgerð verður ekki annað ráðið en að einnig hafi staðið til að bjóða stefnendum stuðningsúrræði til að ráða fram úr vandamálum A, B og C. Voru þau úrræði þó af allt öðrum toga og mun veigameiri að því er varðar drengina tvo. Um málefni A og B verður ekki fjallað frekar þar sem þau eru orðin lögráða fyrir aldurs sakir og eru því ekki lengur hafðar uppi kröfur í málinu vegna þeirra.
G virðist hafa notið sérstöðu innan barnahópsins. Að minnsta kosti höfðu barnaverndaryfirvöld minni áhyggjur af velferð hans en hinna barnanna. Fór því svo að stefnendur héldu forsjá hans.
XXIII.
Með hliðsjón af því, sem nú hefur verið rakið, um afskipti færeyskra barnaverndaryfirvalda af málefnum fjölskyldunnar, hugmyndir þarlendra yfirvalda um beitingu stuðningsúrræða til að hjálpa stefnendum við uppeldi barnanna, ótvíræðan samstarfsvilja stefnenda við íslensk barnaverndaryfirvöld og liðsinni við könnun málsins hér á landi, sækir sú spurning á dómendur, hvað olli því að stefnendur voru svipt forsjá C, D, E og F, með þeim hætti sem gert var, eftir komuna til Íslands og hvaða sjónarmið lágu þar að baki.
Sem fyrr segir samþykktu stefnendur tímabundið fóstur barnanna fjögurra til 1. september 2000, þrátt fyrir að þau hafi sjálf viljað hafa börnin í umsjá sinni. Var gert um þetta skriflegt samkomulag 4. júlí, þar sem stefnendur féllust á að gangast undir forsjárhæfispróf á vegum barnaverndarnefndar, en á sama tíma skyldi nefndin gera faglega úttekt á stöðu og högum barnanna. Gylfi Ásmundsson sálfræðingur var fenginn til að meta forsjárhæfi stefnenda. Af ástæðum, sem þeim verður ekki kennt um, hófst könnun sálfræðingsins ekki að marki fyrr en 18. september þegar stefnendur mættu til viðtals og prófana á stofu hans. Sama dag kvað barnaverndarnefnd upp úrskurð sinn um forsjársviptingu og byggði hann „fyrst og fremst á vanhæfni“ stefnenda sem foreldra, ef marka má bréf formanns barnaverndarnefndar til lögmanns stefnenda 28. september, sem rakið er í niðurlagi VIII. kafla að framan. Gylfi Ásmundsson lauk álitsgerð sinni 9. október, það er þremur vikum eftir uppkvaðningu nefnds úrskurðar. Svo sem rakið er í upphafi XI. kafla komst Gylfi að þeirri niðurstöðu að stefnandi X væri hæfur til að fara með forsjá barna og að stefnandi Y væri það sömuleiðis, að því gefnu að hún nýtti sér öflugan stuðning frá X og félagsmálayfirvöldum.
Það er álit dómsins að með því einu að bíða ekki eftir niðurstöðum nefndrar sálfræðiathugunar hafi barnaverndarnefnd brotið gegn þeirri rannsóknarskyldu, sem á henni hvíldi samkvæmt 43. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992, sbr. einnig 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er umrædd málsmeðferð sérstaklega ámælisverð í ljósi fyrrnefndra ummæla formanns nefndarinnar þess efnis að vanhæfni stefnenda sem foreldrar hafi vegið þyngst við ákvarðanatöku í málinu og ennfremur í ljósi áðurnefnds samkomulags við stefnendur, sem lögðu sitt af mörkum til þess að málið yrði nægjanlega upplýst og afsöluðu sér tímabundið rétti til að fara með daglega umönnun barna sinna í trausti þess að hagir þeirra og barnanna yrðu kannaðir í samræmi við reglur 18. og 43. gr. barnaverndarlaga áður en ákvörðun yrði tekin í málinu.
Óumdeilt er að sama dag og barnaverndarnefndin kvað upp úrskurð sinn barst henni tilkynning um að stefnendur hefðu tekið á leigu rúmgott einbýlishús í Ö. Í bréfi lögmanns stefnenda, sem lagt var fram á fundi nefndarinnar, var þess farið á leit að ákvörðun í málinu yrði frestað þangað til nefndin hefði kannað húsnæðið og tekið afstöðu til þess hvort það teldist viðunandi fyrir uppeldi barna. Þrátt fyrir hinar nýju upplýsingar ákvað barnaverndarnefnd að verða ekki við frestbeiðninni og færði þau rök fyrir þeirri ákvörðun sinni í fyrrnefndu bréfi formanns nefndarinnar 28. september að húsnæðismál stefnenda hefðu ekki verið meginforsendur fyrir forsjársviptingunni og því hefði ekki þótt ástæða til að taka sérstaklega tillit til hinnar breyttu húsnæðisstöðu. Þegar skoðaður er úrskurður barnaverndarnefndar og rökstuðningur hennar þar fyrir forsjársviptingunni sést að þessi síðari röksemdafærsla formannsins fær ekki fyllilega staðist. Skal í því sambandi bent á að á fundi barnaverndarnefndar 4. september 2000 var ákveðið með sérstakri bókun að fresta ákvarðanatöku í málinu þangað til búið væri að kanna bráðabirgðaaðstöðu stefnenda á farfuglaheimilinu V, en í framhaldi yrði ákveðið hvort fallist yrði á óskir þeirra um að fá börnin til sín aftur. Af nefndri bókun verða aðeins dregnar tvær rökréttar ályktanir, það er að annað hvort hafi húsnæðismál stefnenda haft töluverða þýðingu fyrir úrlausn málsins á greindum tímapunkti eða að um málamyndaathugun hafi verið að ræða, sem fram fór á aðstöðu stefnenda í farfuglaheimilinu 5. september. Er rakið í úrskurði barnaverndarnefndar hver hafi verið niðurstaða þeirrar könnunar og á það bent að húsnæðið hafi verið óviðunandi með tilliti til uppeldis barna og ómögulegt að koma þar við stuðningsúrræðum, sem tilsjónarmaður yrði að hafa á sinni könnu. Í framhaldi af því segir svo í úrskurðinum: „X og Y eiga hús í Færeyjum sem þau geta farið í og er litið svo á að það sé á ábyrgð þeirra að veita börnunum öruggt athvarf. Er því litið svo á að þau sem foreldrar séu ekki að gegna uppeldisskyldum sínum við börnin svo sem best hentar hag og þörfum barnanna ...“, sbr. 17. gr. barnaverndarlaga. Nefndin færir síðan rök fyrir því að forsjá barnanna sé best komin í höndum annarra, meðal annars vegna þess að stefnendur hafi lagt upp í ferð sína til Íslands án þess að hafa tryggt húsnæði fyrirfram og eru þau átalin fyrir að hafa sjálf búið á tjaldstæðinu í Z svo mánuðum skipti. Í niðurlagi úrskurðarins segir síðan orðrétt:
„Reynt hefur verið að koma á stuðningsúrræðum í Færeyjum, en foreldrar hafa ekki verið til samvinnu við barnaverndaryfirvöld þar. Barnaverndarnefnd Z hefur ekki getað beitt stuðningsúrræðum (skv. 21. gr. laga nr. 58/1992) vegna aðstæðna fjölskyldunnar. Börnin hafa búið við það óöryggi síðustu þrjá mánuði að vita ekki hvar þau muni búa. Ekki hefur verið hægt að skrá börnin í skóla, leikskóla eða heilsugæslu, þar sem fjölskyldan hefur í raun hvergi átt heima hér á landi.“
Þegar framangreind röksemdafærsla er skoðuð í samhengi og sérstaklega eru höfð í huga síðastgreind ummæli í úrskurði barnaverndarnefndar telur dómurinn að ekki verði ályktað á annan veg en að húsnæðismál stefnenda hafi skipt verulegu máli við ákvarðanatöku í málinu. Bar nefndinni því brýn skylda til að fresta ákvörðun sinni í málinu 18. september, eftir að henni bárust upplýsingar um að stefnendur hefðu tekið umrætt einbýlishús á leigu. Með því að bregðast þeirri skyldu sinni braut nefndin gegn rannsóknarreglu 18. og 43. gr. barnaverndarlaga, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Við þær kringumstæður, sem komnar voru upp í málinu og að virtum þeim mikilvægu hagsmunum, sem voru í húfi fyrir stefnendur og börnin, verður hin ótímabæra ákvörðunartaka ekki réttlætt á grundvelli málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga.
Með vísan til þess, sem rakið er í XXII. kafla, telur dómurinn einnig haldlitla þá fullyrðingu barnaverndarnefndar hér að framan, að reynt hafi verið að koma á stuðningsúrræðum fyrir stefnendur í Færeyjum, án þess að þau hafi verið til samvinnu við þarlend barnaverndaryfirvöld. Á þetta einkum við um málefni barnannna D, E og F, en fyrir liggur að færeysk barnaverndaryfirvöld höfðu ekki tilefni til afskipta af umræddum börnum fyrr en á vormánuðum 2000 og þá fyrst og fremst í ljósi bágrar stöðu bræðranna B og C, en talið var að stefnandi Y réði ekki ein við umönnun þeirra vegna fjölda barna á heimilinu. Var því lagt til að D, E og F yrði komið í dagvistun, til að létta undir með Y. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að stefnendur hafi verið þessu samþykk. Svo virðist sem fjárskortur barnaverndaryfirvalda hafi fyrst og fremst hamlað því að nefndu stuðningsúrræði yrði beitt, allt fram til 11. maí þegar tókst að útvega tveimur yngstu börnunum leikskólapláss. Á þeim tímapunkti voru samskipti stefnenda og barnaverndaryfirvalda hins vegar orðin afar stirð, vegna afskipta þeirra síðarnefndu af málefnum B og C. Stefnendur héldu síðan úr landi sex dögum síðar. Þegar virt er hve skammur tími leið frá fyrstu afskiptum barnaverndaryfirvalda af þremur yngstu börnunum og hvers eðlis þau afskipti voru er það álit dómsins að framangreind fullyrðing barnaverndarnefndar fái ekki viðhlítandi stoð í gögnum málsins, að því er varðar börnin D, E og F og sé að því leyti ómálefnaleg. Öðru máli gegnir um C, en fallist er á að erfiðlega hafi gengið að koma á stuðningsúrræðum vegna hans í Færeyjum vegna skorts á samvinnu af hálfu stefnenda og afneitun þeirra á alvarlegum vanda drengsins.
Eins og áður segir ákvað barnaverndarnefnd að gera úttekt á stöðu og högum barnanna áður en málinu yrði ráðið til lykta. Verður að ætla að sú rannsókn, líkt og athugun á forsjárhæfi stefnenda, hafi verið gerð í því skyni að kanna hvort stefnendum væri treystandi til að fara áfram með forsjá barnanna. Barnaverndarnefnd fól tveimur starfsmönnum sínum, S yfirsálfræðingi og T félagsráðgjafa hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Z, að annast umrædda úttekt og skiluðu þær ítarlegri greinargerð til barnaverndarnefndar í byrjun september 2000. Telja verður að til umrædds starfa hafi verið valdir hæfir sérfræðingar á sviði barnaverndarmála. Eins og rakið er í VI. kafla að framan lögðu S og L til að C yrði komið í varanlegt fóstur, en að stefnendur fengju börnin D, E og F til sín að nýju, að því tilskildu að þau yrðu komin í viðunandi húsnæði eigi síðar en 4. september og samþykktu nánar tiltekin stuðningsúrræði samkvæmt 21. gr. barnaverndarlaga. Af greinargerðinni er ljóst að ritun hennar lauk eftir að vistunarsamningur stefnenda og barnaverndaryfirvalda rann sitt skeið á enda 1. september. Virðist því sem stefnendum hafi í mesta lagi verið ætlaðir fjórir dagar til að mæta kröfum yfirvalda í húsnæðismálum. Fyrir liggur að stefnendur samþykktu umrædd stuðningsúrræði, sem tilgreind voru í nefndri greinargerð og nánar voru útfærð í meðferðaráætlun, sem dagsett er 31. ágúst 2000. Þar segir að ástæða fyrir afskiptum barnaverndarnefndar af börnunum D, E og F séu þau, að „foreldrar þurfa á stuðningi að halda varðandi uppeldi barnanna.“ og að markmið afskiptanna sé að „foreldrar verði styrkt í foreldrahlutverkinu með því að þau fái aðstoð svo þau geti betur tekist á við uppeldishlutverk sitt.“ Eru umræddar tillögur í samræmi við þau úrræði, sem barnaverndaryfirvöld í Færeyjum höfðu ráðgert að beita til stuðnings fjölskyldunni, þótt gengið hafi verið lengra með því að mæla með varanlegu fóstri fyrir C.
S og T var einnig falin fyrrnefnd könnun á aðstöðu stefnenda í farfuglaheimilinu V 5. september 2000. Er skemmst frá því að segja, að þrátt fyrir að þær teldu umræddan húsakost ekki viðunandi fyrir uppeldi barna, var sem fyrr lagt til að stefnendur fengju D, E og F til sín að nýju, að því tilskildu að sömu stuðningsúrræðum yrði beitt og að stefnendur myndu finna viðunandi húsnæði. Ekki voru sett sérstök tímamörk varðandi öflun húsnæðisins.
Samkvæmt framansögðu var það álit tveggja sérfræðinga barnaverndarnefndar, á grundvelli faglegrar könnunar á stöðu og högum barnanna fjögurra, að beita ætti nánar tilteknum stuðningsúrræðum samkvæmt 21. gr. barnaverndarlaga áður en til álita kæmi hvort nauðsyn bæri til að svipta stefnendur forsjá barnanna D, E og F. R félagsmálastjóri í Z, yfirmaður S og T, staðfesti fyrir dómi að Fjölskyldu- og félagsþjónusta Z hefði viljað beita stuðningsúrræðum barnaverndarlaga, með það markmið í huga að stefnendur fengju umrædd börn til sín að nýju. Jafnframt hefðu starfsmenn félagsþjónustunnar vænst þess að barnaverndarnefnd myndi ekki ráða málinu til lykta fyrr en fengin væri niðurstaða í húsnæðisleit stefnenda og fyrir lægju sálfræðiniðurstöður um forsjárhæfi þeirra. Að sögn R hefði nefndin hins vegar haft tillögur félagsþjónustunnar að engu og ekki talið forsvaranlegt að láta afgreiðslu málsins dragast lengur.
Fyrir liggur að stefnendur dvöldu á tjaldstæðinu í Z frá því í maí og fram til 4. september er þau fengu inni á farfuglaheimilinu. Óumdeilt er að þau hafi á þessum tíma reynt allt sem í þeirra valdi stóð til að útvega varanlegt húsnæði, sem barnaverndarnefnd gæti fallist á að væri viðunandi bústaður fyrir börnin. Bera gögn málsins með sér að stefnendur hafi verið hvött til að ráða sem fyrst bót á húsnæðisvandanum og að þeim hafi verið gefin ástæða til að ætla að þá myndu þau eiga betri von til þess að fá börnin til sín aftur. Á sama tíma neituðu barnaverndaryfirvöld í Z að aðstoða þau við öflun húsnæðis, þótt ekki væri nema til bráðabirgða, meðal annars í því skyni að unnt væri að skrá lögheimili barnanna hér á landi, koma þeim yngstu í dagvistun og veita fjölskyldunni allri lögbundna heilbrigðis- og félagsþjónustu. Voru umrædd atriði þó notuð síðar í úrskurði barnaverndarnefndar, sem rök fyrir því að ekki hefði verið unnt að beita stuðningsúrræðum samkvæmt 21. gr. barnaverndarlaga. Má í þessu sambandi vísa til vitnisburðar R fyrir dómi, en hún kvað barnaverndaryfirvöld í Z hafa lagst gegn því að aðstoða stefnendur við öflun húsnæðis og sagði að það hefði verið „pólitísk“ ákvörðun bæjarstjórnar að greiða ekki götu þeirra í félagslega íbúðakerfinu. R kvað rökin fyrir afstöðu bæjaryfirvalda hafi verið þau að stefnendur ættu fasteign í Færeyjum, sem þau gætu farið í með börnin og unnið þar úr sínum málum.
Framangreind vinnubrögð barnaverndaryfirvalda eru ámælisverð og brjóta í bága við það meginmarkmið barnaverndarlaga, sbr. 1. og 17. gr., að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldna og aðstoða foreldra við að gegna foreldraskyldum sínum, eftir atvikum með stuðningsúrræðum samkvæmt 21. gr. laganna. Þar segir að leiði könnun í ljós að þörf sé aðgerða barnaverndarnefndar skuli hún í samvinnu við foreldra veita aðstoð eftir því sem við á, með því meðal annars að leiðbeina foreldrum um uppeldi og aðbúnað barns, úvega barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu, útvega barni dagvist eða skólavist, aðstoða foreldri við að leita sér meðferðar vegna persónulegra vandamála, vista barn um skamman tíma utan heimilis á vistheimili eða fósturheimili og beita almennum úrræðum til úrbóta samkvæmt öðrum lögum, svo sem lögum um félagslega þjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðra. Í athugasemdum við 21. gr., sem fylgdu frumvarpi til laganna á sínum tíma, kemur fram að með umræddum reglum sé áhersla lögð á stuðning í samráði við foreldra og meðal annars tiltekið að í úrræðum samkvæmt lögum um félagslega þjónustu sveitarfélaga felist fjárhagsaðstoð og félagslegt húsnæði.
Barnaverndaryfirvöld í Z buðu stefnendum þá aðstoð eina að styrkja þau fjárhagslega svo að þau gætu snúið aftur til Færeyja með börnin. Svo sem rakið er í V. kafla að framan voru stefnendur ófáanleg til þess og var því tekin ákvörðun 23. maí 2000 um að kyrrsetja börn þeirra á heimili P í Ö. Sama dag leitaði R félagsmálastjóri álits Barnaverndarstofu og fékk þær upplýsingar að barnaverndarnefnd væri skylt að leysa úr málefnum fjölskyldunnar. Dómurinn telur að í framhaldi hafi barnaverndarnefnd borið að leysa úr bráðum húsnæðisvanda stefnenda í samræmi við ákvæði laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga á meðan unnið væri að varanlegri lausn á húsnæðismálum þeirra. Var þetta frumforsenda fyrir því að skipuleg og markviss könnun málsins gæti farið fram samkvæmt 18. og 43. gr. barnaverndarlaga, meðal annars á högum barnanna, uppeldisaðstæðum og tengslum þeirra við stefnendur. Markmið slíkrar könnunar hlýtur ávallt að vera að leiða í ljós hvaða aðgerðir séu réttar til úrbóta og hvort önnur framangreind stuðningsúrræði 21. gr. laganna geti borið árangur, en skynsamleg ákvörðun og rétt val á slíkum úrræðum grundvallast á því að vönduð rannsókn hafi farið fram á öllum aðstæðum foreldra og barna.
Það er álit dómsins að með því einu að synja stefnendum um aðstoð við öflun bráðabirgðahúsnæðis strax eftir komu þeirra til Íslands hafi barnaverndarnefnd brugðist stuðningshlutverki sínu samkvæmt barnaverndarlögum og brotið alvarlega á rétti stefnenda til félagslegrar þjónustu. Með þeirri ákvörðun markaði barnaverndarnefndin meðferð málsins á barnaverndarstigi afdrifaríkt spor, sem ekki varð stigið upp úr, en af úrskurði nefndarinnar 18. september 2000 er ljóst að allt framhald málsins réðist af því að stefnendur voru húsnæðislaus og kom því ekki til álita að beita stuðningsúrræðum 21. gr. barnaverndarlaga. Sést þetta ótvírætt af eftirfarandi rökstuðningi í hinum umþrætta úrskurði:
„Barnaverndarnefnd Z hefur ekki getað beitt stuðningsúrræðum (skv. 21. gr. laga nr. 58/1992) vegna aðstæðna fjölskyldunnar. Börnin hafa búið við það óöryggi síðustu þrjá mánuði að vita ekki hvar þau muni búa. Ekki hefur verið hægt að skrá börnin í skóla, leikskóla eða heilsugæslu, þar sem fjölskyldan hefur í raun hvergi átt heima hér á landi.“
Með vísan til ofangreinds rökstuðnings og röksemda fyrir vanhæfni stefnenda, sem rakin eru í IX. kafla að framan, tók barnaverndarnefnd þá ákvörðun að svipta stefnendur forsjá C, D, E og F og skírskotaði í því sambandi til 25. gr. barnaverndarlaga án nánari tilgreiningar. Í úrskurðinum eru ekki færð sérstök rök fyrir því af hverju nefndin taldi ekki rétt að fylgja fyrrnefndum tillögum starfsmanna félagsþjónustunnar um stuðningsúrræði vegna þriggja yngstu barnanna.
Forsjársvipting samkvæmt 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga er róttækasta og afdrifaríkasta aðgerð, sem barnaverndarnefnd getur gripið til í málefnum fjölskyldna. Þar eru tæmandi talin þau skilyrði, eitt eða fleiri, sem þurfa að vera fyrir hendi svo að barnaverndarnefnd geti með úrskurði svipt foreldra, annað eða bæði, forsjá barns. Skilyrðin eru þessi: a) ef uppeldi, daglegri umönnun eða samskiptum foreldra við barnið er alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska, b) barn er sjúkt eða fatlað og foreldrar tryggja því ekki viðeigandi meðferð, þjálfun eða kennslu, c) barni er misþyrmt, misboðið kynferðislega ellegar það má þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu, d) ef telja má fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, alvarlegrar geðveilu, mikils greindarskorts eða hegðun foreldra er líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.
Af athugasemdum við 25. gr. í frumvarpi til nefndra laga er ljóst að þegar kemur til forsjársviptingar á grundvelli a-, b- eða c-liða 1. mgr., þá hafi reynslan sýnt að skilyrði forsjársviptingar séu fyrir hendi. Í tilvikum, sem lýst er í d-lið, þar sem barnaverndarnefnd metur líkur til að heilsu barns og þroska geti verið slík hætta búin að réttlæti sviptingu forsjár, verði að gera auknar kröfur til rökstuðnings fyrir slíkri niðurstöðu og hvílir sérstök sönnunarbyrði á barnaverndarnefnd fyrir því að umræddu skilyrði sé fullnægt. Í athugasemdunum segir ennfremur að það sé ávallt skilyrði fyrir forsjársviptingu að ótvírætt liggi fyrir að hagir og þarfir barns geri slíkt nauðsynlegt. Þar nægi ekki eitt og sér að sýnt sé fram á að barn muni hafa það betra þótt tekið sé frá foreldrum sínum, enda sé markmið barnaverndar að tryggja börnum „viðunandi uppeldisskilyrði“, með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við, sbr. 1. gr. laganna.
Til áréttingar á framangreindum sjónarmiðum er í 2. mgr. 25. gr. kveðið á um að barnaverndarnefnd skuli ávallt velja það úrræði, sem vægast er, til að ná því lögmæta markmiði, sem að er stefnt. Byggir ákvæðið á hinni svokölluðu meðalhófsreglu, sem lögfest var í 12. gr. stjórnsýslulaga, en hefur að geyma strangari málsmeðferðarreglur en mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum. Þetta þýðir meðal annars að röksemdir, sem mæla á móti forsjársviptingu, fá alveg sérstakt vægi og ber því aðeins að beita slíku úrræði í brýnustu neyð. Samkvæmt téðu ákvæði skal úrskurður um forsjársviptingu því aðeins kveðinn upp að ekki sé unnt að beita öðrum aðgerðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið fullreyndar án nægilegs árangurs. Er í ákvæðinu sérstaklega skírskotað til þeirra stuðningsúrræða, sem mælt er fyrir um í 21. gr. laganna.
Með vísan til fyrri röksemdafærslu dómsins er ekki fallist á að stuðningsúrræði hafi verið fullreynd af hálfu barnaverndaryfirvalda í Færeyjum. Þá er óumdeilt að eftir komu stefnenda til Íslands var ekki látið reyna á önnur stuðningsúrræði en þau að vista börnin fjögur tímabundið hjá vistforeldrum. Voru stefnendur þó fús til fullrar samvinnu við barnaverndarnefnd, veittu liðsinni sitt við könnun málsins þegar frá upphafi málsmeðferðar og samþykktu fyrir sitt leyti þau stuðningsúrræði, sem sérfræðingar nefndarinnar mæltu með, þótt þau hafi einnig viljað að úrræðin tækju til C. Áður er það rakið að barnaverndarnefnd synjaði stefnendum með ólögmætum hætti um aðstoð við öflun húsnæðis eftir komu þeirra til landsins. Þegar af þeirri ástæðu kom ekki til álita að beita öðrum stuðningsúrræðum 21. gr. vegna barnanna, svo sem glöggt má sjá af rökstuðningi nefndarinnar. Þegar þetta er virt telur dómurinn einsýnt að ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga til forsjársviptingar umrætt sinn.
Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að barnaverndarnefnd Z hafi með ákvörðun sinni um forsjársviptingu, eins og að henni var staðið, brotið með alvarlegum hætti gegn meðalhófsreglu 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga, sbr. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Eins og áður er rakið braut nefndin einnig, með alvarlegum hætti, gegn rannsóknarreglu 18. og 43. gr. barnaverndarlaga. Dómurinn telur ennfremur að áðurnefnd rök barnaverndaryfirvalda fyrir því að synja stefnendum um aðstoð við öflun húsnæðis til bráðabirgða eftir komu þeirra til Íslands, það er að þau ættu hús í Færeyjum, hafi verið ómálefnaleg, en upplýst er að að baki þeirri afstöðu hafi legið „pólitísk“ ákvörðun félagsmálayfirvalda um að greiða ekki götu stefnenda í húsnæðismálum. Verður því ekki ályktað á annan veg en að um valdníðslu hafi verið að ræða. Að öllu þessu virtu telur dómurinn að málsmeðferð barnaverndarnefndar hafi verið haldin svo alvarlegum annmörkum að varðað hafi ógildingu ákvörðunar hennar.
Stefnendur kærðu úrskurð barnaverndarnefndar til Barnaverndarráðs, sem staðfesti ákvörðun nefndarinnar 6. júní 2001. Eðli máls samkvæmt mun dómsniðurstaða í málinu því lúta að því hvort ógilda beri úrskurð Barnaverndarráðs. Engu að síður telur dómurinn óhjákvæmilegt að gagnrýna barnaverndarnefndina fyrir það að hafa ekki rökstutt ákvörðun sína fyrir forsjársviptingu eins og gert er ráð fyrir í 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga. Er þar um afar ströng og ólík skilyrði að ræða og hvílir sönnunarbyrði á nefndinni fyrir því að þau hafi, eitt eða fleiri, verið fyrir hendi. Þá telur dómurinn ámælisvert, í ljósi kæru stefnenda til Barnaverndarráðs 14. október 2000, að gengið hafi verið frá varanlegum fóstursamningum vegna barnanna fjögurra, áður en ráðið kvæði upp úrskurð sinn, en með því var enn frekar stuðlað að því að forsjársviptingin yrði endanleg. Ekki verður heldur ráðið af gögnum málsins að barnaverndarnefnd hafi leitað umsagnar stefnenda um val á fósturforeldrum og þau og börnin undirbúin undir varanlegan viðskilnað, sbr. 7. og 8. gr. reglugerðar nr. 532/1996 um ráðstöfun barna í fóstur. Telur dómurinn að sinnuleysi barnaverndarnefnar á því að uppfylla umrædd skilyrði reglugerðarinnar sýni enn betur hve alvarlega réttur hafi verið brotinn á stefnendum og þau dæmd af forsögu málsins í Færeyjum, án viðhlítandi sönnunargagna.
Við meðferð málsins hjá Barnaverndarráði var ekki fundið sérstaklega að því þótt barnaverndarnefnd hafi ekki frestað nefndri ákvarðanatöku í málinu í ljósi hinna nýju upplýsinga um húsnæðisstöðu stefnenda. Hins vegar voru gerðar athugasemdir við þá málsmeðferð nefndarinnar að bíða ekki eftir niðurstöðum Gylfa Ásmundssonar sálfræðings og það gagnrýnt að ekki yrði séð af fyrirliggjandi gögnum að reynt hefði verið að beita stuðningsúrræðum samkvæmt 21. og/eða 24. gr., sbr. 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga, öðrum en þeim að ráðstafa börnunum í skammtímavistun, áður en til forsjársviptingar kom. Þá var með óljósum hætti fundið að því að barnaverndaryfirvöld hefðu, af „pólitískum“ ástæðum, ekki gert annað til að aðstoða stefnendur í húsnæðisvanda þeirra en bjóðast til þess að aðstoða þau við að flytja aftur til Færeyja. Ennfremur var gagnrýnt að ekki virtist hafa verið gerð skrifleg meðferðaráætlun samkvæmt 19. gr. barnaverndarlaga og eigi heldur áætlun samkvæmt 27. gr. laganna vegna B, sem væri þroskaheftur og vistmaður á meðferðarheimili. Þá hefði ekki verið tryggt fyrir uppkvaðningu úrskurðarins hvernig barnaverndarnefnd hyggðist tryggja sem best hagsmuni C, sérstaklega með tilliti til þess að hann væri einnig þroskaheftur. Loks var gagnrýnt að börnunum hefði verið ráðstafað í fóstur, hverju á sitt heimili, í andstöðu við fyrirmæli 2. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Vegna framangreindra annmarka, sem Barnaverndarráð taldi vera á málsmeðferð barnaverndarnefndarinnar, réðist ráðið í umfangsmikla gagnaöflun og frekari könnun á málinu í heild, þar á meðal á hinu nýja húsnæði stefnenda. Að þeirri rannsókn lokinni komst ráðið að þeirri niðurstöðu 6. júní 2001 að staðfesta bæri réttmæti ákvörðunar barnaverndarnefndar, þrátt fyrir framangreinda annmarka á málsmeðferð hjá nefndinni. Var í því sambandi vísað til 17. gr. barnaverndarlaga og þess getið að undir ákveðnum kringumstæðum þyrfti ekki að láta reyna á hin almennu stuðningsúrræði barnaverndarlaga áður en gripið væri til þvingunarúrræða, enda bæri barnaverndarnefnd ávallt að taka það ráð upp, sem ætla mætti að væri barni fyrir bestu. Því næst segir orðrétt í úrskurði Barnaverndaráðs:
„Eins og fram hefur komið fór fram mikil gagnaöflun hjá Barnaverndarráði. Að mati Barnaverndarráðs leiddi sú gagnaöflun í ljós alvarlega vanhæfni foreldra. Af þeim sökum verður úrskurðinum ekki hrundið á þeim forsendum að vægari úrræði hafi ekki verið reynd áður en til forsjársviptingar kom. Með vísan til sömu raka verður heldur ekki talið að gallar á málsmeðferð hjá barnaverndarnefnd að öðru leyti geti varðað því að hrinda beri úrskurðinum.“
Hér verður dómurinn að vera ósammála Barnaverndarráði. Samkvæmt 3. mgr. 49. gr. barnaverndarlaga getur Barnaverndarráð metið að nýju lagahlið máls og sönnunargögn þess og í því skyni aflað gagna sjálft eða fyrir atbeina barnaverndarnefnda eða með öðrum hætti ef því er að skipta. Í framhaldi getur ráðið ýmist staðfest úrskurð viðkomandi barnaverndarnefndar að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu, þar á meðal mælt fyrir um aðrar ráðstafanir en barnaverndarnefnd hefur ákveðið. Þá getur ráðið einnig vísað máli til barnaverndarnefndar að nýju. Þótt umrædd ákvæði veiti Barnaverndarráði rúmar heimildir til frekari gagnaöflunar og endurskoðunar á úrskurði barnaverndarnefndar verður að gæta vandlega að aðstæðum og atvikum hverju sinni. Í máli því, sem hér er til meðferðar, voru atvik þannig að barnaverndarnefnd Z hafði, á grundvelli ólögmætra sjómarmiða, ákveðið að svipta stefnendur forsjá þeirra fjögurra barna, sem deilt er um í málinu, án þess að láta áður reyna á stuðningsúrræði, sem mælt er fyrir um í 21. gr. barnaverndarlaga. Í framhaldi var börnunum komið í varanlegt fóstur hjá sakaukastefndu til fullnaðs 18 ára aldurs, svo sem nánar er rakið í X. kafla að framan og var endanlega gengið frá öllum fóstursamningunum í desember og byrjun janúar 2001. Áður höfðu stefnendur skotið málinu til Barnaverndarráðs með kæru 14. október 2000. Við þær aðstæður er ljóst að gríðarlegir hagsmunir voru í húfi, fyrir stefnendur og börnin, að málsmeðferð Barnaverndarráðs gengi hratt fyrir sig og að valið yrði það vægasta úrræði, sem völ væri á, enda yfirlýst markmið varanlegs fóstursamnings að fósturbarn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sinni og að um leið sé klippt á öll hefðbundin samskipti barnsins og foreldra þess. Barnaverndarráð valdi þann kost að staðfesta ákvörðun barnaverndarnefndar, þrátt fyrir að veigamiklir annmarkar væru á málsmeðferð nefndarinnar. Dómurinn telur að með því hafi ráðið, með sama hætti og barnaverndarnefnd, brotið gegn meðalhófsreglu 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga, sbr. einnig 12. gr. stjórnsýslulaga, enda varð ekki úr því bætt, þrátt fyrir ítarlega rannsókn málsins hjá hinu æðra stjórnvaldi, að frumforsendan fyrir því að unnt hefði verið að meta réttmætar aðgerðir til úrbóta í vandamálum fjölskyldunnar byggðist á því að stefnendum væri útvegað viðunandi húsnæði við komu sína til Íslands, þannig að reyna mætti á hvort þau væru hæf til að fara með forsjá barnanna. Er málsmeðferð Barnaverndarrráðs sýnu alvarlegri fyrir þær sakir að með staðfestingu á úrskurði barnaverndarnefndar viðhélt ráðið því ólögmæta ástandi, sem nefndin hafði komið á með ótímabærri ákvörðun sinni og skerti enn frekar möguleika stefnenda á því að fjölskyldan yrði sameinuð á nýjan leik. Telur dómurinn að með ákvörðun sinni, byggðri á rúmlega átta mánaða framhaldsrannsókn málsins, þrátt fyrir alvarlega og augljósa annmarka á upphafi málsmeðferðarinnar, hafi Barnaverndarráð ennfremur brotið gegn ákvæði um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu í 8. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Felur umrætt ákvæði í sér að gerðar eru miklar kröfur til réttaröryggis við rannsókn barnaverndarmála, meðal annars vegna þess að ákvörðun um töku barns af heimili foreldra sinna reynist oftar en ekki vera endanleg niðurstaða í viðkomandi máli. Hvílir því sérstök áhersla á því að málsmeðferð sé hraðað, þannig að tengsl barns við fósturforeldri til lengri tíma litið verði ekki afgerandi þáttur í lokaniðurstöðu máls.
Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að ákvörðun Barnaverndarráðs sé ógildanleg, vegna augljósra og alvarlegra brota á meðalhófsreglu 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga og að ráðinu hafi, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, borið að ógilda úrskurð barnaverndarnefndar. Breytir engu í því sambandi þótt framhaldsrannsókn málsins hafi, að áliti Barnaverndarráðs, leitt í ljós alvarlega vanhæfni stefnenda sem foreldra.
Kemur þá til álita hvort ógilda beri úrskurð Barnaverndarrráðs á þeim grunni að ákvörðun ráðsins hafi verið tekin á grundvelli ólögmætra sjónarmiða. Við fyrstu sýn virðist blasa við að sú hljóti að verða niðurstaða dómsins. Barnaverndarmál hafa hins vegar þá sérstöðu að þrátt fyrir alvarlega annmarka á málsmeðferð og ákvarðanatöku barnaverndaryfirvalda verður fyrst og fremst að líta til hagsmuna þeirra barna, sem hlut eiga að máli, en þeir vega þyngra en hagsmunir foreldranna. Við slíkar aðstæður getur komið til þess að réttindi foreldra verði að víkja fyrir brýnum þörfum barnanna til stöðugleika, eftir það rót sem verið hefur í uppeldi þeirra. Á þetta ekki síst við eins og atvikum háttar í máli þessu, þar sem nær þrjú ár eru liðin frá því að börnin voru tekin úr umsjá foreldra sinna. Má hér vísa til fordæma Hæstaréttar 12. júní 1997 í máli réttarins nr. 196/1997 og 26. mars 1999 í máli nr. 511/1998, en í síðarnefndu máli hafði viðkomandi barn búið við öruggar og þroskavænlegar aðstæður hjá fósturforeldrum sínum í tæp tvö ár þegar dómur Hæstaréttar gekk. Í máli þessu horfir svo við að börnin C, D, E og F voru tekin úr umhverfi, sem var fyrirfram ekki þroskavænlegt. Þótt stefnendur hafi staðist forsjárhæfispróf og teljist samkvæmt matsgerð sálfræðinganna Odda Erlingssonar og Þorgeirs Magnússonar almennt forsjárhæf verður ekki framhjá því litið að matsmennirnir gerðu veigamikla fyrirvara við forsjárhæfi þeirra og voru sammála um að stefnendur hefðu verulega skert innsæi í þarfir viðkomandi barna, tækju ekki neina ábyrgð á högum og stöðu þeirra og ýmist afneituðu vandamálum barnanna eða kenndu félagsmálayfirvöldum um ófarir þeirra. Var það því álit nefndra matsmanna að vafasamt væri að stefnendur gætu annast nægilega vel um öll börnin, jafnvel þótt tilskilin aðstoð væri í boði, einkum með tilliti til alvarlegra aðstæðna C, D og E, sem þyrftu á mestri aðstoð að halda vegna þroskaskerðingar og/eða fyrri áfalla. Sömu matsmenn töldu ennfremur að börnunum fjórum liði vel hjá fósturforeldrum sínum og að í ljósi núverandi aðstæðna væri hagsmunum þeirra best borgið með því að þau fengju að búa áfram hjá fósturforeldrunum. Væri ella hætta á því að velferð barnanna yrði stefnt í óþarfa hættu.
Fram er komið í málinu að öll börnin búa í dag við öruggar og þroskavænlegar aðstæður á heimili fósturforeldra sinna, þar sem vel hefur verið tekið á vandamálum hvers og eins þeirra og þau njóta hvert um sig ríkulegrar ástúðar og umönnunar. Eru fósturforeldrarnir allir vel hæfir til að gegna foreldrahlutverkinu. Að þessu virtu og með hliðsjón af skertum eiginleikum stefnenda sem foreldra og þeim uppeldisaðstæðum, sem þau höfðu búið börnunum, telur dómurinn, sem skipaður er sérfróðum meðdómendum, að með tilliti til framtíðar væri óforsvaranlegt að raska nú högum barnanna og sé þeim því fyrir bestu að ekki verði gerð breyting á forsjá þeirra. Samkvæmt því og með vísan til undirstöðuraka 1. mgr. 1. gr. og niðurlagsákvæðis 17. gr. barnaverndarlaga um að við úrlausn barnaverndarmála beri ávallt að taka það ráð upp, sem ætla má að barni sé fyrir bestu, þykir verða að sýkna stefnda Z og sakaukastefndu af aðal- og varakröfu stefnenda í málinu.
Óumdeilt er að stefnendur og börn þeirra fjögur, sem deilt er um í málinu, eigi rétt til umgengni hvert við annað. Með úrskurði sínum 1. október 2001 ákvað barnaverndarnefnd Z inntak þess umgengnisréttar á gundvelli 33. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt honum skulu stefnendur eiga umgengni við börnin tvisvar á ári, í maí og nóvember, þrjár klukkustundir í senn og ávallt undir eftirliti barnaverndarnefndar. Jafnframt er þeim meinað að hafa nokkurt símasamband við börnin. Þeirri ákvörðun til stuðnings var vísað til 2. gr. reglugerðar nr. 532/1996 um ráðstöfun barna í fóstur og þess markmiðs varanlegs fósturs að fósturbarn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sinni með sama hætti og um eigið barn fósturforeldra væri að ræða. Þá var vísað til þess að nefndin teldi það ekki þjóna hagsmunum barnanna að þau hefðu tíðari samskipti við stefnendur, enda virtust þau ekki vera mjög tengd foreldrum sínum, þau hefðu verið tilfinningalega vanrækt af hálfu foreldranna og þurft að þola aðra vanrækslu og ætlað ofbeldi af hálfu þeirra. Það væri því hagur barnanna að umgengnin þjónaði aðeins því hlutverki að þeim væri kunnugt um uppruna sinn og þekktu deili á kynforeldrum sínum, en að öðru leyti fengju þau að tengjast sem best fósturforeldrum sínum svo að hægt væri að veita þeim þann stuðning, sem þau hefðu þörf fyrir.
Þótt deila megi um framangreindan rökstuðning barnaverndarnefndar fyrir ákvörðun sinni telur dómurinn að úrskurðurinn sé byggður á lögmætum grunni. Þá er það álit dómsins, með hliðsjón af matsgerð sálfræðinganna Odda Erlingssonar og Þorgeirs Magnússonar, að ekki séu fram konar sérstakar ástæður til að auka beri umgengni stefnenda við börnin, að svo stöddu. Ber í því sambandi einkum að hafa í huga að stefnendur eru enn afar ósátt við fósturráðstöfun barnanna og eru þeirrar skoðunar að illa fari um börnin eins og er. Tortryggni þeirra og innsæisleysi virðist því síst minna en áður var og er ekki til þess fallið að skapa það andrúmsloft, sem æskilegt er á umgengnisfundunum. Þá er þeim ekki í huga að styðja við fóstrið með því að samþykkja það í eyru barnanna og „gefa þeim leyfi“ til að bindast fósturforeldrunum nánari böndum, svo sem börnunum er enn í dag afar mikilvægt að áliti dómsins. Þrátt fyrir það álit matsmanna að ekki sé óæskilegt að fundunum verði fjölgað lítillega telur dómurinn ekkert fram komið í málinu, sem bendi til þess að það þjóni sérstaklega hagsmunum barnanna. Ber því einnig að sýkna stefndu af þrautavarakröfu stefnenda.
XXIV.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá er tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu.
Þrátt fyrir framangreind málsúrslit þykja sjónarmið 3. mgr. 130. gr. eiga fyllilega við, eins og atvikum er háttað í málinu. Þykir því til samræmis rétt að fella málskostnað niður.
Stefnendur hafa gjafsókn í málinu. Því greiðist allur gjafsóknarkostnaður þeirra úr ríkissjóði, þar með talinn útlagður kostnaður vegna öflunar tveggja matsgerða, skjalaþýðinga og fleira, samtals krónur 1.728.341 og þóknun lögmanns þeirra, Viðars Lúðvíkssonar héraðsdómslögmanns. Með hliðsjón af umfangi málsins, fjölda þinghalda og vönduðum undirbúningi lögmannsins þykir þóknun hans hæfilega ákveðin krónur 3.000.000, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sakaukastefndu hafa gjafsókn í málinu. Ber því einnig að greiða allan gjafsóknarkostnað þeirra úr ríkissjóði, þar með talinn útlagðan kostnað að fjárhæð krónur 45.542 og þóknun lögmanns þeirra, Valborgar Þ. Snævarr hæstaréttarlögmanns, sem þykir með hliðsjón af sömu röksemdum og nefnd voru að framan um þóknun lögmanns stefnenda hæfilega ákveðin krónur 1.500.000, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Stefnendur eru norrænir ríkisborgarar og þurftu við aðalmeðferð málsins á aðstoð dönskumælandi dómtúlks að halda. Lars H. Andersen var fenginn til starfans og verður kostnaður vegna þjónustu hans, krónur 164.340, greiddur úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um meðferð einkamála og auglýsingu nr. 5/1987 um fullgildingu norræna tungumálasamningsins 17. júní 1981, sem tók gildi hér á landi 25. júlí 1987.
Dómurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara og meðdómsmönnunum Ólafi Ó. Guðmundssyni sérfræðingi í barnageðlækningum og Sæmundi Hafsteinssyni sálfræðingi. Dómsuppkvaðning fer fram á laugardegi, svo að dómur verði kveðinn upp innan fjögurra vikna frá dómtöku, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála, en annar tveggja meðdómenda hefur verið erlendis og kom til landsins í gærkvöldi.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Z vegna barnaverndarnefndar Z, I, J, L, M og K, eru sýkn af kröfum stefnenda, X og Y.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Viðars Lúðvíkssonar héraðsdómslögmanns, krónur 3.000.000.
Gjafsóknarkostnaður stefndu I, J, L, M og K greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Valborgar Þ. Snævarr hæstaréttarlögmanns, krónur 1.500.000.