Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-35
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Þinglýsing
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 5. mars 2025 leitar Jónhallur Björgvin Benediktsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, til að kæra úrskurð Landsréttar 20. febrúar sama ár, í máli nr. 1010/2024: Þórsgarður ehf. gegn Jónhalli Björgvini Benediktssyni, Mílu hf. og Ungmennafélaginu Tindastóli. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um leiðréttingu rafrænnar þinglýsingabókar þannig að geta skuli afsals 28. janúar 1964 þinglýstu 10. febrúar sama ár, með þinglýsingarnúmerið 16307, á rafrænni þinglýsingarsíðu fasteignanna Heiði, Heiði-skíðasvæði og Heiði-lóð. Einnig að meginefni afsalsins skuli tilgreint þar með eftirfarandi hætti: „Samkvæmt afsali, dags. 28. janúar 1964 var jörðin Breiðstaðir, fastanr. [...], stofnuð á grundvelli 1/3 eignarhluta í Heiði. Beitiland er óskipt“.
4. Héraðsdómur hafnaði framangreindri kröfu leyfisbeiðanda um leiðréttingu rafrænnar þinglýsingabókar sýslumannsins á Norðurlandi vestra að öðru leyti en því að fallist var á kröfu um leiðréttingu með þeim hætti að færa skyldi í þinglýsingabækur fasteignanna yfirlýsingu um réttindin: „Beitiland er óskipt“. Landsréttur hafnaði hins vegar öllum kröfum leyfisbeiðanda og vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga skuli þinglýsingarstjóri bæta úr verði hann þess áskynja að færsla í fasteignabók sé röng eða mistök hafi orðið við þinglýsinguna. Af athugasemdum í frumvarpi til þinglýsingalaga yrði ráðið að svo unnt sé að beita þessu ákvæði þurfi að vera augljóst að færsla í fasteignabók sé röng eða að mistök hafi átt sér stað við þinglýsingu þeirra réttinda sem um ræði. Landsréttur féllst ekki á að tilvísun afsalsins til óskipts beitilands væri nægilega skýr svo unnt væri að slá því föstu að augljóst væri að hún hefði falið í sér stofnun óbeins eignarréttar í jörðinni Heiði og þar með lóðunum tveimur.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því kæruefnið hafi fordæmisgildi um framkvæmd þinglýsingar og færslu þinglýsingabóka samkvæmt 8. gr. þinglýsingalaga sem og áhrifa lagaskila vegna skjala sem var þinglýst fyrir gildistöku þinglýsingalaga 1. janúar 1979, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Þá hafi málið fordæmisgildi um þá stöðu þegar upplýsingar um þinglýst skjöl falla niður þegar rafræn síða fasteignar í fasteignabók er stofnuð við færslu eldri upplýsinga um eignir í nýjar þinglýsingabækur. Leyfisbeiðandi telur einnig að málið hafi fordæmisgildi fyrir framkvæmd þinglýsinga vegna nýbýlastofnana þar sem gert er ráð fyrir að hluti lands upprunalegrar jarðar verði óskipt eign með nýbýlinu. Að lokum telur leyfisbeiðandi þá niðurstöðu Landsréttar bersýnilega ranga að hafna eigi kröfum vegna þess að efnisleg réttindi afsalsins séu óskýr. Óumdeilt sé að tilgreining afsalsins á síður fasteignarinnar Heiðar hafi fallið niður þegar rafræn síða fasteignarinnar var stofnuð í þinglýsingabók. Þá séu formannmarkar á dómi Landsréttar sem fjalli ekki um málsatvik og taki ekki afstöðu til allra málsástæðna.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.