Hæstiréttur íslands

Mál nr. 116/2016

Vörumerking ehf. (Guðbjarni Eggertsson hrl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.)

Lykilorð

  • Nauðasamningur
  • Uppgjör

Reifun

Í málinu krafðist V ehf. endurgreiðslu á tilgreindri fjárhæð sem hann hafði innt af hendi í samræmi við samkomulag aðila sem gert hafði verið í tengslum við staðfestingu nauðasamnings hans. V ehf. reisti kröfu sína á því að greiðslan hefði verið ætluð til lækkunar á lánum til fjármögnunar nauðsamningsins en L hf. taldi að greiðslan hefði verið hluti af uppgjöri í tengslum við hann. Með hliðsjón af ákvæðum samkomulagsins og að virtum gögnum málsins var talið að V ehf. hefði ekki fært sönnur fyrir því að L hf. hefði ráðstafað greiðslunni í andstöðu við umrætt samkomulag. Var L hf. sýknað af kröfu V ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. febrúar 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 20.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. febrúar 2011 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vörumerking ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2015.

                Mál þetta, sem var dómtekið 21. október sl., var höfðað 10. febrúar sl.

                Stefnandi er Vörumerking ehf., Suðurhrauni 4 í Garðabæ.

                Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11 í Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 20.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. febrúar 2011 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

                                                                                              I

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 17. febrúar 2010 var bú stefnanda, sem þá hét Fenrir ehf., tekið til gjaldþrotaskipta að beiðni stjórnar félagsins og var Stefán Bj. Gunnlaugsson hrl. skipaður skiptastjóri í búinu. Meðal stærstu kröfuhafa stefnanda var stefndi, sem þá hét NBI hf. Meðan stefnandi var til skiptameðferðar var ákveðið að leita nauðasamninga, sbr. XXI. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Á fundi með atkvæðismönnum 7. janúar 2011 var nauðasamningur samþykktur. Samþykkir frumvarpinu voru atkvæðismenn sem fóru með 77,78% atkvæða eftir höfðatölu og 96,04% atkvæða eftir kröfufjárhæðum. Samkvæmt frumvarpinu var lánadrottnum sem fóru með samningskröfur boðin greiðsla á 23,4% krafna sinna eins og þær stóðu í kröfuskrá eftir kröfulýsingarferli félagsins í gjaldþrotameðferð með greiðslu 23,4% krafna ekki síðar en fimm virkum dögum frá formlegri staðfestingu nauðasamningsins. Samningskröfur til og með 200.000 krónum greiddust að fullu með peningum ekki síðar en fimm virkum dögum frá formlegri staðfestingu nauðasamningsins. Nauðasamningurinn var staðfestur í Héraðsdómi Reykjaness 4. febrúar 2011 og með auglýsingu skiptastjóra í Lögbirtingablaði 12. febrúar 2011 var skiptum lýst lokið.

                Í tengslum við gerð nauðasamningsins gerði stefnandi 15. febrúar 2011 samkomulag við stefnda, Lýsingu hf., Vörumerkingu prentsmiðju ehf. og Vestinvest ehf. Bar samkomulagið heitið Samkomulag um niðurfærsu skulda Fenris í tengslum við samþykkt nauðasamnings fyrir þrotabú Fenris ehf. (áður Vörumerking). Samkvæmt 1. gr. samkomulagsins var það háð því að nauðasamningur félagsins yrði samþykktur og aðilar uppfylltu þau skilyrði sem komu fram í því.

                Samkvæmt 2. gr. samkomulagsins var heildarskuld stefnanda við stefnda færð niður úr 527.381.962 krónum í 261.500.000 krónur. Samkvæmt 4. gr. skyldi stefndi veita stefnanda fjármögnun að sömu fjárhæð, 261.500.000 krónur. Skyldi hún vera þannig að birgða- og kröfufjármögnun væri 95.000.000 króna í formi lánalínu, skammtímafjármögnun að fjárhæð 10.000.000 króna í formi yfirdráttarheimildar og skuldabréfalán að fjárhæð 156.500.000 krónur.

                Samkvæmt 5. gr. samningsins skuldbatt stefnandi sig til að greiða stefnda 20.000.000 króna innan 10 daga frá staðfestingu nauðasamningsins. Þá sagði: „Landsbankinn ráðstafar fjárhæðinni inn á skuldir félagsins við bankann eftir eigin mati.“ Stefnandi innti framangreinda greiðslu af hendi 18. febrúar 2011.

                                                                                              II

                Stefnandi byggir kröfu sína á því að greiðsla hans að fjárhæð 20.000.000 króna hafi átt að fara til lækkunar á þeim þremur liðum fjármögnunar sem tilgreindir séu í 4. gr. samkomulags aðila. Greiðslan hafi verið innt af hendi 18. febrúar 2011 í samræmi við samkomulag aðila. Henni hafi verið ráðstafað inn á eldri skuldir Fenris ehf. við bankann, en bankinn hafi litið svo á að greiðslan hafi verið hluti af uppgjöri í tengslum við nauðasamninginn.

                Ekki hafi verið kveðið á um ráðstöfun greiðslunnar með þeim hætti sem bankinn hafi ákveðið í samkomulagi aðila. Fenrir ehf. hafi verið í góðri trú um að greiðslan kæmi til frádráttar eftir að skuldir félagsins hafi verið færðar niður. Stefnandi telji að það hafi verið með öllu óheimilt að ráðstafa greiðslunni inn á eldri skuldir Fenris ehf. sem hafi ekki verið lengur til eftir gerð nauðasamningsins og staðfestingu hans. Þrátt fyrir samkomulag aðila hafi stefndi ekki fært 20.000.000 króna til lækknunar skuld samkvæmt 4. gr. þess. Ráðstöfun bankans sé í andstöðu við grundvallarreglu 3. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um jafnræði kröfuhafa. Nauðasamningur megi ekki kveða á um mismikla eftirgjöf samningskrafna nema tiltekinn lánadrottinn samþykki meiri ívilnun en aðrir. Ef bankinn hafi frá upphafi ætlað að ráðstafa greiðslunni með þeim hætti sem gert hafi verið hefði það þurft að koma fram við gerð nauðasamningsins. Með því að stefndi hafi látið gera samkomulag aðila verði hann, samkvæmt andskýringarreglu samningaréttar, að bera hallann af óskýru orðalagi þess. Honum hafi því verið með öllu óheimilt að ráðstafa greiðslunni inn á eldri skuldir Fenris ehf. og líta á greiðsluna sem hluta af uppgjöri í tengslum við nauðasamninginn.

                                                                                              III

                Stefndi telur að verulegir annmarkar séu á stefnu málsins sem eigi að leiða til frávísunar af sjálfsdáðum (ex officio) eða sýknu. Málatilbúnaður stefnanda sé afar óskýr og ruglingslegur. Því sé borið við í stefnu að stefndi hafi mismunað kröfuhöfum með greiðslu á 20.000.000 króna „inn á eldri skuldir Fenris ehf. sem ekki voru lengur til eftir gerð nauðasamningsins og staðfestingar hans“. Í stefnunni sé hins vegar hvergi tiltekið hvaða skuld það sé sem stefnandi telji að hafi átt að vera undanskilin og að sama skapi sé engan rökstuðning að finna fyrir því hvers vegna ráðstöfunin brjóti í bága við 5. gr. samkomulags aðila en umrætt ákvæði hafi veitt stefnda heimild til að ráðstafa greiðslunni „eftir eigin mati“. Þá sé að sama skapi ekki útskýrt í hvaða skyni aðilar hafi ritað undir umrætt samkomulag samhliða gerð nauðasamnings.

                Stefndi byggir á því að skiptastjóri hafi samþykkt í kröfuskrá veðkröfu stefnda að fjárhæð 167.500.000 krónur og almenna kröfu að fjárhæð 337.124.206 krónur. Þá hafi skiptastjóri einnig samþykkt almennar kröfur þrotabús Ísmerkis ehf. annars vegar að fjárhæð 77.346.128 krónur og hins vegar að fjárhæð 72.951.677 krónur. Undir nauðasamningsumleitunum hafi legið fyrir að stefnandi þyrfti að fjármagna nauðasamningsgreiðslu sína til stefnda, sem hafi verið stærsti kröfuhafi stefnanda, sem og kröfur þrotabús Ísmerkis, þannig: 

Stefnandi hafi því þurft að greiða stefnda og þrotabúi Ísmerkis ehf. kröfur sem hafi numið 281.556.751 krónu (167.500.000 + 114.056.751). Samkomulag aðila hafi verið undirritað af því tilefni 15. febrúar 2011. Á grundvelli 4. gr. samkomulagsins hafi stefndi samþykkt að veita stefnanda birgða- og kröfufjármögnun að fjárhæð 95.000.000 króna, skammtímafjármögnun að fjárhæð 10.000.000 króna og skuldabréfalán að fjárhæð 156.500.000 krónur. Endurfjármögnunin hafi því numið 261.500.000 krónum. Eftir hafi því staðið 20.056.751 króna (281.556.751 – 261.500.000) sem stefnandi hafi sjálfur þurft að fjármagna. Af þeim sökum hafi verið kveðið á um það í 5. gr. samkomulagsins að stefnandi skyldi greiða stefnda 20.000.000 króna innan 10 daga frá staðfestingu nauðasamningsins sem stefndi myndi ráðstafa inn á skuldir félagsins að eigin mati.

                Á grundvelli framangreindrar endurfjármögnunar hafi uppgreiðsla lána farið þannig fram að 156.500.000 krónur hafi verið greiddar inn á lán nr. 4550, 14.573.630 krónur hafi verið greiddar inn á lán nr. 4550, 35.112.936 krónur hafi farið til þrotabús Ísmerkis, 45.313.434 krónur hafi verið greiddar inn á lán nr. 7750 (sjálfskuldarábyrgð á láni frá Ísmerki, 10.000.000 króna (yfirdráttarlán) hafi farið til greiðslu inn á lán nr. 7750 (sjálfskuldarábyrgð á láni frá Ísmerki) og 20.000.000 króna (greiðsla frá stefnanda) hafi verið greiddar inn á lán nr. 7750 (sjálfskuldarábyrgð á láni frá Ísmerki).

                Ljóst sé að um misskilning sé að ræða hjá stefnanda um að borið hafi að ráðstafa greiðslunni að fjárhæð 20.000.0000 króna með öðrum hætti en gert hafi verið. Greiðslan hafi alltaf verið ætluð til fjármögnunar á nauðsamningi stefnanda. Það sé af og frá að ráðstöfun stefnda hafi brotið í bága við 3. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um jafnræði kröfuhafa. Enginn eigandi samningskröfu við nauðasamning stefnanda hafi gert athugasemd við ráðstöfunina, enda hefði greiðsla á 20.000.000 króna inn á eftirstöðvar skuldar stefnanda við stefnda eftir nauðasamninginn leitt til brota á ákvæði 3. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991 þar sem ógreiddar væru þá 20.000.000 króna samkvæmt nauðasamningnum.

                Samkomulag aðila frá 15. febrúar 2011 sé fjármögnunarsamningur í tengslum við nauðasamninginn. Stefnandi sé skuldbundinn af efni samningsins sem kveði skýrlega á um að stefndi hafi frjálsar hendur um það hvernig fjárhæðinni verði ráðstafað. Þar sem greiðslan byggi á samningnum og hafi verið ráðstafað í fullu samræmi við hann, sem og nauðasamninginn, beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

                Þá hafi stefnandi fyrirgert ætluðum rétti með tómlæti en rúm þrjú ár hafi liðið frá því að stefnandi hafi innt greiðsluna af hendi 18. febrúar 2011 þar til hann hafi fyrst haft uppi kröfu vegna hennar með bréfi 15. maí 2014. Þá hafi málið verið höfðað rétt áður en það fyrndist. Tómlæti stefnanda staðfesti jafnframt að hann hafi ekki verið í þeirri trú við undirritun samkomulagsins að greiðslan færi til lækkunar á skuld „eftir að skuldir félagsins hefðu verið færðar niður“. Ef svo væri hefði hann gert athugasemdir þegar við ráðstöfunina en ekki mörgum árum síðar.

                                                                                              IV

Stefnandi krefst í máli þessu endurgreiðslu á 20.000.000 króna sem hann greiddi stefnda en telur hann hafa ráðstafað með ólögmætum hætti. Aðilar gerðu með sér samkomulag 15. febrúar 2011 í tengslum við nauðasamning stefnanda. Samkvæmt 4. gr. samkomulagsins skyldi stefndi veita stefnanda fjármögnun að fjárhæð 261.500.000 krónur. Þá skyldi stefnandi samkvæmt 5. gr. samkomulagsins greiða stefnda 20.000.000 króna innan 10 daga frá gerð samkomulagsins sem stefndi skyldi ráðstafa inn á skuldir félagsins að eigin mati. Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að framangreind greiðsla að fjárhæð 20.000.000 króna hafi átt að fara til niðurgreiðslu skulda hans samkvæmt 4. gr. samkomulagsins en stefndi byggir á því að greiðslan hafi verið hluti af fjármögnun nauðasamnings stefnanda.

                Þótt fallast megi á það með stefnda að málatilbúnaður stefnanda hefði mátt vera ítarlegri þykja ekki efni til að vísa málinu frá dómi, enda verður ekki séð að vörnum stefnda sé áfátt vegna þess.

                Stefnandi byggir á því að af samkomulaginu leiði að greiðsla hans hafi átt að fara til niðurgreiðslu skulda samkvæmt 4. gr. þess og vísaði í munnlegum málflutningi til þess að hvergi kæmi neitt fram um 281.000.000 króna skuld, auk þess sem ljóst væri að yfirdráttarheimild að fjárhæð 10.000.000 króna hafi þurft að greiða um sama leyti. Þá hafi Ísmerki ehf. ekki verið aðili að samkomulaginu.

                Samkvæmt nauðasamningi stefnanda og kröfuskrá bar honum að greiða stefnda og þrotabúi Ísmerkis ehf. samtals 281.556.751 krónu. Stefndi skoraði á stefnanda í greinargerð að leggja fram gögn um með hvaða hætti greiðsla krafnanna hefði farið fram. Stefnandi varð ekki við þeirri áskorun, en óskaði eftir því að bókað yrði að ekki hefði tekist að afla þeirra gagna sem væru nauðsynleg til þess að upplýsa um fjármögnun nauðasamningsins. Þá teldi hann þessa áskorun þýðingarlausa enda væri enginn ágreiningur í málinu um að nauðasamningurinn hafi verið efndur samkvæmt ákvæðum hans og enginn kröfuhafi sem rétt átti samkvæmt samningnum hafi gert athugasemdir við framkvæmd hans. Stefnandi hefur því ekki hnekkt þeirri fullyrðingu stefnda að greiðslan sem um er deilt hafi verið hluti af uppgjöri aðila vegna nauðasamningsins þrátt fyrir að hann hafi átt þess kost. Þá hefur stefnandi ekki andmælt því að samkomulagið við bankann hafi náð til fjármögnunar krafna þrotabús Ísmerkis ehf.

                Fullyrðing stefnanda um að fjárhæðin hafi meðal annars átt að ganga til greiðslu á 10.000.000 króna yfirdráttarskuld samkvæmt 4. gr. samkomulagsins stenst ekki þegar litið er til ákvæðisins í 5. gr. um að stefndi hefði frjálsar hendur um með hvaða hætti hann ráðstafaði greiðslunni inn á skuldir stefnanda, auk þess sem yfirdráttarlánið var veitt til fjögurra mánaða, en dagsetningu samkomulagsins hefur verið breytt.

                Þá verður ekki séð að ráðstöfun stefnda hafi verið í andstöðu við 3. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991 heldur virðist hún hafa verið í samræmi við það sem stefnda og þrotabúi Ísmerkis ehf. bar samkvæmt nauðasamningi stefnanda.

                Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að stefnandi hafi fært sönnur fyrir því að stefndi hafi ráðstafað greiðslunni að fjárhæð 20.000.000 króna í andstöðu við samkomulag aðila og verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda.

                Með hliðsjón af málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

                                                                              D Ó M S O R Ð :

                Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Vörumerkingar ehf.

                Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.