Hæstiréttur íslands
Mál nr. 396/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Skuldamál
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 21. október 2003. |
|
Nr. 396/2003. |
Þorleifur Hjaltason (Jón Hjaltason hrl.) gegn Kjötumboðinu hf. (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Skuldamál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Þ á hendur K hf. til innheimtu skuldar samkvæmt tveimur reikningum var vísað frá dómi sökum vanreifunar. Var um að ræða annað dómsmál milli aðila um sama sakarefni en hinu fyrra var með dómi Hæstaréttar vísað frá héraðsdómi af sömu ástæðu. Með vísan til frekari skýringa og gagna sem aðilarnir höfðu lagt fram í málinu var talið að nægilega hefði verið bætt úr þeim annmörkum sem áttu stærstan þátt í að til frávísunar kom í fyrra málinu. Var úrskurðurinn því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. október 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar en til vara að hann verði felldur niður.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur áður verið rekið dómsmál milli aðila um sama sakarefni, en því lauk með dómi Hæstaréttar 31. október 2002, þar sem málinu var vísað frá héraðsdómi. Varnaraðili krefst að þessu nýja máli sóknaraðila verði einnig vísað frá héraðsdómi. Í meginatriðum reisir hann þá kröfu á því að sóknaraðili hafi ekki bætt úr þeim annmörkum, sem leiddu til frávísunar fyrra málsins.
Mál þetta á rætur að rekja til viðskipta milli aðila. Höfðaði sóknaraðili málið til innheimtu skuldar samkvæmt tveimur reikningum fyrir innlagðar afurðir hjá varnaraðila, öðrum dagsettum 5. apríl 2001 og hinum 17. maí sama árs. Af gögnum málsins má ráða að aðilar séu í grundvallaratriðum sammála um málavexti en þá greini á um uppgjör þessara afreikninga.
Héraðsdómsstefna er ítarlegri og gleggri en í hinu fyrra máli milli aðila. Þar kemur nú meðal annars fram vegna hvaða vöruviðskipta fyrrnefndir afreikningar eru, auk nánari rökstuðnings. Þá hefur sóknaraðili lagt fram frekari gögn til upplýsingar um reikningsviðskipti aðila, jafnframt því sem varnaraðili hefur komið með frekari skýringar og lagt fram gögn er varpa ljósi á málið. Verður að telja að með þessu hafi verið nægilega bætt úr þeim annmörkum, sem áttu stærstan þátt í að til frávísunar kom í hinu fyrra máli milli aðila. Telst málið vera nú í þeim búningi að fella megi á það efnisdóm. Verður hinn kærði úrskurður því úr gildi felldur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2003.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 22. september sl., er höfðað með stefnu birtri 18. desember 2002.
Stefnandi er Þorleifur Hjaltason, Hólum Hornafirði.
Stefndi er Kjötumboðið hf., Kirkjusandi, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 659.893 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 242.692 krónum frá 20. júlí 2001 til 20. ágúst s.á. en af 659.893 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefanndi krefst málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda á hendur stefnda verði lækkaðar um 427.518 krónur, þannig að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 232.375 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. ágúst 2001 til 20. nóvember 2001, þó þannig að framangreind fjárhæð eins og hún stóð með dráttarvöxtum 20. nóvember 2001 verði greidd í samræmi við nauðasamning stefnda við lánadrottna sína sem staðfestur var af Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 20. febrúar 2002. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar.
Krafa stefnda um frávísun málsins er til meðferðar hér.
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu á tveimur reikningum fyrir innlagðar afurðir hjá stefnda, öðrum dagsettum 17. maí 2001 að fjárhæð 242.692 krónur og hinum dagsettum 5. apríl 2001 að fjárhæð 417.201 króna. Stefnandi er bóndi að Hólum í Hornafirði og hefur selt afurðir bús síns til stefnda og forvera þess.
Mál vegna sömu reikninga var höfðað hér fyrir dómi 29. ágúst 2001 en með dómi Hæstaréttar 31. október 2002 var málinu vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar.
Í stefnu er sú grein gerð fyrir viðskiptum aðila, að stefndi hafi greitt stefnanda 745.925,17 krónur í tvennu lagi 15. desember 2000 og að stefnandi hafi reiknað með því að þar með hefði verið gert upp við stefnanda það sem hann ætti inni. Þá segir að stefnandi hafi lagt inn afurðir þær sem hann krefur um í máli þessu og að aldrei hafi komið upp að eldri viðskipti kynnu að vera óuppgerð. Hins vegar hefði stefnandi aldrei fengið viðskiptareikning fyrir árið 2000. Það hafi ekki verið fyrr en við meðferð fyrrgreinds máls að þær athugasemdir hafi komið fram að stefnandi ætti einungis 232.375 króna innistæðu hjá stefnda þegar tekið hefði verið tillit til eldri tíma. Þá segir að stefnandi telji fyrirvaralausa greiðslu stefnda 15. desember 2000 leiða til þess að stefndi geti ekki haft uppi endurheimtukröfu gagnvart stefnanda.
Auk þeirra gagna er vörðuðu viðskipti aðila sem lágu fyrir Hæstarétti, er dómurinn 31. október 2002 var kveðinn upp, hefur stefnandi lagt fram "uppsetningu á reikningi Þorleifs Hjaltasonar hjá Þríhyrningi hf., og síðar Kjötumboðinu hf., skv. skjölum frá honum" og ljósrit reiknings frá 5. júlí 2000 að fjárhæð 177.292 krónur svo og lista yfir samningskröfur vegna Kjötumboðsins hf.
Ekki er að finna neina reifun á gögnum þessum í stefnu né útskýringar á því hvaða þýðingu þau svo og gögn þau sem fyrir lágu í hinu fyrra máli hafi við úrlausn þrætu aðila. Stefnandi hefur látið fylgja greinargerð með skjalaskrá þar sem er að finna skriflegan málflutning og umfjöllun, sem með réttu lagi á heima í stefnu og er þetta andstætt ákvæðum 80. gr. laga um meðferð einkamála en samkvæmt athugasemdum við þá grein í frumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1991 skal stefna geyma til fullnaðar skriflegan málflutning stefnanda. Hvað stefnuna sjálfa snertir þykir málið svo vanreifað þar af hálfu stefnanda að vísa verði því frá dómi svo sem krafist hefur verið af stefnda.
Eftir þessum úrslitum verður stefnanda gert að geiða stefnda 100.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi Þorleifur Hjaltason geiði stefnanda 100.000 krónur í málskostnað.