Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-152
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Bifreið
- Leiga
- Persónuvernd
- Umboð
- Sönnun
- Áskorun
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 13. desember 2023 leitar Rekstrarfélag Hafnartorgs leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. nóvember sama ár í máli nr. 571/2022: Rekstrarfélag Hafnartorgs gegn Brimborg ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila um leigugjöld á tímabilinu maí til september 2019 fyrir notkun á bílastæðum í bílastæðahúsi sem leyfisbeiðandi rekur að Hafnartorgi í Reykjavík.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Talið var sannað að leigutakar bifreiða hjá gagnaðila, sem rekur bílaleigu, hefðu nýtt sér stæði í húsinu án þess að greiða áskilið gjald fyrir þau. Landsréttur vísaði til þess að ekki væri að finna í lögum almenna reglu þess efnis að skráður eigandi bifreiðar yrði skuldbundinn til að greiða leigugjald án þess að fyrir lægi samþykki hans. Þá var ekki fallist á að gagnaðili bæri eðli máls samkvæmt ábyrgð á greiðslu gjaldanna. Landsréttur féllst á það með leyfisbeiðanda að gagnaðila væri heimilt að láta leyfisbeiðanda í té upplýsingar um leigutaka bifreiðanna. Hins vegar var ekki fallist á að gagnaðili hefði fellt á sig greiðsluskyldu með því einu að upplýsa ekki um nöfn þeirra í ljósi þess að leyfisbeiðandi hefði ekki skorað á gagnaðila að leggja fram í málinu þá leigusamninga sem gagnaðili gerði við leigutaka á grundvelli 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt fordæmisgildi fyrir þá sem leigja út bílastæði í skammtímaleigu og njóti ekki þess hagræðis sem opinberum aðilum er veitt með lögmæltri ábyrgð eiganda ökutækis á stöðugjöldum. Þá hafi málið jafnframt fordæmisgildi um hvort dómstólar geti viðurkennt umboð í tilvikum þar sem ekki sé hægt að finna því stað í almennum reglum laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga en slíkt sé þekkt í norrænum rétti. Enn fremur um það hvort dómstólar geti viðurkennt að maður sem hefur fengið umráð lausafjár annars manns samkvæmt samningi geti í eigin nafni skuldbundið eigandann gagnvart þriðja manni. Þá hafi málið almennt gildi um skýringu 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga um heimild til vinnslu persónuupplýsinga. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni hans. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um stofnun kröfu og hvort umboð hafi verið fyrir hendi. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.