Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-62

B (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
gegn
A (Jón Gunnar Ásbjörnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Fjölmiðill
  • Persónuvernd
  • Persónuupplýsingar
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 26. apríl 2022 leitar B leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. apríl 2022 í máli nr. 376/2021: A gegn B, C og D á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um miskabætur vegna birtingar sjónvarpsþáttar sem leyfisbeiðandi var annar framleiðanda að. Ágreiningur aðila laut meðal annars að því hvort gagnaðili hefði gefið skýrt og ótvírætt samþykki fyrir birtingu viðtala við sig.

4. Með dómi héraðsdóms voru leyfisbeiðandi og meðstefndu sýknaðir af kröfum gagnaðila. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi dæmdur til að greiða gagnaðila 800.000 krónur í miskabætur. Landsréttur vísaði til þess að verulegur hluti þeirra upplýsinga sem fram komu í þættinum teldust til viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi 8. töluliðar 2. gr. þágildandi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í ljósi efnistaka yrði ekki talið að þátturinn hafi einvörðungu verið unninn í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi. Landsréttur lagði til grundvallar að gagnaðili hefði í upphafi samþykkt að veita viðtöl til birtingar í þættinum en síðan afturkallað samþykkið með tölvubréfi til leyfisbeiðanda. Eftir að bréfið barst leyfisbeiðanda hafi frekari vinnsla með persónuupplýsingar gagnaðila því verið óheimil samkvæmt 8. og 9. gr., sbr. 7. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með því að birta viðkvæmar persónuupplýsingar um gagnaðila án samþykkis hennar hefði leyfisbeiðandi gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn friði hennar og persónu. Bæri leyfisbeiðandi því ábyrgð á miskatjóni gagnaðila, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og a-lið 1. mgr. 50. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulega almenna þýðingu fyrir fjölmiðla- og fréttafrelsi. Leyfisbeiðandi vísar um það einkum til þess orðalags dóms Landsréttar að ekki verði talið að þátturinn hafi einvörðungu verið unninn í þágu fréttamennsku án þess að það sé útskýrt nánar. Þá hafi ekki farið fram mat á því hvort ætti að vega þyngra í málinu, réttur til friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, eða tjáningarfrelsi fjölmiðla og fjölmiðlamanna, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmálans. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur um túlkun á 5. gr. laga nr. 77/2000. Um það vísar leyfisbeiðandi til framkvæmdar Persónuverndar og dóma Evrópudómstólsins, þar sem ákvæðið hafi verið túlkað rúmt vegna mikilvægis frjálsra fjölmiðla í lýðræðisríkjum.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi er því tekin til greina.