Hæstiréttur íslands

Mál nr. 6/2018

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara

Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu X um að tveir landsréttardómarar vikju sæti í máli ákæruvaldsins gegn honum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Markús Sigurbjörnsson og Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 6. mars 2018, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að landsréttardómararnir Ásmundur Helgason og Ragnheiður Harðardóttir víki sæti í máli sóknaraðila gegn honum. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að fyrrnefnd krafa sín verði tekin til greina.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Landsréttar 6. mars 2018

Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Harðardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnu 30. júní 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), sbr. 4. gr. laga nr. 53/2017, um breytingu á lögum um dómstóla og fleira, er málið nú rekið fyrir Landsrétti. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2017, í málinu nr. S-[...]/2016.

2        Á þessu stigi er aðeins til úrlausnar krafa ákærða um að dómsformaður, Ásmundur Helgason, og landsréttardómarinn Ragnheiður Harðardóttir, víki sæti sökum vanhæfis. Málið var munnlega flutt fyrir Landsrétti um kröfu ákærða 6. mars 2018.

3        Ákæruvaldið krefst þess að kröfu ákærða verði hafnað.

Málsástæður aðila

Málsástæður ákærða

4        Krafa ákærða um að framangreindir landsréttardómarar víki sæti í máli þessu er reist á g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Vísað er til þess að dómararnir hafi verið skipaðir héraðsdómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur þegar hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp. Á þeim tíma hafi þeir því verið samstarfsmenn dómarans sem hafi kveðið upp sakfellingardóm yfir ákærða í héraði. Að hans áliti séu því fyrir hendi atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni landsréttardómaranna með réttu í efa.

Málsástæður ákæruvaldsins

5        Ákæruvaldið telur að þau tengsl sem ákærði vísar til séu ekki fallin til þess að draga óhlutdrægni dómaranna í efa með réttu. Því eigi þeir ekki að víkja sæti samkvæmt g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008.

Niðurstaða Landsréttar

6        Eins og rakið er í dómi Hæstaréttar Íslands 8. nóvember 2002 í málinu nr. 487/2002, og áréttað er í dómi réttarins 28. nóvember 2016 í málinu nr. 783/2016, er héraðsdómari sjálfstæður í dómstörfum og leysir þau af hendi á eigin ábyrgð, sbr. þágildandi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, sbr. nú 1. mgr. 43. gr. laga nr. 50/2016 um sama efni. Skal hann eingöngu fara eftir lögum við úrlausn á máli og aldrei lúta þar boðvaldi annarra. Í fyrrgreindum dómum er sú ályktun dregin af þessu að héraðsdómari verði aldrei stöðu sinnar vegna vanhæfur til að fara með mál af þeirri ástæðu einni að það varði persónu, störf eða hagsmuni annars héraðsdómara.

7        Sömu sjónarmið og hér hafa verið rakin eiga við um sérstakt hæfi dómara við Landsrétt sem falið er að endurskoða dóm sem kveðinn hefur verið upp af dómara við sama dómstól og landsréttardómararnir gegndu áður embætti. Hvorki Ásmundur Helgason né Ragnheiður Harðardóttir komu að meðferð þess máls í héraði sem er hér til endurskoðunar. Ekkert er fram komið í málinu sem gefur tilefni til að ætla að til staðar séu einhver þau tengsl sem eru til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra með réttu í efa. Því ber að hafna kröfu ákærða um að landsréttardómararnir víki sæti í málinu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu ákærða, X, um að landsréttardómararnir Ásmundur Helgason og Ragnheiður Harðardóttir víki sæti í málinu.