Hæstiréttur íslands

Mál nr. 222/2015


Lykilorð

  • Umferðarlög
  • Akstur án ökuréttar
  • Hraðakstur
  • Ölvunarakstur
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Svipting ökuréttar
  • Sekt


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 18. júní 2015.

Nr. 222/2015.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Þóri Jónssyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Umferðarlög. Akstur án ökuréttar. Hraðakstur. Ölvunarakstur. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Svipting ökuréttar. Sekt.

X var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið yfir löglegum hámarkshraða, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa áfengis og ávana- og fíkniefna, en í blóði hans mældist vínandamagn, kókaín og tetrahýdrókannabínól. Við ákvörðun viðurlaga komu til athugunar sátt og viðurlagaákvörðun sem ákærða höfðu verið gerð vegna brota gegn umferðarlögum. Var refsing ákærða ákveðin sekt að fjárhæð 550.000 krónur að viðlagðri vararefsingu og hann sviptur ökurétti í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. mars 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd en staðfest niðurstaða héraðsdóms um ævilanga sviptingu ökuréttar.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara refsimildunar.

Samkvæmt því sem fram er komið í héraði er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar réttilega færð til refsiákvæða.

Ákærði gekkst undir sáttargerð við lögreglustjóra 22. nóvember 2011 vegna brota gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr., 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 1. mgr. 48. gr. sömu laga, þar sem honum var gerð sekt að fjárhæð 120.000 krónur. Þá var honum í Héraðsdómi Reykjavíkur gerð viðurlagaákvörðun 10. apríl 2014 vegna brota gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr., 37. gr. umferðarlaga og 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. sömu laga. Var ákærða gerð sekt að fjárhæð 160.000 krónur og hann sviptur ökurétti í 8 mánuði frá 10. apríl 2014 að telja. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 1. ágúst 2014 var ákærði dæmdur til 30 daga fangelsisrefsingar og hann sviptur ökurétti ævilangt vegna brota gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. sömu laga. Með dómi Hæstaréttar í dag, 18. júní 2015, í máli nr. 568/2014 var héraðsdómurinn ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Kemur héraðsdómurinn því ekki til athugunar við ákvörðun viðurlaga ákærða nú, en það gera áðurgreind sátt og viðurlagaákvörðun.

Að þessu virtu verður refsing ákærða ákveðin sekt að fjárhæð 550.000 krónur að viðlagðri vararefsingu eins og í dómsorði greinir og hann sviptur ökurétti í tvö ár eins og nánar greinir í dómsorði.

Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verður staðfest.

Samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Ákærði, Þórir Jónsson, greiði 550.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá 12. mars 2015 að telja.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem í heild er 383.119 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2015.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri  2. desember sl. á hendur ákærða, Þóri Jónssyni, kt. [...], Heiðarási 4, Reykjavík, „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 5. október 2014 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist vínandamagn 1,00 ‰, kókaín 50 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 0,6 ng/ml), með 101 km hraða á klukkustund austur Vesturlandsveg, við Ártúnsbrekku, þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klukkustund, en lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar á Vesturlandsvegi, við Höfðabakka.

                Telst brot þetta varða við 1., sbr. 3. mgr. 37. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr.,allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Málavextir

Ákærði hefur tekið til varna í málinu en færst undan því að gefa skýrslu í því.  Fyrir dóminn hafa hins vegar komið A og B, lögreglumenn, og ennfremur þær C og D, sérfræðingar á rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði.  Með skýrslum þessara vitna, sem studdar eru megingögnum málsins, lögregluskýrslu og vottorðum um blóðrannsókn, álítur dómurinn eftirfarandi vera sannað: Ákærði ók bíl sínum, sem er af gerðinni Mercedes-Benz, nr. [...], austur Miklubraut sunnudagskvöldið 5. október sl.  Lögreglumennirnir, sem voru við eftirlit, veittu ákærða eftirför og stöðvuðu akstur hans á Vesturlandsvegi undir brúnni við Höfðabakka en áður hafði ökuhraði hans mælst 105 km á klukkustund.  Í blóðsýni sem tekið var úr ákærða reyndist vera 1,00 ‰ af vínanda, 50 ng/ml af kókaíni og 0,6 ng/ml af tetrahýdrókannabínóli.  Þá liggur fyrir að ákærði var sviptur ökurétti samkvæmt dómi 1. ágúst sl.  Ákærði er þannig orðinn brotlegur við 1., sbr. 3. mgr. 37. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

Viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður

                Ákærði var sektaður með dómi fyrir ítrekað brot gegn 45. gr. a umferðarlaga 28. apríl 2008 og sviptur ökurétti í 2 ár.  Hinn 10. apríl 2014 var hann næst sektaður og sviptur ökurétti í 8 mánuði með viðurlagaákvörðun en þá voru niður fallin ítrekunaráhrif dómsins frá 2008.  Loks var hann dæmdur fyrir brot gegn 45. gr. a umferðarlaga 1. ágúst sl.  Samkvæmt því telst brot ákærða gegn því ákvæði vera ítrekað öðru sinni.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi 45 daga. 

Dæma ber ákærða, samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga, til þess að sæta ævilangt sviptingu ökuréttar frá dómsbirtingu að telja.

                Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni hrl., 163.680 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Þá ber að dæma að ákærði greiði annan kostnað af málinu, 130.975 krónur.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Þórir Jónsson, sæti 45 daga fangelsi. 

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá dómsbirtingu að telja.

                Ákærði greiði verjanda sínum, Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni hrl., 163.680 krónur í málsvarnarlaun og greiði jafnframt annan kostnað af málinu, 130.975 krónur.