Hæstiréttur íslands
Mál nr. 1/2009
Lykilorð
- Brot gegn valdstjórninni
|
|
Miðvikudaginn 20. maí 2009. |
|
|
Nr. 1/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, vararíkissaksóknari) gegn Baldri Þór Egilssyni (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
|
Brot gegn valdstjórninni.
X var gefið að sök brot gegn valdstjórninni með því að slá í tvígang með rörtöng til tveggja lögreglumanna sem höfðu afskipti af honum. Hæstiréttur hafnaði kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms, þar sem ekkert væri fram komið í málinu sem gæfi tilefni til þess að ómerkja héraðsdóminn. Var talið að í verknaði ákærða hefði falist hótun um líkamlegt ofbeldi gagnvart lögreglumönnum við skyldustörf. Framkoma hans yrði ekki afsökuð með því að afskipti lögreglumannanna af honum hefðu verið ólögmæt. Var X dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. desember 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms. Til vara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð.
Ákærða er gefið að sök brot gegn valdstjórninni með því að slá í tvígang með rörtöng til tveggja lögreglumanna sem höfðu afskipti af honum. Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms byggir ákærði á því að mat héraðsdóms á vætti lögreglumannanna hafi verið rangt. Ljóst hafi verið í upphafi að niðurstaða málsins myndi ráðast af mati á sönnunargildi framburðar ákærða, sem neiti sök, og munnlegs framburðar lögreglumannanna, því hafi borið að hafa dóminn fjölskipaðan. Lýsing lögreglumannanna á háttsemi hans fái ekki staðist þegar aðstæður séu skoðaðar. Vísar hann þar til þess að aðgangur að kjallaraíbúð hans, þar sem hann var handtekinn, sé niður þröngar tröppur og útidyrnar séu lágar og mjóar og sýn takmörkuð úr tröppunum. Standist því ekki að hann hafi náð í rörtöngina og síðan slegið frá sér eins og hann er sakaður um. Dómarinn hafi ekki farið á vettvang til þess að kynna sér aðstæður. Loks telur hann að það að lögreglurannsóknin hafi í upphafi beinst að öðru sakarefni en broti því sem ákært var fyrir, bendi til þess að háttsemi hans hafi upphaflega ekki verið talin alvarleg. Allt þetta eigi að leiða til þess að dómurinn verði ómerktur.
Í fjölmörgum málum ræðst niðurstaða af mati á sönnunargildi framburðar vitna án þess að ástæða sé talin vera til þess að hafa dóm fjölskipaðan. Það er meginregla að einn dómari fari með mál í héraði. Þágildandi ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1994, var heimildarákvæði, einkum til að gera það mögulegt að styrkja dóm ef mál er mjög umfangsmikið eða vandasamt. Slíkar aðstæður þykja ekki hafa verið fyrir hendi í þessu máli né aðrar ástæður er leiða kynnu til þess að dómur yrði fjölskipaður.
Ekkert bendir til þess að líkur séu til að mat héraðsdóms á framburði ákærða og vitna hafi verið rangt. Enga mótsögn er að sjá í endurriti af skýrslum lögreglumannanna og lýsa þeir aðstæðum glögglega. Við mat á framburði vitna lítur dómari meðal annars til þess tíma er líður frá atburði til skýrslutöku hjá lögreglu. Lögreglurannsókn ber að hraða enda skiptir það af augljósum ástæðum máli að skýrslur séu teknar sem fyrst eftir að atburður á sér stað. Það varðar hins vegar ekki ómerkingu sakamáls þó að taka skýrslu dragist. Í því tilviki sem hér um ræðir liggur fyrir ítarleg frumskýrsla lögreglu og ákærði var yfirheyrður strax daginn eftir um atvikið en hann vildi ekki tjá sig. Ekki verður séð að ákærði hafi krafist þess í héraði að gengið yrði á vettvang og var ekki talið tilefni til þess. Þá hefur ákærði ekki lagt fram gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að aðstæður útiloki að hann hafi ógnað lögreglumönnunum.
Lögreglumennirnir fóru á vettvang vegna beiðni um aðstoð þar sem ákærði var sagður ógna foreldrum sínum og ganga berserksgang, en barn var á heimili foreldra hans. Hafði lögregla því fullt tilefni til afskipta af ákærða. Það er þá sem hann fremur það brot sem hann er ákærður fyrir. Rök hans sem lúta að því að um tilefnislaus eða ólögleg afskipti lögreglu af honum hafi verið að ræða standast ekki og eðli málsins samkvæmt var annað tilefni til aðkomu lögreglu en sú háttsemi sem ákært er vegna.
Er ekkert það fram komið í máli þessu sem gefur tilefni til þess að ómerkja héraðsdóminn og er þeirri kröfu ákærða hafnað.
Svo sem að framan greinir voru lögreglumenn kvaddir á vettvang að gefnu tilefni. Í verknaðarlýsingu ákæru, að ákærði hafi hótað lögreglumönnum við skyldustörf með því að slá í tvígang til þeirra með rörtöng, felst eins og dómari umorðar það „hótun um líkamlegt ofbeldi gagnvart lögreglumönnunum við skyldustörf.“ Þessi framkoma ákærða verður ekki afsökuð með því að afskipti þeirra af honum hafi verið ólögmæt. Sakarferli ákærða er nægilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Stóðst hann skilorð það sem honum var sett með dómi 27. febrúar 2003 vegna brots gegn valdstjórninni. Verður héraðsdómur því staðfestur um sakarmat, refsingu og sakarkostnað með vísan til forsendna hans og framangreindra raka.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Baldur Þór Egilsson, skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins 198.199 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 21. október sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 24. júlí 2008 á hendur Baldri Þór Egilssyni, kt. ...., Melgerði 1, Reykjavík, fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa laugardaginn 30. júní 2007, í anddyri kjallaraíbúðar á heimili sínu, hótað lögreglumönnunum Eiríki Stefáni Einarssyni og Magnúsi Ragnarssyni, sem þar voru að sinna skyldustörfum, en ákærði sló í tvígang til lögreglumannanna með rörtöng. Var háttsemin til þess fallin að vekja með lögreglumönnunum ótta um líf sitt og heilbrigði.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 82/1998 og lög nr. 101/1976.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði lagður á ríkissjóð.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá laugardeginum 30. júní 2007 kl. 23.17 var lögregla á þeim tíma kvödd að Melgerði 1 í Reykjavík, en borist hafði tilkynning þess efnis að ungur maður gengi berseksgang á heimili móður sinnar. Fóru lögreglumennirnir Eiríkur Stefán Einarsson og Magnús Ragnarsson á vettvang. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst tilkynning er lögreglumenn voru á leið á vettvang þess efnis að maðurinn væri vopnaður rörbút eða rörtöng og að hann væri að ógna heimilisfólki með vopninu. Fram kemur að móðir mannsins hafi tekið á móti lögreglu og tjáð lögreglumönnum að Baldur Þór Egilsson, ákærði í máli þessu, hafi ógnað sér, föður sínum og barnabarni með rörtöng og gengið berseksgang í íbúð hennar og valdið þar skemmdum á hurð og innanstokksmunum. Væri ákærði í annarlegu ástandi, ölvaður og mjög æstur. Væri ekki útilokað að hann væri undir áhrifum fíkniefna.
Samkvæmt lögregluskýrslu fóru lögreglumenn að dyrum kjallaraíbúðar og knúðu dyra. Fram kemur að ekki hafi neitt svar borist en mikill hávaði borist innan úr íbúðinni. Reynt hafi verið að kalla í gegnum útidyr til ákærða en hann engu svarað. Dyr að íbúðinni hafi verið læstar. Lögreglumenn hafi ákveðið að bíða eftir aðstoð fleiri lögreglumanna í ljósi þess að ákærði væri hugsanlega vopnaður. Í því hafi ákærði svipt upp útidyrahurð að íbúðinni og staðið í dyragættinni. Hafi hann öskrað á lögreglumenn að hafa sig á brott og verið mjög ógnandi í framkomu. Hafi hann virst vera í annarlegu ástandi. Hafi lögreglumenn tekið eftir því að rörtöng hafi legið á borði fyrir innan dyrnar. Hafi ákærði verið beðinn um að róa sig niður og ræða við lögreglumenn. Hafi ákærði orðið æstari við það og stigið eitt skref inn í íbúðina og tekið upp rörtöngina. Hafi hann því næst snúið sér að lögreglumönnum. Eiríkur Stefán hafi þá tekið upp úðavopn sitt og kylfu og Magnús gert það sama. Hafi ákærða verið skipað að leggja frá sér töngina. Hafi ákærði ekki sinnt því heldur stigið skrefi nær Eiríki og reitt töngina til höggs. Hafi Eiríkur þá beitt úðavopni sínu og úðað tvisvar sinnum í andlit ákærða. Hafi úðinn virkað í síðara skiptið og virst sem ákærði hafi blindast af úðanum. Hafi hann lokað augunum og hneigt höfuð sitt niður. Við það hafi hann hörfað inn í íbúðina en ekki sleppt tönginni. Hafi hann slegið með henni í kringum sig. Hafi lögreglumenn náð að víkja sér undan höggunum en sætt lagi og náð að afvopna ákærða. Erfiðlega hafi gengið að taka ákærða lögreglutökum þar sem ákærði hafi veitt kröftuga mótspyrnu. Hafi átökin borist inn í íbúðina þar sem ákærði hafi loks verið yfirbugaður og settur í handjárn. Skömmu síðar hafi áhafnir annarra lögreglubifreiða komið á vettvang. Hafi ákærði verið fluttur á slysadeild þar sem piparúði hafi verið skolaður úr andliti hans. Að því loknu hafi hann verið fluttur á lögreglustöð þar sem varðstjóri hafi tekið ákvörðun um að vista hann sökum ölvunar. Rörtöngin hafi verið haldlögð, en hún hafi verið 43 cm að lengd og 2,5 til 3 kg að þyngd. Er ljósmynd af tönginni á meðal rannsóknargagna málsins.
Tekin var skýrsla af ákærða næsta dag eftir vist í fangageymslu. Kvaðst ákærði kjósa að tjá sig ekki um atburði. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið á heimili sínu er lögregla hafi knúið dyra. Hafi hann verið með rörtöng í hendi en hann hafi verið að gera við vegna leka frá garðslöngu. Um leið og hann hafi opnað útidyrnar hafi hann fengið piparúða í andlitið og verið handtekinn í framhaldinu. Hafi lögreglumenn ekkert sagt við ákærða áður en þeir hafi úðað í andlit hans. Foreldrar ákærða byggju á hæðinni fyrir ofan ákærða. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis umrætt sinn. Ekki kvaðst ákærði hafa ögrað lögreglu á neinn hátt. Þá hafi hann ekki sveiflað rörtönginni í kringum sig. Rangt væri sem fram kæmi í frumskýrslu lögreglu að ákærði hafi gengið berseksgang og valdið skemmtum á eignum foreldra sinna. Þá hafi hann ekki notað töngina til að ógna foreldrum sínum.
Fyrir dóminn komu lögreglumennirnir Eiríkur Stefán Einarsson og Magnús Ragnarsson. Var framburður þeirra samhljóða því sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu og áður var rakið. Eiríkur Stefán bar að lögreglumennirnir hafi ákveðið að bíða eftir aðstoð annarra lögreglumanna þar sem borist hafi upplýsingar þess efnis að ákærði væri með rörtöng sér við hlið. Er ákærði hafi opnað útidyrnar hafi hann verið viti sínu fjær af bræði. Rörtöngin hafi verið á borði fyrir aftan ákærða. Hafi lögreglumenn reynt að róa ákærða niður. Það hafi ekki tekist og ákærði stigið skref inn í íbúðina og náð í töngina. Hafi hann hafið töngina á loft og í axlarhæð. Þá hafi Eiríkur gefið ákærða fyrirmæli um að leggja töngina frá sér. Í beinu framhaldi hafi ákærði lyft tönginni ofar. Hafi Eiríkur þá sprautað með úða í andlit ákærða og ákærði þá sveiflað tönginni í kringum sig. Ragnar hafi staðið fyrir aftan Eirík þegar þetta hafi verið. Hafi Eiríkur úðað aftur og úðinn í það sinnið virkað. Hafi ákærði verið afvopnaður í kjölfarið eftir mikil átök. Lögreglumenn hafi verið í lögreglubúningi umrætt sinn. Kvaðst Eiríkur hafa upplifað mikla ógn af ákærða með rörtöngina og högg með slíkri töng getað reynst lögreglumönnunum banvænt. Hafi enginn vafi verið í huga Eiríks að ákærði hafi ætlað að nota töngina gegn lögreglumönnunum.
Framburður Magnúsar Ragnarssonar var nokkuð á sama veg. Kvaðst Magnús hafa verið fyrir aftan Eirík og ofar í stiga sem hafi legið niður að kjallaraíbúðinni. Hafi hann ekki séð inn í íbúðina með sama hætti og Eiríkur. Samt sem áður hafi hann haft góða yfirsýn yfir útidyrnar. Eftir að lögreglumenn hafi bankað hafi ákærði skyndilega opnað hurðina. Hafi ákærði litast um í kringum sig. Hafi hann þá ekki verið með rörtöng í hendi. Hafi Magnús séð ákærða stökkva aftur inn í íbúðina og í framhaldi af því séð Eirík grípa til varnarúðans. Hafi Magnús þá grunað ákærði ætlaði að grípa til einhvers. Eiríkur hafi sprautað einu sinni á ákærða. Hafi Eiríkur þá séð að ákærði var með rörtöng í hendi reidda til höggs. Hafi hann reynt að sveifla henni. Hafi Eiríkur síðan sprautað aftur og ákærði þá sveiflað rörtöng í kringum sig. Hafi lögreglumennirnir verið búnir að skipa ákærða að sleppa tönginni og leggjast niður. Hafi hann ekki brugðist við því. Eftir síðari úðann hafi tekist að yfirbuga ákærða. Hafi það tekið talsverðan tíma þar sem ákærði hafi veitt mikla mótspyrnu. Magnús kvaðst þess fullviss að ákærði hafi ekki verið með rörtöng í hendi þegar hann hafi opnað útidyrnar. Hafi lögreglumenn fundist sér ógnað með tönginni. Hefði ástandið getað orðið alvarlegt ef lögreglumenn hefðu ekki verið með varnarúðann. Allt hafi gerst mjög hratt.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök. Er frásögn hans af atvikum á þann veg að lögreglumenn hafi sprautað úða framan í ákærða um leið og ákærði hafi opnað dyr að íbúð sinni. Í framhaldi hafi lögreglumennirnir umsvifalaust ráðist á ákærða og handtekið hann. Ákærði hafi verið með rörtöng í hendi er hann hafi opnað dyrnar þar sem hann hafi verið að gera við í íbúðinni. Hafi hann ekki ógnað lögreglumönnunum með tönginni eða gefið þeim tilefni til athafna sinna.
Framburður lögreglumannanna Eiríks Stefáns Einarssonar og Magnúsar Ragnarssonar er á einn veg um að ákærði hafi ekki verið með rörtöngina í hendi er hann hafi opnað dyrnar. Eiríkur Stefán hefur borið að ákærði hafi fyrst er hann hafi orðið þess áskynja hverjir væru þar komnir náð í töngina og reitt hana til höggs. Magnús hefur fullyrt að ákærði hafi ekki verið með rörtöngina í hendi er hann hafi opnað dyrnar en bakkað inn og verið kominn með hana í hendi í framhaldinu. Lögreglumennirnir fullyrða að ákærði hafi ekki sinnt fyrirmælum lögreglu um að leggja frá sér töngina og gert sig reiðubúinn til að slá lögreglumennina. Hafi varnarúða verið sprautað framan í ákærða til að yfirbuga hann. Mikil raunveruleg ógn hafi stafað af ákærða.
Þegar samhljóða framburður lögreglumannanna tveggja er virtur er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi umrætt sinn gagngert náð í rörtöng til að ógna lögreglumönnunum með. Hafi hann lyft henni upp og gert sig líklegan til að slá lögreglumenn með henni. Í því framferði ákærða fólst hótun um líkamlegt ofbeldi gagnvart lögreglumönnunum við skyldustörf, en þá hótun tóku þeir alvarlega. Er hér um að ræða brot gegn valdstjórninni og verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákærði er fæddur í apríl 1982. Hann á að baki sakaferil allt frá árinu 1999. Hefur hann fjórum sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Þá hefur hann þrisvar sinnum gengist undir sáttir fyrir brot gegn umferðarlögum. Einn framangreindra dóma er vegna brota ákærða gegn 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940 en sá dómur var kveðinn upp 27. febrúar 2003. Var ákærði þá dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Framganga ákærða greint sinn var stórhættuleg, en hann hefði getað valdið lögreglumönnunum miklum skaða hefði hann náð að slá þá með rörtönginni. Stóð þeim mikil ógn af ákærða. Með hliðsjón af þessu verður ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi, sem heimilt þykir að skilorðsbinda með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns með þeim hætti er í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Kolbrúnu Benediktsdóttur fulltrúa ríkissaksóknara.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Baldur Þór Egilsson, sæti fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 97.608 krónur.