Hæstiréttur íslands
Mál nr. 392/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Útivist
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Föstudaginn 10. október 2003. |
|
Nr. 392/2003. |
Guðbjörn Magnússon og Hallur Gunnar Erlingsson (Valgeir Kristinsson hrl.) gegn Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (enginn) |
Kærumál. Kæruheimild. Útivist. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kærð var sú ákvörðun héraðsdóms um að fella niður mál sem S hafði höfðað gegn G og H. Tekið var fram að samkvæmt ótvíræðu orðalagi í upphafi 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væru það eingöngu úrskurðir héraðsdómara um nánar tilgreind efni, sem gætu sætt kæru til Hæstaréttar, en ekki ákvarðanir hans um þau. Þar sem heimild brast fyrir kærunni var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 24. september 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 8. október 2003. Sóknaraðilar kveðast kæra „úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur“ 21. mars 2003, en þann dag hafi málinu verið lokið með ákvörðun um að fella það niður, en um þessi afdrif málsins hafi þeim fyrst orðið kunnugt 16. september 2003. Um kæruheimild vísa sóknaraðilar til k. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þeir krefjast þess að ákvörðun héraðsdómara verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir hann að taka málið til meðferðar að nýju. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili þingfesti mál þetta á hendur sóknaraðilum fyrir héraðsdómi 12. desember 2002 til heimtu skuldar. Í greinargerð sóknaraðila, sem lögð var fram á dómþingi 23. janúar 2003 kröfðust þeir sýknu af kröfu varnaraðila og greiðslu málskostnaðar. Í málinu liggur fyrir ljósrit símbréfs, sem héraðsdómari kveður að sent hafi verið lögmanni sóknaraðila 4. mars 2003, en þar var tilkynnt um fyrirtöku málsins 21. sama mánaðar. Það þing var sótt af hálfu varnaraðila, en ekki af hálfu sóknaraðila. Krafðist varnaraðili þess að málið yrði fellt niður án kostnaðar og féllst héraðsdómari á þá kröfu með ákvörðun, sem færð var í þingbók. Sóknaraðilar kveðast ekki hafa fengið það símbréf, sem áður er getið. Þeim hafi því ekki verið kunnugt um þinghaldið 21. mars 2003 og hafi málið ranglega verið fellt niður án greiðslu málskostnaðar til sóknaraðila.
Sóknaraðilar hafa ekki neytt réttar síns til að leita endurupptöku málsins í héraði, sbr. 97. gr. laga nr. 91/1991, og afla í því sambandi úrskurðar, sem kynni að mega kæra til æðra dóms samkvæmt i. lið 1. mgr. 143. gr. sömu laga.
Svo sem greinir hér að framan kvað héraðsdómari ekki upp úrskurð um að mál varnaraðila gegn sóknaraðilum yrði fellt niður heldur tók hann um það ákvörðun, sem færð var í þingbók, sbr. 3. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt ótvíræðu orðalagi í upphafi 1. mgr. 143. gr. sömu laga eru það eingöngu úrskurðir héraðsdómara um nánar tilgreind efni, sem geta sætt kæru til Hæstaréttar, en ekki ákvarðanir hans um þau. Brestur því heimild fyrir kæru sóknaraðila. Af þeim sökum verður málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2003.
Mál nr. E-17781/2002
Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis
gegn
Guðbirni Magnússyni og
Halli Gunnari Erlingssyni
Skjöl málsins nr. 1- 11 liggja frammi.
Af hálfu stefnanda sækir þing Hlynur Halldórsson hdl. v/Jóhannesar B. Björnssonar hdl.
Af hálfu stefndu er ekki sótt þing en forföll hafa ekki verið boðuð.
Dómarinn leggur fram nr. 12, boðun í þinghaldið með símbréfi.
Lögmaður stefnanda óskar eftir að fella málið niður án kostnaðar.
Málið er fellt niður.
Dómþingi slitið.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari